Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


12.11.2013 08:01

Einu sinni var.....


Mér finnst ég ekkert sérstaklega gamall - allavega ekki í anda, eða þannig. 

Samt finnst mér vera liðin svona þúsund ár síðan ég ók af Breiðadalsheiði (já, eða ofanverðum Dagverðardal eftir því hvernig á er litið) yfir hálsinn að Nónvatni. Það eru raunar komin nokkur ár því þetta var sumarið ´89. Ég gæti átt í fórum mínum ljósmynd af þessu ferðalagi og ef ég finn hana birtist hún hér neðar. 

..................................................................................

Atvikin högðu því svo að ég skrapp til Ísafjarðar í ágústmánuði sl. Tilgangurinn var svona nokkurs konar vinaheimsókn, þar sem rifjuð voru upp gömul kynni og stofnað til nýrra. Farartækið var sjúkrabíllinn sem nokkrum sinnum hefur verið nefndur áður og heimsóknin spannaði tvær helgar. Fyrri helgina var mikið ekið enda var þá löngu burtfluttur félagi minn með í för. Sá hafði ekki komið til Ísafjarðar í áraraðir og greip tækifærið þegar bæði gisting og bíltúr voru í boði. Veðrið þessa helgi var ekki upp á marga fiska en við tókum laugardaginn snemma og ókum um göngin vestur til Þingeyrar, á köflum í ausandi rigningu og alla leið með þokuna hangandi í útvarpsloftnetinu. Gegnum þorpið héldum við út í Haukadal og áfram út í Keldudal. Það er gaman að koma út í Keldudal í góðu veðri því bæði er dalurinn fallegur, útsýnið magnað og leiðin áhugaverð svo ekki sé meira sagt. Þennan dag var Keldudalurinn jafn fallegur og aðra, en útsýnið var frekar lítið og vegurinn svaðblautur. Myndavélin var með í för en ég verð að viðurkenna að ég tók ekki eina einustu mynd - fannst það hreinlega ekki vera fyrirhafnarinnar virði, sem er auðvitað tótal kjaftæði því í svona eftiráfrásögn hafa myndir heilmikið gildi, þó ekki væri nema fyrir það eitt að sýna veðrið eins og það var. 

Ég fór fyrst út í Keldudal fyrir u.þ.b. tuttugu árum, skrifaði frásögn um ferðina fyrir sex, sjö árum og þá með myndum. Ef ég finn þá frásögn hlekkja ég á hana -HÉR-

Það dró aðeins úr rigningunni er leið á daginn og þokunni létti heldur. Þegar við snerum til baka kom upp sú hugmynd að heimsækja sundlaugina á Þingeyri. Það var semsagt laugardagseftirmiðdegi, dumbungsveður og gjóla, akkúrat svona veður sem fær fólk til að skella sér í flotta innisundlaug með potti og öllu - en hvar var þá allt fólkið? Jú, í sundlauginni voru tvö stelpuskott að afgreiða og auk okkar komu tveir menn, trúlega feðgar og sátu skamman tíma í pottinum. Það var nú öll aðsóknin að þessu fyrirmyndarmannvirki. Við höfum líklega dvalið hátt í klukkutíma í laug og potti og vorum, eins og fyrr segir nær einir á svæðinu. Eftir sundlaugarferðina var haldin pylsuveisla í enneinnsjoppunni, sem okkur var sagt vera eina matvöruverslun bæjarins. Ég vísa aftur til fyrstu línu pistilsins en mér finnst ár og dagur síðan ég gekk um stórverslun Kaupfélags Dýrfirðinga sem þá var og hét, skoðaði bækur í bókabúðinni og dót í dótabúðinni. Í fyrrasumar var ég á Þingeyri í sirka klukkutíma og fékk þá kaffi og vöfflu í Simbahöllinni. Þar var líka einu sinni verslun...........

Full ferð á sjúkrabílnum til baka um Dýrafjarðarbrú, yfir Gemlufallsheiði á krúskontról með stillt á 95 og það dró ekki niður í dísilsleggjunni á uppleiðinni. Renningur út á Flateyri þar sem enn býr fólk á seiglunni einni saman. Þar lá stærsti bátur byggðarlagsins ónýtur á sjávarbotni við bryggjukantinn. Mér datt í hug myndir sem maður sér á netinu af yfirgefnum veiðistöðvum á Suðurskautslandinu, hálfsokkin skip, hálfhrunin hús, tómar götur........

Bjössi Drengs var hins vegar sprellifandi heima í Breiðadal og hann átti ágætis kaffi.

Um kvöldið var stórveisla hjá okkur félögum í Tjöruhúsinu, sjávarréttahlaðborð að hætti Magga Hauks. Bregst aldrei.

Svo var allt í einu kominn sunnudagur og félaginn á suðurleið aftur. Við ókum hvor sínum bíl inn í Súðavík og litum þar inn hjá vinafólki - sem skömmu síðar flutti af staðnum með allt sitt. Við áttum þó enga sök þar á, hana eiga aðrir....

Í Súðavík skildu leiðir og félaginn ók suður á við. Ég sneri til baka og tók eftir því við Arnarnesið að veðrið hafði heldur en ekki breytt um svip frá deginum áður - það hafði birt til fjalla, blámi sást í lofti og ég sá í hendi mér að nú myndi gott útsýni af Bolafjallinu. Félaginn hefði haft gaman af því að fara þangað upp en sá möguleiki var ekki lengur fyrir hendi. Eftir stutt stopp við Arnarnesið og enn styttri samráðsfund með Bassa þar sem boðið var upp á veitingar í kexformi, var afráðið að skella sér á Bolafjallið. Veðrið hélt áfram að lagast og þegar út í Bolunarvík kom var komin þessi dæmigerða vestfirska blíða að frádregnum nokkrum vindsperringi sem þó gætti ekki að ráði fyrr en uppi á Bolafjallinu sjálfu. Við Bassi röltum dálítið um brúnina, kíktum niður þar sem það var hægt og skoðuðum yfir Djúp í kíki ( ekki þó Bassi). Blæstrinum þarna á fjallinu fylgdi nokkuð kul og kulinu fylgdi letikast. Ég sneri til bíls, upp í ból og undir teppi, greip bók og las í góðan hálftíma meðan Bassi hljóp langar leiðir út og inneftir fjallinu - trúlega í leit að kindum til að reka. Að endingu var lesturinn truflaður af háværu gelti. Þegar ég leit út stóð Bassi þar og gelti að blásaklausum útlendingum á fjallaferðabíl, sem höfðu komið á fjallið án þess ég yrði var við. Útlendingarnir höfðu raunar þegar séð sakleysissvipinn á "óargadýrinu" og hlógu góðlátlega að hamaganginum. Ég fór út, bað afsökunar á "úttlensku" og fjarlægði hávaðasegginn. Okkar tími var liðinn og við héldum í rólegheitum niður af fjallinu og beint í heita pottinn í sundlaug Bolunarvíkur. Eftir hátt í klukkutíma dvöl þar meðal kunningja var enn haldið af stað og nú til Ísafjarðar. Þegar þangað kom áttaði ég mig á að ég hafði svo sem ekkert sérstakt að gera annað en að eyða deginum svo mér datt í hug að athuga hversu langt væri enn hægt að aka upp Dagverðardalinn. Um hann lá jú þjóðbraut vestur til Súgandafjarðar og Önundarfjarðar fyrir gerð Vestfjarðagangna en eftir það vissi ég það eitt að Skotfélagið hafði fengið úthlutað svæði ofarlega á dalnum og þangað myndi bílfært. Dagverðardalurinn var alla tíð malarvegur, lengst af erfiður í viðhaldi vegna halla og vatnsrennslis. Það mátti því búast við að sá kafli hans sem lítt eða ekkert er ekinn lengur væri orðinn afar lélegur.  

Það kom í ljós að upp að skotæfingasvæðinu var vegurinn var mjög þokkalegur en þar fyrir ofan var hann aðeins grófur ruddi, enda mestallt yfirborðsefni þvegið úr honum og grjótið eitt eftir. Það glamraði í bollum og könnum í hillum sjúkrabílsins þegar fetað var yfir grjótið en samt var haldið ofar því ég hafði fundið mér nýtt markmið, nefnilega að skoða hvernig vegurinn væri yfir hálsinn - Engidalsfjöllin - og að Nónvatni. Afleggjarinn að Nónvatni er aðeins ógreinilegur slóði sem liggur af hinum gamla aðalvegi um Breiðadalsheiði rétt við vegamót Botnsheiðar og í gagnstæða átt. Hann var þó nokkuð auðfundinn og sjúkrabílnum var beitt á hann.

Ekki hafði ég ekið langt þegar á mig fóru að renna tvær grímur. Vegurinn var (eins og ég vissi) afar grófur og grýttur enda lagður sem leið lá yfir klappir og holt. Sjúkrabíllinn, þó fjórhjóladrifnn væri, var augljóslega ekki hentugasta farartækið í svona ferðalag þar sem allt lauslegt var í hættu. M.a.s. Bassi var hálfhræddur við hristinginn og lætin, og kom sér fyrir í farþegasætinu við hlið mér. Það var skárra en að liggja á gólfinu. Eftir u.þ.b. kílómetra ákvað ég að snúa við og geyma Nónvatnið til betri tíma. Ákvörðuninni fylgdi önnur samhliða, nokkurn veginn á þá leið að þar sem ég ætti leið vestur fyrir veturinn á Hrossadráparanum skyldi ég aka á honum frameftir. Hrossadráparinn hefur nefnilega marga fjöruna sopið þegar kemur að erfiðum slóðum og spottum og hann getur étið þennan Nónvatnsveg hreinlega í morgunmat. 

Þegar inn á aðalveginn kom langaði mig að klára brekkuna og aka upp í háskarðið, milli kinnanna tveggja þangað sem sæist vestur til Önundarfjarðar. Á kortinu mínu heitir skarðið Breiðadalsskarð og úr Breiðadalsskarði er víðsýnt til beggja handa. Þaðan var líka auðséð að Kinnin (með stórum staf) yrði ekki ekin á sjúkrabílnum í þetta sinn því "vegurinn"  var lokaður af grjóthruni og úrrennsli.  Ég lét því staðar numið þarna á hæsta punkti Breiðadalsheiðar og myndaði yfir Dagverðardalinn, Tungudals"hálendið, út yfir Skutulsfjörð, Ísafjarðardjúp og allt yfir til Snæfjallastrandar:



Mig langaði að aka upp á Þverfjall og litast þar um. Hér áður fyrr var ég hagvanur á Þverfjalli enda átti ég mörg sporin (og hjólförin) þangað upp í misjöfnum veðrum og færð til að huga að radíóbúnaði á vegum Pósts og Síma (sem svo hétu þá). Hér gilti hins vegar hið sama og um Nónvatnsafleggjarann - ég vildi ekki mölva postulínið í hillum og skápum sjúkrabílsins og lét því liggja að sinni. Þverfjallið bíður Hrossadráparans líkt og Nónvatn og Fossavatn í Engidal.

Það er kannski rétt, af því í mörgum pistlum á undanförnum árum hefur verið minnst á Hrossadráparann, að gefa örstutta skýringu á þessu nafni - sem mörgum finnst hálf óhugnanlegt. Þannig er að sumarið ´08 sá ég á tjónaútboði hjá VÍS auglýstan átta ára Suzuki Vitara jeppa, illa dældaðan að framan. Hann var hins vegar lítið ekinn, ættaður úr uppsveitum Suðurlands og í eigu sama manns frá upphafi. Þannig hagaði til að ég átti framenda í heilu lagi á þennan bíl, gerði því allt að því fáránlega lágt tilboð í hann og lét slag standa. Fyrir einhverja tilviljun var mér hins vegar sleginn bíllinn og ég tók það sem merki um að einhver vildi greinilega stýra honum í mína eigu ( það er allt í lagi að dramatisera hlutina dálítið, ekki satt?). Þegar gengið var frá kaupunum hjá VÍS spurðist ég fyrir um tilurð tjónsins á bílnum og fékk að vita að hann hefði lent á hesti-eða hestum og skemmst svona illa við það. Ekki lágu fyrir upplýsingar um afdrif hestsins/hestanna en miðað við skemmdirnar hefur a.m.k. ein skepna steinlegið.


 Bíllinn fór svo heim á Lyngbrekkuna í viðgerð sem lauk á stuttum tíma enda allir hlutir til staðar, og hefur síðan snúist langt á annað hundrað þúsund kílómetra í minni eigu. Nú sýnir mælirinn tæpa tvöhundruðogfjörutíu þúsund kílómetra og enn er ekkert lát á þeim gamla.


Þá er upplýst allt það helsta um hrossadráparann og útúrdúr lokið.  Þverfjallið fékk semsagt að vera í friði að sinni og leið okkar Bassa lá til baka niður að gamla sæluhúsinu Kristjánsbúð, við vegamót Botns- og Breiðadalsheiða. Sú var tíðin að við skellinöðruguttar höfðum þarna viðkomu á ferðum okkar yfir heiðar þegar við sóttum í að heimsækja upprennandi dömur á Suðureyri og Flateyri (Hér er skylt að taka fram að í þeim efnum bar Suðureyri höfuð og herðar yfir Flateyri - miklu fleiri og miklu fallegri stelpur!). Ég fullyrði að í þá daga var hlutum sýnd meiri virðing en síðar varð og aldrei mun það hafa hvarflað að nokkrum okkar að ganga um húsið öðru vísi en með tilhlýðilegri virðingu. Nú er öldin önnur og gamla sæluhúsið á heiðinni hefur ekki sama hlutverki að gegna og áður, þegar engin voru Vestfjarðagöngin. Nú koma þangað fáir, og þeir fáu sem koma fá að vera í friði með það sem þeim dettur í hug. Stundum rekast þarna uppeftir krumpaðar sálir sem fá eitthvað út úr því að leggjast á gamalt, fúið sæluhús og rífa það sundur með berum höndunum:



Gamla sæluhúsið er klárlega ekki svona útlítandi af völdum veðurs, því það veður sem hefði valdið álíka skemmdum hefði líka feykt ruslinu burtu. Brotin lágu hins vegar beint neðan við, sárin voru nýleg og það var deginum ljósara að sá eða þeir sem þarna höfðu "skemmt sér" höfðu haft nægan tíma og nægan áhuga. Innandyra var eitt og annað sem hefði mátt hirða ef áhugi hefði verið fyrir hendi, svosem forláta olíuofn - en kannski höfðu farartæki þeirra sem dunduðu sig við að eyðileggja húsið ekki haft flutningsgetu fyrir slíkt. Dagatalið sem hékk á veggnum innandyra hafði heldur ekki haggast fyrir neinu veðri.......


Mér fannst þetta dapurlegt merki um mannanna eðli. Ofan við húsið stóð gamli vitinn sem í náttmyrkri og dimmviðri varpaði hvítum geislum með stuttu millibili yfir heiðina. Oft var vitaljósið eina skíman sem maður hafði á heiðinni þegar ferðast var um í slæmu veðri á vélsleða Símans sáluga. Þá var ekki verra að geta skotist inn og beðið af sér hríð eða safnað kröftum fyrir næstu atrennur, annaðhvort upp á Þverfjall eða áleiðis heim. Það er orðið langt síðan síðasta leiftrið lýsti út yfir heiðina en vitinn stendur enn:



Frá Kristjánsbúð lá leiðin niður heiði á ný. Það var farið að halla degi og Hamraborg farin að kalla í kvöldmat. Enn ein helgin að líða, tvöhundruðogsjötíu kílómetra þvælingur um Keldudal í Dýrafirði, Súðavík, Bolafjall og Breiðadalsheiði að baki og kominn tími á smáhvíld. Við tóku fimm virkir dagar, svo var aftur komin helgi. Það var mikið ferðast þá helgi og dugar í annan pistil...........


(Örstutt í lokin: Mér hefur ekki tekist að finna pistilinn sem ég skrifaði forðum um Keldudal í Dýrafirði. Blog-central kerfið er lokað og ég kemst ekki í efnið mitt þar. Ég á líka eftir að finna myndir af ferðinni yfir að Nónvatni ´89 en hún er geymd á vísum stað og birtist síðar)


Flettingar í dag: 1
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 966
Gestir í gær: 124
Samtals flettingar: 69888
Samtals gestir: 17637
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 00:00:37


Tenglar