Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


12.01.2014 09:01

Hann spær illa.....


"Spáin er ill / og ferlega fámennt á götum..." var sungið fyrir mörgum árum af þáverandi ungskáldi og gítarplokkara ofan af Akranesi. Það er einmitt þannig á þessum sunnudagsmorgni hér í Höfðaborg. Bassi hefur farið sína daglegu morgungöngu og er kominn aftur. Honum var hrollkalt og hann skreið feginn ofan í hlýja körfu við stofuofninn.

Stakkanesið var klakabrynjað í gærmorgun, þegar fryst hafði ofan í slyddukafald föstudagskvöldsins - rétt svona eins og eftir erfitt vetrarúthald á Halamiðum!  Öfugt við þá sem berjast úti á Hala væsir ekki um stórskipið Stakkanes þar sem það bíður af sér veturinn í steinsteypubás Kristmundar í Stálveri. Kristmundur sjálfur nýtur hins vegar ekki skjólsins í Stálveri heldur velkist um úti á rúmsjó og gætir þar vélbúnaðar í iðrum Sturlaugs H. Böðvarssonar AK. Menn þurfa stundum að gera fleira en gott þykir.

Það er semsagt spáð illa til dagsins og morgundagsins. Ég heyrði í hrossabóndanum á Ketilstöðum í gær. Hann bregður sér hvergi, snýr afturendanum upp í vindinn að hætti hrossanna og stundar sín verk sem fyrr. Heyrði líka í Magnúsi að Neðra-Apavatni nú í morgun. Hann er að tygja sig af stað til borgarinnar og nær vonandi þangað fyrir veður. Hér á Stór - Kópavogssvæðinu er farið að blása og bætir smám saman í . Það heyrist talsvert á í Höfðaborg. Úti er snjólítið en hált, enda eru  svellalög talsverð.......

Um daginn birti ég mynd úr Aðalvík - þ.e. úr safni pabba. Þær eru þar fleiri og á einni má glöggt sjá að fleirum en Reykvíkingum getur orðið hált á svellinu. Hertrukkurinn á myndinni hefur a.m.k. fengið fyrir ferðina! Þegar Kaninn var, ásamt Aðalverktökum að byggja radarstöðina uppi á Skorum / Straumnesfjalli voru öryggisbelti fáséð, nema í flugvélum. Þau voru allavega ekki í GMC herbílum. Ég man að pabbi talaði stundum um að menn hefðu fleygt sér í gólfið og reynt að halda sér þar ef bílarnir ultu. Þeir sem það hafa reynt hafa varla sloppið ómarðir frá raununum en kannski sloppið þokkalega samt. Ég held samt ég megi fara með að þessi Gemsi hafi verið mannlaus þegar hann rúllaði af veginum upp Straumnesfjallið og niður undir jafnsléttu.

Ég hugsa að samkvæmt nýmóðins tjónamatskerfum tryggingafélaganna hefði verið settur "niðurrifslás" á flakið.......



Kannski ég skjóti inn einni öllu yngri mynd, en þó líklega  u.þ.b. 23-24 ára gamalli. Hún er tekin á hæðinni ofan við Fagrahvamm í Skutulsfirði og á henni má sjá að það snjóaði talsvert vestra veturinn ´89-´90. Við pabbi stöndum framan við Landcruiser jeppa með Perkins dísilvél, djásn sem mér áskotnaðist innan úr Ísafjarðardjúpi:


....og mamma líka,  svo á engan sé hallað:


Sumir sumarbústaðir verða aldrei vetrarbústaðir. Hér má sjá hvers vegna:



Já, það fennti stundum dálítið að Dalakofanum þeirra pabba og mömmu og kom fyrir a.m.k. einu sinni að vélsleðamenn skemmdu þakið með því að aka yfir það í slæmu skyggni og hríðarbyl.

Það eru til fleiri snjómyndir en þessar duga í bili.....
....................

Flettingar í dag: 61
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 92
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 64324
Samtals gestir: 16682
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 09:47:53


Tenglar