Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


30.09.2013 20:05

Fimmti hluti - frá Reykhólum og eitthvað áleiðis heim.

Í niðurlagi síðasta  (fjórða) hluta lýsti ég því yfir að heimferðin sem hófst að morgni föstudagsins fyrir verslunarmannahelgi hefði verið samfellt ævintýri - eða eitthvað á þá leið. Mér finnst eiginlega ekki rétt að kenna þennan pistil við Skálmarnesmúla því nú er sögusviðið mun sunnar og því setti ég þetta nafn yfir skrifin. 

Kýlum á ´ða.....

Föstudagurinn heilsaði jafn bjartur og síðustu forverar hans. Að loknum hefðbundnum morgunverkum var sjúkrabíllinn trekktur í gang og lagt af stað heim. Við reiknuðum með krókóttri leið, okkur lætur illa að aka beint og því lá fyrsti áfangi niður að Þörungavinnslunni þar sem við litum á bryggjumannvirki og skip af ýmsum stærðum. Svo var það kirkjan. Reykhólakirkja er stór, steinsteypt kirkja og afar fallegt guðshús, fannst okkur. Hún stendur á einum mest áberandi stað þorpsins og blasir við úr öllum áttum. Við gengum inn og lituðumst um:



Eins og sést er kirkjan jafnvel enn fallegri innandyra. Prédikunarstóllinn þótti okkur sérstakur, á honum er mikill útskurður og ofan við hann er útskurðarverk eftir Svein heitinn Ólafsson myndskera frá Lambavatni á Rauðasandi, móðurbróður Elínar.





Ekki man ég hver gerði þessar sérstöku postulamyndir framan á prédikunarstólnum en sannarlega eru þær snilldarverk:



Frá kirkjunni héldum við að bátasafni Breiðafjarðar. Bakvið safnið liggja leifarnar af honum Mora frá Morastöðum í Kjós. Kannski rekur einhverja minni til þess að ég skrifaði um Mora fyrir nokkrum árum, þá nýbúinn að eignast hann. Ég keypti hann norður á Hólmavík í þeim eina tilgangi að fá úr honum vélina, sem var nýlegur öndvegisgripur. Skrokkinn tók ég ekki því afkomendur bátasmiðsins höfðu falast eftir honum. Ekkert varð þó úr og þegar fyrispurn kom frá seljandanum um hvort ég hefði nokkuð á móti því að bátasafnið fengi skrokkinn samþykkti ég að sjálfsögðu. Mori var því sóttur á safnsins vegum og komið fyrir þarna í grasinu bak við safnhúsið. Hins vegar held ég að hann hafi lokið sínu hlutverki og sé of illa farinn til uppgerðar - en maður veit svo sem aldrei....

Efri myndirnar eru teknar á Hólmavík sumarið 2007, sú neðsta nú í júlílok á Reykhólum:









Ég bað hana Elínu Huld að reyna að stilla myndavélina betur, svo ég sýndist ekki svona helvíti feitur, því það er ég sko alls ekki. Hún hefur margreynt en finnur bara ekki þessa réttu stillingu.

Á grasbletti handan götunnar og andspænis safnhúsinu stóðu þessir tveir öldungar í sparifötunum, tilbúnir á sjó. Eins og þeir vita sem til þekkja varð ekkert úr hópsiglingu safnbáta og annarra súðbyrðinga nú í ár vegna veðurútlits (og óveðurs sem sannarlega kom...) en þessir tveir áttu að taka þátt í siglingunni. 



....og þessi þá líklega einnig:



Það var ekki búið að opna safnið þennan föstudag og svo snemma vorum við á ferðinni að enn var nokkuð í opnun. Við ákváðum að nota veðurblíðuna til að ferðast í stað þess að bíða, svo leiðin lá inn með Reykjanesi í átt að Bjarkalundi. Á myndinni að neðan er horft til austurs / suðausturs, lengst til hægri er Fellsströnd en hnjúkurinn sem rís upp úr speglinum vinstra megin tilheyrir nesinu sem á mínu korti heitir ekki neitt en skilur milli Berufjarðar og Króksfjarðar.



...og þessar tvær myndir sýna öðrum betur hvernig veðrið var þennan föstudagsmorgun fyrir verslunarmannahelgi. Á neðri myndinni hægra megin rís kletturinn Bjartmarssteinn, yst á Borgarlandi upp úr lygnunni.



Neðan við veginn milli Reykhóla og Bjarkalundar stendur býlið Seljanes. Ábúandinn, Magnús Jónsson, er með hirðusamari mönnum og hefur með árunum komið sér upp miklu safni alls kyns muna. Þar fer mest fyrir farartækjum af ýmsum gerðum og eru flest utandyra en innandyra má finna smámunasöfn af öllu mögulegu tagi. Ég hafði oft heyrt af safninu á Seljanesi en einhverra hluta vegna alltaf ekið framhjá. Nú skyldi úr bætt og við snerum sjúkrabílnum niður heimtröðina. Frá þjóðveginum blasti þessi aldni landbúnaðarvillís við 
og var samstundis festur á flögu:



Það kom í ljós að safnið  - þ.e. sá hluti þess sem innandyra er, er í góðum steinsteyptum húsum á rúmgóðu bæjarhlaði. Þegar við renndum inn á hlaðið tók þessi vinalegi, sjálfskipaði safnvörður á móti okkur og fagnaði ákaft við litla hrifningu Edilons Bassa sem þótti afskiptasemin keyra úr hófi:


Magnús tók svo sjálfur á móti okkur, leiddi okkur um húsin og sýndi söfnin. Einstaklega skemmtilegur maður, Magnús og vel fróður um allt sitt dót. Hann var stoltur af dráttarvélunum sínum og mátti vel vera það:



Það tók mig tvö augnablik að þekkja þessa Póbedu sem stóð undir innvegg. Í framhaldinu sagði ég Magnúsi söguna um Póbeduna sem stóð inni í skúr ofan við Hlíðarveg á Ísafirði. Bæjarkallarnir áttu að rífa skúrinn en þótti illt að henda bílnum svo hann var dreginn inn í áhaldahús og settur þar í gang. Síðan var rifið úr honum allt gler og annað það sem valdið gat börnum hættu, og honum loks komið fyrir á lóð "Dagheimilisins" við Hlíðarveg. Þar grotnaði Póbedan niður á nokkrum árum og var að endingu urðuð á ruslahaugunum. Ég man vel eftir þeim bíl á götum Ísafjarðar. Þetta var tvílit Póbeda, dökkbrún eða koparlituð neðan og ljósleit ofan miðju. Þessi íhaldsbláa Póbeda hans Magnúsar hefði líklega verið litin hornauga í alþýðulýðveldinu austurfrá:



Ef einhver er að velta fyrir sér afturljósinu sem sést hægra megin á Póbedumyndinni þá er þar "venjulegur" Cevrolet BelAir ´55. Ég segi venjulegur, því af þessum bílum var á sínum tíma til heill mýgrútur, m.a. sem leigubílar,  og enn er nokkur fjöldi þeirra til í fínu formi.

Hér fyrir neðan er hins vegar merkilegt apparat. Þetta er frambyggður Willy´s FC 150 en af þeim var takmarkaður fjöldi til hér á Íslandi. Þeir voru ýmist með palli eða heimasmíðuðu farþegahúsi en þóttu sem slíkir afar valtir. Ég mátti til að segja Magnúsi frá því þegar ég horfði á einn svona hreinlega hendast á hausinn í Bæjarbrekkunni á Ísafirði forðum daga. Sá kom á fullri ferð í glerhálku út Seljalandsveginn og beygði niður í Bæjarbrekkuna (það stoppaði enginn við stansmerkið hvort sem var....), snerist þvert í brekkunni og þótt glæran væri mikil og fyrirstaðan nær engin var hliðarhallinn apparatinu ofviða. Það fór beina leið á hliðina. Nokkrir hraustir menn gengu svo í að rétta vagninn af á höndum og eftir dálítið klapp neðan brekkunnar var honum ekið á braut - dálítið skrámuðum en það var svo sem ekkert sem truflaði Bjarna Þórðarson.....

Ég sagði Magnúsi líka frá Sjappanum (sem svo var kallaður fyrir austan) sem Leifi í Skálateigi í Norðfjarðarsveit átti og mixaði Benz-dísilvél í á sínum tíma, en átti í vandræðum með að mixa gírstöng á annan metra að lengd því vélin var svo aftarlega. Menn hafa reynt eitt og annað gegnum tíðina.........



Sjáiði gamla Landróverinn? Þessi er nauðalíkur þeim sem Hermann heitinn Jakobsson ók um götur Ísafjarðar forðum. Og Saabinn, maður! Áttatíu módelið af níutíuogníu Saab, nákvæmlega eins og pabbi gamli keypti nýjan! Úti í horni er svo lítt merkilegur, japanskur hrísgrjónabrennari....



Kannski kannast einhver við númer á veggnum hans Magnúsar. Þau eru allavega nokkur kunnugleg með bókstafnum -Í-



Farmallinn var klár í slaginn, flottur og í toppstandi. Hann þykir kannski ekkert stór í dag, samanborið við nýtísku tölvutraktora. Það er hins vegar stórt nafn, INTERNATIONAL og mér er ekki kunnugt um neinn nýtískutraktor með því nafni. - hvað þá McCormick - International eins og þessi heitir. 



Það verður að víkja nokkrum orðum að þessum Chevrolet vörubíl. Hann yljaði nefnilega dálítið um hjartarætur, því samskonar bíl átti pabbi gamli á árunum 1964-66. Það var árgerð 1957, með sex strokka bensínvél og skráningarnúmerinu Í- 549. Bíllinn var keyptur úrbræddur af Kaupfélagi Ísfirðinga og vélin var send suður í uppgerð hjá Þóri Jónssyni (Þ.Jónsson hf.) Bíllinn sjálfur, sem hafði verið blár með hvítan topp var svo sprautaður vínrauður í áhaldahúsi Vegagerðarinnar við Hjallaveg á Ísafirði. Þessi bíll skapaði fjölskyldunni viðurværi allt til hausts 1966 þegar við fluttum suður. Þá eignaðist bílinn Eggert Lárusson skipasmiður og ók honum í fjölda ára. Ég veit ekki hvað varð um bílinn eftir það en smá-vitneskjubrot, nýtilkomið gæti lengt söguna dálítið....





Þessi jarðýta virtist í prýðilegu standi. Hún er af gerðinni International, eins og Farmallinn ofar, og stendur vel undir nafni. Hér í eina tíð þekkti maður aðeins tvær gerðir af jarðýtum: International, sem jafnan var kölluð Nalli, og Caterpillar. Menn voru annað hvort Caterpillar menn eða Nal-menn og rígurinn gat verið svona eins og milli Selfoss og Hveragerðis - eða Ísafjarðar og Bolungavíkur, svo notað sé nærtækara dæmi. Siggi heitinn Sveins á Góustöðum átti bara Nalla, enda gegnheill framsóknarmaður og verslaði aðeins við SÍS, sem var umboðsaðilinn. Veturliði Veturliðason á Úlfsá átti hins vegar aðeins Kötur. Þó stóðu Góustaðir og Úlfsá hlið við hlið, og standa enn. Svona er heimurinn skrýtinn......



Enn skal minnt á að í myndaalbúmunum hér efst á síðunni er eitt sem heitir Skálmarnesmúli, og verður opið og aðgengilegt er pistlinum lýkur. Þar má sjá allar birtar myndir og fleiri til, stækkanlegar að vild.
..............................................................................................................

Við þökkuðum Magnúsi bónda fyrir leiðsögnina og velviljann. Sjúkrabílnum var snúið á braut og næsti áfangastaður okkar var nafnlausa nesið sem allt eins gæti heitið Borgarnes eftir býlinu sem á því stendur. 



Eins og fram kom ofar ( og sést á kortinu) skilur þetta fallega nes milli Króksfjarðar og Berufjarðar. Út eftir því liggur greiður vegur sem endar í fjörunni neðan við tún á sunnan (austan)verðu nesinu. Þaðan er stutt gönguleið út að hnjúknum sem hæst ber yst á nestánni. Myndin hér að neðan er tekin á leið út nesið og sýnir eina af klettaborgunum sem gefa nesinu sinn sérstaka svip: 



...og hér að neðan er Elín Huld að horfa út á Breiðafjörðinn. Hún er ekki að fórna höndum, dolfallin yfir fegurðinni (sem vissulega hefði þó verið skiljanlegt) heldur er hún að verjast kríuágangi, sem þarna var nokkur. M.a.s. Bassa var ekki sama um lætin og má marka af því að Elín steig aldrei svo skref að ekki fylgdi Bassi í fótsporin. Bilið milli þeirra á myndinni er alls ekki venjulegt...

Það er Klofningsfjall sem ber í baksýn vinstra megin.



Hér að neðan er svo horft dálítið austar og húsin í Króksfjarðarnesi ber í miðja mynd.



Á leiðinni til baka inn nesið mynduðum við býlið að Borg. Þetta er snyrtilegasta býli en varla stórt á nútímamælikvarða. Það er eins gott að dráttarvélin sem slær flötina neðan bæjarins sé ekki völt!



Hér er horft frá Borg austur yfir totu af Króksfirði sem teygir sig inneftir öllu:



Það var sannarlega veður til að mynda Vaðalfjöllin og þessi er tekin af ofanverðu nesinu, rétt áður en við ókum inn á þjóðveg sextíu og snerum til suðurs:



Það var varla miður dagur enn og nóg eftir af góða veðrinu. Við ákváðum því að bregða aðeins af leið og aka niður að gömlu sláturhúsunum í Króksfjarðarnesi. Á leið þangað niðureftir rákumst við á þessa merkilegu heyrúllustæðu. Sá eða sú sem merkti hefur semsagt ákveðið að eyða frekar komandi verslunarmannahelgi í Króksfjarðarnesi en í Eyjum. Gott val.....



Niðri við hrörnandi byggingar og bryggjumannvirki stóð þessi höfðingi og má muna tímana tvenna:



Og svo var það þessi tvenna sem gerði mig alveg kjaftstopp. Hvaðan komu þessir tveir risabjörgunarbátar, hvernig komu þeir, á hvers vegum eru þeir og til hvers eru þeir ætlaðir? Þetta eru sextíu manna bátar - hvor um sig og hvorugur er af íslensku skipi. Einhver hefur læagt í talsverðan kostnað við að koma þessum bátum á staðinn og einhverjar hljóta fyrirætlanir að vera - en hverjar???







Ef eitthvað er að marka  hann Google, sem oft hefur reynst mér vel, þá er báturinn sem merktur er RINGHORNE ESSO líkast til af olíuborpalli í Norðursjó. Sá sem er merktur JOTUN A gæti hins vegar verið af samnefndu sextíuogfimm þúsund tonna olíu - þjónustu/birgðaskipi.

Kannski veit einhver meira....

Niðurlag ferðarinnar er væntanlegt á næstu dögum. Ég er kominn með mikið efni uppsafnað enda rúmir tveir mánuðir frá því Skálmarnesmúli var heimsóttur og á þessum tveimur mánuðum hefur ýmislegt drifið á dagana eins og nærri má geta. 

....en þetta kemur allt.....



Flettingar í dag: 501
Gestir í dag: 55
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79328
Samtals gestir: 18505
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 23:17:26


Tenglar