Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


03.05.2015 09:25

Jómfrúarsigling!


 Ekki veit ég hvers vegna fyrstu ferðir skipa hafa verið kallaðar jómfrúarferðir (eða jómfrúrferðir, hversu undarlegt sem það er). Þetta sama gildir um fleiri farartæki, s.s. flugvélar. 

Einhvern tíma var mér sagt að norður í Aðalvík hefði mátt finna innihurðir í húsum merktar áletrunum eins og "Skipsjómfrú" Ég sel það ekki dýrara en keypt var, en kannski þekkir þetta einhver af eigin raun. Þessar hurðir munu þá hafa verið komnar úr flaki Goðafoss, sem eins og allir vita strandaði við Straumnesið árið 1916. Kannski er einhver tenging milli skipsjómfrúa og jómfrúarsiglinga en ég bara þekki það ekki. 

Til að gera langa sögu stutta þá fór kajakinn sem kynntur var til sögunnar hér á dögunum sem viðbót við skipastól eiganda síns, sína jómfrúarferð í gær, laugardag 2.maí. Prófunin fór fram í blíðskaparveðri við Hafravatn. Það villir samt kannski dálítið, sólskinið því golan var ísköld enda snjóaði síðar um kvöldið. 

Þegar ég var yngri en tíu ára gutti á Seljalandsvegi 68 á Ísafirði (ég nota þessa viðmiðun því ég var á tíunda ári þegar við fluttum af Seljalandsveginum og tímabundið suður til Reykjavíkur)  þá var ég alltaf að smíða. Það voru smíðaðir bátar og það voru smíðaðir kassabílar. Smíðisgripirnir vöktu hvorki hrós né aðdáun enda var slíkt lítt þekkt á Seljalandsveginum. Þeir vöktu hins vegar nokkra athygli fyrir þá sök að yfirleitt prófaði ég gripina ekki sjálfur - ég notaði s.k. "stuntmann" til þeirra hluta. Hæg voru heimatökin því Fríða systir var of lítil til að skilja hætturnar af prófununum og var því sjálfsögð í hlutverkið - hún var líka of lítil til að geta ýtt kassabíl og því varð ég sjálfur að sinna því. Það kom fyrir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að við vorum stoppuð á síðustu metrunum við prófanir á nýjum gerðum kassabíla (sem oftar en ekki voru gerðir úr "klósettkössum", slík apparöt komu þá í trégrindum sem með hæfilegu hugmyndaflugi líktust Willysjeppa) eða á nýjum bátsgerðum, sem í flestum tilfellum voru tvö "tommu-sex" borð, negld saman til endanna, spennt út í miðjunni og botninn negldur í með afgangs spýtustubbum frá öllum nýbyggingunum í kring. Þetta var á þeim tíma sem verið var að byggja upp Miðtúnið og Sætúnið og því nóg af efnivið í nágrenninu. Naglar voru keyptir hjá Óla í timburversluninni Björk, slatti í poka á tíkall eða þar um bil. Kannski hefur það líka slegið á hrifninguna hjá pabba að sagirnar hans voru flestar orðnar bitlausar auk þess sem þær og önnur verkfæri áttu til að "gleymast" úti í garði þegar kallað var til matar eða svefns og því oft ærið ryðguð að morgni.

Nú er ég kominn út á tún í frásögninni, megininntakið var þetta að ég prófaði ekki sjálfur það sem mig grunaði að gæti verið hættulegt. ( hér er rétt að taka fram að Fríða systir slapp ósködduð frá öllu saman og lifir góðu lífi ). Allt ofanritað rifjaðist upp fyrir mér í gær þegar við sonurinn fórum upp að Hafravatni til að prófa nýja kajakinn og það var eiginlega synd að Fríða systir skyldi ekki vera með líka.

Við byrjuðum á því að setja skipið á kerru og síðan var gamla hrossadráparanum beitt fyrir......



Reyndar var öll fjölskyldan viðstödd að Áróru undanskilinni. Hún var að vinna á Hvalasýningunni og hafði því ekki tíma til að fíflast. Verzlínan var hins vegar viðstödd enda í stúdentsprófs - lestrarpásu.



Svo var fleytt, og "stuntmaðurinn" settist um borð. Mér þótti semsagt betra að láta annan fara fyrstu ferð ef ske kynni...............:



......svo kom að því að hann nennti ekki lengur að hlusta á fyrirlestur um öryggismál heldur ýtti sér af stað - allt í einu var hann lagður frá landi. Nærri 32ja ára gamall í fyrsta sinn á ævinni á kajak:



Það var ekki liðinn langur tími þegar ljóst var að hann langaði ekkert í land aftur:



Við Bergrós Halla fylgdumst með í ofvæni - skyldi bátnum hvolfa eða kæmist drengurinn aftur til sama lands?



Hann kom aftur og leiddist greinilega ekki!



Edilon Bassi Breiðfjörð fylgdist vel með aðförunum og stjáklaði jafnframt sjálfur í fjöruborðinu. Hann stóð oftar en ekki í hné og svolgraði Hafravatn með slíkum ákafa að við vorum farin að fylgjast með dýpinu......




Svo var það stöðugleikaprófið. Arnar Þór taldi bátinn standast það þokkalega en var ekki viss um hvort hann myndi æfa þetta á rúmsjó:




Þá var komið að stóru stund útgerðarmannsins. Eins og að ofan greinir er ég þaulvanur alls konar byttum frá barnsaldri og þessi kom svo sem ekkert á óvart. Ég verð þó að segja að hann hafði ýmsa kosti fram yfir tommu sex með trébotni....






Edilon B. Breiðfjörð fylgdist með meistara sínum fjarlægjast:




Það er ljótt að skilja útundan og þessvegna varð hann auðvitað að fá að prófa líka. Bassi lætur eitt og annað yfir sig ganga og kajakferð var ekki undanskilin:








Svo var honum hleypt upp á bryggjustúfinn sem þarna er og Arnar Þór fékk aðra salibunu út á vatn. Eftir það var báturinn tekinn á land og settur á kerruna að nýju. Næstu skref voru rædd af alvöru og ákvarðanir teknar. Veðrið var enn gott og þó dökkir bakkar sæjust nálgast úr austri var ákveðið að leggja í ferðalag um kvöldið - með kerruna í eftirdragi. 

Viljiði vita hvernig það ferðalag endaði??


Það endaði svona:




............................................................................................

Flettingar í dag: 393
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79220
Samtals gestir: 18493
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 19:17:22


Tenglar