Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


04.04.2015 08:17

Það er kominn laugardagur...


......hafi ég lesið rétt á dagatalið. Hér í Hólminum verður hver dagur öðrum líkur þegar illa eða ekki viðrar til útiveru. Í gær freistaðist ég til að opna páskaeggið sem starfsmannafélag Óskabarnsins gaf mér. Þetta var höfðinglegt egg, tæpt kíló að þyngd. Bónus hefur verið að selja eins kílós egg á tvöþúsundkall og ég hafði eiginlega ætlað mér að slátra starfsmannaegginu yfir bókum og sjónvarpi fyrir sjálfa páskana en bæta svo við einu Bónuseggi fyrir páskadaginn. Ég er nefnilega súkkulaðifíkill og viðurkenni það alveg. Súkkulaðineyslan hefur hins vegar verið í lægð undanfarnar vikur og mánuði - raunar allt frá áramótum þegar við sonurinn hreinlega átum yfir okkur af 50% afsláttar - Nóakonfekti frá Krónunni!

Til að gera langa sögu stutta þá opnaði ég starfsmannaeggið snemma í gær og það stendur vel hálft hér á borðinu - áhrifin af ofátinu um áramótin eru greinilega ekki horfin að fullu og ég get hreinlega ekki klárað þetta egg. Tilhugsunin um eins kílós eggið í Bónus vekur nú hroll og ef ég versla eitthvað inn í Bónus í dag verða það epli og appelsínur. Hins vegar gekk prýðilega vel með bókina "Fílar gleyma engu" eftir Agötu Christie........

Það var semsagt innidagur í gær. Veðrið var samt ekkert tiltakanlega vont, þannig séð en heldur ekki spennandi til útiveru. Það viðraði ekki til bíltúra nema þá rétt til að skjótast í kaffi í nágrenninu. Veðurspá dagsins í dag hljóðar uppá sunnan átján metra og rigningu og þegar þetta er skrifað er útlit fyrir að sú spá gangi að mestu eftir. Það vantar að vísu átján metrana en rigningin er mætt. 

Stakkanesið er því ekki enn komið á réttan kjöl - ég nenni hreinlega ekki að eiga við það nema í almennilegu veðri. Ef spá rætist verður ágætt veður á morgun, páskadag og þá má taka til hendinni. Það var líka ætlunin að renna eitthvert inn með Skógarströndinni og það ætti líka að vera tími til þess.

Klukkan er rúmlega hálfníu, morgunmatur að baki og beðið eftir kaffinu.........og af hljóðunum að dæma er að bæta í rigninguna.........

Flettingar í dag: 30
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 122
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 64415
Samtals gestir: 16728
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 03:05:44


Tenglar