Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


10.11.2012 18:22

Áfangasigur!

Það er laugardagur, tíundi dagur mánaðarins ef dagatalið mitt er rétt (sem það hlýtur að vera, það er nú einu sinni húsvísk heimilisframleiðsla) og ég er eiginlega dálítið ánægður í dag. Ég var nefnilega til klukkan eitt í nótt að sópa saman síðustu saghrúgunum og rykhaugunum af gólfinu hér á jarðhæðinni í Höfðaborg. Nú má segja að komið sé sæmilegasta "einmenningsverkstæði", þar sem flest má framkvæma sem framkvæma þarf í bílum og bátum. Vinnan hefur tekið margfaldan þann tíma sem ég ætlaði í upphafi, en kannski gleymdi ég að gera ráð fyrir smá "lífi" meðfram. Góður maður sagði eitt sinn að þegar menn áætluðu tíma í verk væri ágætt að ljúka áætluninni með því að margfalda hana með pí - þ.e. 3,14.  Það er ótrúlega nærri lagi í þessu tilfelli.

Það eru reyndar nokkur handtök óunnin enn. Ljós og tenglar eru ekki á réttum stöðum og enn vantar vatnslögn að nýjum vaski. Það er samt nóg af ljósum, nóg af tenglum og vaskur í ágætu lagi en á röngum stað. Ég hef hingað til verið minn eigin pípari og rafvirki, klárað þau verk með góðra manna tilsögn og þannig verður það eflaust líka núna. Eins og fram kom áður tók ég myndir af plássinu áður en ég hófst handa og nú bíð ég eftir að vind lægi og veður hlýni svo ég tími að opna og mynda aftur.

.....það er nefnilega svo andskoti kalt núna.
.......................................................................................................

Þeir þarna á Austur-Indíafélaginu hafa verið með einhvers konar indverska matarhátíð síðan um miðjan október. Einu kynnin sem ég hef af indverskri matargerð eru pakkahrísgrjón og svo textabrot úr laginu "What did you learn in school today"  í óborganlegri útgáfu Eddie Skoller þar sem talað er um "rice and curry". Við Dagný erum ásamt vinafólki á leið á Austur-Indíafélagið að smakka á hrísgrjónum í karrýsósu elduðum upp á indverskan máta.

Vonandi nota þeir samt ekki vatn úr Ganges........
Flettingar í dag: 34
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 115
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 59236
Samtals gestir: 15667
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 08:12:39


Tenglar