Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


Færslur: 2013 September

30.09.2013 20:05

Fimmti hluti - frá Reykhólum og eitthvað áleiðis heim.

Í niðurlagi síðasta  (fjórða) hluta lýsti ég því yfir að heimferðin sem hófst að morgni föstudagsins fyrir verslunarmannahelgi hefði verið samfellt ævintýri - eða eitthvað á þá leið. Mér finnst eiginlega ekki rétt að kenna þennan pistil við Skálmarnesmúla því nú er sögusviðið mun sunnar og því setti ég þetta nafn yfir skrifin. 

Kýlum á ´ða.....

Föstudagurinn heilsaði jafn bjartur og síðustu forverar hans. Að loknum hefðbundnum morgunverkum var sjúkrabíllinn trekktur í gang og lagt af stað heim. Við reiknuðum með krókóttri leið, okkur lætur illa að aka beint og því lá fyrsti áfangi niður að Þörungavinnslunni þar sem við litum á bryggjumannvirki og skip af ýmsum stærðum. Svo var það kirkjan. Reykhólakirkja er stór, steinsteypt kirkja og afar fallegt guðshús, fannst okkur. Hún stendur á einum mest áberandi stað þorpsins og blasir við úr öllum áttum. Við gengum inn og lituðumst um:



Eins og sést er kirkjan jafnvel enn fallegri innandyra. Prédikunarstóllinn þótti okkur sérstakur, á honum er mikill útskurður og ofan við hann er útskurðarverk eftir Svein heitinn Ólafsson myndskera frá Lambavatni á Rauðasandi, móðurbróður Elínar.





Ekki man ég hver gerði þessar sérstöku postulamyndir framan á prédikunarstólnum en sannarlega eru þær snilldarverk:



Frá kirkjunni héldum við að bátasafni Breiðafjarðar. Bakvið safnið liggja leifarnar af honum Mora frá Morastöðum í Kjós. Kannski rekur einhverja minni til þess að ég skrifaði um Mora fyrir nokkrum árum, þá nýbúinn að eignast hann. Ég keypti hann norður á Hólmavík í þeim eina tilgangi að fá úr honum vélina, sem var nýlegur öndvegisgripur. Skrokkinn tók ég ekki því afkomendur bátasmiðsins höfðu falast eftir honum. Ekkert varð þó úr og þegar fyrispurn kom frá seljandanum um hvort ég hefði nokkuð á móti því að bátasafnið fengi skrokkinn samþykkti ég að sjálfsögðu. Mori var því sóttur á safnsins vegum og komið fyrir þarna í grasinu bak við safnhúsið. Hins vegar held ég að hann hafi lokið sínu hlutverki og sé of illa farinn til uppgerðar - en maður veit svo sem aldrei....

Efri myndirnar eru teknar á Hólmavík sumarið 2007, sú neðsta nú í júlílok á Reykhólum:









Ég bað hana Elínu Huld að reyna að stilla myndavélina betur, svo ég sýndist ekki svona helvíti feitur, því það er ég sko alls ekki. Hún hefur margreynt en finnur bara ekki þessa réttu stillingu.

Á grasbletti handan götunnar og andspænis safnhúsinu stóðu þessir tveir öldungar í sparifötunum, tilbúnir á sjó. Eins og þeir vita sem til þekkja varð ekkert úr hópsiglingu safnbáta og annarra súðbyrðinga nú í ár vegna veðurútlits (og óveðurs sem sannarlega kom...) en þessir tveir áttu að taka þátt í siglingunni. 



....og þessi þá líklega einnig:



Það var ekki búið að opna safnið þennan föstudag og svo snemma vorum við á ferðinni að enn var nokkuð í opnun. Við ákváðum að nota veðurblíðuna til að ferðast í stað þess að bíða, svo leiðin lá inn með Reykjanesi í átt að Bjarkalundi. Á myndinni að neðan er horft til austurs / suðausturs, lengst til hægri er Fellsströnd en hnjúkurinn sem rís upp úr speglinum vinstra megin tilheyrir nesinu sem á mínu korti heitir ekki neitt en skilur milli Berufjarðar og Króksfjarðar.



...og þessar tvær myndir sýna öðrum betur hvernig veðrið var þennan föstudagsmorgun fyrir verslunarmannahelgi. Á neðri myndinni hægra megin rís kletturinn Bjartmarssteinn, yst á Borgarlandi upp úr lygnunni.



Neðan við veginn milli Reykhóla og Bjarkalundar stendur býlið Seljanes. Ábúandinn, Magnús Jónsson, er með hirðusamari mönnum og hefur með árunum komið sér upp miklu safni alls kyns muna. Þar fer mest fyrir farartækjum af ýmsum gerðum og eru flest utandyra en innandyra má finna smámunasöfn af öllu mögulegu tagi. Ég hafði oft heyrt af safninu á Seljanesi en einhverra hluta vegna alltaf ekið framhjá. Nú skyldi úr bætt og við snerum sjúkrabílnum niður heimtröðina. Frá þjóðveginum blasti þessi aldni landbúnaðarvillís við 
og var samstundis festur á flögu:



Það kom í ljós að safnið  - þ.e. sá hluti þess sem innandyra er, er í góðum steinsteyptum húsum á rúmgóðu bæjarhlaði. Þegar við renndum inn á hlaðið tók þessi vinalegi, sjálfskipaði safnvörður á móti okkur og fagnaði ákaft við litla hrifningu Edilons Bassa sem þótti afskiptasemin keyra úr hófi:


Magnús tók svo sjálfur á móti okkur, leiddi okkur um húsin og sýndi söfnin. Einstaklega skemmtilegur maður, Magnús og vel fróður um allt sitt dót. Hann var stoltur af dráttarvélunum sínum og mátti vel vera það:



Það tók mig tvö augnablik að þekkja þessa Póbedu sem stóð undir innvegg. Í framhaldinu sagði ég Magnúsi söguna um Póbeduna sem stóð inni í skúr ofan við Hlíðarveg á Ísafirði. Bæjarkallarnir áttu að rífa skúrinn en þótti illt að henda bílnum svo hann var dreginn inn í áhaldahús og settur þar í gang. Síðan var rifið úr honum allt gler og annað það sem valdið gat börnum hættu, og honum loks komið fyrir á lóð "Dagheimilisins" við Hlíðarveg. Þar grotnaði Póbedan niður á nokkrum árum og var að endingu urðuð á ruslahaugunum. Ég man vel eftir þeim bíl á götum Ísafjarðar. Þetta var tvílit Póbeda, dökkbrún eða koparlituð neðan og ljósleit ofan miðju. Þessi íhaldsbláa Póbeda hans Magnúsar hefði líklega verið litin hornauga í alþýðulýðveldinu austurfrá:



Ef einhver er að velta fyrir sér afturljósinu sem sést hægra megin á Póbedumyndinni þá er þar "venjulegur" Cevrolet BelAir ´55. Ég segi venjulegur, því af þessum bílum var á sínum tíma til heill mýgrútur, m.a. sem leigubílar,  og enn er nokkur fjöldi þeirra til í fínu formi.

Hér fyrir neðan er hins vegar merkilegt apparat. Þetta er frambyggður Willy´s FC 150 en af þeim var takmarkaður fjöldi til hér á Íslandi. Þeir voru ýmist með palli eða heimasmíðuðu farþegahúsi en þóttu sem slíkir afar valtir. Ég mátti til að segja Magnúsi frá því þegar ég horfði á einn svona hreinlega hendast á hausinn í Bæjarbrekkunni á Ísafirði forðum daga. Sá kom á fullri ferð í glerhálku út Seljalandsveginn og beygði niður í Bæjarbrekkuna (það stoppaði enginn við stansmerkið hvort sem var....), snerist þvert í brekkunni og þótt glæran væri mikil og fyrirstaðan nær engin var hliðarhallinn apparatinu ofviða. Það fór beina leið á hliðina. Nokkrir hraustir menn gengu svo í að rétta vagninn af á höndum og eftir dálítið klapp neðan brekkunnar var honum ekið á braut - dálítið skrámuðum en það var svo sem ekkert sem truflaði Bjarna Þórðarson.....

Ég sagði Magnúsi líka frá Sjappanum (sem svo var kallaður fyrir austan) sem Leifi í Skálateigi í Norðfjarðarsveit átti og mixaði Benz-dísilvél í á sínum tíma, en átti í vandræðum með að mixa gírstöng á annan metra að lengd því vélin var svo aftarlega. Menn hafa reynt eitt og annað gegnum tíðina.........



Sjáiði gamla Landróverinn? Þessi er nauðalíkur þeim sem Hermann heitinn Jakobsson ók um götur Ísafjarðar forðum. Og Saabinn, maður! Áttatíu módelið af níutíuogníu Saab, nákvæmlega eins og pabbi gamli keypti nýjan! Úti í horni er svo lítt merkilegur, japanskur hrísgrjónabrennari....



Kannski kannast einhver við númer á veggnum hans Magnúsar. Þau eru allavega nokkur kunnugleg með bókstafnum -Í-



Farmallinn var klár í slaginn, flottur og í toppstandi. Hann þykir kannski ekkert stór í dag, samanborið við nýtísku tölvutraktora. Það er hins vegar stórt nafn, INTERNATIONAL og mér er ekki kunnugt um neinn nýtískutraktor með því nafni. - hvað þá McCormick - International eins og þessi heitir. 



Það verður að víkja nokkrum orðum að þessum Chevrolet vörubíl. Hann yljaði nefnilega dálítið um hjartarætur, því samskonar bíl átti pabbi gamli á árunum 1964-66. Það var árgerð 1957, með sex strokka bensínvél og skráningarnúmerinu Í- 549. Bíllinn var keyptur úrbræddur af Kaupfélagi Ísfirðinga og vélin var send suður í uppgerð hjá Þóri Jónssyni (Þ.Jónsson hf.) Bíllinn sjálfur, sem hafði verið blár með hvítan topp var svo sprautaður vínrauður í áhaldahúsi Vegagerðarinnar við Hjallaveg á Ísafirði. Þessi bíll skapaði fjölskyldunni viðurværi allt til hausts 1966 þegar við fluttum suður. Þá eignaðist bílinn Eggert Lárusson skipasmiður og ók honum í fjölda ára. Ég veit ekki hvað varð um bílinn eftir það en smá-vitneskjubrot, nýtilkomið gæti lengt söguna dálítið....





Þessi jarðýta virtist í prýðilegu standi. Hún er af gerðinni International, eins og Farmallinn ofar, og stendur vel undir nafni. Hér í eina tíð þekkti maður aðeins tvær gerðir af jarðýtum: International, sem jafnan var kölluð Nalli, og Caterpillar. Menn voru annað hvort Caterpillar menn eða Nal-menn og rígurinn gat verið svona eins og milli Selfoss og Hveragerðis - eða Ísafjarðar og Bolungavíkur, svo notað sé nærtækara dæmi. Siggi heitinn Sveins á Góustöðum átti bara Nalla, enda gegnheill framsóknarmaður og verslaði aðeins við SÍS, sem var umboðsaðilinn. Veturliði Veturliðason á Úlfsá átti hins vegar aðeins Kötur. Þó stóðu Góustaðir og Úlfsá hlið við hlið, og standa enn. Svona er heimurinn skrýtinn......



Enn skal minnt á að í myndaalbúmunum hér efst á síðunni er eitt sem heitir Skálmarnesmúli, og verður opið og aðgengilegt er pistlinum lýkur. Þar má sjá allar birtar myndir og fleiri til, stækkanlegar að vild.
..............................................................................................................

Við þökkuðum Magnúsi bónda fyrir leiðsögnina og velviljann. Sjúkrabílnum var snúið á braut og næsti áfangastaður okkar var nafnlausa nesið sem allt eins gæti heitið Borgarnes eftir býlinu sem á því stendur. 



Eins og fram kom ofar ( og sést á kortinu) skilur þetta fallega nes milli Króksfjarðar og Berufjarðar. Út eftir því liggur greiður vegur sem endar í fjörunni neðan við tún á sunnan (austan)verðu nesinu. Þaðan er stutt gönguleið út að hnjúknum sem hæst ber yst á nestánni. Myndin hér að neðan er tekin á leið út nesið og sýnir eina af klettaborgunum sem gefa nesinu sinn sérstaka svip: 



...og hér að neðan er Elín Huld að horfa út á Breiðafjörðinn. Hún er ekki að fórna höndum, dolfallin yfir fegurðinni (sem vissulega hefði þó verið skiljanlegt) heldur er hún að verjast kríuágangi, sem þarna var nokkur. M.a.s. Bassa var ekki sama um lætin og má marka af því að Elín steig aldrei svo skref að ekki fylgdi Bassi í fótsporin. Bilið milli þeirra á myndinni er alls ekki venjulegt...

Það er Klofningsfjall sem ber í baksýn vinstra megin.



Hér að neðan er svo horft dálítið austar og húsin í Króksfjarðarnesi ber í miðja mynd.



Á leiðinni til baka inn nesið mynduðum við býlið að Borg. Þetta er snyrtilegasta býli en varla stórt á nútímamælikvarða. Það er eins gott að dráttarvélin sem slær flötina neðan bæjarins sé ekki völt!



Hér er horft frá Borg austur yfir totu af Króksfirði sem teygir sig inneftir öllu:



Það var sannarlega veður til að mynda Vaðalfjöllin og þessi er tekin af ofanverðu nesinu, rétt áður en við ókum inn á þjóðveg sextíu og snerum til suðurs:



Það var varla miður dagur enn og nóg eftir af góða veðrinu. Við ákváðum því að bregða aðeins af leið og aka niður að gömlu sláturhúsunum í Króksfjarðarnesi. Á leið þangað niðureftir rákumst við á þessa merkilegu heyrúllustæðu. Sá eða sú sem merkti hefur semsagt ákveðið að eyða frekar komandi verslunarmannahelgi í Króksfjarðarnesi en í Eyjum. Gott val.....



Niðri við hrörnandi byggingar og bryggjumannvirki stóð þessi höfðingi og má muna tímana tvenna:



Og svo var það þessi tvenna sem gerði mig alveg kjaftstopp. Hvaðan komu þessir tveir risabjörgunarbátar, hvernig komu þeir, á hvers vegum eru þeir og til hvers eru þeir ætlaðir? Þetta eru sextíu manna bátar - hvor um sig og hvorugur er af íslensku skipi. Einhver hefur læagt í talsverðan kostnað við að koma þessum bátum á staðinn og einhverjar hljóta fyrirætlanir að vera - en hverjar???







Ef eitthvað er að marka  hann Google, sem oft hefur reynst mér vel, þá er báturinn sem merktur er RINGHORNE ESSO líkast til af olíuborpalli í Norðursjó. Sá sem er merktur JOTUN A gæti hins vegar verið af samnefndu sextíuogfimm þúsund tonna olíu - þjónustu/birgðaskipi.

Kannski veit einhver meira....

Niðurlag ferðarinnar er væntanlegt á næstu dögum. Ég er kominn með mikið efni uppsafnað enda rúmir tveir mánuðir frá því Skálmarnesmúli var heimsóttur og á þessum tveimur mánuðum hefur ýmislegt drifið á dagana eins og nærri má geta. 

....en þetta kemur allt.....



18.09.2013 07:37

Skálmarnesmúli - fjórða atlaga.

Þar sem  þriðja hluta lauk var horft heim að Deildará, næstvestasta býlinu á Skálmarnesi. Við ókum í rólegheitum á nær eggsléttum malarvegi út sveitina framhjá eyðibýlinu Hamri sem stendur spölkorn neðan við veg. Ekki virtist Hamar vera í hirðu þótt reisulegt íbúðarhúsið sýndist í þokkalegu ástandi. Heimtröðin var gróin og hálf ógreinileg og sýnilegt að afar sjaldan var ekið um hana. Heim að Ingunnarstöðum var annað að sjá - þar stóð bíll við bæ og allt var þar hið snyrtilegasta. Íbúðarhúsið lítið en laglegt og flest eða öll útihús voru horfin, annaðhvort rifin eða fallin og gróið yfir rústir.



Þá var aðeins eftir ysti og austasti / syðsti  bærinn, fyrrum stórbýlið sem bar nafn nessins og fjallsins í senn, kirkjustaðurinn Skálmarnesmúli. Leiti bar á milli og Elín skaut einni skýjamynd út um bílgluggann. Til hægri sér á ysta hluta nessins og ber Snæfellsjökul yfir hann.



Hér að neðan er dregið aðeins til og Snæfellsjökull sést skafheiður handan flóans. Lánið hefur sannarlega leikið við þá ferðalanga sem áttu leið um Jökulhálsinn og á sjálfan jökulinn þennan dag. Á þessum slóðum höfðum við verið í næstu ferð á undan og fengið svipað veður. Nú vorum við handan Breiðafjarðar og þrátt fyrir slæmt veður dagana áður nutum við enn álíka blessunar.....



Svo birtust húsin á Skálmarnesmúla og við fetuðum heimtröðina í átt að kirkjunni. Hún er , eins og sjá má, afar falleg og snyrtileg. Við hlið hennar er kirkjugarðurinn, einnig vel hirtur og snyrtilegur. Í baksýn sér nes í fjarskanum. Það má leiða getum að því að það sé Skarðströnd og Klofningur yst til hægri. 



Við skiptumst á að mynda og þessi velheppnaða mynd sýnir, talið frá vinstri, sjúkrabíl, kirkjugarð, kirkju, Elínu Huld og Edilon Bassa Breiðfjörð. Í baksýn er svo Skálmarnesmúlafjall (ef ég bregð fyrir mig nafninu sem notað er á fjallið á gamla herforingjaráðskortinu mínu)



Okkur til vonbrigða var kirkjan kyrfilega læst, reyndar svo læst að gegnum hespurnar á hurðinni voru skrúfaðar skrúfur. Það dugðu því engir lyklar á þessar dyr. Við urðum  að láta okkur nægja að mynda inn gegnum gler. Þótt myndin sé vissulega ekki góð má vel sjá að kirkjan er ekki síðri innan en utan og einhverjar lagfæringar virðast hafa staðið yfir þegar ráðist var í að skrúfa allt svo kyrfilega aftur. Þetta var verulega einkennilegt. 



 Við létum þessa myndatöku duga og röltum um staðinn. Neðan við kirkjuna stóð reisulegur sumarbústaður og við hann bíll. Nýsleginn blettur var í grennd og í slægjunni stóð maður með orf og ljá, greinilega ekki óvanur að beita þessháttar amboði. Við fikruðum okkur í átt til hans en mynduðum kirkjuna þó enn einu sinni í dálítið víðara horni. 



Þarna hefur eitt sinn staðið íbúðarhús. Kannski var það gamli bærinn sem þarna stóð, því litlu neðar stóð hvítt steinhús með rauðu þaki, ekki gamalt að sjá.



Maðurinn með ljáinn er kannski ekki sá sem fyrst kemur í hugann þegar menn langar að leita upplýsinga um eitthvað. Þessi "maður með ljáinn" var hins vegar klárlega ekkert tengdur þeim gamla og alræmda heldur ákaflega viðræðugóður fyrrum bóndi norðan úr Skagafirði, tengdur staðnum fjölskylduböndum. Hann reyndist aukinheldur nátengdur einum fyrrum samstarfsmanna minna og góðum félaga. Við áttum langt spjall þarna í sláttunni og ég fékk skýringu á harðlokuðu kirkjunni. Kirkjan er ekki ríkiskirkja heldur s.k. bændakirkja, þ.e. einkaeign býlisins. Fjölskyldumál valda því að ekki var messað í kirkjunni þetta sumarið og hún höfð lokuð. 



Litlu neðar stóð reisulegt íbúðarhús, rautt og hvítt eins og kirkjan. Það vakti þó eftirtekt að húsið virtist ekki í notkun heldur var neglt fyrir bæði glugga og dyr. Samt virtist ástand hússins gott, allavega svona utanfrá séð. Í ljós kom að um íbúðarhúsið gilti sama og um kirkjuna og það því haft lokað og læst.



 Við heimtröðina að bænum voru vegamót og vegurinn sem lá áfram út í nesið var merktur lokaður og einkavegur. Ég vissi að þar útfrá voru leifar flugvallarins sem eitt sinn var og mig langaði að enda leiðangurinn þar. Í loks spjallsins við skagfirska bóndann bað ég um leyfi til að aka þennan slóða á enda og var auðfengið. Við lögðum því enn af stað en tókum þessa mynd á leið til bíls. Á henni má sjá vestur um til Sigluness og enn utar Stálfjalls. 



Þetta skýjafar mátti EH til með að festa á (filmu??) og brún fjallsins í leiðinni. Það má vel giska á að það geti blásið hressilega niður af þessum brúnum í norðaustanátt - hvað þá snjóað!



Svo vorum við komin út á melinn sem eitt sinn var flugvöllur sveitarinnar. Ekki hefur þetta nú verið neinn alþjóðaflugvöllur en þó mikið öryggistæki fyrir þessa litlu og afskekktu byggð. Nú var fátt sýnilegt eftir, utan nokkrir blikk"hattar" sem eitt sinn höfðu verið skærrauðgulir að lit en voru nú sandblásnir og veðurbarðir. Allt fínt yfirborðsefni var fokið eða þvegið burt og þarna var varla nokkurri flugvél lendandi lengur fyrir grjóti og grastoppum. Útsýni er næst yfir Skálmarfjörð til Svínaness. Það er svo trúlega Reykjanes sem lengst skagar til hægri.





Á myndinni hér að neðan er enn horft af ysta hluta Skálmarness suður yfir Breiðafjörð út með Snæfellsnesi og jökullinn sést ógreinilega um miðja mynd. 



.....og hér líklega suður á Skarðströnd og fjær til Snæfellsness:



Hér að neðan er horft úr Skálmarnesi yfir flugvallarstæðið í átt til Múlatöflu, en svo nefnist ysti hluti þessa svipmikla fjalls.



Og enn er snúið 180 gráður og horft af nesinu til vesturs í átt til Sigluness og Stálfjalls fjær. Þarna er Rauðsendingurinn Elín Huld að reyna að súmma inn á sína ættarsveit en myndavélin nær ekki gegnum Stálfjallið - enda er Stálfjall ekki úr neinu pjátri!



Bílnum var snúið við á flugbrautinni og þar með var heimferðin hafin. Við mynduðum enn einu sinni yfir býlið Skálmarnesmúla (með síðari tíma viðbótum) um leið og við fikruðum okkur vegslóðann til baka. 



Í spjallinu við sláttumanninn kom einnig fram skýringin á því hvers vegna Hamar er eina býlið í sveitinni sem ekki er sinnt. Jörðin Hamar er í eigu sömu fjölskyldu og Skálmarnesmúli og heyrir þeirri jörð til. Ekki eru nein bein not fyrir húsin önnur en sem geymslur og því standa þau ósnert. Ég fékk leyfi til að rölta niður að Hamri og mynda húsin:



Íbúðarhúsið er enn hið myndarlegasta þrátt fyrir að hafa nokkuð látið á sjá. Líklega hefur verið vel vandað til þess á sínum tíma. Útihúsin eru öll síðri og munu trúlega ekki standa mörg ár enn.









Nú lá leiðin til baka að Firði, inn með hlíðinni að eiðinu og sem leið lá suðurúr aftur. Við Fjörð mátti Elín til að smella af einni skýjamyndinni enn, og ekki þeirri sístu.....



Okkur fannst kvölda hratt þó greitt væri ekið og það var farið að nálgast kvöldverðartíma þegar við komum suður í Gufudal. Við máttum til að renna aðeins fram að bæjum því þegar við vorum á ferðinni á Járntjaldinu sáluga  (sjá fyrsta hluta pistilsins) gistum við eitt sinn á litlu tjaldsvæði sem þarna var. Nú var fátt eftir utan eitt hjólhýsi sem greinilega var fastsett. hreinlætisaðstaðan var horfin og augljóslega enginn rekstur þarna núna. En fallegt er þar......





Áfram héldum við yfir hæsta háls og yfir í næsta fjörð, Djúpafjörð. Þar renndum við heim að bæ í Djúpadal, greiddum  sundlaugargjaldið, fengum lykil og í drjúga stund áttum við laugina og pottinn alein. Svo komu einhverjir túristar......

Garnirnar voru farnar að gaula verulega þegar við héldum af stað að nýju og næsti áfangastaður var Bjarkalundur. Þar var sest að hátíðarkvöldverði og að honum loknum ekið út að Reykhólum og búist til annarrar nætur. Að morgni var föstudagurinn fyrir verslunarmannahelgi, fyrsti dagur stærstu ferðahelgar ársins en lokadagur okkar ferðalags. Í rauninni lá ekkert annað fyrir en að aka suður en nokkra útúrdúra vorum við þó búin að setja upp ef veður leyfði.

Svo rann þessi föstudagur upp og heilsaði með glaða sólskini. Heimferðin varð enn eitt ævintýrið og frá henni segir í fimmta og síðasta hluta.







10.09.2013 10:00

Skálmarnesmúli - þriðja atlaga!

Það er gott að vera kominn heim á Höbbðann eftir þriggja vikna vinaheimsókn vestur á fjörðinn fríða (þar sem fjöllin skreyttust hvítu við brottför) og geta tekið til við áhugamálin aftur. Svo voru nokkur svona hjartans mál sem biðu ( "hjartans mál" mætti þýða hér sem "skammtímaáhugamál") og eitt þeirra var að ljúka þriðja hluta Skálmarnessmúlapistilsins en þeir tveir sem komnir eru voru skrifaðir fyrir vestan. Nóg um það - áfram nú!

...........................................................................................................

Við lukum við að tanka í Bjarkalundi og röltum í leiðinni inn á tjaldsvæði staðarins þar sem ég sá kunnuglegan Econoline ferðabíl. Gat ekki betur séð en þar færi Veigar Jónsson Ísfirðingur en engin hreyfing var sjáanleg í eða við bíl svo ég hypjaði mig aftur í sjúkrabílinn. Gekk á leiðinni fram hjá gömlum rúgbrauðs-húsbíl sem virtist vera fastsettur með landrafmagni í horni bílastæðisins. Þar þekkti ég gamla Járntjaldið hans Dúdda Guðmunds í Bílatanga en enginn var sjáanlegur við bílinn. Seinna frétti ég að Járntjaldið muni hafa skipt um eiganda.

Við ókum sem leið lá frá Bjarkalundi um Þorskafjörð og fyrir hann, yfir Hjallaháls til Djúpafjarðar og ég benti Elínu á sundlaugina góðu sem ég heimsótti snemma morguns daginn sem ég ók "Tveggja heiða túrinn" á svarta ferðadrekanum 2011 og lesa má um HÉR og HÉR. Við ákváðum að reyna að heimsækja þessa sundlaug í bakaleiðinni ef mögulegt væri. Áfram ókum við fyrir Djúpafjörð, yfir Ódrjúgsháls til Gufufjarðar og fyrir hann um Skálanes. Yst á nesinu hefur nýlagður vegur verið færður ofar í landið svo ekki er ekið um gamla bæjarhlaðið lengur. Að því er dálítil eftirsjá því mér fannst alltaf fylgja því sérstök tilfinning, jafnvel þó gamla kaupfélagsútibúið væri löngu aflagt og rútan frá Vestfjarðaleið stoppaði þar ekki lengur - enda Vestfjarðaleið ekki til lengur í þeirri mynd sem var. Reykti rauðmaginn og harðfiskurinn frá útibúi Kaupfélags Króksfjarðar á Skálanesi var eðlilegt ferðasnakk þess tíma þó lyktin í rútunni hafi kannski ekki alltaf farið vel í ferðafélagana - allavega ekki þá bílveiku.......

Frá Skálanesi var ekið inn Kollafjörð. Handan fjarðarmynnisins blasir eyðibýlið Bær á Bæjarnesi við, í torfæru vegasambandi við næsta fjörð vestar, Kvígindisfjörð. Séð heim að Bæ er snyrtilegt, enda mun býlið í eigu og hirðu stöndugs vélsmiðjueiganda í Hafnarfirði og á Reyðarfirði. 

Kollafjörðurinn er með fallegri fjörðum og þarf ekki blíðviðri til, en þennan dag bætti það heldur í og við ókum inn að botni í glampandi sól. Vestur úr fjarðarbotninum liggur Klettsháls um efstu brúnir Kvígindisfjarðar og niður í Skálmarfjörð. Klettsháls er nú malbikuð hraðbraut en samt mátti ég til að rifja enn einu sinni upp ferðalag vorið 1967, þegar ég var að flytja búferlum með foreldrunum frá Rvk heim til Ísafjarðar eftir vetursetu syðra. Þá var Klettsháls ein forarvilpa og nýju vörubílarnir tveir sem fluttu búslóðina okkar ásamt fleiru, þurftu snjókeðjur og sambindingu með sverum kaðli til að komast upp brekkurnar.  Þeir tímar eru sem betur fer liðnir, samgöngurnar gerbreyttar til hins betra og stöðugt verið að bæta...

Upprifjunin stóð stutt því sjúkrabíllinn þeyttist upp Klettsháls á stöðugum níutíu. Von bráðar vorum við uppi og við tók útsýni til vesturs, yfir Skálmarfjörð, Vattarnes og Skálmarnesið austanvert. Við horfðum einnig niður í Kvígindisfjörð til vinstri handar og út með nesjunum tveimur, Bæjarnesi austar og Svínanesi vestar. Svo lokaðist sýn til Kvígindisfjarðar og við runnum brekkurnar niður í Skálmarfjörð, markaðan Svínanesi að austan og Skálmarnesi að vestan. ( ég veit að þetta virkar dálítið ruglingslegt en treysti á að þeir sem lesa eigi landakort...)

Skálmarnes er eiginlega eins og þríhyrningur í laginu - langhliðin snýr að Skálmarfirði og hinar tvær að Kerlingarfirði og svo út í Breiðafjörðinn sjálfan. Nesið er hálent að mestu og láglendi er aðeins við þá hlið þríhyrningsins sem veit að Breiðafirði. Landmótunin hefur nánast gert Skálmarnesið að eyju, aðeins lágt eiði skilur milli þess og "meginlandsins". Um þetta eiði liggur Barðastrandarvegur og af því miðju liggur afleggjari út í Skálmarnes meðfram Kerlingarfirði austanverðum. Þegar við komum að þessum vegamótum stóð þar yfir mikil efnisvinnsla vegna vegarlagningar og brúarsmíði yfir Kerlingarfjörð og það var dálítið snúið að finna vegtenginguna. Það tókst þó á endanum og þar með var hafin atlaga að megináfanga og tilgangi ferðarinnar - sjálfu Skálmarnesinu.

Fyrsti hluti vegarins kom á óvart. Ég vissi ekki fyrirfram hverju við var að búast en með sjálfum mér hafði ég alltaf litið á þennan veg sem hálfófæran troðning og líklega var þessi fyrirfram gefna skoðun meginástæða þess að ég hafði ekki ferðast um þessar slóðir fyrr. Þegar ég svo sá og fann veginn framundan leið mér líkt og lýst var í síðari hluta "Tveggja heiða túrsins"  þegar ég lagði á Steinadalsheiði - mér fannst ég hálfpartinn svikinn! Vegurinn var eins og hraðbraut, nýheflaður og eggsléttur. Engin hár grashryggur í miðju, stórgrýti uppúr hjólförunum og úrrensli úr köntum, heldur vegur líkur þeim sem við Vestfirðingar hefðum gjarnan kosið yfir Þorskafjarðarheiði um árabil. Eina ástæðan fyrir því að sjúkrabílnum var ekki beitt á áttatíu út hlíðina var sú að við vildum drekka í okkur alla þá náttúrufegurð sem bar fyrir augu.





Eins og sjá má átti þessi vegur fátt sameiginlegt með veginum hans Elísar Kjarans út í Svalvoga í Dýrafirði og hún Elín Huld, sem hafði sumarið áður sigrast á bæði bíl - og lofthræðslu vestur við Rauðasand gat nú notið ferðarinnar til fulls. Þegar utar dró með fjallinu jókst undirlendið og þegar nálgaðist topphorn þessa þríhyrnings sem Skálmarnesið er og komið var þangað sem á korti heitir Kýrnes, var orðið talsvert rýmra milli fjalls og fjöru:



Á myndinni hér að neðan er horft út með nesinu í átt til Barðastrandar og það mun vera fjallið Blankur, utan við Brjánslæk sem þarna ber yst. Siglunesshlíðar eru þar handan við en ekki komnar í ljós.



......og hér fyrir neðan er horft um öxl inn Kerlingarfjörð í átt að vegstæðinu nýja sem þverar fjörðinn og er langt til fullgert.



Það er kannski rétt að lauma inn kortaklippu áður en lengra er haldið svo betra sé að átta sig á staðháttum. Við erum semsagt við Kýrnes á leið út að eyðibýlinu Firði:



.....og svo opnaðist allt í einu nýtt sjónarhorn, þegar við komum fyrir hornið og eyðibýlið blasti við. Eins og áður sagði, vissi ég engan veginn á hverju væri von þarna útfrá. Ég vissi að ysti bærinn, Skálmarnesmúli væri kirkjustaður og að messað væri þar einu sinni á ári eða svo, en um húsakost á þeim bæjum sem merktir eru á kort eða ástand þeirra húsa vissi ég ekkert. Við urðum því meira en lítið hissa þegar við komum út að Firði, þar sem sannarlega fátt minnti á eyðibýli. Ekki var annað að sjá en þarna væri grásleppuútgerð í fullri drift og það var hreint ekkert dauðalegt við þennan stað.



Neðan við býlið vaggaði tíu metra Gáski í legufærum, með netaspili ög öllu:



Á iðgrænum  túnbletti stóð enn grænni Deutz - dráttarvél með sláttuþyrlu sem sýnilega hafði verið beitt á blettinn:



Rétt hjá stóð öldruð Ferguson traktorsgrafa, talsvert farin að lýjast. Það var þó eitt og annað sem benti til þess að ekki væri svo ýkja langt frá því hún snerist síðast enda lifir lengi í gömlum glæðum:



Heima við bæ stóð þessi stæðilegi fjögurra öxla krana/vörubíll og hefur örugglega ekki verið þar í nenu tilgangsleysi enda á númerum og greinilega í notkun. Annar grásleppubátur stóð við fjárhúsvegginn:



Þessi útihús stóðu óvenju vel af "eyðibýli" að vera. Það má rétt vera að engin búseta sé að Firði lengur yfir vetrarmánuðina en allt bar með sér að þar væri búið alla aðra mánuði ársins - og búið vel. Handan við hlöðuhornið gægist annar gamall Ferguson fram, hans hlutverkum er lokið, öðrum en að þjóna sem varahlutalager:



Áfram héldum við frá Firði og vorum nú komin fyrir hornið og leiðin lá meðfram nýrri hlið þríhyrningsins. Vegurinn var sem fyrr eins og hraðbraut og framundan var næsta býli, Deildará. Til hægri brettist fjallsendinn, Múlatafla,  uppávið yfir kirkjustaðnum Skálmarnesmúla.



Ég vil ekki nota orðið "eyðibýli" yfir staði eins og þessa, því þótt föst búseta hafi á einhverjum tímapunkti lagst af og húsum jafnvel hnignað í kjölfarið hafa næstu kynslóðir - eða nýir eigendur -  tekið myndarlega til hendinni og það var, líkt og að Firði, fátt eyðilegt við sýnina heim að Deildará. Við bæinn var fólk á ferð á hestbaki og umhverfi húsa bar allan vott um að þar væru haldin hross.



Ég ætla að enda þriðja hluta hér og senda hann út vegna þess langa hlés sem orðið hefur frá öðrum hluta. Ég á í talsverðum vandræðum með myndirnar því allnokkrar þeirra virðast bilaðar og koma ekki fram eftir eðlilegum leiðum. Ég þarf því að sækja þær "lengri leiðina" sem þýðir að pistill á lengd við þennan þriðja hluta getur tekið allt að fjórum klst. í vinnslu. Mér þykir líklegt að pistillinn muni birtast í fimm hlutum, ef ekki tekst að laga myndbirtinguna. Gott í bili.....




....................................


  • 1
Flettingar í dag: 67
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135034
Samtals gestir: 27844
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:37:59


Tenglar