Það styttist
í dvölinni hér nyrðra, talsvert liðið á þriðjudaginn og við erum farnir að horfa til heimferðar. Mér er illa við að aka lengi í myrkri, sérstaklega ef aðrar skyggnistruflanir eru samfara. Þess vegna leggjum við af stað suður í fyrramálið með morgunroðanum og ættum, ef vel gengur, að ná suður áður en aldimmt er orðið aftur.
Í gær gerðum við góða ferð út með firði, um Ólafsfjörð og til Siglufjarðar. Þegar þangað var komið máttum við til að heimsækja hótelið sem ég birti mynd af um daginn ásamt eikarbátnum Steina Vigg SI.
Það var komið eitthvað fram um hádegi en við vorum svangir og settumst því inn á veitingastað hótelsins, Sunnu restaurant. Pöntuðum okkur dýrindis hamborgara að hætti hússins og þótt verðið væri eðlilega í hærri kantinum var lífsreynslan hverrar krónu virði því húsið er enn smekklegra og látlausara innan en utan. Maður gengur ósjálfrátt um þessi salarkynni með virðingu líkri þeirri sem maður bæri til raunverulega gamals húss. Byggingin öll dregur einhvern veginn fram þessa tilfinningu og kallar sjálfkrafa á þannig hugarfar. Ég veit ekki hvort ég næ að gera mig skiljanlegan en vona það þó....
Eftir málsverð á hótelinu röltum við um bæinn. Það var farið að ýra talsvert úr lofti svo gangan varð kannski ekki eins löng og við hefðum kosið. Náðum þó að mynda eitt það skemmtilegasta á eyrinni - skökku húsin sem eru sérkenni Siglufjarðar.
( Skökku húsin eru mun fleiri en ég á í vandræðum með myndirnar og þær bíða því betri tíma )
Við tókum eftir að miklar breytingar standa yfir á húsnæði gagnfræðaskólans gamla uppi í brekkunni (ég held allavega að það sé gagnfræðaskólinn) og miðað við breytingarnar ytra erum við nærri vissir um að verið sé að breyta húsinu í hótel. Kannski er það tímanna tákn - börnunum fækkar en ferðamönnum fjölgar.
Ég hafði ætlað mér að heimsækja frænku í Ólafsfirði í bakaleiðinni en það fór á sama veg og í sumar, frænka ekki heima og ég greip í tómt. Nújæja, ég kem aftur næsta sumar...
Við feðgar eyddum síðdeginu hér heima í Furulundi og átum kvöldmat af eigin birgðum. Í gærkvöldi tókum við svo eina jólaseríuskoðunarferð um bæinn og lukum henni með kaffibolla í Eymundsson.
Við áttum tvennt inni fyrir daginn í dag, annarsvegar sund á Grenivík og hins vegar heimsókn í Tæknisafnið. Það kom á daginn að sundlaugin á Grenivík leggst í vetrarhíði og Tæknisafnið er aðeins opið á sama tíma og Mótorhjólasafnið, þ.e. tvo tíma hvern laugardag. Dagurinn hefur því liðið í rólegheitum, hér heima að mestu en eitthvað var þó litið út, m.a. niður á eyrina þar sem helst er von um að rekast á kunnuglega báta. Í allri flórunni rákumst við á tvo kunnuglega. Annar þeirra var þessi: ( Myndin er tekin á Ísafirði fyrir löngu )
Þetta er semsagt hann Jói, sem upphaflega hét Valgerður ÍS og var í eigu Veturliða á Úlfsá. Svo eignaðist Ingi Magnfreðs hann og nefndi Valgerði, þá eigendahópur þeirra Jóns Björnssonar, Rögnvaldar Óskarssonar ofl. og hjá þeim hét báturinn Fúsi. Það nafn bar hann þegar pabbi eignaðist hann, líklega ´92. Pabbi átti bátinn fram til aldamóta en seldi hann þá inn í Súðavík. Nú er hann semsagt kominn norður til Akureyrar og liggur í Sandgerðisbótinni.
Hinn báturinn sem ég fann, Máni, hefur bæði átt góða og slæma daga. Hann var um árabil vestra, fyrst í eigu Jóakims Pálssonar en síðar okkar pabba. Þetta er Shetland 570 með innan/utanborðs Volvo bensínvél. Var upphaflega blæjubátur en vorið 1990 smíðuðum við Kjartan Hauks kafari á hann hús úr áli sem enn er á honum. Ég birti fyrst mynd af Mána með blæjunni og svo með húsinu:
Máni var seldur þegar rauði færeyingurinn Jói var keyptur. Hann var um hríð á Ísafirði en fór þaðan inn í Súðavík. Frá Súðavík til Ólafsfjarðar og þaðan inn á Akureyri. Þegar við feðgar fundum Mána í dag var staðan svona:
Að því ég best veit hefur Máni ekki verið sjósettur í nokkur ár. Ég myndaði hann fyrir nokkrum árum á hafnarsvæðinu og þá var nokkurn veginn sama holning á honum utan hvað önnur framrúðan var þá brotin. Ég er ekki viss um að gamli yrði kátur með Mána sinn núna......
Það er farið að saxast á þriðjudagskvöldið. Við drengurinn toppuðum Akureyrardvölina í kvöld með gala- hamborgara á Greifanum. Þar með hef ég náð að borða á þremur "nýjum" stöðum, þ.e. stöðum sem ég hafði ekki áður komið inn á, Bautanum, Greifanum og Sigló hóteli. Tvær sundlaugar bættust á listann eina og áður kom fram, Glerárlaug og Hríseyjarlaug. Í fyrramálið verður svo íbúðin tekin í gegn, skilað og við leggjum af stað suður á leið.
Nú mega jólin koma........
.........................................