Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


18.09.2013 07:37

Skálmarnesmúli - fjórða atlaga.

Þar sem  þriðja hluta lauk var horft heim að Deildará, næstvestasta býlinu á Skálmarnesi. Við ókum í rólegheitum á nær eggsléttum malarvegi út sveitina framhjá eyðibýlinu Hamri sem stendur spölkorn neðan við veg. Ekki virtist Hamar vera í hirðu þótt reisulegt íbúðarhúsið sýndist í þokkalegu ástandi. Heimtröðin var gróin og hálf ógreinileg og sýnilegt að afar sjaldan var ekið um hana. Heim að Ingunnarstöðum var annað að sjá - þar stóð bíll við bæ og allt var þar hið snyrtilegasta. Íbúðarhúsið lítið en laglegt og flest eða öll útihús voru horfin, annaðhvort rifin eða fallin og gróið yfir rústir.



Þá var aðeins eftir ysti og austasti / syðsti  bærinn, fyrrum stórbýlið sem bar nafn nessins og fjallsins í senn, kirkjustaðurinn Skálmarnesmúli. Leiti bar á milli og Elín skaut einni skýjamynd út um bílgluggann. Til hægri sér á ysta hluta nessins og ber Snæfellsjökul yfir hann.



Hér að neðan er dregið aðeins til og Snæfellsjökull sést skafheiður handan flóans. Lánið hefur sannarlega leikið við þá ferðalanga sem áttu leið um Jökulhálsinn og á sjálfan jökulinn þennan dag. Á þessum slóðum höfðum við verið í næstu ferð á undan og fengið svipað veður. Nú vorum við handan Breiðafjarðar og þrátt fyrir slæmt veður dagana áður nutum við enn álíka blessunar.....



Svo birtust húsin á Skálmarnesmúla og við fetuðum heimtröðina í átt að kirkjunni. Hún er , eins og sjá má, afar falleg og snyrtileg. Við hlið hennar er kirkjugarðurinn, einnig vel hirtur og snyrtilegur. Í baksýn sér nes í fjarskanum. Það má leiða getum að því að það sé Skarðströnd og Klofningur yst til hægri. 



Við skiptumst á að mynda og þessi velheppnaða mynd sýnir, talið frá vinstri, sjúkrabíl, kirkjugarð, kirkju, Elínu Huld og Edilon Bassa Breiðfjörð. Í baksýn er svo Skálmarnesmúlafjall (ef ég bregð fyrir mig nafninu sem notað er á fjallið á gamla herforingjaráðskortinu mínu)



Okkur til vonbrigða var kirkjan kyrfilega læst, reyndar svo læst að gegnum hespurnar á hurðinni voru skrúfaðar skrúfur. Það dugðu því engir lyklar á þessar dyr. Við urðum  að láta okkur nægja að mynda inn gegnum gler. Þótt myndin sé vissulega ekki góð má vel sjá að kirkjan er ekki síðri innan en utan og einhverjar lagfæringar virðast hafa staðið yfir þegar ráðist var í að skrúfa allt svo kyrfilega aftur. Þetta var verulega einkennilegt. 



 Við létum þessa myndatöku duga og röltum um staðinn. Neðan við kirkjuna stóð reisulegur sumarbústaður og við hann bíll. Nýsleginn blettur var í grennd og í slægjunni stóð maður með orf og ljá, greinilega ekki óvanur að beita þessháttar amboði. Við fikruðum okkur í átt til hans en mynduðum kirkjuna þó enn einu sinni í dálítið víðara horni. 



Þarna hefur eitt sinn staðið íbúðarhús. Kannski var það gamli bærinn sem þarna stóð, því litlu neðar stóð hvítt steinhús með rauðu þaki, ekki gamalt að sjá.



Maðurinn með ljáinn er kannski ekki sá sem fyrst kemur í hugann þegar menn langar að leita upplýsinga um eitthvað. Þessi "maður með ljáinn" var hins vegar klárlega ekkert tengdur þeim gamla og alræmda heldur ákaflega viðræðugóður fyrrum bóndi norðan úr Skagafirði, tengdur staðnum fjölskylduböndum. Hann reyndist aukinheldur nátengdur einum fyrrum samstarfsmanna minna og góðum félaga. Við áttum langt spjall þarna í sláttunni og ég fékk skýringu á harðlokuðu kirkjunni. Kirkjan er ekki ríkiskirkja heldur s.k. bændakirkja, þ.e. einkaeign býlisins. Fjölskyldumál valda því að ekki var messað í kirkjunni þetta sumarið og hún höfð lokuð. 



Litlu neðar stóð reisulegt íbúðarhús, rautt og hvítt eins og kirkjan. Það vakti þó eftirtekt að húsið virtist ekki í notkun heldur var neglt fyrir bæði glugga og dyr. Samt virtist ástand hússins gott, allavega svona utanfrá séð. Í ljós kom að um íbúðarhúsið gilti sama og um kirkjuna og það því haft lokað og læst.



 Við heimtröðina að bænum voru vegamót og vegurinn sem lá áfram út í nesið var merktur lokaður og einkavegur. Ég vissi að þar útfrá voru leifar flugvallarins sem eitt sinn var og mig langaði að enda leiðangurinn þar. Í loks spjallsins við skagfirska bóndann bað ég um leyfi til að aka þennan slóða á enda og var auðfengið. Við lögðum því enn af stað en tókum þessa mynd á leið til bíls. Á henni má sjá vestur um til Sigluness og enn utar Stálfjalls. 



Þetta skýjafar mátti EH til með að festa á (filmu??) og brún fjallsins í leiðinni. Það má vel giska á að það geti blásið hressilega niður af þessum brúnum í norðaustanátt - hvað þá snjóað!



Svo vorum við komin út á melinn sem eitt sinn var flugvöllur sveitarinnar. Ekki hefur þetta nú verið neinn alþjóðaflugvöllur en þó mikið öryggistæki fyrir þessa litlu og afskekktu byggð. Nú var fátt sýnilegt eftir, utan nokkrir blikk"hattar" sem eitt sinn höfðu verið skærrauðgulir að lit en voru nú sandblásnir og veðurbarðir. Allt fínt yfirborðsefni var fokið eða þvegið burt og þarna var varla nokkurri flugvél lendandi lengur fyrir grjóti og grastoppum. Útsýni er næst yfir Skálmarfjörð til Svínaness. Það er svo trúlega Reykjanes sem lengst skagar til hægri.





Á myndinni hér að neðan er enn horft af ysta hluta Skálmarness suður yfir Breiðafjörð út með Snæfellsnesi og jökullinn sést ógreinilega um miðja mynd. 



.....og hér líklega suður á Skarðströnd og fjær til Snæfellsness:



Hér að neðan er horft úr Skálmarnesi yfir flugvallarstæðið í átt til Múlatöflu, en svo nefnist ysti hluti þessa svipmikla fjalls.



Og enn er snúið 180 gráður og horft af nesinu til vesturs í átt til Sigluness og Stálfjalls fjær. Þarna er Rauðsendingurinn Elín Huld að reyna að súmma inn á sína ættarsveit en myndavélin nær ekki gegnum Stálfjallið - enda er Stálfjall ekki úr neinu pjátri!



Bílnum var snúið við á flugbrautinni og þar með var heimferðin hafin. Við mynduðum enn einu sinni yfir býlið Skálmarnesmúla (með síðari tíma viðbótum) um leið og við fikruðum okkur vegslóðann til baka. 



Í spjallinu við sláttumanninn kom einnig fram skýringin á því hvers vegna Hamar er eina býlið í sveitinni sem ekki er sinnt. Jörðin Hamar er í eigu sömu fjölskyldu og Skálmarnesmúli og heyrir þeirri jörð til. Ekki eru nein bein not fyrir húsin önnur en sem geymslur og því standa þau ósnert. Ég fékk leyfi til að rölta niður að Hamri og mynda húsin:



Íbúðarhúsið er enn hið myndarlegasta þrátt fyrir að hafa nokkuð látið á sjá. Líklega hefur verið vel vandað til þess á sínum tíma. Útihúsin eru öll síðri og munu trúlega ekki standa mörg ár enn.









Nú lá leiðin til baka að Firði, inn með hlíðinni að eiðinu og sem leið lá suðurúr aftur. Við Fjörð mátti Elín til að smella af einni skýjamyndinni enn, og ekki þeirri sístu.....



Okkur fannst kvölda hratt þó greitt væri ekið og það var farið að nálgast kvöldverðartíma þegar við komum suður í Gufudal. Við máttum til að renna aðeins fram að bæjum því þegar við vorum á ferðinni á Járntjaldinu sáluga  (sjá fyrsta hluta pistilsins) gistum við eitt sinn á litlu tjaldsvæði sem þarna var. Nú var fátt eftir utan eitt hjólhýsi sem greinilega var fastsett. hreinlætisaðstaðan var horfin og augljóslega enginn rekstur þarna núna. En fallegt er þar......





Áfram héldum við yfir hæsta háls og yfir í næsta fjörð, Djúpafjörð. Þar renndum við heim að bæ í Djúpadal, greiddum  sundlaugargjaldið, fengum lykil og í drjúga stund áttum við laugina og pottinn alein. Svo komu einhverjir túristar......

Garnirnar voru farnar að gaula verulega þegar við héldum af stað að nýju og næsti áfangastaður var Bjarkalundur. Þar var sest að hátíðarkvöldverði og að honum loknum ekið út að Reykhólum og búist til annarrar nætur. Að morgni var föstudagurinn fyrir verslunarmannahelgi, fyrsti dagur stærstu ferðahelgar ársins en lokadagur okkar ferðalags. Í rauninni lá ekkert annað fyrir en að aka suður en nokkra útúrdúra vorum við þó búin að setja upp ef veður leyfði.

Svo rann þessi föstudagur upp og heilsaði með glaða sólskini. Heimferðin varð enn eitt ævintýrið og frá henni segir í fimmta og síðasta hluta.







Flettingar í dag: 518
Gestir í dag: 59
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79345
Samtals gestir: 18509
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 23:41:25


Tenglar