Hann var svo sem ekkert sérstakur, sunnudagsmorgunninn fjórði september, þegar hann heilsaði okkur Bassa í Ólafsvík. Það var þvert á okkar væntingar - okkur vantaði sól! Ókei, kannski ekki endilega sól, en allavega hærra skýjafar en það sem hékk niður í miðjar hlíðar fjallanna yfir Ólafsvík. Væri horft frá tjaldsvæðinu í Ólafsvík vestur yfir Breiðafjörð til Vestfjarða var þar blámi að sjá í lofti - hún bregst ekki, vestfirska blíðan þegar maður getur ekki nýtt hana. Við Bassi vorum hins vegar staddir í sömu helvítis þokufýlunni og daginn áður, síst skárri og verri ef eitthvað var.
Bassi var hundfúll, ég var bara fúll. Við átum morgunmatinn í fýlu, skrifuðum niður símanúmer gæslunnar á tjaldsvæðinu með fýlu (við áttum von á að verða rukkaðir kvöldið áður eða um morguninn eins og stóð á upplýsingablaði í hreinlætisaðstöðunni. Enginn kom) en það var sama hversu oft við reyndum að hringja, enginn svaraði. Þeir vildu greinilega ekki taka númerið á Útilegukortinu okkar, þarna í Ólafsvík.
Til að drepa tímann meðan almættið hreinsaði til í háloftunum gengum við um nágrenni tjaldsvæðisins. Þar rétt ofar er stöðvarhús Rjúkandavirkjunar, sem sér bænum fyrir rafmagni. Við gengum að húsinu og lituðumst um.
Öllu er þarna vel og snyrtilega við haldið eins og tíðast er um virkjanamannvirki.
Við hlið stöðvarhússins var stór kassi, umbúðir utan af nýjum búnaði. Á kassanum var áletrun sem bar með sér að höfundur hennar hefði ekki haft ensku að móðurmáli. Allavega kannaðist hvorugur okkar Bassa við ábendinguna: "....please be carefully...o.s.frv":
Ekki svaraði enn í símanúmerinu sem uppgefið var á tjaldsvæðinu, mér var næst að halda að Ólafsvík/Snæfellsbær væri búin/n að missa áhugann á að rukka svæðið þetta sumarið. Ferðadrekinn var færður út að bensínstöð Orkunnar og fylltur af dropanum dýra, en áhöfnin fékk pylsur. Bassi, sem reyndar er ekki vel séður allstaðar, varð að borða sína í bílnum. Ég á stundum erfitt með að skilja þessa fordóma gagnvart Bassa mínum - held þetta sé á stundum tilkomið vegna þess að hann er svartur. Þó hélt ég að búið væri að banna alla fordóma gagnvart lituðum. Bassi er ekki einusinni alveg svartur - hann er meira svona út í grátt, þið vitið....... Ég skil það alveg að fólk vilji ekki fá hunda inn í híbýli sín eða verslanir. Bassi er bara enginn venjulegur hundur! Hann er nefnilega svona Bassahundur og er alveg sérstakur að sínu leyti. Það vita þeir einir sem kynnst hafa.
Allt um það. Ekki vildi enn birta í lofti svo neinu nam og ekki varð séð til fjalla. Snæfellsjökull var einhversstaðar þarna uppi í móskunni og sýndi sig ekki. Það var því útlit fyrir að þessi fyrirhugaða ferð um Jökulháls yrði "flopp", eða eiginlega hálfgert flipp. Það er lítið spennandi að aka þessar slóðir í fyrsta skiptið og sjá varla sín eigin þurrkublöð! Við Bassi höfðum þrjá kosti: Sá fyrsti var að aka aftur til baka inn ströndina til Grundarfjarðar, hitta Hrólf Hraundal vegna Econolineflaksins og halda svo suður og heim beinustu leið um Vatnaleiðina. Það væri samt andskoti lásí endir á annars góðu ferðalagi. Annar kostur var að aka úteftir og fyrir Nes. Sá hængur var á að aðeins voru liðnir nokkrir dagar frá því ég var þar á ferð með Svenna rakara (og gerði þeirri ferð skil m.a. HÉR , hér og hér ) Mig langaði ekkert sérstaklega til að aka nákvæmlega sömu slóðir strax aftur. Þriðji kosturinn var að aka um Jökulháls í blindþoku og treysta á að ég sæi eitthvað skemmtilegt á leiðinni ef rofaði á milli. Sú leið var valin með handauppréttingu, þar hafði ég augljósan vinning þar sem skv. minni ákvörðun telja loppur ekki við slíkan gjörning og Bassi því ekki atkvæðisbær. Við lögðum á Jökulhálsinn rétt uppúr klukkan ellefu um morguninn.
Ekki höfðum við ekið langt upp frá Ólafsvík þegar við fóru að blasa fallegar náttúrumyndanir, gil, ásar og dalverpi, lækir og fossar. Þarna uppfrá var einnig mannvirki sem trúlega er vatnsból Ólsara, allavega kom ég því ekki heim og saman við uppistöðulón Rjúkandavirkjunar, sem skv. korti átti að vera vestar.
Við vorum komnir nokkuð ofarlega í hæðirnar þegar þetta útsýni inn með Nesinu opnaðist. Það er Búlandshöfði sem sér til þarna rétt hægra megin við miðja mynd.
Þarna uppi var hár toppurinn á ferðadrekanum farinn að skrapa botn skýjahulunnar. Allt í einu opnaðist útsýni sem kom mér til að grípa kortið til glöggvunar á því hvern andskotann við værum eiginlega að fara! Ég hélt ég væri að aka upp fjallið en ekki út með því, en þarna á þessum bletti opnaðist sýn til Rifs og Hellissands. Tappinn þarna fyrir miðri mynd mun heita Búrfell og vera 232 mtr. hátt. Það er um sextíu metrum hærra en Ejer Bavnehöj, sem er hæsti tindur (en samt eiginlega enginn tindur, heldur mjúkrúnnuð kúla með steinhlöðnu mónúmenti efst) Danmerkur.
Jæja. Þar kom að því! Þoka, þétt og þykk, skítakuldi og raki. Útsýnið hvarf og engin leið var að átta sig á umhverfinu. Mér fannst samt að svo mikil hreyfing væri á þokunni að henni hlyti að létta þá og þegar. Ég hleypti Bassa út til að létta á sér, hann kom strax til baka aftur sem benti til að engar kindur væru nálægar! Við vorum á svona einskismannslandi, kannski höfðum við villst inn á einhvern kennileitalausan útilegumannaslóða sem leiddi hvorki fram né til baka! Í miðjum þessum vangaveltum kom Volvo station fólksbíll á sendiráðsnúmerum akandi út úr þokunni á móti okkur. Það gat aðeins þýtt að vegurinn sem ófarinn væri enn, væri ekki verri en sá ágæti malarvegur sem við höfðim lagt að baki. Ég hafði staðið í þeirri meiningu að Jökulháls væri torfæra hin versta og á þeim forsendum í rauninni haft bíltúrinn af Svenna rakara skömmu áður. Væri hann ekki verri en svo að aka mætti um hann á sendiráðsVolvó þýddi það aðeins að ég vissi ekki neitt um neitt!
Ég greip til símans og hringdi suður, í hana Elínu Huld. Fyrir mér vakti aðeins ein spurning: "Sérðu jökulinn?" EH hváði, skildi ekki spurninguna fyrr en eftir pirrandi útskýringar. Þá fékk ég að vita að á Stór-Kópavogssvæðinu væri skafheiðríkt og Snæfellsjökull blasti við, baðaður sólskini. Bíddu við! Vorum við ekki á sömu plánetu? Hvert hafði þessi útilegumannaslóði leitt mig? Ég taldi mig vera nálægt há-hálsinum en hér var sko engin heiðríkja, öðru nær! Þegar EH fór svo að skjóta á mig háðsglósum fyrir þennan glataða þvæling sleit ég samtalinu snarlega. Setti upp ketil og sauð upp bollasúpu og Neskaffi (sem var jú við hæfi á þessum stað). Skipaði svo Bassa að leggja sig og skreið sjálfur til hvílu - ég ákvað að liggja af mér þessa þoku, henni myndi örugglega létta um síðir.
Eftir hálfsannarstíma mók rak útvarpið mig á fætur. Það hafði verið stillt á hádegisfréttir RUV en eftir að þeim lauk hófst dagskrá með einhverju tónlistarefni sem var fallið til þess að vekja menn frá dauðum. Enn var þoka og sýnt að ekki dygði að sofa allan daginn. Þá væri skömminni skárra að koma sér suður yfir Nes og reyna að ná í eitthvað af blíðunni á Vesturlandinu. Ferðadrekinn var ræstur og haldið af stað. Ekki hafði ég lengi ekið þegar þokan tók að trosna. Svo fór að birta í henni og greinilegt var að sólin var ekki langt undan. Þokan gliðnaði meira, birtan jókst og allt í einu stakkst framendi ferðadrekans gegnum vegg og við blasti þetta útsýni:
Snæfellsjökull! Þetta var alveg furðulegt skýjafar. Afturendi bílsins var hreinlega í þoku en framendinn ekki, svo skörp voru skilin. Svo fuku bólstrarnir til og frá, annað veifið var jökultoppurinn í þoku, svo birtist hann aftur baðaður sól. Alveg einstakt! Fyrir framan okkur sást toppur Stapafells ofan Arnarstapa, Hellnar sáust til hægri en inn eftir Nesinu mátti sjá hvernig skýjahulan lá eftir endilöngum fjallgarðinum og norðan hans. Sunnan við var skafheiðríkjan sem Elín Huld hafði lýst frá Kópavogi.
Af aðalveginum lá slóði upp í vikurhólana austan við jökulinn, greinilega mikið ekinn enda þónokkur fjöldi túristabíla á svæðinu. Ég renndi inn á þennan slóða og ók upp á plan sem virtist vera vinsæll myndatökustaður, allavega var þar nokkuð af fólki að mynda.
Frá þessum stað lágu hjólför áfram upp vikurkúlurnar, þarna voru nokkrir gígar og túristabílarnir höfðu ekið ákveðna leið upp á brúnina sem ber yfir framenda toppsins á ferðadrekanum. Við Bassi lögðum af stað gangandi til að kanna leiðina. Hún var greiðfær og þarna uppi margfaldaðist útsýnið enn. Að neðan er horft til austurs. Nesið sem skagar suður í Faxaflóann er Búðahraun, nær er Breiðavík en handan nessins er Búðavík. Í fjarska sér allt inn að Staðastað:
Við gengum á stórum gígbarmi rétt austan undir jökulröndinni. Ofan í gígnum var talsvert af spýtnabraki sem ég taldi víst að væri frá vikurnámi Jóns Loftssonar og félaga um miðja síðustu öld. Í úthlíðum gígsins var sömuleiðis talsvert af braki, sem virtist allt af sama meiði. Út undan okkur mátti sjá einhverja hrúgu uppi á barminum, og þangað gengum við Bassi. Það sem við blasti gat ekki tengst neinum vikurframkvæmdum. Það líktist miklu meira sæluhússrústum:
Mér fannst alveg furðulegt að sjá þessa rúst á þessum stað. Þarna hafði jökulröndin trúlega verið áður, og húsið því alveg uppundir jökli. Þarna lá engin alfaraleið, hún var miklu neðar, eða um hálsinn þar sem akvegurinn liggur nú. Hvers vegna þetta hús hafði verið reist þarna var mér algerlega hulin ráðgáta. Heimkominn lagðist ég í "gúggl" með merkilegum niðurstöðum sem birtast hér neðan við.
Hér má sjá slóðann sem túristabílarnir hafa fylgt upp á gígbarminn. Eins og við Bassi höfðu fleiri lagt leið sína uppeftir í blíðviðrinu sem þarna ríkti, við hittum a.m.k. tvenn erlend pör sem gengið höfðu með slóðanum upp á brúnina og mynduðu í gríð og erg. Væri svo horft í hina áttina, þ.e. til jökulsins mátti sjá fólk á gangi í dældinni milli jökulrótanna og gígbarmsins sem við stóðum á.
Það var dálítið skemmtilegt að fylgjast með hábungunni, hvernig hún umvafðist skýjum og hreinsaði sig aftur með nokkurra mínútna millibili:
Ég "súmmaði" inn eftir ströndinni og hér sést betur það sem tíundað var ofar, þ.e. austurhluti Breiðuvíkur, Búðahraun og Búðavík. Myndin er aðeins of óskýr til að hótelið að Búðum sjáist. Hins vegar sést gígurinn Búðaklettur vel í miðju hrauninu:
....og væri litið til suðurs blasti Stapafellið við, vinstra (austan) megin þess má sjá smáhorn af Arnarstapa en vestanmegin sjást Hellnar í vikinu sem gengur inn í hraunið rétt handan fjallsins. Í hvarfi undir öxlinni lengst til hægri er svo Dagverðará:
Ég sagðist hér ofar hafa lagst í "gúggl" varðandi kofarústirnar á gígbrúninni austan Snæfellsjökuls. Útkoman varð þessi: Árið 1932 kom hingað til lands dans-svissneskur leiðangur til að gera veðurathuganir á Jökulhálsi. Leiðangursmenn létu reisa kofa á þessum stað og tvöldu tveir þeirra í honum tæpt ár, eða til 1933. Eftir að dvölinni lauk eignaðist þá nýstofnað Ferðafélag Íslands, kofann. Ekki löngu seinna fauk hann og eyðilagðist. F.Í. endurbyggði og-bætti skálann að nýju og stóð hann þannig nokkur ár sem bækistöð útivistar- og skíðamanna. Skálinn reyndist erfiður í viðhaldi, enda veðurhæð óskapleg á þessum slóðum og viðirnir í húsinu fúnuðu fljótt vegna jarðhita í gígbarminum (húsið var byggt sem A-hús, lágir veggir á steyptu gólfi og sperruendar í jörð). Með árunum lagði Ferðafélag Íslands skálann af og hann ónýttist, en viðir og bárujárn sem lengi hafa legið undir ís og snjó, fjúka um nærliggjandi slóðir, eftir því sem jökullinn hopar ofan af því.
Þessi mynd hér að ofan er fengin af forsíðu tímaritsins "Veðrið", sem útgefið var þann 1.9. 1970. Hún sýnir austurhlið hússins, þ.e. þá hlið sem inn með nesinu sneri. Í baksýn má sjá jökulbunguna, og það er greinilegt að á þeim tíma sem myndin er tekin, hefur verið allmiklu meira af ís og snjó þarna en nú er. Það er dálítið gaman að bera saman gluggana sem sjást á þessarri mynd við þá sem sjást í brakinu á myndinni minni sem tekin er frá sama horni. Greinilega má sjá gluggana í brakinu!
Beina slóð á tímaritið "Veðrið" má finna HÉR . Lesið textann sem birtist, hann er afar fróðlegur en athugið að fletta þarf blaðsíðutalinu (PAGE) í dálknum vinstra megin til að finna forsíðuna. Flettið niður á við (vinstra megin) af síðu 39 til síðu 37. Þar er forsíðan með myndinni hér að ofan. Fyrirfram þökk fyrir lánið.
Niðurlag pistilsins birtist fljótlega, og inniheldur m.a. myndir af leifum vikurnáms Jóns Loftssonar og félaga.