Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


24.12.2015 14:23

Dagur aðfanga.


 Það er aðfangadagur jóla - dagur aðfanga jóla, ef maður snýr orðaröðinni. Það þýðir einfaldlega að í dag er dagurinn sem nýta skal til aðfanga til jólanna. Þá ætti það að vera komið á hreint. 

Ég held gjarnan í gamlar hefðir, t.d. borðaði ég ótæpilega af skötu í gær í bæði mál. Af því ég var á dagvakt í vinnunni lét ég vera að kýla mig út í hádeginu - maður verður jú að vera vinnufær út vaktina, ekki satt? Eftir vaktina fór ég heim í Höfðaborg og sinnti ýmsum verkum eins og vera ber en fór svo aftur í vinnuna og fylgdi kvöldvaktinni í mat - þ.e. þeim örfáu sem borða skötu á þeirri vakt. Þetta eru nefnilega eintómir hérar á "hinni vaktinni" eins og oft vill vera.......Þá var líka vel tekið á því....

.....og af því ég held gjarnan í gamlar hefðir þá notaði ég það sem af er aðfangadegi til að draga aðföng í bú. Þessi aðföng voru aðallega mikið af konfekti og mikið af klementínum í trékössum. Við feðgar í Höfðaborg erum nægjusamir menn (þ.e. þeir okkar sem erum menn, við teljum okkur jú þrjá en einn er gersamlega taumlaus þegar kemur að mataræði. Ég nefni engin nöfn en lesendur mega giska á fótafjölda...) og vegna þess að við erum nægjusamir látum við þessar tvær tegundir duga til jólahátíðar. Það þarf ekki mikið til að gleðja okkur.....

Áður en ég óska gleðilegra jóla ætla ég að setja inn eina mynd sem er reyndar ekki jólamynd heldur táknræn fyrir hugarfarið sem ríkir í Höfðaborg þessa dagana. Þar er verið að byggja skýjaborgir og því er horft upp til skýjanna. Það kemur svo fljótlega í ljós eftir áramótin hvort einhverjar undirstöður finnast undir þessar skýjaborgir:




Þangað til: Gleðileg jól allir sem lesa og gangið hægt um gleðinnar dyr! 

...................................................

Flettingar í dag: 471
Gestir í dag: 54
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79298
Samtals gestir: 18504
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 22:23:06


Tenglar