Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


13.07.2014 08:53

Í Færeyjum - 4.hl. ferðasögu.


Ég verð eiginlega að hafa fyrirsögnina á þennan veg því það er hálfundarlegt að skrifa: "Á leið til Færeyja, 4.hluti - í Færeyjum", ekki satt? 

Náðu ekki allir að ráða í skiltið á húskofanum meðan við EH sváfum inn í föstudaginn 20.júní? Við höfðum semsagt lagt bílnum við skotæfingasvæði Þórshafnarbúa og nærsveitunga (sem, miðað við fjölda og ferkílómetra eru allir aðrir Færeyingar). Sem betur fór fyrir okkur eru Færeyingar vinnusamt fólk og eflaust annað í huga að morgni virks dags en að dunda við að skjóta í mark. Þess vegna fengum við frið á skotæfingasvæðinu - svo mikinn frið að við steinsváfum til kl. hálftíu um morguninn!

Veðrið þennan föstudagsmorgun var hreint yndislegt. Það var hæg gola, frekar lágskýjað og jafnvel þokuslæðingur með fjallatoppum en það var ágætlega hlýtt - líklega einar ellefu gráður. Ég fékk mér morgunrölt niður á æfingasvæðið með kort í hendi og reyndi að átta mig á því sem fyrir augu bar. 

Kortið er því miður óskýrt en ég set netslóð á þetta sama kort HÉR

Við vorum stödd rétt norðan við Þórshöfn, ofan við Hvítanes og frá staðnum var frábært útsýni yfir að Tóftum í mynni Skálafjarðar. Ég vissi það ekki þá en ég veit það núna að ég var líka að horfa yfir Flesjarnar, staðinn þar sem togarinn Goðanes frá Neskaupstað fórst á nýársdag 1957. Það var hörmulegt slys enda fórst þar skipstjórinn Pétur Hafsteinn Sigurðsson, aðeins 24 ára gamall. Síðan hafa orðið a.m.k. tvö óhöpp á Flesjunum þrátt fyrir alla tæknina í leiðsögutækjum, flutningaskipið Ólavur Gregersen í janúar 1984 og rússneski togarinn Olshana árið 2007. Í hvorugu tilfelli varð þó manntjón.Þegar hlekkurinn á Olshana er skoðaður sjást íbúðarhús í baksýn. Þessi hús eru í smáþorpinu Nesi, utan við Tóftir ( t.h. utan myndar) og má með samanburði við kortið nokkuð átta sig á strandstaðnum. Flesjarnar ná hins vegar yfir talsvert stórt svæði og strandstaður Olshana mun vera nokkuð frá strandstað hinna tveggja. Olshana var dregin af rifinu með hengilrifinn botn og þeim afleiðingum að skipið steinsökk á stuttri stundu á 70 metra dýpi. Ólavur Gregersen strandaði hins vegar og sökk á sama stað og Goðanes 27 árum fyrr og þegar sjávarbotninn á svæðinu var kannaður nýlega m.t.t. gangnagerðar neðansjávar kom í ljós að flak Ó.G. liggur ofan á flaki Goðaness.


NØ for T?rshavn ved klippeskæret "Flesjene" ligger  vraget af fragtskibet 
"Olavur Gregersen" som er meget spændende at dykke på. Vraget ligger skråt
ned af en fjeldside med den laveste del på ca. 12 m og agterenden på ca. 20 m.
dybde. Skibet sank efter grundstødning imod skæret vinteren 1984 og ligger
venpå en Islandsk trawler, der sank engang i 50-erne. Man skal bruge båd for
at komme derud. (Tal med den Færøske dykkerskole)
(c)Rettet den 02/04-1997. ANDERS CLAUSEN 

Nóg komið af þessum spádómum. Þegar við ókum upp að Skjótibreytunum um nóttina tókum við eftir stóru verslunarhúsi uppi á hæð í útjaðri Þórshafnar. Á þessu húsi var afar kunnuglegt merki: BÓNUS! Þangað var för heitið um leið og við vorum ferðbúin því þótt okkur vantaði svo sem ekki mikið var sjálfsagt að skoða búðina og setja sig inn í vöruval og verð - vistunum okkar var ekki ætlað að duga heim aftur! Þetta reyndist fínasta verslunarmiðstöð og í næsta nágrenni var líka Skemman, hinn færeyski Rúmfatalager. Ekki vildum við þó eyða morgninum í búðaráp því veðrið hélt áfram að lýsast upp og fljótlega var komið sólskin. Við ókum því niður undir hafnarsvæðið og lögðum bílnum á "tveggjatíma" stæði rétt við ferjubryggjurnar. Eitt af því sem okkur vantaði allra fyrst var stöðuklukka í framgluggann og spurðum um hana í Bónus. Ekki var hún fáanleg þar en okkur var bent á "Tourist-info" í miðbænum. Sú stofa var auðfundin en ekki áttu þau klukku. Glaðleg dama í minjagripasölunni benti okkur á að tala við tryggingafélag neðar í bænum. Við höfðum einmitt tekið eftir því húsi á göngunni svo það var sömuleiðis auðfundið aftur. Jújú, þar var til klukka, kostaði ekkert, bara gjörið svo vel. Við gengum tíu skref til bílsins (Þórshöfn er ekki New York),  skelltum klukkunni á sinn stað og stilltum hana. Þar með var okkur frjálst að ganga um bæinn næstu tvo tímana. 

Við gerðumst kaffiþyrst og fundum okkur ágætt kaffihús rétt neðan við göngugötuna. Eftir bolla af fínu kaffi með súkkulaði (að sjálfsögðu) röltum við áfram upp frá höfninni og fundum ísbúð. Þar var ung dama að afgreiða, á aldur við okkar tvær. Hún spurði hvaðan við kæmum og þegar við nefndum Ísland tókst hún öll á loft. Hún hafði nefnilega verið á Íslandi vikutíma með skólahljómsveit nokkru áður, bókstaflega elskaði allt sem íslenskt var og tiltók sérstaklega Kringluna og íslenskt nammi! Freyju-Djúpur! Mmmmmm!! Svipurinn á andlitinu sagði meira en mörg orð um það hversu innilega hún lifði sig inn í Íslandsheimsóknina að nýju. Við áttum eftir að heimsækja þessa hressu ísbúðardömu oftar.....

Eftir ísinn gengum við niður í bæinn að nýju, niður með einni smábátabryggjunni og út á Þinganes.Að sjálfsögðu fékk ég mynd af mér með trillur í baksýn og það sést vel að víðar er logn en á Íslandi. Hugsið ykkur, við vorum að koma í fyrsta sinn til Færeyja og þetta var okkar fyrsti dagur! Þegar veðrið skapar manni svona móttökur fyrirgefst því næstum hvað sem er næsta dag því tilfinningin er fædd. Alveg hreint yndislegt!Við lögðumst í rölt um þennan gamla bæjarhluta og mynduðum í allar áttir. Þetta hús t.h. með glerhýsinu við gaflinn er kaffi- og veitingahús. Þarna sátu menn með öl eða kaffi í hönd og fylgdust með beinum og óbeinum boltaleikjum.....allan daginn.Gamla dómkirkjan í Þórshöfn er virkilega fallegt hús og eiginlega synd að ekki skuli vera hægt að taka almennilega mynd af því nema þá helst úr lofti. Trén standa þétt og nálæg hús gera ómögulegt að ná víðu sjónarhorni.Við kirkjuna skildu leiðir og Elín Huld gekk upp í bæ. Ég hélt mig við höfnina og myndaði húsin sem eru eitt algengasta myndefnið í Þórshöfn, næst á eftir Þinganesi. Þarna eru verslanir, kaffihús, veitingastaðir, Rauðakrossbúð og margt fleira. Kirkjuturninn gnæfir svo yfir:Norðlýsið var að koma utan af sjó. Það siglir með túrista en þeir virtust ekki vera margir um borð í þessari ferð. Skipið er stórglæsilegt og ef "myndin prentast vel" má sjá mann í hvítri peysu aftarlega, haldandi um  stýrissveif eins og á lítilli trillu. Hann hafði aðeins aðra hönd á sveifinni, hina hafði hann á lítilli handolíugjöf. Þannig lagði hann þessu 62 feta eikarskipi að bryggju eins og bréfbát!

 

Hér fyrir neðan er svo Westward Ho. Þetta glæsilega skip hefur m.a. komið til Íslands, eins og sjá má HÉR:Ég mátti til að skoða Westward Ho betur og á leiðinni að bryggjunni gekk ég fram á þessa dömu sem virtist alvön mannaferðum. Ég held allavega að þetta sé dama...Þegar myndirnar hér að neðan eru skoðaðar er vert að hafa í huga að við Íslendingar keyptum kútter Sigurfara frá Færeyjum og eyðilögðum hann. Það var auðvitað hrein og séríslensk snilld. Það myndi t.d. ekki taka okkur langan tíma að eyðileggja Westward Ho. Hvar ætli Sigurfari væri í dag ef við hefðum ekki keypt hann til að rústa honum? Hann kom fljótandi til Íslands, í drætti því vélin var ógangfær. Hann var þreyttur en alls ekki ónýtur - ekki frekar en W.H., Norðlýsið og allir þeir kútterar aðrir sem við sáum í Færeyjum.Þessi var eiginlega hálfdanskur í útliti - hann minnti mjög mikið á þá sem ég skoðaði eitt sinn við Torup Strand á N.v. JótlandiSjáiði "snellurnar" á borðstokknum? Hann er kannski á strandveiðum, þessi? Hvaða sómakær Íslendingur myndi láta sjá sig á svona bát? Fáir! Þeir væru flestir búnir að fara í bankann, skuldsetja sig upp fyrir haus fyrir nýjum sexhundruðhestafla Tupperware - hraðfiskibát. Og ef þeir væru ekki þegar komnir á hausinn þá væru þeir örugglega á leiðinni þangað. Með eða án afskrifta!  Þegar rithöfundurinn og ferðalangurinn Huldar Breiðfjörð dvaldi í Þórshöfn síðla vetrar fyrir nokkrum árum spurði hann fólk hvað Færeyingar hefðu helst lært af sinni kreppu - sem var virkilega djúp og hafði mikil áhrif. Svarið var hægt að draga saman í eitt orð: Nægjusemi. Á myndinni hér að neðan er ágætt dæmi um þessa nægjusemi. Tölvu-handfærarúllurnar fara honum alls ekki illa, er það nokkuð?Við "smærri báta bryggjurnar" mátti svo sjá allt í bland, gamla súðbyrðinga, plast-færeyinga eins og voru framleiddir hér heima um árabil og svo hraðbáta af öllum gerðum - síst þó tugmilljóna snekkjur eins og sjást hér í Snarfarahöfninni. Þeir lærðu nefnilega nægjusemi, Færeyingarnir......Eftir hálftíma rölt hittumst við EH svo aftur ofan við smábátabryggjurnar í "vestaravági"og gengum aftur gegnum gamla þorpið á Þinganesi yfir í "eystaravág"

Ein helsta þjóðaríþrótt Færeyinga er róður - kappróður. Þessi íþrótt sem hér heima hefur helst verið stunduð vikuna fyrir sjómannadag og er jafnvel að leggja alveg upp laupana er mikið stunduð í Færeyjum og talin hafa ríkt uppeldislegt gildi. Við rákumst á þennan hóp unglinga sem var að sjósetja róðrarbát. Þeir virtust hafa aðstöðu í gömlu vöruhúsi á Þinganesi og sjósettu beint útum dyrnar. Inni var svo aðstaða til að lagfæra og snyrta flotann.Þau sáu að við vorum að mynda og tóku þvi vel á árunum. Við stýrið var dama sem stjórnaði eins og Nelson flotaforingi:Við gengum svo upp Þinganes, milli gömlu húsanna - þ.e.a.s. þar sem hægt var að ganga milli þeirra. Það var alls ekki hægt allsstaðar:

Hér í húsi mun hafa verið aðstaða tannlæknisins:(  en kannski er það misskilningur....)


Svo leynist eitt og eitt svona inn á milli. Þau eru samt svo fá að það er leitun að þeim:Þetta hús er í hjartanu, upp af smábátabryggjunni og við rætur Þinganess. Þetta er aðsetur íslenska ræðismannsins. Hann hlýtur að vera Færeyingur því eins og við vitum lærðu Íslendingar ekkert af sínu hruni. Færeyingar lærðu hins vegar....hvað?Klukkan var orðin þrjú á þessum drottins dýrðardegi, bílastæðisklukkan að renna út og við tókum strikið úr bænum. Ferðinni var heitið um sömu götur og nóttina áður, framhjá Bónus, upp gegnum Hvítanes og inn með Kaldbaksfirði. Við vorum á leið norður eftir og næstu nótt skyldi eytt eftir hentugleikum. Ofan við botn Kaldbaksfjarðar ókum við inn í fyrstu jarðgöngin og komum út rétt ofan við botn Kollafjarðar. Við ókum út með honum, gegnum samnefnt þorp og inn með sundinu milli Straumeyjar og Austureyjar. Áfangastaður var ákveðinn: Saksun. (því miður er ekki til íslensk Wikipedia yfir Saksun svo ég læt enska duga). Leiðin lá um þorpin Hósvík, Við áir og loks Hvalvík:Myndin hér að ofan og eins sú neðri sýna kirkjuna og gamla þorpið í Hvalvík. Innar standa mun nýrri og stærri hús en þau eru einfaldlega ekki eins skemmtilegt myndefni. Þarna var farið að úða aðeins úr lofti, þó ekki nóg til að kalla rigningu. Vegurinn til Saksun liggur um Hvalvík og um leið framhjá skóla og leikskóla. Þar voru hátíðarhöld í gangi og stór hópur barna og foreldra á skólalóðinni. Allt var skreytt og uppblásin leiktæki voru á staðnum. Við giskuðum á skólaslit.  Vegurinn til Saksun var sá fyrsti af þessari gerð sem við ókum en þeir áttu eftir að verða fleiri. Einbreiður vegur og tæplega það, útskot á fimmtíu metra fresti og tæplega það en hver metri malbikaður!Færeyingar halda mikið upp á Saksun, enda er staðurinn fallegur. Þarna var friðurinn alger, frá þeim tveimur sveitabýlum sem eru í dalnum barst ekkert hljóð svo fossniðurinn í hlíðunum réði einn. Í Saksun er einhver stærsta sandfjara í eyjunum:Horft heim að gamla býlinu Dúvugarði, þar sem nú er byggðasafn. Safnið var því miður lokað þegar við komum en meðan við gengum að kirkjunni kom maður gangandi ofan frá húsunum að lítilli skemmu við veginn. Á skemmuveggnum var auglýsingatafla í glerkassa og mér sýndist maðurinn föndra eitthvað við kassann. Þegar við svo komum til baka athugaði ég auglýsingarnar og gat ekki séð að neinu hefði verið breytt. Kannski vildi hann bara láta sjást að staðurinn væri ekki mannlaus.

Kirkjan í Saksun er frekar stór miðað við hve sveitin er lítil. Eins og fram kemur í hlekknum hér ofar var hún upphaflega byggð í Tjörnuvík, norðan fjallgarðsins en seinna tekin sundur og efnið borið yfir fjallgarðinn til Saksun. Þar var kirkjan svo reist að nýju. Það á ekki að leyna sér á myndunum að kirkjan er hlaðin úr grjóti!

Eftir að hafa skoðað okkur um í Saksun héldum við til baka að Hvalvík, framhjá skólaskemmtuninni þar sem einhverjir höfðu farið í regnslár (þó var enn bara úði og ekki hægt að kalla rigningu) og yfir litla brú sem tengir Hvalvík við næsta smáþorp, Streymnes. Þar virtust flest hús nýleg og í þessum stíl:Eftir stuttan akstur komum við að brúnni sem tengir Straumey og Austurey. Við ókum yfir hana og Austureyjamegin til beggja handa voru smáþorp. Til hægri var Oyrarbakki (sem á sér jú nafna á Íslandi) og til vinstri Norðskáli. Við ókum út að Norðskála og áðum stutta stund við kirkjuna. Þarna gilti alveg það sama: Á myndunum virðist vera hellirigning en svo er alls ekki. Þokuslæðingurinn yfir ber með sér fínan úða og hann leggst yfir allt. Maður gat staðið úti talsverðan tíma án þess að blotna nema rétt á yfirborðinu en malbikið, þar sem vatnið skilaði sér ekki niður í jörðina, varð svaðblautt: Rétt neðan við kirkjuna  synti þessi svarti svanur framan við fjöruborðið, sá fyrsti og eini sem við höfum séð. Hann var í félagsskap tveggja hvítra:

Frá Norðskála var ekið um göng yfir til Skálafjarðar. Myndin hér að neðan var tekin rétt áður en við fórum inn í göngin. Þarna er horft yfir Norðskála nær og Eyrarbakka fjær. Á milli er svo brúin sem tengir Straumey og Austurey. Svo það sé enn tekið fram er veðrið furðulegt. Á myndinni sýnist það vera hrein hörmung en er það í raun alls ekki - það var í öllu falli ekki að hamla okkar för á nokkurn hátt.Norðskálagöngin voru byggð 1976, á svipuðum tíma og Íslendingar voru enn að hengja Ó-vegi utan í kletta. Þetta eru tvíbreið, upplýst göng, rétt rúmir tveir og hálfur kílómetri að lengd og með sama hámarkshraða og aðrir vegir í Færeyjum, 80 km/klst. Við komum út úr göngunum ofan við botn Skálafjarðar, eins og fyrr sagði. Ókum þaðan út með Skálafirði norðanverðum og ákváðum að geyma Ísfirðinga- og Bolungarvíkurvinina á Skála til betri tíma. Þarna í Skálafirði er hvert þorpið við annað og sum samvaxin. Við ókum gegnum Skipanes, Söldarfjörð, Lamba og Glyvrar án þess að nein glögg skil væru þar á milli. Svo var það Saltangará og Runavík, alveg samvaxin að sjá. Við bryggju í Runavík lágu þessir tveir bláu Rússar. Mér sýndust þeir afar áþekkir hinni íslensku Engey RE og líka henni Aþenu sem brann þarna við bryggju rétt hjá fyrir nokkrum árum.Ég held það sé fínt að enda fjórða hluta hér. Fimmti hluti er í vinnslu.


.........................................................................

Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 111
Gestir í gær: 45
Samtals flettingar: 642782
Samtals gestir: 91884
Tölur uppfærðar: 23.1.2019 04:07:41


Tenglar