Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2015 Apríl

22.04.2015 08:29

Flotinn ósigrandi!



.Skipastóllinn var aukinn um helgina. Það hafði raunar staðið til talsverðan tíma og ferlið hófst eiginlega í fyrrahaust. Þannig var að ég þurfti þá að heimsækja verslun hér í bænum í þeim tilgangi að kaupa björgunarbát á nýja trillu sem er í smíðum hjá gömlum vini vestur á Ísafirði. Inni á gólfi verslunarinnar stóð nýr plastkajak með alls konar aukabúnaði fyrir dellukalla. Það þarf ekki mikið til að kveikja vangaveltur og þær sem komu fyrst upp í hugann þegar ég skoðaði bátinn voru gamlar minningar frá þeim tíma þegar ég var púki fyrir vestan og átti lítinn plastbát sem óspart var notaður í ævintýraferðir á Pollinum. Það var á þeim tíma sem Bæjarbryggjan stóð enn og einnig hluti af Edinborgarbryggjunni. Framan í Edinborgarbryggjunni hékk skreiðarknippi, orðið svo hart og þurrt að rota hefði mátt mann með hverjum fiski. Kannski átti þetta einhver, kannski var það gleymt, ég veit það ekki en það var sport hjá okkur púkunum að róa undir bryggjuna, skera okkur einn eða tvo fiska og láta svo reka úti á Polli meðan við murkuðum flísar úr skreiðinni með vasahníf og lögðum mat á lífið og tilveruna. Ef ég er sekur um fiskstuld þá er Halldór Þórólfs jafnsekur því hann var langoftast með í þessum túrum.....

Hvernig tengjast kajak og skreið? "Spurningin - ja, hún er mæt", eins og ofurölvi þingmaður í ræðustól komst eitt sinn að orði. Þannig var að Þráinn bróðir Eiríks Jóhanns átti forláta uppblásinn gúmmíkajak. Þráinn var einstöku sinnum úti að róa á kajaknum en Eríkur mun oftar - eða þannig minnist ég tímanna. Heimatökin voru enda hæg því þeir bjuggu á fjörukambinum. Mér fannst þessi uppblásni kajak algert snilldarverkfæri enda mátti róa honum mun hraðar en plastbalanum mínum. Ég sá enga leið til að eignast svona bát enda mun hann hafa verið keyptur erlendis. Svo leið tíminn og gúmmíkajakinn hvarf af pollinum og sömuleiðis litli plastbalinn minn, sem þó mun enn til vestra. Allar götur sína hef ég gotið auga að þessari bátagerð hvar sem hún hefur sést.

 Það var eiginlega ekki fyrr en með plastinu sem kajakar fóru að verða algengir, fyrsta gerð þeirra sem ég man eftir var úr striga á trégrind og var ekki á færi allra að smíða slíkan grip eða eignast. Þess vegna er þessi gamla mynd frá Pollinum svo skemmtileg:



Svo var semsagt farið að smíða kajaka úr plasti í ótal stærðum og gerðum á viðráðanlegu verði og í framhaldinu varð sú sprenging í sportinu sem menn þekkja. Það hefur verið gaman að fylgjast með kajakræðurum inn um Ísafjarðardjúp og hér syðra uppi á Kollafirði - að ógleymdum Breiðafirðinum sem er sannkölluð paradís kajakræðara. 

Ekki vil ég nú segja að allt þetta hafi farið gegnum kollinn þegar ég stóð og beið eftir björgunarbátnum hans Begga Ara í fyrrahaust. Upphafið er samt þar og allt framhaldið er því afleiðing. Í vor, þegar ég fór svo með björgunarbátinn af Stakkanesinu í yfirhalningu á sama stað var enn nýr kajak inni á gólfi og annar uppi á vegg. Þar var líkt og bensíni væri skvett á eld því ég sá í hendi mér hvar svona kajak kæmi mér best......

.....ef mér tækist að komast vestur í Jökulfirði í sumar með Stakkanesið væri svona kajak miku skemmtilegri léttabátur en litla plastfatið sem ég keypti fyrir nokkrum árum sem landbát. Fatið er svo sem ágætt til síns brúks en það er óhentugt til að róa því langar leiðir meðfram fjörunum í Jökulfjörðunum - auk þess sem það er ólíkt meira gaman að snúa fram þegar róið er í skoðunarferðum! 

Mér reyndist því mjög auðvelt að sannfæra sjálfan mig um algera nauðsyn þess að eignast svona kajak. Ég hafði samband við mann sem rekur kajakleigu á Suðurlandi og er öllum hnútum kunnugur í sambandi við hvaðeina sem að kajökum lýtur. Hjá honum fékk ég nýjan bát með ár, sæti og öðru sem nauðsynlegt má teljast.

Svo nú telur flotinn ósigrandi alls þrjú skip - þau voru tvö og hálft þegar Stakkanesið, litla plastfatið (sem vegna lögunar sinnar og ferjuhlutverks fékk nafnið Fagranes) og hálfur Bjartmar voru talin saman.  Svo var Bjartmar seldur og flotinn minnkaði en nú hefur semsagt bæst við "heilt" skip, sem lögunar sinnar vegna gæti allt eins heitið Langanes :













....og nú er bara beðið eftir hentugu veðri til að skreppa upp að Hafravatni og prófa þessa nýjustu viðbót við flotann ósigrandi!
.........................................................................................

18.04.2015 10:09

Laugardagur.....


......og löng helgi framundan. Það þýðir að vinnan kallar ekki fyrr en síðdegis á mánudag. Löng helgi er þannig sléttir þrír sólarhringar og þann tíma má nýta til ýmissa hluta ef vel er haldið á spöðunum. Það má t.d. líta á gamla Benz ferðabílinn sem keyptur var síðvetrar og bíður andlitslyftingar hér utandyra. Svo má renna austur á Stokkseyri og sækja nýja kajakinn sem ég var að kaupa mér.

Öll tilbreyting er vel þegin - bæði í og utan vinnu. Eitt slíkt tækifæri gafst í gær þegar við tveir vinnufélagar fórum í "útrás" og héldum upp á Grundartanga vopnaðir öllum helstu verktólum og öðrum aukreitis. Ég hef ekki haft fyrir sið að flytja sögur úr vinnunni en það má gera undantekningar þegar eitthvað skemmtilegt rekur á fjörurnar. Þannig var það einmitt í gær. Óskabarnið hafði fyrir nokkru lánað stóran gámalyftara upp á Grundartanga í stað annars sem bilaði þar. Lyftaranum var "snarað" um borð í skip í Sundahöfn og skutlað uppeftir. Þar var hann svo hífður í land. Nú var komið að því að skila honum suður og þá kom babb í bátinn. Lyftarinn er u.þ.b. sjötíu tonn og þrátt fyrir að skipið hafi getað lyft honum af lúgu og slakað niður á bryggjuna er bakaleiðin öllu meiri hífing og þá hífingu réð skipskraninn ekki við. Því þurfti að létta lyftarann og til þess var einfaldast að taka af honum "spreddann" (sem þó vegur "aðeins" átta tonn) og flytja hann landleiðina suður. Við fórum í þetta tveir Ísfirðingar saman og fengum hálfgám undir spreddann sendan á eftir okkur með bíl úr Reykjavík. 



Verkið gekk vonum framar og fljótlega upp úr hádegi var spreddinn laus:



Bíllinn sem flutt hafði hálfgáminn uppeftir beið eftir flutningnum suður aftur og klukkan hefur líklega ekki verið mikið yfir tvö þegar hann lagði af stað með farminn:



Þá var aðeins frágangur eftir við lyftarann sjálfan, sem var hálf vesældarlegur þegar búið var að reyta af honum helstu skrautfjöðrina:



Við vorum komnir suður vel fyrir vaktarlok og eftir verkfæraþrif og frágang var komið að helgarfríi hjá okkur, enda höfðum við unnið verkið án matarhlés. Fjörið hélt svo áfram um kvöldið þar sem starfsmannafélagið hélt keilukvöld í Egilshöll. Mikið lifandis ósköp og skelfing var svo gott að halla höfði á kodda í dagslok.

..................................................

07.04.2015 15:31

Það er búið páskar...


 ......og alvara lífsins tekin við. Sælan í Hólminum sett í minningabankann og skrúfað frá tilhlökkun til næstu ferðar. Næst á ég dvalarstaðinn vísan um hvítasunnuna en líkast til verður Stakkanesið gert sjóklárt kringum uppstigningardag - það tekur jú aðeins tvo tíma að renna uppeftir. Nú kallar óskabarnið til vinnu og þegar kallað er þá svarar maður. Það eina sem ég saknaði um páskana (fyrir utan góða veðrið) var nefnilega mötuneytið........

Gott í bili.

06.04.2015 08:29

Annar í páskum...


.....og enn er klukkan hálfníu. Morgunmatur að baki og kaffið á leiðinni. Það er semsagt allt í sínum föstu skorðum og þannig á það líka að vera. Veðurspá páskadags brást algerlega - í stað þess að senda okkur það þokkalega veður sem spáð hafi verið ákvað almættið að úthluta okkur því sama og áður. Hvassviðri og rigningu með mismunandi tilbrigðum. Þegar komið var fram undir hádegi og sýnt að ekki byðist betra veður var farið í að rétta Stakkanesið og ganga frá því að nýju. Það tókst vonum framar enda hafði ég með mér hraustan mann. Ekki veitti af því vinstri handleggurinn, sem teygðist óhóflega á dögunum er enn ekki orðinn svo góður að ég þori að leggja eitthvað á hann að ráði. Það tók ekki langa stund að koma bátnum í skorður og nú er aftur allt eins og það á að vera. Það verður svo varla litið á hann að nýju fyrr en apríl er úti.

Eftir hádegið var farið í bíltúr út nes allt til Hellissands. Við eyddum ekki löngum tíma á hverjum stað en ókum þó dálítið um. Þegar við snerum til baka frá Sandi hafði heldur betur bætt í vindinn og úrkomuna því það var bókstaflega hávaðarok alla leiðina til Stykkishólms. Það var því ákaflega notalegt að skríða í skjól og ljúka síðustu bókinni hennar Agötu Christie sem enn var ólesin á bænum. Það var víst verið að sýna Vonarstræti í sjónvarpinu í gærkvöldi en við höfðum ekki áhuga á henni að sinni - tölvurnar voru skemmtilegri.

Nú er semsagt upprunninn annar páskadagur og líklega skársta veðrið síðan ég kom hingað í Hólminn á miðvikudagskvöld. Ég les það á fréttamiðlunum að fólki á faraldsfæti sé ráðlagt að ferðast á fyrra fallinu því síðdegis sé von á versnandi veðri og jafnvel -færð. Mínar áætlanir gera ekki ráð fyrir suðurferð fyrr en á morgun en þá er spáð einum átján, nítján metrum og hríð. 

Sú mynd, sem allir þeir útlendingar sem við höfum séð á ferðinni um Snæfellsnes á smábílum undanfarna daga gera sér af landinu, hlýtur að vera nokkurn veginn á þá lund að íslenska vorið feli í sér fjölbreytt veðurfar - þ.e.a.s. allar tegundir af illviðrum! 

Nú tala vitringar um að sjórinn suður af Íslandi sé óvenju kaldur og afleiðinganna megi vænta í köldu og röku sumri. Ég er enn að melta þessar fréttir en gleðst jafnframt yfir því að þurfa ekki að gista í tjaldi í útilegum sumarsins.

Kaffið er tilbúið.........

04.04.2015 08:17

Það er kominn laugardagur...


......hafi ég lesið rétt á dagatalið. Hér í Hólminum verður hver dagur öðrum líkur þegar illa eða ekki viðrar til útiveru. Í gær freistaðist ég til að opna páskaeggið sem starfsmannafélag Óskabarnsins gaf mér. Þetta var höfðinglegt egg, tæpt kíló að þyngd. Bónus hefur verið að selja eins kílós egg á tvöþúsundkall og ég hafði eiginlega ætlað mér að slátra starfsmannaegginu yfir bókum og sjónvarpi fyrir sjálfa páskana en bæta svo við einu Bónuseggi fyrir páskadaginn. Ég er nefnilega súkkulaðifíkill og viðurkenni það alveg. Súkkulaðineyslan hefur hins vegar verið í lægð undanfarnar vikur og mánuði - raunar allt frá áramótum þegar við sonurinn hreinlega átum yfir okkur af 50% afsláttar - Nóakonfekti frá Krónunni!

Til að gera langa sögu stutta þá opnaði ég starfsmannaeggið snemma í gær og það stendur vel hálft hér á borðinu - áhrifin af ofátinu um áramótin eru greinilega ekki horfin að fullu og ég get hreinlega ekki klárað þetta egg. Tilhugsunin um eins kílós eggið í Bónus vekur nú hroll og ef ég versla eitthvað inn í Bónus í dag verða það epli og appelsínur. Hins vegar gekk prýðilega vel með bókina "Fílar gleyma engu" eftir Agötu Christie........

Það var semsagt innidagur í gær. Veðrið var samt ekkert tiltakanlega vont, þannig séð en heldur ekki spennandi til útiveru. Það viðraði ekki til bíltúra nema þá rétt til að skjótast í kaffi í nágrenninu. Veðurspá dagsins í dag hljóðar uppá sunnan átján metra og rigningu og þegar þetta er skrifað er útlit fyrir að sú spá gangi að mestu eftir. Það vantar að vísu átján metrana en rigningin er mætt. 

Stakkanesið er því ekki enn komið á réttan kjöl - ég nenni hreinlega ekki að eiga við það nema í almennilegu veðri. Ef spá rætist verður ágætt veður á morgun, páskadag og þá má taka til hendinni. Það var líka ætlunin að renna eitthvert inn með Skógarströndinni og það ætti líka að vera tími til þess.

Klukkan er rúmlega hálfníu, morgunmatur að baki og beðið eftir kaffinu.........og af hljóðunum að dæma er að bæta í rigninguna.........

02.04.2015 09:28

Skírdagur.


.Það tók lengri tíma en venjulega að aka í Hólminn í gær. Veðrið var alveg þokkalegt upp í Melasveit þrátt fyrir stöku hálkukafla. Í Melasveitinni var hins vegar talsverður lágrenningur svo dreif á köflum alveg yfir veginn. Undir Hafnarfjalli var hvasst en ekki til skaða, þó nóg til að hægja talsvert á umferð. Á Mýrunum var skárra veður framanaf en verulegir hálkukaflar. Þegar kom uppfyrir Eldborg fór aftur að drífa yfir veginn og í Miklaholtshreppnum var veðrið svo slæmt að aðeins sá til einnar stiku í einu - hvort eru það 25mtr. eða 50 mtr.? 

Rétt sunnan við Þúfubæi var bílalest á ferð vestureftir og fór hægt. Í útskotum stóðu litlir, fannbarðir bílaleigubílar, trúlega mannaðir forviða og hálfhræddum útlendingum sem gátu horft upp í heiðan himin móti sól en sáu ekki nema nokkrar bíllengdir eftir veginum. 

Þetta einnar-stiku-skyggni hélst langleiðina að Vegamótum en þar í kring var snöggtum skárra veður allt uppundir Dal. Þar tók aftur við snjódrif úr Skuggahlíð. Uppi á Vatnaleið hafði safnast talsverður snjór svo nam u.þ.b. hálfri vegbreidd. Bílalestin hafði grisjast nokkuð við Vegamót og samanstóð líklega af fjórum, fimm bílum á leið norður yfir Nes. Þeir sem komu suðuryfir áttu auðu akreinina og virtust engan veginn gera sér grein fyrir að vegurinn var aðeins hálfur því það horfði stundum til vandræða að mæta bílum sem héldu sinni stöðu og hröktu bílalestina út í snjóinn á eystri hluta vegarins. Allt fór þó vel. Niðri við vegamótin Stykkishólmur /Grundarfjörður stóðu tveir bílaleigubílar í útskoti og japanskir ferðamenn mynduðu sólina í vestri í gríð og erg. Sólina bar rétt yfir fjöllin enda áliðið dags. Hún líktist helst eldrauðum vígahnetti þar sem hún skein gegnum mistrið og kannski var ekkert skrýtið þótt Bakkabræður héldu á sínum tíma að þar færi herskip. 

Afgangurinn af leiðinni var greiðfær þrátt fyrir svellalög á köflum og ég var kominn í Hólminn tveimur tímum og tuttugu mínútum eftir brottför úr Höfðaborg. Brottför seinkaði  raunar nokkuð vegna óvæntra tafa en allt gekk þó upp á endanum.

Sundlaugin hér í Hólminum er opin til 22 á virkum dögum og síðasti klukkutíminn var tekinn í pottinum. Þeir eru annars með opið um páskana frá 10-17 alla daga nema föstudaginn langa. 

Í dag, skírdag er eiginlega svipað veður og í gær - hvasst en sæmilega bjart í lofti. Það hefur ekki bætt í snjóinn sem ekki var mikill fyrir, sem er ágætt því það fylgir engin skófla með húsinu - aðeins strákústur. Ætlunin var að renna út í Grundarfjörð og jafnvel lengra en ég held ég nenni því ekki í dag - heima er bara best..........

  • 1
Flettingar í dag: 323
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 862
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 71072
Samtals gestir: 17738
Tölur uppfærðar: 10.5.2024 03:09:39


Tenglar