Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


25.09.2020 10:20

Austurferð 9- 18. ágúst ´20. Fyrri hluti.


Eins og fram kom í niðurlagi síðasta pistils var vandræðagangur á ferðabílnum norður á Drangsnesi þegar halda átti heimleiðis eftir Strandaferð. Þar sem næsta ferð var ekki fyrirhugðuð fyrr en að tæpum mánuði liðnum var nægur tími til lagfæringa, og þær tóku ekki langan tíma þegar varahlutir voru í höfn. Annað mál var með Honduna gulu. Hún átti að fá allsherjar slipptöku eftir stífa ferð og aðra enn stífari framundan. Í þeirri aðgerð brotnaði smástykki á vélinni sem nauðsynlegt var að fá erlendis frá. Afgreiðslufresturinn var lengri en svo að næðist að ljúka viðgerð fyrir brottför, svo bláa Yamaha-hjólið, sem jafnan hefur staðið sig vel, var ferðbúið í staðinn.

Svo kom verslunarmannahelgi með samkomubönnum og niðurfellingu viðburða, og þegar við bættist afleitt veður varð þessi vinsælasta ferðahelgi ársins að innihelgi með bóklestri og sjónvarpsglápi. Eftir helgi tók svo við vinna í fjóra daga (sem höfðu verið ætlaðir frídagar en veðrið breytti því)  og svo var enn komin helgi. Þá héldu engin bönd, þótt spáin væri í raun jafnafleit og verslunarmannahelgina. Minni för var heitið austur á firði og þangað lagði ég af stað sunnudaginn 9. ágúst.

Þann dag var sannkallað skítaveður í Reykjavík. Það hellirigndi og þurrkurnar voru settar í gang um leið og ekið var af stað. Rigningin varð dyggur förunautur og það var fyrst í Álftafirði eystra sem eitthvað fór að draga úr. Það var þó helst í fjarðabotnunum sem minna rigndi, fyrir nesin var stöðugt vatnsveður. Ég hafði ætlað mér að koma aðeins við á Djúpavogi og fá mér kaffi, en þar sem ég var bæði hálfslappur af kvefi og svo rigndi út í eitt, þá hélt ég áfram án þess að stoppa. Það sama gilti um nesin milli Berufjarðar, Breiðdalsvíkur, Stöðvarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Stöðug rigning fyrir nesin en minna í botnunum. Síðasta nesið slapp ég við vegna Fáskrúðsfjarðargangnanna - en bíðið við: Það var skammgóður vermir!

Það var komið fram um kvöldmat þegar ég renndi inn á tjaldsvæðið í Reyðarfirði. Ekki voru margir þar fyrir og ég fann mér ágætt pláss fyrir ækið. Kvefið var að angra mig ásamt hitavellu svo ég fór ekkert út úr bíl eftir að lagt var, heldur beint afturí í kvöldmat og síðan í ból. Þegar ég vaknaði á mánudagsmorgninum fyrir allar aldir var enn þokuslæðingur í fjöllum en það var að mestu hætt að rigna. Heilsan var líka snöggtum skárri, svo ég tók hjólið af kerrunni, skellti mér í úlpu og hjálm og hélt til bakarísins, sem er eitt það fínasta á landinu.



Á dagskránni minni, eða "ferðaskránni" - ég var með ákveðnar ferðir í huga en ekki dagsettar, enda réði veðrið fyrst og fremst - var m.a. að hjóla fyrir Vattarnes, úr Reyðarfirði yfir í Fáskrúðsfjörð. Það er sú leið sem göngin leystu af hólmi, malbikuð að mestu en ekki þó alveg. Leiðin er frekar fáfarin núorðið en hún er falleg í góðu veðri og útsýnið gott. Frá bænum var að sjá þokkalegasta veður út með firði svo ég gallaði mig og hélt af stað. Sundfötin vou í farangrinum, ef ég næði einhverri laug á leiðinni sem ég hefði ekki áður farið í. Það gilti reyndar bæði um laugina í Fáskrúðsfirði og á Stöðvarfirði, hvorug hafði nokkurntíma verið opin á þeim tíma sem ég renndi í gegn.

Þegar út fyrir Þernunes var komið sýndi það sig sem ekki sást frá þéttbýlinu fyrri beygjunni á firðinum, að kólgan sem sást úti fyrir fjarðarmynninu og lá yfir fjöllunum við norðanvert mynni Reyðarfjarðar, lá einnig yfir Vattarnesi og nágrenni. Ég fann ekki nafn á býlinu hér á myndinni, en það er semsagt utan til við Þernunes:



Að neðan er horft frá sama stað út eftir firði í átt til Vattarness og líklega er það býlið að Hafranesi sem sést ofan vegar.



Þarna úti í grámanum, yst á nesinu var svartaþoka. Henni fylgdi talsverð rigning sem var greinilega ekki nýbyrjuð, þarna var jú búið að rigna allan sunnudaginn áður. Fyrir nesið er malarvegur, sem er virðingarheiti því "moldarvegur" væri réttara nafn. Vegurinn hafði vaðist upp í leðju sem fljólega litaði allt brúnt, bæði hjólið, skóna og skálmarnar á gallanum mínum. Þegar ég kom inn í Fáskrúðsfjörðinn ( án þess að sjá nokkurn tíma glitta í eyjuna Skrúð ) og kom að kirkjustaðnum Kolfreyjustað, langaði mig að líta á kirkjuna en gat engan veginn farið að sýna mig fólki, svo forugur sem ég var. Leiðin lá því beint inn í bæ og á þvottaplan þar sem ég gat skolað af mér og hjólinu með spúlslöngu. Sundlaugin var lokuð og af því sem ég gat lesið þar um var að skilja að hún væri yfirleitt ekki opin, nema þá örstuttan tíma í einu endrum og sinnum. Ég mátti því halda af stað að nýju, fyrir fjarðarbotn og fyrir nes þar sem rigndi jafnvel enn meira en áður. Ég var gríðarlega feginn þegar loks grillti í Lönd, utarlega í Stöðvarfirði en ekki alveg jafn glaður yfir ómerktri lausamöl á viðgerðarblettum Vegagerðarinnar.
.....og svona til að halda mér við efnið, var gatan gegnum þorpið upprifin að hluta og ein drullufor auk ótölulegs fjölda af holum. Skemmtileg svigbraut fyrir mótorhjól...
Sundlaugin í Stöðvarfirði var opin og þangað hélt ég. Ekki var fjölmenninu fyrir að fara, ég deildi lauginni með tveimur fullorðnum konum sem reyndust afar skemmtilegur félagsskapur, ekki síst er í ljós kom að önnur þeirra átti bæði ættir og ættingja vestur við Djúp. Ég varð að biðja laugarvörðinn afsökunar á rennblautum gallanum mínum, sem ég skildi eftir frammi á gangi í stað þess að fara með hann inn í klefa. Þegar ég svo kom fram eftir rúmlega klukkutíma pottlegu lágu brúnleitir taumar frá gallanum inn eftir ljósmáluðu steingólfi gangsins. Ég ítrekaði afsökunina, klæddi mig í hráblaut fötin og hélt af stað "heim" til Reyðarfjarðar, að þessu sinni um göng. 



Á Reyðarfirði var veðrið orðið mun skárra en á syðri fjörðunum og allt að þorna upp. Ég skreið undir feld til að ná úr mér hrollinum þar til tími væri tilkominn að grilla kvöldsteikina. Þokan læddist inn aftur þegar kvöldaði og steikin var snædd innandyra.





Upp rann þriðjudagur 11. ágúst.  Nú var ´ann brostinn á með sannkallaðri engilblíðu svo gallinn, gasþurrkaður frá deginum áður, var tekinn af snaga, hjólið ræst og haldið af stað í fyrsta áfanga dagsins. Ég fór Þórdalsheiði, milli Reyðarfjarðar og Skriðdals, sumarið 2018 en þá af Skriðdal niður í fjörðinn. Vegurinn liggur um Áreyjadal og er brattur og grýttur. 2018 var ég á Suzuki V-Strom hjólinu glænýju og hrósaði happi yfir að fara niður en ekki upp. Nú var ég á hjóli sem þoldi mun meira jask og var betur varið að neðan, svo ég lagði óhikað á brattann. Um Áreyjadal liggur raflína frá Fljótsdalsvirkjun að álverinu í Reyðarfirði sem eflaust fæstum þykir augnayndi, en þá var bara að horfa framhjá henni því nóg annað var að sjá. Á myndinni er horft frá neðanverðum dalnum til Reyðarfjarðar.




Áreyjadalur er sundurskorinn af miklu hamragili, stórkostlegri náttúrusmíð.











Þegar yfir háheiðina kom, á breiðu skarði, batnaði vegurinn til muna og er neðar dró og Skriðdalur nálgaðist blöstu við þessi litbrigði í grunnu gili Þórudals. Þarna áði ég stutta stund. Handan Skriðdals sér til Hallormsstaðaháls og handan hans er Fljótsdalur. Hornið sem sér í lengst til vinstri er Þingmúli.






Ég hjólaði fram Skriðdal á malbiki og er því sleppti og ofar dró var fljótlega komið að tengingu vegarins um Öxi. Þá leið fór ég í fyrsta sinn sumarið 2018 og svo aftur í maílok 2019 á leið til Seyðisfjarðar í Norrænu. Í þeirri ferð var hitinn á Öxi núll gráður og hvít jörð. Nú var öldin önnur og hitinn líklega um 14-15 gráður. Vegurinn var holóttur en bláa hjólið kvartaði ekki og ég var svo sem ekkert að spana leiðina. Tíminn var nægur, ég reyndi frekar að njóta augnabliksins og hleypti öllum fram úr sem á eftir komu. 




Ég átti svo sem nóg af myndum frá Öxi úr fyrri ferðum og tók því engar á leiðinni, en hér að neðan er mynd tekin sumarið 2018 og svo önnur frá maí ´19: 





Þegar niður af Öxi kom í Berufjörðinn var þar sama veðurblíðan, dálítil dalalæða um miðjan fjörð en bjart að sjá úteftir. Ég renndi út á Djúpavog og fékk mér kaffi í Löngubúð í góðum félagsskap. Að því loknu sneri ég til baka fyrir fjörð og áleiðis til Breiðdalsvíkur. Utarlega í Berufirði norðanverðum, skammt utan við eyðibýlið Streiti, er þetta minnismerki neðan vegar. Ég áði þarna stutta stund, gekk niður að vörðunni og las á plötuna, sem vitnaði um sorglega atburði. Afleiðingarnar svona atburðar urðu svo, á þeim tíma sem ártalið vísar til, oft enn skelfilegri en slysið sjálft, fyrir þau sem eftir lifðu...






Um þennan atburð má á nokkrum stöðum finna lesefni, þó stutt sé. 

Ég var kominn yfir í Breiðdal, á slóðir sem nú skyldu kannaðar ítarlega. Fyrst þurfti að taka bensín á Breiðdalsvík. Svo lá leiðin fram dalinn þar sem áður var "Þjóðvegur eitt" áður en vitringunum hugkvæmdist að að í stað þess að leggja nýjan veg um Breiðdalinn væri einfaldara og hagkvæmara að færa bara þjóðveg eitt niður á firðina þangað sem búið var að malbika hvort eð var, og fella svo nýju Fáskrúðsfjarðargöngin inn í planið. Þar með gátu menn barið sér á brjóst og sagt: " Nú er búið að malbika allan hringveginn" án þess að malbika svo mikið sem einn metra. Við sem ekki erum jafnmiklir snillingar lofum almættið fyrir að ekki skuli hafa verið búið að malbika veginn fyrir Melrakkasléttu áður en nýi vegurinn um Hófaskarð komst á teikniborðið, því þá mætti gera ráð fyrir að hringvegurinn "Númer eitt" lægi þar....

Semsagt, ég hjólaði fram dalinn að kirkjustaðnum Heydölum. Þar liggur tenging yfir á veginn um Suðurbyggð, veg sem liggur af Númer eitt sunnan Breiðdalsvíkur og fram dalinn sunnanverðan. Þetta er malarvegur, sveitabæjaleið sem er skemmtileg því margt er þar að sjá Því miður tók ég allt of lítið af myndum í hringnum en eitthvað þó. Leiðin lá líkt og sjá má á kortinu að neðan, þar sem komið er út Berufirði til Breiðdalsvíkur og frá þorpinu inn að Heydal, yfir á Suðurbyggðarveg og fram hann fram í Breiðdal. Þar sneri ég við ( af því að Suðurbyggð var svo skemmtileg leið) og hjólaði til baka sömu leið, þó með viðkomu í Fagradal, fallegu dalverpi með reisulegu eyðibýli og alls kyns skemmtilegu dóti. Frá Fagadal hjólaði ég svo aftur niður á Suðurbyggðarveg og sem leið lá niður á Númer eitt, aftur til Breiðdalsvíkur og aftur að Heydölum en nú beina leið inn dalinn og upp á Breiðdalsheiði.

Ég veit ekki hvort nokkur maður skilur þessa lýsingu, en það á ekki að skipta máli því fáir eða enginn les hvort eð er....



Á myndinni að neðan er horft fram ( inn) Breiðdal, frá innri vegamótum Suðurbyggðarvegar. Malbikaði vegurinn var áður Þjóðvegur eitt. 



Býlið að Fagradal. Það er dálítið gaman að sjá hvernig fjallið í baksýn skýtur kryppu uppúr þokunni.



Við útihúsin í Fagradal, litlu neðar en íbúðarhúsið, var þessi forláta ljósavél í hálfföllnum skúr. Vélin virtist þó í betra lagi en skúrinn og finna mátti af henni "ferska" dísilolíulykt. 



Kannski var þessi einhvern tíma heimilsbíll í Fagradal. Hafi svo verið, er allavega langt síðan. Hann - eða það sem eftir er af honum - liggur í móa skammt neðan bæjarins, stutt frá heimtröðinni.





Varla er sá dalur til sem ekki rennur á um, og Fagridalur er engin undantekning. Hann er þarna í baksýn og áin sem um hann rennur nýtur liðsstyrks af annarri sem rennur um Fossdal, litlu norðar. Sameinaðar renna þær svo um þetta fallega gil með enn fallegri fossi, sem því miður myndaðist illa í lækkandi sól beint í linsuna.



Eftir að hafa lokið hringnum um Breiðdal hélt ég aftur frá Breiðdalsvík sömu leið fram að Heydölum en hélt nú beint áfram um hinn gamla Þjóðveg eitt áleiðis að Breiðdalsheiði. Á leiðinni fór ég fram hjá mótum vegarins fram Norðurdal en þar sem degi var farið að halla ákvað ég að geyma hann til næstu ferðar, enda talsvert svæði um að fara. Brekkurnar upp á Breiðdalsheiði hljóta að hafa verið friðaðar einhvern tíma, því þótt ég myndi lítið frá því að ég fór þetta sumarið 1986 þá rámaði mig þó í brekkur og beygjur sem í minninu voru nákvæmlega eins og þá....Ég fór smám saman að skilja "snillingana" hjá Vegagerðinni sem sáu þann kost vænstan að færa vegnúmer eitt niður á firðina sem áður var búið að malbika. Þennan veg hefði þurft að endurbyggja algerlega, hefði átt að bæta hann og malbika. Það var auðvitað mun einfaldari og ódýrari leið að breyta nokkrum vegskiltum.





Uppi á há-heiðinni er þessi kofi, ásamt upplýsingaskiltum. Útsýnið var frekar takmarkað en stutt var í tengingu vegarins um Öxi og þar með var einum hring lokað.




Ég hjólaði niður Skriðdal í átt til Egilsstaða og það hvarflaði að mér að fara Þórdalsheiðina aftur til baka til Reyðarfjarðar. Mig var hins vegar farið að svengja og þar sem enginn veislumatur var til í ferðadrekanum, en mér fannst ég eiga skilið slíkan eftir fínan ferðadag, þá langaði mig að athuga opnunartíma verslana í Egilsstöðum. Við mót Þórdalsheiðar stoppaði ég og dró upp símann, en þar var þá ekkert netsamband. Símasambandið var hins vegar ágætt svo ég hringdi til Reykjavíkur til að fá upplýsingar um opnunartíma búða í Egilsstöðum! Það sýndi sig að með því að slá dálítið í gæti ég náð í Nettó. Það gekk eftir og klyfjaður veislumat hélt ég frá Egilsstöðum niður til Reyðarfjarðar. 

Ekkert varð þó úr eldamennsku, því ég fékk símtal frá Neskaupstað, þar sem vinir voru að búa sig út að borða og buðu mér að slást í hópinn. Það varð úr, og ég fékk fínt að borða í Beituskúrnum í fjörunni skammt frá mínum gamla vinnustað í Dráttarbrautinni. Kvöldinu var svo eytt í litlum en góðum hópi og það var farið að skyggja þegar ég sneri til baka um göng og lagðist um síðir til svefns í ferðabílnum á tjaldsvæðinu í Reyðarfirði

---------------------------------------------------------------------------------------------------------

Á eftir þriðjudegi kemur miðvikudagur - það er óumdeilt. Ég var snemma á fótum líkt og áður, og veðrið var enn það sama - sól og blíða. Fyrirheit dagsins var einfalt: Í dag skyldi Viðfjörður heimsóttur ef mögulegt væri. Sumarið 2018 fór ég í Vöðlavík á "nýja" hjólinu ( sem þá var sannarlega nýtt) í þoku og nær engu skyggni fyrr en niður í sjálfa víkina kom. Í bakaleiðinni langaði mig að kanna Viðfjörð líka en þar sem leiðin er nokkuð drjúg og þokan var þykk, þá ákvað ég að geyma Viðfjörð til betri tíma. 



Nú, tveimur árum seinna var búið að laga skiltið og ryðja burt þokunni. Ég brunaði á bláa hjólinu frá tjaldsvæðinu út Reyðarfjörðinn, um Eskifjörð, út Helgustaðahrepp og spýttist upp á heiðina til Vöðlavíkur, en af henni liggur vegurinn til Viðfjarðar. Ekki hafði ég lengi hjólað þegar Paradís opnaðist og ég hugsaði með mér: "Hva...bara strax kominn í Viðfjörð!"

Svo fór ég að hugsa....Þetta gat varla verið Viðfjörður. Þarna var allt eitthvað kunnuglegt. Sekúndubrot leið þar til ég uppgötvaði að ég var að horfa ofan í Vöðlavík. Auðvitað!  Ég hafði ekki séð Vöðlavík 2018 fyrir þoku fyrr en ég kom niður í hana, svo þetta fallega sjónarhorn var mér framandi. Ég stoppaði þarna góða stund og naut útsýnisins.



Vegurinn hlykkjaðist áfram út heiðina og Vöðlavík seig afturfyrir hægra hornið. Leiðin var frekar grýtt og óslétt en enginn farartálmi fyrir gott hjól. Svo kom þar að vegurinn lá undir brattri hlíð sem minnti á Kinnina gömlu í Breiðadalsheiðinni vestra. Sá var þó munurinn að þessi "Kinn" sneri öfugt við þá vestari en við endann lá leiðin um skarð. Handan við það skarð blasti þessi sýn við. Þarna sá ég Viðfjörð í fyrsta skipti, og enn gat ég verið almættinu þakklátur fyrir að úthluta mér endalausri veðurblíðu. Svona var veðrið t.d. þegar ég kom í fyrsta sinn til Neskaupstaðar vorið 1985 og sú tilfinning hefur fylgt mér alla tíð síðan og orðið til þess að mér finnst Neskaupstaður með fallegri bæjum. Hundrað aðra staði gæti ég nefnt....



Þegar niður fyrir brekkurnar var komið var greinilegt að vegurinn hafði nýlega verið lagaður talsvert. Til vinstri hillir undir stórhýsið í Viðfirði sem ekki var aðeins bóndabýli heldur einnig gistiheimili, þegar þjóðbrautin til Neskaupstaðar lá um heiðina og síðan um sjóveg.



Fyrir mjóum botni Viðfjarðar er fjörukambur og innan hans sjávarlón, opið í annan endann til fjarðarins. Yfir lónið hefur verið gerð myndarleg göngubrú. Hún sveiflaðist reyndar dálítið til, svo mikið að ég þorði ekki öðru en að stinga símanum í vasann og styðja mig yfir með báðum höndum. Húsið er nýlega endurbyggt og er mjög reisuleg bygging eins og sjá má.



Ég gekk fjörukambinn alla leið yfir að rótum Barðsness ( t.h.). Ytri hluti Barðsnessins blasir við frá Neskaupstað og þeirri sjón var ég vanur enda fáir staðir tilkomumeiri þegar sígandi sól roðar Rauðubjörg, yst á nesinu. Innri hlutann var ég hins vegar að sjá í fyrsta sinn,.líkt og annað sem fyrir augu bar.



....og frá kverkinni Barðsnessmegin má vel sjá hversu mjór Viðfjörður er í botninn. Ljósi bletturinn er líklega bátaskýli enda var lítill bryggjustúfur rétt hjá.



Þar sem Barðsnesið byrjar....Litla húsið á miðri mynd er vatnsaflstöð sem framleiðir rafmagn fyrir Viðfjarðarbæinn. Hvers vegna Viðfjörður heitir Viðfjörður má líklega ímynda sér af myndefninu neðst hægra megin....



Allt gott tekur enda og (alltof) brátt var kominn tími til að halda til baka. Myndin hér að neðan er tekin úr skarðinu sem áður var nefnt og sýnir þann kafla vegarins sem mér fannst minna á Kinnina vestra. Svo liggur leiðin fram grænu brúnirnar til vinstri og frá horninu þar blasir Vöðlavík við vinstra megin. Dalurinn sem sér til í fjarska er upp af víkinni. Hitt fannst mér dálítið skrýtið, þegar ég stoppaði þarna uppi og skoðaði mig um, að menn skyldu hafa valið vegstæðið um heiðina í stað þess að fara frá Vöðlavík niðri við fremsta bæ í víkinni ( Karlsstaði) fram Dysjardal, dalinn sem sér til næst á myndinni og þaðan upp í skarðið. Að sumarlagi hefði maður valið þá leið en það má vera að snjóalög hafi ráðið vegstæðinu. Mögulegt er að meðan dalurinn hafi verið fullur af snjó hafi fjallsbrúnirnar verið auðar.



Ég dundaði við að setja þessar hugrenningar í kortið hér að neðan. Rauða leiðin er núverandi vegstæði  (dálítið ónákvæmt á kortinu en ég held að það sé réttara svona), sú bláa væri þá leiðin frá Karlsstöðum í Vöðlavík fram Dysjardal og svo hefði jafnvel mátt hugsa sér veginn liggja af öxlinni ofan Karlsstaða beint inn í Dysjardal. Mér fannst þetta skemmtileg hugrenning yfir kókómjólk og ostaslaufu í áningarstað á heiðinni.....



Svo var það allt að baki og Reyðarfjörður blasti við handan heiðar. 



Í þriðja sinn fór ég fram hjá silfurbergsnámunni að Helgustöðum, í þriðja sinn gaf ég sjálfum mér loforð um að skoða hana í næstu ferð. ( fyrst fór ég á Grána út Helgustaðahreppinn sumarið 2017, svo á nýja hjólinu 2018) . Þegar ég hafði  íhugað hvernig eyða mætti síðari hluta dagsins, fannst mér tilvalið að fara aftur yfir til Neskaupstaðar og líta enn einu sinni Barðsnesið frá vitanum þar. Veðrið var enn það sama og þótt ekki skini kvöldsól á Rauðubjörg var útsýnið jafn himneskt og alltaf áður (nema þegar maður sá hvorki vitann né tærnar á eigin skóm fyrir þoku). 
Þegar ég bjó í Neskaupstað 1985-6 var Shellsjoppan ein helsta menningarmiðstöðin. Á þeim örfáu árum sem liðin eru síðan hefur margt breyst og nú er Shellsjoppan orðin Olíssjoppa, og Olíssjoppan sem var er orðin gistiheimili. Mig langaði að rifja upp gamlar minningar á Shellsjoppunni en fann þær ekki, því svo miklu hefur verið breytt innandyra að ég gat ekki tengt við neitt. Keypti mér þess vegna bara appelsín og súkkulaði og settist út í sólina sunnanmegin við húsið (sjávarmegin, á bekk við borð þar sem ekki var nein slík aðstaða fyrir 35 árum) Þar sat ég og naut tilverunnar og minninganna meðan appelsínið hitnaði og súkkulaðið bráðnaði. 
Ég mátti til að hringja í gamlan kunningja sem ég vissi að átti frístundaaðstöðu ofarlega í bænum. Hann var á staðnum og bauð samstundis í kaffi. Þeir voru þar reyndar tveir, gamlir kunningjar og gaman að hitta tvo fyrir einn....

Þegar kom að því að halda til baka langaði mig að reyna Oddsskarðið, jafnvel þótt á því lægi þokuslæðingur. Gömlu göngunum var ég þrautkunnugur og einnig hafði ég farið veginn yfir sjálft Oddsskarðið ( þ.e. háskarðið) nokkrum sinnum meðan ég bjó í Neskaupstað. Nú langaði mig að vita hvort leiðin væri fær og renndi því uppeftir, troðnar (og reyndar malbikaðar) slóðir upp Oddsdal, Blóðbrekkurnar og upp að göngum. Vegurinn yfir leit hins vegar svona út, og þar sem ég gat ekki greint vegna þoku hvort þetta væri eini skaflinn á leiðinni lét ég þarna staðar numið. Við athugun á gömlu göngunum kom í ljós að þau voru harðlokuð og greinilegt að þangað inn var engum boðið.
Á bakaleiðinni mætti ég Þýskara á BMW hjóli, sem ég hafði mætt nokkrum sinnum áður. Ég gaf honum bendingu um að leiðin væri blind. Hann veifaði á móti og hélt áfram. Ég hefði eflaust gert það sama....



Á leiðinni til baka til Reyðarfjarðar kom ég við á útsýnispalli á Hólmahálsi (Hólmanesi). Þaðan er gott útsýni út yfir fjörðinn og sérstaklega athyglisvert að sjá hvernig þoka síðdegisins skreið inn fjörðinn og lagðist yfir Vöðlavíkurheiðina, sem fyrr um daginn hafði verið heið. Það hefði verið lítið gaman að leggja á heiðina nú og lítið þaðan að sjá....



Svo var allt í einu komið kvöld, og því fylgdi að sjálfsögðu grillveisla fyrir einn, þar sem grillað var góðmeti úr Nettóbúðinni á Reyðarfirði. Þar á eftir kvöldganga og síðan nætursvefn. Dagskráin sem ég hafði haft í huganum fyrir fjarðasvæðið var tæmd, og nýjar áskoranir framundan.

---------------------------------------------------------------------------------------------------------
Fimmtudagur  13.ágúst. 

Samkvæmt skilmálum Útilegukortsins mátti gista fjórar nætur samfellt á sama tjaldsvæði. Þessar fjórar nætur hafði ég nú nýtt og því var að morgni öllu hafurtaski pakkað saman, hjólið sett á kerru og haldið af stað. Ekki var þó farið langt, heldur aðeins rúma 30 km. að tjaldsvæðinu á Egilsstöðum. Ekki er það þó á Útilegukortinu en m.t.t. fyrirhugaðra ferða næstu daga var það miðsvæðis. Ég keypti tvær nætur á svæðinu, kom bílnum fyrir, tók hjólið af og gerði ferðaklárt. Þarna á Egilsstöðum hitti ég líka soninn, sem kominn var austur á Grána gamla, eldri Econoline-ferðabílnum mínum sem aldrei var seldur. Sonurinn ætlaði að nýta fimmtudaginn í að hlaupa á einhverja fjallspíru í Seyðisfirði.
Mín leið lá hins vegar inn að Kárahnjúkum. Þangað hafði ég aldrei komið, þrátt fyrir góðan vilja og fögur fyrirheit. Til að fara nú ekki alltaf sömu leiðina fram Fljótsdal ákvað ég að fara inneftir að norðanverðu, um Fellabæ (enda er malarvegur þeim megin og malarvegir eru skemmtilegir). Ég er ekki sérstaklega kunnugur á efri leiðum Fljótsdals og þegar ég kom að skilti sem vísaði inneftir og á stóð "Kárahnjúkar" og "Snæfell", þá hugsaði ég sem svo að þótt ég færi inn að Kárahnjúkum þá ætlaði ég nú ekki að fara alla þá óraleið sem mér fannst að hlyti að vera inn að Snæfelli. Þegar ég svo kom inn að vegamótunum innundir Skriðuklaustri, þar sem vegurinn hlykkjast upp hlíðina og svo fram Fljótsdalsheiði, stóð þar skilti sem á stóð: "Kárahnjúkar 61" og "Snæfell 58"  Eitthvað hafði fennt yfir mín fræði með árunum, því ekki átti ég von á að lengra væri inn að Kárahnjúkum en að Snæfelli, sem mér fannst vera næst heimsenda. Ég reiknaði í fljótheitum út bensímagn bláa hjólsins, sem ég þekkti að því að geta verið eyðsluhít ef of hratt væri hjólað. Ég var búinn með rúma þrjátíu km, svo lægju fyrir tvisvar sextíu og loks aðrir þrjátíu til baka. 180 km. áttu að sleppa vel, ég hafði áður fengið aðvörunarljós um lága bensínstöðu eftir 175 km. en líka eftir 200 km. Það var því um að gera að hjóla sem mest á 90.....





Það var nokkuð bjart yfir heiðinni, dálítill vindur en ekki til baga og ferðin inneftir var ævintýri. Líkt og svo oft áður í ferðalaginu var ég á alveg nýjum slóðum og þurfti að reyna að skoða sem mest á alltof stuttum tíma. Yfirleitt er ég nokkuð viss um að ég sé aðeins að sjá staði og hluti í FYRSTA sinn en ekki EINA, og skoða því frekar í stóru samhengi til að byrja með. Þegar inn að Kárahnjúkum kom var líka ágætt að hafa æfingu í að skoða hluti í STÓRU samhengi....





Nújæja....Kannski var ekkert Spánarveður þarna innfrá, en mér skilst líka að Spánarveður sé frekar fátítt á þessum slóðum.



Þetta hógværa og yfirlætislausa nafn á skíthúsi var mér framandi.....Mér varð, eins og svo oft áður, hugsað til vegmerkinga eins og "Torleiði". Rétt þegar útlendingar eru búnir að stauta sig fram úr því orði (og pottþétt ekki með aðstoð yngstu kynslóðar Íslendinga) þá kemur "Hreinlætishús". Svo sannmælis sé gætt er rétt að taka fram að stutt frá þessu skilti var annað sem á stóð WC. Málhreinsunarmenn innan Landsvirkjunar hafa því aðeins haft hálfan sigur....



Venjulegir fólksbílar á leið yfir stífluna virðast ósköp litlir....



Það hvessti meira á heimleiðinni og að auki fór að rigna dálítið. Mig var farið að langa í kaffi svo ég renndi niður að skálanum við Laugafell. Hann reyndist afar veglegt og reisulegt hús, þar sem hægt var að kaupa kaffi og fleira. Ég nýtti mér það og áði þarna í hálftíma eða svo.





Ég var kominn til Egilsstaða fyrir kvöldmat og án þess að bensínaðvörunarljós hjólsins kviknaði. Við sonurinn borðuðum saman hamborgara í N1 sjoppunni og eftir kvöldmat var enn hjólað af stað. Ég átti ókannaðar leiðir frammi í sveit og hélt þangað þrátt fyrir rigningarúða. Leiðin lá fram Skriðdal, ekki þó fyrrum Þjóðveg eitt heldur handan dalsins, meðfram Hallormsstaðahálsi þangað sem heitir Norðurdalur ( og má ekki rugla saman við þann Norðurdal sem gengur inn frá Valþjófsstað á Fljótsdal) Inn af "okkar" Norðurdal, og í framhaldi af honum gengur Geitdalur. Þangað lá leiðin.



Í dalsmynninu eru enn bæir í byggð, en ég hélt beint inn að þeim innsta sem brúklegur vegur lá til. Augljóslega er henn ekki lengur í byggð.







Ég myndaði bæina í bakaleiðinni og hér að neðan er sá sem ber nafnið Geitdalur, ef mér skjátlast ekki.





Utan við Geitdal er bærinn Þorvaldsstaðir. Reisulegt býli, þar sem ekið er þétt um bæjarhlaðið. Því miður eyðilagðist nærmyndin sem ég tók af Þorvaldsstöðum og ég á aðeins þessa, sem tekin er nokkurn veginn miðja vegu milli bæja:



Neðsti bær í dalnum er Flaga, rétt við vegamótin. Þar virtist einnig vera búið myndarbúi:



Leiðin sem ég fór þetta fimmtudagskvöld var nokkurn veginn svona:





Hér ætla ég að setja punktinn yfir I-ið að sinni. Það var enn fimmtudagur þótt liðið væri á kvöldið og veðurspá fyrir næsta dag, föstudag, var framúrskarandi. Þá skyldi farið í Loðmundarfjörð, meðan sonurinn gengi í Stórurð með félögum. Sá kafli er í vinnslu.










Flettingar í dag: 300
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79127
Samtals gestir: 18484
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 14:57:35


Tenglar