Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


08.11.2014 08:30

Eins dauði er annars jeppi.


Í upphafi síðasta pistils nefndi ég kvalræði rauða Vitara-jeppakvikindisins sem á dögunum dró þunga kerru móti norðanroki upp í Stykkishólm. Það var tvímennt í bílnum á uppeftirleiðinni og margt var skrafað, m.a. um það hversu mikill munur hefði verið á að draga kerru á dökkgrænu Kanada-Vitörunni sem ég eitt sinn átti og notaði drjúgt.



Á dögunum var sagt frá því í fréttum að bílaleiga á höfuðborgarsvæðinu hefði verið lýst gjaldþrota. Þessi leiga hafði áður komist í fréttir vegna tryggingamála og fleiri álíka vandamála og því kom gjaldþrotafréttin kannski ekki svo mjög á óvart. Það er þó alltaf frekar leiðinlegt að heyra af slíkum erfiðleikum því margt býr að baki og afleiðingar margvíslegar.

Úr búi bílaleigunnar var auglýstur fjöldi vagna í mismunandi ástandi, flestir af eldri gerðum og mikið eknir. Ég frétti af útsölunni gegnum annan sem var í vígahug og hugðist gerast stórtækur í innkaupum. Þessi bílaleiga hafði m.a. átt talsverðan flota af Grand-Vitara jeppum af eldri árgerðum en ég vissi að margir þeirra höfðu verið í ágætu standi enda sterkir vagnar. Nokkuð hafði kvarnast úr þessum flota eins og gengur en þó var eitthvað eftir. Ég kannaði málið og var bent á ógangfæran bíl sem stæði við verkstæði niður í bæ og fengist fyrir rúmlega eyðingarverð. Lyklana fékk ég að kvöldi og mátti skoða að vild. Þær upplýsingar fylgdu að bíllinn væri "eitthvað undarlegur" og gæti allt eins verið með ónýta vél.

Það var myrkur þegar ég fór að skoða vagninn, kannski eins gott því varla sá í lit á honum fyrir skít. Hann hafði greinilega verið nýkominn úr leigu þegar skellt var í lás. Ég prófaði að starta og um leið fæddist hugmynd um hvað væri að - það áttu ekki að vera nein geimvísindi fyrir bifvélavirkja að koma þessum bíl í gang. Klukkan átta morguninn eftir var ég mættur á þröskuld fyrirtækis í bænum til að sannreyna þessa tilgátu. Hún reyndist rétt. Næsta skref var því að ganga frá kaupum á vagninum meðan allt væri kórrétt og hann væri enn ógangfær. Það gekk snurðulaust og skráningarbeiðnin gekk sína leið. 

Við félagar drógum svo bílinn upp í umboð og skildum hann eftir í höndum þess, þar sem framkvæma þurfti smá viðvik. Að tveimur tímum liðnum sótti ég bílinn, setti í gang og ók honum stutta leið  til fyrrum félaga minna á skoðunarstöðinni í Skeifunni. Þar var vagninn tekinn "fyrir nesið" og sýndist í lygilega góðu standi miðað við akstur (sem er þónokkur)  og fyrri störf. Úr skoðunarstöðinni var hann drifinn heim í Höfðaborg og settur í stórþvott og bón. Eftir það var hann nær óþekkjanlegur. Það má nú sjá á honum lit, en fólk er ekki sammála um hvernig sá litur er - í skráningarskírteini er hann sagður gulur en mér finnst hann vera grænn. Enn á ég enga mynd en hún kemur eflaust fljótlega.

...og nú er allt útlit fyrir að sá rauði, sem þjónað hefur mér dyggilega talsvert á annað ár meðan sonurinn hefur haft gamla svarta Hrossadráparann til afnota, hafi farið sína síðustu ferð kvalinn af roki og kerrudrætti. 



Hann verður fljótlega settur í hvíld og trúlega verður það langa hvíldin - þ.e.a.s. ef "nýja" Grand-Vitaran stendur undir væntingum. Þótt sá rauði líti vel út á mynd er hann orðinn talsvert tærður og slitinn. Frá upphafi lá fyrir að hann þyrfti mikla aðhlynningu sem hefur gengið hægar en ætlað var. Grand-Vitaran þarf svosem talsvert klapp líka. Það er hins vegar meira vit í að klappa þeim sem meira getur og gefur.................



Flettingar í dag: 63
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 122
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 64448
Samtals gestir: 16737
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 10:23:00


Tenglar