Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


29.04.2014 07:33

Yfir Grjótháls.


Svei mér þá, ég hélt ég væri löngu búinn að gera þessu efni skil. Við tiltekt á "desktoppnum" fann ég svo myndaalbúm sem átti að nota í verkið en hefur aldrei verið sett inn. Þá er bara að vinda sér í verkið.
............................................................................

 Þetta var nú samt ekkert merkileg ferð, svona þannig séð. Eiginlega bara sunnudagsbíltúr í góðu veðri. Satt að segja er fátt merkilegt við ferðina nema ef vera skyldi góða veðrið - það heyrði nefnilega til undantekninga sl. sumar og haust að fá almennilegt ferðaveður. Fararskjótinn var, eins og oft áður, svarti Hrossadráparinn af Skeiðunum og í föruneytinu voru mæðginin Elín Huld og Arnar Þór ásamt eðalhundinum Edilon B. Breiðfjörð o.s.frv.  Við ókum hefðbundna leið upp í Borgarnes og áðum að vanda í Geirabakaríi. Þaðan var haldið að söluskálanum við Baulu og beygt til hægri að Stafholtstungum. Við fyrra vegskiltið sem á stendur "Þverárhlíð" var beygt upp til vinstri í átt að litlu kirkjunni í Hjarðarholti. Ekki var þó ekið þangað heim heldur áfram upp sveitina hjá stórbýlinu Arnbjargarlæk, einhverju alfallegasta býli í sveit á Íslandi. Við vegamót rétt ofan Höfða ( þar sem damatíulömbin eru "ræktuð") beygðum við aftur til vinstri þar sem skilti segir "Sigmundarstaðir". Eiginlega er samt ekki beygt þarna, vegurinn liggur aðeins í hlykk en afleiddur vegur til hægri liggur áfram um sveitina, greinist til þriggja dalbotna og síðan í átt að kirkjustaðnum Norðtungu. Við semsagt héldum í átt að Sigmundarstöðum og nokkurn veginn um miðja leið stendur eyðibýlið Grjót. Við það liggur afleiddur vegur upp til vinstri (hánorðurs) á ská upp þennan áðurnefnda Grjótháls. Ég hafði nokkrum sinnum farið þennan veg en ferðafélagarnir aldrei. 

Grjótháls er ekki fjallvegur í almennum skilningi, til þess er hann alltof lágur. Hann nýtur þess samt að landið umhverfis er frekar flatt og þess vegna má hafa af hálsinum hreint stórkostlegt útsýni bæði til suðurs yfir Þverárhlíð, Skaftártungur og til Reykholtsdals, niður allar syðri Borgarfjarðarsveitir að Hafnarfjalli. Þegar komið er upp á hálsinn má taka stutta gönguferð til austurs að undirstöðum fallins raflínumasturs - það eru varla nema svona hundraðogfimmtíu skref - og þá blasir Norðurárdalurinn við, allt frá Hreðavatni og Bifröst upp að kirkjustaðnum Hvammi. Beint á móti er svo vegamótabýlið Dalsmynni og einkennisfjall Borgarfjarðar, Baula. 

(Ég ætla að endurnýta hér fyrir neðan mynd frá síðsumri 2011 þegar ég var einn á ferð á Econoline ferðavagninum. Svo koma þær nýrri)

 Líklega hefur raflínumastrið sem þarna stóð fallið vegna ísingar í illviðri. Það hafa allavega verið gífurlegir kraftar sem sveigðu þetta svera stál í vinkil og undu uppá það eins og tusku:


 Arnar Þór reyndi ítrekað að rétta stúfana upp aftur án árangurs og er hann þó vel að manni. Að endingu gafst hann upp, tók kortabókina og lyfti henni léttilega:


Gamli sýndi drengnum hins vegar muninn á að vera fullsterkur og hálfsterkur:
Elín Huld, sem venjulega heldur á myndavélinni fékk af sér eina mynd með Bassann í bandi. Venjulega fær Bassi að hlaupa laus við svona kringumstæður en við höfðum komið auga á nokkrar náfrænkur hans á beit í grenndinni og hann hafði óskað samneytis við þær á kröftugan hátt. Bitur reynsla hefur kennt okkur að hann á ekki skap við þessar frænkur sínar.
Á þessum árstíma eru dagarnir orðnir stuttir og  sólin fljót að lækka. Skuggarnir voru farnir að lengjast þegar við héldum loks áfram yfir hálsinn til norðurs. 


Þegar komið er fram á brúnir norðanvert opnast útsýn uppeftir Norðurárdalnum að Hvammi. Undir rótum Grjótháls stendur gamalt eyðibýli og þessi mynd er tekin af bæjarhlaðinu:Hér fyrir neðan er útsýni af sama stað til bæja handan Norðurárdals og Baulunnar:
 Íbúðarhúsið á þessu eyðibýli hefur fyrir margt löngu verið stækkað til muna svo nærri lætur að eldra húsið sé aðeins þriðji hluti af heildinni. Ekki hefur framkvæmdum þó verið lokið þegar hætt var við þær - eða svo virðist vera því þannig hefur þetta hús staðið í áraraðir. Húsið stendur opið og einhverjir virtust hafa haldið nokkurs konar hrekkjavökuhátið innandyra ef marka mátti verksummerki:


Á vegg í einu herbergjanna var mynd af þessum "huggulegu" brúðhjónum:
Það var eiginlega hálfóhugnanlegt þarna innadyra svo við gengum bara aftur út í sólskinið. Úti á túni stóð þessi gamli FORD vörubíll - líklega er þetta eftirstríðsbíll af F-1 gerð - og ryðgaði hægt niður í svörðinn. Ég hélt í einfeldni minni að fornbílasafnarar létu ekki svona heillega átta gata flathedd vél liggja á víðavangi en svo virðist nú samt vera:
Við ókum áfram niður Skarðshamarsveg og þar sem leiðin liggur um þveran dalinn  náðist þessi fallega sýn á Bauluna í lygnri hliðarlænu frá Norðurá:
Eitt tillit til baka í lokin:  Horft er heim að bænum Glitstöðum og í baksýn er sjálfur Grjótháls. Rétt neðan við Glitstaði beygir vegurinn um þveran dal og tengist þjóðvegi eitt rétt ofan Grábrókar. Að þessari mynd tekinni lá leiðin heim og var stórtíðindalaus.
Gott í bili.
....................................................................

Flettingar í dag: 50
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 111
Gestir í gær: 45
Samtals flettingar: 642782
Samtals gestir: 91884
Tölur uppfærðar: 23.1.2019 04:07:41


Tenglar