Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


04.02.2014 20:20

Svo bregðast krosstré sem aðrir raftar....


.....og ekki fékk ég að fara til Eyrarbakka. Mér er samt alveg sama, svona þannig séð. Ég hef oft komið til Eyrarbakka og m.a.s. borðað í Rauða húsinu - heitir veitingastaðurinn það ekki annars?

Já, það er nefnilega þetta með veitingar. Ég er frekar nýtinn og hendi engu fyrr en orðið er dagsljóst að það er annaðhvort búið eða ónýtt. Svo er hitt að upp á nýframsóknarmennsku eru "búið" og "ónýtt" ákaflega teygjanleg hugtök!

Nú kemur saga:

Einu sinni - nánar tiltekið nákvæmlega fyrir ári síðan - keypti Áróra mín mjólkurfernu. Þetta var svona vítamínbætt mjólk, þið vitið, þessi í háu hvítu fernunum með tappa og rauðu/gulu skrauti. Ókei, fernan var stimpluð með framleiðsludag þriðja eða fjórða febrúar 2013 og síðasta sölu/neysludag (man ekki hvort) þann fjórtánda sama mánaðar. Áróra mín drakk hluta innihaldsins en þar sem hún sást lítið hér heima vegna anna á ástarvöllum dagaði fernan uppi í ísskápnum mínum. Ég segi "dagaði uppi" og á þar við að hún einfaldlega rann út og þarf ekki að skýra frekar.

Ég skipti mér ekkert af því sem Áróra mín átti í ísskápnum nema það væri farið að lykta sérstaklega illa - nokkuð sem sjaldan eða aldrei gerðist. Áróra mín er hins vegar svona dagstimplakona og snertir ekki mat sem kominn er fram yfir síðasta dag. Ekki einu sinni korter yfir. En vegna þess að Áróra var jafn sjaldséð hér heima og hvítur hrafn fékk fernan að vera um kyrrt í ísskápnum. Ég skal þó viðurkenna að ég gaf henni (fernunni) hornauga öðru hverju ef ske kynni að hún færi að þrútna og sprengihætta að myndast......

Maður er nefndur General Bolt-on. Auðvitað heitir hann allt annað en það skiptir ekki máli hér. Það sem skiptir máli er það að General Bolt-on kemur oft í heimsókn og þiggur þá gjarnan kaffisopa með mjólk. Nú gerðist það að generállinn kom í eina af heimsóknum sínum og G-mjólkin mín var búin. Þegar allt virtist stefna í óefni datt mér fernan með vítamínbættu mjólkinni í hug. 

Hafandi í huga að það var komið fram í apríl mætti kannski ímynda sér að vítamínbætta mjólkin hefði breyst í eitthvað allt annað en vítamínbætta mjólk á þessum langa tíma sem liðinn var frá síðasta neyslu/söludegi (man enn ekki hvort). Ég mátti samt til að prófa og án þess að nefna aldur fernunnar við generálinn hellti ég örlítilli lögg í glas og bragðaði sjálfur á - þó það nú væri!

Mjólkin var algerlega óskemmd! Generállinn fékk útí kaffið (enn öldungis grandalaus um aldur vökvans) og ég skrúfaði tappann á að nýju og lét fernuna inn í ísskáp til seinni tíma rannsókna. Ekki löngu síðar kom kona í heimsókn - reyndar mamma hennar Áróru minnar  - og ég lét hana bragðprófa mjólkina án þess að geta nokkuð um aldur hennar fyrr en smakkarinn hafði kveðið upp sinn úrskurð: Fínasta mjólk!!

Á þeim tímapunkti hafði ég yfir frumsamda en eldheita ræðu um sóun matvæla, vitlausar dagstimplanir og enn vitlausara fólk sem henti útrunnum mat án þess að svo mikið sem smakka á honum. Að vissu marki náði ég eyrum áheyrandans enda voru aðeins tvö eyru að hlusta og ég sá til þess að hljóðið bærist þeim báðum vel og tryggilega. Ég man að ég lauk ræðunni á þann veg að nú skyldi fernan geymd áfram í ísskápnum allt þar til innihaldið yrði sannanlega ónýtt - hvenær sem það yrði. Ég gældi við þá hugmynd að halda lífi í mjólkinni til maíloka en áður en sá tími kom hafði generállinn áðurnefndi komið í heimsókn oftar en einu sinni og jafnan fengið mjólk úr fernunni í kaffið sitt. Það var því aðeins gutlandi eftir í henni í kringum tuttugasta maí þegar Kristmundur í Stálveri kom í kaffiinnlit og þar sem hann er mjólkurdrengur eins og generállinn fékk hann síðasta dropann úr fernunni í kaffið sitt. Það fékkst því aldrei almennilega á hreint hversu lengi vítamínbætta mjólkin hefði getað lifað í fernunni í ísskápnum mínum.......


Þegar hingað er komið sögu vil ég leyfa fólki að gera sínar eigin tilraunir á sinni eigin mjólk. Það má svo birta niðurstöðurnar hér á síðunni ef fólk vill. Svo á ég alveg eftir að segja söguna af þrýstibrúsarjómanum......

Flettingar í dag: 153
Gestir í dag: 53
Flettingar í gær: 122
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 64538
Samtals gestir: 16762
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 21:45:09


Tenglar