Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


06.09.2020 17:07

Vesturferð 4. - 11. júlí 2020, síðari hluti.


Eins og kom fram í niðurlagi fyrri hluta var viðdvölin á Ísafirði áætluð u.þ.b. tveir sólarhringar. Áróra mín og afaskottið Emma Karen voru þar staddar og við höfðum ákveðið að gera eitthvað skemmtilegt saman. Við náðum skemmtilegri sundlaugarferð til Bolungarvíkur og enn skemmtilegra borðhaldi á pizzastað á Ísafirði, þar sem EK fann grímu í hundstrýnislíki í dótakörfu og þegar hún hafði mátað var ekki við annað komandi en að mamma mátaði líka:







Svo náði ég einni ferð um Óshlíðina, milli Bolungarvíkur og Hnífsdals. Vegurinn er orðinn afar illa farinn og versnar hratt. Það styttist í að hann verði alveg ófær, sem er leitt því í góðu veðri er þetta skemmtileg leið, þótt löngu tímabært hafi verið að gera göngin sem leystu hann af hólmi. Það hefði sannarlega mátt gerast nokkrum mannslífum fyrr....







Ég smellti líka af nokkrum myndum á tjaldsvæðinu í Tunguskógi. Ekki bara til að sýna ágætt svæði heldur einnig til að sýna hreint fráleita nýtingu þess. Á Siglufirði hafa þeir tekið upp á að reita niður svæðið og leigir þá hver sinn afmarkaða reit.  Í Tunguskógi ægði öllu saman, hjólhýsum, Landkrúserum og tjöldum með túristabíl við hliðina. Svo horfði maður á ferðafólk hverfa frá, þar sem álitlegir blettir voru uppteknir af lúxusjepppum hjólhýsaeigenda.  Útkoman: Tapaðar tekjur tjaldsvæðisins ....







Þegar leið á fimmtudaginn 9. júlí var kominn tími til að halda af stað að nýju. Ferðinni var heitið til Drangsness, eins og áður kom fram, og í matarkistunni var úrvals grillkjöt úr Bónus. Þegar ég var kominn langt inn eftir Djúpinu uppgötvaði ég hins vegar að allt meðlætið hafði gleymst ( svona er að hitta allt of marga sem maður þekkir í búðinni emoticon ). Sem betur fór átti ég nokkra spotta til að toga í og svo átti sjúkrabíllinn talsvert af ónotuðum hestöflum. Hvorttveggja nýtti ég mér og náði til Drangsness ekki seinna en korteri eftir lokun búðarinnar. Ég hafði hins vegar aflað mér leyfis til að banka á dyrnar, því búðarstýran var inni að ganga frá vörum. Þetta vissi ég gegnum spottana mína, sem lágu suður til Reykjavíkur og þaðan norður á Drangsnes. Þar á bæ var til nóg af ágætis meðlæti og enn meira af kexi og nammi, svo ég fór út klyfjaður bæði nauðsynjum og óþarfa....Síðan var slegið upp grillveislu fyrir einn ( eins og svo oft áður), næst tók við kvöldrölt um þorpið (eins og stundum áður) og svo bóklestur og svefn.



Föstudagurinn 10. júlí heilsaði með dálitlum rigningarúða, enda var ámóta þungbúið og á myndinni að ofan, frá kvöldinu áður. Ég dró því aðeins að ferðbúast því búist var við þurrki með morgninum. Það gekk eftir og rúmlega níu var lagt úr hlaði á Hondunni. Ferðinni var sem fyrr heitið á enda allra þeirra vega sem að byggðum liggja í Árneshreppi. Ég hjólaði frá Drangsnesi fyrir Bjarnarnesið og fyrsti viðkomustaðurinn var Kaldrananes, þ.e. kirkjan. Þangað kom ég sumarið 2012 og þá stóð yfir viðgerð á kirkjunni, sem virtist ganga mjög, mjög hægt ef marka mátti ellihruma vinnupalla......





Nú, átta árum síðar, hafði miðað allnokkuð þótt enn væri talsvert í land: 







Ég hafði ekki langa viðdvöl á staðnum, leiðin lá fyrir Bjarnarfjörð, norður með Balafjöllum til Kaldbaksvíkur. Vegurinn var með allra besta móti, sléttur en þó dálítið laus og greinilegt að ekki var langt síðan heflað hafði verið. Norðan við eyðibýlið Eyjar, rétt áður en beygt var inn í Kaldbaksvík, veitti ég athygli einhverju gulu sem lá í stórgrýttri fjörunni. Við skoðun sást að þarna var allstór plastbauja með einhvers konar rafeindabúnaði, mölbrotin af briminu. Ekki kunni ég skil á apparatinu, né hvar það hafði mögulega verið, svo ég lét ógreinilega mynd duga:



Þokunni til fjalla var heldur að létta þegar ég kom til Kaldbaksvíkur og fjallasýnin að hreinsast. Það er harla lítið varið í að koma til Kaldbaksvíkur og sjá ekki stórfenglegt Kaldbakshornið (mið- mynd). Norðan við Kaldbaksvík er svo Veiðileysufjörður með býlinu Veiðileysu, og þar er neðsta myndin tekin í örstuttu nestisstoppi.







Næst tók við Veiðileysuháls og handan hans Reykjarfjörður og Djúpavík. Ég mátti til að stoppa og smella mynd af gamla Suðurlandinu, sem eitt sinn var flóabátur á Faxaflóa en endaði sem verkamannabraggi á Djúpavík.





Á leið um víkina greip mig kaffiþorsti svo ég áði við hótelið, tók af mér bagga og spurðist fyrir. Jú, kaffi var velkomið en ekki til að tala um að fá að borga fyrir það. "Hér er kaffið frítt" var mér sagt. Ég lýsti áður móttökunum í Breiðavík....hér var önnur afskekkt vík hinumegin á Vestfjarðakjálkanum en viðmótið var það sama - og af því mér fannst ekki viðkunnanlegt að drekka frítt kaffi á hóteli keypti ég mér dýrindis súkkulaðitertu með rjóma og öllu. Veðrið, sem sífellt fór batnandi, kórónaði svo stundina....

Á leið frá Djúpavík út með Reykjarfirði norðanverðum myndaði ég býlið að Naustvík, sem mér finnst eitt af fallegri og myndrænni eyðibýlum landsins.



Næst var komið að Gjögri. Þar ætlaði ég að heilsa upp á elsta fiskibát landsins Hönnu ST. ( sem einhversstaðar er talin smíðuð árið 1899, þótt eflaust viti það enginn með vissu) Ég hef áður myndað hana í vörinni sinni en nú var þar engin Hanna. Ég hitti mann og náði stuttu spjalli, þar sem m.a. kom fram að Hönnu væri róið til strandveiða frá Norðurfirði. Ég sneri mér svo einn hring og myndaði það sem bar fyrir augu....











Svo var haldið áfram frá Gjögri inn í Trékyllisvík og þaðan um Eyrarháls ( ég vona að ég fari rétt með) að Eyri í Ingólfsfirði. Þar stendur gömul síldarverksmiðja sem reist var af stórhug í kjölfar risaverksmiðjunnar á Djúpavík. Ekki skóp nú Eyrarverksmiðjan eigendum sínum mikið gull, enda byggð of seint, þegar síldin var að færa sig til og hverfa af þessum áður gjöfulu veiðislóðum. Við verksmiðjuna hafa verið sett um mjög góð kynningarskilti ásamt ljósmyndum frá liðinni gullöld:















Fyrir botni Ingólfsfjarðar er samnefndur bær. Þar er ekki lengur föst búseta en bænum er vel við haldið og líklegast er þar fók meira og minna frá vori til hausts, líkt og á flestum álíka stöðum nyrðra. Flestar jarðirnar eru hlunnindajarðir að einhverju marki og þeim hlunnindum er alla jafna sinnt.  Í fjarðarbotninum standa nokkrir bátar í mismunandi ásigkomulagi. Þegar ég fór þessar slóðir sumarið 2012 myndaði ég þann stærsta, sem eitt sinn hét Hrönn KE en síðast Kría ÍS (eða ST) og sagði söguna af kynnum mínum af honum frá því fyrir mörgum árum. Þá sýndist mér bátnum vera við bjargandi ef gengið væri í verkið....en það var svo sem engin ástæða fyrir menn að ganga í það verk - Hrönnin hafði lokið sínu dagsverki, komin upp á kamb þar sem hún fúnaði og sprakk.  Stórviðgerð á svona bát er ekki framkvæmd nema honum sé ætlað hlutverk - og hans hlutverki var s.s. lokið. Fyrri myndirnar eru frá 2012, þær seinni frá því í sumar:









Áður en áfram er haldið langar mig að bæta hér við klausu sem ég skrifaði sumarið 2012, eftir ferðina á Strandir. Þessa klausu má finna hér til hægri á síðunni í lengri færslu sem merkt er júlí 2012. Þar eru skýrð kynni mín af Hrönninni, og það sem ég hugsaði þegar ég sá hana standa á kambinum í Ingólfsfirði:

"Inni við botn Ingólfsfjarðar stendur samnefnt eyðibýli, í ágætri hirðu og sumarnotkun. Fyrir miðjum botni stóðu nokkrir bátar á fjörukambinum og einn þeirra vakti sérstaka athygli. Þar var komin 1601, Hrönn, fyrrum KE en nú ST. Raunar var varla hægt að lesa neitt að gagni nema nafnið á stýrishúsinu, en það var svo sem alveg nóg. Ég var oft og lengi búinn að reyna að afla mér upplýsinga um afdrif þessa fallega, fjögurra tonna dekkbáts án árangurs. Svo þegar ég loks hitti mennina sem hefðu getað sagt mér allt sem ég vildi vita, mundi ég ekki eftir að spyrja. Það var líklega árið 1988 sem Hrönnin var í Bolungarvík, í eigu Flosa og Finnboga Jakobssona. Þeir höfðu keypt bátinn til að hirða af honum kvótann og restin var til sölu á því verði sem þá gekk fyrir kvótalausa trébáta - sama og ekkert! Ég var kominn með aðra höndina á bátinn þá en þar sem annar - heimamaður - hafði verið búinn að biðja um hann á undan og sá var ákveðinn í að taka hann, missti ég af kaupunum. Hrönnin var smíðuð í Stykkishólmi árið 1978 og var því aðeins um tíu ára gömul, með um sextíu hestafla Vetus/Peugeotvél. Mér fannst þá grátlegt að hafa misst af þessum bát, hefur alla tíð fundist og finnst enn. Ekki síst er það grátlegt þegar örlög þessarrar fallegu fleytu eru þau að grotna niður á fjörukambi norður í Ingólfsfirði. Á sínum tíma hefði ég hiklaust selt sálina fyrir bátinn þarna við bryggjuna í Bolungarvík, nú er hann líklega "beyond the point of no return" eins og alltof margir velbyggðir trébátar sem grotna niður í vanhirðu víða um land."

Þannig var nú það. Það var ekki stoppað lengur við Hrönnina, enda hálfgrátleg sjón orðin. Ég hjólaði út með Ingólfsfirði norðanverðum og nú brá veginum heldur til hins verra. Hjólið fann sem betur fór ekki mikið fyrir því, ég þræddi milli hola og steina enda þurfa tvö mjó dekk ekki mikið pláss. Utarlega í firðinum er þessi kross í grjóturð ofan vegar. Ekki eru finnanlegar neinar haldbærar heimildir um tilurð hans, sögur hafa verið sagðar án sönnunar enda mega góðar sögur síst líða fyrir sannleikann. Allt um það, krossinn er þarna, hvítmálaður og bjart yfir honum.Á neðri myndinni, sem tekin er út fjörðinn má sjá allt til Drangaskarða..:





Þegar Ingólfsfirði sleppir tekur við Seljanes, milli hans og Ófeigsfjarðar. Á Seljanesi er sögunarvirki þar sem Drangamenn, sem einnig eiga Seljanes, unnu rekavið og vinna kannski enn, í samkeppni við innflutt timbur BYKO og Húsasmiðjunnar. 





Svo var hjólað yfir í Ófeigsfjörð, um lágan háls undir lágu Seljanesfjalli.  Ég var svo heppinn að kannast lítillega við landeigendur og hlunnindabændur í Ófeigsfirði, kynni sem öfluðu mér kaffibolla og kökubita. Það er ekki ónýtt að eiga slíka kunningja í áningarstað á löngu ferðalagi.







Þótt vegarendi í Ófeigsfirði sé að sönnu úti við Hvalá, þá ákvað ég að minn vegarendi væri við Húsá, þar sem hún fellur til sjávar í breiðum ósi rétt norðan við bæinn. Ósinn var ófær hjólinu og auk þess var ég búinn að fara utar áður á bíl, svo ég taldi réttlætanlegt að snúa við á bökkum Húsár. 

Myndin hér að neðan er tekin af Seljanesi, á leið til baka inn í Ingólfsfjörð. Á henni má sjá fyrrum stórbýlið að Munaðarnesi, sem er ysti bær utan Eyrar, þ.e. sunnan (austan) fjarðar. Reyndar eru Munaðarnes og Ingólfsfjörður (jörðin) einu bæirnir sem enn standa við fjörðinn auk Eyrar.



Á myndinni hér að neðan er Valleyri í Ingólfsfirði, rétt innan Seljaness. Þarna var snemma á síðustu öld rekin lítil síldarverkunarstöð í eigu Norðmanns. Einnig mun hafa verið verslun um tíma á Valleyri.



Svo var hjólað til baka fyrir Ingólfsfjörð, um Eyri og yfir hálsinn til Trékyllisvíkur og sem leið lá til Norðurfjarðar, útgerðar og verslunarstaðar við norðvestanverða Trékyllisvík. Úr botni fjarðar liggur vegur um lágan háls og síðan undir vestanverðu Krossnesfjalli til Munaðarness. Þar var sá annar af þremur vegarendum sem fyrirheitnir voru.



Á leiðinni til Munaðarness staldraði ég aðeins við og myndaði inn eftir Ingólfsfirði. Í forgrunni eru tóftir og líklega eru þar leifar býlis að Hlöðum, skv. korti. Handan fjarðar, nærri myndjaðri hægra megin er Valleyri.




Horft frá Munaðarnesi til Drangaskarða. Sólarlag á þessum slóðum þegar skörðin bókstaflega loga, er ógleymanlegt öllum sem séð hafa.



Ég hjólaði heim að bæjarhliðinu og sneri þar. Óviðkomandi er ekki ætlað lengra enda óþarfi - vegurinn endaði við hliðið. Rétt ofan þess var borð með bekkjum, ætlað ferðamönnum til áningar. Ég nýtti mér aðstöðuna.



Enn myndað frá Munaðarnesi yfir Ingólfsfjörð allt til Ófeigsfjarðar. Seljanes ber í rafmagnsstaurinn



Þá var vegarenda númer tvö náð og einum banana gerð skil að auki. Ekkert að vanbúnaði, nú skyldi hjólað aftur til Norðurfjarðar og þaðan austan Krossnesfjalls að vegarenda við býlið Fell. Allt var það vandalaust og rétt utan sundlaugarinnar á Krossnesi er skilti við veginn sem bendir til fjörunnar. Á skiltinu stendur "Þrjátíudalastapi" en hann er náttúrufyrirbæri undir bökkunum ofan fjöruborðsins.





 Um Þrjátíudalastapa er til þjóðsaga, sem lesa má HÉR.

Það er ekki löng leið út að Felli og þegar ég nálgaðist býlið kom í ljós að einnig þar var fólk. Mér reiknaðist svo til að á nær öllum jörðum sem á annað borð voru hýstar að einhverju marki, hvort sem þar var gamalt íbúðarhús eða nýrri sumarbústaður, væri fólk. Langflestar þessara gömlu bújarða voru þannig í einhverri hirðu, og það var svo sannarlega mikið líf að sjá, þótt eflaust séu fáir á svæðinu yfir veturinn, og varla nema þeir sem enn hafa þar fasta búsetu. Hús að Felli voru t.d. mjög vel hirt og snyrtileg og gaman þangað heim að horfa.






Frá garðshliðinu að Felli sneri ég myndavélinni inn Trékyllisvík og myndaði Reykjaneshyrnu handan víkur. Undir henni eru bæirnir Litla- og Stóra Ávík. Toppurinn hægra megin myndi vera Örkin en handan hennar er Kjörvogshlíð ig Reykjarfjörður.



Með  þriðja og síðasta vegarendann að baki var hjólinu snúið inn hlíð að nýju. Ekki var þó farið langt því sundlaugin að Krossnesi var opin og í henni nokkuð af fólki. Mér fannst tilvalið að skola af mér vegarykið og skella mér í sundlaugina og heita pottinn. Það var afskaplega notaleg hvíld eftir jask dagsins, því langmest af þeim rúmum hundrað og sextíu kílómetrum sem ég hafði lagt að baki yfir daginn á misgóðum malarvegum, hafði ég hjólað standandi og skrokkurinn var örlítið tekinn að þreytast....eða kannski var það bara huglæg þreyta, heilinn að segja manni að nú væri kominn tími til að verða dálítið þreyttur. Ég veit það ekki, það hafði verið svo gaman að ferðast um svæðið og ná þessum þremur vegarendum að þreyta hafði bókstaflega ekki hvarflað að mér. Ég átti samt eftir rúma hundrað kílómetra ófarna til baka til Drangsness. 

Eftir sund og pottlegu sem samtals tók á annan klukkutíma kom ég við á bensínstöðinni í Norðurfirði og fyllti hjólið af bensíni. Svo var dólað suður eftir, áleiðis "heim" í bílinn á Drangsnesi. Á leiðinni inn Reykjarfjörð hvarflaði að mér að toppa ferðalagið og sundferðina með gala-kvöldverði á Hótel Djúpavík. Ég hætti hins vegar snarlega við það þegar ég sá bílafjöldann fyrir utan - það var greinilegt að fleiri höfðu fengið þessa ágætu hugmynd og orðið á undan mér að framkvæma hana. Ég mátti samt til að mynda Suðurlandi gamla enn betur, því nú fer hver að verða síðastur að ná myndum áður en það hrynur í duft. Hrörnunin er orðin mjög hröð og líklega ekki nema svona fimm ár þar til skrokkurinn hrynur alveg saman. Ég lagði hjólinu og gekk kambinn neðan verksmiðjunnar með hjálminn á mér því krían gaf óspart til kynna að ég væri ekki velkominn á hennar ótvíræða yfirráðasvæði. A.m.k. eitt vænt högg fékk ég ofan í hjálminn eftir beittan kríugogg og hefði ekki viljað taka á móti sendingunni berhöfðaður.





Á myndinni hér að neðan sést inn í vélarrúm Suðurlandsins, enda er stb. síðan að hálfu leyti horfin úr ryði. Það mátti glögglega sjá báðar sveifar gufuvélarinnar og gufuketilinn framan við. Á kringlótta opinu beint uppaf aftanverðum katlinum hefur svo reykháfurinn setið. Vélin var tveggja þjöppu (strokka) og framleiddi 350 hestöfl. Suðurlandið þótti alltaf afleitt skip og eflaust hefur það komið að bestum notum þegar búið var að leggja því þarna í fjörunni við síldarverksmiðjuna stóru á Djúpavík og gera úr því gistiskýli fyrir verkafólk.



Klukkan var um hálfníu þegar ég renndi upp að ferðabílnum á tjaldsvæðinu á Drangsnesi og ellefu tímar sléttir liðnir frá bottför um morguninn. Ég átti nóg að borða og gerði því góð skil en svo var snemma skriðið í ból. Frábær föstudagur var að baki...

Laugardagurinn reyndist ekki alveg jafn frábær - a.m.k. ekki í byrjun. Þegar hjólið hafði verið sett á kerruna og bundið fast, og allt var tilbúið fyrir brottför og heimferð til Reykjavíkur, neitaði ferðabíllinn algerlega að fara í gang. Hann hafði tvisvar áður í minni eigu sýnt viðlíka tilburði en alltaf vitkast á endanum. Nú varð hins vegar engu tauti við hann komið. Það er hvorki hátt til lofts né vítt til veggja í vélasal ferðabílsins og ekki auðvelt að komast að hlutunum. Eftir miklar vangaveltur afturábak og áfram, og gúggl um amerískar Econoline - vandamálasíður var ég orðinn nokkuð viss um hvað amaði að. Búnaðurinn sem stjórnaði hitanum á glóðarkertunum var ekki að skila sínu. Það eina sem ég gat gert var að bíða eftir að búðin opnaði kl. 11 og vona að þar væri til einhver startvökvi eða ámóta eldfimur vökvi sem gefa mætti dísilvélinni í nefið. Í bakhöndinni hafði ég svo alltaf hjólið, ef renna þyrfti lengri vegalengd eftir slíkum vökva, og þá helst til Hólmavíkur. "Plan C" var svo að renna á hjólinu til Reykjavíkur eftir varahlutum, hjóla svo norður aftur með þá og reyna að koma þeim í á staðnum. Ég hitti tjaldvörðinn og tryggði mér leyfi fyrir stöðu bílsins í nokkra daga, færi svo.

Svo varð klukkan ellefu, búðin opnaði og ég fann einn brúsa af þessum fína bremsuhreinsi. Bremsuhreinsir er ákaflega eldfimur, næstum eins og startvökvi og ég hafði áður notað þannig vökva til að ná í gang tregum vélum. Ferðabíllinn ætlaði nú samt ekki að samþykkja meðalið með góðu, en þegar lækka var farið í brúsanum og voltunum á rafgeymunum farið að fækka náðist hann loks í gang með hökti og glamri. Tjaldsvæðið hvarf að mestu í reyk en sem betur fór var hæg gola svo loftið hreinsaði sig fljótlega. Ég var líka fljótur að láta mig hverfa og það var ekki drepið á vélinni fyrr en heima við Höfðaborg, fjórum klukkutímum síðar.

Endir.
Flettingar í dag: 340
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79167
Samtals gestir: 18489
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 16:21:40


Tenglar