Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


23.09.2012 10:45

Kjéllíngarfjöll!

Það tókst loksins að ljúka við Átta daga ferðina, Formúlukeppnin sem tafði framhaldið er löngu búin og enn er keppni að bresta á - að þessu sinni í Singapore. Það er því ekki seinna vænna en hefjast handa við skrásetningu næstu ferðar, áður en enn ein keppnin stöðvar skriftir!

Verslunarmannahelgi 2012! Önnur tveggja stærstu ferðahelga sumarsins og enn var ferð fyrir dyrum. Reyndar hefur skapast sú hefð að ég fer helst ekki í útilegu um verslunarmannahelgar, vegna mannfjölda á gistisvæðum og bílafjölda á vegum að og frá þeim. Nú var annað í bígerð og ætlunin var að eyða helginni norðanlands og að henni lokinni aka suður Kjöl með viðkomu á Hveravöllum og í Kerlingarfjöllum. Eins og aðrar áætlanir átti þessi eftir að slípast og aðlagast öðrum. og endirinn varð sá að á laugardeginum var ekið á einkabílnum austur að Flúðum,  horft á torfærukeppni traktora í einmunablíðu og haldið heim að kvöldi. Það var svo á sunnudagsmorgni sem ekið var af stað úr bænum á ferðadrekanum og haldið upp að Geysi, þar sem áð var og tekið bensín. Engin viðstaða var við Gullfoss heldur ekið beint inn á Kjalveg. Vegurinn  heilsar ákaflega vel, malbikaður og breiður. Ekki var Adam þó lengi í þeirri paradís og nákvæmlega á mótum malbiks og malar mætti okkur stór rúta full af fólki sem kom ofanað.  Ferðadrekinn var stöðvaður úti í kanti og á því augnabliki em rútan renndi yfir skilin var mikil klappað inni  í henni. Fögnuðurinn gaf okkur smá hugmynd um það sem koma skyldi!

Malarvegurinn var enda eitt þvottabretti. Þrátt fyrir að linað væri í dekkjum drekans víbraði hann og skalf svo allt lauslegt var á iði. Besta ráðið var að slá dálítið í og reyna að halda hraða yfir vegöldurnar. Það gat þó verið varasamt því mikil lausamöl var á veginum og beygjurnar erfiðar, auk þess sem það var einfaldlega töluverð umferð og stöðugt verið að slá af og mæta. Það gekk þó nokkurn veginn vandræðalaust að komast inn að Hvítárbrú og skammt frá henni var beygt út á vegslóða sem liggur að gamla sæluhúsinu við Hvítárvatn. Efnið í þessum vegslóða var tvenns konar, annars vegar grjót, mismunandi stórt, hins vegar hreint, massíft  og ómengað moldarryk!





Á myndunum er horft til vesturs, í átt til Langjökuls og það er horft til Skriðufells og jöklanna tveggja, syðri- og nyrðri Skriðjökuls sitthvorumegin við það. Á þeirri hér neðar er ferðadrekinn á fyrsta áningarstað við veginn og í hristingnum  hefur liðið yfir báða kastarana að framan!



Við hið fornfræga sæluhús Ferðafélagsins í Hvítárnesi er lítið tjaldsvæði. Við það er hreinlætisaðstaða sem nýtur vatns úr nálægri borholu og dælt er upp á forðatank. Landvörður, sem venjulega sinnir staðnum hafði verið kallaður til starfa í Þórsmörk og þess mátti sjá merki í tómum vatnstanki og salernum yfirfullum af afurðum útlendinganna sem héldu til á blettinum. Ekki kom þetta þó að neinni sök fyrir okkur en vissulega var leitt að sjá þessa umgengni á svæðinu. Sæluhúsið var öllu meira augnayndi og það var myndað í bak og fyrir:














Áfram var haldið og ekið til norðurs, samhliða Kjalvegi. Leiðin lá up með Svartá og síðan yfir hana við skálann að Árbúðum. Þaðan ókum við svo Kjalveg inn að vegamótum Kerlingarfjallavegar. Við vegamótin var Landróverjeppi, greinilega bílaleigubíll og við hann var kona sem veifaði okkur um leið og við beygðum inneftir í átt til fjallanna. Ég sneri við til hennar og eftir nokkur orðaskipti á ensku kom í ljós að hún vildi athuga hvort mögulegt væri að fá far inneftir. Hún hafði verið í símasambandi við skálaverði í Kerlingarfjöllum og hugðist ganga þangað frá vegamótunum. Það var hins vegar talsvert liðið á daginn og dökk rigningaský yfir, svo verðirnir höfðu bent henni á að reyna frekar að fá far alla leið. Í ferðadrekanum var nóg pláss fyrir smávaxna, franska ferðakonu og innan stundar vorum við aftur lögð af stað í átt til Kerlingafjalla. Vegurinn þangað reyndist enginn eftirbátur Kjalvegar hvað varðaði þvottabretti  og það var engin fljúgandi sigling á okkur inneftir. 

Í Kerlingarfjöllum var þokkalegt veður, dálítill vindsperringur og hálfkalsalegt en hékk þó þurrt meðan við vorum að koma okkur fyrir á tjaldsvæðinu. Mér þótti þar flest á verri veg frá því ég var þar á sama tíma 2010, grasið var uppspænt og svæðið allt að verða hálfgert moldarflag. Okkur þótti sýnt að ekki yrði farið í langar skoðunarferðir þetta kvöldið, grillið var tekið út og tengt og þeir félagar Orri og Tjörvi viðraðir. ( Heiðurs- og forréttindahundurinn Edilon B. Breiðfjörð Budenhoff var enn í sumardvöl hjá sínum fyrri eigendum og því ekki með í þessarri ferð frekar en Vestfjarðatúrnum)


Það stóðst á endum að eftir kvöldmat fór að rigna og grillinu var skotið í skjól innundir bílinn. Stutt kvöldgöngu /uppvasksferð upp að veitinga-og gistiskálanum dugði til að gegnbleyta okkur öll fjögur, og það var ákaflega notalegt að skríða undir feld og pakka sér saman í sængina undir dynjandi rigningarsöng á plastþaki drekans. 

Morguninn var bjartari og rigningin var farin eitthvert annað að hrella aðra ferðalanga. Það var því tilvalið að mynda aðeins yfir svæðið.



Þessi stóri, þýski ferðabíll sem sést þarna á miðri mynd var eiginlega sér kapítuli. Þetta var Benz Unimog, geysilega öflugur bíll og þetta háa hús sem á honum er var dregið upp og niður eftir þörfum, hækkunin var vel rúmur metri, sýndist mér.

 



Í þessum litlu leigukofum sem mér skilst að séu kallaðir nípur, var hægt að kaupa gistingu og miðað við hreyfinguna kringum þá voru þeir vinsælir. Það er a.m.k. klárt að þeir sem sváfu í tjöldum um nóttina hafa flestir óskað sér slíks skjóls:





Að morgunverkum loknum lá leiðin upp í fjöllin. Það ískraði í ferðafélaganum, sem var á fullu að endurupplifa unglingsárin, þegar skíðaskólinn var starfræktur og hann (þ.e. ferðafélaginn) hafði dvalið um skeið í búðunum og stundað skíðin undir handleiðslu landsfrægra manna. Ég segi það dagshreinasatt að henni Dagnýju þótti ekki leiðinlegt að koma aftur upp í fjöllin eftir  þrjátíu ár og komast í dálitla snertingu við tíma sem var en kemur aldrei aftur. Þar sem þau gemlingarnir renndu sér undir stjórn ekki ómerkari manna en Eyjólfs Kristjánssonar og Örnólfs Valdimarssonar var nú grjóturð, skálinn sem þau höfðu sem athvarf og borðuðu nestið sitt er yfirgefinn kumbaldi með neglt fyrir dyr og glugga:








Ég verð að gera hér hlé en lofa........
Flettingar í dag: 61
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 122
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 64446
Samtals gestir: 16735
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 09:58:26


Tenglar