Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


23.08.2013 20:36

Snæfellsnes - ferðasögulok

Hvar var ég nú aftur?

Jú, alveg rétt. Við vorum komin á Hellissand, á nýja tjaldsvæðið þar og búin til næturdvalar. Svo rann nýr dagur, fimmtudagur og það mun hafa verið klukkan 8:04 að síminn hringdi og vakti mig af værum blundi. Á línunni var Magnús fyrrum vinnufélagi minn. Hann spurði hvort ég hefði séð Mbl.is. Eðlilega hafði ég ekki séð það, en til útskýringar sagði Maggi mér að á forsíðu blaðsins væri mynd af hörðum árekstri sem orðið hefði í Reykjavík þá snemma um morguninn, og ekki væri annað að sjá en á myndinni væri bíll sem ég hafði haft náin kynni af skömmu áður. Við nánari skoðun stemmdi það allt en eðli málsins samkvæmt og með tilliti til þess að ekki urðu alvarleg slys á fólki þóttu mér þetta næstum góðar fréttir í upphafi dags. Ég varð nefnilega hálf-feginn að losna við þennan bíl út úr heiminum!

Vestan við Gufuskála eru leifar af liðinni tíð. Þar er t.d. Gufuskálavör, ævagamalt uppsátur enda útræði þaðan um langa hríð. Þá er þar einnig Írskrabrunnur, vatnsból sem var týnt og horfið í sand en fannst aftur fyrir tilsögn gamals heimamanns og hefur nú verið endurgert. Þessi mannvirki eru bæði merkt með skiltum við þjóðveginn. Áður fyrr voru þessi skilti frekar lítil og auðvelt að aka fram hjá þeim án þess að taka eftir. Með stofnun þjóðgarðs um Snæfellsjökul hefur verið lyft Grettistaki í merkingum örnefna og nú eru komin ágæt kynningarskilti fyrir Gufuskálavör og Írskrabrunn. Þegar við Elín Huld höfðum gleypt í okkur morgunmatinn ókum við til baka frá Hellissandi út að Gufuskálum og niður á bílastæði ætlað fróðleiksleitandi ferðamönnum. Þaðan gengum við niður að Gufuskálavör, en ekki tókst okkur að finna kjölför róðrarbátanna sem þar eru sögð mörkuð í klappirnar. Allt um það eru greinilegar varir í fjörunni, ruddar af mannahöndum. Við gengum eftir stikuðum stíg lengra til vesturs og komum fljótlega að Írskrabrunni. Skiltið segir söguna:



....og kannski tala myndirnar bara betur en orðaflóð:





Myndirnar sýna hins vegar ekki fúkka- og moldarlyktina sem var hálfkæfandi þarna niðri. Mikið hljóta menn að hafa verið þurfandi fyrir vatn ef þetta hefur talist boðlegt hér í eina tíð! Eins gott að ekki var búið að finna upp heilbrigðiseftirlitið......

Rétt hjá brunninum var hlaðinn garður - við vorum ekki viss um hvort þetta var húshluti eða fjárgirðing. Við stikuðum veggina og komumst að því að grunnflöturinn var nokkurn veginn sá sami og í litla húsinu okkar að Króki eitt á Ísafirði, eða fjörutíu og tveir fermetrar.



Rétt við veggina fundum við stein. Hann var kannski ekkert merkilegur, en þó nægilega flottur til að verða myndefni. Ég veit ekki hvernig svona grjót verður til, hvort þetta er hraun sem harðnar í vatni eða hvað.....setti samt úrið mitt á steininn fyrir myndatökuna, svona til að hafa stærðarhlutföllin:





Morguninn, sem byrjaði klukkan 8:04 með símhringingu og sem hafði einnig lofað svo góðu og sólríku veðri var farinn að snúa aðeins uppá sig. Það þyngdi í lofti og Snæfellsjökull var að hyljast þoku sem fylgdi hálfgerður kuldagjóstur. Við héldum til bílsins og ókum aftur inn til Hellissands. Þar er fyrirtæki sem heitir Bátahöllin en fæst við sitthvað fleira, m.a. að steypa húsbílatoppa. Við áttum ákaflega góðar viðræður þar við mann sem kíkti um borð í sjúkrabílinn og athugaði möguleika á að setja á hann nýjan trefjaplasttopp í stað hækkaða stáltoppsins sem á honum er og er hálfgerður vandræðagripur. Síðan var haldið til Ólafsvíkur og verslaðar matarbirgðir til dagsins. Það stóðst svo á endum að þegar við höfðum gengið frá birgðunum í bílnum og borðað hádegismat á bátahöfninni náði þokan okkur svo vart sá milli húsa. Við urðum ásátt um að leita sólarinnar sunnan nessins og "stóðum flatt" inn að Fróðárheiði og yfir hana.

Þegar við komum suður yfir brúnir virtist útlitið litlu betra í þá áttina. Við sáum jú Búðir í grámanum en ekkert meira en svo....Á tímabili vorum við að velta fyrir okkur að snúa við og aka norður fyrir aftur en létum vera og héldum til Búða. Lögðum bílnum við kirkjuna og gengum niður í Búðahraunið og gullinn fjörusandinn:



Sumir gátu jafnvel látið sig dreyma um suðrænar sólarstrendur, eða kannski var það tilhugsunin um væntanlega Danmerkurferð sem skapaði þennan sólarsvip á hana Elínu:



Fjaran neðan við Búðir er sannkölluð náttúruparadís, og jafnvel í svona hálfgerðu fýluveðri var gaman að ganga um og njóta þess sem fyrir augu bar:










Litlu innar í hrauninu fundum við talsverðar mannvirkjarústir milli sandhóla, grastoppa og hraundranga. Einar rústirnar voru sýnu mestar, þar hafði greinilega staðið stórt og mikið skepnuhús. Rifjaðist nú upp fyrir mér stutt klausa úr Sögu ísafjarðar (manekkihvaðabindi) þar sem segir frá Jóakim snikkara frá Búðum á Snæfellsnesi, sem fluttist búferlum til Ísafjarðar á nítjándu öld. Jóakim þessi tók sér nafnið Budenhof, með skírskotun í æskustöðvarnar. Nafnið er þýskuskotið og eins og þeir vita sem þekkja þýðir orðið -hof- á þýsku, höll.  Jóakim snikkari Budenhof eignaðist börn eins og gengur, og eitt þeirra hét Þorsteinn. Þorsteinn eignaðist svo sinn Jóakim í fyllingu tímans og sá Jóakim eignaðist fimm börn með konu sinni. Hann byggði húsið Sólbrekku á Stakkanesi við Skutulsfjörð yfir fjölskylduna og flutti þangað um 1930 frá Hnífsdal. Næstyngsta barn Jóakims var Þorsteinn, fæddur 1920 og því um tíu ára aldur þegar flutt var að Sólbrekku. Sá Þorsteinn Jóakimsson eignaðist þann Gunnar Theodór sem þetta skrifar árið 1957 og Gunnar Theodór eignaðist svo hundinn Edilon B. Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhof árið 2007 (þó ekki með konu sinni) en hann er sá fyrsti um langa hríð til að bera þetta mikla nafn, Budenhof. Innan fjölskyldunnar var raunar um hríð nokkur ágreiningur um tilurð nafnsins og sýndist sitt hverjum. Sú skoðun var viðruð í þröngum hópi að um væri að ræða þýska greifaætt sem blandast hefði - eða ratað - hingað til lands á ókunnum forsendum og um það hefði Jóakim snikkara frá Búðum væntalega verið kunnugt þegar hann tók upp nafnið. Sagan er góð og það sama á við um hana og aðrar góðar sögur, að þær mega aldrei líða fyrir sannleiksgildið.....

Þegar ég skoðaði leifar þessarra stóru útihúsa fannst mér samt augljóst að þarna hefði enginn meðalmaður búið, og því lægi beinast við að ætla að enginn annar en Budenhof greifi hinn þýski hefði byggt svo vel:





Innan rústanna mátti sjá gríðarmikið, steinsteypt baðker. Það má svo sem vel vera að þetta hafi verið fjárbað eitt sinn. Mér finnst hitt samt miklu líklegra, að þarna inna veggja útihúsanna hafi verið baðhús Budenhofs greifa. Í baðkerinu eru nefnilega steyptar tröppur eða þrep, og hvað hafa rollur að gera með þrep? Hafið þið kannski séð rollur ganga upp og niður stiga? Ég bara spyr...



Nei, það er dagsljóst og kristalklárt að þetta var hið forna baðker í höll Budenhofs greifa, sem ég er lifandi kominn. Ég taldi mig hafa fullan rétt, sem beinan afkomanda, að leggjast í baðkerið og njóta þess eitt augnablik að vera kominn af þýskri greifaætt:





Þannig var nú það. Svo var ég rifinn uppúr dagdraumunum og teymdur áfram upp lendur ríkis míns allt að kirkjunni. Þar stóðu tvær erlendar persónur og mynduðu í bak og fyrir með allskonar serimóníum. Við giskuðum á að verið væri að mynda kirkjuna annaðhvort fyrir bók eða ferðabækling. Okkur gafst augnablik til að mynda:





Þokunni virtist ekkert vera að létta þarna úti á nesinu en tilsýndar var bjart inni á Mýrum. Við ákváðum því að aka inneftir og sjá til hvort mögulegt væri að fá gott veður inn Hítardal, þangað sem upphaflega hafði verið ráðgert að fara. Við vorum samt ekkert að flýta okkur, sjúkrabíllinn var settur á krúskontról á sjötíuogfimm enda umferð svo til engin. Eftir smástund vorum við komin inn að Vegamótum og ég fór fram á að ferðafélaginn legði mér sem bíl- og fararstjóra til ís í brauðformi. Ég hafði mitt fram og meðan ísinn var sleiktur tókum við eftir því að yfir Vatnaleiðinni (yfir til Stykkishólms) var heiðblár himinn. Hítardalur var þar með settur "á ís" og lagt af stað upp á hálsinn með Stykkishólm fyrir stafni. Þegar upp kom og sá niður í Breiðafjörðinn yfir Bjarnarhöfn  - ja, þá sást hvorki Breiðafjörðurinn né Bjarnarhöfn fyrir helvítis þokunni enn einu sinni! Hins vegar var sól og blíða á sjálfri Vatnaheiðinni.

Þar sem veginum hallar til norðurs liggur hann rétt ofan Selvallavatns. Meðfram veginum á vinstri hönd rennur árspræna sem hverfur sjónum niður halla. Á háum bökkum ofan vatnsins er dálítið bílastæði, eins konar áningarstaður með borði og bekkjum. Ég hafði oft séð bíla standa þarna mannlausa sem benti til að frá þessum stað tæki fólk sér gjarnan göngutúr niður á bakkana ofan vatnsins. Þegar ég hef svo ekið gegnum Berserkjahraun frá Hraunsfirði hef ég séð þennan áningarstað frá öðru sjónarhorni. Þá er landslagið allt öðruvísi, og í ársprænunni sem hverfur niður undir bakkana er foss sem ekki sést frá veginum og fellur um gil sem úr fjarlægð sýndist afar fallegt. Nú var staðan þannig að beggja megin Vatnaheiðarinnar var þoka en á þessum bletti var glaðasólskin og hlýtt. Það varð því úr að nota tækifærið til að skoða þennan foss sem úr fjarlægð sýndist svo fallegur. Við lögðum sjúkrabílnum á bílastæðinu þar sem enginn var fyrir, og gengum niður bakkana stutta leið að gilinu.



Einhvern veginn hef ég á tilfinninguni að alltof fáir leggi leið sína niður að þessum fossi. Það var tiltölulega auðvelt að komast niður í sjálft árgilið og þegar þangað kom sást að greið gönguleið var bakvið fossinn og mátti með lagni komast alla leið yfir á hinn bakkann.



Á myndinni hér að ofan er greinileg syllan sem gengt er eftir. Hún er útspörkuð, ekki eftir fætur ferðamanna heldur eftir kindur, sem virðast eiga þarna athvarf undir klettinum. Eftir á að hyggja hefði kannski veið betra að vera á stígvélum til að ganga bak við fossinn, því leðurmokkasínurnar voru ekki hentugasti fótabúnaðurinn til að vaða kindaskít - afsakið, húsdýraáburð - sem þarna var sannarlega nóg af!

Í stuttu máli: Þetta gil og þessi einstaki foss eru líklega einhver best varðveittu leyndarmál sem við höfum rekist á í langan tíma.



En með tilliti til þess að um þrjátíu manns kíkja hingað inn hvern sólarhring er leyndarmálið varla neitt leyndarmál lengur?

Það leið á daginn, þokan hélst allt um kring og við hugðum til heimferðar. Mýrarnar voru teknar á krúsinu, Hítardalurinn fór í bið rétt einu sinni enn og um kvöldmatartíma vorum við í Borgarnesi, þar sem djúpsteikti plokkfiskurinn beið.........

Að þessum skrifum loknum opnast myndaalbúmið sem merkt er "Snæfellsnes 23-25.7.2013". Þar má sjá allar ofanbirtar myndir í stærri og skýrari útgáfu, ásamt mörgum, mörgum fleiri.

llllllllllllllllll
Flettingar í dag: 63
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 92
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 64326
Samtals gestir: 16684
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 10:13:23


Tenglar