Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


01.10.2014 01:00

Sunnudagur í Hólminum.


Gallinn við að bóka sumarhús að hausti með löngum fyrirvara er veðrið - svona aðallega. Það er nefnilega ekki á vísan að róa þegar haustlægðirnar hefja göngu sína og renna hver á fætur annarri yfir þetta volaða, sumarskerta sker með ausandi rigningu, hávaðaroki eða kraftmikilli blöndu af hvorutveggja......

Ég átti bókaða höll þann 24.sept. og allt fram til hádegis í dag (30). Lengst af stóðu vonir til þess að veðrið yrði okkur Stakkanesinu hliðhollt, að hægt yrði að ná góðum dögum á Breiðafirði - já, eða Hvammsfirði, sem er eiginlega réttara. Svo þegar leið að þeim 24. og spár bentu eindregið til skítviðris - og voru óvenjulega sammála - fóru munnvikin heldur að síga. 

Þeir spáðu hálfgerðu mannskaðaveðri þann 24. en reyndar ekki fyrr en uppúr hádegi og morgunflóðið var klukkan 7. Það var hásjávað og nokkuð klárt að tveimur tímum eftir háflóð yrði enn nægilega hátt í til að sjósetja Stakkanesið í Skipavíkinni - því þótt Stakkanesið sé að sönnu stórskip þá er það lítið skip þegar við á. Klukkan var hálfsjö að morgni miðvikudagsins 24. sl. þegar þeyst var af stað úr Höfðaborg og stefnan tekin á Hólminn. Auk hefðbundins sjósetningarbúnaðar var nýr "kerfis"rafgeymir í för því sá sem fyrir var hafði sýnt veikleikamerki og skyldi víkja. Startgeymirinn er hins vegar nýlegur og í topplagi.

Veðrið á leiðinni var alveg þolanlegt, rauðu tölurnar á vegskiltunum sýndu aðeins 21-22mtr/sek. Úrkoma var lítil og í Hólminum var bara allra skaplegasta veður. Eftir einn hring í bæinn var ráðist í sjósetningu en sjósetningar- og landtökubúnaður er allur smíðaður á þann veg að ég ráði einn við hvorttveggja.

Annað sem snertir ofangreint var áður komið fram í pistli sem ég skrifaði sl. fimmtudagsmorgun, þá í hálfgerðu skítaveðri. Það veður varð þaulsætnara en ég hafði vonað og þrátt fyrir að á kvöldin gerði gjarnan "ísfirskt" logn gekk veður ekki niður fyrr en á sunnudagsmorgun - en þá gerði líka "grand" veður!

Það hafði fjölgað í áhöfn úr einum í tvo því úr Reykjavík kom akandi háseti og myndatökukona sem ekki vildi setja sig úr færi við góða siglingu ef hún byðist. Við leystum frá rétt fyrir hádegi og stefnan var tekin upp vestan við Þórishólma og upp undir Bíldsey. Í vestrinu lá Elliðaey:




 Þórishólmi er líklega með mest mynduðu eyjum landsins enda fastur viðkomustaður í nær öllum ferðamannasiglingum frá Stykkishólmi. Við myndjaðar vinstra megin sér á Klakkeyjar. Klofningur á Fellsströnd í baksýn.






Væri litið til austurs og inn Hvammsfjörð lágu Hvítabjarnarey og Skoreyjar fyrir miðri mynd en yfir fjöllin að sunnan læddust fyrirboðar næstu óveðurslægðar:






Hásetinn myndaði "kallinn í brúnni":









Mávey lengst til vinstri, Kiðey nær miðju og talsvert fjær, klasar smáeyja og loks Klakkeyjar lengst til hægri. Sjáiði veðrið, maður lifandi:






Þórishólmi þokast afturfyrir á stjór.....








Á bakborða blöstu Steinaklettar við, suðvestan Bíldseyjar. Það er Vaðstakksey sem ber í Steinakletta lengst til vinstri en mun fjær:






.......nálgast Bíldsey á bak.....






Við ætlum að sigla inn og austur sundið milli Bíldseyjar sunnan og Skjaldareyjar norðan. Alveg við myndjaðar hægra megin sér í Skjaldarey og örlítið í sundið á milli..






Mávey hæst á miðri mynd, Klakkana ber í hana og Klofningsfjall í baksýn:






Afturút er Drápuhlíðarfjall hægra megin á mynd og mynni Álftafjarðar á miðri mynd:






Beygt inn sundið til austurs milli Skjaldareyjar (framundan) og Bíldseyjar:







Á sundinu og vogurinn norður af Bíldseyjarbænum að opnast:






Lagst við akkeri á voginum. Húsið í Bíldsey fyrir miðju. Það gætu sem best verið Ljósufjöll sem sjást í baksýn, en svo má vel vera að sjónarhornið rugli, þetta sé Bjarnarhafnarfjall og skarðið sé Hestadalur. Þriðji möguleikinn er að við séum að horfa beint upp í Kerlingarskarð. Ég hallast helst að því:






 Myndað út voginn og til norðausturs í átt að Klakkeyjum og Klofningi:





Kapteinninn spekingslegur:






 Eyja, hús og himinn:





 ...og svo skaut þessi félagi upp kollinum:





Það er ekki annað að sjá en þetta sé myndarlegasti útselur. Hann var góða stund að hringsóla kringum okkur, bæði framan og aftanvið:





 Við vorum með nesti meðferðis og tókum hádegismat þarna á voginum. Svo var dregið upp og haldið af stað að nýju. Á sundinu milli Skjaldareyjar og Bíldseyjar er klettadrangurinn Freðinskeggi. Það gæti verið hann sem sést í þarna lengst til hægri:





 Bíldsey að síga afturfyrir og stefnan tekin í austur:





 Elliðaey fyrir miðju og endinn á Fagurey, einni af nokkrum með því nafni:





 Dýpið 18,8 mtr, hraðinn 4,5 sjm, stefnan 277 gráður og kerfisspennan 14,1v. Svo er lappinn með Herforingjaráðskortin og loks örnefnakortin úr árbók F.Í. skönnuð, stækkuð og plöstuð. Það er andskotinn illa hægt að stranda með svona búnað, eða hvað?  Nýi dýptarmælirinn er líklega einhver bestu kaup sem ég hef gert í langan tíma, því þótt GPS/sonar tækið sé ágætt til síns brúks þá er skjárinn á því fulllítill til að vera tvískiptur á hvorttveggja. Það er því bara GPS núna og fínt sem slíkt.





Segiði svo að Stakkanesið sé ekki stórskip. Það er ágætlega rúmt þarna inni og takið eftir því að ég, sem er ekki fyrirferðarminnstur af öllum, er líka þarna inni þegar myndin er tekin - eða sá einhver sjálfstýringu? Ég tróð mér bara út í horn meðan EH tók mynd út um talstöðvargluggann. Þessi fína Shipmate VHF stöð kemur úr honum Blíðfara sem eitt sinn var á Sigló, síðar í Reykjavík og loks á Snæfellsnesinu. Ég fékk hana að launum fyrir að setja up AIS kerfi í Blíðfarann þegar Sverrir vinur minn stýrimaður var að græja hann á strandveiðar:





Elín Huld "súmmar" á Bíldsey sunnan frá:





Við erum á leið hringinn um eyna og stefnum í austur með Steinakletta á stjór:







Mig langaði að reyna að koma inn kortaklippu af leiðinni og ég held að hér megi nokkuð átta sig á leiðinni eins og við sigldum hana frá Stykkishólmi:






 Enn nálgumst við Þórishólma, klukkan er 13:43 og það er harða útfall. Liggjandinn  skv. töflu kl. 15.10 en á reiknuðum liggjanda en enn hart útfall úr síunni miklu í Hvammsfjarðarmynninu. Eiginlegur liggjandi er því ekki fyrr en talsvert eftir þann reiknaða. Straumurinn innan úr Breiðasundi klofnar um Þórishólma og myndar strengi og iðuköst beggja megin við hann:





Sjáiði iðukastið! Við erum, eins og á að sjást á kortinu, á leið austur með Þórishólma sunnanverðum. Þarna var Stakkanesið nær óviðráðanlegt nema á fullri gjöf og hraðinn datt niður í rúmar þrjár mílur....alveg magnað!





Við héldum áfram innúr, stefndum á Hvítabjarnarey og í sundið milli hennar og Æðarskers norðanvið. Ég vissi að þar myndi vera álíka straumiða en þegar til kom var harðasti hluti hennar svo nálægt Æðarskeri að ég þorði ekki í hann og sigldi því nær Hvítabjarnarey. Það er Hannes Andrésson SH sem er þarna úti, líklega á beitukóngi:





Straumiða í sundinu og Bíldsey í baksýn:





Hvítabjarnarey framundan og hvíti depillinn er fjárrétt:





Klofningur úr Hvítabjarnarey:





Byrgisklettur innan (austan) við Hvítabjarnarey. Hann hefur líka sinn Klofning, og að auki ótrúlegt fuglalíf:





Við erum komin innfyrir Byrgisklett og horfum til baka. Milli hans og Hvítabjarnareyjar blasa við hús í Stykkishólmi:





Nú lá leiðin norður og austur fyrir Skoreyjar. Í þá átt - þ.e. norðaustur - liggur langt tagl frá eyjarenda og endar í 7 mtr.grynningu. Við fljótum svo sem ágætlega á sjö metrum enda þurfum við bara núll komma sjö. Mælingar á þessum slóðum eru hins vegar ekki alltaf nákvæmar og því var ágætt að sigla bara samsíða Hannesi Andréssyni innfyrir taglið. Skerið í fjarska er Miðleiðarsker í Breiðasundi:





Svo vorum við komin innfyrir grynningarnar og beygðum til suðausturs með stefnu á Fagurey og Seley. Skoreyjar á stjór:





Hér læt ég gott heita í bili og kem með seinni hlutann fljótlega.

.......................................................
Flettingar í dag: 36
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 412
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 73020
Samtals gestir: 18003
Tölur uppfærðar: 13.5.2024 12:56:01


Tenglar