Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


08.01.2014 10:02

Við leiðarlok.


Hann Svenni rakari er allur. Það var svo sem búist við því enda hafði hann lengi strítt við erfið veikindi og heilsu hans hrakað ört nú síðustu vikur.

Ég kynntist Svenna fyrir nokkrum árum þegar hann langaði í trillu og þeir vinir og félagar, hann og Sverrir stýrimaður leituðu til mín sem er með nefið ofan í öllu sem snertir trillur. Einhverjir bátar voru þá undir smásjánni og ég vissi af einum vestur á Ísafirði sem ég taldi að myndi henta rakaranum vel. Það var Ögnin:



Atvik réðu því að ég átti leið vestur á Ísafjörð um þetta leyti og myndaði því Ögnina í bak og fyrir. Rakaranum leist vel á myndirnar og með þær einar í höndunum keypti hann bátinn. Ættingjar og vinir sóttu hann svo vestur og Svenni gerði sjóklárt heima í bílastæðinu að Arnartanga. Hann gaf svo bátnum nafn látinnar konu sinnar, Sigrúnar Aradóttur. Trillan Sigrún að vestan var svo sjósett í bryggjuhverfinu í Grafarvogi vorið 2009. 

Á einstökum góðviðrisdegi haustið 2010 lá leið okkar félaganna þriggja, rakarans, stýrimannsins og mín,  til Vestmannaeyja.  Erindið látum við liggja milli hluta en má nærri geta að það tengdist trillum á einhvern hátt. Við sigldum með Herjólfi frá Landeyjahöfn og útsýnið var stórkostlegt:

 
Það má líka sjá að þeim leiddist ekkert, stýrimanninum og rakaranum:



Við stoppuðum allt of stutt í Eyjum því þar var margt að sjá og að auki algerlega snjólaust meðan uppi á landi var snjór yfir og vegir glerhálir. Við höfðum varla snúið okkur við þegar við vorum aftur í Landeyjahöfn og Herjólfur spýtti okkur á land:



Heilsu Svenna hrakaði smám saman og þar kom að hann taldi sér ekki lengur mögulegt að eiga trilluna Sigrúnu. Hún var því seld og við félagarnir réttum hendi við frágang hennar og skil. Á þessum tíma hafði Svenni skipt út gömlum VW ferðabíl sem hann átti og fjárfest í yngri og betri vagni. Eitt fannst honum þó vanta á þennan fína bíl, það var sólarsella af stærri gerðinni - Svenni vildi frekar hafa hlutina einu númeri of stóra en aðeins of litla - og það kom í minn hlut að setja hana upp og tengja. Verkið kostaði margar og langar vangaveltur enda vildu umræðurnar gjarnan villast af leið og faglegar spekúlasjónir víkja fyrir fabúleringum um trillur og ferðalög! Hann var nefnilega drjúgur húmoristi, rakarinn og ekki dró stýrimaðurinn úr þegar hann var nærri - sem yfirleitt var.

Eina ferð fórum við Svenni saman á ferðabílnum hans. Það var hringur um Mýrar og Snæfellsnes, farinn sumarið 2011 í blíðskaparveðri. Þá var svo komið að hann treysti sér ekki til að aka lengri vegalendir sjálfur en lét mér eftir aksturinn. Meðal áningarstaða okkar í ferðinni var kirkjan að Ökrum á Mýrum:



Þar næst var áð við Ytri - Rauðamel. Hundurinn Hjörleifur, tryggur förunautur Svenna um árabil var auðvitað með í för og þurfti að kanna jarðveginn :





Við áðum raunar á sem flestum stöðum, við vikurnámið gamla að Arnarstapa, að Hellnum og við eyðibýlið að Dagverðará:




Við renndum niður að Malarrifi, Djúpalóni, inn í gíginn Berudal og loks bar okkur út í Öndverðarnes. Við gengum út að brunninum Fálka, þaðan niður í fjöruna um gömul bátanaust. Skoðuðum leifar húsa og mannvirkja á staðnum og fleira áhugavert:







......og svo var hellt uppá kaffi um borð í ferðavagninum og rakarinn smurði samlokur og galdraði fram fleira góðgæti:



Eftir kaffið héldum við að Skálasnagavita og kíktum á Svörtuloft. Svenna fannst staðurinn magnaður en vildi síður koma nálægt hrikalegum hraun-klettabrúnunum. Sagðist vera alltof lofthræddur fyrir slíka glæframennsku og bað mig fyrir alla muni að fara varlega, hann treysti sér nefnilega ekki til að keyra einn suður ef ég hrapaði fyrir björg. Þetta síðasta var sagt með illa földu glotti eins og stundum brá fyrir......

 





Við Skálasnaga var vendipunktur og leiðin lá heim, með nokkrum útúrdúrum þó.  Fleiri ferðir átti Svenni ófarnar á "Skúrnum" sínum en þar kom að skrokkurinn leyfði ekki slíkan skakstur lengur. Þegar Svenni treysti sér ekki lengur til að búa einn fluttist hann á Vífilsstaði og síðar á hjúkrunarheimilið Ísafold í Garðabæ.

Sumarið 2012 átti ég leið á æskuslóðir Svenna rakara í Selárdal vestra. Ég leit á gamla heimilið hans að Kolbeinsskeiði og sýndi honum myndir sem ég tók af því. Hann sagði fátt......




Það þurfti ekki löng kynni af Svenna rakara til að finna að þar fór góður og gegnheill maður af gamla skólanum, trúr sínu og sínum. Slíkum mönnum fer nú fækkandi........

Sveinn Ásgeir Árnason verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju kl. 15 í dag, miðvikudaginn 8.jan.
............................

Flettingar í dag: 41
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 92
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 64304
Samtals gestir: 16674
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 04:22:02


Tenglar