Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2017 Mars

27.03.2017 19:52

Það er að koma vor.


.. ......og af því það er að koma vor, þá er tilhlýðilegt að dusta rykið af Stakkaness-síðunni.

 Eitt af vorverkunum hefur undanfarin ár verið að hlúa að Stakkanesinu og undirbúa það undir siglingasumar. Út af þeirri venju var þó brugðið í fyrrasumar. Þar réði tvennt mestu: Annarsvegar var farin Færeyjaferð á mótorhjóli og sú ferð krafðist tímafreks undirbúnings. Hins vegar var enginn ferðabíll til staðar og því enga gistingu að hafa í Hólminum, þar sem báturinn er geymdur.

Í ár er ætlunin að sjósetja og sigla Stakkanesinu, ekki þó í Hólminum heldur stendur til að flytja skipið milli landshluta. Til að svo megi verða þarf að smíða vagninn undir bátnum upp að stórum hluta. Hann er orðinn ellefu ára gamall og var á sínum tíma smíðaður af hálfgerðum vanefnum - úr nýju efni að vísu en því ódýrasta sem til var. Um slíkt gildir hið fornkveðna, menn fá það sem þeir borga fyrir......

Ég var búinn að undirbúa mig vel fyrir ferð upp í Hólm með allan búnað sem þurfti til að ná vagninum undan bátnum og koma honum suður. Farartækið var svarti Cherokeejeppinn minn, sem keyptur var 17. apríl í fyrra, sama dag og Bassi minn dó. Reyndar voru farin að heyrast dularfull hljóð úr iðrum vélarinnar fyrir nokkru en ekki þó svo orð væri á gerandi. Þegar nær dró ágerðust hljóðin og loks kom þar að, að ég treysti ekki jeppanum í ferðina nema kanna upptökin. Þá kom í ljós vélarmeinsemd svo slæm að ekki varð lengra haldið en inn í skúr. Jeppinn var tæmdur af varningi, vélin tekin úr og jeppinn sjálfur settur út fyrir dyr til geymslu. Undir vélina var smíðuð dýrindis hvíla úr galvanhúðuðu járni á íþróttafelgum (sportfelgum) enda byrjar engin óbrjálaður maður vélarupptekt nema smíða sér hjólaborð, sé slíkt ekki á annað borð til staðar.







Þar sem ferðin var slegin af um sinn tóku við önnur áríðandi verk, sem öll tengdust að einhverju leyti samþjöppun á eignaumfangi Höfðaborgarstjórans. Þar er af nógu að taka og þótt oft hafi horft illa með það sem ljúka átti fyrir sumarið eru horfurnar satt að segja óvenju slæmar þetta árið. Það er enda margt sem glepur. Mér sýndist fyrir allnokkru að vorið væri á leiðinni og myndi sýna fyrirboða um jafndægur. Það gekk eftir og þótt um nýliðna helgi hafi veðrið verið hálf hryssingslegt lau þó sunnudeginum með einmunablíðu og það sama má segja um daginn í dag. Um leið og vinnu lauk bjó ég mig út með það nauðsynlegasta til að ná litla bleika hjólinu út af bílasölunni sem hefur vetrarvistað það. Rafgeymir ofl. var geymt hér heima og með það ásamt hjálmi og efri hluta leðurgallans hélt ég niður á bílasöluna. Út fór hjólið og í síðdegissólinni tók það fyrstu vélarslög vorsins. Það var fallegur söngur......

Ég er heldur ekki frá því að sá söngur hafi glaðnað enn meira þegar litla bleika var stöðvað heima við borgarhlið.....

Veðrið í gærkvöldi var svo gott að við Höfðaborgarar máttum til að skreppa hjólarúnt. Ég lagði upp um níuleytið og var rétt um klukkutíma á ferðinni. Við heimkomuna var sonurinn mættur og vildi líka út. Hans hjól er enn í vetrargeymslu svo mínu var haldið úti annan klukkutíma og einhverju betur.




Það sama er uppi á teningnum í kvöld - hreint dýrðleg veðurblíða og litla bleika er búið að fara bryggjurúnt í Hafnarfjörð. Þegar þetta er skrifað er sonurinn tekinn við og er einhversstaðar úti á þeysingi........











................................

  • 1
Flettingar í dag: 10
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 862
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 70759
Samtals gestir: 17712
Tölur uppfærðar: 10.5.2024 00:40:09


Tenglar