Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


25.10.2014 08:04

Helgi og ekki helgi.


Dagatalið mitt segir að það sé komin helgi. Helgar eru raunar mjög afstæðar núorðið, hjá mér miðast þær fyrst og fremst við gott veður. Ef það gerir sérstaklega gott veður einhvern þann vikudag sem ég á heimangengt - þá er bara helgi þann dag. Ef illa viðrar um þessar hefðbundnu helgar finn ég mér bara eitthvað til að gera innandyra og það hefur yfirleitt ekki verið vandamál. Þær verða þá bara svipaðir verkdagar og aðrir.

Þannig er það einmitt þessa helgina. Það viðrar ekkert sérstaklega vel - held ég allavega,ég á ekki gott með að að sjá það því ég hef aðeins glugga á einu herbergi og hef að því takmarkaðan aðgang þegar sonurinn er sofandi. Bassi fór í morgungöngu um hálfátta með blátt blikkljós um hálsinn, gangan var stutt og það voru ekki nema tæpar tíu mínútur þar til hann gelti við útidyrnar og vildi inn. Hann fór svo beint í körfuna sína og lagðist þar. Þakglugga hef ég einnig en út um þá sé ég aðallega norðurljós. Það eru ekki norðurljós núna.......

Hefðbundnar helgar ráðast annars af dagatalinu. Það er hagstætt að leigja frístundahús um helgar og næstu helgi - mánaðamótahelgina - ætla ég að vera í Hólminum, enn einu sinni. Það er í fjórða sinn á þessu ári sem ég leigi þar sama húsið og jafnframt það síðasta (á árinu) Nú stendur til að fara uppeftir  með kerru í eftirdragi og á henni nokkuð af plönkum, tilsöguðum vörubrettum og tvær 200ltr. plasttunnur. Nú á nefnilega að taka allan hjólabúnað undan vagni Stakkanessins og setja tréverk undir í staðinn. Hjólabúnaðurinn á að koma hingað suður og fá smá vetrarklapp. Ekki mun af veita ef áætlað ferðalag með bátinn næsta sumar á að ganga áfallalaust. Tunnurnar ætla ég að fylla með vatni og nota sem festur sitthvoru megin við bátinn í vetur. Það getur víst hvesst hressilega í Hólminum og ekki vil ég að Stakkanesið fjúki um koll.

Svo hef ég loforð fyrir tveimur svona plasttunnum til viðbótar. Ég er búinn að sá fræjum uppfrá, í þeim tilgangi að fá "lóð" fyrir flothjall einhversstaðar inni á sundunum. Fyrir langalöngu vorum við nokkrir með flothjalla á Prestabugtinni utan við eyrina á Ísafirði. Við vorum fjórir með hjalla þar þegar mest var, ég, Óli á Árbæ, Guðmundur heitinn Eyjólfur og svo Gunnsteinn Sigurðsson í Bolungarvík. Sennilega var Guðmundur Eyjólfur frumkvöðull í þessu ásamt Gvendi með englahárið (ég vona að mér fyrirgefist) þegar hann átti Vonina sína. Þarna létum við síga og fengum tandurhreinan, flugulausan bútung fyrir vikið. Ég notaði fjórar venjulegar olíutunnur undir hjallinn en svo var efnið í þeim lélegt að þær dugðu varla sumarið, svo ryðsæknar voru þær. Nú langar mig að reyna þetta aftur með plasttunnum, ef leyfi fæst til að hafa hjall einhversstaðar þar sem lítið ber á. 

Það er því engin helgi þessa helgina, eða þannig - aðeins endalaust bras við eitthvað sem kannski skiptir engu máli en mér finnst samt að koma þurfi í verk. Ef allt annað bregst má alltaf setjast við tölvuna og skrifa - pistill á borð við þann sem síðast birtist tekur u.þ.b. sex tíma í vinnslu með öllum tenglum og það er nú bara hátt í vinnudag..........

Klukkan mín er farin að halla í níu og kominn tími fyrir gönguferð um hverfið og "eignakönnun" í leiðinni.

Flettingar í dag: 136
Gestir í dag: 42
Flettingar í gær: 951
Gestir í gær: 37
Samtals flettingar: 72708
Samtals gestir: 17982
Tölur uppfærðar: 12.5.2024 15:51:54


Tenglar