Stundum
skoða ég auglýsingar á netinu. Ég viðurkenni að ég geri það raunar nokkuð oft, og ekki vegna þess að mig vanti eitthvað heldur fyrst og fremst vegna þess að ég hef gaman af því. Ég skoða oftast bílaauglýsingar, bátaauglýsingar og gæludýraauglýsingar. Stundum skoða ég auglýsingar um tölvubúnað og húsbúnað en það er sjaldnar. Einstöku sinnum skoða ég verkfæraauglýsingar en það er varasamt svo ég geri það afar sjaldan.
Það er líka afar sjaldgæft að ég kaupi eitthvað í gegnum þessar auglýsingar. Það er helst í þeim tilfellum sem mig beinlínis vantar eitthvað og leita þá að því sérstaklega. Ég get nefnt sem dæmi bleika fartölvu með tíu tommu skjá, sem ég keypti í fyrrasumar gagngert til að hafa sem kortatölvu um borð í Stakkanesinu. Ég leitaði að vísu ekki að bleikri tölvu en þar sem ótrúlega lítið framboð var af litlum, notuðum fartölvum þá greip ég þá fyrstu sem ég fann og gat notað. Um daginn ákvað ég að kaupa gemsa með snertiskjá. Ég átti svoleiðis síma og fannst hann afbragðsgóður. Svo bilaði hann s.l. sumar eins og gengur og af því hann bilaði í miðju símtali og ég var staddur niðri í Skeifu þá hljóp ég inn í ELKO og bað um ódýrasta símann sem til væri. Sjö mínútum síðar var ég kominn út í bíl með síma sem kostaði 3.995 krónur, reif hann úr pakkningunni, smellti kortinu mínu í hann, hringdi til baka og kláraði símtalið. Þessi sími var nákvæmlega þess virði sem hann kostaði og eftir algera uppgjöf lagðist ég í leit á netinu að brúklegum snertisíma. Ég fann hann fljótlega, seljandinn var pólsk kona sem áreiðanlega hafði keypt nokkra síma úti, flutt með sér hingað til lands og var að selja fleiri en eina gerð. Ég valdi sömu gerð og ég hafði átt og er afskaplega glaður með símann minn - sem hjá þeirri pólsku kostaði rúman helming nývirðis hér heima.
Allt ofanritað er aðeins formáli og nú kem ég að því sem ég vildi sagt hafa: Um daginn, þegar ég var uppi í Stykkishólmi - í vitlausa veðrinu, þið munið....- og hafði lítið við að vera annað en að gramsa á netinu, þá datt ég í bílaauglýsingar. Ég sá auglýstan gamlan Benz húsbíl sem kom kunnuglega fyrir sjónir. Mér fannst ég kannast við bílinn frá því vinur minn General Bolt-on í Sandgerði var í mótorhjólakaupahugleiðingum fyrir líklega rúmu ári. Þá fórum við saman til smáþorps við suðurströndina til að líta á gullfallegt hjól. Utan við skúrinn sem hýsti hjólið stóð illa útlítandi og umkomulaus hvítur Benz 208 og af útliti og hirðu að dæma voru dagar hans taldir. Sá sem átti þennan Benz var ekki á leið að gera honum neitt til góða og hann leit út fyrir að vera safnhólf fyrir allskonar drasl og rusl. Ég leit inn um gluggana og gat ekki betur séð en að á sínum tíma hefði talsvert verið lagt í innréttingar og búnað en allt virtist það á niðurleið.
Frá því við Generállinn vorum þarna í sveitinni hefur svo eitthvað breyst því nú skaut þessi hrörlegi Benz upp kollinum í bílaauglýsingum á bland.is. Hann var ekki hátt verðlagður en auglýsingunni til stuðnings var vísað í aðra eldri og betur myndskreytta, þar sem dýrðin var verðlögð á 850 þúsund krónur! Ekki gat ég þó greint að nein breyting hefði orðið á högum bílsins milli þessarra tveggja auglýsinga, nema þá helst að lofti hefði verið dælt í dekkin.
Ég varð dálítið forvitinn og sendi seljandanum fyrirspurn um hvort þessi tiltekni bíll hefði ekki staðið í þessu tiltekna þorpi við suðurströndina áður fyrr. Svarið var jákvætt, þetta var sannarlega sami bíll, en annar eigandi þó. Ég sendi aftur skilaboð og sagðist myndu koma og líta á bílinn þegar ég kæmi aftur suður úr Stykkishólmi. Eins og fram kom í síðasta pistli kom ég suður um eittleytið mánudaginn 9. febrúar og síðan hefur verið sannkallað skítaveður! Bíllinn var til sölu austan fjalls og mig langaði ekki að leggja í leiðangur þangað að óþörfu. Tækifæri til fararinnar gafst loks sl. sunnudag - en varla þó því á Hellisheiðinni var skafrenningur og krapi - og við sonurinn fengum okkur bíltúr til að heimsækja gamlan og lúinn Benz. Sannarlega hafði útlit hans ekki skánað frá því ég sá hann fyrst og hvíti liturinn var smám saman að breytast í mismunandi blæbrigði af brúnum......
Ég varð hins vegar hissa og jafnframt talsvert hugsi yfir innréttingunum og búnaði. Það sem mér hafði áður sýnst á gluggagægjum var rétt og rúmlega það. Í þennan hrörlega bíl höfðu verið lögð bæði hugur og hjarta á sínum tíma og þótt vissulega væru smávægilegar vanhirðu- og geymsluskemmdir á innréttingunni var hún vel unnin og haganlega uppsett. Í henni var bæði vaskur og tvöföld gaseldavél og neðst í skáp fann ég 1600W Propex gasmiðstöð. Aftan á bílnum var kassi með tveimur gaskútum, báðum fullum. Að auki var margs konar smábúnaður í bílnum, tveir rafgeymar með hleðslustýribúnaði, sjónvarpsloftnet ofl.
Mér fannst hálf ömurlegt til þess að vita að öll sú vinna sem hafði verið lögð í að innrétta þennan bíl og útbúa hann lægi hér verðlaus, nánast fyrir hunda og manna fótum og ætti líklega ekki aðra framtíð en að enda í brotajárni, því miðað við aldur auglýsingarinnar á bland.is höfðu kaupendur ekki staðið í biðröð. Meðan á þessum vangaveltum stóð hafði ég höndina á veskinu í vasanum og hélt fast - ég hafði nákvæmlega ekkert með þennan bíl að gera og vantaði svo sannarlega ekki verkefni, nema síður væri. Samt var þetta eiginlega svo grátlegt.........
Ég þakkaði seljandanum fyrir sýnt og lofaði að láta vita fljótlega hvort ég hefði áhuga. Með það héldum við sonurinn heim á leið um Hellisheiðina. Það var hins vegar dálítið rót á kollinum og í stað þess að halda heim í Höfðaborg ókum við vestur á bóginn og enduðum á kaffihúsi í Keflavík. Meðan á akstrinum stóð tók smám saman yfir þessi tilfinning að ég yrði að gera eitthvað - ég gæti ekki látið allt þetta handverk fara forgörðum. Þetta hljómar kannski hálf blúsað en ég á auðvelt með að kjafta sjálfan mig upp úr skónum þegar svo ber undir og það sem felldi mig endanlega var sú staðreynd að ég hef sjálfur haft endalausa ánægju af að smíða og útbúa þá ferðabíla sem ég hef átt, og enn meiri ánægju af að njóta verkanna í ferðalögum um landið. Ég átti því auðvelt með að ímynda mér þá gleði og ánægju sem þessi Benz hafði eflaust veitt eigendum sínum áður fyrr meðan hann var upp á sitt besta. Auðvitað er ekkert eilíft og allt hefur sinn tíma en þurfti hans tími endilega að vera liðinn? Var ekki hægt að gera eitthvað til að snúa hrörnuninni við eða a.m.k. að hægja á henni svo enn mættu einhverjir njóta? Eitt líf enn?
Frá kaffihúsinu í Keflavík hringdi ég austur fyrir fjall til Benz - eigandans og bauð honum verð sem var nákvæmlega fimmti hluti þess sem fram kom í gömlu auglýsingunum en var ekki svo ýkja langt frá því sem auglýst var á bland.is. Mér fannst ég yrði að ljúka málinu einhvernveginn, og svo hafði ég jú lofað að hringja og láta vita....
Eigandinn tók tilboðinu og þá varð ekki aftur snúið. Við sonurinn tókum bíltúr út í Sandgerði en snerum svo heim í Höfðaborg. Að stundu liðinni vorum við enn á leið austur fyrir fjall. Heima hjá seljandanum var skrifað undir pappíra, greiðsla innt af hendi og lyklar afhentir. Þar með átti ég Benz, í fyrsta sinn á ævinni!
Veðrið fór versnandi á sunnudagskvöldið og heiðin var sleip og slæm. Þess vegna var ákveðið að taka Benz ekki heim að sinni heldur bíða boðaðrar hláku á miðvikudag - s.s. í gærkvöldi. Um sexleytið lögðum við sonurinn á heiðina og þrátt fyrir hraglanda var færið sæmilegt. Viðdvölin eystra var engin, ég hoppaði aðeins milli bíla og svo var Benz lagður upp í eitt ferðalagið enn. Ég hét sjálfum mér því að þar með skyldi lokið áralöngu vanhirðu- og hnignunartímabili.
Ég ætla ekki að lýsa heimferðinni í smáatriðum nú, þótt vissulega væri hún efni í heilan pistil. Ég minntist þess þegar ég keypti gamla 20 manna Toyota Coaster rútu fyrir mörgum árum og eyddi tveimur árum í að smíða hana upp og innrétta. Að þeirri vinnu lokinni átti ég ágætlega búinn ferðabíl - en svo hávaðasaman og leiðinlegan í akstri að með tímanum hætti fjölskyldan að nenna með mér í ferðalög. Það er skemmst frá því að segja að gamli Benzinn rassskellti Toyotuna á bert í heimferðinni - hann "þeyttist" Kambana á hraða sem Toyotan náði aldrei og uppi á Hellisheiðinni klauf hann vindinn eins og nýmóðins geimferja. Á níutíu kílómetra hraða var vel samtalsfært inni í honum - þótt ég hefði engan annan að tala við en bílinn sjálfan... kannski var það líka þannig, að ef gamlir hlutir hafa sál þá hefur kannski í þessarri stór-germönsku en þó langhrjáðu sál kviknað vonarneisti um betra líf og sú von getur vel hafa hleypt fjöri í fót (hjól).
.....og nú stendur hann í stæði hér rétt við Höfðaborg og kom enn á óvart þegar ég í gærkvöldi þakkaði fyrir ferðina, bauð hann velkominn í fjölskylduna og bauð jafnframt góða nótt. Ég mundaði lykilinn og gat mér til nokkurrar undrunar læst öllum hurðum vandræðalaust. Ég bjóst ekki við því á tuttugu og sjö ára gömlum bíl......
( Ég ætla að skáletra og setja hér inn í sviga annað atriði sem ég notaði til að réttlæta sjálfan mig. Ég á nefnilega þrjú börn sem öll eru komin á fullorðinsár og hafa að mismiklu leyti erft ferðaáhuga okkar foreldranna. Þegar ég seldi gráa og svarta Econoline - ferðabílinn minn og keypti sjúkrabílinn sem flestir lesendur þekkja, þá lokaðist fyrir þann möguleika að lána börnunum ferðabíl því sjúkrabíllinn er, sökum stærðar og þyngdar, meiraprófsbíll og ekkert þeirra hefur þannig próf. Gamli, lúni Benzinn er hins vegar minnaprófsbíll og bæði léttur og meðfærilegur. Kannski myndu börnin vilja fá hann lánaðan?)
Meira síðar.....