Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


05.05.2013 10:11

Afar stuttur pistill.

Ég ætla ekki að vera langorður núna enda er komin sól og mig langar út í góða veðrið. Það er sunnudagur fimmti maí og við Bassi vorum á fótum um hálfátta. Nú, að loknu áttunda bindi af "Þrautgóðir......" og hálfsannarstíma tölvugrúski er ég engu nær um viðfangsefni gærkvöldsins. Ókei, kannski ekki "engu" en þó frekar litlu. Viðfangsefnið er Hellyer -togari sem er á gamalli ljósmynd. Togarinn er skemmdur eftir áfall, trúlega brotsjó því efri hluti brúarinnar virðist mölbrotinn. Sá hluti var allajafna úr tré og mér sýnist liggja hurðarfleki í brakinu. Mér er næst að halda að myndin sé ekki tekin hér á landi. Í baksýn eru hús sem mætti svo sem alveg ætla að væru húsin við Hafnarstræti á Ísafirði og sæjust frá höfninni við þetta sjónarhorn eftir Fellsbrunann - Fell skyggði jú á húsin að hluta frá höfninni séð. Skýringin er hins vegar langsótt, finnst mér.  Hitt eru staðreyndir að myndin er ljósmynd -ekki fréttamynd eða blaðaúrklippa - og virðist sem slík vera frummynd en ekki eftirtaka, og hún er geymd í kassa vestur á Ísafirði þar sem ég skannaði hana fyrir nokkrum árum.

Togarinn er frá Hellyer- útgerðinni í Hull. Það er ljóst af skorsteinsmerkinu, stóru H-i í blaktandi fána. Framan á skorsteininum má svo sjá stafinn H og undir tölustafina 45. Miðað við sjónarhornið vantar einn tölustaf framan við þessa 45 og þar með er skráningarnúmerið óljóst. 1923 varð Hulltogarinn St. Clair fyrir áfalli hér við land og m.a. brotnaði ofan af brú hans. Skv. upplýsingum brotnaði einnig reykháfur hans svo ekki er hann á myndinni, auk þess sem St, Clair bar skráningarnúmerið H-803. 

Togarar frá Hull  sem báru skráningarnúmer með endastafina -45 eru allnokkrir en um engan þeirra finnast upplýsingar sem fella má við þessa mynd. 

Langi einhvern að skoða stærri útgáfu af myndinni er sjálfsagt að senda hana í tölvupósti. Látið mig bara vita netfangið.......

Í trausti þess að einhvers staðar þarna úti séu nördar sem klárari eru að gúggla en ég, legg ég málið í dóm:


Flettingar í dag: 56
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 122
Gestir í gær: 55
Samtals flettingar: 64441
Samtals gestir: 16735
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 08:37:03


Tenglar