Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


27.07.2013 08:27

Frá Hólmi að Fjaðrárgljúfri ...

......og heim um Hrífunes og Álftaver.

Kannski hefði titillinn bara átt að standa í heilu lagi í hausnum en mér fannst þetta svoddan langloka að betra væri að skipta því í tvennt. Samt var þetta nú röðin á viðkomustöðunum. Þegar við höfðum lokið við að mynda heim að Hólmi, eins og fram kemur í síðasta pistli lá leiðin vestur um og upp með Hunkubökkum. Þar sleppir malbiki en malarvegurinn sem við tekur er ágætur og vel fær öllum bílum - í það minnsta fyrstu kílómetrana. Rétt innan við Hunkubakka greinist leiðin í tvennt, til hægri (austurs) liggur hún inn í Laka og er kyrfilega merkt "Illfær vegur", en til vinstri liggur hún yfir lágan og stuttan háls niður að Fjaðrá, yfir hana á brú að kirkjustaðnum Holti sem eitt sinn var. Þetta bæjarnafn, Holt, kemur oft fyrir í frásögn Jóns Trausta af Skaftáreldum, eins og mörg önnur bæjanöfn á þessu svæði og vestar. Leið okkar Elínar lá hins vegar ekki yfir brúna heldur aðeins að henni og við lögðum sjúkrabílnum á litlu bílastæði við austurenda brúarinnar. Þar er stórt upplýsingaskilti um þetta magnaða náttúrufyrirbæri, Fjaðrárgljúfur. 

Það má kannski nefna, svona fyrir þá sem skoða kort af svæðinu, að á gamla herforingjaráðskortinu (1/100.000) er Fjaðrá nefnd Fjarðará en gljúfrið greinilega teiknað. Þarna mun aðeins um augljósa villu að ræða en ekki aðra nafnmynd.

Allt um það má fræðast um Fjaðrá og Fjaðrárgljúfur með einföldu gúggli, svo ég skelli strax inn myndunum sem hún Elín tók, enda hafði það verið hennar draumur til margra ára að heimsækja þennan stað:







Svo kom ein þar sem fauskinum var stillt upp eins og ferðamanni, með bakpoka frá Hrunbanka Íslands ehf og öllu! Það er hægt að vera montinn þegar hallinn er bara tíu gráður og maður hefur lifað af fjallgöngu á Helgafellið stuttu áður....



Ég hef alltaf verið lofthræddur með afbrigðum. Það eina sem hefur getað ýtt mér fram á brún hengiflugs er að nálægt sé einhver ennþá lofthræddari. Þannig var það þarna og ég mjakaði mér fram á þennan klettarana til að horfa niður og í kring. Það var alveg áhættunnar virði....



...og vegna þess að ég komst lifandi til baka fannst mér að hún EH yrði að fá að njóta útsýnisins líka. Hún var lengi vel ófáanleg til að reyna en lét sig á endanum og sá ekki eftir því:



Af klettanefinu rákum við augun í þetta eina og einstaka tré sem stóð þráðbeint upp úr dálitlum klettshaus. Sjáiði það, á miðri mynd?



Með því að súmma aðeins sást það betur. Þá sást líka vel steinkarlinn sem gætir þess. Sjáiði nefið sem ber í stall trésins? Ókei, en sjáiði danska dátann með háu loðhúfuna, sem stendur vinstra megin við tréð og horfir niður gljúfrið? Sjáiði kannski líka broskallinn hægra megin við tréð? 



Þótt við höfum verið heppin og sloppið við skaða í prílinu var ekki hægt að segja það sama um alla. Hún gimba sem liggur þarna í ánni, hvítur depill beint undir ljósa, ferhyrnda blettinum bítur ekki þessa heims gras framar. Það var óþarfi að súmma á hana...



Loka þessarri myndasyrpu frá Fjaðrárgljúfri með tveimur sérstaklega fallegum, sem Elín tók. Það má bæta við í lokin að þegar við vorum efst í gljúfrinu sáum við hóp fólks á gangi niðri í því. Þetta voru átta eða tíu manns, karlar og konur í yngri kantinum. Þau óðu ána þar sem þurfti og höfðu að öllum líkindum lagt af stað frá brúnni neðar, gengið eins hátt og gengt var og voru á bakaleið er við sáum þau. Ekki voru þau sérstaklega ferðabúin, m.a. var ein daman aðeins á ljósum sumarkjól sem hún vafði upp þegar vaða þurfti djúpt. Ekki var leiðin í gilinu ógreiðari en svo að þau voru talsvert á undan okkur niður að brú. Ef neðri myndin "prentast vel" má sjá mann í ljósbláum bol fjærst á odda malareyrar í miðri ánni.





Það var farið að örla á skýjum á himni þegar við yfirgáfum Fjaðrárgljúfur og héldum í heimátt, til vesturs. Við ókum hring af þjóðvegi eitt upp með Ásabæjum, yfir Eldvatn og Kúðafljót, og síðan niður gegnum Hrífunes. Rétt við vestari vegamótin inn á númer eitt (þau vegamót eru aðeins merkt "Hrífunes" en eystri vegamótin eru merkt "Landmannalaugar / Fjallabak nyrðra) stendur kennileitið Laufskálavarða. Henni fylgir sú sögn að ferðamenn skuli hlaða vörðu sér til faraheilla, þá þeir fari um Mýrdalssand fyrsta sinni. Það var langt síðan við fórum þetta í fyrsta sinn en sagan er góð og útbreidd, eins og sjá má af fjölda smávarða:





Næsti viðkomustaður okkar skyldi vera Álftaver, Eins og sjá má af myndunum hér að ofan var orðið alskýjað og farið að kula talsvert. Okkur langaði samt að renna niðureftir, leiðin af þjóðveginum niður að bæjunum er örstutt og vegurinn þokkalegur malarvegur. Kirkjan í Álftaveri stendur skammt frá býlunum Norðurhjáleigu og Þykkvabæjarklaustri en er í tali nefnd Þykkvabæjarklausturskirkja. Þetta er dálítið ruglandi því sá Þykkvibær sem flestir þekkja úr daglegu tali er miklu vestar og þekktari af kartöflum en klaustri. Einhvern veginn er þó nafnið tilkomið og víst er að það er ævagamalt því Þykkvabæjarklaustur var, eins og önnur slík, lagt niður við siðaskiptin 1550.

Ég hef áður skoðað og myndað þessa kirkju en þá var ég einn á ferð sumarið 2005. Nú var bæði notuð betri myndavél og myndasmiður: 





Í kirkjunni er milliloft með bekkjum en mér er ekki alveg ljóst hverjum þeir hafa verið ætlaðir. Án þess að nokkur hafi orðað það beinlínis við mig hef ég alltaf talið að kirkjubekkir ættu hreinlega að vera óþægilegir. Kannski er einhver meinlætahugmynd þar fólgin í, en kannski eru bekkirnir vísvitandi hafðir jafn vondir og þeir venjulega eru til að menn sofni síður undir messu. Ég veit ekki alveg hverjum þessi bekkur hefur verið ætlaður en víst er að sá sem í honum situr verður þeirri stund fegnastur er kirkjuklukkurnar hringja út messuna.....



Það gilti einu þótt smávaxnari manneskja væri mátuð í bekkinn andspænis - andlitið var alltaf í bitanum þótt setið væri á blábekkjarenda! 



Á hól við norðurvegg kirkjunnar stendur þessi minningarsteinn um klaustrið að Þykkvabæ. 



"TIL MINJA UM KLAUSTRIÐ Í ÞYKKVABÆ 1168 - 1550.



Það er ljóst að hér í sveit hefur ekki verið til nein "InnDjúpsáætlun" eins og vestra þegar byggja skyldi upp á hverjum bæ í Ísafjarðardjúpi. Ég veit ekki hvort er fjárhús og hvort er fjós. Húsið vinstra megin líkist hins vegar ákaflega mikið bænhúsinu í Öxney á Breiðafirði - kannski sami arkitektinn? En kannski eru torfkofar einfaldlega hver öðrum líkir



Svona grínlaust þá virtist almennt vera mjög þokkalega búið í Álftaveri. Svo mátti víða sjá svona aukabúskap eins og hér að neðan. Netakúlur og hringir skiptu hundruðum eða meira og mátti sjá á allnokkrum stöðum stórar hrúgur af þeim. Kannski er þetta "rekaviður" framtíðarinnar? Tæplega verða þó byggð hús úr þessu efni. Hvað veit maður þó? Var ekki flíspeysan sem ég klæddist akkúrat á þessu augnabliki einmitt úr endurunnu plasti?



Við yfirgáfum Álftaver og áðum næst að Vík í Mýrdal. Þar var etinn þjóðvegahamborgari en síðan ekið áfram í vesturátt. Lágskýin urðu að þoku og henni fylgdi regnúði. Klukkan var rétt um tíu að kvöldi þegar við renndum í hlað við Langbrók í Fljótshlíð, veifuðum Útilegukortinu og lögðum sjúkrabílnum í náttstað. Nóttin var blaut, miðvikudagsmorguninn enn blautari og þegar við ókum heim uppúr hádegi sá varla handaskil á Hellisheiði.

....það var hins vegar þurrt í Reykjavík! Ótrúlegt!

Að síðustu má taka fram að allar ofanbirtar myndir, ásamt fjölda annarra eru finnanlegar undir "Myndaalbúm"  efst á forsíðu. Albúmið heitir "Dverghamrar"

..........................................................................................................................

Næst: Vestmannaeyjar!




mmmmmmmmmmmmmmmmm

18.07.2013 17:37

Í hina áttina...

Eins og kom fram hér neðar (og fyrir stuttu) var sjúkrabíllinn græjaður í snarhasti fyrir Reykhólatúr. Bátadögunum sem stefnt var á, var hins vegar aflýst vegna afleitrar veðurspár sem gekk að mestu leyti eftir. Sömu helgi héldu Vestmannaeyingar Goslokahátíð og hvikuðu hvergi frá auglýstri dagskrá enda dálítið annað að hafa fast land undir fótum þegar hraustlega blæs, en örlitla bátsskel sem ekki má við miklu. Kannski var það, að aflýsa smábátasiglingunni vestra, einmitt það sem núlifandi kynslóð hefur lært af forfeðrunum - þau voru frekar regla en undantekningar, slysin á smábátunum áður fyrr við Breiðafjörð þegar ekki var um önnur samgöngutæki að ræða.

Ég fékk aðstoð við að gardínuvæða sjúkrabílinn, ásamt einu og öðru sem hentar betur dömuhöndum en mínum. Aðstoðina átti svo að endurgjalda með gistingu í svítunni að Reykhólum. Þegar Bátadagarnir voru blásnir af stóð skuldin ógreidd og við svo búið mátti ekki standa. Þegar ríkisveðurstofan og sú norska yr.no tóku höndum saman í loforði um blíðviðri á suður- og suðausturlandi þriðjudaginn 9. júlí gafst færi á skuldajöfnun. Það skyldi því haldið af stað - bara í hina áttina!

Mánudagskvöldið áttunda var blásið til brottfarar og ekið í ausandi rigningu yfir Hellisheiði austur um til Víkur í Mýrdal. Þegar þangað var komið var að mestu hætt að rigna en þokuskýin héngu yfir og manni fannst blíðuspáin hanga á bláþræði. Á tjaldsvæðinu við Vík var allmargt ferðaapparata af ýmsum þjóðernum. Samt er ekki hægt að neita því að flóran varð öllu litríkari við komu nýja ferðadrekans:



Það var fullt tilefni til að mynda "innréttingarnar" eftir alla vinnuna sem á undan var gengin:





Hann er kannski ekki sá fínasti að innan, sjúkrabíllinn og vissulega er eftirsjá að mörgu því sem prýddi gamla, svarta ferðadrekann. Hins vegar hefur þessi bíll marga umtalsverða kosti framyfir þann gamla og frá því þessi mynd var tekin og til dagsins í dag hefur margt breyst - aðeins á tíu dögum!

Þriðjudagsmorguninn heilsaði með þoku, en margt benti þó til að veðurspáin góða gæti ræst þegar sól hækkaði. Klukkan rúmlega níu um morguninn vorum við mætt við útidyr sundlaugarinnar í Vík enda stóð skýrum stöfum í okkar bæklingi að laugin opnaði kl. átta. Það stóð líka skýrum stöfum á bæklingnum "2012" þó hann væri fenginn í sjoppunni kvöldið áður. Nú var árið 2013 og á laugardyrunum stóð: "Opið frá kl. 10........"  Ææ!

Í biblíunni "Á ferð um Ísland 2013"  voru upplýsingar um sundlaugina á Kirkjubæjarklaustri en engar þó um opnunartíma. Ég hringdi í laugina en enginn svaraði. Hringdi aftur í einhvern gistiþjónustusíma, þar svaraði kona og sagði laugina opna frá kl. 10. Það passaði fínt til að hleypa fatlafáknum austur Mýrdalssand að Klaustri, en í leiðinni var stutt áning við "gerfibrúna" á Múlakvísl. 



Á þessarri mynd af Hafursey má svo sjá að skýjahulan var óðum að hverfa og maður fékk svona snert af hálfgleymdri sumartilfinningu:



Svo var brunað austur Mýrdalssand og von bráðar vorum við komin að Klaustri. Klukkan var að nálgast hálfellefu þegar við lögðumst í bleyti í heita pottinum sem því miður stendur undir útvegg íþróttahússins og naut þess vegna ekki sólar fyrr en nokkru seinna. Þegar hún svo náði yfir vegginn var eins og hitabylgja skylli yfir. Það var eiginlega synd að yfirgefa sundlaugina í svona veðri en fleira beið skoðunar og um að gera að nýta blíðuna. Um leið og við stigum upp í bílinn að nýju var skotið einni mynd yfir hávaxin tré í áttina að Systrafossi.




Rétt innan og austan við Klaustur er ágætt tjaldsvæði sem á Útilegukortinu kallast Kleifar-Mörk. Ég gisti þar í ágúst í fyrra í Meðallandstúrnum sem greint var frá í janúar sl. Staðurinn hafði dálítið annað yfirbragð í sólinni nú en suddanum þá. Það var talsvert af ferðafólki á svæðinu sem og utan þess. Við lögðum drekanum okkar, drógum út stóla og höfðum "drekkutíma"



Meðfram tjaldsvæðinu rennur áin Stjórn og í henni er þessi fallegi foss, Stjórnarfoss. Í einhverri ferðabók las ég að á heitum sumardögum næði vatnið í Stjórn að volgna svo að vel mætti baða sig í hyljunum neðan fossins. Það þarf vart að taka fram að þessi ferðabókarklausa á ekki við sumarið 2013





Þetta mun vera eyðibýlið Kleifar, hafi ég skilið rétt. Allt umhverfi þessa ágæta tjaldsvæðis ber þetta magnaða svipmót: Hver bergrisinn af öðrum, samstæðir eða sérstæðir allt eftir því hvernig horft er:





Eftir "drekkutímann" við Kleifa og eftir að hafa svarað spurningum nokkurra forvitinna um sjúkrabílinn var haldið af stað til austurs frá Klaustri. Ekið um Hörgsland á Síðu þar sem rekin er mikil ferðaþjónusta, en inn milli trjáa glitti í dálítið merkilegt - að mér fannst. Austasti áfangastaðurinn að þessu sinni var Dverghamar - eða Dverghamrar. Á þennan stað komum við sumarið 2005, í sama veðri og hann var ekki síðri nú en þá. Stuðlabergssúlur beint upp úr grasinu, eins og hannaðar af arkitekt.





Ég fékk eina mynd af mér í grasinu, undir yfirskriftinni: "Lofið þreyttum að hvílast" Vissulega var gott að hvíla sig í grasinu en flóarbitið á handleggnum var lengi að jafna sig!



Rétt við þjóðveginn ofan við Dverghamra eru gömul, ryðguð útihús. Ég var að horfa á þetta lýti í landslaginu þegar ég kom auga á hellinn - og af því ég er ekki sérlega góður myndasmiður rétti ég myndavélina yfir: Sjáiði hjartalagaða hellisopið hægra megin við lóðrétta bergganginn? Hreint stórkostlegt, og ekki síðra fyrir það að utan um hjartalaga hellisopið virtist vera hjartalaga rammi, svona til að leggja enn frekari áherslu á lögunina.



Svo ákváðum við að aka nær og reyna að mynda hjartahellinn úr minni fjarlægð. Þá brá hins vegar svo við að því nær sem farið var tapaðist lögunin og séð frá veginum neðan við var bara ólöguleg hola í fjallið. Næst reyndum við að mynda "fossinn" við bæinn Foss á Síðu. Samkvæmt korti eru þarna nokkur fossnöfn, enda sprænir úr berginu á fleiri stöðum. Finna má Hamrafoss, Stuðlafoss og Fagrafoss. Þið megið bara ráða.....



Eins og fram kom ofar voru Dverghamrar austasti áfangastaðurinn og þegar þarna var komið sögu vorum við að leggja af stað til baka. Á leiðinni austur höfðum við tekið eftir þessum klettadrangi sem virðist rísa beint upp af öðrum eins og prjónn. Við máttum til að mynda hann í bakaleiðinni:





Þetta er vissulega merkilegt fyrirbæri, þessi staki drangur sem stendur þarna eins og vörður yfir hjörð. Ég var samt að velta fyrir mér af hverju kvenfólk kæmi alltaf auga á svona fyrirbæri á undan karlmönnum - eða það er allavega mín reynsla. Er eitthvað Freudískt við svona klettapinna?

Svo komum við aftur að Hörgslandi, og þá skyldi litið á það sem mér fannst ég hafa séð milli trjáa heima við hús. Jú, viti menn! Þar var kominn tvífari, eða því sem næst. Þegar ég keypti sjúkrabílinn í fyrrahaust hafði sá sem seldi mér verið með tvo til sölu. Sá fyrri var seldur "eitthvert austur", hann mundi ekki nákvæmlega hvert, en sá sem keypti hafði ætlað að nota bílinn "eitthvað við ferðaþjónustu"



Þarna var hann semsagt kominn og virtist ekki vera í neinni notkun. Í fljótu bragði sá ég talsverðan mun á þessum tveimur, þessi virtist m.a. ekki hafa sama vélbúnað því ekki var að sjá neinn millikæli í honum. Grillið hafði verið skorið til að koma fyrir aukaljósum, sömuleiðis stuðarinn. Þetta voru skaðar sem minn bíll hafði sloppið við og leit skár út að framan fyrir vikið (auk þess sem ég var búinn að hreinsa rauða litinn af stuðurunum aftan og framan og færa númerið). Líklega hafði ég, í fyrsta skiptið á ævinni þegar völ var um tvennt, hreppt skárra eintakið! Ég var  allavega sáttari við minn vagn eftir lauslega skoðun á þessum. Síðar kom svo á daginn að þessi bíll er þremur árum eldri, þ.e. árgerð ´98.



Áfram var haldið í heimátt, þó varð að stoppa aðeins til að mynda þennan "broskall" sem Elín sá útúr klettamyndunum:



Það er löngu orðið klassískt að mynda heim að Hólmi. Þessar gömlu stórbyggingar virtust hrörlegar þegar ég myndaði þær í þokumistrinu sl. haust, í Meðallandstúrnum. Þær skánuðu lítið þótt sólin skini á þær. Líklega er þetta fornfræga býli komið "beyond point of no return" eins og kaninn kallar það. Þó skilst mér að enn sé búið þarna þó driftin sé ekki mikil.....



Ég ætla að láta hér staðar numið að sinni. Frá Hólmi lá leiðin að Fjaðrárgljúfri en það er sér kapítuli.......




13.07.2013 09:06

Skrapdagur

Í "sumar"  (gæsalappirnar eru mjög eðlilegar)  hafa veður skipast þannig að blíðan hefur frekar fallið á virka daga en helgar. Þetta er allavega mín skoðun eftir lauslega, óvísindalega könnun. Ég get hins vegar stutt þessa lauslegu, óvísindalegu könnun með þeim bjargföstu rökum að líkurnar á því að gott veður falli á virka daga frekar en helgar eru tölfræðilega fimm á móti tveimur. Þetta rammskakka hlutfall er auðvitað helvedes skítt fyrir þá sem stunda hefðbundna vinnu og hafa lítil frí önnur en helgar, heldur skárra fyrir þá sem eiga sín mánaðarlöngu skikkuð sumarfrí á launum en auðvitað sallafínt fyrir þá sem eru atvinnulausir og hafa fátt fyrir stafni annað en að horfa upp í loftið og bíða eftir sólinni sem aldrei kemur. (þegar þetta er ritað á laugardagsmorgni 13.7. er hellirigning). Ef sú gula sést hins vegar augnablik er hægt að grípa það ótruflaður og leggjast í einhverja sundlaugina eða renna spölkorn út í náttúruna og ímynda sér að maður sé í sólarferð til útlanda. 

HÓPKAUP er fyrirbæri sem ég hef ekki alveg fullan skilning á. Þó skilst mér að til séu nokkur ámóta apparöt sem stunda það að bjóða fólki vöru eða þjónustu í tiltekinn tíma á mikið niðursettu verði í auglýsingaskyni. Ég hef ekki kunnáttu til að nýta mér þessi tilboð en ég þekki fólk sem grípur álitlegar gæsir þegar þær gefast og hef stundum fengið að njóta þeirra líka...(þ.e. gæsanna..)

Um miðjan maí dúkkaði einmitt upp svona álitlegt tilboð á einu Hópkaupsapparatinu, þar sem í boði var hálfsannarstíma sigling með Sæferðum í Stykkishólmi. Í pakkanum var leiðsögn, eyjaskoðun og skeldýraskrap með smökkun. Þetta leit allt mjög vel út svo það var keyptur pakki fyrir tvo og okkur Bassa var boðið í "farþegasætið".

Svo leið tíminn, helgarnar buðu uppá óspennandi veður og tíminn leið. Tilboðið gilti í mánuð og það var farið að styttast í endann. Loks var ákveðið að afskrifa helgarnar, plata veðurguðina dálítið og stökkva í miðri viku. Fyrir valinu varð miðvikudagurinn 12. júní og til að reyna nú aðeins að gera ferðalag úr túrnum var lagt upp daginn áður á hrossadráparanum með nýja tjaldvagninn hennar Dagnýjar í eftirdragi. Ég hef margoft lýst minni skoðun á þess lags draghýsum og strigahótelum af hvers kyns tagi og hvika hvergi frá, en viðurkenni að stundum verður maður að gefa hlutum séns af því það eru víst ekki allir á sömu skoðun og ég. Þess vegna eru líka til tjaldvagnar........

Það var svo sem ekkert sérstakt veður þriðjudaginn ellefta og spáin fyrir miðvikudaginn lofaði engu spánarveðri. Það átti samt að hanga nokkurn veginn þurrt, jafnvel gæti sést til sólar og vindur átti ekki að ná fellibylsstyrk. Það var því kominn tími til að tengja og með strigahótelið í eftirdragi og þrjá hunda í skottinu var ekið upp í Stykkishólm. Þar reyndust frekar fáir á tjaldsvæðinu, við völdum okkur pláss og reistum hótelið.



 Síðan tók við hefðbundin dagskrá, kvöldmatur og hundaganga. Úti við Skipavík var mjór, grasi vaxinn tangi sem hentaði sérlega vel fyrir hlauparana þrjá og meðan tvífætlingar sátu í grasi lögðu ferfætlingarnir ótalda kílómetra að baki í spretthlaupi og eltingaleik með tilheyrandi urri og gelti. 

Miðvikudagurinn heilsaði með rigningarúða sem hætti þó fljótlega og í hægri golu þornaði grasið von bráðar. Hundarnir fengu sína hreyfingu á sama stað og kvöldið áður og hamagangurinn var engu minni.  Ég leit í heimsókn til Gulla og Löllu að vanda og tók Gulla með mér í skoðunarferð um þorpið. Það er rétt að taka fram að við Gulli förum stundum svona skoðunarferðir en það sem við skoðum er frekar óhefðbundið og myndi fæstum þykja merkilegt - gamlir bátar, jafnvel bátsflök, véladrasl, húsarústir og annað sem almennt er jafnvel talið lýti á umhverfinu. Okkar skoðanir fara hins vegar saman í mörgu og m.a. því að yfirleitt megi sjá eitthvað merkilegt við hvern einasta hlut sem einhvern tíma hefur verið notaður við eitthvað...........

Siglingunni var ætlaður tími rétt eftir miðjan dag, við pökkuðum strigahótelinu saman, hengdum aftaní og  mættum tímanlega til skips. Eins og sést á myndinni var skýjað og fánar blöktu dálítið en vindáttin var suðvestlæg og Hvammsfjörðurinn sjólaus með öllu.





Svo mátti alveg sjá að sumum leiddist ekkert..........



Svo kom að brottför. Þegar komið var rétt útfyrir höfnina gerðust æðri máttarvöld svo elskuleg að hífa skýjateppið aðeins ofar svo birti verulega í lofti og með mátulegu frjálslyndi mátti greina sólarglampa á stöku stað gegnum rof. Farþegahópurinn var frekar lítill, taldi aðeins tólf, fjórtán hræður og mátti heyra fleiri en eitt og fleiri en tvö tungumál. Siglt var hefðbundna leið út að Þórishólma (mér er nær að halda að hver einasta túristasigling úr Hólminum hefjist við Þórishólma, enda stórskemmtilegur staður bæði sem náttúrufyrirbæri og fyrir fuglalíf).





Dýpið fast við stuðlabergsvegginn er um 20 metrar og tvíbytnan Særún gat því nánast nartað í stálið!



Lundinn á myndinni var hálf einmana (eða kannski einlunda) þarna uppi á eynni. Sjálfsagt hefur þetta verið hans konungsríki áður fyrr en eins og svo víða annarsstaðar hefur honum fækkað í hólmanum og ritan er tekin við ríkinu. 

Særún var látin berast með straumi austur og inn fyrir hólmann og allsstaðar var fugl, ýmist á sundi eða á syllum. Okkur Íslendingum þykir kannski ekkert merkilegt að sjá og heyra einhverja bölvaða máva en það mátti glöggt greina af hljómi annarra tungumála að upplifunin var afar sérstök.

 

Særúnu var snúið inneftir og siglt að Hvítabjarnarey þar sem sögð var sagan af skessunni í Kerlingarskarði og steininum sem hún grýtti í áttina að kirkjunni á Helgafelli en missti marks, lenti í miðri Hvítabjarnarey og klauf hana í tvennt. Sagan, sem alltaf er jafn góð var sögð á tveimur tungumálum og enn mátti greina að útlendingarnir höfðu ákaflega gaman af og þótti merkilegt að sjá steininn sem enn situr í skarðinu...



Svo var siglt innfyrir Hvítabjarnarey og litið á Byrgisklett. Það stóð passlega vel á föllum til þess að byrgið í klettinum kom glögglega í ljós en eins og sést á röndinni fer opið alveg í kaf á flóði. Mér skilst að hellirinn sé allnokkru stærri en opið og oft komi fyrir að kajakræðarar rói þarna inn.



Norðaustan við Byrgisklett var skelplógnum slakað og togað í nokkrar mínútur. Ég tók ekki tímann en gæti giskað á tvær til fimm. 



Svo var híft og ekki brást veiðin: 





Pokinn var losaður á borðið og dreift úr innihaldinu. Allt voru þetta sjávardýr sem okkur Íslendingum eru vel kunn (amk. þeim sem hafa alist upp við sjávarsíðuna) en enn var greinilegt að útlendingunum fannst þetta stórkostleg upplifun - þetta var ekki eins og á sædýrasafni, þarna mátti pota, handleika, velta um og jafnvel borða! Þau þrjú sem sáu um hlaðborðið báru nefnilega fram hvítvín í litlum flöskum og sósur til að bragðbæta skelfiskinn. Svo var hafist handa við að skera úr. 



Það var aðeins hörpuskelfiskurinn sem var borðaður. Eins og þeir vita sem þekkja til er yfirleitt aðeins borðaður vöðvinn sem opnar og lokar skelinni. Skorið var úr fyrir hvern og einn og neðri skelin rétt fram með vöðvanum lausum. Fiskurinn var svo tekinn með prjónum og dýft í sósu eftir smekk. Drengurinn á myndinni (sem við stutt spjall reyndist nákominn ættingi Dána kálfs og því auðvitað ekta Vestfirðingur) hafði ekki skorið úr mörgum skeljum þegar ég sá að hann notaði nákvæmlega sama handbragð og við krakkarnir sem unnum í skel í Rækjustöðinni á Ísafirði sumarið 1971. Ég mátti til að fá að prófa og þurfti ekki nema tvær til þrjár skeljar til að ná handtökunum (sem eru svo sem engin geimvísindi). Eftir það stóð ég með hnífinn, skar og át og eftir á að hyggja er ég hræddur um að ég hafi verið nærri því að aféta útlendingana, en hugga mig þó við að flestir þeirra voru frekar feimnir við þetta heimafengna sushi. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig hörpudiskur fjölgar sér en af því appelsínuguli, skeifulaga pokinn í innvolsinu líktist afar mikið hrognasekkjum í þorski, mátti ég til að smakka hann. Bragðið var ágætt og ég sit hér við tölvuna svo ekki var maturinn banvænn!



Svo dalaði áhuginn og fólk hvarf frá borðinu. Restinni af skeldýrunum var rutt í hafið. eflaust voru þau frelsinu fegin enda hef ég fyrir satt að þau geti lifað talsvert lengri tíma á borðinu. Svo er aftur spurning hvort einhver þeirra eru orðin pirruð á að vera með reglulegu millibili plægð upp og velt á alla kanta af forvitnum túristum áður en þeim er kastað í hafið aftur. Þeim til huggunar má benda á að hlutskipti hörpudiskins er þó öllu verra - hann er einfaldlega étinn af túristunum.

Allt gott tekur enda og svo var einnig með þennan afar skemmtilega veiðitúr. Særún tók stefnu milli Skoreyja og lands í átt til Stykkishólms og fljótlega var lagst að bryggju. Okkur var ekkert að vanbúnaði, stefnan var tekin suður og lent í Kópavogi á miðju kvöldi. 

Muni ég rétt rigndi eldi og brennisteini á leiðinni......

10.07.2013 21:26

Enn eitt ammallið.....

Ég virðist ekki geta komist hjá því - sem reyndar er óhjákvæmilegt - að eldast um eitt ár í hvert skipti sem nýr júnímánuður heilsar. Ég finn svo sem engan stóran mun á mér núna og fyrir svona tíu árum eða svo, jú kannski er ég slakari öllum framkvæmdum en áhuginn er enn sá sami. 

Það bar svo til um þessar mundir að enn hófst júnímánuður. Annar dagur hans var minn dagur eins og áður, annar dagurinn var líka sjómannadagur og eðli málsins (og vanans)  samkvæmt  lagði ég af stað upp í Stykkishólm strax að morgni. Veðrið var, gagnstætt venju þetta sumarið, alveg ágætt, þokkalega bjart og sæmilega hlýtt. Hrossadráparann bar hratt yfir og um hádegisbil eða þar fyrr var ég kominn norður fyrir nes. Af því tíminn var nægur fannst mér tilvalið að kíkja á nýjustu síldarvöðuna í Kolgrafafirðinum. Þar gekk mikið á, ég sá að vísu enga síld en fuglar himinsins sem vissulega eru skarpeygari en ég, virtust sjá eitthvað afd henni ef marka mátti allar dýfurnar. Þarna var mikið af súlu, svo mikið að lá við sólmyrkva á stundum. Það var alveg ótrúleg sjón að sjá þessa stóru fugla leggja aftur vængina og stinga sér úr mikilli hæð lóðbeint niður. Sumar stungu sér svo nálægt brúnni yfir fjörðinn að sjá mátti þær á fullri ferð undir vatnsborðinu. 









Svo, líkt og hendi væri veifað datt botninn úr "fiskiríinu" hjá súlunum, líkt og síldin hefði látið sig hverfa allt í einu. Stungurnar hættu og við tók ráðleysislegt háloftahringsól. Það var því helst í stöðunni að halda áfram för og finna eitthvað nýtt að skoða. Út með Grundarfirði austanverðum er kirkjustaðurinn Setberg, gamall og gróinn. Kirkjugarðurinn er spölkorn norðan kirkjunnar og það hæfði deginum að ganga um þennan lokastað gamalla sjómanna - þ.e. þeirra sem á annað borð hlutu að endingu leg í mold. Hinir eru jú ófáir.......





Kirkjan að Setbergi er lítil, turnlaus timburkirkja, byggð árið 1892.  Hún virðist hafa fengið gott viðhald og er að sjá í ágætu standi.





Staðurinn er fallegur, eins og umhverfið allt. Í Suður-Bár, skammt frá er rekin ferðaþjónusta og þar er m.a. myndarlegasti golfvöllur. Ef einhverjir sem lesa muna eftir Eddu-slysinu á Grundarfirði, þá mun það hafa verið við Suður-Bár sem nótabát Eddunnar rak að landi með hluta áhafnarinnar. 

Frá Setbergi lá leiðin inn að bænum Eiði við Kolgrafafjörð og nú var stefnan tekin af malbikinu og inn fjörðinn. Þá leið hef ég ekki farið síðan brúin yfir Kolgrafafjörð var opnuð haustið 2004. Satt að segja var hreinlega eins og ég væri að aka fjörðinn í fyrsta sinn - ég mundi fátt eða ekkert frá honum frá því hann var alfaraleið um Nes. Skrýtið hvað hugurinn á til að þurrka út upplýsingar sem ekki eru framkallaðar í langan tíma......







Úr Kolgrafafirði var ekið í Hraunsfjörð, inn hann og yfir á gömlu laxaræktarstíflunni. Síðan gegnum Berserkjahraun og gamla þjóðveginn austur um allt þar til hann mætir þjóðveginum við vegamótin upp á Vatnaleiðina. Stykkishólmur var næsti áfangastaður. Það hefur áður -og oft - komið fram að ég reyni að heim,sækja Hólminn hvern sjómannadag til að komast í boðssiglinguna sem er fastur viðburður í boði Sæferða. Siglingin er venjulega farin að áliðnum degi og það var enn nokkur stund til brottfarar. Ég notaði tímann til að heimsækja gömlu hjónin Gulla og Löllu, en sú heimsókn er jafn fastur liður og siglingin sjálf. Eins og venjulega var mér tekið eins og týnda syninum. Eftir drjúgt kaffispjall var farið að hilla undir siglinguna, kominn tími til að kveðja og drífa sig um borð. Ferðin var farin á flóabátnum Baldri, eins og svo oft áður og leiðin lá um hefðbundnar slóðir, Þórishólma, Hvítabjarnarey og inn fyrir Skoreyjar.











Siglingin tók u.þ.b. klukkutíma og er í land var komið var farið að huga að næsta ætlunarverki ferðarinnar - að ganga á Helgafell. Ég er ekki mikill fjallgöngugarpur og Helgafell er ekki hátt - muni ég rétt nær það ekki hundrað metrum. Mér fannst ég yrði samt að reyna, enda vil ég alls ekki meta fjöll eftir hæð þeirra í metrum heldur miklu frekar víðsýninu af toppi þeirra. Það er hægt að klifra uppá einhverja fjallstinda úti í heimi, mörg þúsund metra og sjá svo ekki rassgat en Helgafellið með sína tæpu hundrað slær mörgu mont-fjallinu við á því sviði. Þvílíkt útsýni, maður lifandi!



Ég má til að setja hér eina mynd af sjálfum mér, til sönnunar afrekinu. Ég vil taka sérstaklega fram að ég er ekki svona feitur - sýnist það bara af því vindurinn blés í úlpuna.....







Í þessum litla reit við hlið kirkjugarðsins er minningarsteinn um Guðrúnu Ósvífursdóttur. Kannski er leiði hennar þarna undir, kannski ekki. Kannski er þetta bara gert fyrir túrista með söguáhuga. 



Degi var farið að halla, næsti áfangastaður var Olís í Borgarnesi þar sem fæst djúpsteiktur fiskur. Hvað var meira við hæfi á sjómannadegi en að ljúka honum með fínni fiskmáltíð?

Það rigndi í Reykjavík um kvöldið..........ótrúlegt en satt!

Í lokin er rétt að taka fram, svo allrar sanngirni sé gætt, að ég tók fæstar myndanna, ef nokkrar. Elín Huld var með í för enda mun betri myndasmiður......


30.06.2013 10:43

Fluttur í sjúkrabíl........

Örpistill á sunnudagsmorgni:  

Ferðadrekinn svarti sem stundum var kallaður Arnarnes, svona til jöfnunar við trilluna Stakkanes og landbátinn Fagranes (sem er algert rangnefni) seldist um daginn - eiginlega hálfpartinn óforvarendis, eins og einhver í minni fjölskyldu var vanur að segja. Jú, það er satt, hann var auglýstur til sölu á tveimur stöðum en ég átti samt ekki von á að hann færi svo fljótt. Ég hafði hálfpartinn átt von á að ferðast á honum framan af sumri en það er sumsé dagsljóst að hann fer ekki fleiri ferðir í minni eigu. Ef mig misminnir ekki skrifaði ég nokkur orð í þá veru sl. haust að líkllega væri ferðamennsku á þeim svarta lokið. Ástæðan var, eins og þá kom fram, að ég hafði fest kaup á ellefu ára gömlum sjúkrabíl frá Selfossi og skyldi sá leysa þann eldri af hólmi með tíð og tíma. Sjúkrabíllinn hefur svo staðið óhreyfður og ósnertur í allan vetur og það sem af er vori og sumri. Hann var hins vegar í ágætu lagi, svona þannig séð þó í hann vantaði súrefniskútana, börurnar og bláu ljósin. 





Það var ætlunin að geyma sjúkrabílinn bara áfram meðan ég ætti þann svarta og leggja frekar áherslu á að ljúka endursmíði litla vörubílsins. Svo gerðist þetta sem nefnt var ofar, að sá svarti seldist "óforvarendis" og þar með var ég ferðabílslaus.

Nánast á sama augnabliki og salan gekk í gegn hringdi Sigurður Bergsveinsson og bauð mér að taka þátt í hópsiglingu súðbyrðingamótsins sem haldið verður um næstu helgi (er það ekki 5-7 júlí?). Ég var orðinn hálf vonlaus um að komast með í þetta sinn og tók því boðinu fegins hendi. Mig grunaði reyndar hvernig það væri til komið, og að þar ætti Elín Huld einhvern hlut að máli. Hún þekkir nefnilega nokkuð margt fólk, hún Elín og til hvers eru spottar ef ekki má toga í þá? Mér fannst þessvegna liggja beinast við að spyrja Sigurð hvort nokkursstaðar mundi finnanlegt pláss til að stinga henni Elínu niður líka, því ég vissi sem var að hún myndi selja sálina fyrir svona siglingu. Sigurður taldi það ekki vandamál.

Það var þó kannski ekki sopið kálið þó siglingin sjálf væri í höfn - eða þannig. Mótið stendur frá föstudagskvöldi til sunnudags og hjarta þess slær að Reykhólum. Gistingin var óleyst vandamál því enginn var ferðabíllinn...

Í svona stöðu er aðeins eitt til ráða: Að endurmeta öll fyrri plön, forgangsraða upp á nýtt og snara saman öðrum ferðabíl í hendingskasti. Menn geta svo ímyndað sér hvað "hendingskast" þýðir í svona tilfelli því þótt það taki að sönnu ekki margar sekúndur að hafa yfir þuluna" Bara að rusla út lyfjaskápadraslinu, slá saman rúmstæði í staðinn og skella í það dýnu"  þá fylgja ótal aukahandtök með í pakkanum og "hendingskastið" getur þýtt stífa yfirlegu í allmarga daga - og nætur ef þannig vill til. Það má því kannski segja að smiðurinn hafi í þeim skilningi "flutt" í bílinn...

Sjúkrabíllinn var því drifinn á númer og heim í Höfðaborg. Þegar þetta er ritað er hann um það bil að verða ferðafær, með rúmstæði og öllu! Hluti lyfjaskápanna ( sem geymdu margt fleira en lyf ef marka má merkingarnar) er nýttur fyrir allskonar húsbíladót og það er m.a.s. komin eldavél um borð. Í skiptum fyrir farið og gistinguna tók EH að sér að gardínuvæða vagninn og miðar vel. 



Það er gott að geta unnið úti í sólinni þá sjaldan hún sést, en ef það rignir er einfalt mál að stinga vagninum inn fyrir dyrnar. Þó plássið sé ekki stórt þá rúmar það bílinn ágætlega ef vel er lagt.



....og þegar lagt verður af stað upp að Reykhólum á föstudaginn komandi verður fararskjótinn ekki lengur sjúkrabíllinn YU-455 heldur Ford Econoline V8 Powerstroke með skráningarnúmerinu  Í-140.   Nema hvað??

Þennan sunnudagsmorgun hefur samt ekkert verið unnið í sjúkrabílnum. Það er sólskin og hægviðri, við Edilon Bassi vorum snemma á fótum, leystum landfestar Stakkanessins og dugguðum upp á Eiðisvík. Það var harða aðfall og stóð orðið hátt í svo ég framkvæmdi það sem mig hefur í langan tíma langað að gera - ég sigldi milli klettadranganna út frá Gufunesinu. Það kom á óvart að dýpið milli þeirra var ekki minna en 2,7 mtr. og það var ævintýri líkast að dóla þarna á milli. Það var hægur vandi, væri höfðinu snúið frá ruslinu kringum áburðarverksmiðjuna gömlu, að ímynda sér að maður væri að sigla á einhverjum mjög fjarlægum slóðum. Því miður tók ég engar myndir en ég skal endurtaka siglinguna fljótlega og þá með myndavél.......

Ég lofa!

æææææææ

16.06.2013 08:44

Rekið um í reiðileysi - þriðji hluti (og sá síðasti í bili)

Í síðasta pistli bar dálítið á minnisleysi, kannski aldurstengdu, kannski tengdu athyglisbrestinum en kannski líka vegna þess að það er fljótt að fenna yfir ómerkilega hluti eins og stuttar ferðir á löngu kannaðar slóðir. Samt er það einhvern veginn þannig að í hverri ferð má sjá eitthvað nýtt, beri maður sig á annað borð eftir því. Það er hægt að aka sömu leiðina mörgum sinnum án þess að sjá nokkuð nýtt, en renni maður svo augunum dálítið út fyrir hefðbundna sjónlínu má oft sjá eitthvað sem ekki hefur vakið athygli áður. Stundum er það eitthvað nauða ómerkilegt, svona rétt eins og hálfhulin heimtröð að hálfföllnu eyðibýli. 

Svo gerist það að maður beygir inn á þessa hálfósýnilegu heimtröð og kemst að því að við enda hennar, í hvarfi bak við hóla og hæðir, standa rústir sveitabýlis sem á langa og merkilega sögu. M.a. hefur heil sýsla verið nefnd eftir þessu býli og nóbelsskáldið (dálítið merkilegt að hjá sögu-og sagnaþjóðinni er nóg að nefna "nóbelsskáldið". Við eigum nefnilega bara eitt, og það mun vera nær mannsaldur síðan það fékk sín verðlaun.....) hefur m.a.s. skrifað um heimsókn þangað á sínum sokkabandsárum.

Kannski skilur enginn bofs í þessum skrifum, en kannski hefur einhver áttað sig á að ég er að skrifa um býlið Bringur, sem ekki ómerkari sýsla en Gull-Bringusýsla er nefnd eftir (ritháttur sýslunafnsins er hins vegar minn eigin). Sé ekið um þjóðveginn fram Mosfellsdal er afleggjarinn að þessu merka eyðibýli til hægri spölkorn ofan við Gljúfrastein. Hann liggur þráðbeint út frá malbikinu, upp dálitla hæð og hverfur yfir hana. Þetta er stutt leið og við enda hennar er upplýsingaskilti. Síðasta hluta leiðarinnar að eyðibýlinu þarf að ganga og þá er ekki verra að hafa með sér myndavél því í farvegi neðan heimatúnsins rennur Kaldakvísl og í henni fellur Helgufoss í afar fallegu gili. Kaldakvísl rennur svo áfram niður Mosfellsdal og undir þjóðveg eitt í öðru fallegu gili rétt við nýja húsahverfið í Leirvogstungu.

Rétt ofan við afleggjarann að Bringum er svo annar til vinstri ( norðurs) sem merktur er Hrafnhólar, muni ég rétt. Sé beygt inn á þann afleggjara og ekið spölkorn hverfur veröldin eins og við þekkjum hana og við tekur sú sem var - maður dettur svona fimmtíu, sextíu ár aftur í tímann og Reykjavík sést ekki. Aðeins hólar, ásar, stöku sveitabæir þar sem jú, ókei, hestamenn hafa komið sér fyrir í stað fjár-og kúabænda áður og sjá má stöku Landkrúser og Reinsróver í stað Willy´s-jeppa. Reykjavík er eins víðs fjarri og hugsast getur og hvílíkur léttir, trúið mér !!

Sveit í borg...............

Sé maður vel akandi ( og þá er átt við jeppling ekki síðri en svarta hrossadráparann) má aka gegnum dalinn, yfir ársprænur, læki og polla til vesturs, þá liggur leiðin meðfram Leirvogsá allar götur niður að iðnaðarhverfinu á Esjumel.  Vilji einhver hins vegar halda áfram að skoða fossa má finna enn einn afleggjarann til hægri af Hrafnhólavegi. Sá er einfaldlega merktur Tröllafoss og leiðir að samnefndum fossi í Leirvogsá ofanverðri. Ekki er Tröllafoss nú neitt tröllvaxinn í samanburði við marga aðra, en það er heldur ekkert gull í Gullfossi......

Ég var jú í huganum kominn niður á Esjumel hér áðan og best að halda áfram þaðan. Þegar ekið er út úr iðnaðarhverfinu og beygt eins og mann langi helst heim til Ísafjarðar (þ.e. til vesturs/hægri) kemur maður nær strax að gatnamótum, rækilega merktum Álfsnes. Þar fá Ísafjarðardraumarnir snöggan endi því leiðin liggur til vinstri á þessum gatnamótum og út á nesið þar sem Reykvíkingar og nærsveitamenn urða sorpið sitt. Á nesinu, sem er talsvert landmikið, er einnig skotæfingasvæði og líklega vissara að halda sig sem lengst frá því. Á leið út nesið standa þessi listaverk, unnin æfðum höndum úr áli en ómerkt með öllu og fátt eða ekkert um þau finnanlegt á netinu:







Ef einhver veit eitthvað um þessi listaverk væri gaman að heyra af því.....

Sveitabýlið Álfsnes er nú aðstaða fyrir starfsmenn sorpurðunarsvæðisins og þar er allt hið snyrtilegasta og vel um gengið. Eitt vakti þó sérstaka athygli: Skammt frá býlinu er skurður í landið og ég sá ekki betur en hann væri fullur af dósum og flöskum. Mátti til að athuga þetta betur og það var rétt: Í skurðinum og kringum hann á þónokkru svæði voru dósir og flöskur í hundraðavís - ef ekki þúsunda-. Ég gat ekki að mér gert að hugsa hvort þetta væri öll endurvinnslan sem verið væri að borga fyrir þegar fólk kæmi með tómu ílátin á móttökustöð og skipti þeim fyrir aura. Ég hugsa að ég hefði getað aurað saman fyrir utanlandsferð með öllum þeim dósum og flöskum sem þarna lágu á víð og dreif. Ja, allavega góðri ferð innanlands með hóteli og öllu..........

Áfram um eitt skref, til suðurs framhjá sorpurðunarsvæðinu og því svæði sem metangasvinnslan er á, í átt að hælinu í Víðinesi. Enn liggur afleggjari af okkar leið, nú mjög ógreinilegur til hægri og út nesið til móts við Þerney, sem liggur þarna skammt undan landi. Þarna kemur sér vel að vera akandi á hrossadrápara því slóðinn er afleitur, alla leið niður í fjöru gegnt Þerney. Í fjörunni er vinnuskúr, gámar og sitthvað fleira, enda hefur mér skilist að starfsmenn Húsdýragarðsins hafi þarna aðstöðu og Þerney sé notuð sem "sumarleyfisstaður" fyrir dýr úr garðinum. Ekki kann ég meira frá því að segja en flest þarna í fjörunni var lúið og þreytt: 







Á myndinni hér fyrir ofan má sjá Álfsnesbæinn í baksýn. Á þeirri hér fyrir neðan er horft frá landi út til Þerneyjar:



Það var ekki meira að sjá þarna í fjörunni svo slóðinn var þræddur til baka. Þegar upp á "almennilegan" veg kom var haldið áfram þar sem frá var horfið, beygt til suðurs og ekið inn á hlað við Víðineshælið. Ekki er ég alveg með á hreinu hvað kalla á þennan stað. Eitt sinn var þarna drykkjumannahæli, eins og það var kallað í minni sveit. Síðar var um árabil rekið heimili fyrir heilabilaða í Víðinesi. Öllum rekstri þarna var hætt fyrir fáum árum og það er hreint sorglegt að sjá hve húsunum hefur hrakað. Þetta eru ekki gamlar byggingar en af þeim má tvennt ráða: Líklega hefur ekki verið sérlega vandað til þeirra í upphafi og viðhaldi seinustu starfsárin hefur verið verulega ábótavant.  Af því í umræðu um staðsetningu nýs fangelsis kom Víðines til greina  en var sópað út af borðinu, þá sýnist mér menn hafa farið dálítið fram úr sér. Ef einhver staður gæti orðið fangelsi með skikkanlegum tilkostnaði myndi ég halda að þarna væri staðurinn og enginn annar. Staðurinn er afskekktur en þó nánast inni í borginni, húsin eru til staðar ( þau lélegustu hafa þegar verið rifin og jafnað yfir) og fátt eitt að gera nema girða sæmilega kringum svæðið. Ég er nær hundrað prósent klár á því að flestir þeirra sem þarna yrðu dæmdir til dvalar tækju fegins hendi tækifæri til að taka til höndum og bæta og lagfæra húsakostinn sjálfir. Það er fátt verra en iðjuleysi og m.t.t. þess hvernig að málum er staðið á Kvíabryggju hlýtur að vera hægt að nýta þessi hús á svipaðan hátt. 

 
Deginum var farið að halla verulega, svona eins og oft áður þegar maður kemst á kaf í eitthvað skemmtilegt, og tími til kominn að halda heim í kjúkling á KFC. Þó ég muni það ekki alveg, er líklegt að á eftir hafi fylgt ís á Aktu-Taktu. 

........og af því ég var nú farinn að prédika hér ofar, þá má ég til að nefna að vilji fólk fá ís með lúxusdýfu sem er líkust múrhúð, þá er ráðið að fara á Aktu- Taktu. 

Kannski kemur að því að Víðines verði nýtt sem meðferðarstöð fyrir ísfíkla. Ég veit hver yrði vistmaður númer eitt.......




11.06.2013 08:05

Rekið um í reiðileysi - annar hluti

Næst var það Borgarfjörður. Af því ég er farinn að tapa minni - eða það held ég allavega - þá man ég ekki hvers vegna leiðin lá þangað, en eitthvert erindi átti ég þó. Ég man heldur ekki hvernig svo æxlaðist að Elín Huld fór með. Það er eins og mig minni að það tengist eitthvað fyrirlestri sem Einar Kárason hélt í Sögusetrinu í Borgarnesi, um skáldið Sturla Þórðarson. Hvort fyrirlesturinn var orsök eða afleiðing man ég ekki......

Allavega var fyrsti viðkomustaður - ég á alltaf í vandræðum með að koma beint að efninu og það á líka við ferðalög, ég kemst sjaldan beint á áfangastað - Akranes. Ég hef svo sem oft komið áður til Akranesar, svo enn sé vitnað í sjónvarpskonuna sem ég nefndi síðast. Nú datt mér hins vegar í hug að rannsaka nokkra spotta sem liggja út frá þjóðveginum við norðanvert Akrafjall. Nálægt steypustöðinni og gámastöð Akurnesinga liggur spotti til suðurs í átt að rótum Akrafjalls. Þar, þ.e. undir fjallsrótunum, mátti sjá nokkurn fjölda bíla og er nær dró mátti álykta af umferð og búnaði gangandi fólks að skipulögð hópganga á fjallið væri á niðurleið. Þarna innfrá var einnig mannvirki sem líklegast er vatnsból Akurnesinga og minnti nokkuð á hið gamla vatnsból Ísfirðinga á Dagverðardal - sem einnig var vinsæll sundstaður sauðfjár á svæðinu. Mér sýndist frágangur Skagamanna þó betri á vatnsbólinu þeirra. Vegurinn reyndist liggja í hring og eftir stuttan akstur var komið inn á malbikaða þjóðveginn vestan undir Akrafjalli. Annar áhugaverður spotti lá til norðurs, nærri tjaldsvæði bæjarins. Hann lá í sveigum og bugðum til austurs að hluta en endaði við lága klettavík í fjörunni. Á ýmsu mátti sjá að þarna væri göngu- og útivistarsvæði, sjá mátti borð og bekki, minnismerki og svo þennan afar sérstaka stein: 



Á nálægu skilti mátti lesa útlistun á tilveru steinsins:



Þið afsakið glampann á myndinni, sólarglennan sem gerði þennan dag dugði til að skemma myndir en ekki til að ylja upp veröldina, hún mátti sín lítils gegn ísköldum vindbelgingnum. Þarna má semsagt með þolinmæði lesa um þær systur Elínu og Straumfjarðar - Höllu. Í framhaldi af myndatökunum lá beint við að máta ferðafélagann í sæti nöfnu sinnar. Af myndinni má marka að afturhluti Elínar Höllusystur muni hafa verið allmiklu fyrirferðarmeiri en mátsins........




Ég man núna allt í einu hver megintilgangur ferðarinnar var. Hann var sá, að mynda í bak og fyrir aflagðan fjallabíl sem vistaður er á afviknum stað í Borgarfirði. Ég er trúaður á framhaldslíf (farartækja) sér rétt á málum haldið og einn félagi minn er sömu trúar. Honum voru myndirnar ætlaðar. 

Leiðin mun næst hafa legið í Borgarnes (eða til Borgarnesar, svo enn sé vitnað í þann fræga sjónvarpsþátt, Djúpu laugina) og að öllum líkindum hefur verið áð í Geirabakaríi við brúarsporðinn. Ég man það ekki en ágiskunin er góð í ljósi þess að ég kem helst alltaf við í Geirabakaríi. Næsti áfangastaður var svo bíllinn (hér langar mig að bæta við "góði" en ég veit ekkert hvort hann er góður svo ég sleppi því bara) sem ætlunin var að mynda. Það var gert vel og vandlega, en myndirnar eru afar viðkvæmt trúnaðarmál að sinni. Eitt má ég þó segja - trú mín á framhaldslíf farartækisins styrktist heldur við nánari skoðun.

Annar útúrdúr: Þegar við Arnar þór Gunnarsson, fyrsta eggið í hreiðrinu okkar, spjöllum saman um ferðir og ferðalög, minnir hann mig stundum á eitt sem ég sagði við hann fyrir langalöngu. Það var eitthvað á þá leið að færi maður í bíltúr eitthvert út úr bænum ætti maður helst ekki að velja sömu leið til baka væru aðrir kostir í boði. Í Borgarfirði er eitthvert þéttasta spottakerfi landsins og venjulega um nokkra möguleika að ræða vilji maður breyta um bakaleið. Í þessu tilfelli lá leiðin suður af þjóðvegi eitt, um Ferjukot og gömlu Hvítárbrúna. Við syðri sporð brúarinnar er gamall sumarbústaður, skammt frá er enn eldri kofi og á hól á árbakkanum er minnisvarða, með sama sniði og víðar má sjá í Borgarfirði. M.a. hef ég birt mynd af annarri samskonar uppi á Mýrum. Sú er til minningar um Ána, einn af hásetum Skallagríms. Áni þáði jörð að gjöf frá Skallagrími og gaf nafnið Ánabrekka. 



...og svo varðan við sporð Hvítárbrúar, sem minnir með áletruninni: "Hvítárvellir - hér var kaupstefna til forna" á hinn gamla  verslunarstað er þar stóð:



Heiðurshundurinn Edilon B. Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhoff notaði tækifærið og eftir að hafa merkt sér vörðuna kannaði hann strúktúr sjálfar brúarinnar:



....og svo ein af kofanum og farartækinu:



Enn var ekið, nú um spotta sem liggur af malarveginum við býlið Hvítárvelli og til austurs (eða það fannst mér allavega). Á vegskilti stendur "Reykholt" og kílómetratala sem telur eitthvað tæpa þrjá tugi. Þennan spotta hafði ég ekki ekið svo ég myndi og beygði því inná hann. Ekki hafði langt verið ekið er umhverfið rifjaðist upp og þegar veiðihöllin við Grímsá kom í ljós mundi ég að ég hafði ekið þennan veg fyrir rúmum áratug á Járntjaldinu sáluga. Nú var fararskjótinn sjálfur Hrossadráparinn og var auðvitað eins og svart og hvítt.

Þessi merkti vegspotti reyndist svo ekki nema lítill hluti þeirra tæpu þrjátíu kílómetra sem tilgreindir voru á skiltinu, von bráðar vorum við komin út á malbikaða Húsafellshraðbrautina og beygðum til suðurs.

Ekinn var hringur um Hvanneyri og litið á helstu byggingar. Þaðan var ekið að Hreppslaug, sem í dag er í fréttum vegna rekstrarerfiðleika og skuldabagga s.l. sumars. Eins og fram kemur í frétt dagsins glímir laugin við sama reglugerðarfarganið og tröllríður flestu hér á skerinu, enda samevrópskt og stórborgarmiðað að flestu leyti. Mér fannst þetta slæmar fréttir því Hreppslaug við Andakíl er ein þeirra sundlauga á listanum mínum sem ég hef enn ekki heimsótt, þrátt fyrir margar tilraunir hefur mér aldrei tekist að hitta á opnunartímann. Ég ætla sannarlega að vona að takist að opna laugina í sumar svo ég geti prófað hana og merkt við á listanum, sem nú telur um eða yfir áttatíu heimsóttar laugar.

Frétt mbl.is: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/06/11/hreppslaug_ad_drukkna/

Heimtröðin af þjóðveginum um sunnanverðar Borgarfjörð að Hreppslaug liggur áfram yfir lágan háls yfir í Skorradal. Af þessum hálsi var fallegt útsýni norður yfir sveitirnar og uppi á honum gat að líta skilti með ekki síður fallegri mynd. Ég gat ekki betur séð en þekkja mætti fyrrum umhverfisráðherra á henni, í rjúpulíki:



Deginum var, þegar þarna var komið, farið að halla verulega og maginn kallaði á fóður. Olíssjoppan í Borgarnesi en ein fárra vegasjoppa sem býður upp á djúpsteikta fiskrétti og er góð tilbreyting frá pizzum og hamborgurum. Það var ekkert hægt að kvarta undan plokkfiskinum þeirra...........

05.06.2013 09:25

Rekið um í reiðileysi...

Klukkan er rétt að verða hálftíu á miðvikudagsmorgni og af því ég nenni engu öðru í augnablikinu ætla ég að gefa mér hálftíma í skrif. Önnur verkefni bíða uppúr tíu.

Á dögunum rak mig austur fyrir fjall. Það gerist stundum að mig langar að skreppa eitthvert, og ef þokkalega viðrar læt ég það eftir mér - það er ekkert til að stoppa mig hvort eð er. Leiðin lá til staðar sem mig hefur lengi langað að skoða en aldrei orðið af. Sumir staðir eru einfaldlega of nálægt manni. Þannig er um Laugardæli, rétt utan (austan) Selfoss (eða Selfossar, eins og Dóra Takefusa beygði nafnið svo snilldarlega í einhverjum sjónvarpsþætti). Að Laugardælum stendur sérstaklega falleg kirkja sem um margt svipar til Selfosskirkju en ber einnig svip af kirkjunni á Húsavík og jafnvel fleirum sem Rögnvaldur Ólafsson teiknaði, svosem kirkjunni að Undirfelli í Vatnsdal:


(ómerkt mynd fundin á netinu. Sjá líka http://www.kirkjukort.net/kirkjur/undirfellskirkja_0276.html )
 

Allt um það er Laugardælakirkja afar fallegt hús:







Framan við kirkjuna er leiði stórmeistarans Bobby Fischer, en megintilgangur ferðarinnar var að líta á það:



Að Laugardælum hefur löngum verið stórbýli. Ekki veit ég hver staða búskapar er nú en þetta gamla fjós hefur allavega lokið sínu hlutverki. Það minnti raunar dálítið á svipaðar byggingar sem ég hef séð úti í Danmörku - sumar voru þar jafnvel í svipuðu formi og þessi:





Við íbúðarhús í grendinni stóð þessi aldni höfðingi og virtist, fljótt á litið, í fínu formi. Ég man í fljótu bragði eftir tveimur álíka heima á Ísafirði. Öðrum ók Kristján Reimarsson pípulagningameistari og hinum Hermann heitinn Jakobsson:



Líklega hef ég svo, að lokinni skoðun á öllu því sem mér fannst skoðunarvert, fengið mér að borða á veitingastaðnum Kaktus á Selfossi. Ég nota hvert tækifæri sem gefst til að borða á þessum snyrtilegasta veitingastað landsins. Af máltíðinni á ég hins vegar enga mynd.

Klukkan er orðin tíu og tíminn útrunninn. Bæti við þetta síðar í dag.

Viðbót kl. 23.15: Var að koma heim eftir snúninga dagsins og vil frekar fara að sofa en skrifa meira. 

18.05.2013 07:36

....og enn sigldi Lundi!

Það virðist ekki vera mikill áhugi fyrir togaramyndinni hér neðar. Ég skoðaði frummyndina, sem er raunar hér í Rvk en ekki fyrir vestan, eins og ég hélt. Bakhlið hennar er með línum eins og póstkort og á það er handskrifað nafn afa míns, Theodórs Jónssonar, ásamt heimilisfanginu Aðalgata 9 Ólafsfirði. Afi byggði það hús og nefndi Jaðar. Uppúr 1940 flutti hann svo með fjölskylduna frá Ólafsfirði til Ísafjarðar. Fleiri nöfn eru skrifuð á kortið en fæst bendir til að átt hafi að senda það, frekar líkist skriftin e.k. ritæfingu og mér er næst að halda að þar hafi mamma mín blessuð verið að æfa rithöndina. Allt um það er ég nokkuð viss um að myndin af togaranum sé erlend en ekki tekin hér við land. Reykháfsmerkin ættu þó að segja sína sögu enda greinileg, þau sem á annað borð sjást......

Sömuleiðis virðist enginn áhugi fyrir flakinu af henni Ásu við Grindavík. Kannski var ég sá síðasti til að frétta af því og kannski er ég sá eini sem hef einhvern áhuga á örlagasögu þessarra þriggja "Ása" og þar með Duus-verslunarinnar. Veit ekki.......

Hitt veit ég, að hann Kristmundur fór í róður frá Akranesi á dögunum á gerbreyttum Lunda sínum. Á landleiðinni hringdi hann svo í mig skv. umtali og boðaði suðursiglingu eftir löndun. Lundi ST 11 var nefnilega að fiska síðustu tittina úr Strandabyggðakvótanum sínum frá því í fyrrahaust og nú stóð strandveiðin fyrir dyrum. Að lokinni löndun á Akranesi og siglingu suður til Reykjavíkur skyldi Lundi upp í vagn og landleiðina norður til Hólmavíkur að morgni uppstigningardags. 

Auðvitað slær maður ekki hendinni á móti svona boði. Ég ók í loftköstum upp á Skaga og kom á bryggjuna um sama leyti og Lundi renndi að henni til löndunar. 



Aflinn var í einu kari svo báturinn var fljótafgreiddur. Að nokkrum mínútum liðnum vorum við lagðir af stað suður í sólskini og einmuna veðurblíðu.





Ég sigldi þessa sömu leið með Kristmundi á Lunda um sama leyti í fyrra en nú var margt breytt. til samanburðar ætla ég að endurbirta myndir frá þeirri siglingu.





Þannig var nú það. Þrátt fyrir vetrarharðindin nyrðra skein sól hér syðra, og veðrið nú var talsvert frábrugðið því sem við fengum á suðursiglingunni í fyrra. En það var fleira breytt. sjáiði til dæmis "hamingjusvipinn" á Kristmundi á þessarri mynd frá því í fyrra:



....og takið svo eftir breytingunni:






Víst er Kristmundur miklu glaðari á neðri (og nýrri)  myndunum. Ástæðuna má m.a. sjá á siglingatækjunum fyrir framan hann (sjáiði afstöðumuninn miðað við andlitið á honum Kristmundi) og lofthæðinni fyrir ofan hann (sem er allmiklu meiri á neðri myndinni). Svo er enn ein ástæða fyrir kætinni sem kemur berlega í ljós hér fyrir neðan:



Við vorum aðeins tveir um borð og það hlýtur að þýða að ég sé enn aftar í bátnum en Kristmundur. Í fyrra hefði þessi myndataka verið ómöguleg því ekki mátti yfirgefa rattið á ferð. Nú er Lundi ST 11 hins vegar kominn með dýrindis "fjarstýringu" og Kristmundur gat því komið aftur á dekk og sólað sig, myndatökumanninum til samlætis. Það er rétt, þegar hingað er komið sögu, að birta skýringuna á afstöðumuninum sem sást á fyrri myndunum, þ.e. tæki v.s. andlit og Mustad-húfa v.s. hvíta rýjateppið í loftinu.



Þessi mynd var tekin fyrir ári við Snarfarabryggjuna eftir suðursiglingu.



Þessi er hins vegar tekin utan við Stálver nú í vor, og hefur áður birst á síðunni. Skýringin á lofthæðarmuninum er sumsé sá að búið er að lyfta allri yfirbyggingunni á honum Lunda um ríflega fet. Það er fljótlegt að skrifa fet, enda bara þrír stafir. Það var samt ekkert fljótlegt við þetta fet, að baki því liggur gríðarleg vinna sem hvíldi mest á herðum Alexanders Hafþórssonar, fv. kaupfélagsstjórasonar á Ísafirði en núv. risaskipstjóra við Afríkustrendur.  Alex er fátt ómögulegt og í stað þess að nota fríin sín til að liggja með tærnar upp í loft sinnir hann öllu sem sinna þarf, jafnt eigin dóti sem annarra. Eitt af vetrarverkum Alexanders var semsagt að færa Lundann frá því að vera lágkúrulegt trilluhorn til fyrsta skrefs í áttina að risa-handfæraskipi - enda veit Alexander uppá hár hvernig risaskip eiga að líta út.

Það var því eins og fram hefur komið, ekkert eitt atriði sem framkallaði þetta fallega bros á honum Kristmundi. Fínt veður, sól og hlýtt, ný sjálfstýring og allt önnur aðstaða í lúkar og stýrishúsi er nóg til að gleðja hverja sál, og þegar  á siglingunni hljómar undir tónlist frá  gamalli Ford Mermaid sem syngur eins og engill svo heyra má bergmál af lífsreynslunni í hverju slagi, hvers er þá hægt að óska frekar?

Í Snarfarahöfninni beið Pétur í Ófeigsfirði með Lundavagninn nýyfirfarinn og ferðakláran. Örfáum mínútum eftir komu í höfnina var Lundi ST 11 kominn á þurrt, fastur og frágenginn og við Kristmundur lagðir af stað upp á Skaga aftur akandi  til að sækja sinnhvorn bílinn. 

 

Að morgni uppstigningardags var Lundi svo dreginn norður á Hólmavík og sjósettur þar síðla dags.







05.05.2013 10:11

Afar stuttur pistill.

Ég ætla ekki að vera langorður núna enda er komin sól og mig langar út í góða veðrið. Það er sunnudagur fimmti maí og við Bassi vorum á fótum um hálfátta. Nú, að loknu áttunda bindi af "Þrautgóðir......" og hálfsannarstíma tölvugrúski er ég engu nær um viðfangsefni gærkvöldsins. Ókei, kannski ekki "engu" en þó frekar litlu. Viðfangsefnið er Hellyer -togari sem er á gamalli ljósmynd. Togarinn er skemmdur eftir áfall, trúlega brotsjó því efri hluti brúarinnar virðist mölbrotinn. Sá hluti var allajafna úr tré og mér sýnist liggja hurðarfleki í brakinu. Mér er næst að halda að myndin sé ekki tekin hér á landi. Í baksýn eru hús sem mætti svo sem alveg ætla að væru húsin við Hafnarstræti á Ísafirði og sæjust frá höfninni við þetta sjónarhorn eftir Fellsbrunann - Fell skyggði jú á húsin að hluta frá höfninni séð. Skýringin er hins vegar langsótt, finnst mér.  Hitt eru staðreyndir að myndin er ljósmynd -ekki fréttamynd eða blaðaúrklippa - og virðist sem slík vera frummynd en ekki eftirtaka, og hún er geymd í kassa vestur á Ísafirði þar sem ég skannaði hana fyrir nokkrum árum.

Togarinn er frá Hellyer- útgerðinni í Hull. Það er ljóst af skorsteinsmerkinu, stóru H-i í blaktandi fána. Framan á skorsteininum má svo sjá stafinn H og undir tölustafina 45. Miðað við sjónarhornið vantar einn tölustaf framan við þessa 45 og þar með er skráningarnúmerið óljóst. 1923 varð Hulltogarinn St. Clair fyrir áfalli hér við land og m.a. brotnaði ofan af brú hans. Skv. upplýsingum brotnaði einnig reykháfur hans svo ekki er hann á myndinni, auk þess sem St, Clair bar skráningarnúmerið H-803. 

Togarar frá Hull  sem báru skráningarnúmer með endastafina -45 eru allnokkrir en um engan þeirra finnast upplýsingar sem fella má við þessa mynd. 

Langi einhvern að skoða stærri útgáfu af myndinni er sjálfsagt að senda hana í tölvupósti. Látið mig bara vita netfangið.......

Í trausti þess að einhvers staðar þarna úti séu nördar sem klárari eru að gúggla en ég, legg ég málið í dóm:


28.04.2013 10:34

Ása.

Sumarið hlaut að koma einhvern tíma, enda var því markaður sérstakur dagur á dagatalinu mínu. Dagatalið mitt kemur raunar frá Húsavík og ég er ekki viss um að þegar þeir þarna á Húsavík settu sumardaginn fyrsta á dagatalið sitt hafi þeir séð fyrir hvílíkar hremmingar ættu eftir að ganga yfir þá svona rétt í byrjun sauðburðar. Kannski hefði verið vit í að setja suamrdaginn fyrsta einhvern tíma í maí, en kannski var það alls ekkert á valdi Húsvíkinga að ráða komu sumardagsins fyrsta. Kannski er það bara páfinn í Róm, ásamt einhverju trínitatiskjaftæði og himintunglagangi sem ræður dagsetningunni. Reynslan hefur allavega kennt mér að sumardagurinn fyrsti á dagatali, húsvísku eður ei, hefur ekkert með eiginlega sumarkomu að gera.

Allir sem eitthvað hafa lesið "aftur fyrir sig" þekkja nafnið H.P. Duus. Nafnið er samofið verslunar- og útgerðarsögu landsins á fyrri hluta síðustu aldar, enda var Duusverslun stórfyrirtæki meðan allt lék í lyndi. Rekstur útgerðar og verslunar getur hins vegar verið fallvaltur, ekki síst þegar mótbyrinn stafar af öflum sem jafnvel áðurnefndur páfi í Róm vill sem minnst af vita. Í draumi sérhvers manns er fall hans falið, og þótt Duus sjálfan hafi ekki dreymt fyrir óförum sínum svo sögur fari af eru til sagnir um að fall fyrirtækja hans hafi verið falið í draumi konu einnar í vesturbæ Reykjavíkur.

Árið 1904 keypti Duusverslun tæplega níutíu tonna kútter sem bar nafnið Ása. Ekki fer neinum sérstökum sögum af útgerðinni, hún mun hafa gengið sinn vanagang allt þar til kútter Ása strandaði við Hvalsnes 10 október 1919. Líkt og af öðru skipi sem strandaði á svipuðum slóðum nær öld síðar, Wilson Muuga, bjargaðist áhöfnin í land og varð ekki manntjón. Sá var þó munur á að eftir digurbarkalegar yfirlýsingar "sérfræðinga" um að "það væri ljóst að þetta skip færi ekki héðan nema landleiðina" og var þá átt við Wilson Muuga, var skipið síðar, eftir nokkrar þéttingar og austur, dregið á flot með tveimur Sómabátum, eða þannig. Eflaust var líka til nóg af sérfræðingum þegar kútter Ása strandaði, en enginn hafði hins vegar fundið upp Sómabáta og því bar Ása beinin við Hvalsnes. Skipið var á leið til útlanda með saltfiskfarm, veðrið var ágætt en skyggni lítið vegna þoku. Kannski var áttavitinn skakkur, við skulum allavega gera ráð fyrir því í ljósi síðari atburða.

H.P. Duus lét ekki óhappið slá sig út af laginu og uppfærði hinn ónýta kútter þegar í almennilegan togara úr járni. Sá hét áður Vínland, var ríflega þrjú hundruð tonn, smíðaður í Hollandi 1917 og talinn hið ágætasta skip. Útgerðin gekk ágætlega næstu árin, allt fram til hausts 1925. Kannski hefur skipstjórnarmönnum verið uppálagt að forðast Hvalsnes eftir föngum, allavega var togarinn Ása á vesturleið rétt fyrir jólin 1925 og ætlunin var að fiska á Halanum. Áður en skipið lagði af stað úr Reykjavík var kompásinn yfirfarinn og stilltur af manni er átti að hafa þekkingu til slíks. Það var því treyst á þennan kompás auk klukku og skriðmælis á illviðrissiglingu fyrir Snæfellsnes. Allt um það reyndist Snæfellsnesið nær en menn héldu, svona eins og þegar Dalli heitinn strandaði Fagranesinu á Arnarnesi forðum vestra. 

Togarinn Ása varð ónýtur á strandstað við Dritvíkurflögur en áhöfnin bjargaðist eftir nokkra hrakninga, líkt og af kútter Ásu. Það var talið sérstakt happ að sleppa óskaddaðir úr strandi á þessum stað í slæmu veðri, líkt og áður við Hvalsnes, og satt að segja meiri líkur á manntjóni en hinu. 

Fram að þessu strandi hafði verið nokkur völlur á Duus. M.a. átti hann í byggingu nýjan togara í Englandi, sem átti að verða tilbúinn snemma árs 1926. Þrátt fyrir að strand Ásu við Dritvíkurflögur skekkti nokkuð fjárhag fyrirtækisins var nýsmíðinni haldið áfram og í marsmánuði ´26 kom skipið til Reykjavíkur í fyrsta sinn, nefnt Ása þrátt fyrir fyrri áföll tveggja skipa með því nafni. Duusverslun átti allt sitt undir útgerð þessa skips, sem var vel vandað að allri gerð og talið eitt glæsilegasta skip togaraflotans. Það má því vel gera sér í hugarlund það áfall sem eigendurnir urðu fyrir þegar hinni nýju Ásu tókst ekki einu sinni að ljúka sinni fyrstu veiðiför. Annan dag aprílmánaðar 1926 strandaði skipið austantil í Stórubót, rétt vestan Grindavíkur. Enn bjargaðist áhöfnin á land fyrir tilstilli Grindvíkinga sem komu til aðstoðar. Skipið brotnaði fljótlega og varð ónýtt, sömu leið fór efnahagur Duusverslunar sem ekki þoldi þetta þriðja áfall. Verslunin varð gjaldþrota og nú er fátt eftir af henni nema minningin, bundin í sjóminjasafni og kaffhúsi í Keflavík........

Þótt brimaldan brjóti skipskrokka, gamla sem nýja eru nokkrir hlutir um borð í togurum sem brim nær ekki að mala. Togspil, gufuketill og aðalvél eru svo gegnsterkir hlutir að þótt allt annað hverfi standa þeir gegn stórsjónum til áratuga, minnismerki um liðna atburði og hálfgleymda. Þannig er einmitt um ketil og aðalvél hinnar nýju Ásu, sem enn má sjá á fjöru neðan við Stórubót vestan Grindavíkur:






Hér fyrir neðan er mynd af korti. Á því má sjá leifar Ásu merktar inn neðarlega til hægri. Sú villa er þó í kortinu að þar er merktur "Ketill úr kútter Ásu" en að sjálfsögðu var það ekki kútterinn sem þarna bar beinin heldur nýjasti og glæsilegasti gufutogari landsmanna:



Þannig var nú það. 

Í lokin má svo bæta við að frásagnir af Ásunum þremur má lesa í "Þrautgóðir á raunastund", 9.bnd.bls.175 og í 7.bnd. bls. 84 og bls. 104. 

Í annarri málsgrein hér ofar var aðeins minnst á drauma, ófarir og föll. Í lok frásagnarinnar um Ásu hina nýju á bls. 106 í 7.bindi "Þrautgóðir....." er komið inn á sögu sem á sínum tíma gekk manna í millum um upphaf endaloka Duusverslunar, ef svo má orða. Sagan er á þá leið að árið 1917 hóf Duusverslun byggingu fiskhúss við Kaplaskjól í Reykjavík. Þar sem húsið skyldi standa var fyrir hóll, og þegar farið var að grafa fyrir grunni hússins dreymdi stúlku eina í nágrenninu að til hennar kæmi kona. Í draumnum bað konan stúlkuna að fara til Duus, segja honum að hún byggi í hólnum og biðja hann að byggja hús sitt annarsstaðar. Stúlkan gerði svo sem fyrir hana var lagt en talaði fyrir daufum eyrum, Duus hafði ekki trú á draumnum og lét halda áfram byggingunni. Konan hélt áfram að birtast stúlkunni í draumi og varð því þungbúnari sem byggingunni miðaði áfram. Að endingu lét hún svo um mælt að verk þetta skyldi marka endalok velgengni Duusverslunar. Hvort sem marka má drauminn eður ei, reið hvert áfallið af öðru yfir Duusverslun uppfrá þessu og þrjá skiptapa á nokkrum árum - síðast strand hinnar nýju Ásu - þoldi fyrirtækið ekki.

Þegar ég kom uppúr fjörunni ofan við strandstaðinn sneri bíllinn í vestur og því lá leiðin í áttina að Staðarhverfinu gamla, vestasta hluta Grindavíkurbyggðar. Þar sem nú eru sumarhús og golfvöllur var áður mikið athafnalíf og margar byggingar. Það sem helst minnir nú á þessa gömlu tíma eru húsatóftir og hafnarmannvirki:









Að lokinnni skoðunargöngu um Staðarhverfið lá leiðin út í Reykjanesvita. Ég hef margoft komið út í Reykjanes en aldrei lagt á mig göngu upp á Valahnjúk fyrr en núna, í nístingskulda og trekki!





Á myndinni hér að ofan má sjá Karlinn í forgrunni en Eldey í fjarska. Þessi sýn á Karlinn rifjaði upp gamla frásögn um einn nýjasta og glæsilegasta togara Þjóðverja, Karlsburg. (þar er augljós tenging við Ásuslysið 25 árum fyrr og 15 km austar)  Stýrimaður togarans, vankaður af slæmu höfuðhöggi daginn áður, villtist að því er talið var á Eldey og Karlinum, stefndi Karlsburg milli Karlsins og lands en strandaði að sjálfsögðu við Önglabrjótsnef nokkrum tugum metra vestar. Skipið ónýttist en áhöfnin slapp. (Það eru einnig sérkennileg líkindi að Karlsburg skyldi stranda við Karlinn!) Þessi sami stýrimaður, Willi Sunkimat var svo nokkru seinna (1952) í áhöfn þýska togarans Thor þegar togarinn fékk á sig brotsjó og fórst suður af Íslandi. Sunkimat var þá sá eini er af komst, og var bjargað eftir mikla hrakninga. Sunkimat þessi var annálað hraustmenni og var sagt eftirá að höfuðhöggið sem hann fékk um borð í Karlsburg hefði líklega banað hverjum meðalmanni. Sunkimat féll aðeins á kné en einhverjar afleiðingar hefur höggið þó haft á heilastarfsemina miðað við stefnu Karlsburg við strandið.

(sjá "Brimgnýr og boðaföll" e. Jónas St. Lúðvíksson, Ægisútgáfan 1963, bls.7-29)

Við Valahnjúk á Reykjanesi stendur þessi voldugi, mannhæðarhái geirfugl og horfir út til Eldeyjar. Eflaust myndi hann öfunda súlurnar sem þar búa, sjálfur var hann ófleygur og því auðveld bráð mannvörgum með kylfur. Þessir vargar gengu enda svo til verks gegn geirfuglinum að hann er nú útdauður. Vörgunum fjölgar hins vegar ört.......



Hringnum var svo lokað í heita pottinum í Vatnaveröld Reykjanessbæjar, en af því eru engar myndir...........



21.04.2013 07:49

Það átti að fara að vora........!

.......en vorið virðist ekki alveg vera handan við hornið. Þegar ég leit á norsku veðurspána fyrir stuttu  (yr.no) mátti skilja á henni að eftir yfirstandandi helgi færi veðrið að breytast til hins betra. Undanfarið hef ég verið kuldagallaklæddur útivið að vinna í hjólabúnaði og bremsum Isuzu vörubílsins litla sem geymdur er niðri við Stálver. Þeir jólasveinar, Kristmundur Kristmundsson og bræðurnir Alexander og Erlingur Hafþórssynir hafa verið iðnir við að gera grín að mér fyrir að mæta þá helst í verkið að ekki sé hundi út sigandi. Sjálfir hafa þeir unnið drjúgt í Lunda ST, stórútgerðinni hans Kristmundar, svo Lundi mætti vera tilbúinn þegar strandveiðitímabilið hefst. Lundi hefur í vetur fengið gríðarlega andlitslyftingu - í orðsins fylstu merkingu, því framenda bátsins var lyft svo nemur vel einu feti. Kristmundur er nefnilega "fullorðinn" maður og gat engan veginn rétt úr skrokknum í þeirri stýrishússkytru sem talin var hæfa samanhnýttum enskum hungurhækjum. Lundinn er nefnilega alvöru "Colvic", framleiddur í landi fyrrum þorskþjófanna á Íslandsmiðum en miðað við hönnunina á vistarverum bátsins hafa Bretar ámóta mat á eigin hæð og Japanir. Eigum við að ræða lofthæðir og hurðaop í japönsku togurunum?

Hér ætla ég að setja mynd af Lunda eftir breytinguna, þegar ég nenni út í garrannn til að taka hana......





...og svo ein sem sýnir snjóalög og veðurfar í höfuðborginni morguninn 21. apríl 2013:



Eigin hugðarefnum hefur miðað nokkuð undanfarið, enda óvenju fáir utanaðkomandi hjálparþurfi í aprílmánuði. Í upphafi mánaðar gerði fallegan sólardag (þeir hafa að vísu verið allnokkrir en þessi bar af því hann líktist sumri!) og þennan dag ákvað ég að framkvæma verkið sem lengi hefur legið á mér. Þessi leiðindi með gluggakarmana í Stakkanesinu hafa pirrað mig talsvert, og eins og fram kom áður var það hrein og klár tilraun að setja tekklista meðfram gluggum bátsins. Yfirlýsta stefnan við smíðina var að hafa allt útvortis viðhaldsfrítt, plast, ál og ryðfrítt stál. Mér fannst hins vegar fallegt að ramma gluggana inn með lökkuðum tekklistum og vissulega var það útlitsatriði - fyrsta sumarið. Ég hét því jafnframt að ef eitthvert vesen yrði með þessa lista myndu þeir einfaldega fjúka.  Auðvitað varð svo vesen og ég hef þurft að bera á listana tvisvar á sumri svo fegurðargildi þeirra snerist ekki upp í andhverfu sína. Nú var svo komið að eftir veturinn voru listarnir bara gráir, ég held bara svei mér þá gráir í gegn. Mér óaði við því að skafa þá einu sinni enn og talaði því við snillingana í Málmtækni. Ég hef aldrei komið svo með vandamál þangað að ekki sé auðleyst, heldur ekki núna og út fór ég með skínandi fína plastlista á besta verði bæjarins. Þennan fallega sólardag notaði ég svo til að umbylta augnsvip Stakkanessins, og þegar leið á daginn og fólk losnaði úr vinnu naut ég aðstoðar dömuhanda, sem um leið komu færandi kaffibrauð. S.l. fimmtudag ( 18.4) var ég mættur að Stakkanesinu klukkan átta að morgni, lásaði vagninn aftan í Hrossadráparann og dró heim að Höfðaborg. Það var nefnilega annar fínn dagur á fimmtudaginn, sannkölluð sumareftirlíking hér sunnanundir vegg. Áður hafði ég verið búinn að botnmála svo það leiðindaverk var frá. Það þurfti hins vegar að þrífa bátinn hátt og lágt, hann var u.þ.b. hálffermdur af eldfjallaösku í bland við foksand sem dreift var frítt til vina og óvina frá Björgun hf. Seinnipart dagsins, þegar þrifum og standsetningu var að mestu lokið leyfði ég mér að leggjast í bleyti í pottana í Grafarvogslaug, og dreymdi Spánardrauma í sólarhitanum sunnan undir vegg innan um bikiniklæddar drottningar og prinsessur. Það hefur sína kosti að vera atvinnulaus.

Það stóð illa á sjó fimmtudaginn átjánda og kvöldflóð var ekki fyrr en um miðnættið. Um kvöldmatarleytið var björgunarbáturinn settur um borð, sömuleiðis rafgeymarnir og GPS/dýptarmælirinn. Þar með var allt klárt til sjósetningar og aftur var lásað aftan í jeppann og lagt af stað niður í Grafarvogshöfn. Stakkanesið ristir aðeins 60-70 cm í hælinn og vagninn er lágbyggður svo ég ákvað að reyna sjósetningu á hálfföllnu. Klukkan var alveg um níu þegar Stakkanesið rann af vagninum, flaut upp og sigldi hring á voginum.

Þrátt fyrir veður(hrak)spár næstu daga lýsi ég sumarið 2013 formlega komið!!













Nú geta menn myndað sér skoðun á augnsvipnum, eða "andlitslyftingunni":





Þegar búið var að binda við bryggju var aðeins einu nauðsynjaverki ólokið - að stilla útvarpsrásirnar inn. Trúr minni sannfæringu byrjaði ég á einu útvarpsrásinni sem ekki er tröllriðið af auglýsingum, pólitík eða auglýsingapólitík. Útvarp Latibær!



Meðan Stakkanesið fór einn "dýptarmælisprufuhring" í höfninni var tekin stutt vídeómynd. Ég hef aldrei reynt að setja inn vídeó, ætla samt að reyna að klóra mig fram úr því. Takist það, má sjá vídeóið hér fyrir neðan.



( Það virðast vera einhver vandræði með "upload" á vídeóinu. Er að garfa í þessu. Nauðsynlegt að kunna þetta....)






22.03.2013 07:28

Tognar úr tímanum......

Færslan týndist og hvarf við innsetningu.......

........................................................................................................................
Páskadagsmorgunn:

Það þýðir lítið að láta ofanritað standa eitt og sér um eilífð þótt maður sé í fýlu við kerfið. Það er fátt leiðinlegra en að týna færslu sem búið er að vinna mikið við, vegna einhverrar kerfisvillu sem einfaldur bifvélavirki kann engin skil á. Lífið heldur áfram og fyrirsögnin á ennþá rétt á sér...

Þetta er ekki myndapistill, heldur aðeins örfá orð fyrir dagbókina. Það vorar nefnilega óðum og verkin sem þarf að vinna áður en sumarið "brestur á" eru í fullri vinnslu. Sjúkrabíllinn hefur fengið nýjar rafgeymafestingar, þeir í amríkuhreppi smíðuðu hann með annan rafgeyminn niðri á grind "af því það var eigi pláss fyrir hann í hesthúsinu......"  Sá umbúnaður var orðinn lélegur eftir tólf ára notkun og þurfti endurnýjunar við. Þar er nú allt sem orðið nýtt, rafgeymarnir hafa verið yfirfarnir af Skorra hf. og fátt til fyrirstöðu að ræsa vagninn. 

Eldri ferðabíllinn var heimsóttur á dögunum. Hann hefur vetursetu að StærriBæ í Grímsnesi eins og áður, og forverar hans einnig. Bíllinn kemur vel undan vetri, hann var þurr og þrifalegur og nóg rafmagn á geymum. Það styttist í ferðasumarið og ef allt gengur eftir eru líkur á að hann verði settur á númer upp úr miðjum apríl. Þá er ætlunin að taka hann hingað heim í Höfðaborg, snyrta og yfirfara og setja hann síðan í sölu. Eitt af því sem á að gera er að skipta um vél í honum, hér niðri í "plássinu" stendur upprunalega vélin hans (hann hefur verið notaður á e.k. bráðabirgðavél undanfarin sumur)  nýskveruð með nýrenndum sveifarás og nýjum legum. Það var ekki notkunarslit sem hrjáði þá vél heldur stöðug notkun á röngum smurolíusíum - nokkuð sem er algert eitur fyrir vélar með lárétta smursíu. Þetta skilja þeir sem til þekkja.

Stakkanesið fær andlitslyftingu á næstu dögum. Á sínum tíma setti ég gluggalista úr eðalvið kringum stýrishússgluggana. Það var þvert á yfirlýsta stefnu um að hafa bátinn eins viðhaldsfrían utan og hægt væri. Um leið hét ég því að ef þessir eðalviðarlistar yrðu til vandræða skyldu þeir fjúka fyrir plast....

Auðvitað urðu þeir svo til vandræða! Sífellt máðir, upplitaðir, flagnaðir ogguðmávitahvað....Alveg hundleiðinlegt, satt að segja. Enda skulu þeir nú fjúka. Hér niðri í "plássinu" eru þessir líka fínu plastlistar sem koma skulu í staðinn. Að þeirri aðgerð lokinni verður fátt úr viði utandyra á Stakkanesinu, nema þá dyrnar sjálfar!  (jú, björgunarbátskistan er úr mótakrossvið. Ég er farinn að senda henni illt auga.....)

Stakkanesið fer svo á flot um líkt leyti og ferðadrekinn kemur í bæinn.

Litli Isuzu vörubíllinn gengur þessa dagana gegnum gagngera endurnýjun á bremsum. Það er ekki nóg að komast áfram, það þarf víst að vera hægt að stoppa líka þegar komið er í áfangastað úti á landi með Stakkanesið á pallinum. Kristmundur Kristmundsson Sörlasonar í Stálveri hefur lýst vantrú á að þessi hugmynd um hreppaflutninga Stakkanessins á vörubílnum verði nokkurntíma að veruleika. Það er mjög fínt að fá þessháttar álit, fátt styrkir mann meira í trúnni en mótþrýstingur. Raunar grunar mig að með því að viðra þetta álit sitt á mjög afgerandi ( og stundum hávaðasaman) hátt sé Kristmundur einungis að peppa mig upp, í rauninni sé hann að ýta á bakið á mér. Ég hef allavega ákveðið að leggja þann skilning í hlutina. 

Það er svo sannarlega ekkert grín að vera atvinnulaus og á stundum langar mig hreinlega að fá mér vinnu aftur til að geta átt örlítið frí!  Afkoman er sem betur fer nokkuð viðunandi, núðlur eru ódýrar og vatnið er ókeypis. Enda er eins gott að spara því það má gera ráð fyrir miklum dísilolíukaupum í sumar..................

Klukkan er að verða hálftíu á páskadagsmorgni, ég er á leið í morgungöngu með Bassa og síðan austur í sveitir í "vísindaferð" Veðrið er fínt, hægur andvari og sirka 4 stiga hiti. Landssveitin bíður......

Gleðilega páska!

02.03.2013 08:51

Stuttur texti án mynda!

Ef marka má veðurspár er veturinn að koma aftur. Það er dálítið snúið, satt að segja var það ekki alveg á teikniborðinu hjá mér að fá kulda og jafnvel snjó. Stakkanesið hefur fengið smá hugg undanfarið, einnig sjúkrabíllinn. (sem ég hef velt fyrir mér hvort eigi að fá nafn. Í ljósi þess að ferðabíllinn hefur stundum verið kallaður Arnarnes, trillan heitir Stakkanes  og litli, forljóti plastbalinn sem gengt hefur hlutverki landbáts hefur stundum, með skírskotun til sköpulagsins verið kallaður Fagranes, hefur sú hugmynd komið upp að kalla sjúkrabílinn Langanes. Hann er jú lengsta gerð af Econoline svo það gæti svo sem alveg passað, auk þess sem Langanes er nesið sem skilur milli Dynjandivogs og Geirþjófsfjarðar í Arnarfirði og því  rammvestfirskt nafn....)

Svo hefur verið unnið nokkuð drjúgt í öðrum uppsöfnuðum verkefnum, s.s. Isuzuvörubílnum. Ég hélt að það, að vera heimahangandi atvinnuleysingi myndi færa mér nægan tíma til að sinna öllu fyrirliggjandi en svo er alls ekki. Dagarnir eru ótrúlega stuttir þó þeir séu teknir jafnsnemma og venjulega og þótt sífellt sé nagað í verkefnalistann virðist hann aðeins lengjast í hinn endann, því alltaf kemur maður auga á eitthvað nýtt sem þarf að bæta og breyta.

Það er bjart úti, sól í sinni og ég er á leið upp í Borgarfjörð til að kíkja á bláu rútuna einu sinni enn. Við General Bolt-on erum sammála um að nú verði eitthvað að fara að gerast í hennar málum. Vetrarskot gæti skekkt þær hugmyndir en staðreyndin er samt ljós - það þarf að fara að koma bílnum suður!  Svo væri kannski ekki úr vegi að kíkja á Sverri Guðmunds og Amalíu, ef þau eru í sumarhöllinni sinni við Galtarholt. Allavega ætla ég að ljúka deginum á uppistandi/fyrirlestri Einars Kárasonar í Landnámssetrinu í Borgarnesi, þar sem umfjöllunarefnið er Sturla Þórðarson. Sturla var uppi á þrettándu öld, merkilegur maður fyrir margra hluta sakir og, eins og segir í "prógramminu", nokkurs konar Forest Gump sinnar tíðar. Allsstaðar þar sem eitthvað var að gerast var Sturla Þórðarson, ef ekki sem beinn þátttakandi, þá sem áhorfandi. 

Svo vona ég bara að ég nái heim áður en veturinn skellur á..........

23.02.2013 09:24

Áfram um eitt skref.

Síðasti pistill lokaði með "Eikhaug" við bryggju Shell-olíustöðvarinnar á Stakkanesi. Áður en sú næsta birtist langar mig að koma einu að: Þegar ég birti myndina af henni Gunnhildi liggjandi á bb-síðu í fjörunni undir Óshlíðinni orðaði ég bæði Gugguna og Borgþór. Þetta með Borgþór var aðeins minningabrot sem skaut upp kollinum um leið og ég skrifaði. Ég var búinn að fara mörgum sinnum um Óshlíðina áður en yfir lauk og veginum var lokað, en ég held að næstum í hverri ferð hafi ég skimað eftir vélinni úr Borgþóri liggjandi þarna í fjöruborðinu. Marga hafði ég spurt gegnum árin um þennan bát og strand hans en fæstir virtust kannast við neitt, sumir höfðu einhverja óljósa hugmynd en enginn gat frætt mig svo neinu næmi.  Ég hef leitað í bókunum "Íslensk skip" e. Jón Björnsson heitinn en þar var engan Borgþór að finna utan þann sem er nú Aðalbjörg ll RE. Ekki bar hann beinin við Óshlíðina, svo mikið er víst. Mér var næst að halda að mig hefði dreymt þetta allt saman. En vélin var þó þarna, svo mikið var líka víst.......

Fyrir ekkisvohelvítilöngu tók ég upp á því að eyða síðasta klukkutímanum fyrir ból á kvöldin í að lesa "Þrautgóðir á raunastund" enda til enda. Ég er búinn að blaða í þessum bókum gegnum árin og hef svo sem lesið þær allar í slitrum en aldrei svona "grundigt", eða þannig. Svo kom að því, í bók númer XV - sem á mannamáli er sú fimmtánda - að ég rakst á eftirfarandi kafla á bls. 180:

M.b. Borgþór strandaði.

Að kvöldi 15. desember strandaði vélbáturinn Borgþór frá Ísafirði við svo kallaðan Kálfadal, en báturinn var þá að koma úr róðri. Veður var gott og bjart. Ástæða strandsins var sú að unglingspiltur sem var við stýri bátsins mun hafa sofnað og bar bátinn síðan af leið. Mennirnir á Borgþóri voru aldrei í hættu og komust þeir af sjálfsdáðum í land á gúmbátnum. Báturinn eyðilagðist hins vegar á strandstaðnum. M.b. Borgþór var 25 lesta bátur, smíðaður í Reykjavík árið 1929.

.....................................................................................................

Þannig var nú það. Þetta var árið 1963 og ég man eftir þessu óhappi! Það eina sem ber á milli er að mig minnti að báturinn hefði verið keyrður upp vegna óstöðvandi leka en hafa skal það sem sannara reynist. "Þrautgóðir á raunastund" er að vísu ekki hundrað prósent heimild, sbr. Gunnhildi ÍS sem í bókinni er sögð hafa eyðilagst á strandstað. Á öðrum stað er sagt frá Fagranessbrunanum í Djúpinu og Fagranesið þar sagt hafa verið nýtt skip. Ekki var það nú alveg rétt eins og flestir vita, það var gamli Fagginn sem brann til ónýtis en sá "nýi" hefur reynst nokkuð eldfastur til þessa. Það hefur svo óvíða komið fram að meðan gamli Fagginn lá í olíukróknum á Ísafirði ónýtur eftir brunann og beðið var eftir þeim "nýja" var það m.a. Svíþjóðarbáturinn Fjölnir ÍS frá Þingeyri sem þjónaði hlutverki hans í bílaflutningum ofl. Ég skal  m.a.s. bæta einu við: Á Fjölni var togspilið framanvert við brúna en ekki frammi undir hvalbak. Þetta þýddi að hífivír bómunnar lá fram eftir miðju þilfari því ekki dugði minna en togspilið til að hífa bíla að og frá borði. Ég man þetta jafnvel og nafnið mitt því við fjölskyldan fórum einhverju sinni með bátnum inn í Djúp og alla leiðina var mamma á nálum yfir áhuganum sem 6-7 ára guttinn sýndi feitisbornum stálvírnum. Nærri 50 árum síðar er stálvírinn enn brenndur í minnið...........

Ég ætlaði að birta myndir af skipum en eins og oft vill verða drukknar áhugaverða efnið í innantómum kjaftagangi. Nú kýlum við á´ða:



Myndefnið er Guðbjartur Kristján ÍS, síðar Orri ofl. Þarna glænýr, talinn 330 tonn og sérstaklega talinn til ískastarinn í frammastrinu. Þetta var glæsiskip, stærsta skip Norðurtangans til þess tíma. Báturinn sem áður bar nafnið Guðbjartur Kristján fékk þá nafnið Víkingur lll. Skipið sem liggur aftan við Guðbjart hefur mér ekki tekist að þekkja en hallast að því að það sé erlendur togari. Svo má ég til að nefna Ísafjarðarlognið.....



Það er engin skýring við þessa mynd önnur en að aftan á hana er rituð ágiskun um að þarna liggi "-fell" við Bæjarbryggjuna á Ísafirði. Mig minnir að þetta hafi einhvern tíma verið rætt og Magni Guðmunds í Netagerðinni hafi talið þetta vera einn af Fossum Eimskipafélagsins. Strípurnar á reykháfnum benda vissulega til þess. Myndin er ekki heilög svo ef einhvern langar að rýna í "orginalinn" er bara að hafa samband og þá sendi ég hana í tölvupósti. ( Ég er reyndar, eftir mikið myndagrúsk, nokkuð viss um að þetta sé Katla. Það eru t.d. tveir gluggar í loftskeytaklefanum aftast. Kíkið á þessa slóð. Takk fyrir, Ólafur:     http://fragtskip.123.is/blog/2011/04/23/518703/ )




Þessi er flott, þó aðeins sé á henni eitt skip. Þetta er nokkuð örugglega trillan sem hann Alf Överby átti. Hún var dálítið sérstök í útliti og eftirminnileg af þeim sökum. Ég held þetta sé rétt hjá mér en ef einvher veit betur er leiðrétting vel þegin. Það gildir sama um þessa mynd og þá efri - hún er skönnuð risastór og afar skýr, svo ef einhvern langar að rýna betur í hana er leyfið auðfengið.






Ég ætla að loka þessu að sinni með mynd sem er tekin að Gemlufalli í Dýrafirði. Fjöllin handan fjarðar eru auðþekkt, myndin er merkt þannig á bakinu og að auki stendur á henni: "Magnús Amlín á Tóka". Þarna er þá líklega verið að ferja fólk og farangur til eða frá Þingeyri, því áður en vegur kom fyrir Dýrafjörðinn var þetta eina samgönguleiðin og lengi lágu í fjörunni neðan við Gemlufall  leifar af stórum pramma sem notaður var í faratækjaflutninga yfir fjörðinn.

Næst langar mig að birta nokkrar af myndum Árna heitins Matthíassonar rakarameistara á Ísafirði. Árni var flinkur maður á margan hátt, m.a. var hann mikill áhugamaður um ljósmyndun og átti góðan búnað til þeirra hluta. Pabbi og Árni voru skólabræður og miklir vinir. Eftir að Árni lést um aldur fram eignaðist pabbi nokkrar af myndum hans. Mig langar að tína þær til, sérstaklega þær sem tengjast bæjarlífinu. Þar eru taldar til bæði þær myndir sem Árni tók sjálfur og eins þær sem hann safnaði frá öðrum.

Gott í bili.....

mlllllllll



Flettingar í dag: 393
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79220
Samtals gestir: 18493
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 19:17:22


Tenglar