Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


02.06.2015 08:20

Annar dagur júnímánaðar....



..............og ég fékk fallega kveðju í sms nú rétt áðan.

 

Hann blés byrlega í Hólminum um helgina. Skútueigendur hefðu eflaust glaðst mjög yfir vindinum en bæði er það að það eru engar skútur í Hólminum og svo er Stórskipið Stakkanes - sem siglingavonir voru bundnar við - ekki besta fleytan til að sigla í sterkum vindi. Stakkanesinu er sama um haugasjó - það flýtur eins og korktappi, er borðhátt og kastar öllum sjó frá sér. Þessir sömu eiginleikar vinna svo gegn því í sterkum vindi því báturinn er aðeins um 1400 kg að mér viðbættum og fýkur því eins og fjöður. Hann fær gjarnan töluverða slagsíðu undan vindhviðum og þar gæti komið að borðhæðin dygði ekki......

Annars var helgin afar róleg. Ég var einn á ferð, enginn Bassi (enda má hann ekki dvelja í leiguhúsi stéttarfélagsins, ég er einn þeirra sem virði slíkar reglur) og engan rak uppeftir í heimsókn. Vinnu lauk um fjögurleytið á föstudag og klukkan fimm var ég lagður af stað í Hólminn. Eftir Bónusinnkaup, sjónvarpsveður og fleira var lagst í heita pottinn í sundlauginni og legið þar til loka kl. 22. Þá var aðeins litið á Stakkanesið sem lá við bryggju en síðan skriðið í ból. Á laugardagsmorguninn var svo lagst yfir "aðalvélina" eins og áður var komið fram og skipt um allt sem skipta átti um. Það var skipt tvisvar um olíu á vél, einu sinni á gír, kælikerfið skolað út og skipt um frostlög, skipt um hráolíusíur og sjódæluhjól og loks var sinkið tekið úr vélinni og skoðað. Svo var smurt í stefnisrör og hert á tengjum og vélarfestingum. Að þessu loknu var Stakkanesið klárt í allt. Enn lifði hálftími af sundlaugaropnun svo ég rauk heim, sótti sundfötin og lagðist í bleyti þennan hálftíma. Á tímabilinu frá klukkan fimm til tíu um kvöldið giska ég á að ég hafi svona hundrað sinnum litið yfir Hvammsfjörðinn og velt fyrir mér hvort ég ætti að leysa frá bryggju og taka siglingu inn um eyjar. Það var talsverður vindstrekkingur, ekki þó beinlínis til ama en sjónvarpsveðurspáin hafði lofað svo flottu veðri á sunnudeginum að ég ákvað að bíða og nýta hann frekar. Spáin hljóðaði upp á sólskin og bjartviðri ásamt hlýindum. Að vísu voru engar vindatölur birtar fyrir Snæfellsnesið, hann spáði hægum vindi fyrir suðvesturhornið en stífum á Vestfjörðum. Ég áleit því að við í Hólminum hlytum að njóta bilsins og fá þokkalega golu en varla meira.

Það brást! Á sunnudagsmorguninn var Hvammsfjörðurinn hvítur yfir að líta og þurfti að sigla krappan hliðarvind og -sjó til að komast í þokkalegt skjól inn við Fagurey og Seley. Annarsstaðar var ekki um skjól að ræða. Veðrið var að öðru leyti frábært, bara þetta helvítis rok alltaf......

Það var því ekki um annað að velja en verja deginum heimavið í rólegheitum. Ég hefði svo sem getað pakkað mínu og ekið suður en ég átti einu verki ólokið og það verk varð að vinnast á mánudeginum. Eitt horn bátavagnsins var að bresta og ég hafði komið með styrkingu í það að sunnan. Til að geta lagað vagninn þurfti ég að komast í rafsuðu og slíkt var ekki í boði fyrr en á mánudagsmorgni. Sunnudagurinn fór því að mestu í bið eftir mánudegi, sundlaugin var heimsótt og þessutan tók ég tveggja tíma "kríu" í lúkarnum á Stakkanesinu þar sem það rykkti í taumana við bryggju. Kvöldinu lauk svo með bíltúr út í Ólafsvík og bryggjurúnti þar.

Klukkan rúmlega átta á mánudagsmorgni - þ.e. í gær - var ég mættur á verkstæðið Smur og Dekk og falaðist eftir rafsuðu að láni. Það var auðsótt og tók tíu mínútur að sjóða styrkinguna í vagninn. Ekki vildu þeir drengir rukka neitt fyrir greiðann svo ég skrapp í bakaríið og fyllti einn poka af kaffibrauði. Þar með urðu þeir af bitanum, starfsmenn áhaldahússins í hinum endanum. Ég hafði nefnilega byrjað á því að fala rafsuðu af þeim en uppskar aðeins urr um að "....það væri verkstæði í hinum endanum". Misjafnt er viðmót manna...........

Vagninn fór svo aftur á sinn stað og viðgerðin var grunnmáluð og snyrt. Þá var næst að kíkja í kaffi til þeirra hjóna Gulla og Löllu, sem alltaf er fastur punktur í öllum Hólmsferðum. Næst var það hafnarvörðurinn, indælisnáungi við að eiga og loks skilafrágangur á leiguhúsinu. Þetta hús er eiginlega orðið mitt annað heimili, mér reiknast svo til að á þessu ári (2015) eigi ég alls sjö bókanir á því, ýmist helgar eða vikur og skal því bætt við að árið er ekki hálfnað svo allt útlit er fyrir að ég eigi eftir að fjölga þessum bókunum er líður að hausti. 

Klukkan var ellefu fimmtán þegar ég kvaddi Stykkishólm að þessu sinni og renndi suður á við. Ferðin tók hefðbundna tvo tíma, heima tóku við snúningar og síðan kallaði vinnan klukkan fjögur. Þegar ég stimplaði mig út tvær mínútur yfir tólf á miðnætti söng stimpilklukkan: " Útstimplun hefur verið skráð. Bless og til hamingju með afmælið"

Þá var nefnilega kominn annar júní.......

Nú er komið að því að setja sjúkrabílinn á númer, því húsið í Hólminum er aðeins leigt til heillar viku í júní, júlí og ágúst. Næst á ég bókað um verslunarmannahelgi og viku þar á eftir. Þær helgar sem ég dvel í Hólminum fram að því dvel ég í bílnum. 

Það ætti ekki að væsa um neinn þar.......



Flettingar í dag: 166
Gestir í dag: 53
Flettingar í gær: 122
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 64551
Samtals gestir: 16762
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 23:09:59


Tenglar