Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


31.12.2014 16:07

Vatn og brauð.


 Nei, það er hvorki vatn né brauð á matseðlinum í kvöld - og heldur ekki á morgun. Í kvöld er steiktur sauðfjárafturfótur á borðum, ásamt tilheyrandi meðlæti. Ég veit ekkert hvað er í matinn á morgun en hitt veit ég að síðan hallar öllu í áttina að vatni og brauði. Margt hefur mér verið misgjört um ævina en fátt líkt því sem Krónan gerði nú - að auglýsa 50% afslátt af öllu konfekti! Auðvitað fór ég á stúfana og miðað við það magn sem ég keypti er líklegt að konfektbirgðir Krónunnar hafi verið þrotnar vel fyrir hádegi.

U.þ.b. tvær klukkustundir af morgninum fóru í allsherjarleit að Edilon B. Breiðfjörð sem gerði mér, eiganda sínum þann grikk að stinga af frá skoðunarstöð Aðalskoðunar í Skeifunni í morgun. Þangað fór ég til að færa fyrrum vinnufélögum einn af konfektkössunum úr Krónunni en Bassi, sem átti að sjálfsögðu að fá mola notaði tækifærið um leið og honum var hleypt út úr bílnum og hvarf "med det samme". Ég leitaði árangurslaust um allt hverfið og víðar en tveimur tímum síðar hringdi  10-11 ára gutti úr Ljósheimunum og sagðist vera með óskilahund heima hjá sér. Ég varð óskaplega feginn að Bassi skyldi vera heill á húfi enda er slíkt ekki sjálfgefið í þessu umferðarþunga hverfi. Um leið og ég sótti hann fékk guttinn andvirði lítils flugeldapakka í staðinn fyrir pössunina. Bassi var hins vegar ekkert á því að koma með mér því fjölskylda guttans átti Labradortík sem var lóða en hafði verið úti á göngu með honum þegar Bassa bar að. Guttinn kom því heim með tíkina sem bar Bassa eins og frímerki á bakinu. Ekki orð um það meira!

Ég ætla ekki að strengja nein áramótaheit - önnur en þau að haga mér vel gagnvart öllu mínu fólki og öðrum líka. Komandi ár er óskrifað blað og óræðnara en flest önnur að því leyti að nk. mánudag klæðist ég nýjum, sérmerktum vinnugalla. Þar með hefst nýr kafli - og satt að segja dálítið spennandi, held ég. Allt um það síðar.

Skotturnar mínar hafa báðar samskonar smábíla til umráða, aðeins liturinn greinir á milli og báðir eru í minni eigu. Annar þeirra styttist eilítið í gærmorgun en allt var þó slysalaust og dældir og skrámað lakk spillir ekki áramótagleði. Þessi klausa er heldur ekki sett hingað inn "landsmönnum" til upplýsingar heldur sem söguleg heimild fjölskyldunnar þegar fram líða stundir.

Það líður á þennan síðasta dag ársins og sturtan bíður. Svo kemur nýársdagur, svo föstudagur og síðla þann dag ætla ég að leggja land undir hjól og aka einu sinni sem oftar upp í Stykkishólm. Það verður þá fyrsta ferðalag ársins 2015 en vonandi ekki það síðasta. Ég ætla að klappa Stakkanesinu dálítið um helgina en leiðin liggur svo suður aftur á sunnudagseftirmiðdegi. Að morgni ný vinna.........

Að síðustu: Örlítið minningarbrot um það sem eitt sinn var. Hér eru þeir Moli og Kisi undir jólatrénu á Lyngbrekkunni fyrir átta árum. Húsið á Lyngbrekkunni stendur enn, í annarra eigu þó.  Jólatréð og dýrin eru undir mold en minningin lifir.



Gleðilegt ár og gangið hægt um gleðinnar dyr.........

Flettingar í dag: 109
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 159
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 63459
Samtals gestir: 16516
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 20:30:39


Tenglar