Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


06.09.2015 09:43

Þokukenndir dagar....


Það er einmitt þannig - dagarnir eru þokukenndir og síðasti sólardagur sem stóð undir nafni var síðasti laugardagur (29.ágúst).  Það var Eyjadagur okkar generálsins og síðan er vart hægt að segja að sést hafi til himins fyrir misgráum skýjaflókum og/eða þokubökkum. Svei mér ef þetta helvíti er ekki farið að fara á sinnið í manni!

Neei, svo slæmt er það nú varla. Mig grunar samt að þeir sem voru á Ljósanótt í Reykjanesbæ hafi lítið séð til ljósa síðastliðin tvö kvöld. Mig minnir að þetta hafi verið svona líka í fyrra, endalaus rigning eða súld. Það er slæmt, því þeir sem mest hafa gamanið af svona ljósahátíðum eru börnin. Það verður einhvernveginn minna úr öllu þegar svona viðrar, sérstaklega vegna þess að veðrið bleytir ekki bara - það dregur úr áhuga og þrótti og allt verður risminna en ella......

Síðastliðið miðvikudagskvöld gerði góðviðri í næsta nágrenni Höfðaborgar. Innandyra lauk verkum uppúr átta og þá tók sturtan við og svo leðurgallinn. Hjólið út og rennt suður í Hafnarfjarðarhöfn, þar sem trilluflotinn var tekinn út. Eftir það þrælaðist ég gegnum öll hringtorgin og hraðahindranirnar í Elliðavatnshverfinu, Selásnum og Árbænum því það er ágætt að æfa sig dálítið í þessháttar akstri á mótorhjóli. Það er nefnilega þannig að þótt maður geti sótt í gamla reynslubanka þegar kemur að akstri utan þéttbýlis þá átti ég enga reynslu í innanbæjarakstri - nema þá vestur á Ísafirði. Það var hins vegar innanbæjarakstur á Ísafirði sem þá var - Ísafirði fortíðarinnar -  og höfuðborgarsvæðið á fátt eða ekkert sameiginlegt með gamla Ísafirði þegar kemur að innanbæjarakstri. Ég er þess vegna algerlega reynslulaus í mótorhjólaakstri í borginni og það er ekki gott. Raunar á ég ekki von á mörgum ferðum niður Laugaveginn á hjólinu eða út á Granda - mig langar ákaflega lítið að þrælast gegnum borgarumferðina á hjóli þegar ég á val um annað - en þetta er samt hlutur sem maður þarf að kunna sæmileg skil á. 

Þegar þessi pistill hefst, að morgni sunnudagsins 6. september er heldur að létta til kringum Höfðaborg og kannski verður hægt að taka Hvalfjarðarhring þegar líður á daginn. Svo get ég upplýst, af því að það er svosem á allra vitorði, að nú eru nákvæmlega sex dagar þar til ég verð afi í fyrsta sinn - útreiknað af nýjustu tölvukerfum. Nú er bara að vita hvort náttúran fer eitthvað eftir tölvum.......

Af því það er frekar lítil hreyfing á síðum skipaáhugamanna - og þá á ég við alvöru mynda- og fróðleikssíður - þá langar mig að birta nokkrar gamlar myndir úr safninu. Fyrsti báturinn er Fauinn hans Magna í Netagerðinni (á Ísafirði). Magni sendi mér þessa fyrir löngu síðan. Hún er tekin á Prestabugtinni utan við þorpið að Eyri í Skutulsfirði og Fauinn er á heimsiglingu. Miðað við skuggann á stýrishúsinu er glampandi sumarsól:




 Sú næsta sýnir ekki skip heldur aðeins hluta af skipi - þetta eru ketill og vél ásamt undirstöðum úr nýjum togara, Ásu, sem strandaði á heimleið úr sinni fyrstu veiðiferð. 





 Þessi hefur birst áður. Hún er af Gunnhildi ÍS sem strandaði undir Óshlíð 1961 og ég vísa í ÞESSA færslu Tryggva Sig. til upplýsingar






Ég er ekki viss um að ég hafi birt þessa áður. Hana tók pabbi á sínum tíma þegar Guðbjartur Kristján ÍS - síðar Orri ÍS og Albatros -  kom nýr til Ísafjarðar. Mér hefur ekki tekist að ráða í nafn togarans aftar en líklega er hann breskur:





Ég giska á að þetta sé Tröllafoss, sem þarna liggur við Bæjarbryggjuna á Ísafirði. Ég hef ekki ártalið en er handviss um að myndin er tekin af Árna heitnum Matthíassyni, rakara og ljósmyndara. Árni tók mikið af myndum gegnum árin og þónokkrar þeirra féllu til pabba þegar Árni dó vorið 1971.




Árni myndaði m.a. fyrir Morgunblaðið og ef smellt er HÉR má sjá skemmtilega frétt með mynd Árna.

( Vinsaml. ath. að það getur tekið dálítinn tíma fyrir slóðirnar að hlaðast inn, bæði þessa og þá á Ásustrandið. Slóðir á -timarit.is - eru stundum dálítið hægar...)

Ég lýk skrifum hér að sinni. Það er kominn mánudagsmorgunn 7. september og vonin um að hægt yrði að nýta sunnudaginn til útiveru gekk ekki eftir. Þrátt fyrir góð fyrirheit um birtu og uppstyttu undir hádegi dimmdi aftur í lofti er á leið og undir kvöld var aftur komin sama þoku- og súldarfýlan sem fyrr. Dagurinn endaði því líkt og hann hófst, með inniveru og gluggasetu. Helgin er liðin og mál að sinna brýnni verkefnum en nethangsi!



Flettingar í dag: 65
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 360
Gestir í gær: 62
Samtals flettingar: 64236
Samtals gestir: 16640
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 15:28:21


Tenglar