Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


05.10.2015 07:56

Mánudagur fimmti tíundi.


 Enn er liðin vika frá síðustu færslu. Vika er ekki löng í lífi manns þegar viðkomandi er að nálgast sextugt. Í lífi afaskotts sem fæddist 22. september er heil vika þó langur tími enda mátti sjá heilmiklar breytingar á skottinu þegar ég leit á það í gærkvöldi, nýkominn úr Hólminum. 

Í fyrravetur var Stórskipið Stakkanes súrrað niður á massíft - þ.e. hjólabúnaðurinn var tekinn undan vagninum og vörubretti sett í staðinn - og bundið niður á tvær 200 ltr. vatnsfylltar plasttunnur. 

Svo gerði rok og Stakkanesið fauk til hliðar!





Nú skyldi ekkert slíkt henda og að þessu sinni var súrrað niður á fjórar. Það eru því samtals átta hundruð kíló af vatni sem eiga að halda Stórskipinu við jörðina í vetur og nú má hvessa!





Við hliðina er svo Farsæll hans Gulla, Gunnlaugs Valdimarssonar Rúfeyings. Farsæll var á svipuðum stað í fyrravetur og eins og sjá má á mynd nr. 2 stoppaði Stakkanesið á honum. Ef Farsæll hefði ekki tekið rekið af Stakkanesinu - og ef Fleygur hans Sturlu Öxneyjarbónda hefði ekki verið til að styðja við Farsæl - þá hefði Stakkanesið trúlega fokið yfir í Landey, ef ekki þá yfir hana og alla leið til Grænlands. Það gerir nefnilega ansi mikið rok í Hólminum.......

Gulli hefur talið öruggara að hafa Farsæl í hæfilegri fjarlægð að þessu sinni enda er enginn Fleygur núna. Hann liggur einhversstaðar vélarlaus og engan  stuðning af honum að hafa. Þess vegna var Stakkanesið bundið niður á fjórar tunnur og verður að standa af sér vetrarbyljina án stuðnings annarra.

Annað athyglisvert sem sjá má á nýju myndunum er veðrið. Veðrið nú á laugardaginn var engu líkt - allavega engu veðri í sumar, þar sem ríkt hafa sjö metrar eða meira. Ég lagði af stað uppeftir um ellefuleytið um morguninn með kerruna aftaní jeppanum og var slétta tvo tíma á leiðinni að venju. Ég átti inni í stéttarfélagsorlofshúsinu og byrjaði á að koma mínu dóti fyrir þar ásamt fóðri úr Bónusbúð bæjarins. Klukkan var tvö þegar ég hófst handa við fráganginn og nákvæmlega 16:45 þegar honum var að fullu lokið. Í upphafi verks var hæg gola en síðar lygndi alveg og síðdegis bærðist ekki hár á höfði auk þess sem sólin skein meira og minna allan daginn. Undir öðrum kringumstæðum hefði þetta verið kjörinn siglingadagur enda, eins og ofar sagði,  afar fáir dagar í sumar þessum líkir - a.m.k. af þeim dögum sem ég dvaldi í Hólminum og beið eftir að geta siglt. Seint koma sumir.....en koma þó og þessi blíðviðrisdagur kom sér sannarlega vel  

 Sundlaug staðarins lokar kl. 17 um helgar og mig vantaði því þessar vanalegu tíu mínútur sem ég hef svo oft minnst á - það er alveg merkilegt hversu oft mann vantar svona plús mínus tíu mínútur til einhvers. Hefði ég byrjað tíu mínútum fyrr og unnið á sama hraða hefði ég náð sturtu í sundlauginni og kannski svo sem fimm mínútum í heita pottinum. Skrokkurinn var nefnilega dálítið aumur eftir slagsmálin við tunnurnar, sem ekki var hægt að fylla af vatni á staðnum heldur þurfti að flytja þær á kerrunni  til áfyllingar og koma þeim svo fyrir á sínum stöðum með handafli. Sem betur fer er ágæt sturta í orlofshúsinu.

Það kom svo í ljós þegar veðurspákkan birtist á skjánum kl. hálfátta um kvöldið að strax næsta dag myndi reyna á fráganginn. Mér fannst meira að segja örla á háðsglotti í brosinu sem alltaf fylgir orðunum: "Þakk´ykkur fyrir og veriði sæl" 

Ég ók svo suður í gær í hávaðaroki og ausandi rigningu. Á norðanverðu Nesinu og á Vatnaleiðinni var veðrið svo mikið að vatnið skóf yfir veginn líkt og snjó. Sama veður var suður Mýrar og dró ekki úr að ráði fyrr en nálgaðist Reykjavík. Rétt sunnan Borgarness lagði ökumaður á svörtum Ford Escape jepplingi mikið á sig til að komast fram úr mér og einum til. Þar sem umferðin var talsverð komst hann ekki langt í einu og þegar við bættist smátöf við göngin þjappaðist röðin enn meira saman. Fordinn var í góðu sjónmáli, sirka fimmti bíll framan við mig er í Kollafjörðinn kom. Ávinningurinn af endurteknum framúrakstri var því óljós en áhættufíkninni var kannski að einhverju leyti svalað...

Eitt enn: Á leiðinni uppeftir á laugardaginn mætti ég bílaflutningabíl frá Vöku. Á pallinum hafði hann sundurtættan húsbíl, trúlega þann sem sagt var frá í fréttum nokkrum dögum áður og hafði fokið út af vegi í Dölunum. Á leiðinni suður í gær mætti ég einum slíkum, merktum íslenskri húsbílaleigu,  á vesturleið við Haffjarðará, í hávaðaroki svo hallaði einar 30 gráður. Ekki veit ég enn hvort sá komst á áfangastað eða ekillinn hafði vit á að stoppa áður en slys yrði. Annars var enn talsvert um ferðamenn á litlum bílaleigubílum (auðkenndum með merkjum) og þónokkrir börðust við að taka útimyndir í roki og vatnsveðri gærdagsins. 

Af öðru sumardóti segir fátt. Rauða skellinaðran er á leið í vetrarhíði úti í bæ og verður þar næstu sex mánuði eða svo. Þegar hún birtist aftur að vori er alls óvíst að hún verð ennþá rauð.

Það líður á morguninn og heimaverkin kalla.....


Flettingar í dag: 67
Gestir í dag: 29
Flettingar í gær: 122
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 64452
Samtals gestir: 16738
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 11:45:40


Tenglar