Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


10.09.2013 10:00

Skálmarnesmúli - þriðja atlaga!

Það er gott að vera kominn heim á Höbbðann eftir þriggja vikna vinaheimsókn vestur á fjörðinn fríða (þar sem fjöllin skreyttust hvítu við brottför) og geta tekið til við áhugamálin aftur. Svo voru nokkur svona hjartans mál sem biðu ( "hjartans mál" mætti þýða hér sem "skammtímaáhugamál") og eitt þeirra var að ljúka þriðja hluta Skálmarnessmúlapistilsins en þeir tveir sem komnir eru voru skrifaðir fyrir vestan. Nóg um það - áfram nú!

...........................................................................................................

Við lukum við að tanka í Bjarkalundi og röltum í leiðinni inn á tjaldsvæði staðarins þar sem ég sá kunnuglegan Econoline ferðabíl. Gat ekki betur séð en þar færi Veigar Jónsson Ísfirðingur en engin hreyfing var sjáanleg í eða við bíl svo ég hypjaði mig aftur í sjúkrabílinn. Gekk á leiðinni fram hjá gömlum rúgbrauðs-húsbíl sem virtist vera fastsettur með landrafmagni í horni bílastæðisins. Þar þekkti ég gamla Járntjaldið hans Dúdda Guðmunds í Bílatanga en enginn var sjáanlegur við bílinn. Seinna frétti ég að Járntjaldið muni hafa skipt um eiganda.

Við ókum sem leið lá frá Bjarkalundi um Þorskafjörð og fyrir hann, yfir Hjallaháls til Djúpafjarðar og ég benti Elínu á sundlaugina góðu sem ég heimsótti snemma morguns daginn sem ég ók "Tveggja heiða túrinn" á svarta ferðadrekanum 2011 og lesa má um HÉR og HÉR. Við ákváðum að reyna að heimsækja þessa sundlaug í bakaleiðinni ef mögulegt væri. Áfram ókum við fyrir Djúpafjörð, yfir Ódrjúgsháls til Gufufjarðar og fyrir hann um Skálanes. Yst á nesinu hefur nýlagður vegur verið færður ofar í landið svo ekki er ekið um gamla bæjarhlaðið lengur. Að því er dálítil eftirsjá því mér fannst alltaf fylgja því sérstök tilfinning, jafnvel þó gamla kaupfélagsútibúið væri löngu aflagt og rútan frá Vestfjarðaleið stoppaði þar ekki lengur - enda Vestfjarðaleið ekki til lengur í þeirri mynd sem var. Reykti rauðmaginn og harðfiskurinn frá útibúi Kaupfélags Króksfjarðar á Skálanesi var eðlilegt ferðasnakk þess tíma þó lyktin í rútunni hafi kannski ekki alltaf farið vel í ferðafélagana - allavega ekki þá bílveiku.......

Frá Skálanesi var ekið inn Kollafjörð. Handan fjarðarmynnisins blasir eyðibýlið Bær á Bæjarnesi við, í torfæru vegasambandi við næsta fjörð vestar, Kvígindisfjörð. Séð heim að Bæ er snyrtilegt, enda mun býlið í eigu og hirðu stöndugs vélsmiðjueiganda í Hafnarfirði og á Reyðarfirði. 

Kollafjörðurinn er með fallegri fjörðum og þarf ekki blíðviðri til, en þennan dag bætti það heldur í og við ókum inn að botni í glampandi sól. Vestur úr fjarðarbotninum liggur Klettsháls um efstu brúnir Kvígindisfjarðar og niður í Skálmarfjörð. Klettsháls er nú malbikuð hraðbraut en samt mátti ég til að rifja enn einu sinni upp ferðalag vorið 1967, þegar ég var að flytja búferlum með foreldrunum frá Rvk heim til Ísafjarðar eftir vetursetu syðra. Þá var Klettsháls ein forarvilpa og nýju vörubílarnir tveir sem fluttu búslóðina okkar ásamt fleiru, þurftu snjókeðjur og sambindingu með sverum kaðli til að komast upp brekkurnar.  Þeir tímar eru sem betur fer liðnir, samgöngurnar gerbreyttar til hins betra og stöðugt verið að bæta...

Upprifjunin stóð stutt því sjúkrabíllinn þeyttist upp Klettsháls á stöðugum níutíu. Von bráðar vorum við uppi og við tók útsýni til vesturs, yfir Skálmarfjörð, Vattarnes og Skálmarnesið austanvert. Við horfðum einnig niður í Kvígindisfjörð til vinstri handar og út með nesjunum tveimur, Bæjarnesi austar og Svínanesi vestar. Svo lokaðist sýn til Kvígindisfjarðar og við runnum brekkurnar niður í Skálmarfjörð, markaðan Svínanesi að austan og Skálmarnesi að vestan. ( ég veit að þetta virkar dálítið ruglingslegt en treysti á að þeir sem lesa eigi landakort...)

Skálmarnes er eiginlega eins og þríhyrningur í laginu - langhliðin snýr að Skálmarfirði og hinar tvær að Kerlingarfirði og svo út í Breiðafjörðinn sjálfan. Nesið er hálent að mestu og láglendi er aðeins við þá hlið þríhyrningsins sem veit að Breiðafirði. Landmótunin hefur nánast gert Skálmarnesið að eyju, aðeins lágt eiði skilur milli þess og "meginlandsins". Um þetta eiði liggur Barðastrandarvegur og af því miðju liggur afleggjari út í Skálmarnes meðfram Kerlingarfirði austanverðum. Þegar við komum að þessum vegamótum stóð þar yfir mikil efnisvinnsla vegna vegarlagningar og brúarsmíði yfir Kerlingarfjörð og það var dálítið snúið að finna vegtenginguna. Það tókst þó á endanum og þar með var hafin atlaga að megináfanga og tilgangi ferðarinnar - sjálfu Skálmarnesinu.

Fyrsti hluti vegarins kom á óvart. Ég vissi ekki fyrirfram hverju við var að búast en með sjálfum mér hafði ég alltaf litið á þennan veg sem hálfófæran troðning og líklega var þessi fyrirfram gefna skoðun meginástæða þess að ég hafði ekki ferðast um þessar slóðir fyrr. Þegar ég svo sá og fann veginn framundan leið mér líkt og lýst var í síðari hluta "Tveggja heiða túrsins"  þegar ég lagði á Steinadalsheiði - mér fannst ég hálfpartinn svikinn! Vegurinn var eins og hraðbraut, nýheflaður og eggsléttur. Engin hár grashryggur í miðju, stórgrýti uppúr hjólförunum og úrrensli úr köntum, heldur vegur líkur þeim sem við Vestfirðingar hefðum gjarnan kosið yfir Þorskafjarðarheiði um árabil. Eina ástæðan fyrir því að sjúkrabílnum var ekki beitt á áttatíu út hlíðina var sú að við vildum drekka í okkur alla þá náttúrufegurð sem bar fyrir augu.





Eins og sjá má átti þessi vegur fátt sameiginlegt með veginum hans Elísar Kjarans út í Svalvoga í Dýrafirði og hún Elín Huld, sem hafði sumarið áður sigrast á bæði bíl - og lofthræðslu vestur við Rauðasand gat nú notið ferðarinnar til fulls. Þegar utar dró með fjallinu jókst undirlendið og þegar nálgaðist topphorn þessa þríhyrnings sem Skálmarnesið er og komið var þangað sem á korti heitir Kýrnes, var orðið talsvert rýmra milli fjalls og fjöru:



Á myndinni hér að neðan er horft út með nesinu í átt til Barðastrandar og það mun vera fjallið Blankur, utan við Brjánslæk sem þarna ber yst. Siglunesshlíðar eru þar handan við en ekki komnar í ljós.



......og hér fyrir neðan er horft um öxl inn Kerlingarfjörð í átt að vegstæðinu nýja sem þverar fjörðinn og er langt til fullgert.



Það er kannski rétt að lauma inn kortaklippu áður en lengra er haldið svo betra sé að átta sig á staðháttum. Við erum semsagt við Kýrnes á leið út að eyðibýlinu Firði:



.....og svo opnaðist allt í einu nýtt sjónarhorn, þegar við komum fyrir hornið og eyðibýlið blasti við. Eins og áður sagði, vissi ég engan veginn á hverju væri von þarna útfrá. Ég vissi að ysti bærinn, Skálmarnesmúli væri kirkjustaður og að messað væri þar einu sinni á ári eða svo, en um húsakost á þeim bæjum sem merktir eru á kort eða ástand þeirra húsa vissi ég ekkert. Við urðum því meira en lítið hissa þegar við komum út að Firði, þar sem sannarlega fátt minnti á eyðibýli. Ekki var annað að sjá en þarna væri grásleppuútgerð í fullri drift og það var hreint ekkert dauðalegt við þennan stað.



Neðan við býlið vaggaði tíu metra Gáski í legufærum, með netaspili ög öllu:



Á iðgrænum  túnbletti stóð enn grænni Deutz - dráttarvél með sláttuþyrlu sem sýnilega hafði verið beitt á blettinn:



Rétt hjá stóð öldruð Ferguson traktorsgrafa, talsvert farin að lýjast. Það var þó eitt og annað sem benti til þess að ekki væri svo ýkja langt frá því hún snerist síðast enda lifir lengi í gömlum glæðum:



Heima við bæ stóð þessi stæðilegi fjögurra öxla krana/vörubíll og hefur örugglega ekki verið þar í nenu tilgangsleysi enda á númerum og greinilega í notkun. Annar grásleppubátur stóð við fjárhúsvegginn:



Þessi útihús stóðu óvenju vel af "eyðibýli" að vera. Það má rétt vera að engin búseta sé að Firði lengur yfir vetrarmánuðina en allt bar með sér að þar væri búið alla aðra mánuði ársins - og búið vel. Handan við hlöðuhornið gægist annar gamall Ferguson fram, hans hlutverkum er lokið, öðrum en að þjóna sem varahlutalager:



Áfram héldum við frá Firði og vorum nú komin fyrir hornið og leiðin lá meðfram nýrri hlið þríhyrningsins. Vegurinn var sem fyrr eins og hraðbraut og framundan var næsta býli, Deildará. Til hægri brettist fjallsendinn, Múlatafla,  uppávið yfir kirkjustaðnum Skálmarnesmúla.



Ég vil ekki nota orðið "eyðibýli" yfir staði eins og þessa, því þótt föst búseta hafi á einhverjum tímapunkti lagst af og húsum jafnvel hnignað í kjölfarið hafa næstu kynslóðir - eða nýir eigendur -  tekið myndarlega til hendinni og það var, líkt og að Firði, fátt eyðilegt við sýnina heim að Deildará. Við bæinn var fólk á ferð á hestbaki og umhverfi húsa bar allan vott um að þar væru haldin hross.



Ég ætla að enda þriðja hluta hér og senda hann út vegna þess langa hlés sem orðið hefur frá öðrum hluta. Ég á í talsverðum vandræðum með myndirnar því allnokkrar þeirra virðast bilaðar og koma ekki fram eftir eðlilegum leiðum. Ég þarf því að sækja þær "lengri leiðina" sem þýðir að pistill á lengd við þennan þriðja hluta getur tekið allt að fjórum klst. í vinnslu. Mér þykir líklegt að pistillinn muni birtast í fimm hlutum, ef ekki tekst að laga myndbirtinguna. Gott í bili.....




....................................


Flettingar í dag: 433
Gestir í dag: 48
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79260
Samtals gestir: 18498
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 20:51:07


Tenglar