Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2015 Maí

29.05.2015 07:02

Það er föstudagur 29. maí....


..........og Hólmurinn kallar. Þegar vinnu lýkur í dag er ég farinn uppeftir "med det samme" og hef í farteskinu allt sem þarf til að skipta um dæluhjól, olíur og síur á "aðalvélinni" í Stakkanesinu. Fleiru þarf einnig að sinna, s.s. viðhaldi á vagninum sem er farinn að láta dálítið á sjá enda orðinn níu ára gamall. Ég kem líklega ekki til baka fyrr en á mánudagseftirmiðdegi, þegar óskabarnið kallar til vinnu. Veðurspáin er ekki siglingavæn en maður veit þó aldrei........

27.05.2015 06:55

Hvítasunnan.




Það viðraði ekki sérstaklega vel í Hólminum um síðastliðna helgi - ekki frekar en víðast annarsstaðar. Á mánudaginn tókst að ná einni stuttri siglingu, u.þ.b. tveggja og hálfs tíma langri. Spáin var leiðinleg fyrir þann dag og ég hafði ætlað mér að nýta stund milli stríða. Þess vegna var siglt í land um það bil sem leiðindaveðrið átti að bresta á, og lagst í heita pottinn í staðinn. Það fór þó svo að um leið og búið var að binda gerði eitt besta veður dagsins enda mættum við tveimur bátum á útleið. Svona er nú stundum lítið að marka veðurspár.

 

Ég læt fljóta með eina eða tvær myndir sem teknar voru við Byrgisklett og sýna m.a. toppskarfa sem voru í óða önn að gera sér hreiður:








...............................................

23.05.2015 19:19

Allt gekk upp.....


.....og Stakkanesið sigldi að bryggju rétt um áttaleytið í gærkvöldi. Klukkan níu tólf var ég búinn að ganga frá vagni og öllu og kominn í heita pottinn í sundlauginni. Klukkan tíu var komin ausandi rigning og slæm spá fyrir nóttina svo ég fór og gekk enn betur frá vagninum og litla landbátnum. Klukkan ellefu var ég kominn undir feld enda gjörsamlega útbrunninn eftir sextán tíma vinnudaga alla vikuna. Klukkan hálfátta í morgun var ég svo á fótum og hálftíu lagður af stað til Reykjavíkur aftur í stúdentsútskrift og veislu hjá yngri dótturinni. Sú eldri útskrifaðist út leiðsögumannsnámi á miðvikudaginn var svo það var eiginlega tvöföld veisla. Nú klukkan hálfátta á laugardagskvöldi er veislunni lokið og leiðin liggur að nýju upp í Hólm.

Ég var að kíkja á vefmyndavélina í Hólminum og sá að Stakkanesið er enn á floti. Það má nefnilega sjá það  - ef maður veit hvar það liggur því það er svo lítið að líkist helst títuprjónshaus!


Farinn!

22.05.2015 08:06

Nokkrir dagar án Bassa.



Líkt og í síðustu færslu er ég enn á leið í Hólminn. Það er föstudagsmorgunn og fyrir liggur að taka saman það sem þarf til að sjósetja Stakkanesið. Háflóð í Hólminum í kvöld er kl. 22 eða þar um bil og þar sem aðeins eru liðnir þrír eða fjórir dagar eftir stórstreymi get ég fleytt talsvert fyrir háflóð. Því má gera ráð fyrir að upp úr kvöldmat verði búið að binda við bryggju og ég kominn í heita pottinn. (Sundlaugin er opin til kl. 22 á virkum dögum)

 

Flest er tilbúið og annað er í dyragættinni. Bassi er farinn í heimsókn til sinna gömlu "foreldra" í Hafnarfirði og varð jafn ofsaglaður og vanalega við endurfundina. Hann má því miður ekki gista í leiguhúsi stéttarfélagsins míns í Stykkishólmi og því hefur eiginlega skapast sú regla að þegar ég leigi húsið fer Bassi í Hafnarfjörðinn. Það er ómetanlegt að eiga slíkt fólk að.....

 

Ef einhverjir skyldu rekast inn á vefmyndavélina í Stykkishólmi um áttaleytið í kvöld má kannski sjá Stakkanesið sigla í höfn. Slóðin er HÉR

 

Svo er bara alltaf gaman að skoða vefmyndavélina í Hólminum, sama hvort Stakkanesið siglir um eða ekki.

Gott í bili.

15.05.2015 23:46

Fimmtándi fimmti fimmtán.




Það er fimmtándi dagur fimmta mánaðar fimmtánda árs aldarinnar. Raunar lifir stutt af þessum degi og senn er hann allur. Því er ekki seinna vænna að stinga inn orði. Á morgun er laugardagur og leiðin liggur enn í Hólminn. Meðferðis er allur hjólabúnaður vagnsins undir Stakkanesinu og þegar degi lýkur er ætlunin að vagninn verði tilbúinn til sjósetningar. Ekki verður þó skipið sjósett fyrr en um næstu helgi, hvítasunnuna - og þá því aðeins að veður leyfi. Allt er háð veðri......

 

Við Bassi förum því snemma í háttinn - þ.e. ef miðnætti á föstudagskvöldi er snemmt. Við erum allajafna árrisulir og það er ekki gott að leggja mjög syfjaður af stað í Hólminn í fyrramálið. Þess vegna bjóðum við góða nótt.

07.05.2015 11:06

Fyrir réttum tíu árum....


......nánar tiltekið þann fimmta fimmta tvöþúsund og fimm, var þetta skrifað:

 

 

Loksins,loksins!

 Þá er Ísfirðingurinn kominn í hlaðið. Svei mér þá, ég er ekki frá því að hann hafi boðið mig velkominn þegar ég kom að sækja hann í gærkvöldi. Allavega fannst mér það. Það liggja nefnilega alveg sérstakir þræðir milli okkar. Hann er mitt hugarfóstur, hönnun og handverk, allt í senn. Hann kostaði mig andvökur, endalausar vangaveltur, áhyggjur af einföldustu úrlausnum og talsvert af aurum. Og samt er hann aðeins gamlingi sem lifað hefur tímana tvenna og er nú líklega á sínu síðasta skeiði. Það fylgir því sérstök tilfinning þegar ég loka hann inni að hausti, vitandi að við sjáumst ekki svo mánuðum skiptir og ég get aðeins treyst á að veðurguðirnir fari vel með þetta óupphitaða gamla refabú austanfjalls, sem geymir ævintýri liðinna sumra, innbundin í stál og við.

 



Það er ennfremur sérstök tilfinning að sækja hann að vori. Labba hringinn, athuga dekkin, rafgeymana, klæðninguna. Setja síðan í gang, aka út um dyrnar og finna öldunginn vakna og lifna. Ég er viss um að sé það rétt að gamlir bílar hafi sál, þá hlakkar hann jafnmikið og ég til komandi sumars. Veit enda sem er, að hann fær sína andlitslyftingu, málað í bletti, lagfæringar hér og þar, þvott og sápu. Fær að sjá nýja staði, hvíla sig á nýjum tjaldsvæðum, aka nýja vegi. Veit líka upp á hár hvernig verður ekið, hvaða brekka er farin í hvaða gír, á hvaða hraða er ekið upp eða niður. Veit hvaða dynti hann má leyfa sér, stökkin út til vinstri á rússibönum í malbikinu, framendalyftingarnar á mishæðum, 30 gráðu hallann í rokhviðum. Hann veit þetta vegna þess að það ekur honum enginn annar en ég. Aldrei. Aðrir ökumenn myndu ekki skilja hann og hann tæki aldrei annan ökumann í sátt. Hann þekkir þetta allt, kann þetta allt. Ég veit hvað hann getur og getur ekki. Hann tók klukkutíma í Hellisheiði eystri. Hálftíma upp og hálftíma niður. Þannig er það bara. Hann er ekki eldsnöggur milli staða, en reynslan hefur sýnt okkur að það skiptir heldur engu máli.

 

Og nú er hann semsagt kominn heim aftur og bíður úti í innkeyrslu eftir sínum þvotti og standsetningu. Skoðunardagurinn er á laugardaginn kemur. Hann verður örugglega fyrstur að dyrunum. Fær væntanlega fulla skoðun. Annað væri bara sárt. Síðan aftur heim í innkeyrslu í hvíld og íhugun. Þar mun hann standa næstu viku og horfa til norðurs, til Esjunnar ,Akrafjalls og Skarðsheiðar. Í norður, þangað sem fyrstu ferð er heitið um hvítasunnuna. Fyrsta ferðin í fyrra var farin til Akureyrar. Fyrsta ferð þessa árs verður einnig þangað.

 

 

 

...........og tveimur dögum síðar, þann sjöunda fimmta, eða nákvæmlega fyrir tíu árum, hef ég skrifað þetta:

 

 Auðvitað!

 Við vorum að koma úr skoðun, við Ísfirðingarnir. Þ.e. sá stærri var skoðaður á árlegum húsbíladegi hjá Aðalskoðun í Hafnarfirði. Sá minni labbaði milli bíla, spjallaði og kíkti á hjá hinum. Við mættum rétt fyrir átta. Af gömlum vana var sá minni hálfkvíðinn, sá stærri var hinsvegar hnarrreistur, vitandi það að hann hafði vissa yfirburði á svæðinu. Hann hafði sálina fram yfir nýju, fallegu, verksmiðjuframleiddu bílana. Hann hafði það fram yfir marga af gömlu bílunum sem líka hafa sál, að hann var vel hirtur,hreinn og  þrifalegur og í fullkomnu lagi. Síðan voru þarna nokkrir jafningjar. Við finnum alltaf sterkstu straumana í þá átt - þar sem handverkið er metið og virt enda umgengist sem slíkt. Hann rann gegnum skoðunina. Allur kvíði eigandans var ástæðulaus.Enda meira krónískur frá fátæktarárunum þegar maður ók um á druslum og eyddi svo og svo löngum tíma á hverju ári við að berja þær gegnum skoðun. Vagninn fékk meira að segja þann vitnisburð að vera "í fullkomnu lagi, óvenju góður af svo gömlum bíl" Við gáfum okkur tíma á eftir til að drekka kaffi með þeim sem áttu eftur að láta skoða. Nutum ánægjunnar yfir að vera búnir, og klárir í sumarslaginn. Þegar við dóluðum heim á leið var geislaspilarinn þaninn til hins ýtrasta og "Dísir vorsins" hljómuðu langt út fyrir bílinn. Þeir sem lentu við hlið okkar á ljósum, litu við.......

 

 

 

Það var þá. Mikið vatn hefur runnið til sjávar og við eigum hvorki þennan gamla ferðabíl né innkeyrsluna lengur. Bíllinn er enn til og á lögheimili á Egilsstöðum. Hann hefur lifað mun lengur en ég bjóst við en yfirhalningin var líka gríðarleg og ástandið gott á eftir. Það hefur því ekki gengið eftir sem ég skrifaði forðum, að "hann tæki aldrei annan ökumann í sátt". Svona breytast hlutirnir endalaust.....fátt er lengur eins og það var. Flest er betra, örfátt síðra en annað er bara einfaldlega öðruvísi. Hversvegna ættu hlutir líka alltaf og ævinlega að vera eins?

 

Mikið held ég að það gæti leitt til leiðinlegs lífs.

Svo má vel bæta því við að sjúkrabíllinn fór Hellisheiði eystri á tuttuguogfimm mínútum - enda til enda. Skyldi það nú hafa verið skemmtilegra? Nei, hreint ekki. Þrjú hundruð hestöfl, ætluð til að koma sjúklingum hratt og örugglega undir læknishendur, en gera ekki rassgat í ferðalagi. Hvað er unnið við afl og hraða þegar maður er að skoða landið og njóta? Hvað ef allur tölvubúnaðurinn sem býr til þessi þrjú hundruð hestöfl hefði nú bilað á Hellisheiði eystri?

Þá ætti ég einfaldlega hvítan, rauðan og gulgrænan sumarbústað á Austfjörðum!

Skiljiði nú hvað ég er að meina með þessum gamla, afllitla Benz húsbíl sem bíður yfirhalningar hér utandyra?


Í Höfðaborg er sól, vindur og kalt. Fyrirtaks gluggaveður og það er gott að sinna inniverkum í svona veðri. Þess vegna ætla ég núna að standa upp frá tölvunni, leggja frá mér kaffibollann, ganga niður stigann og taka mér rafsuðu í hönd.......

03.05.2015 09:25

Jómfrúarsigling!


 Ekki veit ég hvers vegna fyrstu ferðir skipa hafa verið kallaðar jómfrúarferðir (eða jómfrúrferðir, hversu undarlegt sem það er). Þetta sama gildir um fleiri farartæki, s.s. flugvélar. 

Einhvern tíma var mér sagt að norður í Aðalvík hefði mátt finna innihurðir í húsum merktar áletrunum eins og "Skipsjómfrú" Ég sel það ekki dýrara en keypt var, en kannski þekkir þetta einhver af eigin raun. Þessar hurðir munu þá hafa verið komnar úr flaki Goðafoss, sem eins og allir vita strandaði við Straumnesið árið 1916. Kannski er einhver tenging milli skipsjómfrúa og jómfrúarsiglinga en ég bara þekki það ekki. 

Til að gera langa sögu stutta þá fór kajakinn sem kynntur var til sögunnar hér á dögunum sem viðbót við skipastól eiganda síns, sína jómfrúarferð í gær, laugardag 2.maí. Prófunin fór fram í blíðskaparveðri við Hafravatn. Það villir samt kannski dálítið, sólskinið því golan var ísköld enda snjóaði síðar um kvöldið. 

Þegar ég var yngri en tíu ára gutti á Seljalandsvegi 68 á Ísafirði (ég nota þessa viðmiðun því ég var á tíunda ári þegar við fluttum af Seljalandsveginum og tímabundið suður til Reykjavíkur)  þá var ég alltaf að smíða. Það voru smíðaðir bátar og það voru smíðaðir kassabílar. Smíðisgripirnir vöktu hvorki hrós né aðdáun enda var slíkt lítt þekkt á Seljalandsveginum. Þeir vöktu hins vegar nokkra athygli fyrir þá sök að yfirleitt prófaði ég gripina ekki sjálfur - ég notaði s.k. "stuntmann" til þeirra hluta. Hæg voru heimatökin því Fríða systir var of lítil til að skilja hætturnar af prófununum og var því sjálfsögð í hlutverkið - hún var líka of lítil til að geta ýtt kassabíl og því varð ég sjálfur að sinna því. Það kom fyrir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að við vorum stoppuð á síðustu metrunum við prófanir á nýjum gerðum kassabíla (sem oftar en ekki voru gerðir úr "klósettkössum", slík apparöt komu þá í trégrindum sem með hæfilegu hugmyndaflugi líktust Willysjeppa) eða á nýjum bátsgerðum, sem í flestum tilfellum voru tvö "tommu-sex" borð, negld saman til endanna, spennt út í miðjunni og botninn negldur í með afgangs spýtustubbum frá öllum nýbyggingunum í kring. Þetta var á þeim tíma sem verið var að byggja upp Miðtúnið og Sætúnið og því nóg af efnivið í nágrenninu. Naglar voru keyptir hjá Óla í timburversluninni Björk, slatti í poka á tíkall eða þar um bil. Kannski hefur það líka slegið á hrifninguna hjá pabba að sagirnar hans voru flestar orðnar bitlausar auk þess sem þær og önnur verkfæri áttu til að "gleymast" úti í garði þegar kallað var til matar eða svefns og því oft ærið ryðguð að morgni.

Nú er ég kominn út á tún í frásögninni, megininntakið var þetta að ég prófaði ekki sjálfur það sem mig grunaði að gæti verið hættulegt. ( hér er rétt að taka fram að Fríða systir slapp ósködduð frá öllu saman og lifir góðu lífi ). Allt ofanritað rifjaðist upp fyrir mér í gær þegar við sonurinn fórum upp að Hafravatni til að prófa nýja kajakinn og það var eiginlega synd að Fríða systir skyldi ekki vera með líka.

Við byrjuðum á því að setja skipið á kerru og síðan var gamla hrossadráparanum beitt fyrir......



Reyndar var öll fjölskyldan viðstödd að Áróru undanskilinni. Hún var að vinna á Hvalasýningunni og hafði því ekki tíma til að fíflast. Verzlínan var hins vegar viðstödd enda í stúdentsprófs - lestrarpásu.



Svo var fleytt, og "stuntmaðurinn" settist um borð. Mér þótti semsagt betra að láta annan fara fyrstu ferð ef ske kynni...............:



......svo kom að því að hann nennti ekki lengur að hlusta á fyrirlestur um öryggismál heldur ýtti sér af stað - allt í einu var hann lagður frá landi. Nærri 32ja ára gamall í fyrsta sinn á ævinni á kajak:



Það var ekki liðinn langur tími þegar ljóst var að hann langaði ekkert í land aftur:



Við Bergrós Halla fylgdumst með í ofvæni - skyldi bátnum hvolfa eða kæmist drengurinn aftur til sama lands?



Hann kom aftur og leiddist greinilega ekki!



Edilon Bassi Breiðfjörð fylgdist vel með aðförunum og stjáklaði jafnframt sjálfur í fjöruborðinu. Hann stóð oftar en ekki í hné og svolgraði Hafravatn með slíkum ákafa að við vorum farin að fylgjast með dýpinu......




Svo var það stöðugleikaprófið. Arnar Þór taldi bátinn standast það þokkalega en var ekki viss um hvort hann myndi æfa þetta á rúmsjó:




Þá var komið að stóru stund útgerðarmannsins. Eins og að ofan greinir er ég þaulvanur alls konar byttum frá barnsaldri og þessi kom svo sem ekkert á óvart. Ég verð þó að segja að hann hafði ýmsa kosti fram yfir tommu sex með trébotni....






Edilon B. Breiðfjörð fylgdist með meistara sínum fjarlægjast:




Það er ljótt að skilja útundan og þessvegna varð hann auðvitað að fá að prófa líka. Bassi lætur eitt og annað yfir sig ganga og kajakferð var ekki undanskilin:








Svo var honum hleypt upp á bryggjustúfinn sem þarna er og Arnar Þór fékk aðra salibunu út á vatn. Eftir það var báturinn tekinn á land og settur á kerruna að nýju. Næstu skref voru rædd af alvöru og ákvarðanir teknar. Veðrið var enn gott og þó dökkir bakkar sæjust nálgast úr austri var ákveðið að leggja í ferðalag um kvöldið - með kerruna í eftirdragi. 

Viljiði vita hvernig það ferðalag endaði??


Það endaði svona:




............................................................................................

  • 1
Flettingar í dag: 153
Gestir í dag: 71
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135120
Samtals gestir: 27893
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:59:02


Tenglar