Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


04.12.2015 11:16

Lægðir og hægðir.


Það er sunnudagsmorgunn, sjötti desember og hún Fríða systir á afmæli.  Það er svo sem ekkert stórafmæli, bara svona venjulegt enda er Fríða systir hálfu öðru ári yngri en ég og þar með yngst í hópnum. 

Þau á veðurstofunni eru að spá enn einni lægðinni yfir landið á morgun, mánudag og sú er sögð sýnu mest af öllum þeim sem gengið hafa yfir að undanförnu. Vetrarlægðagangurinn er eitthvað sem ekki kemur á óvart, ég man ekki eftir vetri sem ekki hefur meira og minna einkennst af lægðagangi. Ég man raunar ekki eftir sumri sem ekki hefur einkennst af því sama en það er annað mál. Munurinn er aðallega fólginn í því hvað þessar lægðir bera með sér enda ráðum við litlu um veðrið - við fáum það sent sunnan úr heimi og svo ræður hending því (ásamt nokkrum öðrum samverkandi þáttum) hvaða leið þessar lægðir fara upp með landinu og hvað þær flytja með sér. Mér skilst að þessi lægð allra lægða flytji með sér snjó en þar sem hitastigið á að vera nokkuð yfir núlli gæti sá snjór orðið nokkuð þungur. Umfang hennar mun vera svo mikið að nær til allra landshluta og mér varð sem snöggvast litið vestur á heimaslóðir svona tuttugu ár aftur í tímann.

Í morgun átti ég tal við mann sem átti brýnt erindi austur á firði í síðustu viku. Hann fór vel búinn bæði til vagns og verja enda veitti ekki af. Hans ætlan var að komast aftur suður um helgina en í talinu í morgun kom fram að þar sem hann situr í húsi í litlu þorpi austur á landi er ekki einu sinni fært útúr þorpinu hvað þá milli landshluta. Þannig er sú staða þegar enn ein lægðin er væntanleg og sú af stærri gerðinni.....

Fréttalestur hér í Höfðaborg er annars með dálítið sérstöku sniði. Blöð sé ég nær aldrei og meðfæddur athyglisbrestur leyfir mér ekki að fylgjast með sjónvarpsfréttum nema stutta stund í einu. Veðurspár á ríkissjónvarpinu læt ég þó helst ekki fram hjá mér fara. Að öðru leyti eru mínar fréttir fengnar af miðlum sem enda á .is og þeir miðlar hafa í liðinni viku helst sagt frá veðri og færð. Annað mál hefur þó farið hátt, þ.e. fregnir af ungum manni sem hefur lokað sig inni í glerkassa á almannafæri og hyggst vera þar í viku. Hafi ég skilið rétt er þeirri viku um það bil að ljúka en eitt mest spennandi fréttaefnið við veru þessa unga manns í glerkassanum hefur að mér sýnist verið afurðalosun hans. Netmiðlar - og athugasemdakerfi þeirra - hafa logað af áhuga á málefninu og sýnist þar sitt hverjum. Einhverjar aðrar athafnir mannsins hafa ennfremur vakið athygli, á köflum svo mikla að stjórnendur beinnar útsendingar frá gjörningnum sáu sig knúna til að slökkva um stund á tækjunum, velsæmis vegna að mér skilst. Allur mun þessi gjörningur eiga að vera af listrænum toga og sá er í kassanum situr/liggur margtitlaður myndlistarnemi. Mig langar að efast um listrænt gildi þess sem fram fer en auðvitað er ég aðeins bifvélavirki.....

Frá Hauki á Dalvík bárust þessar myndir:





Þessi fallega fleyta heitir, eins og sjá má, Steini Vigg og ber einkennisstafina SI-110. Steini Vigg er Akureyrarsmíði með gafli eins og nokkrir fleiri, frá árinu 1976 og hét upphaflega Hrönn ÞH-275. Heimahöfnin var Raufarhöfn enda var staðan á Raufarhöfn þá kannski ekki eins og hún er núna. Líklega hefur þó ekki gengið nógu vel á nýjan bát því fimm árum síðar eignast Fiskveiðasjóður hann og selur ári síðar norður til Grímseyjar. Þar verður Hrönn að Þorleifi EA-88. Frá Grímsey fer báturinn aftur " upp á land" og verður Guðrún Jónsdóttir SI-155. Svo færir Guðrún Jónsdóttir sig um tvo firði og verður ÓF-27 en síðan aftur SI-155. 200 ha. VolvóPentan sem upphaflega ýtti bátnum áfram var leyst af eftir nítján ára streð við snurvoðardrátt ofl. Í stað hennar kom önnur VolvóPenta, bólgin og blásin upp í 380 hestöfl. Ekki er þó annað að sjá en sú hafi átt náðugri daga því skv. skipaskrá var síðasta löndun á Guðrúnu Jónsdóttur skráð í júlí 2007. Þá hafði báturinn aðeins þriggja tonna þorskkvóta, eftir því sem best verður séð. Um svipað leyti eignast Selvík ehf. á Sigló bátinn og hann fær nafnið Steini Vigg. Eftir það virðist hann fyrst og fremst ferðaþjónustubátur þótt hann sé áfram skráður með veiðileyfi. Selvík ehf. er skv. heimildum undir sama hatti og Rauðka ehf., þ.e. í eigu Róberts Guðfinnssonar á Sigló og það er því eðlilegt að báturinn liggi við hótelið hans. Það lýtir síst þetta laglega hús að hafa jafn fallega fleytu og Steina Vigg við festar á þröskuldinum. 

(Ég hef raunar átt í skoðanaskiptum við heimamann varðandi þetta hótel en það er annað mál. Mér finnst þetta hús laglegt, látlaust og beinlínis bæjarprýði og er ábyggilega ekki einn um þá skoðun)

Það má vel koma fram undir lokin að annar bátur öllu stærri bar bæði nöfnin Þorleifur EA-88 og Guðrún Jónsdóttir SI-155. Það var Skipavíkursmíðin (1105 ) Jón Helgason ÁR-12 sem gegnum tíðina fór víða og hét mörgum nöfnum en endaði sem Reynir GK og var rifinn á Húsavík 2007.

Það er enn sunnudagur en sigið nokkuð á hann og sólin er að ganga undir. Fyrir augnabliki heyrði ég frá ferðalangnum sem minnst er á hér ofar. Heldur hafði vænkast hans hagur því verið var að ryðja vegi norðan- og austanlands og hann var kominn að Mývatni á suðurleið

Gott í bili.....




Flettingar í dag: 482
Gestir í dag: 54
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79309
Samtals gestir: 18504
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 22:45:06


Tenglar