Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


21.09.2015 08:21

Mánudagur 21.9. 2015



Enn er liðin vika frá því síðast var eitthvað fært til bókar. Liðin helgi var það sem kallað er "löng helgi" í vinnunni, þ.e. þrír sólarhringar réttir. Þannig er önnur hver helgi og stendur frá kl. 16 á föstudegi til kl. 16 á mánudegi. Á móti kemur svo "stutt helgi" sem stendur frá miðnætti á föstudegi til kl. 08 á mánudagsmorgni. Nú er semsagt löng helgi og þess vegna hef ég tíma til að sitja við tölvu og pikka þegar aðrir vinna.

Þennan morguninn stendur ein frétt á Vísi.is upp úr grárri flatneskjunni. Slóðin á hana er HÉR en ég á ekki von á öðru en að fréttin verði lagfærð um leið og málsmetandi fólk á miðlinum vaknar. Þess vegna ætla ég að líma þessa stórkostlegu málnotkun fasta hér fyrir neðan:

 

Togarinn Arinbjörn RE, sem fékk á sig leka á Vestfjarðamiðum, siglir nú áleiðis til hafnar fyrir eigin vélarafli og er væntanlegur til Reykjavíkur um hádegi þar sem hann verður tekinn í slipp til viðgerðar.

 Þegar lekans varð vart óskaði skipstjórinn strax eftir aðstoð og var björgunarskip Landsbjargar þegar sent út frá Ísafirði með auka dælur ef á þyrfti að halda en ekki kom til þess að grípa þyrfti til þeirra.

 Kafarar fundu svo orsök lekans og náðu að gera við til bráðabirgða og hélt togarinn fyrst til Ísafjarðar þar sem frekari viðgerð fór fram, áður en haldið var af stað til Reykjavíkur.


Það er þegar búið að benda - réttilega - á í umsögn undir fréttinni að togarinn Arinbjörn hafi fyrir löngu verið seldur  - sjá HÉR - og  horfið úr landi. Togarinn var reyndar seldur fyrir tuttuguogsex árum til Akureyrar og hét eftir það Hjalteyrin. Árið 1997 var hann síðan seldur til Skotlands. Allt er þetta skráð og skjalfest. 

Svo er þetta dæmalausa orðalag, "...sem fékk á sig leka.....". Þetta æpir á mann bæði í fyrirsögn og fyrstu línu fréttarinnar. Hingað til hafa skip aðallega fengið á sig brot eða hnúta, en að fá á sig leka er eitthvað alveg nýtt. Orðalagið er hins vegar í stíl við margar þær fréttir sem skrifaðar eru á netmiðlana utan venjulegs vinnutíma og það þykir mér benda til að næturvinnan sé unnin af reynslulitlu fólki en ekki sjóuðum blaðamönnum. Kannski er þetta sama fólkið og svaf í íslenskutímum grunnskólanna af því þeir voru svo leiðinlegir......hver veit?

Nú um liðna helgi átti að vísitera Stakkanesið í Hólminum. Ferðin var ráðgerð í gær, sunnudag en þegar veðurspákkan á RUV laugardagskvöldsins hafði þulið fræði sín var ekki að sjá neitt ferðaveður í þeim fræðum. Vísitasjónin var því slegin af. Í gærmorgun var hið skaplegasta veður í Höfðaborg en skítviðri að sjá til Akraness. Ég treysti minni veðurspákku og fór hvergi. Í gærkvöldi átti ég svo tal við Hólmara sem kváðu daginn hafa verið hreint dásamlegan þar í bæ.

Nú hef ég skrúfað álitið á veðurspákku RUV niður um sex á skalanum einn til tíu.

Eitthvað var hjólað í vikunni. Ég átti erindi austur að Ljónsstöðum (sem eru rétt neðan og austan við Selfoss) og fór þangað eftir vinnulok á miðvikudaginn, enda var þá málverki fyrir EH að mestu lokið. Enginn hafði tök á að koma með og af því ég fór þá einn var tilvalið að nýta sólbjart síðdegið til að slá saman vinnu og skemmtun og renna á rauðu skellinöðrunni austur fyrir fjall. Umferðin yfir Hellisheiðina gekk ekki andskotalaust fyrir sig vegna vegavinnu en gekk þó - með ótal stoppum og keilustýrðum afvegaleiðslum - og eflaust verður heiðin mjög fín þegar öllu lýkur. Við Hveragerði hélt ég að allar hremmingar væru að baki en við stóra hesthúsið rétt sunnan við Kotströnd tók ekki betra við. Fram að því hafði ég ekið (já, eða hjólað...) í mátulegum vindi en þarna í beygjunni skall á hreint helvítis hávaðarok ofan af Ingólfsfjalli. Ég var ekki einn um að finna fyrir rokinu því bæði aftan og framan við mig voru smábílar sem snögghægðu ferðina og hraðinn frá hesthúsinu að Selfossi var rúmir sjötíu km. og hægði heldur á er nær dró bænum enda bætti hlutfallslega í vindinn. Þarna var verulega erfitt að vera á 214 kg. hjóli og eitt augnablik örlaði á smáskilningi í garð þeirra sem kjósa að aka stórum og klettþungum mótorhjólum - það hefði vissulega komið sér vel að hafa svo sem hundrað kíló í viðbót. Allt hafðist þó að lokum og ég komst klakklaust austur að Ljónsstöðum. Þar hitti ég kunnuglegan afgreiðslumann frá vélsmiðjuárunum vestra (1980-´91) sem á þeim árum var alltaf kallaður Tarzan (hann les þetta ekki) vegna tilhneigingar til að ganga í hlýrabol sumar og vetur. Hann mátti eiga það strákurinn að hann var helvíti stæltur í þá daga og svei mér ef ekki eimdi enn af því. Skemmtilegur náungi, Halldór og fínn vinnufélagi. Við rifjuðum upp nokkra góða og gamla daga um leið og erindið var afgreitt. Svo var kvatt og haldið af stað að nýju en nú um Eyrarbakka og Þrengslin. Þar var öllu skaplegra veður og þótt vissulega væri hvasst voru sviptivindarnir úr Ingólfsfjallinu víðs fjarri. 

Daginn eftir, fimmtudag, var enn sól og blíða. Ég sendi generálnum skeyti til Sandgerðis og í framhaldinu var afráðið að eyða dálitlu bensíni í dagslok. Þegar vinnu lauk um fjögur var þeyst heim, sturtað og íklæðst leðrinu. Generállinn var klár í Sandgerði og við hjóluðum um Ósabotna og Hafnir suður að virkjun og þaðan á glænýju malbiki með snjóhvítum merkingum austur með sjónum til Grindavíkur. Í Grindavík fundum við okkur kaffihús og settumst yfir bolla og sjónvarpsfréttir. Nærri klukkutíma síðar dóluðum við til baka sömu leið og þegar búið var að setja  hjól generálsins aftur í geymslu beið okkar kvöldverður heima hjá honum. Klukkan var orðin um ellefu að kvöldi þegar ég renndi í hlað í Höfðaborg og þegar ég kom heim var orðið ljóst að gamla, munstraða ullarpeysan sem ég erfði eftir hann pabba hafði unnið stórsigur undir leðrinu því þótt hitastigið væri verulega farið að falla og ég væri á glerlausu hjóli fann ég varla fyrir kulda á bringunni. Svo lengi lærir sem lifir..........

Enn er ég ekki orðinn afi og þó eru liðnir einir níu dagar frá því asdikið þarna uppi á Lansa reiknaði fæðingardag. EH flaug til Brighton sl. fimmtudagsmorgun og var sannfærð um að þar með fengi ég að sjá afa/ömmubarnið á undan henni. Hún kom til landsins aftur í gærkvöldi og missir því vonandi ekki af neinu. 

Það er, eins og segir í fyrirsögn mánudagsmorgunn tuttugasti og fyrsti september og það er bjartviðri þótt ekki nái enn að þorna upp eftir helgarrigninguna. Nk. miðvikudag eru haustjafndægur og þá er fyrst fyrir alvöru hægt að hlakka til vetrarins. Vonandi er samt enn langt í hann því ég er á leiðinni niður í bæ að skoða sumardót sem mig langar í. 

Dag skal að kveldi lofa............






...................................................


Flettingar í dag: 31
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 56
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 59118
Samtals gestir: 15662
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 08:48:02


Tenglar