Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


12.10.2014 09:00

Týndur sólarhringur - fyrir aldurs sakir?


 Ég veit ekki......ég á nú ekki að vera svo gamall, held ég. Hvað á annars að kalla það þegar menn týna sólarhring úr lífi sínu? Minnisglöp?

Nei, sem betur fer er ekkert slíkt á ferðinni. Ég hef hins vegar aðgang að ágætum gagnrýnanda og saman vorum við að fara yfir "loðnu" myndirnar sem ég hef verið í vandræðum með. Við tókum sérstaklega fyrir tvær sem birst hafa nýlega, önnur var myndin af Hörgshóli í Vesturhópi og hin var "seríumyndin" af Stakkanesinu í Stykkishólmshöfn, sem birtist síðast í pistlinum "Sunnudagur í Hólminum - seinni hluti". Við vorum að skoða seríumyndina þegar ég rak augun í klausuna undir henni - klausu sem ég hafði sjálfur skrifað. Þar stendur eftirfarandi:



Mánudagsmorguninn 29. sept sl. rann upp og þá sveik stormspáin ekki. Svo furðulega vildi hins vegar til að meðan ég var að sýsla við að taka Stakkanesið upp og ganga frá því fyrir veturinn, dúraði og datt í þetta fína veður. Svo hvasst var úti í höfn þegar ég lagði frá að báturinn lagðist undan vindinum og Landeyjarsundið var vandfarið vegna stöðugs hliðarreks. Svo, eins og ýtt væri á rofa, datt niður vindur og um leið hætti rigningin að mestu. Það örlaði á sólarglampa meðan ég tók tækin og rafgeymana úr stýrishúsinu, björgunarbátinn úr hólfinu sínu, björgunarhringinn af þakinu og stóra akkerið af hvalbaknum. Annað smálegt var tínt úr og að lokum var landbáturinn Fagranes strappaður fastur þversum ofan á borðstokkana. Þar með var allt klárt fyrir einn loka - kaffibolla hjá Gulla og Löllu. Svo var kvatt og lagt af stað suður. Ég var kominn sirka fjóra kílómetra þegar stormurinn kom úr hádegismat, tvíefldur.


Eitthvað hef ég verið að flýta mér því í þessa skáletruðu klausu vantar heilan sólarhring! Líklega er það vegna þess að pistlarnir eru margir skrifaðir í íhlaupum og þá kemur fyrir að ég þarfa að lesa yfir það sem á undan er komið svo samhengið verði rétt - en svo kemur fyrir að það gleymist.  Pistlarnir þurfa nefnilega að vera sæmilega réttir,  rétt á að vera rétt - svona upp á seinni tímann - því kannski vilja börnin  halda því til haga hvað foreldrar þeirra voru að brasa á sínum tíma. Ég ætla hins vegar ekkert að bæta þessum týnda sólarhring inn í viðkomandi pistil nema sem nokkrum orðum, því honum fylgir myndasyrpa sem þarf sitt pláss.

Satt er það að mánudagsmorguninn 29. september rann upp og stormspáin sveik ekki. Það var satt að segja vitlaust veður og hásetanum á Stakkanesinu - þið munið, þessum sem flúði af stýrisvaktinni og hélt sig við myndavélina eftir það -  leist hreint ekki á blikuna. Hún (þ.e. hásetinn Elín Huld) átti frí úr vinnu þennan dag en þurfti að komast suður í vinnu fyrir næsta dag, þriðjudag. Eftir fréttum að dæma var hreint ekkert ferðaveður undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi og það átti þá eflaust við Vatnaleiðina og Mýrarnar líka. Veðrið átti að ganga eitthvað niður undir kvöld en okkur leist báðum illa á að hún þyrfti að aka suður í myrkri til viðbótar við leiðindaveður. Ég hafði húsið á leigu til hádegis á þriðjudegi og í ljósi þess og veðurspánna var búið að ákveða landtöku Stakkanessins þann morgun. Háflóð á þriðjudagsmorgni var kl. 10.20

Það kom til tals að flýta öllu og taka bátinn upp á mánudagsmorgninum, ganga frá honum og aka svo suður í samfloti. Þegar við ókum hring út í Skipavík og niður á bryggju varð þó dagsljóst að ekki viðlit að taka upp vegna roks og vonlaust að ganga frá vegna rigningar. Til að nýta daginn ákváðum við að skella okkur í sundlaugina og taka klukkutíma eða svo í heita pottinum. Eftir það fórum við í hádegiskaffi til hjónanna Gulla og Löllu. Eitt áttum við enn ógert af dagskrá okkar í Hólminum þessa viku - að skoða gömlu kirkjuna við aðalgötu bæjarins. Hún er allajafna læst en EH hafði haft af því spurnir að lykilinn mætti fá að láni í Norska húsinu. Norska húsið er byggðasafn þeirra Snæfellinga og gamla kirkjan heyrir undir safnið. Sá galli var hins vegar á gjöf Njarðar að Norska húsinu var lokað til vetrarins þann 31. ágúst. Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Stykkishólmi, sem rekin er í íþróttahúsinu benti okkur á að athuga í Eldfjallasafninu og það gerðum við. Þar var ungur maður fyrir svörum, allur af vilja gerður okkur til hjálpar og svo samdist að hann myndi í lok opnunardags - kl.17 - skjótast yfir í Norska húsið, sækja lykilinn og sýna okkur kirkjuna.

Allt gekk þetta eftir og rétt um fimmleytið gengum við inn kirkjugólfið - eða þannig.





Bekkjafyrirkomulagið er reyndar komið fram í hlekknum hér ofar, en það er afar sérstakt að sjá ferstrenda og rétthyrnda  kirkju með skásettum bekkjum. Við höfðum orð á því að uppröðun bekkjanna líktist einna mest Auðkúlukirkju við Svínavatn, sem er sexstrend. (og þá einnig Silfrastaðakirkju í Skagafirði)  Þá er kórinn frekar stór og upphækkaður. Skásettu bekkirnir - sem auk stöðunnar eru líka bogadregnir - raðast þannig að hvar sem kirkjugestur situr í þeim snýr hann alltaf andliti að altari/presti. Í rétthyrndum kirkjum með beina bekki þarf sá sem situr á veggenda fremstu bekkja annaðhvort að sitja skakkur eða snúa höfðinu mjög til hliðar til að horfa á altarið. Mér er ókunnugt um hvort eða hvaða reglur gilda um staðsetningu prédikunarstóls, en í gömlu Stykkishólmskirkju virðist hún í engu frábrugðin hefðum.








Kirkjan er fallega skreytt og virðist í mjög góðu standi enda hefur hún að miklu leyti verið endurbyggð. Ungi maðurinn sem sýndi okkur hana taldi hana nú einungis notaða fyrir sérathafnir og smærri tónleika en almennar messur fara að sjálfsögðu allar fram í nýju kirkjunni.








Innimyndatökurnar fóru nokkuð á sama veg og seríumyndirnar af Stakkanesinu, myndirnar eru frekar loðnar og óskýrar - ég veit ekki hvers vegna en þetta er vandamál sem þarf að leysa fyrir næsta sumar. Þangað til þarf að taka viljann fyrir verkið. 

Þessi ágæti ungi maður sem sýndi okkur kirkjuna hafði lokið sínum vinnudegi á Eldfjallasafninu og var í raun að sýna okkur kirkjuna í frítíma sínum. Við vildum því ekki tefja alltof lengi, kvöddum og þökkuðum fyrir lipurðina. Elín Huld myndaði kirkjuna að utan:





Húsaþyrpingin í hjarta Stykkishólmsbæjar er einstök og þær sóma sér vel hlið við hlið, gamla kirkjan og Narfeyrarstofa þótt innandyra sé sitthvor guðinn tilbeðinn.......Lengst t.v. sér  í hornið á Tang&Riis. Handan götunnar stendur svo Egilsenshús.





Á myndinni hér að neðan sér í gamla sýslumannshúsið lengst til hægri. Þetta hús er á afar áberandi stað í bænum en var orðið þreytulegt í eigu hins opinbera enda fer hann ört fölnandi glæsileiki þess eiganda og er helst að finna í sendiráðum erlendis. Smekkleg nýbygging leysti gamla sýslumannshúsið af hólmi og nýir eigendur hafa unnið að uppgerð þess. Sú vinna er langt á veg komin og húsið er að verða - eða er þegar orðið - með fallegustu húsum bæjarins. Sjá nánar HÉR.





Eftir kirkjuskoðunina var tími EH kominn til að drífa sig suður enda veður talsvert gengið niður. Sú ferð gekk áfallalaust, en ég tók til við frágang á húsinu sem skila skyldi á hádegi næsta dags. Sá dagur, þriðjudagur 30. september, rann svo upp á svipuðum tíma og gera mátti ráð fyrir........

...........og það var á þeim morgni sem Stakkanesið var tekið á land og vetrarbúið!



Flettingar í dag: 39
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 412
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 73023
Samtals gestir: 18005
Tölur uppfærðar: 13.5.2024 13:40:12


Tenglar