Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


12.12.2013 09:51

Dularfulla flöskuskeytið.



Stakkanesið hefur farið sína síðustu sjóferð þetta haustið. Henni hefur þegar verið lýst í myndum og löngu máli þó stutt væri farið, eða aðeins út í Viðey í gönguferð. Ég ætla hins vegar að lýsa smáatviki sem kom fyrir í næstsíðustu sjóferðinni.

 

Kannski var það ekkert smáatvik. Ég er ekki viss, kannski var um sögulegan viðburð að ræða og ég er heldur ekki viss um að ég sé hæfur til að meta hvort svo sé. Þess vegna verð ég að leggja málið í dóm.

 

Þannig var að Stakkanesinu var stefnt til fiskjar upp við Lundey á Kollafirði nú í nóvember. Í áhöfn vorum við tveir, ég og Edilon Bassi Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhof.  Ekki var aflinn mikill, einn marhnútur álpaðist á öngul þegar svo grunnt var orðið á Lundeyjarrifinu að sá til botns. Ekki þótti áhöfninni fengur í aflanum svo mansanum var sleppt í sjóinn að nýju. Nokkrum sinnum var kippt og rennt á nýjum stöðum en allt kom fyrir ekki og þegar allt súkkulaðikexið var búið var farið að huga að heimferð. Af því veðrið var gott tókum við stóran sveig á siglingunni og renndum meðal annars inn á víkina fallegu norðan við Eiðið í Viðey. Þessi vík er svona uppáhaldsstaður hjá okkur Bassa, við höfum þónokkuð oft lagst þarna við akkeri og tekið kríublund ef letin hefur sótt á okkur.

 

Við létum reka á víkinni og renndum einu sinni með veiðistöng - þarna er of grunnt fyrir handfærarúllur. Ekki urðum við varir við fisk frekar en áður, en þegar við vorum rétt lagðir af stað heimleiðis að nýju, sá ég eitthvað torkennilegt í sjóskorpunni. Það reyndist vera brúnleit bjórflaska, án miða en með hálfrekinn korktappa í stútnum. Þeir sem henda bjórflösku í sjóinn hafa venjulega ekki fyrir því að reka korktappa í hana áður og því datt mér í hug að athuga flöskuna betur. Stakkanesinu var lagt að og flaskan fiskuð um borð. Í henni reyndist vera pappírsblað, hálfrakt og lyktandi af bjór. Blaðið var sett í þurrk þegar heim kom, síðan skannað inn á tölvu og leit svona út eftir meðhöndlunina:





Ég held að textinn sé þokkalega skýr en skal samt endurrita hann til vonar og vara. Á blaðinu stendur:

S.O.S. 15 júlí 1943. Halló, ég heiti Njálgur og ég er hér á eyðieyju langt úti á hafi suður af Íslandi. Ég hef borðað íkorna hér og ekkert annað, þeir eru ógeðslegir á bragðið. Komið fljótt, ég held að eldfjallið sé að fara að gjósa. Njálgur Rassmusen 34 ára.

 

Þannig var nú það. Eins og ég segi er ég ekki dómbær á gildi bréfsins. Mér þykir nafn mannsins dularfullt - jafnvel ógeðfellt, en hvað veit ég svo sem um mannanöfn. Norður á Hornströndum var eitt sinn maður að nafni Helvetíus og hefur eflaust þegið það nafn frá foreldrum. Svo er eftirnafnið Rasmussen alþekkt en röð -ess- anna er þá semsagt öðruvísi. Enn eitt þykir mér eftirtektarvert við bréfið, nefnilega hvað Njálgur Rassmusen hefur haft kvenlega og netta rithönd. Svo má spyrja sig hvort hann hafi e.t.v. haft pappír og ritföng ásamt bjór á eyðieyjunni. Ég hef velt því fyrir mér hvort Njálgur Rassmusen hafi kannski verið á skipi - farþegi eða skipverji - og hreinlega verið settur í land á eyðieyju með brýnustu nauðsynjar vegna einhvers leiðindamáls sem upp hafi komið um borð. Maður með þetta nafn er líklegur skotspónn æringja af ýmsu tagi og hin kvenlega rithönd hefur þá ekki bætt um. Kannski hefur N.R. verið úlfur í sauðargæru meðal skipsmanna, sem trúlega hafa verið eingöngu karlmenn, mögulega verið kvenmaður í karlmannsklæðum og kennt sig þessu undarlega nafni af sjálfsdáðum.

 

Enn má láta sér detta í hug, sé tekið mið af dagsetningu bréfsins þann 15. júlí 1943, að N.R. hafi lent í hremmingum af hernaðarvöldum, enda heimsstyrjöldin sem  af bjartsýni og trú á batnandi mannkyn hefur hér á Íslandi verið kölluð "hin síðari" þá í algleymingi. Hafi svo verið má láta sér detta í hug ýmsar ástæður þess að vesalings maðurinn lenti á eyðieyju með bréfsefni, skriffæri og bjórflösku, án þess ég leyfi mér frekari fabúleringar í þá veru. Af einföldum útreikningi má giska á að  N.R. muni hafa verið fæddur árið 1909 eða þar um bil. Hann hefur því verið rétt þrítugur þegar styrjöld skall á og hafi hann verið í her einhvers lands má vel giska á að hann hafi verið kominn í einhverja yfirmannsstöðu árið 1943. Það má vel gefa sér að þegar bréfið er skrifað hafi N.R ekki verið svo ýkja lengi á eyðieyjunni því hann segist eingöngu hafa lifað á íkornum og þeir séu ógeðslegir. Enginn lifir á íkornum einum saman - allavega ekki til lengdar - og ég vona svo sannarlega að N.R. hafi verið bjargað sem fyrst af eyjunni. Ef ekki, má reikna með tvennu: Annarsvegar hafi N.R. hreinlega vanist íkornafæðinu því eins og máltækið segir má svo illu venjast að gott þyki. Hinu má svo allt eins reikna með (og þá minni ég á að stærð eyjunnar og umfang er óþekkt) að þó íkornar fjölgi sér hratt þurfi 34 ára karlmaður (hafi svo verið) allnokkuð að borða og því hafi stofninn hreinlega komist í útrýmingarhættu.

 

Svo er algerlega óþekkt hvaða áhrif gosið í eldfjallinu, hafi það á annað borð gosið, hefur haft á íkornastofninn.

 

Ég hef ekki önnur ráð en leita á náðir þeirra sem kunna að lesa þetta pistilkorn mitt, ef einhver kynni betur að skýra þetta dularfulla flöskuskeyti sem fannt á Kollafirði norðan Viðeyjar fyrri hluta nóvembermánaðar 2013.

 

Að svo mæltu legg ég málið í dóm.


Flettingar í dag: 25
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 122
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 64410
Samtals gestir: 16725
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 02:16:05


Tenglar