Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


08.08.2013 08:21

Til Eyja - loksins!



Fyrst af öllu: Hún Áróra mín á afmæli í dag, áttunda ágúst og er orðin tuttuguogþriggja ára! Hún er alltaf sama fiðrildið, sífellt að koma og fara, stoppar stutt en ef ég verð heppinn næ ég að óska henni til hamingju augliti til auglitis. 

(ég veit ekkert hver tók myndina, fann hana á netinu. Hún er bara svo flott að ég ákvað að nota hana hér og vona að mér fyrirgefist...)

Þá til Eyja:

Þeir voru ekki margir góðviðrisdagarnir framan af sumri, eins og flestir vita. Þegar komið var fram í júlí án þess að viðraði til ferðalaga var risið orðið lágt á mínum manni. Það eina sem kannski hjálpaði upp á sálarlífið var vinnan við að útbúa sjúkrabílinn sem ferðabíl, það var þó alltaf hægt að láta sig dreyma. Svo gáfust tveir dagar til ferðarinnar austur að Dverghömrum og Fjaðrárgljúfri, ferðar sem lukkaðist svo vel að ein og sér hefði hún "borgað" sumarið".

Næst skyldu Vestmannaeyjar heimsóttar. Ég kom ásamt fjölskyldunni  fyrst til Eyja í maí árið 2000, þá nýbúinn að kaupa Járntjaldið, fyrsta ferðabílinn. Við tókum langa helgi, sigldum frá Þorlákshöfn á föstudegi og til baka á mánudegi. Þetta var Júróvisjónhelgin, þegar Einar og Telma sungu og Olsenbræður unnu. Meðan atkvæði voru talin í Júró gengum við Bergrós Halla, þá á fimmta ári, út í bæ og Rósin söng hástöfum nýlærð Júrólög með þvílíkum krafti að fólk í nærliggjandi húsum kom út á svalir og gladdist með.

Síðan liðu mörg ár og það var ekki fyrr en haustið 2010 sem ég átti næst leið út til Eyja. Sú dvöl var stutt og ég skrifaði um hana HÉR

Svo rakst ég til Eyja í fyrrasumar á svarta ferðadrekanum. Sú ferð var útúrdúr úr öðru ferðalagi, dvölin var aðeins sólarhringur  og áður en ég áttaði mig var ég kominn í land aftur.

Þann tíunda júli sl. var norska veðursíðan yr.no farin að lofa blíðskaparveðri í Vestmannaeyjum næstu viku á eftir. Sú spá virtist sæmilega traust svo drifið var í að panta far með Herjólfi fyrir sjúkrabílinn og tvo fullorðna síðla mánudags þann 15.  Þegar nær dró svo mánudegi voru farnar að renna tvær grímur á Norðmennina. Þeir breyttu spánni í sífellu, úr glaða sólskini í ausandi rigningu og allt þar á milli. Það eina sem þeir voru nokkuð vissir um var vindurinn - hann yrði ekki til trafala. Ég hafði boðið Elínu Huld með mér í þessa ferð og það var á hennar könnu að ákveða hvort farið yrði afpantað eða ekki. Þegar sólarhringur var til brottfarar hljóðaði spáin uppá þoku og rigningu svo ferðapöntunin var afturkölluð og endurgreidd. Áfram var þó vakað yfir hverri breytingu og þegar mánudagurinn rann upp bara nokkuð þokkalegur breyttist norska spáin líka til batnaðar. Um kl. 18 hringdum við í Herjólf og fengum loforð um far til Eyja með brottför kl. 22. Sjúkrabíllinn var ferðbúinn, kl. 19 vorum við lögð af stað austur í Landeyjahöfn og komum þangað rétt uppúr 21 eftir samlokustopp á Hvolsvelli. 

Þeir voru assgoti dökkir, kólgubakkarnir allan hringinn þarna fyrir austan. Samt var þokkalegt í sjó, vindlítið eins og spáð hafði verið og það var þurrt - sem skipti jú ekki minnstu máli. Herjólfur kom, losaði, lestaði og lagði af stað út aftur á tilsettum tíma. Önnur samloka var étin um borð, siglingin er aðeins hálftími og ég kyngdi síðasta bitanum rétt í tíma til að hlaupa út á dekk og benda Elínu á Elliðaey, Bjarnarey, Urðavitann og Faxasker, ásamt því að buna úr mér úrdrætti úr frásögn af Helgaslysinu við Faxasker. Við stóðum við borðstokkinn og nær strukum klettana þegar skipið sigldi inn Leiðina. Það var rigningarúði í Eyjum og hálfgert þokumistur, svo eftir landtöku lá leiðin beint upp á tjaldsvæðið við Þórsheimilið. Það lá fyrir að koma sér beint í háttinn og taka morguninn snemma því þrátt fyrir dumbunginn héldum við dauðahaldi í veðurspá morgundagins - sólarspána.



Jújú, hún stóðst alveg, þessi spá og enginn gat kvartað yfir þriðjudagsmorgninum 16. júlí. Eftir morgunkaffi hjá Bergi bakara, sem dvaldi m.a. á Ísafirði um hríð eftir gos, var haldið út á nýja hraun og í Gaujulund. Gaujulundur var eitt af því sem við skoðuðum vorið 2000 og var þá ljómandi fallegur. Síðan er langt um liðið, gömlu hjónin sem byggðu lundinn og héldu honum við eru horfin  og aðrir hafa tekið við. Heldur fannst okkur Gaujulundur hafa sett niður .......











EH fann þess furðuskepnu í hrauninu og vildi láta mynda sig með henni. Ferfætta furðuskepnan Edilon Bassi átti að vera með á myndinni en var upptekinn við annað...



Ofan við Skansinn er útskot sem tilvalið er til að breyta í útikaffihús. Þarna var ferfætlingurinn í essinu sínu, þar er gott að vera sem von er um bita:



Svo þreyttist hann á að sitja til borðs og vildi heldur standa:



Meðan við Bassi átum okkur sadda myndaði Elín yfir Skansinn og Leiðina, myndirnar sýna öðrum betur veðrið um morguninn:





Eftir veisluna þarna á útsýnispallinum héldum við aftur austur á nýja hraun. Á brúninni austast er dálítið bílastæði og þessi bekkur fyrir göngulúna. Við vorum að hefja okkar vegferð og því ekki til setunnar boðið. Frá þessum stað lá vegur til suðurs niður í fjöruna að og framhjá efnisnámu sem verið var að vinna í. 



Þarna af brúninni er stórkostlegt útsýni frá norðri austur um til suðurs. Það er Bjarnarey sem þarna blasir við. Ég veit ekki hvort steinkarlinn á myndinni táknar eitthvað, kannski er þetta ekki einu sinni karl - en flottur er hann!



Þegar "súmmað" var aðeins á Bjarnarey sást vel veiðihúsið í eynni. Það er viðbúið að þar hafi verið glatt á hjalla þá fimm daga sem veiða mátti lunda í ár:



Við héldum aftur til bíls og ókum suður með hraunjaðrinum, framhjá efnisnámunni og suður að Urðavita. Þarna endar sá vegur sem akfær er en gönguleið er áfram suður með. Mér skilst að skammt sunnan við vitann hafi belgíski togarinn Pelagus strandað í janúar 1982. Miðað við hversu mikið sjórinn hefur brotið af hrauninu er líklegt að strandstaðurinn sé gerbreyttur frá þeim tíma. 



Hafi ég tekið rétt eftir er þessi Urðaviti sá þriðji frá goslokum, sjórinn hefur nagað svo hratt framan af hrauninu að fyrri vitastæði hafa horfið með öllu. Mér fannst reyndar þessi viti standa nokkuð nálægt brúninni, en líklega var hann öllu lengra frá þegar hann var byggður. Kannski á fyrir honum að liggja að hverfa líka?



Við Edilon B. Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhoff háðum kapphlaup upp steintröppur vitans. Mig minnir að hann hafi unnið, enda tekur hann tröppur yfirleitt á flugi. Eyjarnar eru Bjarnarey t.h. og Elliðaey t.v.



Það var dálítið sérkennilegt að sjá gróður skjóta rótum þar sem nákvæmlega enginn jarðvegur sýndist vera. Þetta er það sem vísindamenn hafa veið að rannsaka í Surtsey um árabil og fengið væna styrki til. Þarna var gróðurinn við fætur okkar styrkjalaust og ekkert mál að rannsaka að vild. Fræ sem fjúka um fyrir veðri og vindum ferðast trúlega jafnt einn kílómetra sem tíu, og þar sem þau lenda skjóta þau rótum. Þarna er að sjá bara vikur og bruna. Samt vinnur græni liturinn á:





Ég þekki ekki til hlítar hvort þetta er melgresi. Ef svo er hefur því líklega verið sáð í grenndinni. Á mörgum stöðum mátti sjá að jarðvegi hafði verið ekið ofan á hraunið, líklega til að binda það. Á nokkrum stöðum hafði trúlega verið urðaður einhvers konar úrgangur og sáð í á eftir. Mér fannst hann harður af sér, þessi grastoppur og hann var alls ekki sá eini á svæðinu....



Á þessum stað, þar sem ekkert var að sjá í fyrstu nema kolbrunnið hraun, var við nánari skoðun einn lítill grænn blettur efst til vinstri. Kannski nær hann að stækka, kannski fýkur hann burt og verður horfinn næst þegar mig rekur til Eyja. Ég lagði staðinn á minnið og er vís með að gá í næstu ferð:



Við héldum til baka inn á hraun og ókum slóða í átt að Eldfelli. Við fundum þennan kross í Júróferðinni vorið 2000 og þótti merkilegt. Þá stóð hann í gufumekki og rauk allsstaðar úr jörðinni í kring. 



Nú hafði svæðið kólnað og skóbotnar soðnuðu ekki lengur á göngu upp Eldfell. Við hleyptum ferfætlingnum út og hann tók þegar strikið á brekkuna þar sem hún var bröttust. Þar með var tónninn gefinn og ég, sem hafði nýsigrað Helgafell í Eyrarsveit lagði á brattann í kjölfarið. Það andaði dálítið af norðaustri í hlíðunum, sem kom sér ákaflega vel því þrátt fyrir nýjustu sigra í fjallgöngum fór fljótlega að sjóða á katlinum. Loftkælingin var því vel þegin!



Ég veit það sést ekki á myndinni - allavega ekki vel, en Bassi er þarna spölkorn á undan mér. Hann er, þrátt fyrir að vera orðinn tæplega átta ára, algerlega þindarlaus hlaupari. Með öllum útúrdúrum á uppleiðinni giska ég á að hann hafi hlaupið svona ferfalda leiðina, eða þar um bil. 



Það var slæðingur af fólki þarna uppi, og við sáum að það var frekar auðveld ganga frá flestum stöðum öðrum en þeim sem við höfðum valið - eða Bassi, öllu heldur. Við uppkomuna var hann settur í ól, enda ekki annað verjandi því hann leit þegar á fjallið sem sína eign og vildi merkja hvern stað nákvæmlega auk þess að gelta hástöfum á nærstadda.



Elín bað um eina "pósumynd" með Heimaklett, Miðklett og Ystaklett í baksýn og fékk hana:



....og svona var útsýnið yfir bæinn allt frá Hænu að Eiðinu. Alveg magnað, og einstök heppni að fá svona veður eftir þokusuddan kvöldið áður. Sjúkrabíllinn er svo eins og depill t.h. niðri við krossinn:



Svo fékk ég líka hálfgerða pósumynd í miðri litadýrðinni með Elliðaey sem stuðning við öxlina:



Svo lá leiðin niður. Sumir fóru auðvitað hraðar niður en aðrir (og þá á ég ekki við Bassa eða sjálfan mig) en uppskáru það eitt að stingast á hausinn í vikurinn. Allt slapp þó slysalaust og eftir stutt vökvunar- og vínarbrauðsstopp var haldið af stað að nýju og nú eftir vegi sem liggur ofan byggðar í vesturöxl Eldfells. Þar er þessi fallegi áningarstaður með upplýsingaskilti og einni af dælunum sem notaðar voru við hraunkælinguna frægu í gosinu árið 1973.



Þessi vegur greindist í tvennt við norðurhlið Helgafells. Við völdum eystri leiðina, austur og suður með Helgafelli. Austan vegar er  minnismerki um Helliseyjarslysið og Guðlaugssundið: (ath. að undir "Myndaalbúm" hér í síðuhausnum má finna möppu með öllum birtum myndum og miklu fleiri. Þar má sjá neðanbirta mynd í fullri stærð og textinn á að vera þar vel læsilegur)



Frá minnismerkinu liggur vegslóði niður á grasi gróna bakka ofan við suðurjaðar nýja hraunsins. Þar neðanundir, skammt frá hraunjaðrinum tók Guðlaugur land eftir sundið og átti þá ófarna langa landleið til byggða. Ofan við landtökustaðinn er þessi stuðlabergsdrangur sem einnig er minnismerki um sama atburð en það vakti athygli okkar að dálítið ósamræmi var milli upplýsinga á minnismerkjunum tveimur.



Skammt frá stuðlabergssúlunni rákumst við á þennan litla grafreit. Þarna á þessum friðsæla stað var greinilegt að mörg gæludýr eyjamanna höfðu verið lögð til hinstu hvíldar. Á sumum krossunum var áletrun, öðrum engin.



Hún Elín Huld staldraði lengur við þennan en aðra og þegar hún sneri frá sýndist mér hún strjúka úr öðru auganu. Þarna undir lá eyjakisa, ólin með merki hafði verið fest á krossinn:



Ég er nokkuð viss um að hún EH hefur verið að hugsa um þennan höfðingja, sem stjórnaði heimasetrinu að Lyngbrekku um árabil. Hann var nefnilega aðal, hann var flottastur! Árin og yfirþyngdin fóru hins vegar illa með hann og hann var sendur inn á hinar eilífu músa- og fuglaveiðilendur vorið 2012, þá farinn að heilsu og sjónin að hverfa. Hann munaði ekkert um að leggja undir sig húsbóndastólinn þegar honum sýndist svo, enda var hann aðal, eins og ég sagði. Ég skoðaði líka krossinn með kisuólinni og skal alveg viðurkenna að ég held ég viti hvað hún Elín var að hugsa af því ég hugsaði það sjálfur. Ég stoppaði hins vegar styttra við hann og horfði svo lengi á eftir í allt aðra átt - upp í vindinn, til að geta kennt honum um........ 



Hér slít ég sundur Eyjapistilinn að sinni. Síðari hlutinn mun birtast sem sjálfstætt framhald. Myndirnar eru aðgengilegar, eins og hér ofar segir, undir "Myndaalbúm" í síðuhausnum.


mmmmmmmmmmmm


Flettingar í dag: 856
Gestir í dag: 189
Flettingar í gær: 862
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 71605
Samtals gestir: 17894
Tölur uppfærðar: 10.5.2024 22:07:36


Tenglar