Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


18.07.2013 17:37

Í hina áttina...

Eins og kom fram hér neðar (og fyrir stuttu) var sjúkrabíllinn græjaður í snarhasti fyrir Reykhólatúr. Bátadögunum sem stefnt var á, var hins vegar aflýst vegna afleitrar veðurspár sem gekk að mestu leyti eftir. Sömu helgi héldu Vestmannaeyingar Goslokahátíð og hvikuðu hvergi frá auglýstri dagskrá enda dálítið annað að hafa fast land undir fótum þegar hraustlega blæs, en örlitla bátsskel sem ekki má við miklu. Kannski var það, að aflýsa smábátasiglingunni vestra, einmitt það sem núlifandi kynslóð hefur lært af forfeðrunum - þau voru frekar regla en undantekningar, slysin á smábátunum áður fyrr við Breiðafjörð þegar ekki var um önnur samgöngutæki að ræða.

Ég fékk aðstoð við að gardínuvæða sjúkrabílinn, ásamt einu og öðru sem hentar betur dömuhöndum en mínum. Aðstoðina átti svo að endurgjalda með gistingu í svítunni að Reykhólum. Þegar Bátadagarnir voru blásnir af stóð skuldin ógreidd og við svo búið mátti ekki standa. Þegar ríkisveðurstofan og sú norska yr.no tóku höndum saman í loforði um blíðviðri á suður- og suðausturlandi þriðjudaginn 9. júlí gafst færi á skuldajöfnun. Það skyldi því haldið af stað - bara í hina áttina!

Mánudagskvöldið áttunda var blásið til brottfarar og ekið í ausandi rigningu yfir Hellisheiði austur um til Víkur í Mýrdal. Þegar þangað var komið var að mestu hætt að rigna en þokuskýin héngu yfir og manni fannst blíðuspáin hanga á bláþræði. Á tjaldsvæðinu við Vík var allmargt ferðaapparata af ýmsum þjóðernum. Samt er ekki hægt að neita því að flóran varð öllu litríkari við komu nýja ferðadrekans:



Það var fullt tilefni til að mynda "innréttingarnar" eftir alla vinnuna sem á undan var gengin:





Hann er kannski ekki sá fínasti að innan, sjúkrabíllinn og vissulega er eftirsjá að mörgu því sem prýddi gamla, svarta ferðadrekann. Hins vegar hefur þessi bíll marga umtalsverða kosti framyfir þann gamla og frá því þessi mynd var tekin og til dagsins í dag hefur margt breyst - aðeins á tíu dögum!

Þriðjudagsmorguninn heilsaði með þoku, en margt benti þó til að veðurspáin góða gæti ræst þegar sól hækkaði. Klukkan rúmlega níu um morguninn vorum við mætt við útidyr sundlaugarinnar í Vík enda stóð skýrum stöfum í okkar bæklingi að laugin opnaði kl. átta. Það stóð líka skýrum stöfum á bæklingnum "2012" þó hann væri fenginn í sjoppunni kvöldið áður. Nú var árið 2013 og á laugardyrunum stóð: "Opið frá kl. 10........"  Ææ!

Í biblíunni "Á ferð um Ísland 2013"  voru upplýsingar um sundlaugina á Kirkjubæjarklaustri en engar þó um opnunartíma. Ég hringdi í laugina en enginn svaraði. Hringdi aftur í einhvern gistiþjónustusíma, þar svaraði kona og sagði laugina opna frá kl. 10. Það passaði fínt til að hleypa fatlafáknum austur Mýrdalssand að Klaustri, en í leiðinni var stutt áning við "gerfibrúna" á Múlakvísl. 



Á þessarri mynd af Hafursey má svo sjá að skýjahulan var óðum að hverfa og maður fékk svona snert af hálfgleymdri sumartilfinningu:



Svo var brunað austur Mýrdalssand og von bráðar vorum við komin að Klaustri. Klukkan var að nálgast hálfellefu þegar við lögðumst í bleyti í heita pottinum sem því miður stendur undir útvegg íþróttahússins og naut þess vegna ekki sólar fyrr en nokkru seinna. Þegar hún svo náði yfir vegginn var eins og hitabylgja skylli yfir. Það var eiginlega synd að yfirgefa sundlaugina í svona veðri en fleira beið skoðunar og um að gera að nýta blíðuna. Um leið og við stigum upp í bílinn að nýju var skotið einni mynd yfir hávaxin tré í áttina að Systrafossi.




Rétt innan og austan við Klaustur er ágætt tjaldsvæði sem á Útilegukortinu kallast Kleifar-Mörk. Ég gisti þar í ágúst í fyrra í Meðallandstúrnum sem greint var frá í janúar sl. Staðurinn hafði dálítið annað yfirbragð í sólinni nú en suddanum þá. Það var talsvert af ferðafólki á svæðinu sem og utan þess. Við lögðum drekanum okkar, drógum út stóla og höfðum "drekkutíma"



Meðfram tjaldsvæðinu rennur áin Stjórn og í henni er þessi fallegi foss, Stjórnarfoss. Í einhverri ferðabók las ég að á heitum sumardögum næði vatnið í Stjórn að volgna svo að vel mætti baða sig í hyljunum neðan fossins. Það þarf vart að taka fram að þessi ferðabókarklausa á ekki við sumarið 2013





Þetta mun vera eyðibýlið Kleifar, hafi ég skilið rétt. Allt umhverfi þessa ágæta tjaldsvæðis ber þetta magnaða svipmót: Hver bergrisinn af öðrum, samstæðir eða sérstæðir allt eftir því hvernig horft er:





Eftir "drekkutímann" við Kleifa og eftir að hafa svarað spurningum nokkurra forvitinna um sjúkrabílinn var haldið af stað til austurs frá Klaustri. Ekið um Hörgsland á Síðu þar sem rekin er mikil ferðaþjónusta, en inn milli trjáa glitti í dálítið merkilegt - að mér fannst. Austasti áfangastaðurinn að þessu sinni var Dverghamar - eða Dverghamrar. Á þennan stað komum við sumarið 2005, í sama veðri og hann var ekki síðri nú en þá. Stuðlabergssúlur beint upp úr grasinu, eins og hannaðar af arkitekt.





Ég fékk eina mynd af mér í grasinu, undir yfirskriftinni: "Lofið þreyttum að hvílast" Vissulega var gott að hvíla sig í grasinu en flóarbitið á handleggnum var lengi að jafna sig!



Rétt við þjóðveginn ofan við Dverghamra eru gömul, ryðguð útihús. Ég var að horfa á þetta lýti í landslaginu þegar ég kom auga á hellinn - og af því ég er ekki sérlega góður myndasmiður rétti ég myndavélina yfir: Sjáiði hjartalagaða hellisopið hægra megin við lóðrétta bergganginn? Hreint stórkostlegt, og ekki síðra fyrir það að utan um hjartalaga hellisopið virtist vera hjartalaga rammi, svona til að leggja enn frekari áherslu á lögunina.



Svo ákváðum við að aka nær og reyna að mynda hjartahellinn úr minni fjarlægð. Þá brá hins vegar svo við að því nær sem farið var tapaðist lögunin og séð frá veginum neðan við var bara ólöguleg hola í fjallið. Næst reyndum við að mynda "fossinn" við bæinn Foss á Síðu. Samkvæmt korti eru þarna nokkur fossnöfn, enda sprænir úr berginu á fleiri stöðum. Finna má Hamrafoss, Stuðlafoss og Fagrafoss. Þið megið bara ráða.....



Eins og fram kom ofar voru Dverghamrar austasti áfangastaðurinn og þegar þarna var komið sögu vorum við að leggja af stað til baka. Á leiðinni austur höfðum við tekið eftir þessum klettadrangi sem virðist rísa beint upp af öðrum eins og prjónn. Við máttum til að mynda hann í bakaleiðinni:





Þetta er vissulega merkilegt fyrirbæri, þessi staki drangur sem stendur þarna eins og vörður yfir hjörð. Ég var samt að velta fyrir mér af hverju kvenfólk kæmi alltaf auga á svona fyrirbæri á undan karlmönnum - eða það er allavega mín reynsla. Er eitthvað Freudískt við svona klettapinna?

Svo komum við aftur að Hörgslandi, og þá skyldi litið á það sem mér fannst ég hafa séð milli trjáa heima við hús. Jú, viti menn! Þar var kominn tvífari, eða því sem næst. Þegar ég keypti sjúkrabílinn í fyrrahaust hafði sá sem seldi mér verið með tvo til sölu. Sá fyrri var seldur "eitthvert austur", hann mundi ekki nákvæmlega hvert, en sá sem keypti hafði ætlað að nota bílinn "eitthvað við ferðaþjónustu"



Þarna var hann semsagt kominn og virtist ekki vera í neinni notkun. Í fljótu bragði sá ég talsverðan mun á þessum tveimur, þessi virtist m.a. ekki hafa sama vélbúnað því ekki var að sjá neinn millikæli í honum. Grillið hafði verið skorið til að koma fyrir aukaljósum, sömuleiðis stuðarinn. Þetta voru skaðar sem minn bíll hafði sloppið við og leit skár út að framan fyrir vikið (auk þess sem ég var búinn að hreinsa rauða litinn af stuðurunum aftan og framan og færa númerið). Líklega hafði ég, í fyrsta skiptið á ævinni þegar völ var um tvennt, hreppt skárra eintakið! Ég var  allavega sáttari við minn vagn eftir lauslega skoðun á þessum. Síðar kom svo á daginn að þessi bíll er þremur árum eldri, þ.e. árgerð ´98.



Áfram var haldið í heimátt, þó varð að stoppa aðeins til að mynda þennan "broskall" sem Elín sá útúr klettamyndunum:



Það er löngu orðið klassískt að mynda heim að Hólmi. Þessar gömlu stórbyggingar virtust hrörlegar þegar ég myndaði þær í þokumistrinu sl. haust, í Meðallandstúrnum. Þær skánuðu lítið þótt sólin skini á þær. Líklega er þetta fornfræga býli komið "beyond point of no return" eins og kaninn kallar það. Þó skilst mér að enn sé búið þarna þó driftin sé ekki mikil.....



Ég ætla að láta hér staðar numið að sinni. Frá Hólmi lá leiðin að Fjaðrárgljúfri en það er sér kapítuli.......




Flettingar í dag: 63
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 122
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 64448
Samtals gestir: 16737
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 10:23:00


Tenglar