Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


13.12.2015 23:23

Eyfirsk blíða!


 Jú, við komumst klakklaust norður, enda hefði annað verið rakinn klaufaskapur í því leiði sem við fengum - einmunablíðu og bjartviðri. Hann hafði raunar orð á því sonurinn að það virtist hált á köflum en eftir að dimma tók sást engin hálka svo það þurfti ekki að slá af hennar vegna. Fljúgandi hálka sést, eðli málsins samkvæmt, ekki í myrkri.

Klukkan var rétt um sex þegar við renndum í hlað hjá Securitas á Akureyri til að fá afhenta lykla að orlofsíbúðinni okkar, sem við raunar höfðum skipti á á síðustu stundu því eins og við var að búast tókst mér að panta einu íbúðina sem ekki hafði þvottavél. Það mátti illa ganga því ég ók beint norður í vinnufötunum með "spari"gallann í farangri og þurfti því á þvotti að halda.

Hér á Akureyri hefur í einu orði sagt verið dýrðlegt veður. Frostið hefur farið niður í væna tveggja stafa tölu en það hefur verið bjart og lygnt. Yfir sjónum hefur legið frostmóða sem gefur umhverfinu sérkennilegan blæ, einkum þegar dimma tekur.

Ég dæli ekki inn meira bulli heldur læt myndir tala.....











Eftir lyklamóttökuna á föstudagskvöld skelltum við okkur í sundlaugina - þessa einu sönnu - en á laugardagsmorguninn ( í gær) heimsóttum við Glerárlaug. Hún var, eins og áður kom fram, ómerkt á listanum en úr því hefur nú verið bætt. Þetta er innilaug með útipottum og þar lágum við lengst af með skrokkinn í plús þrjátíuogátta en hausinn í mínus þrettán!  Síðdeginu var svo eytt í bíltúr um Eyjafjarðarsveitir, heimsókn á mótorhjólasafnið og fleira skemmtilegt. 

Í dag var það svo Hrísey. Við tókum ferjuna út í eyju klukkan hálftvö en sundlaugin var opin frá eitt til fjögur. Við gengum byggðina fyrst enda til enda eða svo gott sem, áður en við lögðumst í pottinn. Á göngunni tókum við nokkrar myndir:









 Þeir eiga fína sundlaug, Hríseyingar, eins og vonandi má sjá á myndunum:





Á glerinu umhverfis heita pottinn voru þessar ótrúlega fallegu frostrósir:








Það passaði að hlaupa uppúr pottinum rúmlega hálffjögur, græja sig af stað og hlaupa niður að höfn því ferjan lagði frá stundvíslega klukkan fjögur. Frá Árskógssandi ókum við út á Dalvík þar sem Haukur S. Valdimarsson skipafræðimaður var heimsóttur. Klukkan var svo um hálfsex þegar við renndum af stað inn til Akureyrar harðákveðnir í að toppa frábæran dag með heimsókn á Bautann. Þangað hafði ég aldrei komið en nú var semsagt úr bætt með hamborgara að hætti hússins. 

Deginum fer að ljúka. Það nálgast miðnætti og sonurinn er farinn út á bílnum að skoða loftsteinadrífur sem mér skilst að gangi yfir landið í nótt og þá næstu. Senn rennur nýr dagur og hann ætlum við að nýta til ferðalags út í Ólafsfjörð, þar sem hluti rótanna liggur. 

Gott í bili.
..................................................

Flettingar í dag: 423
Gestir í dag: 46
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79250
Samtals gestir: 18496
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 20:27:22


Tenglar