Við niðurlag fyrri hluta stóð ég á hlaðinu að Þormóðsstöðum og spáði í skriðuna miklu sem féll sumarið ´95. Eins og þar kom fram er talsverður húsakostur á býlinu en langvarandi notkunar- og viðhaldsleysi fylgir óhjákvæmilega hnignun. Hér má sjá hvernig mæniás stóru hlöðunnar hefur brotnað, líklega undan snjóþunga, og sígandi þakið síðan dregið gaflinn innávið. Það verður ekki langt þar til hvorttveggja fellur niður í húsið, því veggurinn hlíðarmegin er að gefa sig og þakið illa farið þeim megin.
Myndin er tekin til norðurs (og aðeins nær vestri), það er horft út Sölvadal og í fjarska út með fjöllunum vestan Eyjafjarðarsveitar.
Bakhlið íbúðarhússins og bæjarhlaðið. Til hægri gengur Þormóðsstaðadalur inn en fyrir miðri mynd heldur Sölvadalur áfram. Á milli dalanna er Tungnafjall, yfir 1000 mtr.
Ég rölti hringinn um húsið, sem er talsvert farið að láta á sjá, enda aldarfjórðungur síðan búskap lauk. Einhver búseta mun hafa verið á bænum eftir að Ísfirðingurinn brá búi vegna skriðuskemmdanna, en mínar upplýsingar bentu til að ekki hefði verið rekinn búskapur sem nefna mætti því nafni. Nú standa hús öll auð...
Þegar ég rölti fyrir hornið sem næst sést á myndinni rak ég tærnar í upprúllaða hönk af vír sem einna helst líktist síma-loftlínuvír, hálffalda í háu grasinu. Ég missti jafnvægið, baðaði út handleggjum og skældist einhvern veginn nokkra metra meðfram húsveggnum, þar til ég náði jafnvægi á ný. (þetta eru auðvitað ónauðsynlegar upplýsingar, en þó brúklegar fyrir framhaldið)
Eftir að hafa skoðað nægju mína að Þormóðsstöðum hélt ég til baka. Eins og fram kom standa í Sölvadal fjögur býli (eða leifar þeirra), það neðsta er Seljahlíð, þá Eyvindarstaðir, næst Draflastaðir og innst eru Þormóðsstaðir. Þegar ég ók frameftir tók ég eftir mannaferðum við Draflastaði. Þar stendur íbúðarhúsið ekki lengur en stórt og mikið útihús, líklega hlaða, er neðar í túninu. Þegar ég renndi hjá í bakaleiðinni stóð maður uppi við veg og heilsaði. Ég mátti til að stoppa og spjalla dálítið. Maðurinn kvaðst vera eigandi Draflastaða og fjölskyldan væri þar með hesta. Hann sagði son sinn vera að smala saman hrossahóp í hlíðinni ofar, sem stæði til að reka í tún. Búið var að leggja lausar girðingar yfir veginn með nokkurra metra millibili. Ég mátti til að spyrja manninn um búsetu á Þormóðsstöðum og skriðuna miklu, og svo það sem mig hafði grunað en var ekki alveg viss um, þ.e. slysið sem varð í gilinu neðan Eyvindarstaða sl. vetur, þegar ungur maður lenti í krapaflóði við heimavirkjunina og lést. Um þetta allt saman fékk ég talsverðar upplýsingar og hefði eflaust getað fræðst enn frekar hefði sonurinn ekki nálgast með hrossahópinn. Þar með gafst ekki tími fyrir frekara spjall, ég þakkaði fyrir mig og kvaddi.
Á myndinni að neðan eru Eyvindarstaðir, laglega hýst jörð en nú mannlaus. Þeir voru tveir, drengirnir við virkjunina, sá eldri var ábúandi og sá yngri (sem fórst) var gestkomandi og hjálparhella. Eftir slysið hvarf ábúandinn á braut og eftir standa auð hús.
Horft upp eftir Núpá, fram Sölvadal til suðurs. Vinstra megin (austan) við ána má sjá móta fyrir vegslóða á árbakkanum. Ofan við litla fossinn er stíflan sem krapaflóðið fyllti og vélarhús virkjunarinnar er einnig í hvarfi við bakkana.. Áin og gilið eru ósköp sakleysisleg svona að sumarlagi, en það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá fyrir sér hvílíkt veðravíti og fannakista þessi staður getur orðið á hörðum vetri. ....
Gilið sem sést hér að neðan er á mínu korti nefnt Illagil. Yfir það er göngubrú sem sést á myndinni. Eflaust hefur hún oft komið smalamönnum vel...Lækurinn í gilinu sameinast Núpá.
Ég rölti dálítið um þessar slóðir og geymdi bílinn á mel neðan vegar, þaðan sem gott er að ganga og vel sést til allra átta.
Á neðsta býlinu vestan Núpár, Seljahlíð, var búið til 1960, Þetta er íbúðarhúsið, braggi með steyptum göflum. Húsið var merkilega heillegt þrátt fyrir að standa opið, en á eldri myndum má sjá að lengst af hefur það verið lokað, spjöld í gluggum og dyrum.
Þegar maður skoðar þessi fyrri tíma húsakynni verður maður stundum að minna sig á að þar réðu grunnþarfirnar fyrst og fremst - hefði fólk stól til að sitja á, rúm til að leggja sig í og sæmilegan yl til að hlýja sér - hvers var þá hægt að óska sér frekar. Braggahúsið að Seljahlíð var fyrst og fremst íbúðarhús - ekki íburðarhús!
Dálítill kvistur er á þekjunni hlíðarmegin, og inn um hann mátti líta eldhúsið, eða það sem eftir var af því:
Eftir þessa skoðunarferð um Sölvadal og nágrenni lá leiðin aftur út til Akureyrar. Ég hugðist fá mér gott að borða og skreppa svo í sundlaugina. Þegar ég kom heim í Furulundinn, þar sem orlofsíbúðin mín var, greip ég hins vegar í tómt. Ég fann hvergi húslykilinn, hvernig sem ég leitaði. Allt annað var á sínum stað í vösunum, aðeins lykilinn vantaði. Það gat aðeins bent til eins: Að lykillinn lægi inni á borði, þar sem hann lá vanalega þegar ég var inni. Securitas á Akureyri sinnir lyklavörslu fyrir stéttarfélagið mitt og þangað mátti ég leita eftir aukalykli. Það var auðsótt mál og innan hálftíma var ég aftur kominn upp í Furulund og inn á gólf. Þar var hins vegar enginn lykill sjáanlegur.
Andskotans.........
Þá þurfti að leggjast í rannsóknarvinnu á eigin ferðum og hegðun frá morgni til heimkomu. Staðreyndir málsins voru eftirfarandi: Ég var með gat á hægri buxnavasanum sem gerði hann ónothæfan til lyklageymslu. Þ.a.l. voru bæði bíllyklar og húslyklar í vinstri vasanum. Í hægri vasanum var veskið nokkuð öruggt, enda þykkt og mikið að vanda! ( ekki þó af seðlum - ég er haldinn þeirri áráttu að geym alla miða sem til falla í veskinu). Veðrið var svona eins og sést á myndunum svo það var engin þörf á yfirhöfn. Þ.a.l. hafði ég aðeins þessa tvo vasa um að velja þegar ég vildi losna við símann úr hendinni, væri ég á göngu, og notaði þá oftast þann vinstri. Það hafði þann ókost að þar sem símahulstrið er með segulloku vildu stundum stakir málmhlutir fylgja með upp úr vasanum.
Þar með liggja staðreyndirnar fyrir. Ég treysti því að húslykillinn, stakur smekkláslykill á grænni plastkippu, hefði ekki fallið úr vasanum á bílastæðið þegar ég fór að heiman að morgni. Þá var Lögmannshlíðarkirkja næst. Þangað fór ég, endurgekk hvert skref frá morgninum og rannsakaði hvert grasstrá. Enginn lykill.
Næst var Möðruvallakirkja. Ég gekk alla sömu slóð og að morgni en mundi þó vel að ég hafði verið með símann í hendinni alla gönguna og aldrei snert vasann nema á bílastæðinu - enda fann ég engan lykil.
Annar mögulegur staður var fyrrum Shellsjoppan við Orkubensínstöðina á Akureyri. Ég hafði komið þar við til að hreinsa flugur af framrúðunni áður en ég hélt inn í sveit. Engan lykil var þar að sjá og afgreiðslan kannaðist ekki við a neinn hefði komið þangað með óskilalykil. Ekki gat lykillinn heldur legið úti í sveit, þar sem ég hafði myndað yfirbygginguna af Dalvíkurtogaranum, því þegar ég hafði farið út úr bíl á þeirri leið hafði ég tekið símann liggjandi í sætinu og skilið lykilinn eftir í svissinum. Þ.a.l. hafði ég ekki snert vinstri buxnavasann, þar sem húslykillinn átti að vera.
Það var farið að skyggja og ég átti eftir að leita inni í sveit. Það var langur akstur alla leið inn í Djúpadal og þaðan inn Sölvadal og vonlaust að ná því fyrir myrkur. Sú leit varð því að bíða næsta morguns. Sonurinn ætlaði að aka norður heiðar frá Reykjavík þann dag, ég var með ákveðna dagskrá í huga fyrir okkur síðdegis svo ég ákvað að taka þriðjudaginn snemma og leita sveitina.
Klukkan var korter gengin í níu þriðjudagsmorguninn 15. september þegar ég lagði upp frá Leirunesti. Það var enn frost þótt lítið væri, og rakinn í vegköntunum var hélaður. Á stöku stað í innsveitinni gætti hálku. Það tók nákvæmlega þrjú korter að aka frá Leirunum alla leið inn sveit og fram Sölvadal að Þormóðsstöðum. Á leiðinni inneftir varð ég nefnilega sífellt sannfærðari um að lykillinn hefði yfirgefið vasann þegar ég baðaði út öllum öngum, hálfflæktur í símavírshönkina sem falin var í grasinu. Svo bjargföst var þessi trú að ég ákvað að byrja þar og leita svo úteftir ef byrjunin yrði árangurslaus.
Á slaginu níu steig ég út úr bílnum á bæjarhlaðinu, litaðist um einn hring og gekk svo beint niður fyrir húsið að vírhönkinni. Yfirlits að sjá var þar ekkert sem skar sig úr, en þegar rýnt var í grasið sást eitthvað ljósgrænt milli stráa, litur sem ekki féll að einlitu umhverfinu.....
Um það er svo sem ekkert meira að segja - það hefði svo sem ekki haft nein stórkostleg eftirmál hefði lykillinn tapast. Líklega hefði kostnaður við skráarskipti í íbúðinni lent á mér og ekkert við því að gera, en þarna lá semsagt lykillinn nákvæmlega á þeim stað sem hugboðið hafði sagt. Ég ók í rólegheitunum til baka til Akureyrar við hækkandi hitastig og þverrandi hélu.
Ég ákvað að halda lánslyklinum til lokadags, þar sem drengurinn var á leið norður og heppilegt gat verið að hafa tvo lykla. Þar til hann kæmi drap ég tímann við slæping. Þegar hann svo renndi í hlað var næsti áfangi skipulagður. Í næstu ferð á undan hafði ég farið um Vaðlaheiðina, í fyrsta sinn á ævinni svo mitt minni ræki til. Sonurinn hafði hins vegar aldrei farið um hana og nú skyldi úr bætt. Á yfirlitsmyndunum hér að neðan er horft inn eftir Fnjóskadal og niður Dalsmynni.
Við héldum svo áfram álíka leið og ég hafði farið áður á hjólinu, þ.e. niður Dalsmynni ( en slepptum Fnjóskadalnum sjálfum) og ókum sem leið lá út undir Grenivík og þaðan inn Eyjafjörð til Akureyrar. Það leið að kvöldi og sýnt að ekki yrði meira ferðast þann daginn enda fór birta þverrandi.
Miðvikudagurinn 16. rann upp og við lögðum snemma af stað ( á almennum frí-mælikvarða) og héldum austur á bóginn um Vaðlaheiðargöng. Ferðinni var heitið að Skjálfandafljóti og upp með því austanverðu. Í fyrrasumar kom ég innan frá Laugafelli niður Bárðardal og fór þá með fljótinu vestanverðu niður á miðjan dal. Þar er brú yfir fljótið, nærri skólanum sem áður var en hýsir nú hótel Kiðagil. Austur yfir hana fór ég í fyrra til að komast sem fyrst að Fosshóli en þar var bensínstöð og ég orðinn tæpur.
Nú skyldi því halda fram Bárðardal vestanverðan upp að brú, síðan yfir hana og áfram inneftir að austanverðu, eins langt og hægt væri. Á leiðinni komst ég að því að sonurinn, þótt víða hefði farið, hafði aldrei komið fram að Aldeyjarfossi. Það fannst mér miður enda umhverfi fossins stórkostleg náttúrusmíð. Við ákváðum því að aka framhjá brúnni og áfram inneftir að vestanverðu, sömu leið og ég hafði komið af fjöllum árið áður. Muni ég rétt eru aðeins um 17 km. frá vegamótunum við skólann/hótelið að Aldeyjarfossi og við höfðum nægan tíma. Leiðin inneftir er skemmtileg og m.a. er ekið um mikið kjarrlendi og skógrækt, þar sem haustlitirnir nutu sín stórkostlega. Klukkan var ekki nema um ellefu að morgni þegar við lögðum bílnum á bílastæðinu við Aldeyjarfoss og gengum af stað í áttina að árgilinu. Á bílastæðinu stóðu yfir framkvæmdir, því búið var að fjarlægja gamla og lúna hreinlætisaðstöðu sem þó kom mér ágætlega í fyrrasumar. Í staðinn voru komnar undirstöður stærri og eflaust betri "þjónustumiðstöðvar".
Ég held að ég sleppi öllu frekara blaðri á blað og láti myndirnar tala. Um Aldeyjarfoss má finna talsvert efni á netinu og þeir sem á annað borð rata inn á þessa síðu geta auðveldlega aflað sér betri þekkingar en ég get komið á framfæri í stuttum kafla....
Í austri mun vera Sellandafjall, 988 m.y.s.
Horft niður Bárðardal:
Örstuttu ofan við Aldeyjarfoss er Ingvararfoss, önnur mögnuð náttúrusmíð sem hefur fallið dálítið í skuggann af frænkunni neðar.
Sprunga í berg, sem eflaust á eftir að skríða og víkka. Dýptin var talsverð, en þó ekki næg til að fela rusl sem túristar höfðu fleygt þangað niður
Frá Aldeyjarfossi og Ingvararfossi héldum við aðeins lengra inn eftir, að Hrafnabjargafossi. Ég leit lauslega á hann í fyrra en nú var lag að skoða betur. Einhverra hluta vegna tók ég ekki myndir við Hrafnabjargafoss en vil í staðinn benda á stórkostlega myndasíðu HÉR
Okkar leið lá svo til baka niður Bárðardal að brúnni títtnefndu, yfir hana og til hægri er yfir var komið. (þ.e. til suðurs austan Skjálfandafljóts eftir vegi 843, Lundarbrekkuvegi.) Þar með vorum við komnir á þær slóðir sem fyrirhugað var að skoða þennan daginn. Vegurinn liggur fram sveitina framhjá kirkjustaðnum Lundarbrekku. Sem áhugamaður um kirkjur og kirkjuskoðun ákvað ég að láta Lundarbrekku bíða þar til ég hefði betra tækifæri og rýmri tíma, því ferðafélaginn (í þessu tilfelli sonurinn) var og er ekki jafn áhugasamur um kirkjur og ég. Þessvegna læt ég duga hér að benda á aðra frábæra myndasíðu þar sem fegurð staðarins nýtur sín betur en ég hefði nokkurn tíma getað sýnt. SJÁ HÉR
Vegurinn sem við ókum liggur alla leið inn að Svartárkoti og endar þar þótt slóðar liggi lengra. Áður en að Svartárkoti kæmi beygðum við inn á afleggjara til norðurs sem merktur var Engidalur. S.k.v. okkar korti var Engidalur eyðibýli en vegurinn virtist liggja lengra til norðurs en að bænum, þá merktur sem slóði. Við vorum báðir algerlega ókunnugir á þessum slóðum og völdum því frekar þennan veg heldur en þann að Svartárkoti, sem fyrirfram var vitað hvar endaði og bíður því betri tíma.
Vegurinn inn að Engidal reyndist hinn besti malarvegur, og þegar að býlinu kom, snyrtilegum húsum í ágætri umhirðu að sjá, tók við allra þokkalegasti slóði áfram til norðurs. Við dóluðum áfram, skimuðum í allar áttir og gleyptum í okkur allt sem fyrir augu bar. Þar má helst nefna Sandvatn austan vegar, frekar stórt vatn en grunnt að sjá. Slóðinn liðast um landið, niðurgrafinn og holóttur á köflum en annars ágætur. Við höfðum ekið u.þ.b. tíu kílómetra frá Engidal, yfir hæð sem svo hallaði til norðurs, þegar við mættum tveimur fjórhjólum. Af búnaði aftan á þeim mátti ráða að þar færu smalar í fjárleit. Örskömmu síðar blasti við okkur stórt sveitabýli þar sem augljóslega var rekin talsverð ferðaþjónusta. Á upplýsingaskilti við veginn stóð nafnið Stöng (sjá Hér)
Þarna kom ég af fjöllum - í orðanna fyllstu merkingu! Ég hafði ekki hugmynd um að þarna, sem ég taldi lengst inni í r###gati, væri rekin myndarleg ferðaþjónusta. Sonurinn hafði þó hugmynd enda sjóaður í túristabransanum en hafði þó aldrei á staðinn komið. Það kom svo í ljós stuttu síðar að Stöng var ekki sá afkimi sem ég hélt, þegar við bókstaflega duttum inn á þjóðveg #eitt örfáum kílómetrum norðar.
Við vorum farnir að finna til svengdar enda talsvert liðið á daginn og nestið að heiman löngu uppurið. Við afréðum því að aka suður fyrir Mývatn að versluninni við Reykjahlíð og kaupa okkur næringu þar. Frá Reykjahlíð héldum við svo um Kísilveg til Húsavíkur í stutta skoðunarferð og vorum komnir "heim" til Akureyrar rétt um það bil sem birtu tók að bregða..........
Upp rann fimmtudagurinn 17. september og líkt og áður var ferðaáætlun dagsins tilbúin að morgni. Ætlunin var að heimsækja áfangastað sem lengi hafði verið á óskalistanum en aldrei náð í framkvæmd. Nú skyldu skoðaðar þær slóðir sem eitt sinn stóð til að sökkva, líkt og gert var við Stíflu í Fljótum en þó margfalt yfirgripsmeira. Um þetta tímabil í virkjanasögunni hefur margt verið ritað og talað, og m.a.s. var fyrir stuttu gerð kvikmynd um bændur í Laxárdal og við Mývatn sem gripu til öflugra aðgerða gegn fyrirhuguðum virkjana- og stífluframkvæmdum.
Áfangastaður fimmtudagsins var Laxárdalur.
Við vorum snemma á fótum, gleyptum í okkur morgunmat og þeystum svo af stað austur um Vaðlaheiðargöng. Við völdum okkur leið um Hringveg yfir í Reykjadal og þaðan niður að Grenjaðarstað og að Laxárvirkjun. Eftir að hafa litið á virkjunarmannvirkin sjálf héldum við fram Laxárdal eftir þokkalegum malarvegi. Við höfðum kort til að styðjast við en það var frekar ónákvæmt. Aðra leiðsögn höfðum við ekki. Fyrst og fremst langaði okkur að sjá þennan dal sem eitt sinn stóð til að fylla af vatni með risastórri stíflu. Sem betur fór tókst að stöðva þau áform svo enn má ferðast um þessa náttúruparadís og njóta...
Skv. kortum og öðru lesefni var Laxárdalur eitt sinn fjölmenn sveit með mögum bæjum og búum. Nú hefur fólki fækkað mikið og líklega er aðeins búið á tveim bæjum allt árið, Auðnum og Hólum. Annarsstaðar standa tóftir, sumarhús og jafnvel reisuleg íbúðarhús í mismikilli umhirðu. Við dóluðum í rólegheitum inn dalinn og reyndum að missa ekki af neinu. Þegar við höfðum lagt u.þ.b. þriðjung dalsins að baki klofnaði vegurinn í tvennt. Eystri hluti hans lá yfir Laxá á brú og rétt ofan hennar austan megin stóð hús sem greinilega var veiðihús, enda merkt þannig. Neðan brúarinnar austan megin stóðu hins vegar áberandi rauðir vikurhólar, ekki óáþekkir Rauðhólum hér syðra enda reyndust þeir við athugun bera sama nafn.
Enn fórum við drjúgan spotta á þokkalegum malarvegi ( á gamlan, vestfirskan mælikvarða) og komum að reisulegu býli vestan ár, sem stóð á áberandi stað dálítið uppi í hallandi ásnum sem skilur milli Laxárdals og Reykjadals. Þetta var kirkjustaðurinn Þverá, og um leið og ég sá bæjarskiltið rifjaðist upp fyrr mér nokkuð sam sagt var við mig fyrir "ekkisvolöngu" : "Ef þú ferð Laxárdalinn verður þú að skoða Þverá". Á þeim tíma var merkingin ekki ljós fyrir mér en hún varð það þarna. Að Þverá stendur nefnilega einn af örfáum torfbæjum á landinu sem haldið er við en eru ekki í alfaraleið líkt og Laufás, Glaumbær og Keldur á Rangárvöllum. Torfbærinn að Tyrfingsstöðum á Kjálka (sem ég var nýbúinn að heimsækja og skrifa um) er að sönnu afskekktur en Þverá er þó hálfu afskekktari og líklega eiga ekki margir annað erindi þangað en beinlínis að skoða þennan sögufræga stað - að frátöldum laxveiðimönnum. Að Þverá var nefnilega stofnað fyrsta samvinnufélag Íslands, Kaupfélag Þingeyinga (sjá HÉR) og viðburðarins er minnst og honum gerð skil með upplýsingaskiltum inni í torfbænum.
Við vorum á leið inn dalinn og vissum sem var að leið okkar myndi liggja til baka síðar um daginn. Við ókum því framhjá Þverá og áfram inn að Auðnum, þar sem frá vegi að sjá er rekið stórbýli. Við Auðnir er hlið á veginum og innan þess stóðu tvö hross. Þau komu brokkandi þegar við opnuðum hliðið og hleyptum okkur í gegn en urðu líklega vonsvikin þegar þeim varð ljóst að við vorum ekki að koma eftir þeim.
Innan við Auðnir versnaði vegurinn til mikilla muna enda var ljóst af öllum okkar upplýsingum að innar voru aðeins eyðibýli. Engar frekari upplýsingar höfðum við þó um þau því Árbók F.Í um svæðið hafði orðið eftir á Akureyri vegna minnar gleymsku. Við fetuðum slóðina í rólegheitum enda haustlitadýrð umhverfisins allsráðandi, eins og sjá má á myndunum hér neðar. Á þeirri efstu er horft til baka niður Laxárdal, á næstu er horft fram dalinn í átt til Mývatns og á þeirri þriðju - ja, bæði upp og niður....:
Svo birtist allt í einu eyðibýli sem okkur kom saman um að hlyti að vera Ljótsstaðir. Við það endaði vegurinn í raun þótt slóð lægi innar. Okkar lágbyggði slyddujeppi réði ekki við háan grashrygginn í miðjunni svo við fórum ekki lengra. Innan Ljótsstaða stóð eitt sinn býlið Varastaðir en skv. okkar upplýsingum voru þar aðeins tóftir. Við vorum ekki göngubúnir svo Varastaðir verða að bíða um sinn.
Húsið að Ljótsstöðum virtist fljótt á litið vera nýendurbyggt en við nánari skoðun sást að svo var ekki. Gluggar höfðu þó flestir verið endurnýjaðir sem og gler, en í einum þeirra var þó rúða brotin, líklega eftir byssuskot. Dyrabúnaður hafði sömuleiðis verið endurnýjaður fyrir nokkru síðan og þakjárn og rennur, sem litu út fyrir að vera frá deginum áður, reyndust vera úr ólituðu áli og því svo glansandi. Húsið allt hafði verið pússað utan og heildarútlit þess var ótrúlega gott. Á miða við útidyr var ábending til ferðamanna, þar sem þeim var gefið leyfi til að nýta húsið að vild, en með fylgdi sjálfsögð ósk um góða umgengni. Textinn var ritaður bæði á íslensku og ensku en upplitaðir stafirnir báru með sér að talsvert væri liðið frá því þeir voru skrifaðir.
Okkur virtist sem húsið hefði ekki verið byggt í einu lagi heldur í áföngum og innsti (syðsti) hluti þess, sá sem næstur er á myndinni, myndi vera elstur. Nyrðri hlutinn var eins konar tengibygging yfir í tveggja hæða hús. Á öllu var greinilega endurnýjað þak og sama álklæðningin. Að baki tvílyfta norðurhússins var hlaða sem ekki hafði fengið sömu yfirhalningu og húsið sjálft. Hún var þaklaus og steypan verulega farin að láta á sjá. ennfremur var að húsabaki áfastur geymsluskúr, siginn og skakkur, feyskinn opg fúinn eins og gamli, sorrý Gráni....
Þar sem húsið var læst veltum við fyrir okkur hvernig þeim ferðamönnum sem á miðanum voru boðnir velkomnir, væri ætluð innganga. Við hverri spurningu er til svar og svarið fundum við í jörðinni, án þess það verði frekar tíundað hér ( en lausnin var snilldarleg og auðskilin hverjum hugsandi manni)
Það var algerlega ótrúlegt að koma inn í þetta gamla hús - inn á þetta gamla heimili - sem virtist hafa verið yfirgefið snögglega og allt skilið eftir, hvaða nafni sem það nefndist. ( þegar við heimkomnir lögðumst í rannsókn á ástæðunni varð hún ljós, nokkurn veginn eins og okkur sýndist og kemur fram við sögulok). Gamansamir ferðamenn höfðu þó aðeins tekið til hendinni:
Í eldhúsinu var flest eins og aðeins ætti eftir að kveikja undir kaffinu þegar von væri á fólki heim af engjum eða frá gegningum... við nánari skoðun var þó ekki allt sem sýndist, og blöndungur Sólóvélarinnar var aftengdur. Skiljanleg ráðstöfun m.t.t. gesta sem gætu látið sér detta í hug að kveikja upp án þess að hafa til þess kunnáttu.
Í kjallararými tvílyfta hlutans var þessi forláta LISTER ljósavél. Flest var á sínum stað en þó dagsljóst að ár og dagar voru frá því að að hún hafði gegnt hlutverki sínu. Þetta var bensínvél, gerólík þeirri sem ég sá í Fagradal í Breiðdal í sumar og við athugun kom í ljós að heddið var ekki skrúfað á hana heldur lá það laust og ofan á því steinninn sem sést á myndinnni. Bensíntankurinn var laus og ótengdur.
Vélin var vatnskæld og í stað aftöppunarkranans var trétappi. ( Á þeim tíma sem þessi vél var framleidd og sett upp var frostlögur munaðarvara og algengara að kælivatninu væri tappað af vélum væri búist við frosti)
Miðarnir við útidyrnar. Á þeim efri stendur: "Veiðimenn. Verið svo vænir að ganga ekki inn á brodduðum vöðlum. Þökk. Húshaldari.
Efstu orð enska textans skýra sig sjálf. Í textanum er gefið leyfi til að gista í rúmunum, en eins og staðan var, var það ekki fýsilegt lengur því uppábúin rúmin voru þakin ryki og músaskít.
Í eldhússkápunum var margt sem minnti á "gamla daga"
Heildarútlit og svipur hússins var sterkt og svipmikið og viðgerðirnar höfðu greinilega kostað talsvert fé og mörg handtök. Lítið hafði þó verið gert í langan tíma en vonandi verður framhald á því það væri synd ef allt sem gert hefur verið færi forgörðum...
Á myndinni hér að neðan sést brotna rúðan í miðju húsinu. Það var ekki fyrr en ég var kominn langleiðina til baka til Akureyrar sem það rann upp fyrir mér að réttast hefði verið að fara heim að Auðnum og láta vita - það hefði jafnframt verið nóg af efni og verkfærum í húsinu sjálfu til að útbúa plötu fyrir gluggann. Því miður gerði ég hvorugt og verð að naga mig í handarbökin fyrir.....
Á leiðinni niður dalinn til baka renndum við heim að Þverá, eins og fyrirhugað hafði verið. Bærinn var mannlaus eins og búast mátti við, það voru ekki merki um að veturseta væri að Þverá þótt íbúðarhúsið væri reisulegt og snyrtilegt. KIrkjan og torfbærinn standa spölkorn norðan við íbúðarhúsið, og við litum fyrst á kirkjuna. Hún var læst eins og við mátti búast en við skoðuðum eins og við gátum. Um kirkjuna má lesa nokkur orð HÉR
Ég varð að nota sömu aðferð og oft áður, þ.e. að leggja símann á glerið, mynda inn og vonast til að árangurinn yrði viðunandi:
Af ummerkjum mátti skilja að torfbærinn væri opinn og til sýnis að sumarlagi. Nú var sumarið hins vegar liðið og enginn til staðar til að sýna okkur bæinn. Það var dálítið miður en þó ekki svo mjög, því þar með var fundið tilefni til að heimsækja þessa fallegu sveit að nýju næsta sumar - eða þarnæsta....
Á dálitlu malarplani neðan vegar, skammt frá heimreiðinni að Þverá, stendur þessi minningarstöpull um einn af máttarstólpum þjóðvegakerfisins á Íslandi og þess þrekvirkis sem á sínum tímavar unnið í vegalagningu og tengingu byggða sem áður voru afskekktar. Jón J. Víðis var fæddur að Þverá í Laxárdal og var einn þeirra manna sem karl faðir minn nefndi jafnan með virðingu, hafandi sjálfur tekið þátt í lagningu og viðhaldi vega á Vestfjörðum um árabil.
Eftir þessa heimsókn að Þverá kvöddum við Laxárdal að sinni og héldum til baka niður að Laxárvirkjun við dalamótin. Þaðan ókum við upp hálsinn austan Aðaldals, upp í Reykjahverfi og suður Kísilveginn að Mývatni. Þar keyptum við okkur í svanginn og ókum síðan "heim" til Akureyrar að nýju. Að morgni voru hússkil og leið föstudagsins lá suður að nýju.
Við lestur finnanlegra heimilda um Ljótsstaði og í leit að skýringu þess að bærinn virtist hafa verið yfirgefinn svo að segja fullbúinn og verið í eyði um árabil, kom margt í ljós. Eitt af því var stórmerkileg staðreynd í mínum augum, því að Ljótsstöðum var fæddur Ragnar H. Ragnar, söngstjóri, kórstjóri, stofnandi og skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar og einn frumkvöðla í öflugu tónlistarlífi Ísfirðinga um áratugaskeið.
Bróðir Ragnars úr stórum hópi, Helgi Skúta Hjálmarsson var bóndi að Ljótsstöðum með foreldrum sínum meðan þeirra naut við, síðar með ráðskonu, sambýliskonu og barnsmóður en síðustu veturna einbúi. Helgi var virtur maður og vinamargur í sinni sveit. Hann varð bráðkvaddur heima við snemma vetrar 1965 ( HÉR), aðeins 63 ára gamall og síðan hefur ekki verið búið að Ljótsstöðum......
Svo hagaði til að ég hafði í sumar leigt íbúð á Akureyri vikuna 11-18. september í ákveðnum tilgangi. Á tímanum sem leið þar á milli urðu hins vegar þær sviptingar í samfélaginu að tilgangurinn raskaðist og um tíma var útlit fyrir að engin not yrðu fyrir íbúðina á leigutímanum. Til að svo yrði ekki var sett saman vikulöng ferðaáætlun fyrir einn um staði sem annaðhvort voru lítt kannaðir eða alls ekki. Svo voru aðrir staðir í bland sem ég hafði oft farið um ( og suma margoft), svona til að fylla dagskrána.
Föstudagurinn 11. sept. var venjulegur vinnudagur, jafnt hjá mér og öðrum. Ég nennti ómögulega að keyra norður eftir vinnu svo ég valdi laugardaginn frekar. Ekki man ég annað en að ferðin hafi verið tíðindalaus og aðeins stoppað í Varmahlíð til að fá sér einn kaffibolla. Þegar til Akureyrar kom og búið var að sækja lyklana að íbúðinni var næst á dagskrá að kaupa inn til kvöldsins og einnig eitthvað til næstu daga. Þegar átti að kveikja upp í grillinu sem fylgdi í búðinni reyndist kveikibúnaður þess ónýtur. Í eldhússkúffu lágu tveir kertakveikjarar, báðir tómir. Ég mátti því drífa mig niður í Hagkaup og fjárfesta fyrir stéttarfélagið mitt í einum (reyndar tveimur) slíkum. Með því var hægt að grilla dýrindis veislumáltíð fyrir einn - og eins og sjá má er smekkur veisluhaldarans einfaldur....
Ég hringdi í Hauk Sigtrygg á Dalvík. Það er fastur liður þegar maður kemur norður að hringja í Hauk og fala kaffibolla. Það var ákveðið að hittast morguninn eftir, sunnudag. Á leiðinni úteftir kom ég við á Hjalteyri og naut þeirrar bryggjuparadísar um stund...Svona var veðrið upp úr kl. 9 að morgni:
Eftir kaffi og spjall á Dalvík lá leiðin áfram út í Ólafsfjörð. Þar ætlaði ég að hitta frænku sem reyndist ekki vera heima. Ég hélt því áfram inn sveitina, leið sem ég hef ekki farið árum saman, og yfir Lágheiði í hálfgerðum þokuslæðingi. Einn af minnispunktunum fyrir þessa norðurferð var Knappsstaðakirkja í Stíflu (Fljótum). Ég hef ekki farið mjög oft um Lágheiði en í hverri ferð heitið sjálfum mér að skoða Knappsstaðakirkju "næst" Nú var komið að þessu "næst" og í leiðinni gat ég séð heim að lúxushótelinu að Deplum. Svo langt er síðan ég fór um Fljótin að ég man ekki til að hafa séð það áður. Það lætur ekki mikið yfir sér enda eru fínheitin víst aðallega innan dyra - og svo er hitt, að engir peningar geta keypt þetta stórkostlega umhverfi...
Knappsstaðir eru aðeins spöl neðar (norðar) en Deplar. Býlið er greinilega sumardvalarstaður og kirkjan stendur í brattanum ofan þess. Á myndinni er horft niður dalinn í átt að Stífluhólum, bak við skiltið. Skýjafarið gefur ekki rétta mynd af veðrinu, sem var hlýtt og stillt.
Býlið Knappsstaðir. Horft er yfir Stíflu og inn eftir Tungudal. Býlið Tunga var þarna handan vatns. Nú er talað um að virkja Tungudalsá, svona rétt eins og ekki hafi nóg verið skert í þessarri fallegu sveit.
Það er sérstök heimtröð að kirkjunni og við hana er ágætt bílastæði. Umhverfið er afgirt, ég skildi bílinn eftir við hliðið og tölti áfram..
Það er mikill en látlaus virðuleiki yfir þessarri fallegu kirkju undir hlíðinni. Maður hægir ósjálfrátt á sér, hálfpartinn læðist um garðinn og gætir þess að draga ekki andann að óþörfu....Þarna ríkir kyrrðin og þetta litla, einfalda guðshús er í æpandi mótsögn við lúxusjeppana sem aka öðru hverju til og frá Deplum.....
Grunnur kirkjunnar er vel gerður og jafn, og stögin - jarðfesturnar - sterk og góð. Mér varð hugsað til Silfrastaðakirkju sem ég hafði skoðað stuttu áður og er nefnd í pistli hér neðar. Þar eru bæði grunnur og festur á fallanda fæti....
KIrkjan var að sjálfsögðu læst - nokkuð sem þótti nær óhugsandi hér áður fyrr, þegar kirkjur áttu að standa öllum opnar. Tímarnir breytast, mennirnir með og ekki alltaf til hins betra. Ég mátti því mynda inn eins og oft áður, með því að leggja símann minn á glerið....
Klukknaportið, með hreiðri eins og svo mörg fleiri. Þessum klukkum er ekki oft hringt svo það má leiða að því líkum að hreiðurbúinn hafi fengið þokkalegn frið til að koma upp fjölskyldu...
Eftir Knappsstaði hélt ég áfram niður Stíflu, fór yfir Fljótaá til vesturs við Skeiðfossvirkjun og þá leið niður á Siglufjarðarveg. Síðan eftir honum lengra til vesturs að Flókadal og inn eftir vestari Flókadalsvegi. Mig hefur lengi langað að fara inn dalinn er aldrei orðið úr fyrr en nú. Undir Mósfjalli standa þrír bæir, Ysti-mór, Mið-mór og Syðsti-mór. Sá fyrsti í eyði, hinir í ábúð. Innar eru Vestari Hóll, Sigríðarstaðir, Austari Hóll ( á mynd hér að neðan), eyðibýlið Nes ( á næstu mynd) og svo Neskot ( þriðja mynd)
Vegurinn krækist um Neskot og liggur niður í dalbotninn. Þaðan liggur hann áfram sem hálfgerður troðningur að sumarhúsi enn innar, þar sem mun hafa staðið býlið Illugastaðir. Á myndinni er horft upp í tvo dali ofan Neskots, sá hægri (nyrðri) mun heita Blikárdalur og sá syðri Illugastaðadalur.
Myndin hér að neðan er tekin frá réttinni sem merkt er á kortið við rauða depilinn og horft er inn Flókadal. Lengra fór ég ekki í þetta sinn, en eflaust á ég eftir að fara þessar slóðir á mótorhjólinu seinna meir og þá á vegarenda.
Við réttina var þetta laglega vað á Flókadalsá, grunnt og engin fyrirstaða hvorki hjóli né bíl - en það voru heldur engar vorleysingar heldur komið fram á haust. Eflaust getur áin grett sig talsvert meira í leysingum....
Á leiðinni til baka stoppaði ég augnablik við Ysta-mó og myndaði reisulegt íbúðarhúsið, sem eflaust væri mikils virði í þéttbýli en stendur þarna autt að sjá, verðlítið og fáum til gagns....
Frá Flókadal hélt ég "heim" til Akureyrar um Siglufjörð og Ólafsfjörð. Það var farið að kvölda þegar ég kom í hús svo við tók kvöldmatur, sjónvarp og síðan bók sem ég sofnaði ofan í.....
Á eftir sunnudegi fylgir óumflýjanlega mánudagur. Þessi mánudagur var ekki til mæðu - allavega ekki til að byrja með. Eftir venjubundið morgunkaffi í "Bakaríinu við brúna" fór ég í bíltúr upp í Hlíðarfjall til að skoða leifarnar af Bryndísi ÍS, sem stendur við Hlíðarenda og grotnar niður. Bryndís ÍS 69 leit eitt sinn út eins og sjá má HÉR en eftir að galvaskir menn hófu "uppgerð" hennar fyrir mörgum árum lítur hún út eins og á myndinni að neðan.
Skammt frá Hlíðarenda er Lögmannshlíðarkirkja. Hana hafði ég oft séð en ekki fundið leið að henni (og kannski lítið leitað). Nú gerði ég leit að veginum og fann hann fljótlega. Einhverjir sem slysast til að lesa skrifin mín hafa eflaust orðið varir við kirkjuáhugann sem stundum bregður fyrir. Ég telst varla trúaður og fer sjaldan í kirkju, helst þá að tilefni gefnu. Mér finnst hins vegar ákaflega gaman að skoða og mynda þessi sérstæðu hús, sem mörg hver eru allt frá torfkofatímabili okkar Íslendinga. Lögmannshlíðarkirkja er tvímælalaust í hópi þeirra fallegustu sem ég hef skoðað.
Kvisturinn á þakinu er sérstæður, og eins óvenjulega lágur turn miðað við stærð kirkjunnar sjálfrar. Engin klukknaport eru á turninum en í honum eru tvær klukkur. Hringingunar má heyra HÉR . Það er ekki laust við að dálítill Bessastaðasvipur sé á turninum:
Það er enginn kvistur á norðurhlið þaksins, heldur aðeins í sólaráttina....
Sunnan við kirkjuna er þessi einkennilegi leg"steinn". Það hafa jú allir sína trú...
Frá Lögmannshlíð lá leiðin norður eftir hlíðinni, eftir vegi sem ég hafði aldrei farið um áður. Þar var margt að skoða svo ég ók hægt. Mér sýndist svo leiðin greinast jafnvel enn lengra norður en athugaði það ekki frekar nú heldur hélt beint áfram og kom niður við Lónsá, og tjaldsvæðið sem ég dvaldi á í næstu norðurferð á undan. Við Lónsá sneri ég til norðurs á Þjóðvegi#eitt og á Moldhaugahálsi út á Ólafsvíkurveg. Næsti staður sem skoða skyldi þennan morgun var nefnilega:
Það kann að vera með ólíkindum að áhugamaður um kirkjur aki árum saman fram hjá Möðruvallakirkju, stórfallegri kirkju við alfaraleið, án þess að líta á hana. Þannig er það nú samt, en nú skyldi bætt úr.
KIrkjusmiðurinn, Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni var ákaflega merkur maður og um hann má lesa nokkur orð HÉR
Eyfirska skáldið Davíð Stefánsson frá Fagraskógi var jarðsettur að Möðruvöllum. Mig langaði að finna leiðið en tókst ekki þrátt fyrir talsverða viðleitni.
Frá Möðruvöllum er hægt að aka sveitabæjaleið (813) út með hlíðinni. Þar sem sá vegur tengist svo Ólafsfjarðarvegi aftur, þ.e. skammt frá bæjum að Hofi, eru svo önnur vegamót, aðeins örfáum metrum norðar. Þar er ekið inn á veg 812 til austurs, þ.e. í átt til sjávar. Vegurinn liggur skammt frá sjó og tengist að lokum Hjalteyrarvegi. Þetta er ákaflega skemmtileg sveitabæjaleið og af henni má sjá margt skemmtilegt, líkt og gömlu yfirbygginguna af b.v. Dalborgu EA, sem endurnýtt var sem sumarhús. Ágæta mynd af Dalborginni með þessa yfirbyggingu má sjá HÉR
Ég ók veginn til enda, út að Hjalteyrarvegi og síðan eftir honum og Ólafsfjarðarvegi til baka inn að Moldhaugahálsi og hafði þá ekið leið sem svarar nokkur veginn til tölunnar 8.
Næst á dagskrá var vegur sem ég vissi ekkert um, annað en að hann liggur frá Eyjafjarðarbraut inni undir Grund, og upp í hlíðina til suðurs (þ.e. inn Eyjafjarðarsveit ofan þjóðvegarins). Þessi vegur er merktur sem 824 og á skilti við mót hans stendur Möðrufell. Vegurinn er búinn að vera lengi á óskalistanum og nú skyldi hann kannaður. Þetta reyndist enn ein frábærlega skemmtileg sveitabæjaleið sem liggur langt fram í Djúpadal og endar við býlið Litla Dal, en á leiðinni er ekið fram hjá Stóra Dal, reisulegu og snyrtilegu býli. Af vegi 824 má hins vegar aka aftur niður á Eyjafjarðarbraut áður en farið er fram í Djúpadal, eftir vegi 825. Á myndinni hér að neðan er horft innan úr Djúpadal út eftir Kaupangssveit og það má sjá að Vaðlaheiðin er farin að hvítna aðeins í toppana...
Vegarendi að Litla Dal. Horft er fram Djúpadal. Mér fannst athyglisvert þetta stóra A-hús þarna ofantil. Þetta byggingarlag er (eða var) algengt á sumarhúsum en þetta hús var miklu stærra og veglegra en öll þau A-laga sumarhús sem ég hef hingað til séð. Neðsta húsið, íbúðarhúsið, mátti hins vegar muna sinn fífil fegurri...
Landið á þessum slóðum er mjög skorið og ekki auðvelt fyrir ókunnuga að átta sig á örnefnum, en dalurinn sem horft er inn í til vinstri gæti heitið Strjúgsárdalur. Eftir honum rennur Strjúgsá, en framar er djúpidalur margskorinn og rennur spræna eftir hverjum afdal. Allar sameinast þær í Dalsá sem virkjuð var fyrir nokkrum árum og stendur annað stöðvarhúsið niðri við Eyjafjarðarbraut. Sjá meira HÉR
Úr Djúpadal la mín leið aðeins í eina átt - til baka. Ekki þó alla leið heldur aðeins að vegi 825 og þaðan niður á Eyjafjarðarbraut. Næst á dagskránni var nefnilega merkilegur staður, sem mig hafði líka lengi dreymt um að skoða.
Sölvadalur er innarlega í austanverðri Eyjafjarðarsveit. Hann er frekar þröngur og greinist innantil í tvennt um Tungnafjall. Annarsvegar gengur Sölvadalur austanvert, en vestan við fjallið er Þormóðsdalur. Við mót dalanna er eyðibýlið Þormóðsstaðir. Þar bjó um árabil Ísfirðingur sem ég kannaðist vel við en ég hafði aldrei tök á að heimsækja hann meðan búið var. Hefðbundnum búskap var hætt að Þormóðsstöðum fljótlega eftir að gríðarstór aurskriða féll úr hlíðinni ofan bæjarins. Skriðan skemmdi ræktarland, en einnig heimarafstöðina í ánni neðan og innan bæjar. Í Sölvadal var aldrei rafveita, heldur voru ár virkjaðar á tveimur stöðum. Þormóðsstaðir höfðu sína eigin rafstöð en neðri bæirnir, Eyvindarstaðir neðar og Draflastaðir þar á milli, höfðu sína eigin rafstöð í gilinu neðan Eyvindarstaða. Enn neðar, nærri mynni Sölvadals var býlið Seljahlíð, löngu farið í eyði og líklega fyrir tíma rafstöðvarinnar.
Lesa má um skriðufallið að Þormóðsstöðum HÉR og HÉR
Að Þormóðsstöðum hefur verið vel búið á sínum tíma, ef marka má húsakostinn. Íbúðarhúsið er að sjá parhús, hvor endi spegilmynd. Útihúsin eru stór og mikil, bæði fjós og fjárhús en stóra hlaðan næst fjallinu er farin að gefa sig. Melurinn hægra megin á myndinni ofan húsanna er hluti skriðunnar frá 1995, svo stutt hefur hún verið frá húsunum.
Snæfellsnes. Endalaus uppspretta áhugaverðra fyrirbæra (þótt geimverurnar hafi ekki látið sjá sig hér um árið).
Það eru ekki nema svona tíu ár síðan við Bassi minn blessaður fórum um Jökulháls í fyrsta sinn. Síðan hef ég margoft farið leiðina, akandi eða hjólandi. ( maður hjólar ekki á bíl en ekur maður á mótorhjóli?)
Þegar við Bassi fórum um hálsinn vorum við að koma frá Ólafsvík, að lokinni næturdvöl þar. Veðrið var ekkert sérstakt, hálfskýjað og þokuslæðingur sjáanlegur við jökulinn. Þegar við komum upp undir há-hálsinn ókum við ( þ.e. ég - Bassi ók ekki neitt, eðlilega) inn í þétta þoku sem byrgði alla sýn lengra en fram á þurrkublöðin. Ég lagði því bílnum úti í breiðum vegkanti og hleypti Bassa út til að létta á sér.
( Nú var ég að átta mig á því að allt sem skrifað er hér að ofan er bergmál. Þessi ferð okkar Bassa var skráð í smæstu smáatriðum á sínum tíma og er finnanleg í listanum hér til hægri, sé fundið þar árið 2011 og smellt á "Nóvember". Ég sleppi því öllu frekara blaðri og einnig öllum seinni tíma ferðalýsingum, sem flestar má finna einhversstaðar á FB, og vind mér beint í efnið)
Af veginum um Jökulháls norðanverðum liggur leið til vesturs sem eitt sinn var merkt á skilti sem "Eysteinsdalur" Ég sá skiltið í fyrstu ferðinni um þessar slóðir en velti því mátulega fyrir mér utan að leggja nafnið á minnið til seinni tíma könnunar. Við hringveginn um Nesið, milli Saxhóls og vegarins út í Öndverðarnes stóð annað samhljóða skilti. Í tímans rás hafa þessi skilti verið endurnýjuð og á báðum mun nú standa "Snæfellsjökull". Þessi uppgötvun mín um tvö samhljóða skilti fannst mér benda til þess að leiðirnar tengdust. Ekki man ég hvort ég viðraði þessa stórkostlegu uppgötvun við nokkurn mann en vona að svo hafi ekki verið
Það liðu mörg ár þar til ég loks beygði af Jökulhálsi inn á Eysteinsdalsveg. Ástæðan var líklega sú að mér finnst svo gaman að fara Jökulháls að ég gat ómögulega sleppt ánægjunni fyrir óvissu...Auk þess var ég þá á mótorhjóli, og á mótorhjóli er ekkert gaman að fara troðnar slóðir, heldur leitar maður stöðugt uppi nýjar.
Það var svo nú að áliðnu sumri sem mér datt í hug að gaman gæti verið að ganga spölkorn um þessar slóðir. Spáin fyrir laugardaginn 5. september var afbragðsgóð en spá sunnudagsins öllu síðri. Ég ákvað að renna úr Reykjavík á ferðabílnum - að þessu sinni án mótorhjóls - og aka út fyrir Snæfellsjökul. Ég hafði stutta viðdvöl að Arnarstapa vegna þess að mig langaði í kaffisopa en nennti ómögulega að hella uppá sjálfur. Að Arnarstapa reyndust þá flestar veitingasölur lokaðar. Hótelið var þó opið og þar var hægt að fá kaffi og kökubita.
Tilgangur ferðarinnar var þríþættur, þ.e. mig langaði að skoða þrjá staði gangandi, staði sem höfðu verið lengi á dagskrá en aldrei komist að. Sá fyrsti var Eysteinsdalur og nágrenni. Þegar ég fór um dalinn síðast tók ég eftir endurvarpsstöð uppi á hnjúk vestan dalsins. Mér þótti sýnt að endurvarpsstöð væri valinn staður þar sem vel sæist til sem flestra átta og ákvað að ganga þangað upp "við tækifæri". Næsti staður var Brimnes, vestan Hellissands. Framan í Brimnesinu strandaði bátur fyrir langa löngu og ég hafði séð einhverjar leifar af honum ofan af þjóðvegi, og einnig þegar ég skoðaði gömlu hafnargarðana í Krossavík fyrir nokkrum árum. Þar sem þessi bátur var áður frá Ísafirði og ég kannaðist vel við hann þaðan, ákvað ég að ganga út Brimnesið "við tækifæri" og líta á brakið ( sá fyrirvari var þó á að fara þyrfti utan "kríutíma" því það er mikið um þann ófriðarsegg á Brimnesinu sumarlangt). Þriðji staðurinn á þessum lista var svo Svöðufoss. Svöðufoss er eins konar "mini" útgáfa af Skógafossi ( svona tilsýndar, allavega) og blasir við í suðurátt þegar ekið er um þjóðveginn ofan Rifs. Í hvert skipti sem ég hef farið um Nesið (og það er oft) hef ég horft í átt til Svöðufoss og lofað sjálfum mér að ganga að honum "við tækifæri"
Eftir kaffið og kökuna að Arnarstapa var lagt upp í næsta áfanga. Ég fór ekki Jökulhálsinn í þetta sinn, því mér leiðist glamrið í diskum og glösum, sem óhjákvæmilega fylgir búnaði ferðabílsins á slæmum vegum. Hélt mig við malbikið eins langt og hægt var og fór því fyrir Nes, framhjá Saxhóli og beygði þar inn á malarveginn sem eitt sinn stóð "Eysteinsdalur" en nú "Snæfellsjökull"
Uppi í dalnum liggur vegurinn skammt frá á, og yfir hana er göngubrú því á þessum slóðum eru vinsælar gönguleiðir. Ég fetaði uppeftir á ferðabílnum, ekki langa leið en fór ákaflega hægt til að hlífa öllum Kínaleirnum og borðsilfrinu, sem glamraði ákaflega í á grófum malarveginum. Fann mér þennan fína stað að leggja á, stæði með borði, bekkjum og brúnni.....
Á kortaklippuna hér að neðan hef ég merkt nokkur þeirra örnefna sem koma fyrir í textanum. Það er athyglisvert að á kortinu er merkt eyðibýlið Saxhóll og örlitlu austar eru merktir "Saxhólar". Eftir því sem mér hefur sýnst, er nú aðeins talað um vestari gíginn (sem við stendur hæðartalan109) sem Saxhól, og muni ég rétt vísar þannig merkt vegskilti beint á gíginn. Þrepalagður göngustígur hefur verið gerður upp á brún hans og útsýnið er skemmtilegt þaðan í góðu veðri.
Klippa af -ja.is- , þar sem merkingin sést vel þótt vegskiltið geri það ekki. Á því er sama merkingin..
Svo var lagt á "brattann". Útsýnið jókst og batnaði við hvert fótmál, og á myndinni að neðan er kirkjan að Ingjaldshóli sem hvítur depill og lengra til hægri sér til húsa að Rifi, handan Búrfells. Kletturinn lengst til vinstri er Hreggnasi.
Ég er ekki vanur að ganga mikið, nema þá helst á flatlendi og þá mjög sjaldan. Ástæða þess að ég lagði í þessa göngu var mestmegnis sú að fyrst mér tókst ( í næstu ferð á undan) að komast niður í Merkigil og upp úr því aftur án þess að fá hjartaáfall, þá langaði mig að ganga aðeins meira. Þar sem ég átti þessar slóðir ókannaðar á listanum var tilvalið að reyna sig....Það kom mér á óvart hversu hratt miðaði á brekkuna, þrátt fyrir allt. Eysteinsdalur (með bíl og brú), Geldingafell og Snæfellsjökull l.th. Fyrir ofan bílinn er Sjónarhóll, 383 m.y.s.
Merktur göngustígur liggur upp í öxlina milli Miðfells, þar sem endurvarpsstöðin er, og Hreggnasa, sem sést í mynd. Ég ætlaði á Miðfell en horfði til Hreggnasa og hugsaði með mér: " Það verður minn bani ef ég legg í þessa göngu. Þetta væri mitt Everest! "
Útsýnið af hálsinum til norðvesturs: Þarna sést allt út til Öndverðarness, og í miðmynd eru gígarnir við Saxhól. Þrepastígurinn liggur upp þann vinstra megin og frá toppnum sér yfir eystri gíginn...
Uppi á hálsinum var þetta litla vatn í greinilegum gíg. Það var ekki merkt á kortið mitt og ég hef ekki nafn á því. Frá þessum stað var vel sýnilegt að við jaðrana var vatnið grunnt en í miðjunni var hola sem ekki sást til botns í.
Ég var bara nokkuð ánægður með mig að hafa lifað þó þetta langt og að vera ekki einu sinni móður svo nokkru næmi. Fullur af ímyndaðri orku og drifinn áfram af taumlausri bjartsýni í bland við meðfædda þrjósku, lagði ég í hlíð Miðfells, beint upp. Glæsilegur Hreggnasi, Ingjaldshóll, Búrfell og Rif.
Svo var ég allt í einu kominn upp á öxl Miðfells, undir Bárðarkistu. Dalurinn sem opnast undir henni hægra megin er Saxhólsdalur. Bárðarkista hefur á mínu korti hæðartöluna 666 m.y.s., sem eitt og sér ætti að vera næg ástæða til að láta hana eiga sig....
Horft niður í innsta hluta Saxhólsdals. lengst til hægri sér til sjávar í Beruvík.
Ég gekk svo fram Miðfellið að endurvarpsstöðinni sem var hið " fyrirheitna land" ferðarinnar.
Eftir að hafa notið útsýnisins og unnins afreks um stund, labbaði ég hring um topp Miðfells. Þar rakst ég m.a. á þennan myndarlega örn:
Horft frá "erninum" út yfir Öndverðarnes:
Hellissandur og Rif, sitthvoru megin við Hreggnasa. Það mun hafa verið á þessum stað sem ég tók upp kortið mitt og uppgötvaði að Miðfell (þ.e. hæsti hluti þess, örninn minn) var skráð nokkurn veginn jafnhátt og Hreggnasi, eða um 470 mtr......og fyrst ég hafði lifað af gönguna upp og var bara ekkert teljandi móður eftir, þá fannst mér ég vera ósigrandi - en Hreggnasinn ekki! Ég lagði af stað niður á ný.....
Á niðurleiðinni skoðaði ég leiðina sem tæknimenn Mílu þurfa að fara til að þjónusta endurvarpsstöðina. Sú leið liggur upp úr innanverðum Eysteinsdal og svo beint upp í öxlina undir Bárðarkistu. Slóðin er nokkuð greinileg og svo brött að þar hljóta menn að nota sexhjól til að komast upp með tæki og annan farangur. Leiðin er stikuð nokkuð háum prikum, svo sjá megi hana í snjó.
Niðri á hálsinum, rétt við litla vatnið í gígnum er þessi móbergstappi, alsettur smásteinum. Hann er nokkuð stór um sig, og vel ríflega mín hæð ( sem vekur reyndar hvergi eftirtekt)
Eitt af því sem ég "velti mér fyrir" voru þessar holur í mosanum. Mér fannst merkilegt að einhver hefði lagt á sig að tína upp allt þetta grjót, sem mér fannst að hlyti að hafa myndað holurnar. Svo áttaði ég mig á að þarna hafði ekkert grjót verið fjarlægt - þetta var einfalt og skýrt dæmi um uppfok, samspil vatns og vinds..
Myndin hér að neðan er vel heppnuð, þótt netsíðan rýri gæði hennar talsvert. Hún er tekin á leið upp Hreggnasa og sér yfir Eysteinsdal. Frá vinstri má sjá Geldingafell (824), þá Snæfellsjökul og l.th. Bárðarkistu. Röndin í hæðirnar hægra megin er slóð Mílumanna. Hóllinn Bárðarhaugur í miðjum dal, sem áin rennur meðfram, er á mínu korti sagður 488 m.y.s., sem mér fannst engan veginn standast.
Hreggnasi var svo ekkert vandamál, og ég var bókstaflega að rifna af stolti yfir sjálfum mér þegar ég náði toppnum. Rétt við hann eru leifar af kassa sem eitt sinn geymdi gestabók. Lokið er farið af og nú geymir kassinn aðeins "jarðvegssýni". Öndverðarnes í fjarska.
Þarna lengst til vinstri, þar sem þjóðvegurinn um nesið bylgjast, má (kannski) sjá flugbrautirnar tvær sem lagðar voru á sínum tíma. Þær voru ekki lengi í notkun og nýr flugvöllur í Rifi leysti þær síðar af hólmi. Kannski hefur veður ekki verið hagstætt þarna útfrá, eða eitthvað annað og fleira ráðið. Þetta hafa allavega verið talsverð mannvirki á sínum tíma. Wikipedia hefur nokkur orð um flugvöllinn: ." Í landi Gufuskála, á svokölluðum Gufuskálamóðum, var gerður flugvöllur árið 1945. Þaðan var áætlunarflug í rúman áratug, þar til vegasamband komst á fyrir Jökul."
Brimnes, Hellissandur, Ingjaldshóll og Rif:
Svo klifraði ég upp á vörðuna sem er efst á Hreggnasa og myndaði niður fyrir tærnar :-)
Þegar mesta sigurvíman var runnin, var kominn tími til að leggja af stað niður. Brimnesið var næst og það saxaðist á daginn. Leiðin upp á Hreggnasa er öll merkt með svona stikum, allt frá göngubrúnni í Eysteinsdal.
"Sjáið tindinn, þarna fór ég...." Hreggnasi séður af bílveginum á leið til baka.
Ég keyrði niður á Brimnes eins langt og komist varð á bílnum með góðu móti. Þar lagði ég skammt frá gömlu Krossavíkurhöfninni (HÉR) og lagði land undir fót.
Horft frá Brimnesi til Snæfellsjökuls. í miðju er "Hvíta húsið" fyrrum fiskhús við Krossavíkurhöfn, síðan autt og opið í áraraðir en loks endurbyggt sem íbúð og vinnustofa.. (sjá HÉR)
Þann 17. nóvember 1983 - fyrir réttum 37 árum - strandaði vélbáturinn Ragnar Ben ÍS við Brimnes.( sjá HÉR) Ég man vel eftir þessum bát á Ísafirði, afar fallegri og vel hirtri fleytu. Báturinn var seldur úr bænum og þetta slys varð ekki löngu seinna. Ég var löngu búinn að koma auga á ryðgað járnabrak niðri á nesinu og taldi víst að það væri úr Ragnari Ben. Nú gafst loks tækifæri til að kanna málið....Fyrst kom ég að síðulaga tanki, líklega olíutanki....
Svo var það stærsta brakið, og það sem best sást frá veginum. Þetta eru leifar stýrishússins, og ég þurfti talsvert að leggja höfuð í bleyti til að finna út hvað var hvað. Eins og ég sé þetta, þá liggur húsið á "bakinu" og það er b.b. hlið þess sem snýr að. Stýrishúsið sjálft er stóra gapið, þakið hægra megin, gólfið vinstra. Leifar af klæðningargrind í stb.hlið. Rafmagnstaflan sem sést giska ég á að hafi verið í niðurgangi (stigahúsi) vélarrúmsins og sé á milliþili milli gangsins/stigans og stýrishússins. B.b. úthlið hússins er svo vöðluð inn í stigahúsið
Sé þessi tilgáta rétt er hér horft undir gólf stýrishússins og þar með í loft vélarrúmsins. Stb. hliðin á "keisnum" og afturhlið hans eru beyglaðar flatar inn undir gólfið. Framan (ofan) við stokkinn á hlið stýrishússins hefur svo hurðin verið. Framhlið hússins hefur að öllum líkindum verið úr áli og því löngu farin veg allrar veraldar - ál þolir ekki mikið brim í hrauni....
Ég hef skoðað þær örfáu myndir sem til eru á netinu af Ragnari Ben ÍS 210 og sýnist að þetta muni hafa verið stoð í toggálga við afturhorn stýrishússins. Þetta gat líka verið hluti frammastursins en stoðin er líklegri...
( Mynd Vigfús Markússon)
Ég hef engar upplýsingar um hvort Ragnar Ben hafi verið með ljósavél, en finnst það líklegt . Þessi LISTER vél gæti hafa verið ljósavélin...
Fleira brak var ekki að finna sem líklegt væri úr Ragnari Ben. Ég rölti áfram um nesið, fram á hraunbrúnina við sjóinn og út undir Gufuskála. Síðan austur með aftur og upp með fjörunni Hellissands - og Krossavíkurmegin
Framhaldsins vegna, og eins vegna þess sem á undan er komið, bjó ég til eina kortaklippuna enn. Þar eru merkt helstu örnefni sem komin eru fram eða eiga eftir að koma fram...
Það síðasta á dagskránni var Svöðufoss. Hann er tilsýndar svona eins og smækkuð útgáfa af Skógafossi, eins og ég skrifaði áður. Mig hafði lengi langað að skoða hann en aldrei orðið úr, mest vegna þess að ég vissi ekki hvernig ætti að komast þangað. Nú er komið skilti með nafni fossins við þjóðveginn um Nesið og því auðratað. Snemma í vor renndi ég hringinn um Snæfellsnes á gulu Hondunni minni, kappklæddur í kulda og nepju. Þá beygði ég af leið við skiltið að Svöðufossi og hjólaði ábentan veg. Hann lá hins vegar framhjá fossinum í nokkurri fjarlægð og áfram að eyðbýlinu Vaðstakksheiði og endaði við veglokun þar sem féll annar foss öllu minni, Kerlingarfoss. Ég tíundaði þá ferð á Facebook í maí sl. og læt þá frásögn duga.
Nú var hins vegar komið að því að finna leiðina að Svöðufossi!
Leiðina fann ég - en hún reyndist bara ekki liggja að Svöðufossi, heldur aðeins að eins konar "útsýnisstað" langt neðan fossins. Að þessum "útsýnisstað" hefur verið lagður stígur frá stóru, malbikuðu máluðu og merktu bílastæði með glerfínum grjóthlöðnum garði nokkra metra að öðrum glerfínum og grjóthlöðnum garði. Þar er þeim sem langar að skoða Svöðufoss boðið að setjast niður og virða náttúrufegurðina fyrir sér úr fjarlægð. Sá eða þeir sem hönnuðu þetta verk hafa líklega ekki haft neina tengingu við náttúruskoðun eða neitt þvíumlíkt. Þetta er rándýr framkvæmd sem skilar bókstaflega engu, því það er alveg eins hægt að skoða fossinn í kíki frá þjóðveginum við Rif eins og frá þessarri fáránlegu framkvæmd. Ég veit ekki við hvað er helst að líkja þessum fíflasirkus, því líkingin verður eflaust langsótt, ef hún þá finnst. Til að fullkomna framkvæmdina þurfti enga grjóthlaðna veggi, heldur eina til tvær litlar trébrýr yfir nálægar sprænur, og svo einfaldan göngustíg að fossinum. Manni dettur einna helst í hug að til verksins hafi verið ætluð ákveðin fjárhæð sem hafi svo klárast á miðri leið við alla grjóthleðsluna og því ekki verið hægt að ljúka verkinu. Myndin hér að neðan er tekin með aðdrætti og er sú skársta sem ég hef uppá að bjóða.
Frá þessum bekkjum í Einskismannslandi mega áhorfendur fossins horfa sér til ánægju og yndis. Manni dettur í hug svona útlenskt "Peepshow", sem flestir hafa eflaust heyrt um en auðvitað fæstir skoðað........Þar sem aðeins má horfa en ekki snerta! Þarna er boðið uppá peepshow að hætti Snæfellsbæjar.........Það er eflaust annars ágætt að sitja á þessum bekkjum, svona ef margnefnt bæjarfélag legði augnabliks vinnu í að ryðja af þeim hrossaskítnum sem skreytti þá þennan dag....
Þessar sprænur hér að neðan hefði þurft að brúa til að gönguleiðin væri greið að fossinum. Varla yrði það ofraun neinu sveitarfélagi?
Á bílastæðinu malbikaða og merkta, voru einnig vel útilátin sýnishorn af húsdýraáburði. "Því miður" myndaði ég ekki dýrðina, en tilfinningin sagði mér að á þessum marggirtu slóðum væri kannski ekki mikið um lausagöngu hrossa, svo mögulega hefðu heimamenn misskilið þetta malbikaða og merkta bílastæði sem opið haughús - eða jafnvel misskilið þá alkunnu staðreynd að gras vex ekki upp úr malbiki þótt borið sé á það ríflega af hrossataði. Þetta bílastæði verður því seint framtíðarbeitarland, þrátt fyrir góða viðleitni.
Það var farið að halla degi. Ég brá mér inn í Ólafsvík og fyllti bílinn af olíu til heimferðar daginn eftir. Grillsteik átti ég í farangrinum en ákvað að skreppa í heita pottinn í frábærri og nýlega endurgerðri sundlaug Ólafsvíkur. Þar hitti ég mann sem ég hafði rekist á fyrr um daginn við Hreggnasa, og átti við hann fróðlegt og skemmtilegt spjall um svæðið og staðina sem ég hafði heimsótt þennan dag. Ég áræddi að spyrja svona óbeint út í framkvæmdina sem ég lýsti hér að ofan, en þá varð fátt um svör. Ég hafði á tilfinningunni að fleirum en honum fyndist framkvæmdin undarleg - svo varlega sem það var orðað. Ég skildi það vel - auðvitað vilja menn standa með sínu fólki og sé manni málið skylt en ekki hægt að hrósa hlutum er stundum best að segja ekkert.....
Eftir sundið ók ég út á Hellissand og lagði bílnum á fínu tjaldsvæði sem verið er að gera enn fínna - þeim er ekki alls varnað, Snæfellingum. Þess vegna er þessi fáránleikaframkvæmd við Svöðufoss ( eða öllu heldur EKKI við...) enn óskiljanlegri...
Eins og í upphafi kom fram var veðurspáin aðeins hagstæð til eins dags, laugardagsins. Hann var að líða og meðan kjötið grillaðist dró í loft og fór að blása kröftuglega. Um tíuleytið var ég kominn undir feld með krossgátublað og sofnaði svo ofan í það undir miðnættið. Um kl. 04 vaknaði ég um stund og tók þá eftir stöðugum hvin eða són sem fylgdi kröftugum vindhviðum. Ég skaust aðeins út úr bílnum til að hlusta og áttaði mig fljótlega á að hljóðið kom frá mastrinu að Gufuskálum. Hljóðið var þó ekki hærra en svo að inni í bílnum heyrðist það aðeins sem fjarlægur ómur. Ég breiddi yfir haus og steinlá á ný.
Það var komið fram á morgun þegar ég sleppti takinu á sænginni, kveikti upp í gasinu og smurði mér brauð í morgunmat. Á miðjum morgni dólaði ég svo af stað inn norðanvert nesið. Ég hafði ætlað mér að fara úteftir aftur og sömu leið til baka og ég kom, þ.e. um Arnarstapa. Út fyrir Nes var loftið hins vegar bókstaflega svart að sjá og lítið spennandi að eiga eftir akstur í slíku veðri. Norðanvert var veðrið þó sýnu rólegra þó hvasst væri og ausandi rigning. Svo hægt fór ég inneftir að það var komið hádegi þegar ég náði til Grundarfjarðar. Þar var opin verslun sem seldi kaffi og bauð auk þess fjögurra kleinu pakka á tilboði. Ég tók tilboðinu og sat með kleinur og kaffibolla þar til nægilega dró úr úrhellinu til að fært væri til bíls á ný. Afgangurinn af heimferðinni var tíðindalaus en þetta varð síðasta ferð bílsins á árinu 2020 og við tók vetrarstaða.
Eins og áður var fram komið dróst það fram á fimmtudag 20. ágúst að haldið væri af stað aftur frá Reykjavík - ekki löng töf, þar sem við höfðum jú komið til Rvk að morgni þriðjudags eftir næturkeyrsluna að austan og þriðjudagurinn frá hádegi ásamt miðvikudeginum var varið til ýmissa verka, eins og t.d. að gera gulu Honduna ferðafæra. Milli okkar Hondunnar er ósýnileg en sterk tenging, og þótt mér hafi alltaf líkað vel við bláa Yamaha-hjólið frá því ég eignaðist það á ég nú orðið mun fleiri kílómetra að baki á Hondunni auk þess sem hún hefur ákveðna yfirburði á þröngu sviði, yfirburði sem glögglega komu fram í brekkunum upp í Nesháls við Loðmundarfjörð.
Eitt veikleikamerki hafði Hondan mín þó sýnt við prófun í Reykjavík á miðvikudeginum: Þegar átti að gangsetja hana eftir stöðuna ( frá því ég kom frá Drangsnesi) þá hafði hún aðeins start í nokkra hringi, svo dró af rafgeyminum og loks gafst hann upp! Það var því ekki um annað að gera en að kaupa nýjan geymi í hvelli og ganga frá honum í hjólið. Með geyminum fylgdu leiðbeiningar um hleðslu, hann kom semsé ekki fullhlaðinn heldur þurfti að undirbúa hann skv. fyrirmælum framleiðanda. Eftir að sýran sem fylgdi væri sett á geyminn átti að hlaða hann í 2-3 klst. þar til setja mætti álag á hann. Við þetta var ég að brasa á fimmtudagsmorguninn. Það gekk erfiðlega að fá geyminn til að sýna fulla hleðslu, svo erfiðlega að um miðjan dag gafst ég upp og ákvað að fara með hann í hjólinu engu að síður - full hleðsla eður ei.... ( til vonar og vara setti ég gamla geyminn í farangursgeymslu bílsins ásamt verkfærum til að skipta, svona ef.....)
Nóg um það. Það var semsagt farið að síga á fimmtudaginn þegar lagt var af stað frá Höfðaborg áleiðis norður í land. Tímans vegna ( ég átti að mæta í vinnu eftir helgina) var útséð um Vopnafjörð, Bakkafjörð, Rauðanes og Raufarhöfn að sinni. Ég ætlaði ekki lengra en austur að Ásbyrgi og hjóla þaðan hringinn um Dettifoss - suður eystri veginn og norður þann vestari, með viðkomu í Hólmatungum. Vegna tafanna var ég ekki kominn til Akureyrar fyrr en á miðju kvöldi og klukkan var að verða tíu þegar ég skráði mig inn á tjaldsvæðið að Lónsá. Veðrið hafði verið með ágætum allan daginn og alla leiðina norður, og lofað var sama eða betra daginn eftir.
Sú spá gekk eftir. Föstudagurinn heilsaði með blíðuveðri, og það var ræs fyrir allar aldir á tjaldsvæðinu að Lónsá. Eftir morgunmat var haldið á bensínstöðina og fyllt á bæði bíl og hjól. Til að fylla á hjólið þurfti ég að klifra upp á kerruna, því ekki varð öðru við komið. Dálítið klöngur en allt í lagi samt....Svo var lagt af stað inn eftir Drottningarbrautinni. Veður dagsins er efst á myndinni
.......og önnur veðurmynd út Eyjafjörð, svona fyrir seinni tíma skýrslu.
Ég fór auðvitað Víkurskarðið - hver vill loka sig inni í fjalli í svona veðri?
Á Húsavík var engin viðstaða höfð, þótt mannlíf föstudagsins væri komið á fullt. Túristar ársins höfðu eðlilega ekki verið margir og þeim var töluvert farið að fækka nú að áliðnum ágúst. Mannlíf á Húsavík þennan föstudagsmorgun var því kannski ekki nema svipur hjá sjón en þó var talsverða hreyfingu að sjá kringum þá hvalaskoðunarbáta sem enn voru í notkun. Norðan Húsavíkur var sýnin svona. Horft er út með Tjörnesi út í Hallbjarnarstaðakrók.
Ferðabíllinn sá að mestu sjálfur um aksturinn - hann malaði áfram á hraðastilli og ég þurfti aðeins öðru hverju að leiðrétta stefnuna á annars beinum og breiðum vegi. Svo var lestin allt í einu kominn að þjónustumiðstöðinni við Ásbyrgi. Sem snöggvast hélt ég að búið væri að loka, því aðeins var tvo bíla að sjá á planinu auk ferðabílsins.
Nei, það var ekki búið að loka, því úr öðrum bílnum kom manneskja og gekk inn í húsið. Ég ákvað að drífa hjólið af kerrunni og fá mér svo kaffisopa inni áður en ég legði af stað í Dettifosshringinn. Þegar ég var að losa böndin af hjólinu tók ég eftir því að ljós logaði á báðum ljóskösturunum þess. Ég bölvaði!
Ég hafði enga hugmynd um það hvenær eða hvernig hefði kviknað á ljósunum, en hitt vissi ég, að nýi rafgeymirinn var óskrifað blað og engin leið að vita stöðuna á honum þegar lagt var af stað að sunnan. Mér fannst líklegt að þegar ég var að klifra upp á kerruna fyrr um morguninn á Akureyri, til að setja bensín á hjólið, hefði ég rekið mig í ljósatakkann á stýrinu. Væri svo, var örugglega búið að loga á kösturnum í hálfan annan tíma. Ég renndi hjólinu af kerrunni og prófaði að starta því. Nei nei, auðvitað var ekki nóg rafmagn eftir í start!
Ég bölvaði aftur, og nú sýnu hærra......
Ég átti tvo kosti: Að tengja startkapla og gefa hjólinu start með bílnum, eða setja gamla geyminn í og taka séns á honum.....ég vissi þó allavega að hann var farinn að dala en átti þó ekki að vera alveg ónýtur. Eftir tíu sekúndna umhugsun valdi ég þá leið. Nýi geymirinn gat jú verið gallaður og hreinlega ónýtur. Þá var eitt start með köplum jafnvel ávísun á meiri vandræði, því ég gat allt eins lent í vandræðum inni við Dettifoss og ekki víst að þar væri neinn til að gefa mér start. Einföld rökfræði gaf því þá niðurstöðu að betra væri að vera lasinn en dauður.
Það tók ekki nema nokkrar mínútur að skipta um geyminn ( enda var ég í æfingu) og eftir það datt hjólið í gang eins og þessi geymir hefði aldrei látið sér til hugar koma að svíkja.....Ég drap á og labbaði yfir planið í kaffi.
Svo var lagt af stað. Klukkan hefur líklega verið farin að ganga ellefu þegar ég loks komst af stað. Leiðin lá frá þjónustumiðstöðinni norður yfir brúna á Jökulsá að mótum #Eitt og eystri Dettifossvegarins (sem á korti heitir 864 Hólsfjallavegur), og þaðan suðureftir. Fljótlega eftir að komið var inn á heiðarnar mætti ég þessu setti. Kind með tvö stálpuð lömb er allajafna ekki óalgeng sjón, en ég hafði aldrei áður, svo ég myndi, séð kind með geitarhorn. Eftir talsverða rýni og vangaveltur, þar sem illa gekk að fá fyrirsæturnar til að stilla sér upp á viðunandi máta, þóttist ég greina að mamman með geitarhornin væri ferhyrnd. Ég hafði séð uppstoppaðan haus af ferhyrndri kind á safni, en aldrei fyrr á fæti. Mér fannst þessi dagur byrja vel.......
Áfram, áfram inn heiðina og vegurinn fór úr því að vera þokkalegur yfir í að vera svona la la og þaðan yfir í að vera laus og grýttur. Ég mætti nokkrum bílum af mismunandi stærðum og gerðum og það buldi talsvert í undirvagni þeirra minnstu á grjótinu. Mér sýndist flestir vera bílaleigubílar, og varð í þúsundasta skipti hugsað til haustauglýsinga bílaleiganna, þar sem bílaleigubílar eru auglýstir þannig að látið er eins og hálf þjóðin hafi beðið í ofvæni eftir að geta loksins eignast þessar ótrúlega vel þjónustuðu gersemar.
Loks kom ég að skilti sem á stóð "Hafragilsfoss". Ég hafði enga hugmynd um neinn Hafragilsfoss í veröldinni, svo ég beygði af leið til að kanna hvaða fyrirbæri væri um að ræða.
Á þokkalegu bílastæði með merktum gönguleiðum lagði ég hjólinu og drap svellkaldur á því. Ef mín örlög væru þau að veslast upp einn í óbyggðum með rafmagnslaust hjól, þá yrði svo að vera. Ég skildi jakkann og hjálminn eftir á hjólinu og gekk af stað. Fljótlega sá ég Hafragilsfoss. Þá skildi ég líka hvers vegna hafði þótt ástæða til að merkja hann sérstaklega. Þegar þessi náttúrufegurð blandaðist veðurblíðunni var einna líkast því sem maður væri staddur í Paradís - og kannski var maður það. Í hvarfi ofan við leitið efst við Jökulsá er Dettifoss, og frá þessum stað var úðinn frá honum greinilegur.
Að neðan er horft frá stað sem kallast Sjónnípa, og er einhver besti útsýnisstaðurinn yfir Hafragilsfoss og nágrenni hans. Horft er til norðurs.
Horft frá Sjónnípu til suðausturs (eða þar um bil) í átt til bílastæðisins, þar sem einn túristabíll var mættur auk hjólsins.
Að neðan: Útsýni af Sjónnípu til Hafragilsfoss og suður eftir Jökulsá í átt að Dettifossi. Manni varð ósjálfrátt hugsað til þess að Hafragilsfoss getur aldrei orðið nema "númer tvö" á eftir Dettifossi. Svona nokkurs konar litli bróðir, sem er kannski litið á í leiðinni að þeim stóra- aðalnúmerinu. Mér varð líka hugsað til annarrar álíka tvennu, sem ég skoðaði í fyrrasumar, á leiðinni innan úr Laugafelli og niður í Bárðardal. Í ofanverðum dalnum (þegar komið er niður af heiðunum) er fyrst komið að Hrafnabjargafossi. Hann sést ekki frá veginum, en er merktur með skilti. Neðan hans er svo Aldeyjarfoss með öllu sínu stórkostlega stuðlabergi. Hann er kyrfilega merktur, við hann er hreinlætisaðstaða og svo blasir hann við frá veginum ( eða gljúfur hans). Hversu margir skyldu leggja leið sína fram Báðardal til að skoða Aldeyjarfoss en láta Hrafnabjargafoss, örfáum km ofar, eiga sig?
Í sönnum, sósíalískum anda fannst mér Hafragilsfoss alveg jafn "rétthár" og Dettifoss........alveg jafn merkilegur, alveg jafn glæsilegur....
( Það þarf svo vart að taka fram að gula Hondan mín rauk í gang í fyrsta starti og engan hörgul á rafmagni að finna )
Næst var það Dettifoss sjálfur. Numero Uno - Aðalnúmerið! Við
hann að austanverðu er þokkalegt bílastæði með hreinlætisaðstöðu (aðstaðan er miklu betri að vestanverðu enda er það "opinber" skoðunarstaður með malbikuðu plani og fínheitum). Frá bílastæðinu er svo dálítill gangur niður kletta og stórgrýti að sjálfu gljúfrinu. Gönguleiðin hefur verið lagfærð þokkalega og er enginn farartálmi sæmilega "fættum".
Við Dettifoss. Regnbogi upp úr gljúfrinu, enda ekki ský á himni.
Horft frá Dettifossi norður eftir gljúfrinu, í átt að Hafragilsfossi.
Greinilega var mun fleira fólk á ferð vestan fossins, og má sjá hluta þess bera við himin.
Enn horft í norður, niður gljúfrið í átt að Hafragilsfossi. Líklega er það Sjónnípa sem ber hæst sem dálítinn píramída næst ánni hægra megin.
Ég lagði í gönguna frá bílastæðinu nær algallaður, skildi aðeins hjálminn og hanskana eftir við hjólið. Á miðri leið mátti ég losa mig við jakkann og buffin og geymdi hvorttveggja á steini við stíginn. Það gaf dálítla hvíld að stoppa þar og hengja á sig að nýju.
Svo var haldið áfram suður eftir, á síversnandi vegi sem þó hafði lítil áhrif á hraða litlu bílaleigu-Yarisanna sem komu á móti og hentust framhjá með grjótglamrið í undirvagninum. Öðrum hleypti ég framúr, þegar þeim virtist liggja meira á en mér. Kannski ætluðu sumir túristarnir að skoða allt Ísland á tveimur, þremur dögum og lá því svona á.....Mér lá hins vegar ekkert á og tók því hlutunum eins rólega og mögulegt var.
Svo birtist húsaþyrping sem mér var ókunn. Ég vissi það eitt að þetta voru ekki Grímsstaðir, því þá hafði ég séð áður. Kortið mitt ( og vegskiltið) sagði "Hólssel" og augað sagði: "Mikil uppbygging gistiþjónustu án nokkurra gesta" Þarna var semsé ekki sálu að sjá enda staðurinn örugglega ekki í rekstri þá stundina, en fallegt og snyrtilegt var heim að líta.
Spöl neðar (sunnar) voru svo Grímsstaðir, og þar þekkti ég mig. Frá Grímsstöðum er svo aðeins stuttur spölur niður að mótum Hólsfjallavegar og #Eitt. Herðubreið í fjarska. Hún er á dagskrá næsta sumars
Svo var hjólað vestur yfir Jökulsárbrú og að mótum vestari Dettifossvegar (862). Sá vegur var malbikaður fyrir stuttu frá Hringvegi #Eitt og að bílastæði nærri Dettifossi. Ég vissi að unnið væri að áframhaldandi vegagerð norður að Ásbyrgi en leiðin væri samt opin. Ég hafði gengið að Dettifossi vestanvert fyrir skömmu og hjólaði því framhjá bílastæðinu inn á nýlagðan vegarkafla. Þessi nýi kafli var þegar malbikaður alla leið norður fyrir Hólmatungnaafleggjara.
Hólmatungur ( sjá HÉR ) eru náttúruperla sunnan Hljóðakletta og afleggjarinn að þeim er nokkurn veginn miðja vegu milli Dettifoss og Hljóðakletta. Þangað hafði ég aldrei komið (enda aldrei farið þennan nefnda vegarkafla frekar en eystri veginn) svo ég hjólaði þangað niðureftir og fékk mér göngutúr. Því miður gleymdi ég símanum í töskunni á hjólinu og gat því ekkert myndað á göngunni....!
Ég fór ekki niður að Hljóðaklettum í þetta sinn. Fór þangað 2017 og staðurinn var enn ljóslifandi í minninu. Rétt sunnan afleggjarans að Hljóðaklettum voru vegavinnumenn að störfum við ómalbikaðan kafla sem mér sýndist eiga u.þ.b. korter eftir í "álegg". Verkinu var semsé að ljúka og nú mun vera komin hraðbraut milli Ásbyrgis - þ.e. Norðausturvegar - og Hringvegarins vestan Jökulsár á Fjöllum. Af þeirri hraðbraut liggja svo áðurtaldir spottar að einum mestu náttúruperlum landsins, Hljóðaklettum, Hólmatungum og Dettifossi.
Viðstaðan við Ásbyrgi var frekar stutt. Hjólið fór beint upp á kerru og ég skellti í mig einum kaffibolla og kleinu í þjónustumiðstöðinni. Síðan var ekið án viðstöðu til Akureyrar. Þar var bílnum lagt að nýju við Lónsá, hjólinu snarað af kerrunni aftur og hjólað í næstu búð eftir kvöldmat á grillið. Um leið tók ég eftir að í hamagangi dagsins hafði peran í afturljósinu gefið sig, svo ég varð að fá nýja á bensínstöðinni og setja hana í. Í annað sinn þann daginn komu verkfærin sér vel.
Svo var allt í einu komið kvöld, farið að skyggja og ég skreið undir feld, enda langur laugardagur framundan......
Það var ræs um kl. 7 laugardagsmorguninn 22. ágúst. Fyrst var morgunkaffi í "Bakaríinu við brúna" en síðan dólaði ég í morgunhitting úti á Dalvík, þar sem Haukur Sigtryggur býr. Þar er mér alltaf tekið eins og týnda syninum, en áður en ég heimsótti Hauk kom ég við á bryggjunni og myndaði laugardagsveðrið:
Eftir góða stund með Hauki á Dalvík var ferðadrekanum snúið til baka inn Eyjafjörð. Þegar ég kom inn á Árskógsströnd sá ég ferjuna Sævar leggja úr höfn í Hrísey og stefna til lands. Ég fékk þá frábæru hugmynd (að mér fannst) að heimsækja granna minn úr Höfðaborg (og einnig heitir Sævar), sem á hús í Hrísey og dvaldist þar um þessar mundir. Renndi niður á Árskógssand og lagði bílnum á bryggjunni.
Tók svo upp símann og hringdi í Sævar granna minn. Jú, hann var í Hrísey en því miður staddur um borð í ferjunni á landleið með lítillega meiddan félaga sinn og var á leið til Akureyrar með honum á spítala. Það var því ljóst að ekki yrði kaffi hjá Sævari í nýkeypta húsinu hans það sinnið. Engu að síður ákvað ég að klára hugmyndina og fara út í Hrísey. Ég hef aldrei komið í veitingahúsið Brekku og fannst nú tími til kominn - væri það á annað borð opið. Við granni náðum að heilsast og kveðjast á bryggjunni. Svo hélt hann til Akureyrar með félagann haltrandi, ég hélt til skips.
Nei, það var ekki opið að Brekku - sem var svo sem bara allt í lagi. Ég hef þá tilefni til að kíkja aftur í Hrísey á komandi sumri. Verslunin í þorpinu var hins vegar galopin og þar gat ég fengið nóg til hádegisverðar ásamt Bændablaðinu. Fyrir framan búðina er fín verönd með borðum og bekkjum, þar sem hægt var að sitja, borða lesa og virða fyrir sér umhverfið. Þar var reyndar fátt ókunnuglegt, ekki einu sinni veðrið.....
Tíminn leið hratt, og fyrr en varði var komið að næstu ferð ferjunnar til lands. Ég ætlaði ekki að dvelja lengur í Hrísey í þetta sinn en aðeins rétt milli ferða svo fljótlega var ég kominn niður á bryggju á ný og um borð í bátinn. Hádegið var liðið, ferjan lagði frá og eftir korter var hún við bryggju handan sunds, á Árskógssandi. Þar beið bíllinn og ég ók beina leið inn til Akureyrar, þar sem hjólið beið á tjaldsvæðinu við Lónsá. Bílnum var lagt, hjólagallinn tekinn fram og svo var burrað af stað inn bæinn. Ferðinni var heitið yfir Vaðlaheiði, leið sem ég minnist ekki að hafa nokkurn tíma farið áður.
Ég var undir það búinn að hjóla hálfgerðar torfærur á ónýtum vegi, en því var nú ekki aldeilis að heilsa. Upp alla hlíð Akureyrarmegin var fólk á einkabílum í berjamó, og greinilegt að vegurinn er lang því frá aflagður, þótt hann sé kannski ekki fjölfarinn lengur og kannski ekki sá besti fyrir minnstu bílana. Útsýnið, veðrið og vegurinn gerðu það að verkum að hamingjumælirinn sló í botn hvað eftir annað á uppleiðinni
Uppi á hátindinum stendur endurvarpsstöð sem blasir við frá Akureyri. Þangað upp lá slóði lokaður með keðju. Þá það, mér fannst útsýnið stórkostlegt til allra átta þótt ég færi ekki upp á toppinn ( í þetta sinn):
Svo, örskömmu seinna, opnaðist útsýni yfir utanverðan Fnjóskadal og niður í Dalsmynni:
Ég hafði ekki komið inn að Illugastöðum (sumarhúsahverfinu) síðan 1992. Þá vaknaði ég þar í bústað á miðvikudagsmorgni 22. júlí, muni ég rétt, og það var hvít jörð. Síðan hefur mig ekki langað að gista að Illugastöðum. Ég ákvað nú samt að hjóla Fnjóskadalinn með opnu hugarfari og njóta þess að þennan dag var ekki útlit fyrir að neitt myndi snjóa......
Mér fannst það afar skemmtileg upplifun að hjóla Vaðlaheiðina í fyrsta sinn í jafn einstakri veðurblíðu, og ekki spillti fyrir að inn Fnjóskadalinn var að sjá enn bjartara. Rétt við vegamótin í Fnjóskadal, þar sem mætast þrjár leiðir, þ.e. gangnamunninn á Hringvegi, gamla Vaðlaheiðin og svo vegurinn inn dalinn, stendur gamalt, rauðmálað skólahús. Ég vissi að þar var rekið kaffihús og á skilti við veginn stóð "Kaffi Draumur" ( sjá HÉR). Ég ákvað að koma við þar á bakaleiðinni og hella í mig einum bolla eða svo..
Ég hjólaði svo áfram í dýrðinni inn dalinn, inn að Illugastöðum og litaðist þar um. Það var svo sem ekkert að sjá þar sem ekki var viðbúið, fátt virtist hafa breyst á tæpum þrjátíu árum, Snjórinn var þó farinn! Ég lagði km. stöðu hjólsins á minnið og hélt áfram inneftir.
Alls hjólaði ég fjórtán kílómetra inn fyrir Illugastaði, framjá sveitabæjum, hitaveitumannvirkjum og sumarhúsum allt þar til vegurinn var orðinn að mjóum veiði-og gangnamannaslóða. Þá fannst mér nóg komið og hjólaði til baka. Báðar leiðir hjólaði ég á eins lítilli ferð og framast var unnt, með hjálminn opinn til að njóta ilms af grasi og laufi sem best. ( svo er líka eins gott að hjóla hægt ef ætlunin er að hjóla með óvarið andlit - býfluga beint í andlitið er ekki þægileg sending)
Undir þessum bratta og lausa mel lá vegurinn um mjóa rönd á árbakkanum. Flottur staður en líklega dálítið viðhaldsfrekur eftir illviðri vetrarins.
Svo var ég allt í einu kominn til baka að "Kaffi Draumi". Eins og sjá má var ekki fjölmenni á staðnum. Ég var eini gesturinn það augnablikið og var tekið samkvæmt þvi, líkt og týnda syninum. Staðurinn var rekinn af hjónum sem störfuðu þar bæði ásamt dóttur sinni. Í rými innan við gluggann hægra megin við "bíslagið" sat myndlistarkona frá Dalvík og sýndi myndverk sín upphengd á veggi. Aðrir voru ekki í húsinu. Mér var vísað til sætis í skólastofu sem minnti svo mikið á stofur gamla barnaskólans á Ísafirði að manni fannst maður beinlínis detta inn í fortíðina. Yfir grænu krítartöflunni héngu landakort, þar með gamla Íslandskortið sem maður þekkti svo vel.
Kaffið var sannkölluð lífsbjörg, enda fyrst kaffibollinn frá því ég kvaddi Hauk Sigtrygg á Dalvík um morguninn. Súkkulaðikakan með rjómanum var heldur ekki skorin við nögl. Fyrir og eftir fékk ég svo lifandi leiðsögn um húsið og söguna. Þetta var akkúrat svoa heimsókn sem maður gleymir ekki, og á eftir að sitja jafnföst í minninu eins og snjórinn að Illugastöðum 22. júlí 1992. Það er eiginlega bráðnauðsynlegt að skoða hlekkinn sem ég setti við nafn kaffihússins í upphafi, og í framhaldinu jafn - bráðnauðsynlegt að heimsækja þennan sérstaka stað um leið og vetrinum (og ástandinu) lýkur. Það mun ég a.m.k. gera......
Frá fallega kaffihúsinu í gamla skólanum að Skógum hjólaði ég bæjaleið niður Dalsmynni og þegar kom niður undir Grenivík var klukkan farin að ganga sex. Ég hafði ætlað mér að ná í Bónus á Akureyri fyrir lokun svo það mátti skrúfa frá öllum 36 hestöflum gula hjólsins og vona að fjáröflunarteymi lögreglunnar væri upptekið annarsstaðar. Það gekk eftir og ég slapp til Akureyrar innan tímamarka. Keypti mér allt sem þurfti til ærlegrar eins manns grillveislu, enda fannst mér ég skulda sjálfum mér eina slíka að afloknum frábærum degi. Síðan var hjólinu snarað á kerruna, bundið og gengið frá, og damlað á krúsinu út fjörð, um Dalvík, göng og Ólafsfjörð, aftur um göng, Héðinsfjörð, aftur um göng og til Siglufjarðar.
Það var farið að kvölda á Sigló þegar ég kom þangað. Ferðabílnum kom ég fyrir á afmörkuðum reit á tjaldsvæði #2, þ.e. því sem er í miðjum bænum. Á Siglufirði eru ein þrjú tjaldsvæði, eitt er neðst á eyrinni, annað er svo í miðjum bænum og það þriðja ( og líklega friðsælasta) er í hlíðinni innan við þéttbýlið. Ég lagði semsagt í miðjum bænum, enda svo sem ekkert fjölmenni á því svæði og hin voru tóm. Út fór grillið, á fóru krydduðu grísabógsneiðarnar frá Akureyri og eftir pottþétta máltíð var litið í kaffi til Leós R. Ólasonar stórvinar míns, (HÉR) og (HÉR) sem þá var nýkominn í bæinn og var að koma sér fyrir í slotinu sínu við Aðalgötuna.
Eftir kaffisopann dreif Leó okkur báða út í kynnisferð um bæinn. Ég hélt reyndar að ég hefði séð mestallan Sigló fyrir löngu, en svo kom á daginn að það var nú aldeilis ekki. Við fórum upp á alla snjóflóðagarðana, þaðan sem er stórkostlegt útsýni yfir bæinn og fjörðinn, og ég fékk öll örnefni beint í æð. Það er alveg magnað að ganga um garðana eftir prýðilega gerðum göngustígum, enda hefur mikið verið lagt í að öll útivist þarna geti verið örugg og aðgengileg.
Það er full ástæða til að benda þeim sem hyggjast heimsækja bæinn og þekkja ekki til gönguleiðanna um garðana, á að leggja land undir fót og njóta þessarrar fínu útivistar og óborganlegs útsýnisins.
Dagurinn hörfaði hratt og fyrr en varði var komið hálfrökkur. Leó átti samt eitt spil eftir uppi í erminni. Við ókum inn í fjörð og inn á vegstubbinn sem liggur (eða lá) um skíðasvæðið og upp í Siglufjarðarskarð. Rétt eftir að komið er inn á veginn ofan við íþróttavellina að Hóli beygðum við inn á afleggjara sem lá inn í Skarðsdalsskóg (sjá nánar HÉR). Þar var bílnum lagt og við gengum um götur og stíga sem Leó þekkti í smáatriðum, þar til við komum að fallegri vin með enn fallegri fossi. Á nokkrum stöðum voru borð og bekkir og sýnilegt á mörgu að ekki hafði verið lögð minni vinna í þennan stað en gönguleiðirnar á flóðavarnargörðunum. Annar staður sem allir sem heimsækja Siglufjörð hreinlega verða að skoða og kynnast...
Svo var komið myrkur og við héldum hvor til sína "heima". Leó í íbúðina sína við Aðalgötuna og ég í ferðabílinn, sem er næstum því besta "heima" í heimi (allavega á sumrin)
Svo rann upp sunnudagur. Enn sama veðurblíðan og hafði fylgt mér allt sumarið (og kannski fleirum). Ég var snemma á fótum að vanda og hóf daginn með gönguferð um eyrina. Ég náði velflestum götum áður en ég sneri aftur til bíls, tók hjólið af kerrunni og gallaði mig eina ferðina enn. Nú var nefnilega komið að hápunkti dagsins, sjálfu Siglufjarðarskarði.
Ég hafði haft spurnir af því að vegurinn upp Skarðsdal væri líklega ill- eða ófær vegna framkvæmda við tilfærslu skíðasvæðisins, og hélt því beina leið um Strákagöng langleiðina inn í Fljót. Þar var skilti við vegendann sem gaf til kynna að leiðin væri ófær - en það er hins vegar mjög afstætt hvað er ófært, ekki síst fyrir mótorhjól eins og Honduna mína gulu sem marga fjöruna hefur sopið. Þessi "ófærð" kom þó fljótlega í ljós, því neðarlega á leiðinni hafði nokkuð stór aurskriða runnið yfir veginn og myndað á hann allstóra moldarhryggi. Þar þótti mér loks komið hið eina, sanna "Torleiði" Vegagerðarinnar og hafði þó víða verið leitað. Skriðan var lítil fyrirstaða hjólinu og við tók grýtt leið, þar sem mikið af lausagrjóti hafði hrunið úr háum bökkum ofan vegar, auk leðjutauma sem lágu yfir veginn á stöku stað. Ofar, þar sem ekki voru bakkar meðfram veginum, hafði hann víða breyst í farveg leysingavatns, því skurðir sem áður höfðu gegnt því hlutverki voru löngu fullir af aur og grjóti. Leiðin var því ýmist þverskorin af vatni eða stórgrýtt þar sem vatnið hafði skolað burt öllu fínu efni fyrir langalöngu. Í stuttu máli - á leiðinni upp í skarðið mátti finna allar þær tegundir af slóðum og vegleysum sem gleðja hjarta mótorhjólamannsins.
Rétt neðan við sjálft Siglufjarðarskarð var svo snjóskafl sem sólargeislar sumarsins höfðu ekki náð að bræða. Hann var með öllu ófær Hondunni minni, þótt greina mætti í honum för eftir fjallareiðhjól. Ekki ætlaði ég að reyna að teyma 180 kg.hjólið yfir skaflinn, steig því af og setti það á standarann. Til þess að skarðið gæti samt ekki hrósað sigri yfir hjólaranum skildi ég hjálminn eftir og hélt af stað fótgangandi yfir skaflinn, þessa örstuttu leið sem eftir var upp í skarð.
Á myndinni að neðan má sjá "hraðbrautina" og svo niður yfir Fljótavík og allt vestur á Skaga. Lognið sést .því miður ekki á myndinni, en það kórónaði þessa paradís og fullkomnaði hamingju hjólarans.....
Að skaflinum sigruðum var komið í sjálft skarðið. Ég fór þessa leið á bíl tíu árum áður með félaga og EH og myndaði þá borðið og bekkina:
Nú leit þetta svona út. Við þetta borð mun enginn snæða bita framar....
Fyrir tíu árum leit sjálft skarðið svona út:
Nú var það svona og dagsljóst að hér myndi enginn bíll aka um nema að undangenginni hreinsun...
Ofan við skarðið, milli þess og Afglapaskarðs (fari ég rétt með) standa þessi möstur, leifar fallinnar raflínu.
Úr skarðinu myndaði ég svo skaflinn sem lokaði leiðinni. Neðan við hann beið Hondan mín og sést sem örlítill dökkur depill.
Fyrir tíu árum var þarna enginn skafl, aðeins dálitlar snjórastir ofan og neðan vegar.
Áður en haldið var til baka niður á malbikið, gekk ég gegnum skarðið og myndaði yfir til Siglufjarðar. Dökki reiturinn er Skarðsdalsskógur, sem ég nefndi áður:
Efsti hluti vegarins Siglufjarðarmegin skarðs var þakinn grjóti sem hrunið hafði úr háum bökkunum ofanvið. Allt var þetta eggjagrjót, frostsprungið og molnað úr stærri björgum og skaðræði öllum venjulegum bíldekkjum..
Á niðurleiðinni myndaði ég aurspýjurnar sem tepptu leiðina venjulegum bílum og jepplingum. Yfir þær lágu hjólför stærri jeppa og fjallareiðhjóla og ég bætti mínum við, svona sem fingrafari til sönnunar ferðinni ..
Leiðin lá til baka um siginn og skakkan Siglufjarðarveg og Strákagöng. Ég setti hjólið á kerruna og batt fast, skipti um föt og hélt til endurfunda við Leó. Um leið myndaði ég þessar skemmtilegu, norðlensku leiðbeiningar. Sinn er siður í landi hverju og eflaust í héraði líka, en ég giska á að í flestum öðrum landshlutum hefði verið skrifað: "...brennir viðinn" Broskarlinn var hins vegar eins alþjóðlegur og hugsast gat...
Ég má til að nefna stórskemmtilegt ljósmyndasögusafn sem Leó sýndi mér. Þar er margt áhugavert að finna, en best er að smella á hlekkinn HÉR til að kynnast safninu betur.
Svo kvaddi ég Leó og Sigló og hélt enn um Strákagöng yfir í Fljót og áfram inn Skagafjörð. Eitt af því sem mig hafði alltaf langað að gera en aldrei komið í verk var að skoða farartækjasafnið að Stóragerði. Nú lét ég verða af því ( einn af fjölmörgum kostum þess að ferðast einn er að það þarf aldrei neinar samningaviðræður eða málamiðlanir)
Hún hélt reyndar, daman í afgreiðslunni, að ég væri að koma með ferðabílinn á safnið (vonandi samt í gríni) því hann er nokkurn veginn jafnaldri löggubílsins á myndinni, auk þess að vera sömu gerðar. Ég lofaði á móti að koma með hann þegar ég hætti að ferðast á honum (auðvitað í gríni). Með aðgöngumiðanum pantaði ég kaffi og vöfflu með sultu og rjóma - hvað tilheyrir betur því að skoða gamla bíla og hjól, en vaffla með sultu og rjóma? Þjóðlegra verður það varla...
Þórhallur Halldórsson í Súgandafirði átti á sínum tíma Benz rútu sem var sömu gerðar og sú græna en í sömu litum og sú ljósa. Ég man vel eftir þeim bíl og fleirum samskonar fyrir vestan.
"Einu sinni átti ég hest / ofurlítið rauðan..." o.s.frv. Ég átti reyndar tvo svona "hesta", annan rauðan og hinn rauðgulan (eða gulrauðan?). Það var mikil upplifun og ekki orð um það meira (enda veit ég ekki hvað lögreglan á Ísafirði afskrifar umferðarglæpi á mörgum árum...)
Það var svona farið að halla í lokun í Stóragerði þegar ég hafði lokið við allan pakkann, skoðunarhringinn, kaffið og vöffluna með sultunni og rjómanum....leiðin lá til Sauðárkróks. og þar skyldi náttað næst.
Ferðabíllinn malaði eins og venjulega á krúsinu inneftir, fyrir mynni Hjaltadals og áfram. Eitt hafði þó stundum verið að angra mig öðru hverju, ekki þó svo neinu næmi en samt hafði ég á tilfinningunni að eitthvað gæti verið að hjólunum. Mér fannst bíllinn titra öðru hverju lítillega á ákveðnum hraða, en titringurinn -væri hann raunverulegur - var svo lítill að ég gat engan veginn staðsett hann. Þó fannst mér þetta hafa staðið yfir mestallt sumarið en kannski verða örlítið greinilegra eftir að við sonurinn komum með Grána austan af Fljótsdal til Reykjavíkur - og ég var jú staddur í næstu ferð á eftir.... Stundum varð mér hugsað til dekkjanna, þeirra sömu og ég fékk gefins austur á Reyðarfirði árið áður og höfðu verið sett undir til mátunar, aðeins til að sjá hvort þau pössuðu. Þetta voru mun stærri dekk en voru fyrir undir bílnum, og mun mýkri að auki. Hins vegar var vitað að þau voru öldruð og orðin fúin en þar sem þau höfðu haldið lofti var ég ekkert að flýta mér að taka þau undan aftur. Það snjóaði svo yfir samviskuna smám saman með þeim árangri að ég var búinn að ferðast allt sumarið 2020 -þ.e. hingað til - auk síðustu ferðarinnar í fyrra, á þessum lélegu dekkjum. Hins vegar hafði ég, þegar í ljós kom að þessi stærð gengi undir bílinn, keypt glænýjan gang af samskonar dekkjum og sá gangur var geymdur á góðum stað í Reykjavík. Það var svo sem alveg möguleiki að eitt af þessum gömlu dekkjum væri að gefa sig. Ég ákvað að kíkja á það þegar á Krókinn kæmi.
Svo kom ég til Sauðárkróks undir kvöldið og mitt fyrsta verk var að fylla bílinn af olíu. Áfyllingin er vinstra megin og meðan ég dældi horfði ég á vinstra afturdekkið. Það var jú að sönnu svart og kringlótt eins og hin, en mér fannst samt eitthvað vanta upp á fullkomna hringlaga lögun þess. Þegar dælingu var lokið leit ég betur á dekkið og þá kom sannleikurinn í ljós: Dekkið var svo kássufúið og vírslitið að á það var kominn hryggur, sem svaraði til sirka fimmta hlutar hringsins. Það var því tvennt alveg dagsljóst: Þarna var komin ástæðan fyrir þessum titringi sem ég þóttist finna öðru hverju í bílnum ( og skýrara dæmi um algera afneitun verður vart fundið) og svo hitt, að á þessu dekki væri ég heppinn að komast frá olíudælunni að tjaldsvæðinu án þess að það tættist í sundur. Til Reykjavíkur væri ég allavega ekki að fara......
Þá hringdi síminn. Það var sonurinn að hringja frá Blönduvirkjun og spyrja frétta. Sjálfur hafði hann verið inni í Kerlingarfjöllum við göngur og príl, og hafði farið þaðan inn að Hveravöllum. Hann sagði veginn svo slæman suðurúr að hann hefði ákveðið að renna bara stubbinn sem eftir væri norðurúr og svo þjóðveg eitt heim. Ég gaf honum upp mína staðsetningu, og þar með að ef hann vildi renna austur yfir Vatnsskarð og út frá Varmahlíð væri tilvalið hjá okkur að renna í Grettislaug á Reykjaströnd og fara þaðan eitthvert í síðbúinn kvöldmat. Úr varð að þá leið skyldi fara.
Síðan kom ég ferðabílnum fyrir á tjaldsvæðinu og lagði á ráðin um hvernig koma mætti nýju dekkjunum frá Reykjavík norður á Krók. Ég átti góða að hjá Eimskip/Flytjanda og átti ekki von á neinum vandræðum, enda svo sem alveg "ligeglad", nóg eftir af sumarfríinu og nóg við að vera í Skagafirði. Svo átti ég enn sama möguleikann og á Drangsnesi fyrr um sumarið - þ.e. að fara bara suður á hjólinu, skilja bílinn eftir hjá vinum á Króknum og koma svo bara sjálfur á "mínum fjallabíl" norður með dekkin ( og þá farþega til að ferja bílinn suður aftur).
Sonurinn var kominn á Krókinn innan klukkutíma, við gerðum sundfötin klár og lögðum af stað út Reykjaströnd. Ekki var fjölmenninu fyrir að fara við Grettislaug frekar en annarsstaðar, í laugunum var aðeins eitt erlent par auk okkar. Við lágum í bleyti hátt í klukkutíma en héldum svo til bíls og til baka inn á Sauðárkrók. Við erum hvorugur neitt sérstaklega mikið fyrir fínni veitingahús og enduðum því hjá N1 í hamborgara með tilheyrandi.
Við höfðum velt dálítið fyrir okkur gistingu fyrir drenginn, en þegar til kom ákvað hann að aka beint suður eftir matinn, þótt klukkan væri farin að halla í tíu. Veðrið var enn það sama og spáin fyrir næstu daga var óbreytt. Okkur samdist því um, þar sem hann var líka í fríi, að hann æki suður á sínum bíl, tæki svo minn bíl að morgni (hann stóð heima við Höfðaborg), lestaði hann nýju dekkjunum og kæmi akandi með þau norður á Krók. Það var jú sunnudagur, og mánudagur að morgni svo ef ég væri heppinn gæti ég fengið dekkjaskipti á kaupfélagsverkstæðinu þegar dekkin kæmu. Fyrri hluta dagsins gæti ég sjálfur notað til að halda þeirri dagskrá sem ég áður hafði sett mér, þ.e. að (mótor)hjóla fram sveitir, inn á Kjálka og allar götur inn að Merkigili. Ég hafði jú sumarið áður komið að Merkigili sunnanfrá (þ.e. býlinu) þótt ég hefði gefist upp á að hjóla að gilinu sjálfu þeim megin frá - gilið er nokkurn spöl norðan býlisins en leiðin afar torfarin vegna stórgrýtis. Nú langaði mig að koma að gilinu norðanfrá, Gilsbakkamegin.
Svo lagði sonurinn af stað suður undir nóttina en ég fékk mér göngutúr fyrir svefninn:
Veðrið sveik heldur ekki daginn eftir. Dagurinn heilsaði hlýr og bjartur svo ég dreif mig með alla lestina út að Kjarnanum þeirra Sauðkrækinga, stórhýsi ofan hafnarinnar sem hýsir verkstæði af öllum gerðum. Lýsti raunum mínum fyrir mönnum og fékk loforð um að dekkin yrðu sett undir fyrir dagslok, bærust þau í tíma. Strax þar á eftir tók ég hjólið af kerrunni, klæddi mig í gallann og lagði af stað austur yfir Héraðsvötn að nýju og suður Blönduhlíð. Á leiðinni veitti ég athygli afar fallegri kirkju spölkorn ofan vegar, merktri með skiltinu "Hofstaðakirkja". Í huganum setti ég skoðun á henni á listann minn.
Við þjóðveg eitt fannst mér tilvalið að renna yfir í Varmahlíð og fá mér morgunkaffi og "meððí" áður en lagt yrði af stað í sjálfan leiðangurinn:
Á leiðinni frameftir Blönduhlíð að Norðurárdal virti ég fyrir mér umhverfið ( það er eitt sem maður gerir allt öðruvísi af hjóli heldur en út um bílrúðu) og lofaði sjálfum mér enn einu sinni að heimsækja Silfrastaði eins fljótt og mögulegt væri, og skoða litlu, áttstrendu kirkjuna sem blasir við frá Hringveginum en ég hef svo oft ekið framhjá með góðu fyrirheiti. Svo var fljótlega komið að mótum vegarins fram Kjálka, og ég beygði af #Eitt.
Þar með var ég enn einu sinni kominn á ókannaðar slóðir. Það var slegið af ferðinni, hjálmurinn opnaður og andað djúpt til að fanga sem mest af því sem fyrir augu, eyru og nef bar. Ég þurfti enda ekki aðeins að fylgjast með umhverfi vegarins, eyðibýlum og býlum í ábúð, heldur líka því sem var að sjá vestan Héraðsvatna, þar sem er t.d. eyðibýlið Teigskot. Ég sá enga heimtröð að því, enda hefur hún eflaust verið löngu uppgróin. Það kostar líklega aðra ferð að finna hana. enda þarf að fara allt fram undir Goðdali, austur yfir lágan háls og að býlinu Villinganesi til að nálgast Teigskot. Ég á reyndar eftir aðra ferð fram Skagafjarðarsveitir að Vesturdal (og jafnvel þaðan inn á Sprengisand ef vel gengur) því ég á enn eftir að skoða þar margt, og ekki ómerkari staði en kirkjustaðina Mælifell og Víðimýri. Reyki er ég búinn að skoða, sem og Goðdali.
....en ég var semsé á leið fram Kjálka, austast í Skagafirði. Allt í einu sá ég torfbæ neðan (vestan) vegar. Þetta var reisulegasti bær og á skilti stóð "Tyrfingsstaðir" (hvað er eðlilegra en að torfbær heiti Tyrfingsstaðir?) Ég staldraði við, smellti af mynd og ákvað að kanna þennan bæ betur á leiðinni til baka.
Fyrir miðri mynd er horft fram í Vesturdal, en til vinstri sé í mynni Austurdals. Mót jökulsánna austari og vestari eru greinileg.
Það bar mikið á þessum rauða lit í bökkum sameinaðra jökulsáa, sem þarna eru farnar að heita Héraðsvötn. Þetta hlýtur að vera leir, allavega datt mér ekki annað í hug.
Áfram var haldið, framhjá býlunum Keldulandi og Stekkjarflötum og Austurdalur opnaðist meira og meira. Þarna framfrá var farið að sjást til bæja að Bústöðum, ysta bæ í dalnum og þeim eina í byggð. Enn sjást ármót, í þetta sinn er það Eystri (Austari) Jökulsá hægra megin, og svo Merkidalsá sem rennur um samnefndan dal og tengist Jökulsá við Merkigil, beint á móti Bústöðum.
Hér að neðan hef ég sett inn kortaklippu til glöggvunar. Á henni sjást afstöður bæja og vatnsfalla. Hrikaleik gljúfranna, Merkigils og svo Jökulsár um Austurdal er ekki hægt að sýna á korti... Myndin neðan kortsins er líklega tekin þar sem heitir Mosgil, rétt neðan Gilsbakka.
Á leiðinni fram að Gilsbakka voru nokkur fjárhlið, sem vegfarendur voru vinsamlegast beðnir að loka á eftir sér. Ekki var það nú neitt vandamál...
Loks hillti undir íbúðarhúsið að Gilsbakka. Ómar Ragnarsson gerði á sínum tíma Stikluþátt um þetta svæði og átti þá mjög fróðlegt viðtal við Hjörleif heitinn, bónda og einbúa að Gilsbakka. Hjörleifur lést í vetrarbyrjun ´92 og síðan hefur ekki verið búið að Gilsbakka svo ég viti. ( sjá nánar HÉR ) Húsinu er hins vegar mjög vel sinnt, lakari hús hafa verið rifin en íbúðarhúsið nýmálað og allt umhverfi hið snyrtilegasta. Horft er fram Austurdal og til húsa og túna að Bústöðum.
Vegurinn liggur við túnfótinn að Gilsbakka, framhjá húsinu og áfram inn að Merkigili - þ.e. gilinu. Á kortaklippunni er reyndar merktur vegur yfir Merkigil og áfram inn austanverðan Austurdal allt að Ábæ. Það er ekki rétt, því sá "vegur" er aðeins fær hrossum og gangandi fólki - ekki farartækjum. (þótt vitað sé um a.m.k. eitt slíkt vélknúið sem fór frá Merkigilsbænum að Gilsbakka og aftur til baka) Akfær vegur endar neðan beitarhúsa sem standa spölkorn uppi í hlíðinni ofan gilsins. Á þeim vegarenda lagði ég hjólinu, létti af mér þeim fötum sem ég gat verið án og hélt áfram gangandi.
Þarna var margt að læra. Talað hafði verið um göngubrú "yfir Merkigil" en það var misskilningur. Merkigilið sjálft er frekar stutt, en ákaflega hrikalegt. Það er eiginlega alveg neðst í Merkidal og tengist svo farvegi Jökulsár eystri rétt neðar. Ofan gilsins er dalurinn mjög þröngur og landlítill en hlíðar hans eru ávalar alveg að ánni sem rennur um dalbotninn og neðar um Merkigil, og sameinast Jökulsá. Áin var tær og vatnslítil, ákaflega meinleysisleg að sjá, svona síðsumars.
Horft frá Merkigili fram Merkidal:
Horft frá Merkigili yfir Austurdal og Jökulsá til Bústaða. Það má vel geta þess, fyrst Bústaðir koma fyrir á svo mörgum myndum, að þar býr í dag ungur maður, röskur og dugnaðarlegur. Ég átti spjall við hann í fyrra þegar ég fór um dalinn þeim megin, og hann upplýsti mig um margt. Ég hafði lesið bók sem skrifuð var sem minningar Sigurpáls Steinþórssonar sjómanns úr Ólafsfirði (sjá HÉR). Sigurpáll þessi hafði marga fjöruna sopið og m.a. átti hann Bústaði um tíma. Framan af leigði hann jörðina skyldfólki en seinustu árin bjó hann þar sjálfur, uns hann seldi og flutti suður til Reykjavíkur. Kaupendurnir voru bræður frá Skatastöðum, býli talsvert innar í dalnum. Þegar ég nefndi þessi fræði mín við bóndann á Bústöðum kom í ljós að hann var sonur annars bræðranna. Heimurinn er ekki stór...
Hondan mín sést rétt ofan við miðja mynd hægra megin og það glittir í jakkann með endurskinsvesti á steini við hliðina.
Gengið lengra, og nú er Merkigil farið að opnast...
Þegar ofar kom var sem klettarnir rynnu niður og eyddust út í landslagið og dalbotninn. Þarna kom í ljós göngubrúin "yfir gilið". Hún var semsé ekki í gilinu og ekki yfir það heldur ofan þess. Gönguleiðin að henni var samt engin hraðbraut þótt hún liti svo sem ekki illa út á sumri. Það var heldur ekki erfitt að gera sér í hugarlund hvernið færið væri þarna um hávetur í illfærð...Þessa leið var Helgi Jónsson (HÉR), síðasti bóndi á býlinu Merkigili, að fara að vetrarlagi þegar hann hrapaði og lést. Frá efri brúnum stígsins handa brúarinnar að húsum á Merkigili eru líklega 2-3 km.
Mér fannst ég mega til að reyna að komast niður að brúnni og yfir hana. Urðin sem fara þurfti um er mjög laus í sér og stígurinn þröngur. Mótorhjólaskór með glerhörðum, ósveigjanlegum botni voru þvi kannski ekki besti skófatnaðurinn til göngunnar. Annað var þó ekki að hafa og niður vildi ég........Um leið ákvað ég að hugsa ekkert um uppgönguna...."Den tid, den sorg...."
Það hafðist, og rétt við brúarsporðinn var bekkur til að tylla sér á og hvílast.
Um þennan stíg teyma menn hesta. Það er líklega eins gott að þeir hestar fái engar aðrar hugmyndir á leiðinni en að gegna .....
Bekkurinn var sannarlega ekkert hásæti, en kannski hefur hann séð betri daga:
Horft niður eftir gilinu. Með þessum klettum byrjar hið eiginlega Merkigil sem verður svo stórbrotin tröllasmíð stuttu neðar..
Uppgangan var ekki svo slæm þegar nógu hægt var farið. Ég var enn í þykkum hjólabuxum sem háðu mér í hitanum, en bolnum hafði ég löngu farið úr. Í mittistöskunni átti ég einn Svala sem var teygaður þarna í miðri brekkunni...
Á kortaklippunni sem ég setti inn hér ofar eru tveir deplar til glöggvunar. Sá blái er við göngubrúna en sá rauði er við beitarhúsin í hlíðinni ofan vegarendans. Á göngunni til baka kom ég við hjá húsunum..
.... enn eru Bústaðir í mynd, handan Jökulsár og Austurdals:
Áður en ég gallaði mig og steig á hjól að nýju myndaði ég þetta grófgerða danspar í brún Merkigils. Kannski hafa þetta verið tröll í miðjum dansi þegar sólin kom upp....hvað veit ég?
...og enn var horft inn Austurdal, þegar ég tók eftir því að mænir íbúðarhússins að Merkigili gægðist upp fyrir grasbakkana - litlir blettir fyrir miðri mynd..
Á bakaleiðinni náði ég góðri mynd af Gilsbakka: Tindurinn þarna hægra megin gæti sem best verið Mælifell.
Þennan hitti ég á leiðinni niðureftir aftur, og gerði tilraun til að eiga við hann "vitrænar" samræður. M.a. spurði ég hann hvernig væri að vera svona síðasti Bítillinn, löngu eftir að allir væru búnir að láta klippa sig. Hann hristi hausinn....Svo gafst hann upp á þessarri litlu, gulu og hávaðasömu meri sem hafði líklega dregið hann að girðingunni, og rölti sína leið.
Þá voru Tyrfingsstaðir næstir á dagskrá. Nú var komið að því að líta á þennan torfbæ, sem ég mundi ekki eftir að hafa nokkurn tíma heyrt eða séð minnst á. Hjólinu var lagt, og þeim fatnaði sem ég mátti vera án, enda enn sami hitinn. Svo var klifrað yfir girðingu (með svona V-laga stiga) og gengið til bæjar.
Það hefur greinilega verið lögð mikil vinna í endurbygginguna, sem byrjað var á árið 2007 og stendur enn. (sjá HÉR)
Þar sem bærinn var opinn og ekkert sem benti til að innganga væri óheimil, þá gekk ég til stofu....
Greinargott upplýsingaskilti uppi við veginn segir söguna...
Svo var haldið áfram. Ég var reyndar farinn að líta á klukkuna, því einhversstaðar á leiðinni var sonurinn með nýju dekkin ferðabílsins. Ég vissi að þeir færu heim af dekkjaverkstæðinu um fimmleytið og þá þurfti skiptum að vera lokið. Klukkan var nú samt ekki nema um eitt e.h. svo það átti að vera nægur tími til stefnu - ég hafði jú lagt snemma af stað í dagstúrinn.
Tyrfingsstaðir voru kvaddir með fyrirheiti um endurkomu, hjólið var ræst og haldið áfram niður sveit. Næst á dagskrá voru Silfrastaðir, en eins og áður kom fram hafði ég aldrei gefið mér tíma til að renna þangað uppeftir og skoða, jafnvel þó áttstrenda kirkjan blasi við hringveginum. Á bæjarhlaðinu tók áhugalaus Snati á móti mér, það var of heitt til að hann nennti að heilsa svo hann lagðist bara aftur í skuggann sinn.
Ég varð satt að segja dálítið hissa þegar ég skoðaði kirkjuna. Ég hélt að sem safngrip væri henni betur sinnt en raunin virtist vera. Húsið er klætt með sléttu blikki ( sem er líklega það næst - eitraðasta á eftir forskalningu), bæði veggir og þak. Grjóthlaðinn grunnurinn var farinn að skekkjast, molna og síga og húsið virtist fylgja. Ég gat a.m.k. ekki betur séð en að viðirnir væru að gefa sig undir glugganum vinstra megin turnsins (á myndinni) því blikkklæðningin var farin að gúlpa líkt og tréð bak við hana væri að síga saman.
Kirkjan var læst svo ég hafði sama hátt á eins oog oft áður, lagði símann á rúðurnar og myndaði. Það var eina brúklega leiðin til að sjá inn...
Gluggarnir voru sérstakt skoðunarefni. Þeir voru úr málmi og hver þeirra gerði ráð fyrir opnanlegu fagi. Sá möguleiki var þó ekki nýttur nema í einum eða tveimur, aðrir voru með fastlímdar rúður í stað fags.
Mér fannst Silfrastaðakirkja vera orðin heldur döpur, og kannski væri rétt að benda þeim sem áhuga hafa á, að skoða hana sem fyrst. því grunnurinn er svo illa farinn og stagfestur svo lélegar, að það þarf líklega ekki nema eitt ofsaveður til að feykja henni af grunni. Þá verður varla um bundið....
Ég hjólaði niður sveit og sömu leið til baka, þ.e. áfram norður Blönduhlíð en brá þó aðeins útaf með annarri kaffiheimsókn yfir dalinn að Varmahlíð. Ég nefndi kirkjuna að Hofstöðum í upphafi ferðar og það var enn tími til að skoða hana. Þangað var dálítið öðruvísi heim að líta en að Silfrastöðum:
Ákaflega fallegt guðshús, endurbætt svo sómi var að. Sama gilti um umgjörðina, hleðsluna umhverfis garðinn. Afar snyrtilegt handverk, hvert sem litið var.
Ekki gat ég merkt hvort undirstöður kirkjunnar væru endurnýjaðar eða hreinlega nýjar, en greinilega var þó kjallari undir henni, nokkuð sem ekki er algengt um eldri kirkjur.
Ég sá ekki betur en að "kýrnar" ofan og utan garðs væru naut. Það var allavega skemmtilegur fjölskyldubragur á þeim - fjögur með hvíta beltið og svo eitt alsvart. Kálfarnir tveir voru nákvæmlega eins- annar með hvítt belti, hinn alsvartur:
Ég gerði tilraun til panorama - myndatöku (víðlinsu-) en gekk illa, þar sem hulstrið á símanum vildi koma inn á linsuna. Möguleikinn er samt skemmtilegur....
Nákvæmlega þarna á bílastæði kirkjunnar hringdi síminn. Það var sonurinn, nær kominn yfir Vatnsskarð. það var því ekki seinna vænna að leggja af stað til Sauðárkróks og koma dekkjunum á verkstæðið. Við renndum nær samtímis í hlað við verkstæðið, skiluðum af okkur og ég skipti úr mótorhjólagallanum í "mannaföt". Svo var lagst í bleyti í heita potti sundlaugarinnar. Ég gat reyndar ekki legið nema svona tæpan hálftíma, þá var minn tími kominn til að mæta á verkstæðið og leysa bílinn út. Verkinu var raunar ekki lokið en það var vissara að vera búinn að gera upp ef það drægist fram yfir lokun og skrifstofan yrði farin heim. Þetta stóðst svo allt á endum og myndin hér að neðan er tekin kl. 17.12. Bíllinn kominn út á nýju dekkjunum og fyrir mér lá að sækja soninn í sundlaugina. Nesti til heimferðar áttum við í bílunum svo það var ekkert að vanbúnaði. Við lögðum af stað suður hvor í sínu lagi og komum þangað um hálfellefu sama kvöld.
Enn einu stórkostlegu ferðalagi sumarsins 2020 var lokið og vinna að morgni....
Upp var runninn föstudagur 14 ágúst og það skein sól í heiði - þ.e. Fjarðarheiði - þegar ég vaknaði í ferðabílnum á tjaldsvæðinu á Egilsstöðum. Eins og áður var fram komið var ferð dagsins heitið til Loðmundarfjarðar. Hjólið stóð ferðbúið og fullt af bensíni við hlið bílsins, gallinn var orðinn þurr að mestu eftir úða fimmtudagskvöldsins í Geitdal og því var ekkert að vanbúnaði. Ég henti í mig litlum skammti af morgunmat með því fyrirheiti að styrkja verslunina á Borgarfirði eystri rausnarlega þegar þangað kæmi. Svo var brúmmað af stað á bláa hjólinu sem leið lá niður Hérað. Það var hægur vindur sem á köflum lægði alveg og dýrðin var svo mikil að ég var farinn að hjóla á u.þ.b. 70 km. hraða þegar komið var niðurfyrir Eiða. Ég var líka einn á ferðinni, ekki fyrir neinum enda klukkan rétt að verða níu og ég naut þess í botn að eiga allan heiminn ........eða a.m.k. þennan hluta hans.
Svo sleppti flatlendinu og við tóku brekkurnar upp í skarðið milli fjallanna sem á mínu korti heita Sönghofsfjall (austar) og Geldingafjall (vestar). Í brekkunum var verið að endurnýja veginn og sú vinna var í fullum gangi þegar ég kom að. Eftir dálítið klöngur yfir ófæru var komið upp í skarðið og Njarðvík blasti við. Malbikið tók við að nýju neðan eystri gönguleiðarinnar að Stórurð og afgangurinn af leiðinni til Bakkagerðis var eins og hraðbraut.
Milli Egilsstaða og Bakkagerðis / Borgarfjarðar eystri eru um 70 km. Það þýddi að ég var búinn með þriðjung heildardrægis hjólsins af bensíni og fyllti því á N1 sjálfsalanum. Svo var það búðin, morgunmaturinn og nestið til ferðarinnar.
Nei takk! Klukkan mín var rúmlega hálftíu en á miða í búðarglugga var kynntur opnunartími kl. 10:00. Sem snöggvast íhugaði ég hvort betra væri að bíða eða láta slag standa og hjóla af stað nestislaus. Árangurslausar samningaviðræður við almættið um að stöðva tímann í hálftíma svo dagurinn hlypi ekki frá mér, leiddu til seinni niðurstöðunnar. Ég lagði á dalinn frameftir og síðan á heiðina sem liggur yfir í Húsavík.
Í sárabætur fyrir að hafa ekki viljað stöðva tímann bauð almættið upp á svona ferðaveður.
Ég bjó til kortaklippu yfir fyrsta hluta leiðarinnar, sem liggur frameftir þar sem á mínu korti heitir Afrétt. Þegar honum sleppir er farið um skarð undir náttúruperlunni Hvítserk, um Vetrarbrekkur niður Gunnhildardal og komið niður í ofanverða Húsavík. Þar greinist vegurinn til tveggja átta, annarsvegar niður til byggðar í Húsavík og hins vegar upp í afar brattan háls þar sem farið er um krókóttan veg til Loðmundarfjarðar. U.þ.b. þar sem lagt er á hálsinn er skáli F.Í. veglegt hús, merkt með rauðum punkti.
Á myndinni að neðan er horft frá Vetrarbrekkum til Hvítserks. Ljóst líparítið er áberandi enda dregur fjallið nafn af því.
Myndin hér að neðan er tekin niður yfir Húsavík, nokkurn veginn frá þeim stað þar sem ég fór flatur á hjólinu í of krappri beygju. Ég vil að það komi skýrt og greinilega fram að ég réði við beygjuna-hjólið ekki. Bláa hjólið er með hækkað gírhlutfall og ræður illa við mjög lítinn hraða í kröppum beygjum upp á móti.
Bæir í Húsavík eru næst kverkinni vinstra megin niðri við sjóinn og skáli F.Í. er í hvarfi rétt utan myndar neðst vinstra megin.
Myndin hér að neðan sýnir vel afstöður. Hún er tekin frá sömu beygju í átt að Hvítserk. Vegurinn liggur um skarðið vinstra megin hans. Gunnhildardalur er fyrir miðri mynd og skáli F.Í. við brekkurætur. Við miðja mynd hægra megin má sjá afleggjarann niður í Húsavík.
Kominn upp í háskarðið og útsýnið opið til Loðmundarfjarðar (h.m.) og Seyðisfjarðar fjær. Það munar ekki nema hársbreidd að Dalatangi sjáist í fjarskanum...Horft er til Skálanesbjargs beint ofan vegarins og í Skálanesbót litlu innar, þar sem "eyði"býlið Skálanes stendur. ( sjá HÉR)
( Hér ætla ég að stinga inn kortaklippu, þar sem ég er búinn að lita öll helstu örnefni og bæjanöfn sem fyrir koma í textanum. )
Svo voru mestu brekkurnar á niðurleiðinni að baki og Loðmundarfjörður opnaðist.
Ysti hluti nessins heitir Borgarnes, og handan þess liggur Seyðisfjörður með Skálanesbót.
Ég hjólaði inn með firðinum eins rólega og hægt var því það var endalaust eitthvað nýtt að sjá - reyndar var allt nýt þeim sem þarna kom í fyrsta sinn. Framundan er bærinn Stakkahlíð en litli hvíti depillinn vinstra megin, undir Herfelli er kirkjan að Klyppstað. Dálítið sérstakt nafn, Herfell.
Svo sneri ég höfðinu ( og myndavélinni) til vinstri. Svo mikið var að sjá, og svo merkilegur fannst mér fjörðurinn að hefði ég getað snúið höfðinu heilhring, þá hefði það eflaust gengið eins og þyrluspaði. Á myndinni að neðan er horft frá veginum að Stakkahlíð þvert yfir fjarðarbotninn að býlinu sem heitir Sævarendi. Þar er myndarlega hýst, enda er það líklega sá bær sem lengst var búið á í sveitinni, eða til 1973.
Aðkoman að kirkjustaðnum og prestssetrinu Klyppstað. Til að komast að kirkjunni á farartæki þarf að fara yfir vað á Fjarðará. Áin var full vatnsmikil fyrir bláa hjólið ( sem ekki kallar þó allt ömmu sína) og þar sem ég ætlaði ekki lengra en að Klyppstað lagði ég hjólinu og nýtti mér göngubrú við hlið vaðsins. Eyðibýlið / sumarhúsið Úlfsstaðir eru framar en Klyppstaður, auk fleiri bæja sem eru tóftir einar. Mér fannst ég ekki eiga þangað erindi svo ég lét kirkjustaðinn vera minn leiðarenda.
Rétt utan kirkjunnar og í landi Klyppstaðar er annað hús Ferðafélagsins. Það er myndarlegur skáli ekki síður en sá í Húsavík handan við Nesháls. Dökku klettarnir munu heita Goðaborgir og tindurinn lengst til hægri Skælingur.
Horft frá rústum íbúðarhússins að Klyppstað í átt til kirkjunnar og suður fyrir fjörð í átt til fjallstinds sem á mínu korti gæti heitið Gunnhildur (841m)
Kirkjan var læst eins og við var að búast svo ég lagði myndavélina á rúður og myndaði inn:
Undirstöður hússins eru talsvert farnar að morkna og festur fótstykkisins orðnar lélegar.
Tveir legsteinar í kirkjugarðinum báru af öðrum, enda annar nýlegur.
Ég hef skoðað nokkrar myndir af íbúðarhúsinu að Klyppstað, sem búið var í til 1961. Sumar eru ekki gamlar en þó stendur mun stærri hluti hússins uppi á þeim. Það bendir til þess að á seinni árum hafi húsið látið verulega á sjá og hrörni hratt. Miðað við járnabindingu og steypuna sjálfa hefur þetta hús líklega ekki verið sérlega vel byggt. Kannski hefur efnið ekki verið nógu gott.....
Horft til Herfjalls frá rústum íbúðarhússins. Úlfsstaðir eru í ljósgræna blettinum ofan við gluggann í veggnum
Horft fram Bárðarstaðadal. Enn framar en Úlfsstaðir (lengst t.h.) vou Bárðarstaðir h.m. og Árnastaðir v.m.
Frá veginum um flatan fjarðarbotninn, þar sem hann greinist til Sævarenda og að Klyppstað sá ég vegslóða sem liðaðist upp hlíðina ofan við Stakkahlíð og lá upp í dalverpi þar ofar, þar sem heitir Stakkahlíðarhraun. Ég hafði ekki séð tengingu þessa slóða við Stakkahlíð og einsetti mér að finna hann þegar ég héldi til baka. Það gekk eftir og það fyrsta sem mætti mér var þessi lúna traktorsgrafa:
Ofan Stakkahlíðarhrauns eru þessar fallegu grasflatir, sem munu einfaldlega heita Fitjar. Fari ég rétt með er horft inn skál sem á mínu korti heitir Skúmhattardalur og ofar honum er samnefnt fjall. Í brúninni er svo örnefnið Skúmhattardalsbrík auðskiljanlegt.
Svipmikið Karlfell gnæfir yfir Klyppstað og Stakkahlíð handan þess vinstra megin, og svo Fitjar og Hraunadal hægra megin.
Á leiðinni frameftir fór ég fram hjá tvemur léttklæddum göngukonum, enda var hitinn nánast við suðumark. Lengra á leið komnir voru tveir karlmenn, sýndist mér. Ég áði stutta stund þarna framfrá enda umhverfið hrein paradís. Það rifjaðist upp að ég var ekki alveg nestislaus því í farangursboxi átti ég tvo Svala ásamt hálfum kexpakka, leifar nestis frá Kárahnjúkum daginn áður. það kom sér vel að eiga þennan bita, þótt kexið væri orðið að hálfgerðri mylsnu. Ég lagði mig aðeins í grasið og hefði líklega sofnað, hefði ég legið fimm mínútum lengur....
Svo kom að því að kveðja þurfti þennan fallega, friðsæla blett og halda til baka. Á myndinni að neðan er horft frá brúnum Hrauns og Hraunadals niður yfir botn Loðmundafjarðar og til Stakkahlíðar.
Á leiðinni til baka út með firði í átt til Nesháls er þessi laglegi foss í dálítilli á, Hrauná. Á ánni er brú og rétt við hana afleggjari í átt til sjávar. Mig langaði að vita hvert hann lægi og hjólaði niðureftir.
Jú, milli kletta í fjörunni leyndust hafnarmannvirki. Fúin og feyskin en samt mannvirki, steinbryggja með stálstiga niður í sjóinn og festipollum fyrir bát.
Glöggir menn geta eflaust giskað á uppruna þessa "bryggjupolla"
Þessi stagfesta var líka kunnugleg. Mér finnst hún líkjast einna mest beislishluta úr dráttarvél. Aðdrættir Loðmfirðinga voru aðallega sjóleiðina frá Seyðisfirði. Þarna hefur verið þokkaleg viðlega fyrir uppskipunarbát í sæmilega sléttum sjó. ( sem reyndar var víst ekki alltaf). Það hefur kostað talsverða vinnu að gera þessa bryggju og allnokkur steypa farið í verkið. Líklega hefur þar allt verið hrært á höndum, flutt á höndum og lagt út á höndum.
Áfram var haldið heim á leið, út fjörð og yfir Nesháls, fetað niður brekkur og beygjur Húsavíkurmegin og þegar þangað kom valdi ég afleggjarann niður í sjálfa Húsavík. Vegurinn var ákaflega grýttur, grafinn og grófur en svo sem engin fyristaða fyrir hjólið. Ég fann samt dálítið til með þeim bíltíkum sem ég var að mæta á leiðinni, og ekki síst eigendum þeirra, bílaleigunum. Þegar niður að bæjum kom var heimsýnin svona:
Býlið sem nær er heitir Dallandspartur og virtist ekki vera í íbúðarhæfu standi en greinilegt að talsvert var verið að vinna að viðgerðum. Komnir voru nýir gluggar að hluta og fleiri merki sáust um uppgerð í gangi. Dálítið utar er kirkjujörðin Húsavík. Þangað var afar snyrtilegt heim að líta, húsið nýmálað með nýlegu þaki og gluggum. Kirkjan var einnig nýmáluð og þótt hún virtist dálítið lúin undir málningunni var heildarmyndin til sóma. Bílar voru í hlaði og einnig tveir bílar ferðafólks sem var á gangi þar skammt frá. Ég hitti heimilisfólk á gangi og bað um leyfi til að fá að líta á kirkjuna. Það var auðfengið.
Ég hafði aðeins heyrt Húsavík nefnda í samtölum og þrátt fyrir að hafa einhvern tíma skoðað ljósmyndir frá staðnum, kom hjann verulega á óvart. Auðvitað lagði veðrið sitt af mörkum en mér fannst vera þarna í víkinni dálítið brot af þeirri paradís sem svo margir leita að alla ævi......
(....en það var reyndar svona í tíunda skiptið í sumar sem ég fékk þá tilfinningu - og ekki í síðasta skiptið )
Stundum er það þannig að þegar maður hefur ferðast daglangt um ókunnar slóðir og sogið upp allt sem fyrir augu ber, að það er eins og hugurinn fyllist - fái hreinlega nóg og ekki verði fleiru að komið í það sinn. Maður verður svona eins og hálfkvalinn af tjáningarþörf en það er enginn til að tjá sig við því það er enginn ferðafélagi sem tekur þátt í upplifuninni. Þegar sú tilfinning kemur yfir mann er ekki gott að vera einn á ferð - en sem betur fer líður hún yfirleitt fljótlega hjá og þá er aftur gott að vera bara einn....
Þannig var mér farið eftir þessa stund í Húsavík og undangengna dvöl í Loðmundarfirði - ég gat bara ekki meira í þetta sinni og þótt mig langaði að vera lengur þá fannst mér ég verða að fara, og hvíla hausinn um stund. Ákvörðuninni fylgdi fyrirheit um að koma aftur síðar og skoða meira.
Ég hjólaði til baka um Gunnhildardal, Vetrarbrekkur og Afrétt niður í Bakkagerðisþorp. Nú var verslunin opin og ég náði mér í dálítið af fastri fæðu ásamt vökva og settist út á verönd meðan ég gerði daginn upp í huganum og nærðist um leið. Síðan lá leiðin "heim" í ferðabílinn á Egilsstöðum.
Það stóðst á endum að þegar ég var kominn til Egilsstaða var ég búinn að "hreinsa út" hausinn og búa til pláss fyrir nýjar upplifanir. Viðstaðan þar var því aðeins örstutt, svo var haldið af stað að nýju til að skoða eina kaflann sem eftir var á lauslegri ferðaáætluninni. Sumarið 2017 var ég á ferð um þessar slóðir á Grána gamla og ók þá út með Seyðisfirði norðanverðum, eins langt og komist varð með góðu móti. Nú langaði mig að loka hringnum og fara út með firði að sunnanverðu, helst alla leið út að Skálanesi ef hægt væri. Ég hjólaði því yfir Fjarðarheiði og gegnum Seyðisfjarðarkaupstað út ströndina þar sem áður var svo mikið athafnalíf. Þrisvar sinnum hef ég siglt með Norrænu út fjörðinn og þrisvar sinnum inn - ég vissi því nokkurn veginn hvað þar væri að sjá og hlakkaði til að skoða það í návígi. Það fyrsta sem mér fannst nógu áhugavert til að mynda var þessi gamla síldarsöltunarstöð við sjóinn, og ákvað að skoða hana betur í bakaleiðinni.
Ég átti ekki gott með örnefnin á þessum slóðum því ekkert kort eða upplýsingar er að finna við veginn. Býlið Hánefsstaðir stendur á hjalla ofan vegar um miðjan fjörð og þessar rústir eru skammt neðan þess, við veginn. Líklega hefur þetta verið sveitabýli frekar en síldarvinnsla.
Á svipuðum slóðum stóð þessi rúst á fjörukambinum. Kannski var þarna síldarverkun - kannski ekki? Mér fannst dálítið slæmt að hafa engan til að spyrja, en við því varð ekki gert. Ég þarf eiginlega að finna mér einhverja góða bók sem lýsir mannlífi og mannvirkjum á ströndinni þegar allt stóð þar sem hæst.
Eitt sinn hús - sálin horfin en útidyratröppurnar ekki....
Svona miðað við staðsetninguna gæti þessi tindur heitið Flanni og verið 777 m.y.s. Mér fannst hann einmitt nægilega Flannalegur til að það gæti staðist..Uppi á bökkunum fyrir miðri mynd er flugbrautin sem eitt sinn var en er nú löngu aflögð og reyndar orðin hluti vegarins.
Ég komst ekki út að Skálanesi heldur aðeins út í bótina og stoppaði þar við á sem líklega heitir Ytri-Sandá. Í henni var talsvert vatn og þar sem fara þurfti yfir hana á vaði hafði ég allan vara á mér. Við vaðið var bílaleigujepplingur og í honum erlend hjón á miðjum aldri. Þau voru auðsjáanlega rög við að leggja í vatnið, mátuðu sig við ána nokkrum sinnum en hættu jafnan við. Svo kom annar jepplingur utanfrá Skálanesi. Hann lagði umsvifalítið á vaðið svo vel mátti sjá vatnsdýptina. Hún var svo sem ekki til vandræða en hins vegar mátti líka sjá af hreyfingum bílsins, að botninn var grófur og grýttur. Bílstjórinn veifaði og hélt sína leið. Útlendu hjónin, sem höfðu verið að búa sig undir að snúa við, hleyptu í sig kjarki og lögðu varlega á vaðið. Þeirra bíll hentist til á grjótinu en vatnsdýptin hamlaði ekki. Að öllu samanlögðu ákvað ég að minn vegarendi - allavega í þetta sinn - væri þarna við vaðið. Ég var á hjóli sem ég átti ekki (lengur) og auk þess aftur einn. Lenti ég í vandræðum í vaðinu var óvíst hvenær einhvern bæri að til að rétta hendi. Ég sneri við.
Á leiðinni til baka myndaði ég rústina neðan við Hánefsstaði úr annarri átt:
Litlu innar eru þessar verksmiðjuleifar á landdrjúgri eyri. Þarna virtist hafa verið talsverð umsetning og jafnvel síldarbræðsla, ef marka mátti stærð stálgrindarhússins sem staðið hafði á miðri lóðinni. Steypti hringurinn gat verið hvað sem er - síldarþró (samt fulllítill), einhvers konar seinni tíma fiskeldismannvirki ( jú, alveg möguleiki) eða kannski olíugildra kringum tank sem þá væri horfinn (neeee.....fullítill til þess - og þó? ) Enn og aftur fann ég verulega til þess að geta ekki spurt neinn um neitt. Svona staðir svara nefnilega ekki alltaf spurningum - þeir eiga hins vegar til að vekja fjölda þeirra...
Allskonar rústir um alla eyrina. Þarna hafa verið mikil mannvirki og stór.
Býlið Hánefsstaðir sést til hægri uppi á bökkunum.
Þá var komið að þeim rústum sem fyrst voru myndaðar. Eins og áður sagði ákvað ég að koma þarna við í bakaleiðinni og mynda meira. Þarna við sjóinn hafa verið mörg hús, og a.m.k. eitt miklu stærra en þetta. Þarna hafa líka verið stór plön, steypt á landi en úr tré út í sjóinn.
Tröppur upp að því húsi sem virðist hafa verið langstærst. Miðað við fjölda, stærð og gerð lagna sem stóðu víða upp úr gólfinu ásamt leifum af milliveggjum og mismunandi gólfbletti giskaði ég á að þarna hefði staðið margskipt hús, líklega íverubraggi - samastaður síldarverkafólks um háannatímann.
Lofthæðin, sem vel mátti merkja af þakhæðinni á skorsteininum, studdi þessa tilgátu. Verksmiðjuhús eða pakkhús hefði haft meiri lofthæð, ekki satt?
Blátt hjól horfir út fjörðinn sem það sigldi með Norrænu sumarið 2016 á leið í vikuferð til Færeyja. Skyldi það eiga eftir aðra slíka ferð?
Svo var komið kvöld, sólin að síga og tími til kominn að halda til baka tíl bíls. Það var ekki grilluð krás þetta föstudagskvöld, heldur kom sonurinn í heimsókn með pylsur og brauð sem hann átti frá kvöldinu áður. Það var snætt og síðan var slegið til rólegheita. Þessi föstudagur var senn liðinn, á laugardeginum ætlaði sonurinn að vakna snemma og aka á Grána inn undir Snæfell, sem ganga skyldi á með góðum hópi. Sjálfur ætlaði ég að aka á sjúkra - ferðabílnum til Vopnafjarðar með hjólið á kerrunni sem fyrr, og þaðan áfram ströndina allar götur til Raufarhafnar en einnig ætlaði ég að ganga út í Rauðanes og skoða mig þar um. Síðan skyldi leiðin liggja um Hófaskarð að Ásbyrgi, þar sem hjólið skyldi tekið af og hjólaður hringurinn um Dettifoss - þ.e. suður eystri veginn að Hólsseli og Grímsstöðum, síðan vestur fyrir Jökulsá og norður nýja veginn og yfirstandandi vegagerð, um Hólmatungur og Hljóðakletta til Ásbyrgis. Síðan þetta og hitt eftir þvi sem tíminn og veður leyfði - og fríið dygði........
...en svo bregðast krosstré sem aðrir raftar......
Ég var snemma á fótum laugardagsmorguninn 15. ágúst - svo snemma að Egilsstaðir voru ekki vaknaðir þegar ég tók mér stutta morgungöngu um bæjarkjarnann. Næstu tvær myndir birti ég um morguninn á FB undir yfirskriftinni: "Egilsstaðir, eins og þú hefur aldrei séð þá."
Svona hlýtur honum Palla, sem var einn í heiminum, að hafa liðið þegar hann "vaknaði" á sínum morgni......
Eins og áður var komið fram átti mín leið að liggja til Vopnafjarðar í fyrsta áfanga. Ég var búinn að ganga frá hjólinu á kerruna og var tilbúinn til ferðar, en leyfði mér að drolla aðeins meðan bærinn var að vakna. Gráni og sonurinn höfðu lagt snemma af stað inn að Snæfelli enda löng leið að fara og þar átti að taka daginn snemma með fjallgöngu. Mitt síðasta verk fyrir brottför var að fylla ferðabílinn af dísilolíu hjá Orkunni og þar var ég einmitt staddur þegar sonurinn hringdi með slæmar fréttir: Gráni var steindauður á miðjum vegi lengst inni á Fljótsdalsheiði og vildi ekki í gang. Samkvæmt stuttri lýsingu dó hann hreinlega í akstri, einmitt þar sem engar vegaxlir voru til að láta hann renna út á. Þar með lagði hann undir sig heila akrein, staður eins og staur.
Ég vissi af langri reynslu að þegar nauðaeinfalt apparat eins og Gráni steindeyr í akstri, þá væi eitthvað mikið að - eitthvað sem varla yrði lagfært með skrúfjárni og skiptilykli lengst inni á fjöllum. Það var samt ekki um annað að velja en að snúa ferðabílnum í gagnstæða átt, halda inn á Fljótsdal og áfram inn á fjöll til að reyna þó að gera eitthvað.
Ég skildi kerruna með mótorhjólinu eftir við tjaldsvæðið og hélt af stað. Fyrst þrjátíu kílómetra inn dalinn og síðan upp brekkurnar inn á heiðina sem ég hafði farið hjólandi um á fimmtudeginum í Kárahnjúkaleiðangrinum. Ég tók ekki kílómetrastöðuna á mælinum en af því sem ég mundi frá fimmtudeginum var ég kominn langleiðina inn að afleggjaranum að Laugafellsskála þegar ég sá hilla undir Grána á veginum. Á að giska hef ég því ekið c.a. 25 km. frá vegamótunum niðri á Fljótsdal og þar til ég kom að bílnum. Þar sat drengurinn og var símleiðis búinn að boða forföll í ferðina, því félagarnir höfðu lagt af stað á undan honum á öðrum bíl.
Það þurfti að eins lauslega athugun til að sannreyna það sem mig grunaði - að þarna inni á fjöllum yrði ekkert gert að gagni. Kveikjubúnaðurinn í Grána var greinilega bilaður og þannig búnaður yrði ekki lagfærður nema með varahlutum. Svo var hitt líka - kveikjubúnaðurinn samanstendur af nokkrum elektrónískum hlutum og það þurfti að sannreyna, ef mögulegt væri, hver þeirra væri bilaður. Staðan var núll núll.
Ég hringdi í vin. Sá var búsettur á Egilsstöðum, öllum hnútum kunnugur þar og gat bent mér á dráttarbílseigendur sem líklegir væru til að geta sótt Grána inn á heiði og komið honum niður í bæ. Aðeins einn svaraði, sagðist geta sótt bílinn síðdegis og vildi fá um 60 þús. fyrir greiðann. Jújú, það var svo sem ekki um annað að velja, en fyrst hann gat ekki komið fyrr en seinnipartinn ákváðum við í sameiningu að ég myndi reyna að draga Grána á einhvern blett þar sem hann væri ekki fyrir umferð og einnig væri hentugt að komast að honum með dráttarbíl. Við sonurinn lögðum svo af stað með Grána í togi þar til við fundum líklegan stað til að snúa á - þeir staðir voru mjög af skornum skammti. Gráni var leystur úr taumi og saman lögðumst við á hann til að ýta honum afturábak út fyrir veg.
Að ýta bíl sem er tvö og hálft tonn og að auki með dautt vökvastýri, er ekkert grín. Við hittum ekki á rampinn sem við ætluðum að nota og enduðum með Grána hálfan úti í skurði. Ekki lagaði það stöðuna, og nú kom sér vel að dráttartógið í ferðabílnum var nautsterkt og svo hafði ferðabíllinn eitt aukatonn á Grána og tvöfalda hestaflatölu auk fjórhjóladrifs. Það brakaði nú samt verulega í tóginu þegar við drógum Grána aftur sömu leið upp á veginn.
Taka tvö gekk eiginlega enn verr, og nú vorum við heppnir að velta Grána ekki þegar við misstum hann aftur út fyrir rampinn. Slagsíðan var veruleg þegar hnýtt var í að nýju, eins stutt og mögulegt var og ferðabílnum komið fyrir þvert á þjóðveginn. Það kom sér vel að umferðin, meðan á æfingunum stóð, var engin. Handan vegar var vegkanturinn dálítið breiðari en annarsstaðar og ferðabíllinn var keyrður eins langt út í kantinn (eða út fyrir hann) og tæpast mátti. Með því að hnika honum fram og aftur náðist að koma honum á stefnu til baka út heiðina og eftir margar "færur" fylgdi Gráni á eftir og stóð loks eins og hross í taumi aftan í ferðabílnum.
Því miður eigum við engar myndir frá þessum barningi því okkur láðist hreinlega að mynda, enda kannski lítill tími til þess.
Okkur syninum kom saman um að næsta skref væri að finna hentugan stað til að skilja Grána eftir fyrir dráttarbílinn. Við lötruðum því af stað í leit að slíkum en máttum fara talsverðan veg þar til kom að einum líklegum. Þar stöldruðum við við og spáðum í spilin, enda nóg um að hugsa. Gráni er sjálfskiptur og slíka bíla má yfirleitt ekki draga um langveg né á neinum hraða að ráði. Fátækleg verkfærakista var tekin fram og lagt til atlögu við drifskaftið í Grána - hugmyndin var að aftengja það og hengja upp svo sjálfskiptingin snerist ekki með hjólunum. Það var hins vegar sama hversu mikið ég tók á skrúflyklinum, hann haggaðist ekki. Sama sagan með alla fjóra boltana, enginn þeirra sýndi snefil af samvinnu. Með því að bregða öðrum lykli á lykilinn tvöfaldaðist átakið með þeim árangri að lykillinn brotnaði, án þess að boltinn hreyfðist. Þar með lauk þeirri tilraun og við urðum sammála um að halda áfram aðeins lengra, á lötri til að hita ekki skiptinguna.
Hraðinn var c.a. 20 km. út heiðina. Okkur miðaði svona eins og stóra vísinum á klukkunni. Ég hafði farið fram hjá stóru plani snemma á leiðinni inneftir, plani sem virtist hafa verið gert til að geyma vegarefni og/eða vinnuvélar meðan á vegagerðinni stóð ( vegurinn inn að Kárahnjúkum er allur malbikaður). Þangað vildi ég helst koma Grána og stytta með því leið dráttarbílsins til muna. Loks náðum við á þetta plan og lögðum lestinni á því. Á leiðinni þangað hafði hins vegar kviknað ný hugmynd. Ég þóttist, eftir að hafa farið fram og til baka á fimmtudeginum og í þriðja sinn fyrir stundu, gjörþekkja veginn! Meðan ég ákvað að gera aðra tilraun við drifskaftið með lengri skrúflykli sendi ég soninn gangandi áfram veginn, og bað hann að athuga hvort ekki leyndist beygja og brú handan við næstu hæð. Handan brúarinnar átti að vera löng hægri beygja og síðan halli á veginum niður í hvarf.
Ekki létu boltarnir í drifskaftinu sig þótt tekið væri á með öllu sem til var. Loksins þegar eitthvað lét sig, var það lykillinn. Hann brotnaði líka, á þann veg sem ég hef aldrei séð skrúflykil brotna á mínum fjörutíu ára ferli. Þar með var draumurinn út, ég tók saman verkfærin og hafði rétt gengið frá þeim þegar sonurinn kom til baka. Lýsingin mín á því sem átti að bera fyrir augu handan hæðarinna var nógu rétt til að vera ekki röng, og þar með vissi ég að við vorum skammt frá brúnum heiðarinnar, þar sem við taka krappar S-beygjur niður í Fljótsdal. Með þá vissu ákváðum við að reyna með öllum ráðum að koma Grána niður af heiðinni og á plan við vegamótin niðri á dalnum. Enn var lagt af stað og þegar halla fór niður var hlutverkum víxlað og Gráni, hálf-hemlalaus þegar hjálparátakið frá vélinni vantaði, var hengdur framan í ferðabílinn. Þannig lötruðum við niður brekkur og beygjur og ferðabíllinn, með sjálfskiptingu í lággír hélt svo vel við þungann ( sem samanlagður var sex tonn) að það lá við á köflum að þyrfti að bæta við hraðann frekar en að draga úr - ég þurfti rétt aðeins að tylla í bremsur öðru hverju. Ofan við neðstu beygju stöldruðum við við dálitla stund meðan við stikuðum með augunum út vænlegan "lendingarstað" og á meðan runnu fram úr okkur nokkrir bílar af mismunandi gerð og stærð - og augljóslega með mismundandi hæfum ökumönnum, því af einhverjum þeirra lagði sterkan fnyk af glóandi bremsum. Sumir höfðu greinilega haft þann hátt á að aka á fullri ferð beinu kaflana en bremsa svo niður af öllu afli fyrir beygjurnar og gefa svo í aftur eftir þær. Það er ekki góð latína á sjálfskiptum bílum og lyktin var eftir því.
Við fundum góðan stað til að leggja Grána til hvíldar á planinu við vegamótin. Sonurinn flutti það af dóti sem hann ekki vildi geyma í bílnum, yfir í ferðabílinn. Ég framkvæmdi hugmynd sem orðið hafði til á leiðinni niður brekkurnar, og hringdi í dráttarbílseigandann. Hann var ekki lagður af stað inneftir, svo ég þakkaði honum fyrir góðan vilja en afþakkaði þjónustuna um leið. Það var nefnilega sýnt að með því að koma Grána út í Egilsstaði væri aðeins hálfur sigur unninn. Ég myndi alltaf þurfa að koma honum til Reykjavíkur til viðgerðar, og sú eina leið sem okkur væri fær til þess væri að fá leigða bílaflutningakerru. Þá skipti auðvitað engu mál hvort Gráni stæði á Egilsstöðum og ég væri 60 þús. fátækari, eða hvort hann stæði 30 km. inni á Fljótsdal. Með það hringdi ég í N1 á Egilsstöðum og spurðist fyrir. Þeir voru hins vegar ekki með neina bílakerru til leigu, aðeins smærri kerrur. Þar með var sá draumur úti. Við sonurinn renndum framhjá Hallormsstað út í Egilsstaði, tengdum kerruna með hjólinu á aftan í bílinn og héldum áleiðis til Reykjavíkur. Klukkan var um þrjú þegar við lögðum af stað norðurleiðina í dýrðarveðri.
Á leiðinni pöntuðum við bílaflutningakerru með 3,5 tn. burðargetu hjá N1 í Grafarvogi. Hún skyldi sótt þangað að morgni mánudags og skilað sólarhring síðar. Við komum til Reykjavíkur eftir lokun hjá N1, annars hefðum við líklega lagt beint af stað aftur. Þess í stað náðum við einum hvíldardegi í Reykjavík, degi sem að hluta til var varið í gúggl um bilunina í Grána, fáanlega varahluti og fleira þess háttar.
Svo rann mánudagurinn 17. ágúst upp og rétt eftir kl. átta vorum við ferðbúnir og mættir til að sækja kerruna:
Við lögðum af stað rétt fyrir kl. níu og skiptumst á að aka norður til Akureyrar, þar sem við keyptum vistir til langrar ferðar. Samkvæmt okkar útreikningum áttum við að koma til Egilsstaða milli kl 15 og 16, og okkar björtustu vonir snerust um að leggja af stað þaðan með Grána á kerrunni fyrir kl. 19.
Áætlaður komutími til Egilsstaða stóðst nokkurn veginn og um leið og við verðlaunuðum okkur með ís bjó ég kerruna undir flutninginn og ferðina suður, fór yfir dekk og varahjól, og jafnaði loft. Undir kerrunni voru 13" burðardekk og uppgefinn loftþrýstingur í þeim var 94 pund. Til samanburðar var ferðabíllinn með um 40 pund í dekkjunum. Svo var haldið áfram inn Fljótsdal að vegamótum Kárahnjúkavegar, þar sem Gráni beið.
Svo var stillt upp og Gráni látinn renna að kerrunni. Ég hafði dálitlar áhyggjur af breidd hans, því séríslenskt smíðaklúður við afturljósafesingar kerrunnar þrengdu hjólabilið en Gráni hins vegar á álfelgum sem gáfu honum yfirbreidd. Það passaði enda, að þegar hann var látinn renna inn á kerruendann rakst annað framdekkið í þennan séríslenska fáránleika og sviptist í sundur. Það sést reyndar ekki á myndinni að neðan, nema hvað Gráni er heldur hnípnari en vanalega. Afganginn af lengdinni var hann dreginn með spili á kerrunni sjálfri auk talíu sem við höfðum meðferðis.
Svo þurfti að festa niður og ganga tryggilega frá öllu til langrar ferðar.
Strax í fyrsta áfanga, þ.e. á leiðinni út í Egilsstaði, kom í ljós að kerran sveiflaðist til þegar hraðinn fór yfir 60 km/klst. Við urðum því að staldra aðeins við í bænum og draga Grána eins framarlega á kerruna og unnt var (og jafnvel aðeins framar en það...) og að auki fór sonurinn í farangursgeymsluna aftast í honum, tók bæði varahjólið, tjakk og felgulykla ásamt öðru dóti, og raðaði því inn í ferðabílinn. Meira varð ekki að gert en þegar við lögðum á Fagradalinn, næsta áfanga á leiðinni til Rvk, kom í ljós grundavallarbreyting á hegðun kerrunnar, sem nú lá eins og klessa á allt að 80 km. hraða. Klukkan var farin að ganga átta að kvöldi þegar við lögðum af stað frá Egilsstöðum.
Myndin hér að neðan er tekin þegar við vorum nýlagðir af stað niður Fljótsdal.
Svo tók hvað við af öðru, Fáskrúðsfjarðargöng, Hafnarnes og Stöðvarfjörður. Milli hans og Breiðdalsvíkur ókum við inn í þoku við þverrandi dagsbirtu. Þokunni fylgdi talsverð bleyta og það tók að reyna talsvert á augun þegar á leið. Ferðin var annars tíðindalaus, okkur miðaði sæmilega þótt hraðinn væri ekki alltaf mikill, eða mestur rétt um 70 km/klst. Ferðabíllinn virtist ekki finna mikið fyrir Grána og kerrunni aftaní, enda höfðum við valið suðurleiðina vitandi af þoku- og bleytuspá, eingöngu vegna þess að hún er jú nánast brekkulaus. Það var orðið áliðið kvölds þegar við komum að vegamótunum við Höfn, og við vorum þá þegar farnir að ræða um hvíldarstað. Það var sýnt að ég myndi ekki hafa úthald í að keyra alla nóttina í skyggni sem var á köflum bókstaflega ekki neitt, auk rigningar og vindbelgings. Við þræluðumst samt áfram og sonurinn hafði gætur á stikunum sín megin meðan ég reyndi að fylgja hvítu miðlínunni.
Á leiðinni yfir Skeiðarársand ákváðum við að halda áfram að Klaustri og taka smáhvíld þar, enda var ökulagið orðið verulega skrykkjótt. Klukkan var nánast á slaginu tvö þegar við renndum inn á stæði við Klaustur. Það kom sér vel að allur ferðabúnaður sonarins var enn í ferðabílnum. Hann gat því tekið sína sæng og komið sér fyrir í svefnrými Grána á kerrunni meðan ég lagðist til hvíldar í ferðabílnum með vekjarann stilltan á fimm.
Klukkan fimm var auðvitað enn svartamyrkur, og það var enn svartaþoka og rigning. Við gleyptum í okkur fátæklegan "morgunmat" og síðan var haldið af stað að nýju. Tíu mínútur yfir fimm var ræst og enn lagt af stað til Rvk. Svo fór smám saman að birta og ég held að myndin hér að neðan sé tekin vestarlega í Eldhrauni, ekki löngu áður en við komum til Víkur. Í Vík var svo ferðabíllinn fylltur af olíu og lausleg mæling sýndi eyðslu um 14,4 ltr/ 100km - heildarþungi ækisins var sex tonn auk kerrunnar. Ekki fannst mér það eyðsla til að kvarta yfir.......
Þokunni létti ekki að fullu fyrr en við nálguðumst Hvolsvöll. Við ókum svo í sólskini til Selfoss og þegar við lögðum lestinni hjá Almari bakara á þriðjudagsmorgninum var liðinn sólarhringur síðan við lögðum upp frá Reykjavík. Hann var kærkominn morgunmaturinn ..
Við höfðum leigt kerruna í sólarhring og sólarhringurinn var eiginlega runninn út við Hellu. Ég hringdi í N1 í Grafarvogi, lét vita af okkur og lofaði að koma með kerruna milli tíu og hálfellefu. Okkur var því ekki til setunnar boðið og um leið og síðasta bitanum var kyngt hjá Almari bakara lögðum við af stað í síðasta áfangann. Við vorum sammála um að fara Þrengslin til að létta álaginu af Kömbunum af ferðabílnum og beygðum því út við hringtorgið í Hveragerði. Þegar að vegamótunum við Hlíðardal kom, blasti hins veggar við skilti sem gaf til kynna að Þrengslin væu lokuð vegna malbikunarframkvæmda!!! Við bölvuðum í kross, snerum við til Hveragerðis og leituðum logandi ljósi við hringtorgið að einhverri vísbendingu um lokunina, sem okkur hefði yfirsést. Hún var engin, ekkert sem gaf þessa lokun til kynna við Hveragerði.
Við lögðum því í Kambana og ferðabíllinn virtist svo sem ekkert finna fyrir þessarri brekku #3 á leiðinni (hinar voru upp frá Vík í Mýrdal og svo upp úr Mýrdalnum vestast, við Dyrhólaey). Klukkan var um hálftíu þegar við renndum í hlaðið við Höfðaborg og hófumst strax handa við að draga Grána af kerrunni. Það gekk hratt, og á meðan sonurinn skipti um ónýta framdekkið skilaði ég kerrunni af mér. Um leið benti ég drengjunum hjá N1 á þennan slæma annmarka á kerrunni sem séríslenska fúskið var breiðum bílum. Þeir tóku vel í athugasemdirnar og rukkuðu ekkert fyrir umframtímann.
Gráni var svo dreginn upp í innkeyrslu til aðgerðar. Ég fór strax í að undirbúa næsta ferðalag, því ég var enn í sumarfríi og ætlaði að nýta það til fulls. Kannski man einhver sem les eftir því að ég var með bláa hjólið í þessu ferðalagi því gula Hondan mín var úr leik vegna varahluta sem beðið var eftir erlendis frá. Þeir varahlutir voru komnir í höfn, fóru strax í hjólið og síðan var skipt á kerrunni - niður fór bláa og upp það gula. Miðvikudagurinn 19. ágúst fór í þessar tilfæringar, auk þess að panta frá Ameríku þá varahluti í Grána sem ég taldi þurfa, eftir lauslega skoðun.
Um miðjan fimmtudaginn 20. ágúst lagði ég svo enn af stað. Leiðin lá norður í land til að ljúka einhverju af því sem áætlað var þegar Gráni bilaði og öll plön umturnuðust. Sú ferð varð bókstaflega stórkostleg, ekki síðri en vestur - og austurferðirnar dagana og vikurnar á undan. Henni verður lýst næst......
Eins og fram kom í niðurlagi síðasta pistils var vandræðagangur á ferðabílnum norður á Drangsnesi þegar halda átti heimleiðis eftir Strandaferð. Þar sem næsta ferð var ekki fyrirhugðuð fyrr en að tæpum mánuði liðnum var nægur tími til lagfæringa, og þær tóku ekki langan tíma þegar varahlutir voru í höfn. Annað mál var með Honduna gulu. Hún átti að fá allsherjar slipptöku eftir stífa ferð og aðra enn stífari framundan. Í þeirri aðgerð brotnaði smástykki á vélinni sem nauðsynlegt var að fá erlendis frá. Afgreiðslufresturinn var lengri en svo að næðist að ljúka viðgerð fyrir brottför, svo bláa Yamaha-hjólið, sem jafnan hefur staðið sig vel, var ferðbúið í staðinn.
Svo kom verslunarmannahelgi með samkomubönnum og niðurfellingu viðburða, og þegar við bættist afleitt veður varð þessi vinsælasta ferðahelgi ársins að innihelgi með bóklestri og sjónvarpsglápi. Eftir helgi tók svo við vinna í fjóra daga (sem höfðu verið ætlaðir frídagar en veðrið breytti því) og svo var enn komin helgi. Þá héldu engin bönd, þótt spáin væri í raun jafnafleit og verslunarmannahelgina. Minni för var heitið austur á firði og þangað lagði ég af stað sunnudaginn 9. ágúst.
Þann dag var sannkallað skítaveður í Reykjavík. Það hellirigndi og þurrkurnar voru settar í gang um leið og ekið var af stað. Rigningin varð dyggur förunautur og það var fyrst í Álftafirði eystra sem eitthvað fór að draga úr. Það var þó helst í fjarðabotnunum sem minna rigndi, fyrir nesin var stöðugt vatnsveður. Ég hafði ætlað mér að koma aðeins við á Djúpavogi og fá mér kaffi, en þar sem ég var bæði hálfslappur af kvefi og svo rigndi út í eitt, þá hélt ég áfram án þess að stoppa. Það sama gilti um nesin milli Berufjarðar, Breiðdalsvíkur, Stöðvarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Stöðug rigning fyrir nesin en minna í botnunum. Síðasta nesið slapp ég við vegna Fáskrúðsfjarðargangnanna - en bíðið við: Það var skammgóður vermir!
Það var komið fram um kvöldmat þegar ég renndi inn á tjaldsvæðið í Reyðarfirði. Ekki voru margir þar fyrir og ég fann mér ágætt pláss fyrir ækið. Kvefið var að angra mig ásamt hitavellu svo ég fór ekkert út úr bíl eftir að lagt var, heldur beint afturí í kvöldmat og síðan í ból. Þegar ég vaknaði á mánudagsmorgninum fyrir allar aldir var enn þokuslæðingur í fjöllum en það var að mestu hætt að rigna. Heilsan var líka snöggtum skárri, svo ég tók hjólið af kerrunni, skellti mér í úlpu og hjálm og hélt til bakarísins, sem er eitt það fínasta á landinu.
Á dagskránni minni, eða "ferðaskránni" - ég var með ákveðnar ferðir í huga en ekki dagsettar, enda réði veðrið fyrst og fremst - var m.a. að hjóla fyrir Vattarnes, úr Reyðarfirði yfir í Fáskrúðsfjörð. Það er sú leið sem göngin leystu af hólmi, malbikuð að mestu en ekki þó alveg. Leiðin er frekar fáfarin núorðið en hún er falleg í góðu veðri og útsýnið gott. Frá bænum var að sjá þokkalegasta veður út með firði svo ég gallaði mig og hélt af stað. Sundfötin vou í farangrinum, ef ég næði einhverri laug á leiðinni sem ég hefði ekki áður farið í. Það gilti reyndar bæði um laugina í Fáskrúðsfirði og á Stöðvarfirði, hvorug hafði nokkurntíma verið opin á þeim tíma sem ég renndi í gegn.
Þegar út fyrir Þernunes var komið sýndi það sig sem ekki sást frá þéttbýlinu fyrri beygjunni á firðinum, að kólgan sem sást úti fyrir fjarðarmynninu og lá yfir fjöllunum við norðanvert mynni Reyðarfjarðar, lá einnig yfir Vattarnesi og nágrenni. Ég fann ekki nafn á býlinu hér á myndinni, en það er semsagt utan til við Þernunes:
Að neðan er horft frá sama stað út eftir firði í átt til Vattarness og líklega er það býlið að Hafranesi sem sést ofan vegar.
Þarna úti í grámanum, yst á nesinu var svartaþoka. Henni fylgdi talsverð rigning sem var greinilega ekki nýbyrjuð, þarna var jú búið að rigna allan sunnudaginn áður. Fyrir nesið er malarvegur, sem er virðingarheiti því "moldarvegur" væri réttara nafn. Vegurinn hafði vaðist upp í leðju sem fljólega litaði allt brúnt, bæði hjólið, skóna og skálmarnar á gallanum mínum. Þegar ég kom inn í Fáskrúðsfjörðinn ( án þess að sjá nokkurn tíma glitta í eyjuna Skrúð ) og kom að kirkjustaðnum Kolfreyjustað, langaði mig að líta á kirkjuna en gat engan veginn farið að sýna mig fólki, svo forugur sem ég var. Leiðin lá því beint inn í bæ og á þvottaplan þar sem ég gat skolað af mér og hjólinu með spúlslöngu. Sundlaugin var lokuð og af því sem ég gat lesið þar um var að skilja að hún væri yfirleitt ekki opin, nema þá örstuttan tíma í einu endrum og sinnum. Ég mátti því halda af stað að nýju, fyrir fjarðarbotn og fyrir nes þar sem rigndi jafnvel enn meira en áður. Ég var gríðarlega feginn þegar loks grillti í Lönd, utarlega í Stöðvarfirði en ekki alveg jafn glaður yfir ómerktri lausamöl á viðgerðarblettum Vegagerðarinnar.
.....og svona til að halda mér við efnið, var gatan gegnum þorpið upprifin að hluta og ein drullufor auk ótölulegs fjölda af holum. Skemmtileg svigbraut fyrir mótorhjól...
Sundlaugin í Stöðvarfirði var opin og þangað hélt ég. Ekki var fjölmenninu fyrir að fara, ég deildi lauginni með tveimur fullorðnum konum sem reyndust afar skemmtilegur félagsskapur, ekki síst er í ljós kom að önnur þeirra átti bæði ættir og ættingja vestur við Djúp. Ég varð að biðja laugarvörðinn afsökunar á rennblautum gallanum mínum, sem ég skildi eftir frammi á gangi í stað þess að fara með hann inn í klefa. Þegar ég svo kom fram eftir rúmlega klukkutíma pottlegu lágu brúnleitir taumar frá gallanum inn eftir ljósmáluðu steingólfi gangsins. Ég ítrekaði afsökunina, klæddi mig í hráblaut fötin og hélt af stað "heim" til Reyðarfjarðar, að þessu sinni um göng.
Á Reyðarfirði var veðrið orðið mun skárra en á syðri fjörðunum og allt að þorna upp. Ég skreið undir feld til að ná úr mér hrollinum þar til tími væri tilkominn að grilla kvöldsteikina. Þokan læddist inn aftur þegar kvöldaði og steikin var snædd innandyra.
Upp rann þriðjudagur 11. ágúst. Nú var ´ann brostinn á með sannkallaðri engilblíðu svo gallinn, gasþurrkaður frá deginum áður, var tekinn af snaga, hjólið ræst og haldið af stað í fyrsta áfanga dagsins. Ég fór Þórdalsheiði, milli Reyðarfjarðar og Skriðdals, sumarið 2018 en þá af Skriðdal niður í fjörðinn. Vegurinn liggur um Áreyjadal og er brattur og grýttur. 2018 var ég á Suzuki V-Strom hjólinu glænýju og hrósaði happi yfir að fara niður en ekki upp. Nú var ég á hjóli sem þoldi mun meira jask og var betur varið að neðan, svo ég lagði óhikað á brattann. Um Áreyjadal liggur raflína frá Fljótsdalsvirkjun að álverinu í Reyðarfirði sem eflaust fæstum þykir augnayndi, en þá var bara að horfa framhjá henni því nóg annað var að sjá. Á myndinni er horft frá neðanverðum dalnum til Reyðarfjarðar.
Áreyjadalur er sundurskorinn af miklu hamragili, stórkostlegri náttúrusmíð.
Þegar yfir háheiðina kom, á breiðu skarði, batnaði vegurinn til muna og er neðar dró og Skriðdalur nálgaðist blöstu við þessi litbrigði í grunnu gili Þórudals. Þarna áði ég stutta stund. Handan Skriðdals sér til Hallormsstaðaháls og handan hans er Fljótsdalur. Hornið sem sér í lengst til vinstri er Þingmúli.
Ég hjólaði fram Skriðdal á malbiki og er því sleppti og ofar dró var fljótlega komið að tengingu vegarins um Öxi. Þá leið fór ég í fyrsta sinn sumarið 2018 og svo aftur í maílok 2019 á leið til Seyðisfjarðar í Norrænu. Í þeirri ferð var hitinn á Öxi núll gráður og hvít jörð. Nú var öldin önnur og hitinn líklega um 14-15 gráður. Vegurinn var holóttur en bláa hjólið kvartaði ekki og ég var svo sem ekkert að spana leiðina. Tíminn var nægur, ég reyndi frekar að njóta augnabliksins og hleypti öllum fram úr sem á eftir komu.
Ég átti svo sem nóg af myndum frá Öxi úr fyrri ferðum og tók því engar á leiðinni, en hér að neðan er mynd tekin sumarið 2018 og svo önnur frá maí ´19:
Þegar niður af Öxi kom í Berufjörðinn var þar sama veðurblíðan, dálítil dalalæða um miðjan fjörð en bjart að sjá úteftir. Ég renndi út á Djúpavog og fékk mér kaffi í Löngubúð í góðum félagsskap. Að því loknu sneri ég til baka fyrir fjörð og áleiðis til Breiðdalsvíkur. Utarlega í Berufirði norðanverðum, skammt utan við eyðibýlið Streiti, er þetta minnismerki neðan vegar. Ég áði þarna stutta stund, gekk niður að vörðunni og las á plötuna, sem vitnaði um sorglega atburði. Afleiðingarnar svona atburðar urðu svo, á þeim tíma sem ártalið vísar til, oft enn skelfilegri en slysið sjálft, fyrir þau sem eftir lifðu...
Um þennan atburð má á nokkrum stöðum finna lesefni, þó stutt sé.
Ég var kominn yfir í Breiðdal, á slóðir sem nú skyldu kannaðar ítarlega. Fyrst þurfti að taka bensín á Breiðdalsvík. Svo lá leiðin fram dalinn þar sem áður var "Þjóðvegur eitt" áður en vitringunum hugkvæmdist að að í stað þess að leggja nýjan veg um Breiðdalinn væri einfaldara og hagkvæmara að færa bara þjóðveg eitt niður á firðina þangað sem búið var að malbika hvort eð var, og fella svo nýju Fáskrúðsfjarðargöngin inn í planið. Þar með gátu menn barið sér á brjóst og sagt: " Nú er búið að malbika allan hringveginn" án þess að malbika svo mikið sem einn metra. Við sem ekki erum jafnmiklir snillingar lofum almættið fyrir að ekki skuli hafa verið búið að malbika veginn fyrir Melrakkasléttu áður en nýi vegurinn um Hófaskarð komst á teikniborðið, því þá mætti gera ráð fyrir að hringvegurinn "Númer eitt" lægi þar....
Semsagt, ég hjólaði fram dalinn að kirkjustaðnum Heydölum. Þar liggur tenging yfir á veginn um Suðurbyggð, veg sem liggur af Númer eitt sunnan Breiðdalsvíkur og fram dalinn sunnanverðan. Þetta er malarvegur, sveitabæjaleið sem er skemmtileg því margt er þar að sjá Því miður tók ég allt of lítið af myndum í hringnum en eitthvað þó. Leiðin lá líkt og sjá má á kortinu að neðan, þar sem komið er út Berufirði til Breiðdalsvíkur og frá þorpinu inn að Heydal, yfir á Suðurbyggðarveg og fram hann fram í Breiðdal. Þar sneri ég við ( af því að Suðurbyggð var svo skemmtileg leið) og hjólaði til baka sömu leið, þó með viðkomu í Fagradal, fallegu dalverpi með reisulegu eyðibýli og alls kyns skemmtilegu dóti. Frá Fagadal hjólaði ég svo aftur niður á Suðurbyggðarveg og sem leið lá niður á Númer eitt, aftur til Breiðdalsvíkur og aftur að Heydölum en nú beina leið inn dalinn og upp á Breiðdalsheiði.
Ég veit ekki hvort nokkur maður skilur þessa lýsingu, en það á ekki að skipta máli því fáir eða enginn les hvort eð er....
Á myndinni að neðan er horft fram ( inn) Breiðdal, frá innri vegamótum Suðurbyggðarvegar. Malbikaði vegurinn var áður Þjóðvegur eitt.
Býlið að Fagradal. Það er dálítið gaman að sjá hvernig fjallið í baksýn skýtur kryppu uppúr þokunni.
Við útihúsin í Fagradal, litlu neðar en íbúðarhúsið, var þessi forláta ljósavél í hálfföllnum skúr. Vélin virtist þó í betra lagi en skúrinn og finna mátti af henni "ferska" dísilolíulykt.
Kannski var þessi einhvern tíma heimilsbíll í Fagradal. Hafi svo verið, er allavega langt síðan. Hann - eða það sem eftir er af honum - liggur í móa skammt neðan bæjarins, stutt frá heimtröðinni.
Varla er sá dalur til sem ekki rennur á um, og Fagridalur er engin undantekning. Hann er þarna í baksýn og áin sem um hann rennur nýtur liðsstyrks af annarri sem rennur um Fossdal, litlu norðar. Sameinaðar renna þær svo um þetta fallega gil með enn fallegri fossi, sem því miður myndaðist illa í lækkandi sól beint í linsuna.
Eftir að hafa lokið hringnum um Breiðdal hélt ég aftur frá Breiðdalsvík sömu leið fram að Heydölum en hélt nú beint áfram um hinn gamla Þjóðveg eitt áleiðis að Breiðdalsheiði. Á leiðinni fór ég fram hjá mótum vegarins fram Norðurdal en þar sem degi var farið að halla ákvað ég að geyma hann til næstu ferðar, enda talsvert svæði um að fara. Brekkurnar upp á Breiðdalsheiði hljóta að hafa verið friðaðar einhvern tíma, því þótt ég myndi lítið frá því að ég fór þetta sumarið 1986 þá rámaði mig þó í brekkur og beygjur sem í minninu voru nákvæmlega eins og þá....Ég fór smám saman að skilja "snillingana" hjá Vegagerðinni sem sáu þann kost vænstan að færa vegnúmer eitt niður á firðina sem áður var búið að malbika. Þennan veg hefði þurft að endurbyggja algerlega, hefði átt að bæta hann og malbika. Það var auðvitað mun einfaldari og ódýrari leið að breyta nokkrum vegskiltum.
Uppi á há-heiðinni er þessi kofi, ásamt upplýsingaskiltum. Útsýnið var frekar takmarkað en stutt var í tengingu vegarins um Öxi og þar með var einum hring lokað.
Ég hjólaði niður Skriðdal í átt til Egilsstaða og það hvarflaði að mér að fara Þórdalsheiðina aftur til baka til Reyðarfjarðar. Mig var hins vegar farið að svengja og þar sem enginn veislumatur var til í ferðadrekanum, en mér fannst ég eiga skilið slíkan eftir fínan ferðadag, þá langaði mig að athuga opnunartíma verslana í Egilsstöðum. Við mót Þórdalsheiðar stoppaði ég og dró upp símann, en þar var þá ekkert netsamband. Símasambandið var hins vegar ágætt svo ég hringdi til Reykjavíkur til að fá upplýsingar um opnunartíma búða í Egilsstöðum! Það sýndi sig að með því að slá dálítið í gæti ég náð í Nettó. Það gekk eftir og klyfjaður veislumat hélt ég frá Egilsstöðum niður til Reyðarfjarðar.
Ekkert varð þó úr eldamennsku, því ég fékk símtal frá Neskaupstað, þar sem vinir voru að búa sig út að borða og buðu mér að slást í hópinn. Það varð úr, og ég fékk fínt að borða í Beituskúrnum í fjörunni skammt frá mínum gamla vinnustað í Dráttarbrautinni. Kvöldinu var svo eytt í litlum en góðum hópi og það var farið að skyggja þegar ég sneri til baka um göng og lagðist um síðir til svefns í ferðabílnum á tjaldsvæðinu í Reyðarfirði
Á eftir þriðjudegi kemur miðvikudagur - það er óumdeilt. Ég var snemma á fótum líkt og áður, og veðrið var enn það sama - sól og blíða. Fyrirheit dagsins var einfalt: Í dag skyldi Viðfjörður heimsóttur ef mögulegt væri. Sumarið 2018 fór ég í Vöðlavík á "nýja" hjólinu ( sem þá var sannarlega nýtt) í þoku og nær engu skyggni fyrr en niður í sjálfa víkina kom. Í bakaleiðinni langaði mig að kanna Viðfjörð líka en þar sem leiðin er nokkuð drjúg og þokan var þykk, þá ákvað ég að geyma Viðfjörð til betri tíma.
Nú, tveimur árum seinna var búið að laga skiltið og ryðja burt þokunni. Ég brunaði á bláa hjólinu frá tjaldsvæðinu út Reyðarfjörðinn, um Eskifjörð, út Helgustaðahrepp og spýttist upp á heiðina til Vöðlavíkur, en af henni liggur vegurinn til Viðfjarðar. Ekki hafði ég lengi hjólað þegar Paradís opnaðist og ég hugsaði með mér: "Hva...bara strax kominn í Viðfjörð!"
Svo fór ég að hugsa....Þetta gat varla verið Viðfjörður. Þarna var allt eitthvað kunnuglegt. Sekúndubrot leið þar til ég uppgötvaði að ég var að horfa ofan í Vöðlavík. Auðvitað! Ég hafði ekki séð Vöðlavík 2018 fyrir þoku fyrr en ég kom niður í hana, svo þetta fallega sjónarhorn var mér framandi. Ég stoppaði þarna góða stund og naut útsýnisins.
Vegurinn hlykkjaðist áfram út heiðina og Vöðlavík seig afturfyrir hægra hornið. Leiðin var frekar grýtt og óslétt en enginn farartálmi fyrir gott hjól. Svo kom þar að vegurinn lá undir brattri hlíð sem minnti á Kinnina gömlu í Breiðadalsheiðinni vestra. Sá var þó munurinn að þessi "Kinn" sneri öfugt við þá vestari en við endann lá leiðin um skarð. Handan við það skarð blasti þessi sýn við. Þarna sá ég Viðfjörð í fyrsta skipti, og enn gat ég verið almættinu þakklátur fyrir að úthluta mér endalausri veðurblíðu. Svona var veðrið t.d. þegar ég kom í fyrsta sinn til Neskaupstaðar vorið 1985 og sú tilfinning hefur fylgt mér alla tíð síðan og orðið til þess að mér finnst Neskaupstaður með fallegri bæjum. Hundrað aðra staði gæti ég nefnt....
Þegar niður fyrir brekkurnar var komið var greinilegt að vegurinn hafði nýlega verið lagaður talsvert. Til vinstri hillir undir stórhýsið í Viðfirði sem ekki var aðeins bóndabýli heldur einnig gistiheimili, þegar þjóðbrautin til Neskaupstaðar lá um heiðina og síðan um sjóveg.
Fyrir mjóum botni Viðfjarðar er fjörukambur og innan hans sjávarlón, opið í annan endann til fjarðarins. Yfir lónið hefur verið gerð myndarleg göngubrú. Hún sveiflaðist reyndar dálítið til, svo mikið að ég þorði ekki öðru en að stinga símanum í vasann og styðja mig yfir með báðum höndum. Húsið er nýlega endurbyggt og er mjög reisuleg bygging eins og sjá má.
Ég gekk fjörukambinn alla leið yfir að rótum Barðsness ( t.h.). Ytri hluti Barðsnessins blasir við frá Neskaupstað og þeirri sjón var ég vanur enda fáir staðir tilkomumeiri þegar sígandi sól roðar Rauðubjörg, yst á nesinu. Innri hlutann var ég hins vegar að sjá í fyrsta sinn,.líkt og annað sem fyrir augu bar.
....og frá kverkinni Barðsnessmegin má vel sjá hversu mjór Viðfjörður er í botninn. Ljósi bletturinn er líklega bátaskýli enda var lítill bryggjustúfur rétt hjá.
Þar sem Barðsnesið byrjar....Litla húsið á miðri mynd er vatnsaflstöð sem framleiðir rafmagn fyrir Viðfjarðarbæinn. Hvers vegna Viðfjörður heitir Viðfjörður má líklega ímynda sér af myndefninu neðst hægra megin....
Allt gott tekur enda og (alltof) brátt var kominn tími til að halda til baka. Myndin hér að neðan er tekin úr skarðinu sem áður var nefnt og sýnir þann kafla vegarins sem mér fannst minna á Kinnina vestra. Svo liggur leiðin fram grænu brúnirnar til vinstri og frá horninu þar blasir Vöðlavík við vinstra megin. Dalurinn sem sér til í fjarska er upp af víkinni. Hitt fannst mér dálítið skrýtið, þegar ég stoppaði þarna uppi og skoðaði mig um, að menn skyldu hafa valið vegstæðið um heiðina í stað þess að fara frá Vöðlavík niðri við fremsta bæ í víkinni ( Karlsstaði) fram Dysjardal, dalinn sem sér til næst á myndinni og þaðan upp í skarðið. Að sumarlagi hefði maður valið þá leið en það má vera að snjóalög hafi ráðið vegstæðinu. Mögulegt er að meðan dalurinn hafi verið fullur af snjó hafi fjallsbrúnirnar verið auðar.
Ég dundaði við að setja þessar hugrenningar í kortið hér að neðan. Rauða leiðin er núverandi vegstæði (dálítið ónákvæmt á kortinu en ég held að það sé réttara svona), sú bláa væri þá leiðin frá Karlsstöðum í Vöðlavík fram Dysjardal og svo hefði jafnvel mátt hugsa sér veginn liggja af öxlinni ofan Karlsstaða beint inn í Dysjardal. Mér fannst þetta skemmtileg hugrenning yfir kókómjólk og ostaslaufu í áningarstað á heiðinni.....
Svo var það allt að baki og Reyðarfjörður blasti við handan heiðar.
Í þriðja sinn fór ég fram hjá silfurbergsnámunni að Helgustöðum, í þriðja sinn gaf ég sjálfum mér loforð um að skoða hana í næstu ferð. ( fyrst fór ég á Grána út Helgustaðahreppinn sumarið 2017, svo á nýja hjólinu 2018) . Þegar ég hafði íhugað hvernig eyða mætti síðari hluta dagsins, fannst mér tilvalið að fara aftur yfir til Neskaupstaðar og líta enn einu sinni Barðsnesið frá vitanum þar. Veðrið var enn það sama og þótt ekki skini kvöldsól á Rauðubjörg var útsýnið jafn himneskt og alltaf áður (nema þegar maður sá hvorki vitann né tærnar á eigin skóm fyrir þoku).
Þegar ég bjó í Neskaupstað 1985-6 var Shellsjoppan ein helsta menningarmiðstöðin. Á þeim örfáu árum sem liðin eru síðan hefur margt breyst og nú er Shellsjoppan orðin Olíssjoppa, og Olíssjoppan sem var er orðin gistiheimili. Mig langaði að rifja upp gamlar minningar á Shellsjoppunni en fann þær ekki, því svo miklu hefur verið breytt innandyra að ég gat ekki tengt við neitt. Keypti mér þess vegna bara appelsín og súkkulaði og settist út í sólina sunnanmegin við húsið (sjávarmegin, á bekk við borð þar sem ekki var nein slík aðstaða fyrir 35 árum) Þar sat ég og naut tilverunnar og minninganna meðan appelsínið hitnaði og súkkulaðið bráðnaði.
Ég mátti til að hringja í gamlan kunningja sem ég vissi að átti frístundaaðstöðu ofarlega í bænum. Hann var á staðnum og bauð samstundis í kaffi. Þeir voru þar reyndar tveir, gamlir kunningjar og gaman að hitta tvo fyrir einn....
Þegar kom að því að halda til baka langaði mig að reyna Oddsskarðið, jafnvel þótt á því lægi þokuslæðingur. Gömlu göngunum var ég þrautkunnugur og einnig hafði ég farið veginn yfir sjálft Oddsskarðið ( þ.e. háskarðið) nokkrum sinnum meðan ég bjó í Neskaupstað. Nú langaði mig að vita hvort leiðin væri fær og renndi því uppeftir, troðnar (og reyndar malbikaðar) slóðir upp Oddsdal, Blóðbrekkurnar og upp að göngum. Vegurinn yfir leit hins vegar svona út, og þar sem ég gat ekki greint vegna þoku hvort þetta væri eini skaflinn á leiðinni lét ég þarna staðar numið. Við athugun á gömlu göngunum kom í ljós að þau voru harðlokuð og greinilegt að þangað inn var engum boðið.
Á bakaleiðinni mætti ég Þýskara á BMW hjóli, sem ég hafði mætt nokkrum sinnum áður. Ég gaf honum bendingu um að leiðin væri blind. Hann veifaði á móti og hélt áfram. Ég hefði eflaust gert það sama....
Á leiðinni til baka til Reyðarfjarðar kom ég við á útsýnispalli á Hólmahálsi (Hólmanesi). Þaðan er gott útsýni út yfir fjörðinn og sérstaklega athyglisvert að sjá hvernig þoka síðdegisins skreið inn fjörðinn og lagðist yfir Vöðlavíkurheiðina, sem fyrr um daginn hafði verið heið. Það hefði verið lítið gaman að leggja á heiðina nú og lítið þaðan að sjá....
Svo var allt í einu komið kvöld, og því fylgdi að sjálfsögðu grillveisla fyrir einn, þar sem grillað var góðmeti úr Nettóbúðinni á Reyðarfirði. Þar á eftir kvöldganga og síðan nætursvefn. Dagskráin sem ég hafði haft í huganum fyrir fjarðasvæðið var tæmd, og nýjar áskoranir framundan.
Samkvæmt skilmálum Útilegukortsins mátti gista fjórar nætur samfellt á sama tjaldsvæði. Þessar fjórar nætur hafði ég nú nýtt og því var að morgni öllu hafurtaski pakkað saman, hjólið sett á kerru og haldið af stað. Ekki var þó farið langt, heldur aðeins rúma 30 km. að tjaldsvæðinu á Egilsstöðum. Ekki er það þó á Útilegukortinu en m.t.t. fyrirhugaðra ferða næstu daga var það miðsvæðis. Ég keypti tvær nætur á svæðinu, kom bílnum fyrir, tók hjólið af og gerði ferðaklárt. Þarna á Egilsstöðum hitti ég líka soninn, sem kominn var austur á Grána gamla, eldri Econoline-ferðabílnum mínum sem aldrei var seldur. Sonurinn ætlaði að nýta fimmtudaginn í að hlaupa á einhverja fjallspíru í Seyðisfirði.
Mín leið lá hins vegar inn að Kárahnjúkum. Þangað hafði ég aldrei komið, þrátt fyrir góðan vilja og fögur fyrirheit. Til að fara nú ekki alltaf sömu leiðina fram Fljótsdal ákvað ég að fara inneftir að norðanverðu, um Fellabæ (enda er malarvegur þeim megin og malarvegir eru skemmtilegir). Ég er ekki sérstaklega kunnugur á efri leiðum Fljótsdals og þegar ég kom að skilti sem vísaði inneftir og á stóð "Kárahnjúkar" og "Snæfell", þá hugsaði ég sem svo að þótt ég færi inn að Kárahnjúkum þá ætlaði ég nú ekki að fara alla þá óraleið sem mér fannst að hlyti að vera inn að Snæfelli. Þegar ég svo kom inn að vegamótunum innundir Skriðuklaustri, þar sem vegurinn hlykkjast upp hlíðina og svo fram Fljótsdalsheiði, stóð þar skilti sem á stóð: "Kárahnjúkar 61" og "Snæfell 58" Eitthvað hafði fennt yfir mín fræði með árunum, því ekki átti ég von á að lengra væri inn að Kárahnjúkum en að Snæfelli, sem mér fannst vera næst heimsenda. Ég reiknaði í fljótheitum út bensímagn bláa hjólsins, sem ég þekkti að því að geta verið eyðsluhít ef of hratt væri hjólað. Ég var búinn með rúma þrjátíu km, svo lægju fyrir tvisvar sextíu og loks aðrir þrjátíu til baka. 180 km. áttu að sleppa vel, ég hafði áður fengið aðvörunarljós um lága bensínstöðu eftir 175 km. en líka eftir 200 km. Það var því um að gera að hjóla sem mest á 90.....
Það var nokkuð bjart yfir heiðinni, dálítill vindur en ekki til baga og ferðin inneftir var ævintýri. Líkt og svo oft áður í ferðalaginu var ég á alveg nýjum slóðum og þurfti að reyna að skoða sem mest á alltof stuttum tíma. Yfirleitt er ég nokkuð viss um að ég sé aðeins að sjá staði og hluti í FYRSTA sinn en ekki EINA, og skoða því frekar í stóru samhengi til að byrja með. Þegar inn að Kárahnjúkum kom var líka ágætt að hafa æfingu í að skoða hluti í STÓRU samhengi....
Nújæja....Kannski var ekkert Spánarveður þarna innfrá, en mér skilst líka að Spánarveður sé frekar fátítt á þessum slóðum.
Þetta hógværa og yfirlætislausa nafn á skíthúsi var mér framandi.....Mér varð, eins og svo oft áður, hugsað til vegmerkinga eins og "Torleiði". Rétt þegar útlendingar eru búnir að stauta sig fram úr því orði (og pottþétt ekki með aðstoð yngstu kynslóðar Íslendinga) þá kemur "Hreinlætishús". Svo sannmælis sé gætt er rétt að taka fram að stutt frá þessu skilti var annað sem á stóð WC. Málhreinsunarmenn innan Landsvirkjunar hafa því aðeins haft hálfan sigur....
Venjulegir fólksbílar á leið yfir stífluna virðast ósköp litlir....
Það hvessti meira á heimleiðinni og að auki fór að rigna dálítið. Mig var farið að langa í kaffi svo ég renndi niður að skálanum við Laugafell. Hann reyndist afar veglegt og reisulegt hús, þar sem hægt var að kaupa kaffi og fleira. Ég nýtti mér það og áði þarna í hálftíma eða svo.
Ég var kominn til Egilsstaða fyrir kvöldmat og án þess að bensínaðvörunarljós hjólsins kviknaði. Við sonurinn borðuðum saman hamborgara í N1 sjoppunni og eftir kvöldmat var enn hjólað af stað. Ég átti ókannaðar leiðir frammi í sveit og hélt þangað þrátt fyrir rigningarúða. Leiðin lá fram Skriðdal, ekki þó fyrrum Þjóðveg eitt heldur handan dalsins, meðfram Hallormsstaðahálsi þangað sem heitir Norðurdalur ( og má ekki rugla saman við þann Norðurdal sem gengur inn frá Valþjófsstað á Fljótsdal) Inn af "okkar" Norðurdal, og í framhaldi af honum gengur Geitdalur. Þangað lá leiðin.
Í dalsmynninu eru enn bæir í byggð, en ég hélt beint inn að þeim innsta sem brúklegur vegur lá til. Augljóslega er henn ekki lengur í byggð.
Ég myndaði bæina í bakaleiðinni og hér að neðan er sá sem ber nafnið Geitdalur, ef mér skjátlast ekki.
Utan við Geitdal er bærinn Þorvaldsstaðir. Reisulegt býli, þar sem ekið er þétt um bæjarhlaðið. Því miður eyðilagðist nærmyndin sem ég tók af Þorvaldsstöðum og ég á aðeins þessa, sem tekin er nokkurn veginn miðja vegu milli bæja:
Neðsti bær í dalnum er Flaga, rétt við vegamótin. Þar virtist einnig vera búið myndarbúi:
Leiðin sem ég fór þetta fimmtudagskvöld var nokkurn veginn svona:
Hér ætla ég að setja punktinn yfir I-ið að sinni. Það var enn fimmtudagur þótt liðið væri á kvöldið og veðurspá fyrir næsta dag, föstudag, var framúrskarandi. Þá skyldi farið í Loðmundarfjörð, meðan sonurinn gengi í Stórurð með félögum. Sá kafli er í vinnslu.
Eins og kom fram í niðurlagi fyrri hluta var viðdvölin á Ísafirði áætluð u.þ.b. tveir sólarhringar. Áróra mín og afaskottið Emma Karen voru þar staddar og við höfðum ákveðið að gera eitthvað skemmtilegt saman. Við náðum skemmtilegri sundlaugarferð til Bolungarvíkur og enn skemmtilegra borðhaldi á pizzastað á Ísafirði, þar sem EK fann grímu í hundstrýnislíki í dótakörfu og þegar hún hafði mátað var ekki við annað komandi en að mamma mátaði líka:
Svo náði ég einni ferð um Óshlíðina, milli Bolungarvíkur og Hnífsdals. Vegurinn er orðinn afar illa farinn og versnar hratt. Það styttist í að hann verði alveg ófær, sem er leitt því í góðu veðri er þetta skemmtileg leið, þótt löngu tímabært hafi verið að gera göngin sem leystu hann af hólmi. Það hefði sannarlega mátt gerast nokkrum mannslífum fyrr....
Ég smellti líka af nokkrum myndum á tjaldsvæðinu í Tunguskógi. Ekki bara til að sýna ágætt svæði heldur einnig til að sýna hreint fráleita nýtingu þess. Á Siglufirði hafa þeir tekið upp á að reita niður svæðið og leigir þá hver sinn afmarkaða reit. Í Tunguskógi ægði öllu saman, hjólhýsum, Landkrúserum og tjöldum með túristabíl við hliðina. Svo horfði maður á ferðafólk hverfa frá, þar sem álitlegir blettir voru uppteknir af lúxusjepppum hjólhýsaeigenda. Útkoman: Tapaðar tekjur tjaldsvæðisins ....
Þegar leið á fimmtudaginn 9. júlí var kominn tími til að halda af stað að nýju. Ferðinni var heitið til Drangsness, eins og áður kom fram, og í matarkistunni var úrvals grillkjöt úr Bónus. Þegar ég var kominn langt inn eftir Djúpinu uppgötvaði ég hins vegar að allt meðlætið hafði gleymst ( svona er að hitta allt of marga sem maður þekkir í búðinni ). Sem betur fór átti ég nokkra spotta til að toga í og svo átti sjúkrabíllinn talsvert af ónotuðum hestöflum. Hvorttveggja nýtti ég mér og náði til Drangsness ekki seinna en korteri eftir lokun búðarinnar. Ég hafði hins vegar aflað mér leyfis til að banka á dyrnar, því búðarstýran var inni að ganga frá vörum. Þetta vissi ég gegnum spottana mína, sem lágu suður til Reykjavíkur og þaðan norður á Drangsnes. Þar á bæ var til nóg af ágætis meðlæti og enn meira af kexi og nammi, svo ég fór út klyfjaður bæði nauðsynjum og óþarfa....Síðan var slegið upp grillveislu fyrir einn ( eins og svo oft áður), næst tók við kvöldrölt um þorpið (eins og stundum áður) og svo bóklestur og svefn.
Föstudagurinn 10. júlí heilsaði með dálitlum rigningarúða, enda var ámóta þungbúið og á myndinni að ofan, frá kvöldinu áður. Ég dró því aðeins að ferðbúast því búist var við þurrki með morgninum. Það gekk eftir og rúmlega níu var lagt úr hlaði á Hondunni. Ferðinni var sem fyrr heitið á enda allra þeirra vega sem að byggðum liggja í Árneshreppi. Ég hjólaði frá Drangsnesi fyrir Bjarnarnesið og fyrsti viðkomustaðurinn var Kaldrananes, þ.e. kirkjan. Þangað kom ég sumarið 2012 og þá stóð yfir viðgerð á kirkjunni, sem virtist ganga mjög, mjög hægt ef marka mátti ellihruma vinnupalla......
Nú, átta árum síðar, hafði miðað allnokkuð þótt enn væri talsvert í land:
Ég hafði ekki langa viðdvöl á staðnum, leiðin lá fyrir Bjarnarfjörð, norður með Balafjöllum til Kaldbaksvíkur. Vegurinn var með allra besta móti, sléttur en þó dálítið laus og greinilegt að ekki var langt síðan heflað hafði verið. Norðan við eyðibýlið Eyjar, rétt áður en beygt var inn í Kaldbaksvík, veitti ég athygli einhverju gulu sem lá í stórgrýttri fjörunni. Við skoðun sást að þarna var allstór plastbauja með einhvers konar rafeindabúnaði, mölbrotin af briminu. Ekki kunni ég skil á apparatinu, né hvar það hafði mögulega verið, svo ég lét ógreinilega mynd duga:
Þokunni til fjalla var heldur að létta þegar ég kom til Kaldbaksvíkur og fjallasýnin að hreinsast. Það er harla lítið varið í að koma til Kaldbaksvíkur og sjá ekki stórfenglegt Kaldbakshornið (mið- mynd). Norðan við Kaldbaksvík er svo Veiðileysufjörður með býlinu Veiðileysu, og þar er neðsta myndin tekin í örstuttu nestisstoppi.
Næst tók við Veiðileysuháls og handan hans Reykjarfjörður og Djúpavík. Ég mátti til að stoppa og smella mynd af gamla Suðurlandinu, sem eitt sinn var flóabátur á Faxaflóa en endaði sem verkamannabraggi á Djúpavík.
Á leið um víkina greip mig kaffiþorsti svo ég áði við hótelið, tók af mér bagga og spurðist fyrir. Jú, kaffi var velkomið en ekki til að tala um að fá að borga fyrir það. "Hér er kaffið frítt" var mér sagt. Ég lýsti áður móttökunum í Breiðavík....hér var önnur afskekkt vík hinumegin á Vestfjarðakjálkanum en viðmótið var það sama - og af því mér fannst ekki viðkunnanlegt að drekka frítt kaffi á hóteli keypti ég mér dýrindis súkkulaðitertu með rjóma og öllu. Veðrið, sem sífellt fór batnandi, kórónaði svo stundina....
Á leið frá Djúpavík út með Reykjarfirði norðanverðum myndaði ég býlið að Naustvík, sem mér finnst eitt af fallegri og myndrænni eyðibýlum landsins.
Næst var komið að Gjögri. Þar ætlaði ég að heilsa upp á elsta fiskibát landsins Hönnu ST. ( sem einhversstaðar er talin smíðuð árið 1899, þótt eflaust viti það enginn með vissu) Ég hef áður myndað hana í vörinni sinni en nú var þar engin Hanna. Ég hitti mann og náði stuttu spjalli, þar sem m.a. kom fram að Hönnu væri róið til strandveiða frá Norðurfirði. Ég sneri mér svo einn hring og myndaði það sem bar fyrir augu....
Svo var haldið áfram frá Gjögri inn í Trékyllisvík og þaðan um Eyrarháls ( ég vona að ég fari rétt með) að Eyri í Ingólfsfirði. Þar stendur gömul síldarverksmiðja sem reist var af stórhug í kjölfar risaverksmiðjunnar á Djúpavík. Ekki skóp nú Eyrarverksmiðjan eigendum sínum mikið gull, enda byggð of seint, þegar síldin var að færa sig til og hverfa af þessum áður gjöfulu veiðislóðum. Við verksmiðjuna hafa verið sett um mjög góð kynningarskilti ásamt ljósmyndum frá liðinni gullöld:
Fyrir botni Ingólfsfjarðar er samnefndur bær. Þar er ekki lengur föst búseta en bænum er vel við haldið og líklegast er þar fók meira og minna frá vori til hausts, líkt og á flestum álíka stöðum nyrðra. Flestar jarðirnar eru hlunnindajarðir að einhverju marki og þeim hlunnindum er alla jafna sinnt. Í fjarðarbotninum standa nokkrir bátar í mismunandi ásigkomulagi. Þegar ég fór þessar slóðir sumarið 2012 myndaði ég þann stærsta, sem eitt sinn hét Hrönn KE en síðast Kría ÍS (eða ST) og sagði söguna af kynnum mínum af honum frá því fyrir mörgum árum. Þá sýndist mér bátnum vera við bjargandi ef gengið væri í verkið....en það var svo sem engin ástæða fyrir menn að ganga í það verk - Hrönnin hafði lokið sínu dagsverki, komin upp á kamb þar sem hún fúnaði og sprakk. Stórviðgerð á svona bát er ekki framkvæmd nema honum sé ætlað hlutverk - og hans hlutverki var s.s. lokið. Fyrri myndirnar eru frá 2012, þær seinni frá því í sumar:
Áður en áfram er haldið langar mig að bæta hér við klausu sem ég skrifaði sumarið 2012, eftir ferðina á Strandir. Þessa klausu má finna hér til hægri á síðunni í lengri færslu sem merkt er júlí 2012. Þar eru skýrð kynni mín af Hrönninni, og það sem ég hugsaði þegar ég sá hana standa á kambinum í Ingólfsfirði:
"Inni við botn Ingólfsfjarðar stendur samnefnt eyðibýli, í ágætri hirðu og sumarnotkun. Fyrir miðjum botni stóðu nokkrir bátar á fjörukambinum og einn þeirra vakti sérstaka athygli. Þar var komin 1601, Hrönn, fyrrum KE en nú ST. Raunar var varla hægt að lesa neitt að gagni nema nafnið á stýrishúsinu, en það var svo sem alveg nóg. Ég var oft og lengi búinn að reyna að afla mér upplýsinga um afdrif þessa fallega, fjögurra tonna dekkbáts án árangurs. Svo þegar ég loks hitti mennina sem hefðu getað sagt mér allt sem ég vildi vita, mundi ég ekki eftir að spyrja. Það var líklega árið 1988 sem Hrönnin var í Bolungarvík, í eigu Flosa og Finnboga Jakobssona. Þeir höfðu keypt bátinn til að hirða af honum kvótann og restin var til sölu á því verði sem þá gekk fyrir kvótalausa trébáta - sama og ekkert! Ég var kominn með aðra höndina á bátinn þá en þar sem annar - heimamaður - hafði verið búinn að biðja um hann á undan og sá var ákveðinn í að taka hann, missti ég af kaupunum. Hrönnin var smíðuð í Stykkishólmi árið 1978 og var því aðeins um tíu ára gömul, með um sextíu hestafla Vetus/Peugeotvél. Mér fannst þá grátlegt að hafa misst af þessum bát, hefur alla tíð fundist og finnst enn. Ekki síst er það grátlegt þegar örlög þessarrar fallegu fleytu eru þau að grotna niður á fjörukambi norður í Ingólfsfirði. Á sínum tíma hefði ég hiklaust selt sálina fyrir bátinn þarna við bryggjuna í Bolungarvík, nú er hann líklega "beyond the point of no return" eins og alltof margir velbyggðir trébátar sem grotna niður í vanhirðu víða um land."
Þannig var nú það. Það var ekki stoppað lengur við Hrönnina, enda hálfgrátleg sjón orðin. Ég hjólaði út með Ingólfsfirði norðanverðum og nú brá veginum heldur til hins verra. Hjólið fann sem betur fór ekki mikið fyrir því, ég þræddi milli hola og steina enda þurfa tvö mjó dekk ekki mikið pláss. Utarlega í firðinum er þessi kross í grjóturð ofan vegar. Ekki eru finnanlegar neinar haldbærar heimildir um tilurð hans, sögur hafa verið sagðar án sönnunar enda mega góðar sögur síst líða fyrir sannleikann. Allt um það, krossinn er þarna, hvítmálaður og bjart yfir honum.Á neðri myndinni, sem tekin er út fjörðinn má sjá allt til Drangaskarða..:
Þegar Ingólfsfirði sleppir tekur við Seljanes, milli hans og Ófeigsfjarðar. Á Seljanesi er sögunarvirki þar sem Drangamenn, sem einnig eiga Seljanes, unnu rekavið og vinna kannski enn, í samkeppni við innflutt timbur BYKO og Húsasmiðjunnar.
Svo var hjólað yfir í Ófeigsfjörð, um lágan háls undir lágu Seljanesfjalli. Ég var svo heppinn að kannast lítillega við landeigendur og hlunnindabændur í Ófeigsfirði, kynni sem öfluðu mér kaffibolla og kökubita. Það er ekki ónýtt að eiga slíka kunningja í áningarstað á löngu ferðalagi.
Þótt vegarendi í Ófeigsfirði sé að sönnu úti við Hvalá, þá ákvað ég að minn vegarendi væri við Húsá, þar sem hún fellur til sjávar í breiðum ósi rétt norðan við bæinn. Ósinn var ófær hjólinu og auk þess var ég búinn að fara utar áður á bíl, svo ég taldi réttlætanlegt að snúa við á bökkum Húsár.
Myndin hér að neðan er tekin af Seljanesi, á leið til baka inn í Ingólfsfjörð. Á henni má sjá fyrrum stórbýlið að Munaðarnesi, sem er ysti bær utan Eyrar, þ.e. sunnan (austan) fjarðar. Reyndar eru Munaðarnes og Ingólfsfjörður (jörðin) einu bæirnir sem enn standa við fjörðinn auk Eyrar.
Á myndinni hér að neðan er Valleyri í Ingólfsfirði, rétt innan Seljaness. Þarna var snemma á síðustu öld rekin lítil síldarverkunarstöð í eigu Norðmanns. Einnig mun hafa verið verslun um tíma á Valleyri.
Svo var hjólað til baka fyrir Ingólfsfjörð, um Eyri og yfir hálsinn til Trékyllisvíkur og sem leið lá til Norðurfjarðar, útgerðar og verslunarstaðar við norðvestanverða Trékyllisvík. Úr botni fjarðar liggur vegur um lágan háls og síðan undir vestanverðu Krossnesfjalli til Munaðarness. Þar var sá annar af þremur vegarendum sem fyrirheitnir voru.
Á leiðinni til Munaðarness staldraði ég aðeins við og myndaði inn eftir Ingólfsfirði. Í forgrunni eru tóftir og líklega eru þar leifar býlis að Hlöðum, skv. korti. Handan fjarðar, nærri myndjaðri hægra megin er Valleyri.
Horft frá Munaðarnesi til Drangaskarða. Sólarlag á þessum slóðum þegar skörðin bókstaflega loga, er ógleymanlegt öllum sem séð hafa.
Ég hjólaði heim að bæjarhliðinu og sneri þar. Óviðkomandi er ekki ætlað lengra enda óþarfi - vegurinn endaði við hliðið. Rétt ofan þess var borð með bekkjum, ætlað ferðamönnum til áningar. Ég nýtti mér aðstöðuna.
Enn myndað frá Munaðarnesi yfir Ingólfsfjörð allt til Ófeigsfjarðar. Seljanes ber í rafmagnsstaurinn
Þá var vegarenda númer tvö náð og einum banana gerð skil að auki. Ekkert að vanbúnaði, nú skyldi hjólað aftur til Norðurfjarðar og þaðan austan Krossnesfjalls að vegarenda við býlið Fell. Allt var það vandalaust og rétt utan sundlaugarinnar á Krossnesi er skilti við veginn sem bendir til fjörunnar. Á skiltinu stendur "Þrjátíudalastapi" en hann er náttúrufyrirbæri undir bökkunum ofan fjöruborðsins.
Um Þrjátíudalastapa er til þjóðsaga, sem lesa má HÉR.
Það er ekki löng leið út að Felli og þegar ég nálgaðist býlið kom í ljós að einnig þar var fólk. Mér reiknaðist svo til að á nær öllum jörðum sem á annað borð voru hýstar að einhverju marki, hvort sem þar var gamalt íbúðarhús eða nýrri sumarbústaður, væri fólk. Langflestar þessara gömlu bújarða voru þannig í einhverri hirðu, og það var svo sannarlega mikið líf að sjá, þótt eflaust séu fáir á svæðinu yfir veturinn, og varla nema þeir sem enn hafa þar fasta búsetu. Hús að Felli voru t.d. mjög vel hirt og snyrtileg og gaman þangað heim að horfa.
Frá garðshliðinu að Felli sneri ég myndavélinni inn Trékyllisvík og myndaði Reykjaneshyrnu handan víkur. Undir henni eru bæirnir Litla- og Stóra Ávík. Toppurinn hægra megin myndi vera Örkin en handan hennar er Kjörvogshlíð ig Reykjarfjörður.
Með þriðja og síðasta vegarendann að baki var hjólinu snúið inn hlíð að nýju. Ekki var þó farið langt því sundlaugin að Krossnesi var opin og í henni nokkuð af fólki. Mér fannst tilvalið að skola af mér vegarykið og skella mér í sundlaugina og heita pottinn. Það var afskaplega notaleg hvíld eftir jask dagsins, því langmest af þeim rúmum hundrað og sextíu kílómetrum sem ég hafði lagt að baki yfir daginn á misgóðum malarvegum, hafði ég hjólað standandi og skrokkurinn var örlítið tekinn að þreytast....eða kannski var það bara huglæg þreyta, heilinn að segja manni að nú væri kominn tími til að verða dálítið þreyttur. Ég veit það ekki, það hafði verið svo gaman að ferðast um svæðið og ná þessum þremur vegarendum að þreyta hafði bókstaflega ekki hvarflað að mér. Ég átti samt eftir rúma hundrað kílómetra ófarna til baka til Drangsness.
Eftir sund og pottlegu sem samtals tók á annan klukkutíma kom ég við á bensínstöðinni í Norðurfirði og fyllti hjólið af bensíni. Svo var dólað suður eftir, áleiðis "heim" í bílinn á Drangsnesi. Á leiðinni inn Reykjarfjörð hvarflaði að mér að toppa ferðalagið og sundferðina með gala-kvöldverði á Hótel Djúpavík. Ég hætti hins vegar snarlega við það þegar ég sá bílafjöldann fyrir utan - það var greinilegt að fleiri höfðu fengið þessa ágætu hugmynd og orðið á undan mér að framkvæma hana. Ég mátti samt til að mynda Suðurlandi gamla enn betur, því nú fer hver að verða síðastur að ná myndum áður en það hrynur í duft. Hrörnunin er orðin mjög hröð og líklega ekki nema svona fimm ár þar til skrokkurinn hrynur alveg saman. Ég lagði hjólinu og gekk kambinn neðan verksmiðjunnar með hjálminn á mér því krían gaf óspart til kynna að ég væri ekki velkominn á hennar ótvíræða yfirráðasvæði. A.m.k. eitt vænt högg fékk ég ofan í hjálminn eftir beittan kríugogg og hefði ekki viljað taka á móti sendingunni berhöfðaður.
Á myndinni hér að neðan sést inn í vélarrúm Suðurlandsins, enda er stb. síðan að hálfu leyti horfin úr ryði. Það mátti glögglega sjá báðar sveifar gufuvélarinnar og gufuketilinn framan við. Á kringlótta opinu beint uppaf aftanverðum katlinum hefur svo reykháfurinn setið. Vélin var tveggja þjöppu (strokka) og framleiddi 350 hestöfl. Suðurlandið þótti alltaf afleitt skip og eflaust hefur það komið að bestum notum þegar búið var að leggja því þarna í fjörunni við síldarverksmiðjuna stóru á Djúpavík og gera úr því gistiskýli fyrir verkafólk.
Klukkan var um hálfníu þegar ég renndi upp að ferðabílnum á tjaldsvæðinu á Drangsnesi og ellefu tímar sléttir liðnir frá bottför um morguninn. Ég átti nóg að borða og gerði því góð skil en svo var snemma skriðið í ból. Frábær föstudagur var að baki...
Laugardagurinn reyndist ekki alveg jafn frábær - a.m.k. ekki í byrjun. Þegar hjólið hafði verið sett á kerruna og bundið fast, og allt var tilbúið fyrir brottför og heimferð til Reykjavíkur, neitaði ferðabíllinn algerlega að fara í gang. Hann hafði tvisvar áður í minni eigu sýnt viðlíka tilburði en alltaf vitkast á endanum. Nú varð hins vegar engu tauti við hann komið. Það er hvorki hátt til lofts né vítt til veggja í vélasal ferðabílsins og ekki auðvelt að komast að hlutunum. Eftir miklar vangaveltur afturábak og áfram, og gúggl um amerískar Econoline - vandamálasíður var ég orðinn nokkuð viss um hvað amaði að. Búnaðurinn sem stjórnaði hitanum á glóðarkertunum var ekki að skila sínu. Það eina sem ég gat gert var að bíða eftir að búðin opnaði kl. 11 og vona að þar væri til einhver startvökvi eða ámóta eldfimur vökvi sem gefa mætti dísilvélinni í nefið. Í bakhöndinni hafði ég svo alltaf hjólið, ef renna þyrfti lengri vegalengd eftir slíkum vökva, og þá helst til Hólmavíkur. "Plan C" var svo að renna á hjólinu til Reykjavíkur eftir varahlutum, hjóla svo norður aftur með þá og reyna að koma þeim í á staðnum. Ég hitti tjaldvörðinn og tryggði mér leyfi fyrir stöðu bílsins í nokkra daga, færi svo.
Svo varð klukkan ellefu, búðin opnaði og ég fann einn brúsa af þessum fína bremsuhreinsi. Bremsuhreinsir er ákaflega eldfimur, næstum eins og startvökvi og ég hafði áður notað þannig vökva til að ná í gang tregum vélum. Ferðabíllinn ætlaði nú samt ekki að samþykkja meðalið með góðu, en þegar lækka var farið í brúsanum og voltunum á rafgeymunum farið að fækka náðist hann loks í gang með hökti og glamri. Tjaldsvæðið hvarf að mestu í reyk en sem betur fór var hæg gola svo loftið hreinsaði sig fljótlega. Ég var líka fljótur að láta mig hverfa og það var ekki drepið á vélinni fyrr en heima við Höfðaborg, fjórum klukkutímum síðar.
Laugardagur 4. júlí. Lagði af stað úr Reykjavík með kerru og mótorhjól um Dali og Bjarkalund, og um Hálsa í Flókalund. Ferðinni var heitið til Patreksfjarðar, þar sem bílnum skyldi lagt við tjaldsvæðið nokkrar nætur meðan hjólið yrði brúkað til ferðalaga um merkisslóðir í nágrenninu. Ferðin var tíðindalaus í Flókalund, þrátt fyrir leiðinlega malarkafla yfir hálsana, Ódrjúgs-og Hjalla-. Í Gufufirði var aðkoma að brú í botni fjarðar svo mishæðótt að allt ækið, bíll, kerra og hjól, fékk högg og hentist til. Í speglunum var þó ekki annað að sjá en að allt væri á sínum stað svo ég hélt áfram án þess að kanna neitt frekar. Þegar ég svo áði í Flókalundi og hugðist fá mér kvöldmat kom í ljós að gafl kerrunnar hafði - einhversstaðar á leiðinni - opnast til hálfs, og glerfín, nýsmíðuð rennibraut fyrir hjólið var horfin. Líklegt þótti mér að gaflinn hefði raskast á leið yfir holótta hálsana, en þó enn líklegra að hoppið í Gufufirði væri ástæðan. Allt um það, ekki var um annað að velja en snúa við og aka til baka, svo langt sem þyrfti til að finna rennuna. Einhversstaðar hlaut hún að liggja og ég vonaði tvennt: Að enginn hefði lent í að aka á hana liggjandi á veginum og skemmt bílinn sinn, og svo hitt að sá hinn sami - eða einhver annar - hefði ekki tekið brautina og fleygt henni út fyrir veg. Þá gæti orðið þrautin þyngri að koma auga á hana. Ég ók í fúlu skapi fyrir Vatnsfjörð, Hjarðarnes, Kjálkafjörð, Litlanes og - viti menn! Þegar ég ók inn á brúna yfir Mjóafjörð (inn af Kerlingarfirði) lá þar eitthvað torkennilegt á veginum sem sást talsvert langt að. Þegar nær dró sást að þar var komin rennan mín góða, liggjandi þvert yfir aðra akreinina. Hún reyndist óskemmd með öllu, utan smáhrufl eftir bíl sem greinilega hafði ekið yfir hana. Til allrar hamingju hafði stjóri hans hins vegar ekki stöðvað til að fjarlægja þennan tveggja metra langa aðskotahlut af veginum, og í því lá mín heppni. Ósegjanlega feginn kippti ég rennunni upp á kerruna opg gekk nú betur frá henni en fyrr. Eftir 10-15 mínútna akstur var ég aftur kominn í Flókalund og gat pantað og etið minn hamborgara sáttur og sæll.
Eftir matinn var haldið áfram til Patró og komið þangað á miðju kvöldi. Ég fann ágætan stað fyrir bílinn og kerruna við tjaldsvæðið og við tók gönguferð um bæinn í einmunablíðu. Það var svo afskaplega notalegt að leggja sig um kvöldið því veðurspá sunnudagsins var afar hagstæð til ferðalaga.
Sunnudagurinn 5.júlí heilsaði með sólskini, líkt og lofað hafði verið. Hjólinu var snarlega kippt af kerrunni, svo var snarast í gallann og lagt af stað um níuleytið að morgni. Ég hjólaði/ók fyrir Patreksfjörð með stuttri við komu í Skápadal, þar sem Garðar gamli er óðum að verða ryði að bráð.
Svo lá leiðin um Skersfjall til Rauðasands og út að vestasta bæ, Lambavatni. Þar býr vinafólk sem nauðsynlegt var að heilsa upp á, en að sjálfsögðu voru allir í önnum þótt sunnudagur væri, enda yfirstandandi heyskapur og svo gefa mjólkandi kýr í fjósi engan afslátt af sínum venjum og þörfum! Viðstaðan var því stutt það augnablikið, áður en haldið var áfram áleiðis út að Skaufhól með stefnu á fyrrum býlið að Brekku.
Þangað er greið leið út fyrir Skaufhól en utar liggur slóðin að hluta í sandi og sandur er ekki gott undirlag fyrir mótorhjól. Ég elti hjólför eftir bíl meðan þeirra naut, enda sandurinn stífari í hjólförum. Svo urðu þau ógreinilegri, ég tapaði slóðinni og augnabliki síðar sat hjólið jarðfast í sandinum.
Til að losa það og snúa varð að leggja það á hliðina og snúa því flötu, sækja svo spýtnabrak ofar á sandinn (þar sem var rönd af rusli eftir síðasta stórbrim á háflóði), leggja timbur undir standara og dekk og reisa hjólið upp aftur. Með því að þjappa með fótunum rönd fyrir framhjólið tókst að komast af stað að nýju og til baka að bílförunum. Þar með var björninn unninn en út að Brekku fór ég ekki í þetta sinn.
Skaufhóll "gnæfir" eina 35 mtr. yfir utanverðan Rauðasand en vegna flatneskjunnar er útsýni af honum stórkostlegt. Ég lagði af stað í fyrstu "fjallgöngu" sumarsins og var hróðugur að komast upp án þess að fá hjartaáfall. Síðast kom ég á Skaufhól árið 1987 en útsýnið var nokkuð það sama og "styttan" af Ólafi heitnum Thors stóð á sínum stað.
Það var komið hádegi þegar ég kom aftur að Lambavatni og þessi "frábæra" tímasetning afturkomunnar færði mér skyr og brauð í hádegismat hjá því öndvegisfólki sem þar býr.
Eftir kveðjur og þakkir var Hondan ræst og haldið á hinn vegarendann, þ.e. Melanes, innst við Rauðasand. Þar er rekin gistiþjónusta, tjaldsvæði og lítil nestis- og "gleymskuvöru" verslun þar sem kaupa má kaffi. Ég nýtti mér það og uppskar ágætis spjall við Ástþór bónda og konurnar í afgreiðslunni. Í nesti keypti ég mér svalafernur og pakka af Ritzkexi, sem síðar kemur við sögu. Vegna sólarhitans var ekki mögulegt að geyma neitt á hjólinu sem gat bráðnað og því var súkkulaðikex útilokað.
Svo var enn ræst og lagt af stað í næsta áfanga. Rauðisandur kvaddur og hjólað til baka um Skersfjall og Skápadal að mótum Kleifaheiðar. Þar var beygt upp á heiðina og hjólað sem leið lá yfir á Barðaströnd. Við vegamót sunnan heiðar sem áður voru merkt "Siglunes" en eru nú ómerkt, var beygt út á afleggjarann og haldið lengra út eftir Barðaströnd, þar sem ekki er talin "alfaraleið". Vegurinn liggur fyrir Haukabergsvaðal og vestan við hann í átt til sjávar aftur. Undir Skriðnafellsnúp beygir vegurinn til suð-suðvesturs í átt til Sigluness, sem á myndinni sést í fjarska. Þar var vegarendi og honum skyldi náð.
Á Siglunesi var fyrrum búið góðu búi á a.m.k. þremur bæjum. Útræði var einnig mikið enda stutt á góð mið, og haft var á orði að " ...sá sem frá Siglunesi rær, landi nær" Nú eru á Siglunesi aðeins tóftir og steypt veggjabrot, utan einnar hlöðu sem þokkalega stendur og kofarústar við sjóinn. Við aðkomuna að nesinu hefur verið reist minnismerki um síðustu ábúendur. Á grundunum innan nessins er haganlega hlaðin fjárrétt, eftirtektarverð fyrir þráðbeinar línur.
Eftir stutta göngu og nesti að Siglunesi var haldið til baka inn strönd. Farið var hjá eyðibýlinu Hreggstöðum, sem virtist í þokkalegri hirðu, og innan þess stóð stór skemma við veginn. Líklega var hún leifar fyrrum grásleppuvinnslu, en sá tími var greinilega liðinn og þessi verklega bygging grotnaði smám saman, hurðir skakkar og gler sprungið.
Svo lá leiðin til baka um Kleifaheiði til Patreksfjarðar og út Raknadalshlíð út í bæ. Ég átti eftir að ganga frá leigunni á náttstæðinu fyrir bílinn til þriggja nátta og kaupa mér eitthvað í gogginn. Að því frágengnu var enn haldið af stað, nú um Mikladal til Tálknafjarðar þar sem mig hafði um árabil langað að koma út á Suðureyri, sunnan fjarðar. Á Suðureyri eru talsverðar minjar um hvalstöð sem þar stóð á fyrstu áratugum síðustu aldar, og mig hafði lengi langað að skoða þessar minjar. Sjá: https://www.westfjords.is/is/westfjords/index/the-deserted-whaling-station-in-sudureyri-1
Leiðin út með Tálknafirði sunnanverðum er afar falleg. Mikil skógrækt er á jörðinni Hvammeyri og enn utar er jörðin Lambeyri. Þegar þangað var komið tóku á móti mér tveir heimalningar sem komu hlaupandi að hjólinu og vildu gjarnan þiggja eitthvað góðgæti. Því miður átti ég ekkert handa þeim nema Ritzkexið frá Melanesi (sem áður var áminnst) en þegar ég opnaði pakkann, sem eðli málsins samkvæmt var búinn að ferðast frá Melanesi yfir Kleifaheiði, út á Siglunes og til baka á Patró og síðan út ekkialltofgóðan veginn í Tálknafirði, þá reyndist innihaldið aðeins musl. Lömbin hnusuðu, hristu hausinn en sneru sér svo við og gáfu skít í mig í bókstaflegri merkingu. Litskrúðurar landnámshænur í nágrenninu sýndu meiri kurteisi og hámuðu í sig mylsnuna. Ef saltbragð var af eggjunum næstu daga veit ég hverju er um að kenna.....
Þegar út að Suðureyri kom blasti við skilti:
Það hafði tekioð mig mörg ár að manna mig upp í að fara út á Suðureyri og skoða leifar hvalstöðvarinnar - ýmist var tíminn of naumur, farartækið ekki rétt eða eitthvað annað sem hamlaði. Auk þess hef ég alls ekki verið á þessum slóðum á hverju sumri, langt því frá. Svo loksins, þegar allt féll saman, var búið að loka eyrinni fyrir ferðamönnum. Ég settist á stein ofan við keðjuna og át nestið mitt, volgan Svala og rest af Ritzmylsnu.
Það var ekki um annað að velja en að halda til baka með skottið milli lappanna. Á leiðinni til baka myndaði ég safnið hans Stefáns heitins á Innari - Lambeyri (eða svo vildi hann kalla slotið) Stefán á Innari - Lambeyri vildi gjarnan láta líta á sig sem "sérvitring". Ég var dálítið kunnugur honum og hefði notað annað orð. Stefán lýsti húsið sitt með heimagerðri rafstöð í bæjarlæknum. Þótt hann sjálfur sé genginn virtist rafstöðin ágætlega virk, því á sólbjörtu sumarkvöldi logaði ljós í stofu....
Ég myndaði einnig fleiri kofa á ströndinni, svo og hluta skógræktarinnar að Hvammeyri.
Mér fannst tilvalið að renna aðeins út í þorpið Sveinseyri við Tálknafjörð og athuga opnunartíma sundlaugarinnar. Hann reyndist rúmur svo ég sneri við, skrúfaði frá öllum 37 hestum gulu Hondunnar og þeysti yfir á Patreksfjörð eftir sundfötunum. Síðan aftur um Mikladal til Tálknó og í sundlaugina. Þar náði ég tæpum klukkutíma í pottinum og fróðlegu spjalli við Bílddæling sem um árabil var Ísfirðingur í ábyrgðarstöðu auk þess að sitja á alþingi. Hann er nú kominn á eftirlaun og loks "frjáls" eins og félagi hans á Bíldudal söng og syngur enn.
Heimferðin til Patró eftir pottleguna var tekin rólega enda kvöldblíðan einstök og tækifærið var notað til að líta á gamlan skíðaskála á Mikladal, þar sem fátt var eftir af fyrri tíma fögnuði...
Mánudagurinn 6. júlí hófst og endaði á sólskini. Ég lagði snemma af stað því framundan var löng dagleið. Eins og daginn áður hjólaði ég fyrir Patreksfjörð og um Skápadal að Hvalskeri. Nú var hins vegar ekki beygt upp á Skersfjall heldur haldið áfram út ströndina. Fyrsti viðkomustaður var eyðibýlið að Vatnsdal, innan Örlygshafnar. Ég hafði um árabil ætlað að koma þar við en aldrei orðið úr fyrr en nú. Í Vatnsdal bjó Guðmundur Kristjánsson, áður í Breiðavík og einn þeirra sem tóku þátt í björgunarafrekinu við Látrabjarg 1947. Mikil saga er honum tengd, sem að hluta má lesa um í "Þrautgóðir á raunastund", 3 bnd. bls. 229-232. Þessi saga dró mig að Vatnsdal og ég myndaði býlið til minningar:
Frá Vatnsdal hélt ég áfram um Örlygshöfn ( en sleppti safninu að Hnjóti) og allar götur út í Kollsvík. Þar kannaðist ég við fyrrum ábúendur og eftir að hafa rennt út að hinu býlinu í víkinni, Láganúpi, sem er á vegarenda, þáði ég kaffisopa í Kollsvík.
( Á myndunum hér að ofan er Láginúpur fyrst, þá sýn frá Láganúpi inn eftir víkinni og loks sést til býlisins að Kollsvík. Á hvorugum bænum er lengur veturseta)
Eftir kaffið í Kollsvík hélt ég til baka um Hænuvíkurháls og myndaði yfir samnefnda vík, þar sem sér alla leið inn til Patreksfjarðar, þ.e. þorpsins. Á neðri myndinni sér til Sellátraness og Ólafsvita, sem lesa má nokkur orð um HÉR
Næst á dagskrá var Breiðavík. Þar hafði ég aðeins ekið hjá á leið að og frá Látrabjargi, en aldrei komið við. Nú skyldi úr því bætt og ég renndi í hlað. Gekk frá hjólinu, lagði frá mér þann hluta gallans sem ég gat verið án, þ.e. efri hlutann, og gekk til húss. Mig langaði í kaffi sem var auðfengið, en móttökurnar voru slíkar að ég mátti til að dvelja aðeins lengur og pantaði mér því mat þótt komið væri talsvert fram yfir hádegi. Allt var þarna ákaflega fínt, hreint og snyrtilegt og móttökurnar ekkki ólíkar því sem týndi sonurinn hefði loks ratað heim....
Að "hádegismat" loknum var enn hjólað af stað, um Hvallátra til Bjargtanga. Þar voru nokkrir ferðamenn fyrir, þó eflaust ekki nema lítið brot þess fjölda sem á þessum tíma sækir staðinn í óbreyttu árferði. Ég gerði líkt og í Breiðavík, lagði hjólinu og fleygði frá mér þeim fötum sem ég mátti vera án, því hitinn var nær óbærilegur annars. Á bjargbrúninni stóu nokkrir lundar og virtu fyrir sér mannfólkið af ámóta forvitni og þeir voru sjálfir skoðaðir. Mér fannst líka stórmerkilegt hvað mávarnir (þó aðallega fýllinn) gat haldið sér á litum syllum í berginu, jafnvel með tvo stálpaða unga með sér. Ungarnir virtust reyndar aðallega halda sig undir foreldrinu en fyrirferðin var samt talsverð. Þetta var ótrúlegt að horfa á og ég eyddi talsverðum tíma í vangaveltur um rýmisgreind fugla. Hávaðinn var líka gríðarlegur og það má alveg minnast á "ilminn" sem lagði fyrir vit þegar gengið var nærri brúninni og golan stóð af henni í andlit.
Eftir gönguferð um bjargbrúnina lagðist ég í sólbað dálitla stund, því ég bókstaflega kveið því að klæðasta gallanum að nýju og halda af stað. Það kom þó að því að ekki mátti dvelja lengur, dagurinn flaug áfram og enn var margt eftir að skoða. Ég lagði af stað að nýju en milli Hvallátra og Breiðavíkur beygði ég inn á afleggjara sem liggur 12 km. til suðausturs, til Keflavíkur yst á Rauðasandi. Vestan Keflavíkur er Keflavíkurbjarg sem einnig er austasti hluti samstæðunnar sem í daglegu tali er kölluð Látrabjarg. Í Keflavík er mikil náttúrufegurð, þar var áður býli og útræði. Nú er þar ágætt björgunarskýli, Guðrúnarbúð. Vegurinn liggur um heiði, þar sem heita Stæður og var ágætur framan af en versnaði til muna er nær dró brúnum Keflavíkur. Niður í sjálfa víkina og að skýlinu var hálfgerð torfæra en gekk þó ágætlega. Göngufólk var við skýlið en hvarf fljótlega til heiða og eftir það átti ég heiminn einn.....
( Mér fannst útrunni súpupakkinn sérstaklega skemmtilegur, ekki vegna ártalsins heldur dagsetningarinnar, sem var afmælisdagurinn minn. Þennan dag átti ég sextugsafmæli)
Á leiðinni til baka um Stæður, tók ég eftir skilti sem vísaði með afleggjara til suðurs og stóð á "Geldingsskorardalur" Ég vissi að sá dalur hafði komið mikið við sögu við björgunarafrekið 1947 og mátti til að líta þangað. Kaflinn er innan við tveir kílómetrar og vegurinn þokkalegur en upplifunin - þ.e. fyrir þann sem einhvern áhuga hefur á sögunni - var einstök.
Svo lá leiðin til baka til Breiðavíkur, um Örlygshöfn og Hafnarmúla ( þar sem ég leit aðeins á leifarnar af Sargon, sem enn sjást) og allar götur til Patreksfjarðar. Það var farið að halla frábærum degi og hungrið farið að sverfa að. Ég skellti mér í heita pottinn í sundlauginni og pantaði mér svo pizzu á veitingastaðnum "Vestur" sem stendur nærri tjaldsvæðinu. Ég gat því lagst til svefns í sjúkrabílnum saddur og sæll með enn einn vel heppnaðan ferðadag. Á morgun tæki annar við....
Þriðjudagur 7. júlí. Veðrið á Patró var ekki það sama þennan morguninn. Það var lágskýjað, hálfkuldalegt og hann blés stíft inn fjörðinn. Hjólið var komið á kerruna, allt var ferðbúið. Ekki átti þó að ferðast langt í fyrsta áfanga, heldur aðeins yfir Mikladal, um Tálknafjörð og Hálfdán til Bíldudals. Þar skyldi hjólið tekið af og hjólað um Ketildali út í Selárdal. Þegar til Bíldudals kom varð strax ljóst hvert Patreksrjarðarsólin hafði farið. Hún hafði aðeins verið árrisulli en ég og var þegar komin á undan mér til Bíldudals. Ég bjóst til ferðar í Spánarveðri.
Frá Bíldudal eru aðeins 25 km. út í Selárdal, allt á malarvegi og þótt hann væri ágætur á köflum voru aðrir kaflar hans aðeins þeim mun verri, holóttir og ósléttir. Hjólið finnur sem betur fer ekki mikið fyrir slíku og það leið ekki á löngu þar til ég stöðvaði á kambinum neðan ysta bæjar í Selárdal, Króks. Næsti bær innan við Krók er Skeið, eða Kolbeinsskeið. Ég skoðaði bæinn árið 2012 því þá voru uppi áform um að endurbyggja hann. Nú var því lokið, en reyndar skilst mér að gamli bærinn hafi verið svo illa farinn að ekki hafi þótt gerandi að byggja hann upp. Húsið sem nú standi sé því endurgerð þess gamla á sama grunni. Hvort sem er, er sómi að húsinu. Það gamla má m.a. sjá HÉR. Ég má svo til að setja hér fyrst myndir sem ég tók af húsinu sumarið 2012:
....og svo þær sem ég tók í sumar. Eins og sjá má er vel að verki staðið:
Að Brautarholti, listasafni Samúels Jónssonar bónda og listamanns, hafði mikið starf verið unnið. Sumarið 2012 var útlitið svona:
Í sumar hafði risið þarna endurbyggt hús, nær fullbúið utan sem innan. Í því var upplýsingamiðstöð og kaffisala, sem ég nýtti mér auðvitað:
Mér var sagt að næst lægi fyrir að endurnýja næpuna á kirkjunni, þar sem hún væri orðin illa farin af fúa. Ekki þarf að efast um að það verði gert af sama myndarskapnum og annað sem unnið hefur verið á staðnum, í sjálfboðavinnu og fyrir frjáls framlög.
Ég fór ekki fram að Uppsölum í sumar. Þangað fór ég sumarið 2012 og þá var húsið opið forvitnum ferðalöngum. Að Brautarholti var mér sagt að þar hefði ekkert breyst utan hvað húsið væri nú læst. Ég átti því þangað ekkert erindi heldur dólaði til baka inn strönd. Næst á dagskrá var að líta á eyðibýlið að Austmannadal. Á leið úteftir hafði ég hitt þar tvær konur og í stuttu spjalli sögðu þær mér að húsið væri ákaflega áhugaverð bygging. Húsið stendur niðri á sjávarbökkum, talsvert neðan vegar svo ég lagði Hondunni og gallanum neðan vegarkantsins og rölti niðureftir. Þær höfðu síst dregið úr, konurnar. Húsið er ekki beinlínis steypt, heldur hlaðið úr óreglulegu grjóti sem límt er saman með steypu. Yfir dyrum og gluggum var flatjárn til styrktar og neðri hæð hafði verið vel manngeng enda vistarverur þar að sjá. Kjallaraveggirnir voru hlaðnir þykkri en ofar og á þykktarmuninum hafði hvílt fótstykki gólfsins á efri hæð. Svo var einnig að sjá að sitthvor hleðslumeistarinn hefði hlaðið langveggi og gafla, því langveggir voru næsta sléttir að innan meðan gaflarir voru mjög hrjúfir og ójafnir. Allt húsið hefur svo verið þiljað innan með timbri og klappað utan með steypulagi líkt og pússning væri.
Eitthvert nesti átti ég í töskunni og að lokinni skoðunarferð um þetta sérkennilega býli var gott að svala sér aðeins. Svo var enn haldið af stað og næst var myndað eyðibýlið að Bakka í Bakkadal, dálitlu innar en Austmannadalur:
Þegar inn á Bíldudal kom var enn sami hitinn og lognið. Ég gekk frá hjólinu á kerruna, hafði fataskipti og rölti upp í bæ. Talsvert var af ferðafólki og það var biðröð eftir hressingu í búðinni. Allt hafðist þó með þolinmæðinni og ég settist út á verönd með nestið mitt:
Svo var rölt til bíls og á leiðinni teknar nokkrar myndir af bænum...
Það var farið að síga á daginn þegar ég lagði af stað á ný. Nú var förinni heitið á fyrrum heimaslóðir, til Ísafjarðar. Þar voru Áróra mín og afaskottið Emma Karen í heimsókn og ég hugðist heilsa upp á þær. Á leiðinni til baka var litið um öxl af Hrafnseyrarheiði sem brátt heyrir sögunni til.
Klukkan var farin að nálgast kvöldmat þegar ég renndi í bæinn "heima". Á Ísafirði skyldi hvílst tvo sólarhringa áður en ekið yrði um Djúp og Steingrímsfjarðarheiði til Drangsness. Þar skyldi bíllinn standa meðan ég þræddi norður Strandir á Hondunni. Sú saga kemur næst.
Við fórum fram að fremsta bæ í Hörgárdal. "Við erum á vitlausu farartæki" sagði drengurinn. "Nú" sagði ég. "Þetta er ekki bílvegur" sagði drengurinn. "Nú" sagði ég "Þetta er hjólaslóði" sagði drengurinn. ....og sannara orð var ekki sagt þann daginn.
Við erum á leið suður, eftir nokkra tapaða heimavinnudaga. "Alvöru"vinnan bíður kl. 16 í dag og til miðnættis. Hér við Furulundinn bíður moppan þess að einhver stigi dans við hana.
...en ég er heppinn, eins og sá norski Öystein Sunde sem söng: "Jeg har folk til slikt"
Farangurinn fer í annan bílinn. Hinn kom eiginlega bara fullur af hljóðfærum. Einn drengur með sæng, kodda, hljómborð, nokkra gítara og mikið af snúrudóti.
Ég kom með páskaegg.
Hljóðfærin fara til baka. Páskaeggið ekki.....
Síðasta kvöldinu eyddum við m.a. í að finna hinn endann á þröngri einstefnugötu í innbænum og læra allar húsagötur á Oddeyri í réttri röð. Okkur fannst viðfangsefnið stórkostlegt og afar gefandi. Kunnugum þykir það þó kannski frekar lýsandi.
Klukkan er ekki neitt á þriðjudagsmorgni og tími til kominn að gera eitthvað.....
Litla bláa Micran mín er farin... Blái Focusinn minn er farinn.... Svarti Cherokee jeppinn er farinn... Litla bleika mótorhjólið er farið.... M.a.s. bláa uppáhaldshjólið mitt er farið!
.......og miðað við það andskotans grænland sem ég er nú staddur á er mér skapi næst að auglýsa eftir vélsleða.
Ég kann ekki að vera svona langt frá dótinu mínu, verkfærunum og verkefnunum. Eina afþreyingin er að éta 900 gr. páskaegg sem starfsmannafélagið var svo vænt að gefa mér.
Vonandi fyrirgefst mér þótt ég birti þessa dæmalausu misþyrmingu á ritmáli. Ég las þessa frétt og verð að viðurkenna að innihald hennar fór því miður fyrir ofan garð og neðan við fyrstu yfirferð. Ég festist nefnilega í málfarinu sjálfu. Dæmi hver fyrir sig:
Ekki spurning um hvort heldur hvenær xxxx ( blaðamaður) skrifar 11.4.2017 19:30
Ástandið á Biskupstungnabraut er bágborið VÍSIR/STÖÐ 2
Oddviti Bláskógabyggðar segir að það sé ekki spurning hvort heldur hvenær alvarleg umferðarslys verði á Biskupstungnabraut á meðan vegurinn sé ekki lagaður. Ríflega tvöfalt fleiri óku veginn á síðasta ári heldur en um Holtavörðuheiði á sama tímabili.
Fjallað var um málið í Bítinu á Bylgjunni í gær en oddviti Bláskógabyggðar segir veginn um uppsveitir Árnessýslu að Gullfossi og Geysi vera hættulega slysagildru. Ekki nóg með hvað vegurinn er þröngur heldur er hann meira og minna skemmdur vegna umferðarþunga sem þar fer um enda svæðið einn vinsælasti viðkomustaður erlendra ferðamanna í dvöl sinni á Íslandi.
Á síðasta ári óku 1.262.200 ökutæki um Biskupstungnabraut við Selfoss en til samanburðar fóru 689.500 ökutæki um Mosfellsheiði og 507.200 ökutæki óku um Holtavörðuheiði.
Og þetta er það sem ferðamönnum sem aka um Biskupstungnabraut er boðið upp á. Vegur sem er ómerktu í miðju og ætti að tryggja öryggi og handónýt malbik og handónýtur vegur. Djúpar holur með grjóti sem geta skemmt bíla og tilheyrandi slysahættu.
Eru þá er ótaldar vegkantar þar sem malbik hefur brotnað undan þunga þeirra hópferðabifreiða og annarra stórra ökutækja sem um veginn fara. Stutt er síðan rúta fór út af Þingvallavegi eftir að vegkantur gaf sig undan rútu með þeim afleiðingum að hún fór út af.
"Ástandið á þessum vegum er mjög slæmt, það er bar eitt orð. Þetta eru bara ónýtir vegir og það þarf að byggja þá upp frá A til Ö, sérstaklega Þingvallaveginn. Biskupstungnabrautin, þar eru mjög slæmir kaflar en ágætis kaflar inn á milli en heilt yfir er Biskupstungnabrautin mjög illa farin," segir Helgi Kjartansson, oddviti í Bláskógabyggð.
Ekki er gert ráð fyrir nýframkvæmdum á svæðinu fyrir utan framkvæmdir sem standa yfir á um kílómetra kafla við Geysi. Helga finnst svæðið hafa orðið út undan í nýúrkominni Samgönguáætlun.
"Klárlega! Hér kemur 80-90% af öllum ferðamönnum á þetta svæði, plús íbúarnir og plús frístundabyggðin. Það segir sig sjálft að vegakerfið er ekki hannað fyrir þessa umferð og þetta er bara að hruni komið og það verður að bregðast við því nú eru spár um fjölgun ferðamanna, þær eru áfram 20-30% á ári og það verður að gera eitthvað það er ekki hægt að bíða endalaust," segir Helgi.
Helgi segist bíða eftir að stórt slys verði á veginum en vonar þó að svo verði ekki.
"Já við gerum það og lögregluyfirvöld líka hérna á Suðurlandi og þau eru bara með þetta í lúkunum þetta ástand á þessu svæði og ég held að sé ekki spurning hvort heldur hvenær," segir Helgi.
Við áttum Snotru á Ísafirði ´87-8. Fengum hana sem kríli og hún óx upp í þessa gullfallegu tík. Svo fór eins og hjá svo mörgum, vinnudagarnir langir og tíminn of lítill til að sinna Snotru. Hún fékk athvarf í sveitinni og dvaldi þar út ævina.
.. ......og af
því það er að koma vor, þá er tilhlýðilegt að dusta rykið af
Stakkaness-síðunni.
Eitt af
vorverkunum hefur undanfarin ár verið að hlúa að Stakkanesinu og undirbúa það
undir siglingasumar. Út af þeirri venju var þó brugðið í fyrrasumar. Þar réði tvennt mestu: Annarsvegar var farin Færeyjaferð á mótorhjóli og sú ferð krafðist tímafreks undirbúnings. Hins vegar var enginn ferðabíll til staðar og því enga gistingu að hafa í Hólminum, þar sem báturinn er geymdur.
Í ár er ætlunin að sjósetja og sigla Stakkanesinu, ekki þó í Hólminum heldur stendur til að flytja skipið milli landshluta. Til að svo megi verða þarf að smíða vagninn undir bátnum upp að stórum hluta. Hann er orðinn ellefu ára gamall og var á sínum tíma smíðaður af hálfgerðum vanefnum - úr nýju efni að vísu en því ódýrasta sem til var. Um slíkt gildir hið fornkveðna, menn fá það sem þeir borga fyrir......
Ég var búinn að undirbúa mig vel fyrir ferð upp í Hólm með allan búnað sem þurfti til að ná vagninum undan bátnum og koma honum suður. Farartækið var svarti Cherokeejeppinn minn, sem keyptur var 17. apríl í fyrra, sama dag og Bassi minn dó. Reyndar voru farin að heyrast dularfull hljóð úr iðrum vélarinnar fyrir nokkru en ekki þó svo orð væri á gerandi. Þegar nær dró ágerðust hljóðin og loks kom þar að, að ég treysti ekki jeppanum í ferðina nema kanna upptökin. Þá kom í ljós vélarmeinsemd svo slæm að ekki varð lengra haldið en inn í skúr. Jeppinn var tæmdur af varningi, vélin tekin úr og jeppinn sjálfur settur út fyrir dyr til geymslu. Undir vélina var smíðuð dýrindis hvíla úr galvanhúðuðu járni á íþróttafelgum (sportfelgum) enda byrjar engin óbrjálaður maður vélarupptekt nema smíða sér hjólaborð, sé slíkt ekki á annað borð til staðar.
Þar sem ferðin var slegin af um sinn tóku við önnur áríðandi verk, sem öll tengdust að einhverju leyti samþjöppun á eignaumfangi Höfðaborgarstjórans. Þar er af nógu að taka og þótt oft hafi horft illa með það sem ljúka átti fyrir sumarið eru horfurnar satt að segja óvenju slæmar þetta árið. Það er enda margt sem glepur. Mér sýndist fyrir allnokkru að vorið væri á leiðinni og myndi sýna fyrirboða um jafndægur. Það gekk eftir og þótt um nýliðna helgi hafi veðrið verið hálf hryssingslegt lau þó sunnudeginum með einmunablíðu og það sama má segja um daginn í dag. Um leið og vinnu lauk bjó ég mig út með það nauðsynlegasta til að ná litla bleika hjólinu út af bílasölunni sem hefur vetrarvistað það. Rafgeymir ofl. var geymt hér heima og með það ásamt hjálmi og efri hluta leðurgallans hélt ég niður á bílasöluna. Út fór hjólið og í síðdegissólinni tók það fyrstu vélarslög vorsins. Það var fallegur söngur......
Ég er heldur ekki frá því að sá söngur hafi glaðnað enn meira þegar litla bleika var stöðvað heima við borgarhlið.....
Veðrið í gærkvöldi var svo gott að við Höfðaborgarar máttum til að skreppa hjólarúnt. Ég lagði upp um níuleytið og var rétt um klukkutíma á ferðinni. Við heimkomuna var sonurinn mættur og vildi líka út. Hans hjól er enn í vetrargeymslu svo mínu var haldið úti annan klukkutíma og einhverju betur.
Það sama er uppi á teningnum í kvöld - hreint dýrðleg veðurblíða og litla bleika er búið að fara bryggjurúnt í Hafnarfjörð. Þegar þetta er skrifað er sonurinn tekinn við og er einhversstaðar úti á þeysingi........
Í dag voru jólin tekin niður í Höfðaborg. ( Ég veit. Góðir hlutir gerast hægt, og allt það.....) Þegar ég gekk frá jólunum til næstu ellefu mánaða, rak ég augun í lítinn kassa. Á honum stóð "Gamlar myndir" og í honum leyndust molar sem löngum hefur verið saknað. Innan um eru svo aðrir molar sem best eru gleymdir. Í gærkvöldi setti ég inn status sem ég klippti út úr svona Facebook - sketsi, þar sem fram kom að ég (undir fullu nafni) væri ekki sá sami "without DRINKING" (þannig skrifað með rauðu)
Jahá.....
Þessi Facebook skets eru oft skemmtileg, og stundum prófar maður og birtir árangurinn. Ég hef samt fyrir sið að láta þessi skets helst ekki standa nema einhverja klukkutíma - í mesta lagi 1-2 daga. Þetta síðasta var samt svo út í hött að ég mátti til að birta það fyrir þá sem best þekkja.
Engin regla er án undantekninga. Ekki heldur sú sem mér fannst út úr kú í þetta skiptið. Undantekningin birtist nefnilega á einni myndanna í kassanum. Hún er tekin á litlu-jólum starfsmanna Vélsm. Þórs á Ísafirði fyrir langa löngu, og ég hef myndast þokkalega með glasið og rettuna! (uppbrettu ermarnar hafa snemma komið til :-) Á henni sjást líka þekkt andlit og kannski hafa einhverjir fleiri gaman af. Einn væri nóg.....