Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


28.11.2020 20:29

Norðurferð 12-18. sept. ´20. Síðari hluti.


Við niðurlag fyrri hluta stóð ég á hlaðinu að Þormóðsstöðum og spáði í skriðuna miklu sem féll sumarið ´95. Eins og þar kom fram er talsverður húsakostur á býlinu en langvarandi notkunar- og viðhaldsleysi fylgir óhjákvæmilega hnignun. Hér má sjá hvernig mæniás stóru hlöðunnar hefur brotnað, líklega undan snjóþunga, og sígandi þakið síðan dregið gaflinn innávið. Það verður ekki langt þar til hvorttveggja fellur niður í húsið, því veggurinn hlíðarmegin er að gefa sig og þakið illa farið þeim megin.

Myndin er tekin til norðurs (og aðeins nær vestri), það er horft út Sölvadal og í fjarska út með fjöllunum vestan Eyjafjarðarsveitar.



Bakhlið íbúðarhússins og bæjarhlaðið. Til hægri gengur Þormóðsstaðadalur inn en fyrir miðri mynd heldur Sölvadalur áfram. Á milli dalanna er Tungnafjall, yfir 1000 mtr.



Ég rölti hringinn um húsið, sem er talsvert farið að láta á sjá, enda aldarfjórðungur síðan búskap lauk. Einhver búseta mun hafa verið á bænum eftir að Ísfirðingurinn brá búi vegna skriðuskemmdanna, en mínar upplýsingar bentu til að ekki hefði verið rekinn búskapur sem nefna mætti því nafni. Nú standa hús öll auð...
Þegar ég rölti fyrir hornið sem næst sést á myndinni rak ég tærnar í upprúllaða hönk af vír sem einna helst líktist síma-loftlínuvír, hálffalda í háu grasinu. Ég missti jafnvægið, baðaði út handleggjum og skældist einhvern veginn nokkra metra meðfram húsveggnum, þar til ég náði jafnvægi á ný.  (þetta eru auðvitað ónauðsynlegar upplýsingar, en þó brúklegar fyrir framhaldið) 



Eftir að hafa skoðað nægju mína að Þormóðsstöðum hélt ég til baka. Eins og fram kom standa í Sölvadal fjögur býli (eða leifar þeirra), það neðsta er Seljahlíð, þá Eyvindarstaðir, næst Draflastaðir og innst eru Þormóðsstaðir. Þegar ég ók frameftir tók ég eftir mannaferðum við Draflastaði. Þar stendur íbúðarhúsið ekki lengur en stórt og mikið útihús, líklega hlaða, er neðar í túninu. Þegar ég renndi hjá í bakaleiðinni stóð maður uppi við veg og heilsaði. Ég mátti til að stoppa og spjalla dálítið. Maðurinn kvaðst vera eigandi Draflastaða og fjölskyldan væri þar með hesta. Hann sagði son sinn vera að smala saman hrossahóp í hlíðinni ofar, sem stæði til að reka í tún. Búið var að leggja lausar girðingar yfir veginn með nokkurra metra millibili. Ég mátti til að spyrja manninn um búsetu á Þormóðsstöðum og skriðuna miklu, og svo það sem mig hafði grunað en var ekki alveg viss um, þ.e. slysið sem varð í gilinu neðan Eyvindarstaða sl. vetur, þegar ungur maður lenti í krapaflóði við heimavirkjunina og lést. Um þetta allt saman fékk ég talsverðar upplýsingar og hefði eflaust getað fræðst enn frekar hefði sonurinn ekki nálgast með hrossahópinn. Þar með gafst ekki tími fyrir frekara spjall, ég þakkaði fyrir mig og kvaddi.

Á myndinni að neðan eru Eyvindarstaðir, laglega hýst jörð en nú mannlaus. Þeir voru tveir, drengirnir við virkjunina, sá eldri var ábúandi og sá yngri (sem fórst) var gestkomandi og hjálparhella. Eftir slysið hvarf ábúandinn á braut og eftir standa auð hús.


Horft upp eftir Núpá, fram Sölvadal til suðurs.  Vinstra megin (austan) við ána má sjá móta fyrir vegslóða á árbakkanum.  Ofan við litla fossinn er stíflan sem krapaflóðið fyllti og vélarhús virkjunarinnar er einnig í hvarfi við bakkana.. Áin og gilið eru ósköp sakleysisleg svona að sumarlagi, en það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá fyrir sér hvílíkt veðravíti og fannakista þessi staður getur orðið á hörðum vetri. .... 



Gilið sem sést hér að neðan er á mínu korti nefnt Illagil. Yfir það er göngubrú sem sést á myndinni. Eflaust hefur hún oft komið smalamönnum vel...Lækurinn í gilinu sameinast Núpá.



Ég rölti dálítið um þessar slóðir og geymdi bílinn á mel neðan vegar, þaðan sem gott er að ganga og vel sést til allra átta.



Á neðsta býlinu vestan Núpár, Seljahlíð, var búið til 1960, Þetta er íbúðarhúsið, braggi með steyptum göflum. Húsið var merkilega heillegt þrátt fyrir að standa opið, en á eldri myndum má sjá að lengst af hefur það verið lokað, spjöld í gluggum og dyrum. 



Þegar maður skoðar þessi fyrri tíma húsakynni verður maður stundum að minna sig á að þar réðu grunnþarfirnar fyrst og fremst - hefði fólk stól til að sitja á, rúm til að leggja sig í og sæmilegan yl til að hlýja sér - hvers var þá hægt að óska sér frekar. Braggahúsið að Seljahlíð var fyrst og fremst íbúðarhús - ekki íburðarhús!



Dálítill kvistur er á þekjunni hlíðarmegin, og inn um hann mátti líta eldhúsið, eða það sem eftir var af því: 



Eftir þessa skoðunarferð um Sölvadal og nágrenni lá leiðin aftur út til Akureyrar. Ég hugðist fá mér gott að borða og skreppa svo í sundlaugina. Þegar ég kom heim í Furulundinn, þar sem orlofsíbúðin mín var, greip ég hins vegar í tómt. Ég fann hvergi húslykilinn, hvernig sem ég leitaði. Allt annað var á sínum stað í vösunum, aðeins lykilinn vantaði. Það gat aðeins bent til eins: Að lykillinn lægi inni á borði, þar sem hann lá vanalega þegar ég var inni. Securitas á Akureyri sinnir lyklavörslu fyrir stéttarfélagið mitt og þangað mátti ég leita eftir aukalykli. Það var auðsótt mál og innan hálftíma var ég aftur kominn upp í Furulund og inn á gólf. Þar var hins vegar enginn lykill sjáanlegur.

Andskotans.........

Þá þurfti að leggjast í rannsóknarvinnu á eigin ferðum og hegðun frá morgni til heimkomu. Staðreyndir málsins voru eftirfarandi: Ég var með gat á hægri buxnavasanum sem gerði hann ónothæfan til lyklageymslu. Þ.a.l. voru bæði bíllyklar og húslyklar í vinstri vasanum. Í hægri  vasanum var veskið nokkuð öruggt, enda þykkt og mikið að vanda! ( ekki þó af seðlum - ég er haldinn þeirri áráttu að geym alla miða sem til falla í veskinu).  Veðrið var svona eins og sést á myndunum svo það var engin þörf á yfirhöfn.  Þ.a.l. hafði ég aðeins þessa tvo vasa um að velja þegar ég vildi losna við símann úr hendinni, væri ég á göngu, og notaði þá oftast þann vinstri. Það hafði þann ókost að þar sem símahulstrið er með segulloku vildu stundum stakir málmhlutir fylgja með upp úr vasanum.

Þar með liggja staðreyndirnar fyrir. Ég treysti því að húslykillinn, stakur smekkláslykill á grænni plastkippu, hefði ekki fallið úr vasanum á bílastæðið þegar ég fór að heiman að morgni.  Þá var Lögmannshlíðarkirkja næst. Þangað fór ég, endurgekk hvert skref frá morgninum og rannsakaði hvert grasstrá. Enginn lykill.
Næst var Möðruvallakirkja. Ég gekk alla sömu slóð og að morgni en mundi þó vel að ég hafði verið með símann í hendinni alla gönguna og aldrei snert vasann nema á bílastæðinu - enda fann ég engan lykil. 
Annar mögulegur staður var fyrrum Shellsjoppan við Orkubensínstöðina á Akureyri. Ég hafði komið þar við til að hreinsa flugur af framrúðunni áður en ég hélt inn í sveit. Engan lykil var þar að sjá og afgreiðslan kannaðist ekki við a neinn hefði komið þangað með óskilalykil. Ekki gat lykillinn heldur legið úti í sveit, þar sem ég hafði myndað yfirbygginguna af Dalvíkurtogaranum, því þegar ég hafði farið út úr bíl á þeirri leið hafði ég tekið símann liggjandi í sætinu og skilið lykilinn eftir í svissinum. Þ.a.l. hafði ég ekki snert vinstri buxnavasann, þar sem húslykillinn átti að vera.
Það var farið að skyggja og ég átti eftir að leita inni í sveit. Það var langur akstur alla leið inn í Djúpadal og þaðan inn Sölvadal og vonlaust að ná því fyrir myrkur. Sú leit varð því að bíða næsta morguns. Sonurinn ætlaði að aka norður heiðar frá Reykjavík þann dag, ég var með ákveðna dagskrá í huga fyrir okkur síðdegis svo ég ákvað að taka þriðjudaginn snemma og leita sveitina.

Klukkan var korter gengin í níu þriðjudagsmorguninn 15. september þegar ég lagði upp frá Leirunesti. Það var enn frost þótt lítið væri, og rakinn í vegköntunum var hélaður. Á stöku stað í innsveitinni gætti hálku. Það tók nákvæmlega þrjú korter að aka frá Leirunum alla leið inn sveit og fram Sölvadal að Þormóðsstöðum. Á leiðinni inneftir varð ég nefnilega sífellt sannfærðari um að lykillinn hefði yfirgefið vasann þegar ég baðaði út öllum öngum, hálfflæktur í símavírshönkina sem falin var í grasinu. Svo bjargföst var þessi trú að ég ákvað að byrja þar og leita svo úteftir ef byrjunin yrði árangurslaus.

Á slaginu níu steig ég út úr bílnum á bæjarhlaðinu, litaðist um einn hring og gekk svo beint niður fyrir húsið að vírhönkinni. Yfirlits að sjá var þar ekkert sem skar sig úr, en þegar rýnt var í grasið sást eitthvað ljósgrænt milli stráa, litur sem ekki féll að einlitu umhverfinu.....





Um það er svo sem ekkert meira að segja - það hefði svo sem ekki haft nein stórkostleg eftirmál hefði lykillinn tapast. Líklega hefði kostnaður við skráarskipti í íbúðinni lent á mér og ekkert við því að gera, en þarna lá semsagt lykillinn nákvæmlega á þeim stað sem hugboðið hafði sagt. Ég ók í rólegheitunum til baka til Akureyrar við hækkandi hitastig og þverrandi hélu.

Ég ákvað að halda lánslyklinum til lokadags, þar sem drengurinn var á leið norður og heppilegt gat verið að hafa tvo lykla. Þar til hann kæmi drap ég tímann við slæping. Þegar hann svo renndi í hlað var næsti áfangi skipulagður. Í næstu ferð á undan hafði ég farið um Vaðlaheiðina, í fyrsta sinn á ævinni svo mitt minni ræki til. Sonurinn hafði hins vegar aldrei farið um hana og nú skyldi úr bætt. Á yfirlitsmyndunum hér að neðan er horft inn eftir Fnjóskadal og niður Dalsmynni.







Við héldum svo áfram álíka leið og ég hafði farið áður á hjólinu, þ.e. niður Dalsmynni ( en slepptum Fnjóskadalnum sjálfum) og ókum sem leið lá út undir Grenivík og þaðan inn Eyjafjörð til Akureyrar. Það leið að kvöldi og sýnt að ekki yrði meira ferðast þann daginn enda fór birta þverrandi. 

Miðvikudagurinn 16. rann upp og við lögðum snemma af stað ( á almennum frí-mælikvarða) og héldum austur á bóginn um Vaðlaheiðargöng. Ferðinni var heitið að Skjálfandafljóti og upp með því austanverðu. Í fyrrasumar kom ég innan frá Laugafelli niður Bárðardal og fór þá með fljótinu vestanverðu niður á miðjan dal. Þar er brú yfir fljótið, nærri skólanum sem áður var en hýsir nú hótel Kiðagil. Austur yfir hana fór ég í fyrra til að komast sem fyrst að Fosshóli en þar var bensínstöð og ég orðinn tæpur.
Nú skyldi því halda fram Bárðardal vestanverðan upp að brú, síðan yfir hana og áfram inneftir að austanverðu, eins langt og hægt væri. Á leiðinni komst ég að því að sonurinn, þótt víða hefði farið, hafði aldrei komið fram að Aldeyjarfossi. Það fannst mér miður enda umhverfi fossins stórkostleg náttúrusmíð. Við ákváðum því að aka framhjá brúnni og áfram inneftir að vestanverðu, sömu leið og ég hafði komið af fjöllum árið áður. Muni ég rétt eru aðeins um 17 km. frá vegamótunum við skólann/hótelið að Aldeyjarfossi og við höfðum nægan tíma. Leiðin inneftir er skemmtileg og m.a. er ekið um mikið kjarrlendi og skógrækt, þar sem haustlitirnir nutu sín stórkostlega. Klukkan var ekki nema um ellefu að morgni þegar við lögðum bílnum á bílastæðinu við Aldeyjarfoss og gengum af stað í áttina að árgilinu. Á bílastæðinu stóðu yfir framkvæmdir, því búið var að fjarlægja gamla og lúna hreinlætisaðstöðu sem þó kom mér ágætlega í fyrrasumar. Í staðinn voru komnar undirstöður stærri og eflaust betri "þjónustumiðstöðvar".

Ég held að ég sleppi öllu frekara blaðri á blað og láti myndirnar tala. Um Aldeyjarfoss má finna talsvert efni á netinu og þeir sem á annað borð rata inn á þessa síðu geta auðveldlega aflað sér betri þekkingar en ég get komið á framfæri í stuttum kafla....



Í austri mun vera Sellandafjall, 988 m.y.s.



Horft niður Bárðardal:

















Örstuttu ofan við Aldeyjarfoss er Ingvararfoss, önnur mögnuð náttúrusmíð sem hefur fallið dálítið í skuggann af frænkunni neðar.



Sprunga í berg, sem eflaust á eftir að skríða og víkka. Dýptin var talsverð, en þó ekki næg til að fela rusl sem túristar höfðu fleygt þangað niður





 Frá Aldeyjarfossi og Ingvararfossi héldum við aðeins lengra inn eftir, að Hrafnabjargafossi. Ég leit lauslega á hann í fyrra en nú var lag að skoða betur. Einhverra hluta vegna tók ég ekki myndir við Hrafnabjargafoss en vil í staðinn benda á stórkostlega myndasíðu HÉR



Okkar leið lá svo til baka niður Bárðardal að brúnni títtnefndu, yfir hana og til hægri er yfir var komið. (þ.e. til suðurs austan Skjálfandafljóts eftir vegi 843, Lundarbrekkuvegi.) Þar með vorum við komnir á þær slóðir sem fyrirhugað var að skoða þennan daginn. Vegurinn liggur fram sveitina framhjá kirkjustaðnum Lundarbrekku. Sem áhugamaður um kirkjur og kirkjuskoðun ákvað ég að láta Lundarbrekku bíða þar til ég hefði betra tækifæri og rýmri tíma, því ferðafélaginn (í þessu tilfelli sonurinn) var og er ekki jafn áhugasamur um kirkjur og ég. Þessvegna læt ég duga hér að benda á aðra frábæra myndasíðu þar sem fegurð staðarins nýtur sín betur en ég hefði nokkurn tíma getað sýnt. SJÁ HÉR

Vegurinn sem við ókum liggur alla leið inn að Svartárkoti og endar þar þótt slóðar liggi lengra. Áður en að Svartárkoti kæmi beygðum við inn á afleggjara til norðurs sem merktur var Engidalur. S.k.v. okkar korti var Engidalur eyðibýli en vegurinn virtist liggja lengra til norðurs en að bænum, þá merktur sem slóði. Við vorum báðir algerlega ókunnugir á þessum slóðum og völdum því frekar þennan veg heldur en þann að Svartárkoti, sem fyrirfram var vitað hvar endaði og bíður því betri tíma. 



Vegurinn inn að Engidal reyndist hinn besti malarvegur, og þegar að býlinu kom, snyrtilegum húsum í ágætri umhirðu að sjá, tók við allra þokkalegasti slóði áfram til norðurs. Við dóluðum áfram, skimuðum í allar áttir og gleyptum í okkur allt sem fyrir augu bar. Þar má helst nefna Sandvatn austan vegar, frekar stórt vatn en grunnt að sjá. Slóðinn liðast um landið, niðurgrafinn og holóttur á köflum en annars ágætur. Við höfðum ekið u.þ.b. tíu kílómetra frá Engidal, yfir hæð sem svo hallaði til norðurs, þegar við mættum tveimur fjórhjólum. Af búnaði aftan á þeim mátti ráða að þar færu smalar í fjárleit. Örskömmu síðar blasti við okkur stórt sveitabýli þar sem augljóslega var rekin talsverð ferðaþjónusta. Á upplýsingaskilti við veginn stóð nafnið Stöng (sjá Hér)
Þarna kom ég af fjöllum - í orðanna fyllstu merkingu! Ég hafði ekki hugmynd um að þarna, sem ég taldi lengst inni í r###gati, væri rekin myndarleg ferðaþjónusta. Sonurinn hafði þó hugmynd enda sjóaður í túristabransanum en hafði þó aldrei á staðinn komið. Það kom svo í ljós stuttu síðar að Stöng var ekki sá afkimi sem ég hélt, þegar við bókstaflega duttum inn á þjóðveg #eitt örfáum kílómetrum norðar. 



Við vorum farnir að finna til svengdar enda talsvert liðið á daginn og nestið að heiman löngu uppurið. Við afréðum því að aka suður fyrir Mývatn að versluninni við Reykjahlíð og kaupa okkur næringu þar. Frá Reykjahlíð héldum við svo um Kísilveg til Húsavíkur í stutta skoðunarferð og vorum komnir "heim" til Akureyrar rétt um það bil sem birtu tók að bregða..........

Upp rann fimmtudagurinn 17. september og líkt og áður var ferðaáætlun dagsins tilbúin að morgni. Ætlunin var að heimsækja áfangastað sem lengi hafði verið á óskalistanum en aldrei náð í framkvæmd.  Nú skyldu skoðaðar þær slóðir sem eitt sinn stóð til að sökkva, líkt og gert var við Stíflu í Fljótum en þó margfalt yfirgripsmeira. Um þetta tímabil í virkjanasögunni hefur margt verið ritað og talað, og m.a.s. var fyrir stuttu gerð kvikmynd um bændur í Laxárdal og við Mývatn sem gripu til öflugra aðgerða gegn fyrirhuguðum virkjana- og stífluframkvæmdum.

Áfangastaður fimmtudagsins var Laxárdalur.

Við vorum snemma á fótum, gleyptum í okkur morgunmat og þeystum svo af stað austur um Vaðlaheiðargöng. Við völdum okkur leið um Hringveg yfir í Reykjadal og þaðan niður að Grenjaðarstað og að Laxárvirkjun. Eftir að hafa litið á virkjunarmannvirkin sjálf héldum við fram Laxárdal eftir þokkalegum malarvegi. Við höfðum kort til að styðjast við en það var frekar ónákvæmt. Aðra leiðsögn höfðum við ekki. Fyrst og fremst langaði okkur að sjá þennan dal sem eitt sinn stóð til að fylla af vatni með risastórri stíflu. Sem betur fór tókst að stöðva þau áform svo enn má ferðast um þessa náttúruparadís og njóta...
Skv. kortum og öðru lesefni var Laxárdalur eitt sinn fjölmenn sveit með mögum bæjum og búum. Nú hefur fólki fækkað mikið og líklega er aðeins búið á tveim bæjum allt árið, Auðnum og Hólum. Annarsstaðar standa tóftir, sumarhús og jafnvel reisuleg íbúðarhús í mismikilli umhirðu. Við dóluðum í rólegheitum inn dalinn og reyndum að missa ekki af neinu. Þegar við höfðum lagt u.þ.b. þriðjung dalsins að baki klofnaði vegurinn í tvennt. Eystri hluti hans lá yfir Laxá á brú og rétt ofan hennar austan megin stóð hús sem greinilega var veiðihús, enda merkt þannig. Neðan brúarinnar austan megin stóðu hins vegar áberandi rauðir vikurhólar, ekki óáþekkir Rauðhólum hér syðra enda reyndust þeir við athugun bera sama nafn. 
Enn fórum við drjúgan spotta á þokkalegum malarvegi ( á gamlan, vestfirskan mælikvarða) og komum að reisulegu býli vestan ár, sem stóð á áberandi stað dálítið uppi í hallandi ásnum sem skilur milli Laxárdals og Reykjadals. Þetta var kirkjustaðurinn Þverá, og um leið og ég sá bæjarskiltið rifjaðist upp fyrr mér nokkuð sam sagt var við mig fyrir "ekkisvolöngu" : "Ef þú ferð Laxárdalinn verður þú að skoða Þverá". Á þeim tíma var merkingin ekki ljós fyrir mér en hún varð það þarna. Að Þverá stendur nefnilega einn af örfáum torfbæjum á landinu sem haldið er við en eru ekki í alfaraleið líkt og Laufás, Glaumbær og Keldur á Rangárvöllum. Torfbærinn að Tyrfingsstöðum á Kjálka (sem ég var nýbúinn að heimsækja og skrifa um) er að sönnu afskekktur en Þverá er þó hálfu afskekktari og líklega eiga ekki margir annað erindi þangað en beinlínis að skoða þennan sögufræga stað - að frátöldum laxveiðimönnum. Að Þverá var nefnilega stofnað fyrsta samvinnufélag Íslands, Kaupfélag Þingeyinga (sjá HÉR) og viðburðarins  er minnst og honum gerð skil með upplýsingaskiltum inni í torfbænum. 

Við vorum á leið inn dalinn og vissum sem var að leið okkar myndi liggja til baka síðar um daginn. Við ókum því framhjá Þverá og áfram inn að Auðnum, þar sem frá vegi að sjá er rekið stórbýli. Við Auðnir er hlið á veginum og innan þess stóðu tvö hross. Þau komu brokkandi þegar við opnuðum hliðið og hleyptum okkur í gegn en urðu líklega vonsvikin þegar þeim varð ljóst að við vorum ekki að koma eftir þeim. 

Innan við Auðnir versnaði vegurinn til mikilla muna enda var ljóst af öllum okkar upplýsingum að innar voru aðeins eyðibýli. Engar frekari upplýsingar höfðum við þó um þau því Árbók F.Í um svæðið hafði orðið eftir á Akureyri vegna minnar gleymsku. Við fetuðum slóðina í rólegheitum enda haustlitadýrð umhverfisins allsráðandi, eins og sjá má á myndunum hér neðar. Á þeirri efstu er horft til baka niður Laxárdal, á næstu er horft fram dalinn í átt til Mývatns og á þeirri þriðju - ja, bæði upp og niður....:







Svo birtist allt í einu eyðibýli sem okkur kom saman um að hlyti að vera Ljótsstaðir. Við það endaði vegurinn í raun þótt slóð lægi innar. Okkar lágbyggði slyddujeppi réði ekki við háan grashrygginn í miðjunni svo við fórum ekki lengra. Innan Ljótsstaða stóð eitt sinn býlið Varastaðir en skv. okkar upplýsingum voru þar aðeins tóftir. Við vorum ekki göngubúnir svo Varastaðir verða að bíða um sinn.

Húsið að Ljótsstöðum virtist fljótt á litið vera nýendurbyggt en við nánari skoðun sást að svo var ekki. Gluggar höfðu þó flestir verið endurnýjaðir sem og gler, en í einum þeirra var þó rúða brotin, líklega eftir byssuskot. Dyrabúnaður hafði sömuleiðis verið endurnýjaður fyrir nokkru síðan og þakjárn og rennur, sem litu út fyrir að vera frá deginum áður, reyndust vera úr ólituðu áli og því svo glansandi. Húsið allt hafði verið pússað utan og heildarútlit þess var ótrúlega gott. Á miða við útidyr var ábending til ferðamanna, þar sem þeim var gefið leyfi til að nýta húsið að vild, en með fylgdi sjálfsögð ósk um góða umgengni. Textinn var ritaður bæði á íslensku og ensku en upplitaðir stafirnir báru með sér að talsvert væri liðið frá því þeir voru skrifaðir.

Okkur virtist sem húsið hefði ekki verið byggt í einu lagi heldur í áföngum og innsti (syðsti) hluti þess, sá sem næstur er á myndinni, myndi vera elstur. Nyrðri hlutinn var eins konar tengibygging yfir í tveggja hæða hús. Á öllu var greinilega endurnýjað þak og sama álklæðningin. Að baki tvílyfta norðurhússins var hlaða sem ekki hafði fengið sömu yfirhalningu og húsið sjálft. Hún var þaklaus og steypan verulega farin að láta á sjá. ennfremur var að húsabaki áfastur geymsluskúr, siginn og skakkur, feyskinn opg fúinn eins og gamli, sorrý Gráni....





Þar sem húsið var læst veltum við fyrir okkur hvernig þeim ferðamönnum sem á miðanum voru boðnir velkomnir, væri ætluð innganga. Við hverri spurningu er til svar og svarið fundum við í jörðinni, án þess það verði frekar tíundað hér ( en lausnin var snilldarleg og auðskilin hverjum hugsandi manni)

Það var algerlega ótrúlegt að koma inn í þetta gamla hús - inn á þetta gamla heimili - sem virtist hafa verið yfirgefið snögglega og allt skilið eftir, hvaða nafni sem það nefndist. ( þegar við heimkomnir lögðumst í rannsókn á ástæðunni varð hún ljós, nokkurn veginn eins og okkur sýndist og kemur fram við sögulok). Gamansamir ferðamenn höfðu þó aðeins tekið til hendinni:



Í eldhúsinu var flest eins og aðeins ætti eftir að kveikja undir kaffinu þegar von væri á fólki heim af engjum eða frá gegningum... við nánari skoðun var þó ekki allt sem sýndist, og blöndungur Sólóvélarinnar var aftengdur. Skiljanleg ráðstöfun m.t.t. gesta sem gætu látið sér detta í hug að kveikja upp án þess að hafa til þess kunnáttu.



Í kjallararými tvílyfta hlutans var þessi forláta LISTER ljósavél. Flest var á sínum stað en þó dagsljóst að ár og dagar voru frá því að að hún hafði gegnt hlutverki sínu. Þetta var bensínvél, gerólík þeirri sem ég sá í Fagradal í Breiðdal í sumar og við athugun kom í ljós að heddið var ekki skrúfað á hana heldur lá það laust og ofan á því steinninn sem sést á myndinnni. Bensíntankurinn var laus og ótengdur.



Vélin var vatnskæld og í stað aftöppunarkranans var trétappi. ( Á þeim tíma sem þessi vél var framleidd og sett upp var frostlögur munaðarvara og algengara að kælivatninu væri tappað af vélum væri búist við frosti) 



Miðarnir við útidyrnar. Á þeim efri stendur: "Veiðimenn. Verið svo vænir að ganga ekki inn á brodduðum vöðlum. Þökk. Húshaldari.

Efstu orð enska textans skýra sig sjálf. Í textanum er gefið leyfi til að gista í rúmunum, en eins og staðan var, var það ekki fýsilegt lengur því uppábúin rúmin voru þakin ryki og músaskít.



Í eldhússkápunum var margt sem minnti á "gamla daga" 



Heildarútlit og svipur hússins var sterkt og svipmikið og viðgerðirnar höfðu greinilega kostað talsvert fé og mörg handtök. Lítið hafði þó verið gert í langan tíma en vonandi verður framhald á því það væri synd ef allt sem gert hefur verið færi forgörðum...

Á myndinni hér að neðan sést brotna rúðan í miðju húsinu. Það var ekki fyrr en ég var kominn langleiðina til baka til Akureyrar sem það rann upp fyrir mér að réttast hefði verið að fara heim að Auðnum og láta vita - það hefði jafnframt verið nóg af efni og verkfærum í húsinu sjálfu til að útbúa plötu fyrir gluggann. Því miður gerði ég hvorugt og verð að naga mig í handarbökin fyrir.....






Á leiðinni niður dalinn til baka renndum við heim að Þverá, eins og fyrirhugað hafði verið. Bærinn var mannlaus eins og búast mátti við, það voru ekki merki um að veturseta væri að Þverá þótt íbúðarhúsið væri reisulegt og snyrtilegt. KIrkjan og torfbærinn standa spölkorn norðan við íbúðarhúsið, og við litum fyrst á kirkjuna. Hún var læst eins og við mátti búast en við skoðuðum eins og við gátum. Um kirkjuna má lesa nokkur orð HÉR







Ég varð að nota sömu aðferð og oft áður, þ.e. að leggja símann á glerið, mynda inn og vonast til að árangurinn yrði viðunandi:







Af ummerkjum mátti skilja að torfbærinn væri opinn og til sýnis að sumarlagi. Nú var sumarið hins vegar liðið og enginn til staðar til að sýna okkur bæinn. Það var dálítið miður en þó ekki svo mjög, því þar með var fundið tilefni til að heimsækja þessa fallegu sveit að nýju næsta sumar  - eða þarnæsta....









Á dálitlu malarplani neðan vegar, skammt frá heimreiðinni að Þverá, stendur þessi minningarstöpull um einn af máttarstólpum þjóðvegakerfisins á Íslandi og þess þrekvirkis sem á sínum tímavar unnið í vegalagningu og tengingu byggða sem áður voru afskekktar. Jón J. Víðis var fæddur að Þverá í Laxárdal og var einn þeirra manna sem karl faðir minn nefndi jafnan með virðingu, hafandi sjálfur tekið þátt í lagningu og viðhaldi vega á Vestfjörðum um árabil. 



Eftir þessa heimsókn að Þverá kvöddum við Laxárdal að sinni og héldum til baka niður að Laxárvirkjun við dalamótin. Þaðan ókum við upp hálsinn austan Aðaldals, upp í Reykjahverfi og suður Kísilveginn að Mývatni. Þar keyptum við okkur í svanginn og ókum síðan "heim" til Akureyrar að nýju. Að morgni voru hússkil og leið föstudagsins lá suður að nýju.

Við lestur finnanlegra heimilda um Ljótsstaði og í leit að skýringu þess að bærinn virtist hafa verið yfirgefinn svo að segja fullbúinn og verið í eyði um árabil, kom margt í ljós. Eitt af því var stórmerkileg staðreynd í mínum augum, því að Ljótsstöðum var fæddur Ragnar H. Ragnar, söngstjóri, kórstjóri, stofnandi og skólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar og einn frumkvöðla í öflugu tónlistarlífi Ísfirðinga um áratugaskeið. 
Bróðir Ragnars úr stórum hópi, Helgi Skúta Hjálmarsson var bóndi að Ljótsstöðum með foreldrum sínum meðan þeirra naut við, síðar með ráðskonu, sambýliskonu og barnsmóður en síðustu veturna einbúi. Helgi var virtur maður og vinamargur í sinni sveit. Hann varð bráðkvaddur heima við snemma vetrar 1965 ( HÉR), aðeins 63 ára gamall og síðan hefur ekki verið búið að Ljótsstöðum......

....við hverri spurningu er til svar.......

Endir.
















































































xxxxxxxxxxxxxxxxxxxxxx
Flettingar í dag: 340
Gestir í dag: 39
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79167
Samtals gestir: 18489
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 16:21:40


Tenglar