Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


31.12.2015 16:43

Um áramót.


Hún lifði ekki lengi, kínverska jólaserían sem ég keypti fyrir mæðgurnar Elínu Huld og Bergrós Höllu, og setti upp á svalahandrið íbúðarinnar í Hraunbænum. Kannski náði hún þremur vikum. Nú er hún dauð, svo steindauð að mér tókst ekki með nokkru móti að koma í hana lífi. Maðurinn í næstu íbúð var með samskonar seríu og þess vegna valdi ég eins - það er gaman að hafa samræmi í hlutunum.

Þarf ég nokkuð að taka það fram að sería mannsins í næstu íbúð er líka dauð? Steindauð!

Hvers vegna í ósköpunum geta Kínverjar ekki smíðað hluti sem endast? Þeir eru alltaf að smíða eitthvað og mér virðist fæst af því duga fyrir næsta horn......

Það eru að koma áramót og í Hraunbæ 30 lýsir ekki á tveimur svalahandriðum - bara af því Kínverjar stóðu sig ekki sem skyldi. Innan við stofugluggann logar hins vegar á 35 ljósa hring sem ég sjálfur - svo það komi skýrt fram - bjó til undir lok síðustu aldar vestur á Ísafirði. Ekkert kínverskt í þeim hring.

Klukkan er að verða fimm á gamlársdegi og úti kveður við stöku hvellur. Mér finnst þessir hvellir óvenju fáir fyrir þessi áramót, venjulega hefur verið sprengt stöðugt frá því sölur opna en mér finnst þetta mun minna núna. Kannski er almennu auraleysi um að kenna, kannski sparnaði. Veðrið hefur allavega verið ágætt fram að þessu en nú er heldur að bæta í vind og öðru hverju éljar.....

Þegar ég var að alast upp vestur á Ísafirði á síðari hluta síðustu aldar (mikið hrikalega finnst mér þetta skemmtilegt orðalag) þá gerðum við guttarnir talsvert af því um hver áramót að sprengja knallara. Mér skilst að hér fyrir sunnan hafi knallarar venjulega verið kallaðir kínverjar.

Þegar hæstu hvellirnir kveða við í kvöld ætla ég að hugsa til seríusmiðanna lánlausu......

Að vanda verðum við Edilon B. áður Eyjólfs- en nú Elínarson Breiðfjörð Thorsteinsson Budenhoff Sandhaug Sóðalöpp tveir heima í Höfðaborg. Við drögum fyrir glugga, leggjumst upp í sófa og horfum á eitthvað uppbyggilegt í sjónvarpinu meðan skothríðin gengur yfir. Bassa er afar illa við hvellina og blossana og þess vegna er heima best.....

Gleðilegt ár allir sem lesa og takk fyrir öll innlitin og álitin á líðandi ári. 


Flettingar í dag: 459
Gestir í dag: 52
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79286
Samtals gestir: 18502
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 21:47:34


Tenglar