Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


24.03.2014 20:54

Sjö strauma siglingin. 3.hluti: Í Öxney.


23. ágúst 2011 

Öðrum hluta lauk þegar Stofuvogur opnaðist okkur innan við Mjóanes og íbúðarhúsið gamla í Öxney blasti við. Við sigldum inn Bænhússtraum, sjöunda strauminn í siglingunni - það mátti kannski segja að Bænhússtraumur væri áttundi straumurinn en Geysandasund, sem við höfðum nýlagt að baki er víst ekki talið "straumur" í skilningi eyjamanna þó ekki sé alltaf á því lognmolla. Steinsund er hins vegar ótvíræður straumur, þó það heiti -"sund" og á því heima í hópnum. Við flækjum  málin ekki frekar en höfum straumana sjö.

Nú vorum við í ríki Sturlu Jóhannssonar frá Öxney og hér stjórnaði hann för. Lendingin var valin í vör rétt suðaustan íbúðarhússins, þar skagaði grjóttangi út í sundið og við hann var talsvert dýpi. Í kverkinni ofan og vestan tangans var vör og lítil, hlaðin steinbryggja líkt og í Gvendareyjum. Nú var svo fallið út að ekki flaut að henni svo valið var að leggja við allstóran klett á enda  grjóttangans.





Það gætti nokkuð vinds af austri á þessum stað og Gustur, með sína háu yfirbyggingu tók talsvert á sig. Í botninum var stórvaxinn þaragróður og hald fyrir akkerið var lítið. Um síðir tókst þó að ná festu og með því að nota Bjargfýling, minni og grunnristari, sem landgöngubrú varð auðveldlega gengið á þurrt.

Nú var það Sigurður Bergsveinsson sem gæti bátanna en Sturla hafði leiðsögu. Við gengum frá lendingunni heim til bæjar. Húsið í Öxney er að stofni til norskt timburhús og var flutt til landsins tilsniðið eins og svo mörg svipuð hús frá sama tíma.

 Í áranna rás var svo húsið stækkað og því breytt talsvert í útliti, settir á það kvistir og steypt utan á neðri hæðina. Það má giska á að tilgangurinn með þeirri gjörð hafi verið tvíþættur: Timburhús sem ekki standa á steyptum veggjum heldur nema við jörð hafa tilhneigingu til að fúna neðantil og svo má giska á að steypan hafi þjónað sem músavörn. Til lengri tíma litið hefur það þó sýnt sig að "forskalning" timburhúsa var skammgóður vermir og timbrið fór illa undir slíkri klæðningu. Önnur byggingarefni hafa einnig verið notuð til endurbóta og þéttingar á húsinu, ágæt meðan þeirra tími stóð en standast ekki nútímakröfur.







Eftir að við höfðum litast um utan dyra bauð Sturla okkur til stofu. Hafi ég tekið rétt eftir eru í þessu stóra húsi alls þrettán herbergi. Varla hefur veitt af, enda oft mannmargt í Öxney þegar allt stóð í blóma. Í einu herberginu, sem reyndar er "stásstofa" eins og það var eitt sinn kallað, er mynd á vegg af húsinu eins og það leit út upphaflega:




Hliðarnar sem sjást á myndinni eru þær sömu og á nýju myndunum ofar, og innandyra mátti sjá hvar gömlu útidyrnar höfðu verið. Í sömu stofu hékk einnig uppi máluð mynd af Jónasi Jóhannsyni bónda í Öxney, afa Sturlu Jóhannssonar:




Þau voru vönduð, norsku húsin og þessar renndu súlur í stofuveggnum ásamt fulningum í loftinu báru vitni um það:



 



Andinn í húsinu var annars allur á þann veg að maður gat vel ímyndað sér að heimilisfólkið væri útivið í heyönnum og væri rétt ókomið heim. Maður átti allt eins von á að húsfreyjan birtist í gættinni og kallaði menn í kaffi og heimabakað,  en - þegar betur var að gáð var engin húsfreyja og eldavélin köld ....




Við gengum aftur út í góðviðrið. Kajakræðararnir voru enn að leggja af stað úr Stofuvogi, einhverjir þeirra voru þó á vappi við búðirnar.





Við hlið íbúðarhússins stendur þessi gamla skemma, ótrúlega heilleg og bein þrátt fyrir að ytra byrðið sé orðið lúið. Kannski er hún eftir allt í betra standi en íbúðarhúsið sjálft?





Eftir góða viðdvöl við húsin ákvað Sturla að nú væri Sigurði fullborguð biðin í Ólafsey!  Við gengum til baka niður á grjóttangann þar sem bátarnir lágu og ég myndaði húsið einu sinni enn, nú með viðbyggingunni:





Bænhússtraumur milli Öxneyjar og Seljalands við Brokey er kenndur við bænhús sem fyrr á öldum mun hafa staðið í Öxney. Á hól milli bakka Bænhússtraums og íbúðarhússins stendur lítil skemma, á mæni hennar er negldur  trékross en ég er nokkuð viss um að sá kross á lítið skylt við helgi hússins, jafnvel þótt Sturla bóndi hafi kallað kofann "bænhúsið" um leið og við gengum hjá. Mér sýndist hann reyndar glotta.





Bátarnir voru á sínum stað og við klifruðum um borð. Nokkrum augnablikum síðar vorum við lagðir af stað út Bænhússtraum að nýju, nú í heimátt til Stykkishólms:






Við vorum rétt lagðir af stað þegar þetta "skýjageimfar" sveif yfir okkur, breytti svo um lögun og hvarf í einhverri allt annarri mynd:





Heimferðin var tíðindalaus, enda nokkuð bein sigling vestur um Breiðasund. Áætlunin, þó lausleg væri, hafði staðist í meginatriðum, við höfðum aðfallið með okkur inneftir og nú á heimleiðinni fylgdum við bullandi útfalli sem skilaði okkur aukamílu í ganghraða. Kannski munaði það ekki svo miklu fyrir Gustinn, með sína glænýju 40 hestafla vél, en gerði sitt fyrir Bjargfýling, sem knúinn var af tíu hesta BUKH. Mér fannst líða ótrúlega stuttur tími þar til við vorum komnir útundir Skoreyjar. Þar var  ákveðið að taka krók inn á litla vík sem mun heita Höfn.  Upp af henni er sumarhús, hálffalið bak við kletta og hóla.

 



Síðustu myndir ferðarinnar voru teknar á þessum stað, af vesturströnd Skoreyja.







Klukkan var alveg um hálffimm þegar við bundum bátinn og bárum farangur á land. Öll þessi ógleymanlega ferð hafði aðeins tekið sex klukkustundir - mér fannst það lyginni líkast en ekki varð deilt við klukkuna.





Ég kvaddi ferðafélagana sem höfðu gert þessa ferð svo einstaka - þá sérstaklega sögumennirnir og frændurnir Sigurður Bergsveinsson, Einar Sigurðsson og Sturla Jóhannsson - og endaði heimsóknina í Stykkishólm á sama hátt og hún hófst, þ.e. í kaffi hjá Gunnlaugi Valdimarssyni á Austurgötunni. Nú var margt breytt frá Rúfeyja/Rauðseyjaferðinni okkar í júlíbyrjun, trillan Rúna farin vestur á Ísafjörð og Gulli bátlaus í fyrsta sinn í áraraðir.

Hann sagðist vera hættur......við skulum sjá til!

Flettingar í dag: 19
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 37
Gestir í gær: 8
Samtals flettingar: 58563
Samtals gestir: 15558
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 11:45:04


Tenglar