Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


22.10.2014 11:00

Hótel Gimba.


Hér á suðvesturhorninu gerir stundum gott veður - ekki samt svona Ísafjarðarveður en jú, alveg þokkalega gott veður. Þannig var það einmitt síðasta sunnudag (sem hefur þá verið 12. október). Sólskin, sæmilega hlýtt og almennt prýðilegar aðstæður til að leggjst í vettvangsathugun. Ég lagði frá mér verkfærin kl. tólf á hádegi, skaust í sturtu og fataskipti - svo vorum við Bassi farnir af bæ. 

Einu sinni, fyrir langalangalöngu, var ég á ferð um Grafninginn að hausti. Það var heimleið úr lokaferð húsbílafélagsins það árið og hafði verið gist að Seljavöllum. Góð ferð að vanda og af því ég var einn á ferð og lá ekkert á dró ég heimferðina eins og hægt var, m.a með því að aka frá Selfossi upp undir Þrastalund og beygja þar til vinstri. Flestir hér sunnanlands átta sig á leiðinni en það búa bara ekki allir hér sunnanlands og ég er handviss um að þessa leið upp Grafninginn hafa miklu færri ekið en hinir. 






Á þessarri eftirminnilegu heimferð skörtuðu kjarrið og lyngið sínum fallegustu haustlitum og ég man vel hvað ég var dolfallinn yfir fegurðinni. Ég reyndi að mynda litadýrðina en átti aðeins litla filmumyndavél sem engan veginn náði að fanga allt sem ég hefði viljað. Litirnir og hughrifin hafa varðveist í minningunni......

.................................................................................

Ég ætlaði annars ekki að skrifa neitt um ferð sem farin var árið 2000 eða 2001 heldur halda mig við nútímann. Hugmyndin var að aka upp á Suðurlandsveg, beygja inn á Hafravatnsveg sem síðan verður Nesjavallaleið og aka svo Grafninginn niður að Sogsvirkjunum og reyna að sjá aftur þessa óborganlegu litadýrð. Síðan skyldi aka heim um Selfoss og Hveragerði, og sundfötin voru tekin með ef sundlaugin í Laugaskarði væri enn opin þegar við færum hjá. (EH hafði haft pata af væntanlegri ferð og falast eftir sæti)

Í upphafi síðasta pistils nefndi ég eitthvað gleymsku fyrir aldurs sakir. Kannski er þetta meira mál en ég hélt, því ég steingleymdi að beygja inn á Hafravatnsveg og hélt áfram fulla ferð upp undir Lögbergsbrekku. Það var ekki fyrr en EH spurði varlega hvort breyting væri á áætlun að ég áttaði mig. Umferðin var lítil og auðvelt að snúa en fyrt við vorum nú á annað borð komin framhjá þá var upplagt að renna fram að Elliðakoti og sýna EH allar hleðslurnar þar. Við beygðum því af Suðurlandsveginum eins og rauða línan sýnir og ókum gegnum lítið sumarhúsasvæði (sem í rauninni er hrein paradís) að rústum Elliðakots. (sjá líka HÉR)


Eins og fram kemur í hlekknum er Elliðakot nú aðeins rústir en það sem vekur athygli er tilhöggna grjótið, sem notað hefur verið í veggi og húsaundirstöður. Þetta er mikið magn og grjótið hefur eflaust verið tekið úr klettunum ofan bæjarstæðisins. Það hefur svo verið gríðarleg vinna að höggva það allt til:




Á kreppuárunum var höggvið mikið af grjóti í atvinnubótavinnu, m.a. var þá á áætlun að leggja járnbraut frá Hafnarfirði til Reykjavíkur sem liggja skyldi um Kaplakrika, Garðahraun neðan Vífilsstaða, um Mjódd og niður með Elliðavogi. Áf framkvæmdinni varð aldrei, eins og menn vita en enn má sjá hluta af því grjóti sem tilhöggvið var í undirstöður teinanna, liggjandi utan í hólnum Einbúa við Skemmuveg og aðra hrúgu er að finna ofan við gróðrarstöðina í Blesugróf. Tilhöggna grjótið í Elliðakoti mun vera öllu eldra, eða frá því um aldamót 1900:















Ef lagst er í "gúggl" má finna ljósmyndir sem teknar voru við Elliðakot meðan allt var þar í drift. Ég bendi t.d. HINGAÐ, en efsta og næstneðsta mynd þessa ágæta pistils B.J. sýna hluta af bæjarhúsunum.

Við ætluðum ekki að eyða öllum deginum við Elliðakot þótt eflaust hefði það verið hægt, svo margar gönguleiðir eru á þessu svæði. Við vorum á leið austur í Grafning og héldum því áfram til baka að Hafravatnsvegamótum og áfram inn á Nesjavallaleið. Það var dálítil vindgjóla þegar ekið var um Hengilssvæðið og betra að úlpuvæðast þegar stigið var út úr bíl til að mynda:





".......þar er himinninn heiður og tær" var eitt sinn sungið og þó víst væri nóg um "Heiðanna ró" þarna uppfrá vantaði dálítið uppá að himinninn væri heiður og tær, þó svo virðist kannski af myndunum - mengunarmóðan frá hraunpuðrinu fyrir austan lá við sjóndeildarhringinn og brá einkennilegum blæ á hann.





Hér að neðan er horft til sirka norðvesturs - jú, það er líklega nálægt því - og undir þokubakkanum til vinstri á myndinni er líklega Skálafellið. Ég hafði augnabliki áður tekið eftir því að toppur þess var nærri heiður en loftnetin voru í skýjum. Svo neðarlega var teppið!





Það snjóaði þarna fyrir skömmu, svo tók upp en í lautum mátti enn sjá einn og einn skafl. Það mátti líka sjá krafs og fótspor eftir gönguskó í snjónum. Kannski höfðu einhverjir útlendingar verið þarna á ferð og jafnvel að sjá snjó í fyrsta sinn á ævinni. Einu sinni fyrir áratugum, á þeim tíma sem var blómaskeið Ástrala og Ný-Sjálendinga í fiskvinnslu vestra, var ég staddur í mötuneyti Fiskiðjunnar Freyju á Suðureyri við Súgandafjörð. Það var hádegi og talsvert af fólki í salnum. Líklega hefur það verið um þetta leyti árs því u.þ.b. sem hádegishléi var að ljúka og fólk að tygja sig til vinnu á ný féllu fyrstu snjókorn vetrarins - það gerði logndrífu, svona létt flygsukafald. Við vorum þarna tveir saman, við Árni Sörensen og ég man að okkar fyrsta hugsun var til Botnsheiðarinnar og hvort hálka yrði á heimleið. Andfætlingarnir þustu hins vegar út að stórum gluggunum og sendu frá sér hrifningarandvörp sem fólu hvað eftir annað í sér orðið "Beautiful!". Við borð stutt frá okkur Árna sat gamall maður og eftir  þónokkur "Beautiful!" andfætlinganna heyrðist frá honum, hálfhátt en þó svo að vel skildist: "Ætli þeim þyki jafnfallegt þegar kemur fram yfir áramót"

Þetta blessaða fólk var að sjá snjó í fyrsta sinn á ævinni en ekki er ólíklegt að sá gamli hafi hitt naglann á höfuðið því Súgandafjörður er fannakista hin mesta og eflaust hafa einhverjir verið búnir að fá nóg af allri fegurðinni undir vetrarlok.





Ofan við virkjunarsvæðið að Nesjavöllum er útsýnispallur og af honum tókum við næstu tvær myndir. Þær eru teknar frá sama bletti og það er dálítið merkilegt að þykki skýjabakkinn á neðri myndinni er vart sjáanlegur á þeirri efri nema sem mjó rönd yfir fjöllunum lengst til vinstri:







Við ókum niður að Nesjavöllum og heim á hlað dýrasta hótels landsins (eftir því sem ég las einhversstaðar)  sem nú heitir ION hotel. Staðurinn bar ekki neinn sérstakan glæsileika utan á sér en stendur eflaust undir nafni hið innra. Svo héldum við áfram niður Grafninginn og komum fljótlega að öðru hóteli. Kannski má deila um glæsileikann á þeim bæ en kyrrðin og friðurinn yfir staðnum var alger. Þetta hótel var autt og tómt þó eflaust fyllist það af gestum þegar illa viðrar - það er enda öllum opið og ekkert gjald er tekið fyrir gistinguna.

Þetta var hótel Gimba:







Ég veit ekkert um þetta hús. Það stendur þarna eitt of sér, hafi það verið hluti af sveitabýli er það býli horfið. Þarna er steyptur kjallari (sem hlýtur eiginlega að hafa verið haughús), steyptir gaflar og svo bogaskemma - svona hefðbundinn stríðsárabraggi af stærri gerðinni. Þvert yfir kjallarann liggja stálbitar sem studdir eru sverum staurum. Þeir halda uppi ört hrörnandi tré-milligólfi. Ég er ekki viss um hvernig þetta hús hefur verið notað. Líklegast þykir mér að það hafi verið fjárhús en hvort kindurnar voru uppi og haughúsið undir veit ég ekki. Það er nefnilega að sjá sem gólfið sé heilt - allavega á þeim köflum sem ég skoðaði. Mér datt í hug hvort efri hlutinn hefði verið hlaða og fjárhús undir en hef svo sem ekkert fyrir mér í því. 

Öll er þessi mikla bygging hin hrörlegasta og járnboginn er orðinn opinn næst fjærgaflinum á myndunum. Milliloftið er sömuleiðis fúið og fallið niður að hluta milli bita. Húsið virðist undir það síðasta hafa verið notað sem ruslgeymsla ef marka má rúlluplastið sem er þarna í talsverðu magni og hangir niður um götótt milliloftið.





Nokkra menn þekki ég sem væru tilbúnir til að selja sálina fyrir þessa stálbita í milliloftinu. Þarna liggur stórfé ef miðað er við járnverð í dag og mætti smíða margt þarfra muna úr þessu efni, væri það tiltækt.





Þegar litast er um í kjallaranum sést að gestir þessa "hótels" hafa látið sitt eftir liggja svo um munar. Hafi einhver lesið pistilinn minn um Svartárdal, þar sem ég birti myndir úr gamla bænum að Bergstöðum, þá mátti sjá þar svipaðan afurðahaug innandyra, svo þykkan að lítið var eftir af lofthæð hússins. Þarna er það sama uppi á teningnum. Þessi hluti "hótelsins" er greinilega vinsælli en aðrir og má vera að þar ráði nokkru, að tvær gluggatóttir eru byrgðar og innan við þær skjól fyrir norð- og norðaustlægum áttum (eða svo giska ég á miðað við stöðu hússins) Það má vel vera að hross leiti líka þarna athvarfs en mest virðist þetta vera sauðfjáráburður sem hrúgast hefur svona upp. Svo má náttúrlega vel vera að hafi efri hæðin verið fjárhús hafi einfaldlega verið mokað undan kindunum niður í kjallarann á einum stað. Samt finnst mér það ólíklegt því það hefði þá kallað á að reglulega hefði þurft að fara niður og moka til........

Í öllu falli virðist langt síðan notkun hússins - og þar með hirðu - lauk og síðan virðist það einungis hafa þjónað sem athvarf fyrir útigangandi sauðfé. Kjallarinn virðist vel steyptur og stálgrind hússins er óskemmd að sjá svo kannski er þarna tilvalið tækifæri fyrir hótelóða athafnamenn. Það ætti ekki að vefjast fyrir mönnum sem láta sig ekki muna um að setja saman margra stjörnu hótel úr gömlum álvers - vinnuskúrum frá Reyðarfirði, að rusla út úr þessum risabragga og rusla svo inn í hann gistiinnréttingum. Þar með væri komið fínasta hótel á enn fínni stað sunnan við Þingvallavatn "Enjoy your staying in a  five star WWll - style hotel in the heart of Iceland´s most beautiful national park"  Bingó! Múltimonní í kassann bara hviss-bang! Það er allt í lagi að fara frjálslega með staðreyndir um þjóðgarða þegar evrur og dollarar eru annarsvegar.......

Kannski veit einhver eitthvað meira um tilurð og tilveru þessa stóra sauðfjárhótels og getur uppfrætt mig.





Einhversstaðar þarna handan hóla og hæða er Hveragerði:





Eftir myndatökur og vangaveltur við "Five star hotel Gimba" héldum við áfram og komum næst að Úlfljótsvatni. Kirkjan er klassískt myndefni og ég vil að það komi skýrt og skilmerkilega fram að ég tók þessa mynd: EH hefur nefnilega tekið bestu myndinar og heldur yfirleitt á vélinni minni. Nú var þessu öfugt farið og ég skaut þessari mynd af hæðinni ofan kirkjunnar með Sony-vélinni hennar Elínar:





Virkjanirnar við Sogið eru líka klassískt myndefni en þegar við ókum yfir stífluna tók ég eftir að húsin, sem alltaf hafa verið tipptopp í útliti og hirðu, hafa látið talsvert á sjá. Hagnaður eigendanna hefur kannski runnið í götótta vasa undanfarin ár.......





Skammt ofan virkjana og austan vegar er vandræðabarnið Efri - Brú. Þarna var byggð upp ferðþjónusta með myndarbrag. Árið 2003 keypti ríkið staðinn fyrir meðferðarheimilið Byrgið,  sem þá hafði verið í húsnæðishraki um hríð. Flestir vita hvernig fór fyrir rekstri Byrgisins eftir að það fluttist að Efri - Brú. Síðan fluttist Götusmiðjan þangað en sá rekstur fór heldur ekki vel og var lagður af. Nú nýverið mun hópur fjárfesta hafa eignast staðinn og opnað þar hótel undir nafninu Hotel Borealis. Hótelið er auglýst sem heilsárshótel en þá stund sem við stöldruðum við á hlaðinu var enga sálu að sjá og ekkert sem benti til hótelreksturs utan skilti yfir aðaldyrunum.








Næst á dagskrá var að fá sér ís. Hann var hægt að fá í Þrastalundi en þangað höfðum við eitt sinn farið í ísleit og hröktumst út aftur handlegg fátækari. Næsti staður var þá Selfoss en reynslan hefur líka kennt okkur að einn besta ís landsins er að fá í ísbúðinni við hlið bakarísins í Hveragerði. Við ákváðum að aka óhefðbundna leið frá Efri-Brú til Hveragerðis og ókum því til baka yfir stífluna og beygðum niður til vinstri við Úlfljótsvatn. Þar með ókum við sömu leið og teiknuð er á efsta kortið en nú til suðurs. Rétt áður en við komum að vegamótum við Þrastalund og Sogsbrú ókum við fram hjá lítilli trébrú fjallmegin vegar. Um leið nefndi EH eitthvað um kross - og svo krossa, fleiri en einn. Ég stoppaði og bakkaði að brúnni. Jú, þarna var nokkur fjöldi misstórra krossa í litlum, afmörkuðum reit ofan vegar. Við lögðum bílnum og gengum upp í reitinn. Á sumum krossunum voru dýranöfn og dýramyndir, á öðrum aðeins einfaldar áletranir en það var dagsljóst að þarna var gæludýragrafreitur. Hann var óhirtur að sjá og sum leiðin nær hulin háu grasi. Hvorugt okkar hafði heyrt um þennan reit og í eftiráleit er sáralitlar upplýsingar að finna. Það eina sem hönd varð á fest er HÉR

Við gengum milli reitanna og lásum. Þarna lágu kisur og hundar á öllum aldri (oftast var hann tilgreindur) og greinilegt á sumum áletrunum  að þeir sem jarðsett höfðu gæludýr á þessum stað höfðu gert það með miklum trega og söknuði. Við þekkjum bæði þessa tilfinningu og ég er ekki frá því að okkur báðum hafi farið á svipaðan veg og þegar við gengum um gæludýragrafreitinn í Vestmannaeyjum í fyrra. Því var lýst í niðurlagi ÞESSA pistils og ekki fleiri orð um það......

Við vorum á leið til Hveragerðis í ís og svo auðvitað sund í Laugaskarði eins og ég nefndi í upphafi. Ísinn fyrst, og hann sveik ekki frekar en venjulega. Af því ísbúðin er sambyggð bakaríinu  - sem einnig er kaffihús - og opið á milli þá var tilvalið að fá sér kaffibolla eftir ísinn. Klukkan var á slaginu fimm þegar við stoppuðum bílinn á planinu við sundlaugina og ég stökk út til að aðgæta opnunartímann. Jú, lokað kl.17:15!

Við hefðum betur farið fyrst í laugina og tekið ís og kaffi á eftir! Svona er nú hægt að vera vitur eftirá. Nú vitum við hins vegar allt um opnunartímann í Laugaskarði og látum ekki taka okkur aftur í bakaríið...

....eða þannig.











------------------------------

Flettingar í dag: 8
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 412
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 72992
Samtals gestir: 17995
Tölur uppfærðar: 13.5.2024 02:39:07


Tenglar