Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2015 Mars

28.03.2015 08:47

Granni.


Hann granni kom til mín fyrir stuttu og var þungur á brún. Granni er nefnilega, þrátt fyrir að virðast venjulega kátur og léttur, frekar svartsýnn. Við ræddum tíðarfarið og almennt útlit fyrir sumarið. Þegar ég sagði granna að ég hefði farið með björgunarbátinn af Stakkanesinu í eftirlit og yfirferð ef ske kynni að sjósett yrði um páskana taldi hann slíkt algeran óþarfa - það myndi gera stórviðri um páskana svo engum bát yrði á sjó fært. Hann endurtók "stórviðri" með þvílíkri áherslu að ég gat ekki annað en trúað því að eitthvað hefði hann fyrir sér. Heimildin var raunar ekki traust að mínu mati - granni hafði farið til spákonu og frá henni hafði hann upplýsingarnar. Til að bæta gráu ofan á svart hafði sú spáð Heklugosi í kjölfarið. Eftir að því lyki mætti loks fara að ræða eitthvert sumar.

Svo svartsýnn var granni að mér var skapi næst að taka kaðalspotta sem hékk hjá mér og rétta honum - mér sýndist það rökrétt næsta skref. Af því ég er kurteis og vel upp alinn (eins og ég hef margoft bent á) þá gerði ég það ekki heldur þakkaði fyrir upplýsingarnar og lét sem ég myndi haga mínum áætlunum m.t.t. þeirra. Svo liðu dagar........

Ég veit ekki hversu nákvæmar svona spákkur eru á tímasetningar. Vissulega gerði stórviðri eftir að við granni áttum talið - eitt mesta veður sem menn á miðjum aldri muna. Það þýðir nefnilega ekki að spyrja elstu menn. Þeir muna ekki neitt og ef þeir muna eitthvað snúa þeir öllu á hvolf. Ég get nefnt nærtækt dæmi. Þegar karl faðir minn var kominn fast að níræðu stóðum við einn góðviðrisdag framan við aðsetur hans á Ísafirði. Í bílastæði stóð nýlegur, svartur Ford jepplingur sem pabbi átti. Hann keypti svartan bíl því fyrsti vörubíllinn hans hafði verið svartur og sá næsti, mikill uppáhaldsbíll af gerðinni Ford F-600 af árgerð 1953 hafði verið dökkblár. Gamli maðurinn horfði hnugginn á jepplinginn sem bar greinileg merki göturyks enda fáir litir ópraktískari þegar ryk er annars vegar. "Hann er alltaf rykugur" sagði sá gamli og þagði svo góða stund, djúpt hugsi. Svo kom gullkornið: "Ég skil þetta ekki. Fordinn var aldrei svona"

Í minningunni voru fyrstu vörubílarnir hans alltaf gljáandi fínir. Það var ekkert pláss fyrir þá praktísku og rökréttu hugsun að á árunum kringum 1950, þegar hann átti þessa bíla hafi malbikaðar götur aðeins verið til í draumum Ísfirðinga og yfirborð þeirra á stöðugri ferð í hvert sinn er hreyfði vind. Mín kynslóð man vel eftir gömlu Douglas DC3 að hefja sig til flugs frá Ísafjarðarflugvelli - og Fokker F27 síðar. Þess vegna munum við eftir rykmekkinum sem huldi Engidalinn eftir flugtak  "útávið" og hálfa Kirkjubólshlíðina eftir sambærilegt "innávið". Þessi rykmökkur af flugvellinum áður en hann var malbikaður, var ýkt útgáfa af götum Ísafjarðarkaupstaðar í vindi.

Ég átti ekkert svar fyrir pabba. Ég kunni engan veginn við að benda honum á þessa augljósu staðreynd. Hvað átti ég með að gára lygnt yfirborð draumahafsins?

Granni fékk semsagt engan kaðalspotta heldur aðeins góðlátlega hughreystingu og kveðjur við brottför. Svo kom rokið og ég fór að velta mér fyrir því, eins og Geiri heitinn danski orðaði það, hvort spákkan hefði einfaldlega tímasett það ónákvæmt.  Næst á eftir stórviðrinu átti að koma Heklugos en eftir það mátti loks fara að ræða sumar, eins og áður sagði.

Ég vaknaði snemma í morgun og opnaði tölvuna að venju. Fyrsta fréttin sem blasti við mér var um óróa í Heklu og  hugsanlegan undanfara goss. Nú er spurningin hvort ekki er rétt að ræða við granna og fá hjá honum símanúmer spákkunnar. Það getur varla spillt að fá að vita eitthvað um komandi tíð?

Örstutt í lokin: IKEA er ein af mínum uppáhaldsbúðum. Mér skilst að það sé fátítt að kallar hafi gaman af IKEAferðum en ég er þá bara undantekning. Eitt af því sem ég kaupi reglulega í IKEA eru kerti - a.m.k. yfir dimmasta tíma ársins. Ég er nefnilega mikill kertakall. Ef ég næ að setjast niður á kvöldin og slaka á yfir sjónvarpi eða bók - nú, eða við tölvuna -  þá kveiki ég gjarnan á sprittkertum. Yfirleitt brenna þau svo bara út. Einn morgun fyrir stuttu þegar ég var að henda tómum kertabollum tók ég eftir að einn var öðruvísi en hinir. Það þurfti svo sem engan vísindamann til að greina innihaldið. Það var fluga sem lá á bakinu í bollanum við hlið kveiksins. Nú veit ég ekki hvaðan IKEA kaupir þessi kerti en er nokkuð viss um að þau eru ekki framleidd í Svíþjóð. Ég veit heldur ekki hversu langt út í heim skrifin mín berast en mér þætti vænt um ef einhverjir lesendur þar sæju sér fært að láta aðstandendur vita......



22.03.2015 21:07

Stakkanes í stórviðri.


 Þegar maður getur ekki gert rassgat með framlöppunum verður maður að finna sér einhverja aðra afþreyingu en vinnu. Ég hafði spurnir af því á dögunum að stórskipið Stakkanes hefði hreyfst til í vetrarhíði sínu í Stykkishólmi en þó sloppið óskemmt. Stór rolluflutningabátur sem stóð á vagni aftan við Stakkanesið hafði  tekist á loft, fokið uppúr vagni sínum og brotlent við hlið hans. Það hafði ekki verið nema um fet milli bátanna svo mér þótti vissara að kíkja í Hólminn og skoða aðstæður. Fyrst ég gat engu komið í verk hér heima var tilvalið að nota þennan ágæta sunnudag til fararinnar. Við sonurinn lögðum af stað uppeftir um hálfellefuleytið í morgun og vorum þessa venjubundnu tvo tíma á leiðinni að viðbættu kaffistoppi í Geirabakaríi í Borgarnesi. Ég hafði vit á að láta hann aka því mér lætur illa að aka beinskiptum bíl einhendis.

Stakkanesið stóð á sínum stað en snarhallaði í vagninum - þ.e. vagninn hallaði vegna þess að kubbar sem hann stóð á höfðu hreyfst. Þegar ég skoðaði ástæðuna kom í ljós að bæði bátur og vagn hafa hreyfst til hliðar um líklega ein tvö fet. Við hlið Stakkanesins er smátrillan Farsæll sem Gulli vinur minn á og hliðarskorða vagnsins hafði lagst á borðstokk Farsæls, án þess þó að valda skemmdum. Rolluflutningabáturinn virðist hafa fokið beint upp í loftið og svo til hliðar án þess að snerta skriðbrettið á Stakkanesinu - sem aðeins var 30 sentimetra frá!!

Eitt var augljóst: Bláu plasttunnurnar sem ég flutti upp í Hólm í haust, fyllti af vatni og batt sitthvoru megin við Stakkanesið hafa hreinlega bjargað því að ekki fór verr. Það er kristalklárt að Stakkanesið hefur lyfst upp með vagni og öllu saman og kastast yfir til hliðar. Hefðu tunnurnar ekki haldið í hefði báturinn að öllum líkindum fokið yfir Farsæl og á næsta bát við hliðina - með vagninn hangandi neðan í sér því allt var súrrað saman.




Að neðan má sjá hversu nálægt skriðbretti Stakkanessins rolluflutningabáturinn er:








Hér sést vel hvernig Stakkanesið hefur lagst á Farsæl. Utan á skorðunum er þykkur svamphólkur sem kannski hefur bjargað einhverju:



Það var svo sem engin ástæða til að gera neitt í málinu. Öll bönd halda enn og strangt til tekið er allt nokkurn veginn í lagi ef ekki kemur frekari hreyfing á hlutina. Ég fer aftur í Hólminn til páskadvalar síðdegis þann 1. apríl og þá með verkfæri og annað sem þarf til að rétta bátinn við og koma honum á sinn stað.


Og kannski verður þá farið að viðra til að setja á flot. Hver veit?






.....................

21.03.2015 09:03

Súpermann!

 

Ég hélt alltaf að mér væri ekkert ómögulegt - að ég gæti gert bókstaflega allt!  Ef ég tæki nógu fast á myndu þyngstu hlutir á endanum færast til í þá átt sem ég vildi.

 

Ég hafði rangt fyrir mér.

 

Ég tók á og það kostaði mig vinstri handlegginn við öxl. Vonandi tímabundið þó en ég komst allavega að því að sumir hlutir hafa afleiðingar - líka fyrir mig sem hélt að ég væri undanþeginn slíku.

 

Þess vegna er þessi stutta færsla slegin inn með fingrum hægri handar. Sú vinstri er óhreyfanleg og ef ég reyni er líkast því sem verið sé að skera hana af við öxl!

 

Meðan þetta ástand varir er lægð í Höfðaborg.......

15.03.2015 08:58

Ein fyrir Magna......


Ég veit ekki hvort hann Magni Guðmunds á Ísafirði skoðar enn síðuna mína. Fyrir löngu síðan nefndi ég ljósmyndir Árna heitins Matthíassonar rakarameistara á Ísafirði og lofaði birtingu á nokkrum þeirra. Þetta eru myndir sem Árni annaðhvort gaf pabba í lifanda lífi eða pabbi fékk að gjöf frá Bergþóru Árnadóttur að Árna gengnum. Magna langaði að sjá þessar myndir en ég áttaði mig fljótlega á að það er erfitt að átta sig á því hvaða myndir eru eftir Árna og hverjar ekki. Sumar sem ég taldi eftir Árna gætu allt eins verið mun eldri póstkortamyndir - eins og þessi:




Í framhaldi af myndinni sem ég birti á föstudaginn og sýndi "Grænu byltinguna" á ferðalagi, þá langar mig að birta eina mynd sem er klárlega eftir Árna Matt. Sú mynd er tekin af tröppum "Grænu byltingarinnar" - sem þá hafði reyndar ekki fengið þetta stóra nafn heldur var aðeins venjulegt íbúðarhús við ofanvert Hafnarstrætið á Ísafirði. Tilefnið gæti verið 17. júní en árið er óþekkt.


Í framhaldi má svo vel setja inn aðra mynd, tekna af sömu tröppum en mörgum árum síðar (þ.e. á "Hundraðáraafmælinu" 1966)  og ég er handviss um að sú mynd er tekin af pabba:



Læt þetta duga að sinni.

.............................................

13.03.2015 10:09

Föstudagurinn þrettándi.....


 Ég er ekki hjátrúarfullur en dag skal samt að kvöldi lofa. Hann "spær" illa fyrir daginn og þann næsta, roki og vatnsgangi. Þess vegna þykir mér við hæfi að birta eina gamla mynd - og aðeins eina. Það má orna sér við hana þegar mest gengur á úti fyrir!



Myndin sýnir logn - dæmigert, ísfirskt logn. Lognið má vel sjá á Pollinum en líka á gufustróknum úr rækjuverksmiðjunni á Sundahafnarsvæðinu. Svo má sjá þarna gamla Chevrolet Scottsdale löggubílinn fylgja "Grænu byltingunni" til hvílu í malargryfjunum inni við fjarðarbotn. Græna byltingin brann á geymslustaðnum af þekktum en óopinberum ástæðum. Það er dráttarbíll Vegagerðarinnar sem dregur ækið eftir ómalbikaðri "Hraðbrautinni"  (sem opinberlega heitir Skutulsfjarðarbraut og er eina hraðbrautin í heiminum með 60 km. hámarkshraða!) 

Svo má líka sjá þarna togarann Júlíus Geirmundsson ÍS sem seinna varð Barði NK, muni ég rétt. Í bátahöfninni liggur Orri ÍS og framan við hann sér í skut Fagranessins. Einn af olíutönkunum er merktur ESSO -  enn eitt dæmið um veröld sem var......

Ef ég á að dæma um árstíðina eftir því sem ég sé á myndinni þá vil ég giska á vor - vor, eins og ég man þau best að heiman. Þegar ég horfi á þessa mynd get ég beinlínis fundið í lungunum fríska og tæra loftið sem alltaf fylgdi í kjölfar regndaganna......

Það var þá......................... 


08.03.2015 08:51

Það hefur verið í mörgu að snúast...


....í Höfðaborg undanfarið. Þrátt fyrir umhleypingana - sem eru eiginlega orðnir svona veðurfarsleg katastrófa - þá er sumardagurinn fyrsti skjalfestur á húsvíska bátadagatalinu mínu. Hann er settur á 23. apríl og ef mig misminnir ekki þá á ónefnd, ísfirskættuð góðvinkona mín í Hólminum áttræðisafmæli þann dag. Vorjafndægur eru svo mörkuð þann 20. þessa mánaðar og þegar dagurinn hefur unnið jafnlengd sína af nóttinni sér alltaf fram á bjartari tíð - það er bara þannig! 

Þessvegna er verið að stilla fókusinn á sumarið. Í komandi viku mun björgunarbáturinn af Stakkanesinu fara í yfirhalningu og annað sem útgerðinni viðkemur fær einhverja handayfirlagningu. Því miður er ekki handbær nein áreiðanleg veðurspá fyrir komandi páska - enda enn rúmar þrjár vikur í þá og veðurfræðingum veitist jafnvel erfitt að spá  með sólarhringsfyrirvara í óstöðugu veðurumhverfi - en ekki er ráð nema í tíma sé tekið og það á allt að vera klárt fyrir sjósetningu um páskana ef veðurhorfur lofa góðu með eins til tveggja sólarhringa fyrirvara. Vinnutilhögun hjá Óskabarninu er þannig að vikuna fyrir páska á ég dagvakt sem stendur frá kl. 08 til 16. Eftir páska er svo vinnutíminn frá kl. 16 og til miðnættis svo ég get fullnýtt tímann í Hólminum og þarf ekki að leggja af stað suður fyrr en eftir hádegi á þriðjudegi. Ef allt gengur eftir hvað varðar veður þá mun kerran mín standa hér inni á gólfi þegar vinnu lýkur miðvikudaginn 1. apríl og á henni allt sem til sjósetningar þarf. Það á því ekki að þurfa annað þegar vinnu lýkur kl. 16 en að henda fatatöskunni inn í bílinn, lása kerruna aftaní og þeysa af stað uppeftir. "Sparifötin" verða samanbrotin því ég fer uppeftir í vinnufötunum og fer þá beint í að sjóbúa bát og vagn. Kvöldflóð í Hólminum þann 2. apríl er líklega um hálfsjöleytið sem er raunar fullknappur tími fyrir sjósetningu eftir vetrarstöðu en það er hátt í og ég get auðveldlega sjósett þó hálffallið sé út. Svo er annað sem vel má íhuga - ef veðurútlit er þokkalegt helgina fyrir páska er vel athugandi að renna með hjólabúnaðinn undir bátavagninn uppeftir og gefa sér þá betri tíma til að ganga frá honum. Þannig gæti vagninn verið tilbúinn til sjósetningar og ekki annað eftir en að sveifla björgunarbátnum um borð og koma tækjunum og rafgeymunum fyrir í stýrishúsinu. 

Ef einhver greinir tilhlökkun í ofanrituðu fær sá tíu fyrir glöggskyggni! 

Gamli Benz bíður á bílastæði eftir því að hans tími komi. Hann hefur beðið svo lengi að einhverjir dagar eða vikur til eða frá breyta engu. Það þarf líka að hugsa hlutina áður en hafist er handa og flest sem ég sá fyrir mér í upphafi hefur tekið einhverjum breytingum. M.a. þarf að skipta um hluta klæðninganna innan í honum og bleiku gluggatjöldin hafa áður fengið sína umfjöllun - þau hanga enn uppi en fá að fjúka fljótlega. Efni í þau nýju hefur verið valið, keypt og sett í vinnslu.

Það er annars sunnudagsmorgunn en sunnudagar eru líka vinnudagar þegar verkefni liggja fyrir og þess vegna lýkur þessum pistli núna.......

.....það má samt bæta því við að í nótt hefur snjóað talsvert og hér inni á baðherbergi er alhvítur Bassahundur sem eftir morgunröltið bíður þess að úr honum bráðni svo hann fái sinn grásvarta lit að nýju. Honum lætur illa að bíða!





01.03.2015 09:20

Einhver Jon.....


.......skrifaði velþegin skilaboð undir síðustu færslu og bað um mynd. Ég þekki nokkra með þessu nafni og þar af einn búsettan í Danmörku. Ég giska á að það sé hann sem skrifar og af því að það er bara eitt "k" í textanum: "Mynd, tak" þá giska ég á að hann sé búinn að vera of lengi búsettur þar!

Það er til fullt af myndum af Benzanum sem svo rækilega var kynntur til sögunnar í síðustu færslu. Flestar eru þær þó í eigu bílasölu hér syðra og merktar henni svo ég er ekkert að birta þær. Ég ætlaði sjálfur að búa til myndasögu um verkefnið en svo mikið flýttum við feðgar okkur þegar við sóttum bílinn austur fyrir fjall að okkur láðist alveg að taka "upphafsmynd". Þess vegna voru fyrstu myndir í minni eigu teknar hér utan við Höfðaborg í myrkri, enda fer best á því - svona til að byrja með.

Ég má samt til að nefna nokkur atriði sem komið hafa í ljós við nánari skoðun. Ég tók bílinn á hús um síðustu helgi, svona til að þurrka hann og fara aðeins yfir stöðuna. M.a. þurfti ég að læra á rafkerfið, því maður er illa settur ef maður veit ekki hvernig rafkerfi í svona bíl er uppsett - það er jafn misjafnt og bílsmiðirnir eru margir. Kerfið reyndist einfalt og ágætlega uppsett, skiljanlegt og þokkalega frágengið, einn mikilvægan hlut vantar þó í það svo allt sé eins og á að vera en hann er fáanlegur í fagverslunum. 

Svo var það gaskerfið. Það reyndist allt unnið af fagmönnum, allir slönguendar þrykktir og tengdir með nipplum en ekki stútum og hosuklemmum. Í kassanum aftan á bílnum voru tveir fullir gaskútar og annar tengdur við kerfið. Eldavélin svínvirkaði við prófun þótt smástund tæki að kveikja á henni því gas virðist hafa tilhneigingu til að "deyja" við langa stöðu í leiðslum. Ég hef tekið eftir þessu, eftir vetrarstöður virðist oft erfitt að kveikja á gastækjum en eftir að þau hafa kveikt í fyrsta sinn eru þau góð .......Propex-miðstöðin var sömuleiðis erfið í byrjun en kveikti að lokum og funhitaði þá. 

Ég var búinn að taka eftir kæliboxi inni í skáp. Ég sá það ekki þegar ég skoðaði bílinn fyrst en á bílasölumyndunum blasti það við. Þetta virtist vera rafmagnskælibox eftir snúrum sem lágu frá því og þar sem ég hef engan áhuga á rafmagnskæliboxum - sem eru hinar verstu orkusugur - þá opnaði ég skápinn til að sækja það og henda í ruslið. Boxið kom hins vegar ekki hlaupandi á móti mér og við athugun var það fast við gasleiðslu! Þetta reyndist semsé vera forláta gasbox og það sem meira var - við prófun reyndist það í fullkomnu lagi og eftir að hafa mallað í tvo og hálfan tíma var hitinn í því kominn úr húshitanum, 24 gráðum niður í 13. Svona box er yfirleitt 6-7 klst að ná fullri kælingu svo þetta var á prýðilegri leið þegar ég slökkti á því og skrúfaði fyrir gasið. Mér skilst að svona kælibox kosti um 60 þús. í búðum hér. Nývirði þess og Propex miðstöðvarinnar mum því samanlagt ríflega kaupverð bílsins.

Í gær var laugardagur og morgunninn var frátekinn fyrir nokkru. Ætlunin var nefnilega að taka Benzann fyrir nesið á mínum gamla vinnustað, þar sem allt er til alls til slíkra hluta. Fyrir kl. 9 vorum við mættir og prófið hófst. Allt var skoðað sem máli skipti og hitt líka. Útkoman var vonum framar - Gamli er óravegu frá því að vera ónýtur, því þótt ytra byrðið sé hrjúft og óhrjálegt er undirvagninn ótrúlega heillegur, bæði lítið ryðgaður og lítið slitinn. Við fundum aðeins tvö skoðunaratriði sem lagfæra þurfti. Að öðru leyti gilti það sama og um útlitið - það þurfti aðallega að snyrta og snurfusa. Ekkert kom fram sem raskaði þeirri ætlun að bílinn verði ferðafær í sumar. Við vorum glaðir með Benzann, við Bassi þegar við ókum heim á leið.

Eitt í viðbót: General Bolt-On í Sandgerði er maður fróður um Benz enda á hann tvo þannig húsbíla. Hann vildi meina að AB-varahlutir í Reykjavík ættu alla boddýhluti í svona bíl. Ég tók því með fyrirvara því AB hefur aðallega selt slithluti en ákvað samt að athuga málið. Ég þekki strákana þar að því að vera bæði liprir og klárir í sínu fagi en varð samt hissa þegar þeir rúlluðu mynd upp á tölvuskjá og spurðu einfaldlega hvaða boddýhluti ég vildi fá! Ég benti, borgaði inná pöntunina og á þessu augnabliki er líklega einhver einhversstaðar úti í heimi að taka til boddýhlutina mína og búa til Íslandssendingar.......

Á svona augnablikum getur maður spurt: "Er ekki lífið einfalt?"

.........og nú koma þær myndir sem ég var búinn að taka, sérstaklega fyrir "Jon":






  • 1
Flettingar í dag: 865
Gestir í dag: 194
Flettingar í gær: 862
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 71614
Samtals gestir: 17899
Tölur uppfærðar: 10.5.2024 22:54:48


Tenglar