Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


16.04.2014 08:26

Heima á ný - en stutt þó!



Það er miðvikudagsmorgunn og ég er aftur staddur í Höfðaborg eftir skottúr á fjörðinn fríða. Nú er endurnýjað í töskunum, einhverju bætt við til lengri dvalar því eftir hádegið liggur leiðin upp í Stykkishólm þar sem dvalið verður um páskana. Heimsins flottasti hundur, Edilon Bassi Elínarson Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhof Sandhaug Sóðalöpp (þessi tvö síðasttöldu nöfn eru til komin vegna endalauss sandburðar inn á parkettið í Höfðaborg og upp í "snjó"hvíta leðursófasettið!) er kominn til sinna fyrri eigenda til páskadvalar og gegnir nú tímabundið nafninu Edilon B. Eyjólfsson Hafnfjörð.

 

Ég á örfáar myndir úr vesturferðinni og bæti þeim hér neðan við þegar ég kem upp í Hólm.....

---------------------------------------------------------------------------

......og nú er miðvikudagskvöld, ég kominn upp í Stykkishólm og skelli inn myndum af veðri og færð á leið til og frá Ísafirði. Það var annars ekkert að færðinni sunnudaginn 13 apríl þegar við ókum vestur, reyndar hef ég líklega aldrei séð Hvammsfjörðinn jafnsléttan og þennan dag:



Ég smellti einni af á Hólmavík, ekki sem sögulegri heimild heldur til að þeir sem heima sátu gætu glöggvað sig betur á ferðaveðrinu:


Það var talað um krap á Steingrímsfjarðarheiðinni. Þar var litlu logið, víst var á henni krap en það var hins vegar aðeins á nokkur hundruð metra kafla. Að öðru leyti var júlífæri...


Þegar komið var niður í Djúpið mætti manni þessi endalausa vestfirska veðurblíða. Myndirnar eru teknar í Ögurnesi og skilin milli snjóbreiðunnar á Snæfjallaströndinni og sinunnar í vestanverðu Djúpinu eru sláandi.....


Svo var það engilblíðan í Skötufirðinum:



Það var svo sem ekkert nýtt að mynda á Ísafirði. Fólk hittist, erindum var sinnt, dagur leið og svo vorum við aftur á suðurleið. Einhvern veginn er það svo að maður fær sjaldan sama veður í báðum ferðum og þetta skiptið var engin undantekning. Veðurblíðan á myndunum einskorðaðist við sunnudaginn þrettánda, mánudagurinn var öllu hryssingslegri en steininn tók þó úr á þriðjudeginum - s.s. í gær. Dagurinn heilsaði með snjóéljum í vindrokum, flugleiðin var ófær og landleiðin líka skv. fréttum Vegagerðarinnar. Farartálminn var Steingrímur - ekki í fyrsta sinn. Á textavarpinu mátti þó lesa að vegurinn myndi opnast um hádegi og við lögðum af stað suður aftur um kl. hálfeitt. Í Djúpinu skiptust á dimm snjóél án þess þó að snjó festi, og glaðasólskin með sumarfæri. Þegar upp á Steingrímsfjarðarheiði kom mátti þó vel sjá hvar vegurinn hafði lokast nóttina áður enda var þykk snjóröst beggja vegna vegar á a.m.k. tveimur stöðum. Snjó dreif enn yfir veginn á köflum en þó var þokkalega stikubjart. Moksturstæki voru enn að hreinsa veginn og umferð var allnokkur.


Þegar niður af Norðdalnum kom var sumarfæri sem fyrr og þegar lagt var á Arnkötludalinn ókum við fram á fyrsta marktæka vorboðann - Vegagerðarapparat með sóp að framan sem ók kantana og sópaði af þeim möl og sand. 


Vegurinn um Þröskulda var nær auður, aðeins minniháttar krap um hæsta kaflann. Afgangurinn af leiðinni suður var marauður utan annan minniháttar krapkafla á Bröttubrekku. Við komum til Reykjavíkur um kvöldmatarleytið í gærkvöldi. Þegar þessar línur eru skrifaðar á miðvikudagskvöldi 16. apríl í Hólminum er kuldaþræsingur og kvöldgangan hafði nær gengið af mér eyrnalausum.

Húfur eru nefnilega bara fyrir kjéllíngar...........

........................


 

Flettingar í dag: 575
Gestir í dag: 239
Flettingar í gær: 371
Gestir í gær: 80
Samtals flettingar: 68864
Samtals gestir: 17477
Tölur uppfærðar: 7.5.2024 20:19:19


Tenglar