Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


03.05.2015 09:25

Jómfrúarsigling!


 Ekki veit ég hvers vegna fyrstu ferðir skipa hafa verið kallaðar jómfrúarferðir (eða jómfrúrferðir, hversu undarlegt sem það er). Þetta sama gildir um fleiri farartæki, s.s. flugvélar. 

Einhvern tíma var mér sagt að norður í Aðalvík hefði mátt finna innihurðir í húsum merktar áletrunum eins og "Skipsjómfrú" Ég sel það ekki dýrara en keypt var, en kannski þekkir þetta einhver af eigin raun. Þessar hurðir munu þá hafa verið komnar úr flaki Goðafoss, sem eins og allir vita strandaði við Straumnesið árið 1916. Kannski er einhver tenging milli skipsjómfrúa og jómfrúarsiglinga en ég bara þekki það ekki. 

Til að gera langa sögu stutta þá fór kajakinn sem kynntur var til sögunnar hér á dögunum sem viðbót við skipastól eiganda síns, sína jómfrúarferð í gær, laugardag 2.maí. Prófunin fór fram í blíðskaparveðri við Hafravatn. Það villir samt kannski dálítið, sólskinið því golan var ísköld enda snjóaði síðar um kvöldið. 

Þegar ég var yngri en tíu ára gutti á Seljalandsvegi 68 á Ísafirði (ég nota þessa viðmiðun því ég var á tíunda ári þegar við fluttum af Seljalandsveginum og tímabundið suður til Reykjavíkur)  þá var ég alltaf að smíða. Það voru smíðaðir bátar og það voru smíðaðir kassabílar. Smíðisgripirnir vöktu hvorki hrós né aðdáun enda var slíkt lítt þekkt á Seljalandsveginum. Þeir vöktu hins vegar nokkra athygli fyrir þá sök að yfirleitt prófaði ég gripina ekki sjálfur - ég notaði s.k. "stuntmann" til þeirra hluta. Hæg voru heimatökin því Fríða systir var of lítil til að skilja hætturnar af prófununum og var því sjálfsögð í hlutverkið - hún var líka of lítil til að geta ýtt kassabíl og því varð ég sjálfur að sinna því. Það kom fyrir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að við vorum stoppuð á síðustu metrunum við prófanir á nýjum gerðum kassabíla (sem oftar en ekki voru gerðir úr "klósettkössum", slík apparöt komu þá í trégrindum sem með hæfilegu hugmyndaflugi líktust Willysjeppa) eða á nýjum bátsgerðum, sem í flestum tilfellum voru tvö "tommu-sex" borð, negld saman til endanna, spennt út í miðjunni og botninn negldur í með afgangs spýtustubbum frá öllum nýbyggingunum í kring. Þetta var á þeim tíma sem verið var að byggja upp Miðtúnið og Sætúnið og því nóg af efnivið í nágrenninu. Naglar voru keyptir hjá Óla í timburversluninni Björk, slatti í poka á tíkall eða þar um bil. Kannski hefur það líka slegið á hrifninguna hjá pabba að sagirnar hans voru flestar orðnar bitlausar auk þess sem þær og önnur verkfæri áttu til að "gleymast" úti í garði þegar kallað var til matar eða svefns og því oft ærið ryðguð að morgni.

Nú er ég kominn út á tún í frásögninni, megininntakið var þetta að ég prófaði ekki sjálfur það sem mig grunaði að gæti verið hættulegt. ( hér er rétt að taka fram að Fríða systir slapp ósködduð frá öllu saman og lifir góðu lífi ). Allt ofanritað rifjaðist upp fyrir mér í gær þegar við sonurinn fórum upp að Hafravatni til að prófa nýja kajakinn og það var eiginlega synd að Fríða systir skyldi ekki vera með líka.

Við byrjuðum á því að setja skipið á kerru og síðan var gamla hrossadráparanum beitt fyrir......



Reyndar var öll fjölskyldan viðstödd að Áróru undanskilinni. Hún var að vinna á Hvalasýningunni og hafði því ekki tíma til að fíflast. Verzlínan var hins vegar viðstödd enda í stúdentsprófs - lestrarpásu.



Svo var fleytt, og "stuntmaðurinn" settist um borð. Mér þótti semsagt betra að láta annan fara fyrstu ferð ef ske kynni...............:



......svo kom að því að hann nennti ekki lengur að hlusta á fyrirlestur um öryggismál heldur ýtti sér af stað - allt í einu var hann lagður frá landi. Nærri 32ja ára gamall í fyrsta sinn á ævinni á kajak:



Það var ekki liðinn langur tími þegar ljóst var að hann langaði ekkert í land aftur:



Við Bergrós Halla fylgdumst með í ofvæni - skyldi bátnum hvolfa eða kæmist drengurinn aftur til sama lands?



Hann kom aftur og leiddist greinilega ekki!



Edilon Bassi Breiðfjörð fylgdist vel með aðförunum og stjáklaði jafnframt sjálfur í fjöruborðinu. Hann stóð oftar en ekki í hné og svolgraði Hafravatn með slíkum ákafa að við vorum farin að fylgjast með dýpinu......




Svo var það stöðugleikaprófið. Arnar Þór taldi bátinn standast það þokkalega en var ekki viss um hvort hann myndi æfa þetta á rúmsjó:




Þá var komið að stóru stund útgerðarmannsins. Eins og að ofan greinir er ég þaulvanur alls konar byttum frá barnsaldri og þessi kom svo sem ekkert á óvart. Ég verð þó að segja að hann hafði ýmsa kosti fram yfir tommu sex með trébotni....






Edilon B. Breiðfjörð fylgdist með meistara sínum fjarlægjast:




Það er ljótt að skilja útundan og þessvegna varð hann auðvitað að fá að prófa líka. Bassi lætur eitt og annað yfir sig ganga og kajakferð var ekki undanskilin:








Svo var honum hleypt upp á bryggjustúfinn sem þarna er og Arnar Þór fékk aðra salibunu út á vatn. Eftir það var báturinn tekinn á land og settur á kerruna að nýju. Næstu skref voru rædd af alvöru og ákvarðanir teknar. Veðrið var enn gott og þó dökkir bakkar sæjust nálgast úr austri var ákveðið að leggja í ferðalag um kvöldið - með kerruna í eftirdragi. 

Viljiði vita hvernig það ferðalag endaði??


Það endaði svona:




............................................................................................

22.04.2015 08:29

Flotinn ósigrandi!



.Skipastóllinn var aukinn um helgina. Það hafði raunar staðið til talsverðan tíma og ferlið hófst eiginlega í fyrrahaust. Þannig var að ég þurfti þá að heimsækja verslun hér í bænum í þeim tilgangi að kaupa björgunarbát á nýja trillu sem er í smíðum hjá gömlum vini vestur á Ísafirði. Inni á gólfi verslunarinnar stóð nýr plastkajak með alls konar aukabúnaði fyrir dellukalla. Það þarf ekki mikið til að kveikja vangaveltur og þær sem komu fyrst upp í hugann þegar ég skoðaði bátinn voru gamlar minningar frá þeim tíma þegar ég var púki fyrir vestan og átti lítinn plastbát sem óspart var notaður í ævintýraferðir á Pollinum. Það var á þeim tíma sem Bæjarbryggjan stóð enn og einnig hluti af Edinborgarbryggjunni. Framan í Edinborgarbryggjunni hékk skreiðarknippi, orðið svo hart og þurrt að rota hefði mátt mann með hverjum fiski. Kannski átti þetta einhver, kannski var það gleymt, ég veit það ekki en það var sport hjá okkur púkunum að róa undir bryggjuna, skera okkur einn eða tvo fiska og láta svo reka úti á Polli meðan við murkuðum flísar úr skreiðinni með vasahníf og lögðum mat á lífið og tilveruna. Ef ég er sekur um fiskstuld þá er Halldór Þórólfs jafnsekur því hann var langoftast með í þessum túrum.....

Hvernig tengjast kajak og skreið? "Spurningin - ja, hún er mæt", eins og ofurölvi þingmaður í ræðustól komst eitt sinn að orði. Þannig var að Þráinn bróðir Eiríks Jóhanns átti forláta uppblásinn gúmmíkajak. Þráinn var einstöku sinnum úti að róa á kajaknum en Eríkur mun oftar - eða þannig minnist ég tímanna. Heimatökin voru enda hæg því þeir bjuggu á fjörukambinum. Mér fannst þessi uppblásni kajak algert snilldarverkfæri enda mátti róa honum mun hraðar en plastbalanum mínum. Ég sá enga leið til að eignast svona bát enda mun hann hafa verið keyptur erlendis. Svo leið tíminn og gúmmíkajakinn hvarf af pollinum og sömuleiðis litli plastbalinn minn, sem þó mun enn til vestra. Allar götur sína hef ég gotið auga að þessari bátagerð hvar sem hún hefur sést.

 Það var eiginlega ekki fyrr en með plastinu sem kajakar fóru að verða algengir, fyrsta gerð þeirra sem ég man eftir var úr striga á trégrind og var ekki á færi allra að smíða slíkan grip eða eignast. Þess vegna er þessi gamla mynd frá Pollinum svo skemmtileg:



Svo var semsagt farið að smíða kajaka úr plasti í ótal stærðum og gerðum á viðráðanlegu verði og í framhaldinu varð sú sprenging í sportinu sem menn þekkja. Það hefur verið gaman að fylgjast með kajakræðurum inn um Ísafjarðardjúp og hér syðra uppi á Kollafirði - að ógleymdum Breiðafirðinum sem er sannkölluð paradís kajakræðara. 

Ekki vil ég nú segja að allt þetta hafi farið gegnum kollinn þegar ég stóð og beið eftir björgunarbátnum hans Begga Ara í fyrrahaust. Upphafið er samt þar og allt framhaldið er því afleiðing. Í vor, þegar ég fór svo með björgunarbátinn af Stakkanesinu í yfirhalningu á sama stað var enn nýr kajak inni á gólfi og annar uppi á vegg. Þar var líkt og bensíni væri skvett á eld því ég sá í hendi mér hvar svona kajak kæmi mér best......

.....ef mér tækist að komast vestur í Jökulfirði í sumar með Stakkanesið væri svona kajak miku skemmtilegri léttabátur en litla plastfatið sem ég keypti fyrir nokkrum árum sem landbát. Fatið er svo sem ágætt til síns brúks en það er óhentugt til að róa því langar leiðir meðfram fjörunum í Jökulfjörðunum - auk þess sem það er ólíkt meira gaman að snúa fram þegar róið er í skoðunarferðum! 

Mér reyndist því mjög auðvelt að sannfæra sjálfan mig um algera nauðsyn þess að eignast svona kajak. Ég hafði samband við mann sem rekur kajakleigu á Suðurlandi og er öllum hnútum kunnugur í sambandi við hvaðeina sem að kajökum lýtur. Hjá honum fékk ég nýjan bát með ár, sæti og öðru sem nauðsynlegt má teljast.

Svo nú telur flotinn ósigrandi alls þrjú skip - þau voru tvö og hálft þegar Stakkanesið, litla plastfatið (sem vegna lögunar sinnar og ferjuhlutverks fékk nafnið Fagranes) og hálfur Bjartmar voru talin saman.  Svo var Bjartmar seldur og flotinn minnkaði en nú hefur semsagt bæst við "heilt" skip, sem lögunar sinnar vegna gæti allt eins heitið Langanes :













....og nú er bara beðið eftir hentugu veðri til að skreppa upp að Hafravatni og prófa þessa nýjustu viðbót við flotann ósigrandi!
.........................................................................................

18.04.2015 10:09

Laugardagur.....


......og löng helgi framundan. Það þýðir að vinnan kallar ekki fyrr en síðdegis á mánudag. Löng helgi er þannig sléttir þrír sólarhringar og þann tíma má nýta til ýmissa hluta ef vel er haldið á spöðunum. Það má t.d. líta á gamla Benz ferðabílinn sem keyptur var síðvetrar og bíður andlitslyftingar hér utandyra. Svo má renna austur á Stokkseyri og sækja nýja kajakinn sem ég var að kaupa mér.

Öll tilbreyting er vel þegin - bæði í og utan vinnu. Eitt slíkt tækifæri gafst í gær þegar við tveir vinnufélagar fórum í "útrás" og héldum upp á Grundartanga vopnaðir öllum helstu verktólum og öðrum aukreitis. Ég hef ekki haft fyrir sið að flytja sögur úr vinnunni en það má gera undantekningar þegar eitthvað skemmtilegt rekur á fjörurnar. Þannig var það einmitt í gær. Óskabarnið hafði fyrir nokkru lánað stóran gámalyftara upp á Grundartanga í stað annars sem bilaði þar. Lyftaranum var "snarað" um borð í skip í Sundahöfn og skutlað uppeftir. Þar var hann svo hífður í land. Nú var komið að því að skila honum suður og þá kom babb í bátinn. Lyftarinn er u.þ.b. sjötíu tonn og þrátt fyrir að skipið hafi getað lyft honum af lúgu og slakað niður á bryggjuna er bakaleiðin öllu meiri hífing og þá hífingu réð skipskraninn ekki við. Því þurfti að létta lyftarann og til þess var einfaldast að taka af honum "spreddann" (sem þó vegur "aðeins" átta tonn) og flytja hann landleiðina suður. Við fórum í þetta tveir Ísfirðingar saman og fengum hálfgám undir spreddann sendan á eftir okkur með bíl úr Reykjavík. 



Verkið gekk vonum framar og fljótlega upp úr hádegi var spreddinn laus:



Bíllinn sem flutt hafði hálfgáminn uppeftir beið eftir flutningnum suður aftur og klukkan hefur líklega ekki verið mikið yfir tvö þegar hann lagði af stað með farminn:



Þá var aðeins frágangur eftir við lyftarann sjálfan, sem var hálf vesældarlegur þegar búið var að reyta af honum helstu skrautfjöðrina:



Við vorum komnir suður vel fyrir vaktarlok og eftir verkfæraþrif og frágang var komið að helgarfríi hjá okkur, enda höfðum við unnið verkið án matarhlés. Fjörið hélt svo áfram um kvöldið þar sem starfsmannafélagið hélt keilukvöld í Egilshöll. Mikið lifandis ósköp og skelfing var svo gott að halla höfði á kodda í dagslok.

..................................................

07.04.2015 15:31

Það er búið páskar...


 ......og alvara lífsins tekin við. Sælan í Hólminum sett í minningabankann og skrúfað frá tilhlökkun til næstu ferðar. Næst á ég dvalarstaðinn vísan um hvítasunnuna en líkast til verður Stakkanesið gert sjóklárt kringum uppstigningardag - það tekur jú aðeins tvo tíma að renna uppeftir. Nú kallar óskabarnið til vinnu og þegar kallað er þá svarar maður. Það eina sem ég saknaði um páskana (fyrir utan góða veðrið) var nefnilega mötuneytið........

Gott í bili.

06.04.2015 08:29

Annar í páskum...


.....og enn er klukkan hálfníu. Morgunmatur að baki og kaffið á leiðinni. Það er semsagt allt í sínum föstu skorðum og þannig á það líka að vera. Veðurspá páskadags brást algerlega - í stað þess að senda okkur það þokkalega veður sem spáð hafi verið ákvað almættið að úthluta okkur því sama og áður. Hvassviðri og rigningu með mismunandi tilbrigðum. Þegar komið var fram undir hádegi og sýnt að ekki byðist betra veður var farið í að rétta Stakkanesið og ganga frá því að nýju. Það tókst vonum framar enda hafði ég með mér hraustan mann. Ekki veitti af því vinstri handleggurinn, sem teygðist óhóflega á dögunum er enn ekki orðinn svo góður að ég þori að leggja eitthvað á hann að ráði. Það tók ekki langa stund að koma bátnum í skorður og nú er aftur allt eins og það á að vera. Það verður svo varla litið á hann að nýju fyrr en apríl er úti.

Eftir hádegið var farið í bíltúr út nes allt til Hellissands. Við eyddum ekki löngum tíma á hverjum stað en ókum þó dálítið um. Þegar við snerum til baka frá Sandi hafði heldur betur bætt í vindinn og úrkomuna því það var bókstaflega hávaðarok alla leiðina til Stykkishólms. Það var því ákaflega notalegt að skríða í skjól og ljúka síðustu bókinni hennar Agötu Christie sem enn var ólesin á bænum. Það var víst verið að sýna Vonarstræti í sjónvarpinu í gærkvöldi en við höfðum ekki áhuga á henni að sinni - tölvurnar voru skemmtilegri.

Nú er semsagt upprunninn annar páskadagur og líklega skársta veðrið síðan ég kom hingað í Hólminn á miðvikudagskvöld. Ég les það á fréttamiðlunum að fólki á faraldsfæti sé ráðlagt að ferðast á fyrra fallinu því síðdegis sé von á versnandi veðri og jafnvel -færð. Mínar áætlanir gera ekki ráð fyrir suðurferð fyrr en á morgun en þá er spáð einum átján, nítján metrum og hríð. 

Sú mynd, sem allir þeir útlendingar sem við höfum séð á ferðinni um Snæfellsnes á smábílum undanfarna daga gera sér af landinu, hlýtur að vera nokkurn veginn á þá lund að íslenska vorið feli í sér fjölbreytt veðurfar - þ.e.a.s. allar tegundir af illviðrum! 

Nú tala vitringar um að sjórinn suður af Íslandi sé óvenju kaldur og afleiðinganna megi vænta í köldu og röku sumri. Ég er enn að melta þessar fréttir en gleðst jafnframt yfir því að þurfa ekki að gista í tjaldi í útilegum sumarsins.

Kaffið er tilbúið.........

04.04.2015 08:17

Það er kominn laugardagur...


......hafi ég lesið rétt á dagatalið. Hér í Hólminum verður hver dagur öðrum líkur þegar illa eða ekki viðrar til útiveru. Í gær freistaðist ég til að opna páskaeggið sem starfsmannafélag Óskabarnsins gaf mér. Þetta var höfðinglegt egg, tæpt kíló að þyngd. Bónus hefur verið að selja eins kílós egg á tvöþúsundkall og ég hafði eiginlega ætlað mér að slátra starfsmannaegginu yfir bókum og sjónvarpi fyrir sjálfa páskana en bæta svo við einu Bónuseggi fyrir páskadaginn. Ég er nefnilega súkkulaðifíkill og viðurkenni það alveg. Súkkulaðineyslan hefur hins vegar verið í lægð undanfarnar vikur og mánuði - raunar allt frá áramótum þegar við sonurinn hreinlega átum yfir okkur af 50% afsláttar - Nóakonfekti frá Krónunni!

Til að gera langa sögu stutta þá opnaði ég starfsmannaeggið snemma í gær og það stendur vel hálft hér á borðinu - áhrifin af ofátinu um áramótin eru greinilega ekki horfin að fullu og ég get hreinlega ekki klárað þetta egg. Tilhugsunin um eins kílós eggið í Bónus vekur nú hroll og ef ég versla eitthvað inn í Bónus í dag verða það epli og appelsínur. Hins vegar gekk prýðilega vel með bókina "Fílar gleyma engu" eftir Agötu Christie........

Það var semsagt innidagur í gær. Veðrið var samt ekkert tiltakanlega vont, þannig séð en heldur ekki spennandi til útiveru. Það viðraði ekki til bíltúra nema þá rétt til að skjótast í kaffi í nágrenninu. Veðurspá dagsins í dag hljóðar uppá sunnan átján metra og rigningu og þegar þetta er skrifað er útlit fyrir að sú spá gangi að mestu eftir. Það vantar að vísu átján metrana en rigningin er mætt. 

Stakkanesið er því ekki enn komið á réttan kjöl - ég nenni hreinlega ekki að eiga við það nema í almennilegu veðri. Ef spá rætist verður ágætt veður á morgun, páskadag og þá má taka til hendinni. Það var líka ætlunin að renna eitthvert inn með Skógarströndinni og það ætti líka að vera tími til þess.

Klukkan er rúmlega hálfníu, morgunmatur að baki og beðið eftir kaffinu.........og af hljóðunum að dæma er að bæta í rigninguna.........

02.04.2015 09:28

Skírdagur.


.Það tók lengri tíma en venjulega að aka í Hólminn í gær. Veðrið var alveg þokkalegt upp í Melasveit þrátt fyrir stöku hálkukafla. Í Melasveitinni var hins vegar talsverður lágrenningur svo dreif á köflum alveg yfir veginn. Undir Hafnarfjalli var hvasst en ekki til skaða, þó nóg til að hægja talsvert á umferð. Á Mýrunum var skárra veður framanaf en verulegir hálkukaflar. Þegar kom uppfyrir Eldborg fór aftur að drífa yfir veginn og í Miklaholtshreppnum var veðrið svo slæmt að aðeins sá til einnar stiku í einu - hvort eru það 25mtr. eða 50 mtr.? 

Rétt sunnan við Þúfubæi var bílalest á ferð vestureftir og fór hægt. Í útskotum stóðu litlir, fannbarðir bílaleigubílar, trúlega mannaðir forviða og hálfhræddum útlendingum sem gátu horft upp í heiðan himin móti sól en sáu ekki nema nokkrar bíllengdir eftir veginum. 

Þetta einnar-stiku-skyggni hélst langleiðina að Vegamótum en þar í kring var snöggtum skárra veður allt uppundir Dal. Þar tók aftur við snjódrif úr Skuggahlíð. Uppi á Vatnaleið hafði safnast talsverður snjór svo nam u.þ.b. hálfri vegbreidd. Bílalestin hafði grisjast nokkuð við Vegamót og samanstóð líklega af fjórum, fimm bílum á leið norður yfir Nes. Þeir sem komu suðuryfir áttu auðu akreinina og virtust engan veginn gera sér grein fyrir að vegurinn var aðeins hálfur því það horfði stundum til vandræða að mæta bílum sem héldu sinni stöðu og hröktu bílalestina út í snjóinn á eystri hluta vegarins. Allt fór þó vel. Niðri við vegamótin Stykkishólmur /Grundarfjörður stóðu tveir bílaleigubílar í útskoti og japanskir ferðamenn mynduðu sólina í vestri í gríð og erg. Sólina bar rétt yfir fjöllin enda áliðið dags. Hún líktist helst eldrauðum vígahnetti þar sem hún skein gegnum mistrið og kannski var ekkert skrýtið þótt Bakkabræður héldu á sínum tíma að þar færi herskip. 

Afgangurinn af leiðinni var greiðfær þrátt fyrir svellalög á köflum og ég var kominn í Hólminn tveimur tímum og tuttugu mínútum eftir brottför úr Höfðaborg. Brottför seinkaði  raunar nokkuð vegna óvæntra tafa en allt gekk þó upp á endanum.

Sundlaugin hér í Hólminum er opin til 22 á virkum dögum og síðasti klukkutíminn var tekinn í pottinum. Þeir eru annars með opið um páskana frá 10-17 alla daga nema föstudaginn langa. 

Í dag, skírdag er eiginlega svipað veður og í gær - hvasst en sæmilega bjart í lofti. Það hefur ekki bætt í snjóinn sem ekki var mikill fyrir, sem er ágætt því það fylgir engin skófla með húsinu - aðeins strákústur. Ætlunin var að renna út í Grundarfjörð og jafnvel lengra en ég held ég nenni því ekki í dag - heima er bara best..........

28.03.2015 08:47

Granni.


Hann granni kom til mín fyrir stuttu og var þungur á brún. Granni er nefnilega, þrátt fyrir að virðast venjulega kátur og léttur, frekar svartsýnn. Við ræddum tíðarfarið og almennt útlit fyrir sumarið. Þegar ég sagði granna að ég hefði farið með björgunarbátinn af Stakkanesinu í eftirlit og yfirferð ef ske kynni að sjósett yrði um páskana taldi hann slíkt algeran óþarfa - það myndi gera stórviðri um páskana svo engum bát yrði á sjó fært. Hann endurtók "stórviðri" með þvílíkri áherslu að ég gat ekki annað en trúað því að eitthvað hefði hann fyrir sér. Heimildin var raunar ekki traust að mínu mati - granni hafði farið til spákonu og frá henni hafði hann upplýsingarnar. Til að bæta gráu ofan á svart hafði sú spáð Heklugosi í kjölfarið. Eftir að því lyki mætti loks fara að ræða eitthvert sumar.

Svo svartsýnn var granni að mér var skapi næst að taka kaðalspotta sem hékk hjá mér og rétta honum - mér sýndist það rökrétt næsta skref. Af því ég er kurteis og vel upp alinn (eins og ég hef margoft bent á) þá gerði ég það ekki heldur þakkaði fyrir upplýsingarnar og lét sem ég myndi haga mínum áætlunum m.t.t. þeirra. Svo liðu dagar........

Ég veit ekki hversu nákvæmar svona spákkur eru á tímasetningar. Vissulega gerði stórviðri eftir að við granni áttum talið - eitt mesta veður sem menn á miðjum aldri muna. Það þýðir nefnilega ekki að spyrja elstu menn. Þeir muna ekki neitt og ef þeir muna eitthvað snúa þeir öllu á hvolf. Ég get nefnt nærtækt dæmi. Þegar karl faðir minn var kominn fast að níræðu stóðum við einn góðviðrisdag framan við aðsetur hans á Ísafirði. Í bílastæði stóð nýlegur, svartur Ford jepplingur sem pabbi átti. Hann keypti svartan bíl því fyrsti vörubíllinn hans hafði verið svartur og sá næsti, mikill uppáhaldsbíll af gerðinni Ford F-600 af árgerð 1953 hafði verið dökkblár. Gamli maðurinn horfði hnugginn á jepplinginn sem bar greinileg merki göturyks enda fáir litir ópraktískari þegar ryk er annars vegar. "Hann er alltaf rykugur" sagði sá gamli og þagði svo góða stund, djúpt hugsi. Svo kom gullkornið: "Ég skil þetta ekki. Fordinn var aldrei svona"

Í minningunni voru fyrstu vörubílarnir hans alltaf gljáandi fínir. Það var ekkert pláss fyrir þá praktísku og rökréttu hugsun að á árunum kringum 1950, þegar hann átti þessa bíla hafi malbikaðar götur aðeins verið til í draumum Ísfirðinga og yfirborð þeirra á stöðugri ferð í hvert sinn er hreyfði vind. Mín kynslóð man vel eftir gömlu Douglas DC3 að hefja sig til flugs frá Ísafjarðarflugvelli - og Fokker F27 síðar. Þess vegna munum við eftir rykmekkinum sem huldi Engidalinn eftir flugtak  "útávið" og hálfa Kirkjubólshlíðina eftir sambærilegt "innávið". Þessi rykmökkur af flugvellinum áður en hann var malbikaður, var ýkt útgáfa af götum Ísafjarðarkaupstaðar í vindi.

Ég átti ekkert svar fyrir pabba. Ég kunni engan veginn við að benda honum á þessa augljósu staðreynd. Hvað átti ég með að gára lygnt yfirborð draumahafsins?

Granni fékk semsagt engan kaðalspotta heldur aðeins góðlátlega hughreystingu og kveðjur við brottför. Svo kom rokið og ég fór að velta mér fyrir því, eins og Geiri heitinn danski orðaði það, hvort spákkan hefði einfaldlega tímasett það ónákvæmt.  Næst á eftir stórviðrinu átti að koma Heklugos en eftir það mátti loks fara að ræða sumar, eins og áður sagði.

Ég vaknaði snemma í morgun og opnaði tölvuna að venju. Fyrsta fréttin sem blasti við mér var um óróa í Heklu og  hugsanlegan undanfara goss. Nú er spurningin hvort ekki er rétt að ræða við granna og fá hjá honum símanúmer spákkunnar. Það getur varla spillt að fá að vita eitthvað um komandi tíð?

Örstutt í lokin: IKEA er ein af mínum uppáhaldsbúðum. Mér skilst að það sé fátítt að kallar hafi gaman af IKEAferðum en ég er þá bara undantekning. Eitt af því sem ég kaupi reglulega í IKEA eru kerti - a.m.k. yfir dimmasta tíma ársins. Ég er nefnilega mikill kertakall. Ef ég næ að setjast niður á kvöldin og slaka á yfir sjónvarpi eða bók - nú, eða við tölvuna -  þá kveiki ég gjarnan á sprittkertum. Yfirleitt brenna þau svo bara út. Einn morgun fyrir stuttu þegar ég var að henda tómum kertabollum tók ég eftir að einn var öðruvísi en hinir. Það þurfti svo sem engan vísindamann til að greina innihaldið. Það var fluga sem lá á bakinu í bollanum við hlið kveiksins. Nú veit ég ekki hvaðan IKEA kaupir þessi kerti en er nokkuð viss um að þau eru ekki framleidd í Svíþjóð. Ég veit heldur ekki hversu langt út í heim skrifin mín berast en mér þætti vænt um ef einhverjir lesendur þar sæju sér fært að láta aðstandendur vita......



22.03.2015 21:07

Stakkanes í stórviðri.


 Þegar maður getur ekki gert rassgat með framlöppunum verður maður að finna sér einhverja aðra afþreyingu en vinnu. Ég hafði spurnir af því á dögunum að stórskipið Stakkanes hefði hreyfst til í vetrarhíði sínu í Stykkishólmi en þó sloppið óskemmt. Stór rolluflutningabátur sem stóð á vagni aftan við Stakkanesið hafði  tekist á loft, fokið uppúr vagni sínum og brotlent við hlið hans. Það hafði ekki verið nema um fet milli bátanna svo mér þótti vissara að kíkja í Hólminn og skoða aðstæður. Fyrst ég gat engu komið í verk hér heima var tilvalið að nota þennan ágæta sunnudag til fararinnar. Við sonurinn lögðum af stað uppeftir um hálfellefuleytið í morgun og vorum þessa venjubundnu tvo tíma á leiðinni að viðbættu kaffistoppi í Geirabakaríi í Borgarnesi. Ég hafði vit á að láta hann aka því mér lætur illa að aka beinskiptum bíl einhendis.

Stakkanesið stóð á sínum stað en snarhallaði í vagninum - þ.e. vagninn hallaði vegna þess að kubbar sem hann stóð á höfðu hreyfst. Þegar ég skoðaði ástæðuna kom í ljós að bæði bátur og vagn hafa hreyfst til hliðar um líklega ein tvö fet. Við hlið Stakkanesins er smátrillan Farsæll sem Gulli vinur minn á og hliðarskorða vagnsins hafði lagst á borðstokk Farsæls, án þess þó að valda skemmdum. Rolluflutningabáturinn virðist hafa fokið beint upp í loftið og svo til hliðar án þess að snerta skriðbrettið á Stakkanesinu - sem aðeins var 30 sentimetra frá!!

Eitt var augljóst: Bláu plasttunnurnar sem ég flutti upp í Hólm í haust, fyllti af vatni og batt sitthvoru megin við Stakkanesið hafa hreinlega bjargað því að ekki fór verr. Það er kristalklárt að Stakkanesið hefur lyfst upp með vagni og öllu saman og kastast yfir til hliðar. Hefðu tunnurnar ekki haldið í hefði báturinn að öllum líkindum fokið yfir Farsæl og á næsta bát við hliðina - með vagninn hangandi neðan í sér því allt var súrrað saman.




Að neðan má sjá hversu nálægt skriðbretti Stakkanessins rolluflutningabáturinn er:








Hér sést vel hvernig Stakkanesið hefur lagst á Farsæl. Utan á skorðunum er þykkur svamphólkur sem kannski hefur bjargað einhverju:



Það var svo sem engin ástæða til að gera neitt í málinu. Öll bönd halda enn og strangt til tekið er allt nokkurn veginn í lagi ef ekki kemur frekari hreyfing á hlutina. Ég fer aftur í Hólminn til páskadvalar síðdegis þann 1. apríl og þá með verkfæri og annað sem þarf til að rétta bátinn við og koma honum á sinn stað.


Og kannski verður þá farið að viðra til að setja á flot. Hver veit?






.....................

21.03.2015 09:03

Súpermann!

 

Ég hélt alltaf að mér væri ekkert ómögulegt - að ég gæti gert bókstaflega allt!  Ef ég tæki nógu fast á myndu þyngstu hlutir á endanum færast til í þá átt sem ég vildi.

 

Ég hafði rangt fyrir mér.

 

Ég tók á og það kostaði mig vinstri handlegginn við öxl. Vonandi tímabundið þó en ég komst allavega að því að sumir hlutir hafa afleiðingar - líka fyrir mig sem hélt að ég væri undanþeginn slíku.

 

Þess vegna er þessi stutta færsla slegin inn með fingrum hægri handar. Sú vinstri er óhreyfanleg og ef ég reyni er líkast því sem verið sé að skera hana af við öxl!

 

Meðan þetta ástand varir er lægð í Höfðaborg.......

15.03.2015 08:58

Ein fyrir Magna......


Ég veit ekki hvort hann Magni Guðmunds á Ísafirði skoðar enn síðuna mína. Fyrir löngu síðan nefndi ég ljósmyndir Árna heitins Matthíassonar rakarameistara á Ísafirði og lofaði birtingu á nokkrum þeirra. Þetta eru myndir sem Árni annaðhvort gaf pabba í lifanda lífi eða pabbi fékk að gjöf frá Bergþóru Árnadóttur að Árna gengnum. Magna langaði að sjá þessar myndir en ég áttaði mig fljótlega á að það er erfitt að átta sig á því hvaða myndir eru eftir Árna og hverjar ekki. Sumar sem ég taldi eftir Árna gætu allt eins verið mun eldri póstkortamyndir - eins og þessi:




Í framhaldi af myndinni sem ég birti á föstudaginn og sýndi "Grænu byltinguna" á ferðalagi, þá langar mig að birta eina mynd sem er klárlega eftir Árna Matt. Sú mynd er tekin af tröppum "Grænu byltingarinnar" - sem þá hafði reyndar ekki fengið þetta stóra nafn heldur var aðeins venjulegt íbúðarhús við ofanvert Hafnarstrætið á Ísafirði. Tilefnið gæti verið 17. júní en árið er óþekkt.


Í framhaldi má svo vel setja inn aðra mynd, tekna af sömu tröppum en mörgum árum síðar (þ.e. á "Hundraðáraafmælinu" 1966)  og ég er handviss um að sú mynd er tekin af pabba:



Læt þetta duga að sinni.

.............................................

13.03.2015 10:09

Föstudagurinn þrettándi.....


 Ég er ekki hjátrúarfullur en dag skal samt að kvöldi lofa. Hann "spær" illa fyrir daginn og þann næsta, roki og vatnsgangi. Þess vegna þykir mér við hæfi að birta eina gamla mynd - og aðeins eina. Það má orna sér við hana þegar mest gengur á úti fyrir!



Myndin sýnir logn - dæmigert, ísfirskt logn. Lognið má vel sjá á Pollinum en líka á gufustróknum úr rækjuverksmiðjunni á Sundahafnarsvæðinu. Svo má sjá þarna gamla Chevrolet Scottsdale löggubílinn fylgja "Grænu byltingunni" til hvílu í malargryfjunum inni við fjarðarbotn. Græna byltingin brann á geymslustaðnum af þekktum en óopinberum ástæðum. Það er dráttarbíll Vegagerðarinnar sem dregur ækið eftir ómalbikaðri "Hraðbrautinni"  (sem opinberlega heitir Skutulsfjarðarbraut og er eina hraðbrautin í heiminum með 60 km. hámarkshraða!) 

Svo má líka sjá þarna togarann Júlíus Geirmundsson ÍS sem seinna varð Barði NK, muni ég rétt. Í bátahöfninni liggur Orri ÍS og framan við hann sér í skut Fagranessins. Einn af olíutönkunum er merktur ESSO -  enn eitt dæmið um veröld sem var......

Ef ég á að dæma um árstíðina eftir því sem ég sé á myndinni þá vil ég giska á vor - vor, eins og ég man þau best að heiman. Þegar ég horfi á þessa mynd get ég beinlínis fundið í lungunum fríska og tæra loftið sem alltaf fylgdi í kjölfar regndaganna......

Það var þá......................... 


08.03.2015 08:51

Það hefur verið í mörgu að snúast...


....í Höfðaborg undanfarið. Þrátt fyrir umhleypingana - sem eru eiginlega orðnir svona veðurfarsleg katastrófa - þá er sumardagurinn fyrsti skjalfestur á húsvíska bátadagatalinu mínu. Hann er settur á 23. apríl og ef mig misminnir ekki þá á ónefnd, ísfirskættuð góðvinkona mín í Hólminum áttræðisafmæli þann dag. Vorjafndægur eru svo mörkuð þann 20. þessa mánaðar og þegar dagurinn hefur unnið jafnlengd sína af nóttinni sér alltaf fram á bjartari tíð - það er bara þannig! 

Þessvegna er verið að stilla fókusinn á sumarið. Í komandi viku mun björgunarbáturinn af Stakkanesinu fara í yfirhalningu og annað sem útgerðinni viðkemur fær einhverja handayfirlagningu. Því miður er ekki handbær nein áreiðanleg veðurspá fyrir komandi páska - enda enn rúmar þrjár vikur í þá og veðurfræðingum veitist jafnvel erfitt að spá  með sólarhringsfyrirvara í óstöðugu veðurumhverfi - en ekki er ráð nema í tíma sé tekið og það á allt að vera klárt fyrir sjósetningu um páskana ef veðurhorfur lofa góðu með eins til tveggja sólarhringa fyrirvara. Vinnutilhögun hjá Óskabarninu er þannig að vikuna fyrir páska á ég dagvakt sem stendur frá kl. 08 til 16. Eftir páska er svo vinnutíminn frá kl. 16 og til miðnættis svo ég get fullnýtt tímann í Hólminum og þarf ekki að leggja af stað suður fyrr en eftir hádegi á þriðjudegi. Ef allt gengur eftir hvað varðar veður þá mun kerran mín standa hér inni á gólfi þegar vinnu lýkur miðvikudaginn 1. apríl og á henni allt sem til sjósetningar þarf. Það á því ekki að þurfa annað þegar vinnu lýkur kl. 16 en að henda fatatöskunni inn í bílinn, lása kerruna aftaní og þeysa af stað uppeftir. "Sparifötin" verða samanbrotin því ég fer uppeftir í vinnufötunum og fer þá beint í að sjóbúa bát og vagn. Kvöldflóð í Hólminum þann 2. apríl er líklega um hálfsjöleytið sem er raunar fullknappur tími fyrir sjósetningu eftir vetrarstöðu en það er hátt í og ég get auðveldlega sjósett þó hálffallið sé út. Svo er annað sem vel má íhuga - ef veðurútlit er þokkalegt helgina fyrir páska er vel athugandi að renna með hjólabúnaðinn undir bátavagninn uppeftir og gefa sér þá betri tíma til að ganga frá honum. Þannig gæti vagninn verið tilbúinn til sjósetningar og ekki annað eftir en að sveifla björgunarbátnum um borð og koma tækjunum og rafgeymunum fyrir í stýrishúsinu. 

Ef einhver greinir tilhlökkun í ofanrituðu fær sá tíu fyrir glöggskyggni! 

Gamli Benz bíður á bílastæði eftir því að hans tími komi. Hann hefur beðið svo lengi að einhverjir dagar eða vikur til eða frá breyta engu. Það þarf líka að hugsa hlutina áður en hafist er handa og flest sem ég sá fyrir mér í upphafi hefur tekið einhverjum breytingum. M.a. þarf að skipta um hluta klæðninganna innan í honum og bleiku gluggatjöldin hafa áður fengið sína umfjöllun - þau hanga enn uppi en fá að fjúka fljótlega. Efni í þau nýju hefur verið valið, keypt og sett í vinnslu.

Það er annars sunnudagsmorgunn en sunnudagar eru líka vinnudagar þegar verkefni liggja fyrir og þess vegna lýkur þessum pistli núna.......

.....það má samt bæta því við að í nótt hefur snjóað talsvert og hér inni á baðherbergi er alhvítur Bassahundur sem eftir morgunröltið bíður þess að úr honum bráðni svo hann fái sinn grásvarta lit að nýju. Honum lætur illa að bíða!





01.03.2015 09:20

Einhver Jon.....


.......skrifaði velþegin skilaboð undir síðustu færslu og bað um mynd. Ég þekki nokkra með þessu nafni og þar af einn búsettan í Danmörku. Ég giska á að það sé hann sem skrifar og af því að það er bara eitt "k" í textanum: "Mynd, tak" þá giska ég á að hann sé búinn að vera of lengi búsettur þar!

Það er til fullt af myndum af Benzanum sem svo rækilega var kynntur til sögunnar í síðustu færslu. Flestar eru þær þó í eigu bílasölu hér syðra og merktar henni svo ég er ekkert að birta þær. Ég ætlaði sjálfur að búa til myndasögu um verkefnið en svo mikið flýttum við feðgar okkur þegar við sóttum bílinn austur fyrir fjall að okkur láðist alveg að taka "upphafsmynd". Þess vegna voru fyrstu myndir í minni eigu teknar hér utan við Höfðaborg í myrkri, enda fer best á því - svona til að byrja með.

Ég má samt til að nefna nokkur atriði sem komið hafa í ljós við nánari skoðun. Ég tók bílinn á hús um síðustu helgi, svona til að þurrka hann og fara aðeins yfir stöðuna. M.a. þurfti ég að læra á rafkerfið, því maður er illa settur ef maður veit ekki hvernig rafkerfi í svona bíl er uppsett - það er jafn misjafnt og bílsmiðirnir eru margir. Kerfið reyndist einfalt og ágætlega uppsett, skiljanlegt og þokkalega frágengið, einn mikilvægan hlut vantar þó í það svo allt sé eins og á að vera en hann er fáanlegur í fagverslunum. 

Svo var það gaskerfið. Það reyndist allt unnið af fagmönnum, allir slönguendar þrykktir og tengdir með nipplum en ekki stútum og hosuklemmum. Í kassanum aftan á bílnum voru tveir fullir gaskútar og annar tengdur við kerfið. Eldavélin svínvirkaði við prófun þótt smástund tæki að kveikja á henni því gas virðist hafa tilhneigingu til að "deyja" við langa stöðu í leiðslum. Ég hef tekið eftir þessu, eftir vetrarstöður virðist oft erfitt að kveikja á gastækjum en eftir að þau hafa kveikt í fyrsta sinn eru þau góð .......Propex-miðstöðin var sömuleiðis erfið í byrjun en kveikti að lokum og funhitaði þá. 

Ég var búinn að taka eftir kæliboxi inni í skáp. Ég sá það ekki þegar ég skoðaði bílinn fyrst en á bílasölumyndunum blasti það við. Þetta virtist vera rafmagnskælibox eftir snúrum sem lágu frá því og þar sem ég hef engan áhuga á rafmagnskæliboxum - sem eru hinar verstu orkusugur - þá opnaði ég skápinn til að sækja það og henda í ruslið. Boxið kom hins vegar ekki hlaupandi á móti mér og við athugun var það fast við gasleiðslu! Þetta reyndist semsé vera forláta gasbox og það sem meira var - við prófun reyndist það í fullkomnu lagi og eftir að hafa mallað í tvo og hálfan tíma var hitinn í því kominn úr húshitanum, 24 gráðum niður í 13. Svona box er yfirleitt 6-7 klst að ná fullri kælingu svo þetta var á prýðilegri leið þegar ég slökkti á því og skrúfaði fyrir gasið. Mér skilst að svona kælibox kosti um 60 þús. í búðum hér. Nývirði þess og Propex miðstöðvarinnar mum því samanlagt ríflega kaupverð bílsins.

Í gær var laugardagur og morgunninn var frátekinn fyrir nokkru. Ætlunin var nefnilega að taka Benzann fyrir nesið á mínum gamla vinnustað, þar sem allt er til alls til slíkra hluta. Fyrir kl. 9 vorum við mættir og prófið hófst. Allt var skoðað sem máli skipti og hitt líka. Útkoman var vonum framar - Gamli er óravegu frá því að vera ónýtur, því þótt ytra byrðið sé hrjúft og óhrjálegt er undirvagninn ótrúlega heillegur, bæði lítið ryðgaður og lítið slitinn. Við fundum aðeins tvö skoðunaratriði sem lagfæra þurfti. Að öðru leyti gilti það sama og um útlitið - það þurfti aðallega að snyrta og snurfusa. Ekkert kom fram sem raskaði þeirri ætlun að bílinn verði ferðafær í sumar. Við vorum glaðir með Benzann, við Bassi þegar við ókum heim á leið.

Eitt í viðbót: General Bolt-On í Sandgerði er maður fróður um Benz enda á hann tvo þannig húsbíla. Hann vildi meina að AB-varahlutir í Reykjavík ættu alla boddýhluti í svona bíl. Ég tók því með fyrirvara því AB hefur aðallega selt slithluti en ákvað samt að athuga málið. Ég þekki strákana þar að því að vera bæði liprir og klárir í sínu fagi en varð samt hissa þegar þeir rúlluðu mynd upp á tölvuskjá og spurðu einfaldlega hvaða boddýhluti ég vildi fá! Ég benti, borgaði inná pöntunina og á þessu augnabliki er líklega einhver einhversstaðar úti í heimi að taka til boddýhlutina mína og búa til Íslandssendingar.......

Á svona augnablikum getur maður spurt: "Er ekki lífið einfalt?"

.........og nú koma þær myndir sem ég var búinn að taka, sérstaklega fyrir "Jon":






19.02.2015 20:29

Eitt líf enn?


Stundum skoða ég auglýsingar á netinu. Ég viðurkenni að ég geri það raunar nokkuð oft, og ekki vegna þess að  mig vanti eitthvað heldur fyrst og fremst vegna þess að ég hef gaman af því. Ég skoða oftast bílaauglýsingar, bátaauglýsingar og gæludýraauglýsingar. Stundum skoða ég auglýsingar um tölvubúnað og húsbúnað en það er sjaldnar. Einstöku sinnum skoða ég verkfæraauglýsingar en það er varasamt svo ég geri það afar sjaldan.

Það er líka afar sjaldgæft að ég kaupi eitthvað í gegnum þessar auglýsingar. Það er helst í þeim tilfellum sem mig beinlínis vantar eitthvað og leita þá að því sérstaklega. Ég get nefnt sem dæmi bleika fartölvu með tíu tommu skjá, sem ég keypti í fyrrasumar gagngert til að hafa sem kortatölvu um borð í Stakkanesinu. Ég leitaði að vísu ekki að bleikri tölvu en þar sem ótrúlega lítið framboð var af litlum, notuðum fartölvum þá greip ég þá fyrstu sem ég fann og gat notað. Um daginn ákvað ég að kaupa gemsa með snertiskjá. Ég átti svoleiðis síma og fannst hann afbragðsgóður. Svo bilaði hann s.l. sumar eins og gengur og af því hann bilaði í miðju símtali og ég var staddur niðri í Skeifu þá hljóp ég inn í ELKO og bað um ódýrasta símann sem til væri. Sjö mínútum síðar var ég kominn út í bíl með síma sem kostaði 3.995 krónur, reif hann úr pakkningunni, smellti kortinu mínu í hann, hringdi til baka og kláraði símtalið. Þessi sími var nákvæmlega þess virði sem hann kostaði og eftir algera uppgjöf lagðist ég í leit á netinu að brúklegum snertisíma. Ég fann hann fljótlega, seljandinn var pólsk kona sem áreiðanlega hafði keypt nokkra síma úti, flutt með sér hingað til lands og var að selja fleiri en eina gerð. Ég valdi sömu gerð og ég hafði átt og er afskaplega glaður með símann minn - sem hjá þeirri pólsku kostaði rúman helming nývirðis hér heima.

Allt ofanritað er aðeins formáli og nú kem ég að því sem ég vildi sagt hafa: Um daginn, þegar ég var uppi í Stykkishólmi - í vitlausa veðrinu, þið munið....-  og hafði lítið við að vera annað en að gramsa á netinu, þá datt ég í bílaauglýsingar. Ég sá auglýstan gamlan Benz húsbíl sem kom kunnuglega fyrir sjónir. Mér fannst ég kannast við bílinn frá því vinur minn General Bolt-on í Sandgerði var í mótorhjólakaupahugleiðingum fyrir líklega rúmu ári. Þá fórum við saman til smáþorps við suðurströndina til að líta á gullfallegt hjól. Utan við skúrinn sem hýsti hjólið stóð illa útlítandi og umkomulaus hvítur Benz 208 og af útliti og hirðu að dæma voru dagar hans taldir. Sá sem átti þennan Benz var ekki á leið að gera honum neitt til góða og hann leit út fyrir að vera safnhólf fyrir allskonar drasl og rusl. Ég leit inn um gluggana og gat ekki betur séð en að á sínum tíma hefði talsvert verið lagt í innréttingar og búnað en allt virtist það á niðurleið.

Frá því við Generállinn vorum þarna í sveitinni hefur svo eitthvað breyst því nú skaut þessi hrörlegi Benz upp kollinum í bílaauglýsingum á bland.is. Hann var ekki hátt verðlagður en auglýsingunni til stuðnings var vísað í aðra eldri og betur myndskreytta, þar sem dýrðin var verðlögð á 850 þúsund krónur!  Ekki gat ég þó greint að nein breyting hefði orðið á högum bílsins milli þessarra tveggja auglýsinga, nema þá helst að lofti hefði verið dælt í dekkin.

Ég varð dálítið forvitinn og sendi seljandanum fyrirspurn um hvort þessi tiltekni bíll hefði ekki staðið í þessu tiltekna þorpi við suðurströndina áður fyrr. Svarið var jákvætt, þetta var sannarlega sami bíll, en annar eigandi þó. Ég sendi aftur skilaboð og sagðist myndu koma og líta á bílinn þegar ég kæmi aftur suður úr Stykkishólmi. Eins og fram kom í síðasta pistli kom ég suður um eittleytið  mánudaginn 9. febrúar og síðan hefur verið sannkallað skítaveður! Bíllinn var til sölu austan fjalls og mig langaði ekki að leggja í leiðangur þangað að óþörfu. Tækifæri til fararinnar gafst loks sl. sunnudag - en varla þó því á Hellisheiðinni var skafrenningur og krapi -  og við sonurinn fengum okkur bíltúr til að heimsækja gamlan og lúinn Benz. Sannarlega hafði útlit hans ekki skánað frá því ég sá hann fyrst og hvíti liturinn var smám saman að breytast í mismunandi blæbrigði af brúnum......

Ég varð hins vegar hissa og jafnframt talsvert hugsi yfir innréttingunum og búnaði. Það sem mér hafði áður sýnst á gluggagægjum var rétt og rúmlega það. Í þennan hrörlega bíl höfðu verið lögð bæði hugur og hjarta á sínum tíma og þótt vissulega væru smávægilegar vanhirðu- og geymsluskemmdir á innréttingunni var hún vel unnin og haganlega uppsett. Í henni var bæði vaskur og tvöföld gaseldavél og neðst í skáp fann ég 1600W Propex gasmiðstöð. Aftan á bílnum var kassi með tveimur gaskútum, báðum fullum. Að auki var margs konar smábúnaður í bílnum, tveir rafgeymar með hleðslustýribúnaði, sjónvarpsloftnet ofl.

Mér fannst hálf ömurlegt til þess að vita að öll sú vinna sem hafði verið lögð í að innrétta þennan bíl og útbúa hann lægi hér verðlaus, nánast fyrir hunda og manna fótum og ætti líklega ekki aðra framtíð en að enda í brotajárni, því miðað við aldur auglýsingarinnar á bland.is höfðu kaupendur ekki staðið í biðröð. Meðan á þessum vangaveltum stóð hafði ég höndina á veskinu í vasanum og hélt fast - ég hafði nákvæmlega ekkert með þennan bíl að gera og vantaði svo sannarlega ekki verkefni, nema síður væri. Samt var þetta eiginlega svo grátlegt.........

Ég þakkaði seljandanum fyrir sýnt og lofaði að láta vita fljótlega hvort ég hefði áhuga. Með það héldum við sonurinn heim á leið um Hellisheiðina. Það var hins vegar dálítið rót á kollinum og í stað þess að halda heim í Höfðaborg ókum við vestur á bóginn og enduðum á kaffihúsi í Keflavík. Meðan á akstrinum stóð tók smám saman yfir þessi tilfinning að ég yrði að gera eitthvað - ég gæti ekki látið allt þetta handverk fara forgörðum. Þetta hljómar kannski hálf blúsað en ég á auðvelt með að kjafta sjálfan mig upp úr skónum þegar svo ber undir og það sem felldi mig endanlega var sú staðreynd að ég hef sjálfur haft endalausa ánægju af að smíða og útbúa þá ferðabíla sem ég hef átt, og enn meiri ánægju af að njóta verkanna í ferðalögum um landið. Ég átti því auðvelt með að ímynda mér þá gleði og ánægju sem þessi Benz hafði eflaust veitt eigendum sínum áður fyrr meðan hann var upp á sitt besta. Auðvitað er ekkert eilíft og allt hefur sinn tíma en þurfti hans tími endilega að vera liðinn? Var ekki hægt að gera eitthvað til að snúa hrörnuninni við eða a.m.k. að hægja á henni svo enn mættu einhverjir njóta? Eitt líf enn?

Frá kaffihúsinu í Keflavík hringdi ég austur fyrir fjall til Benz - eigandans og bauð honum verð sem var nákvæmlega fimmti hluti þess sem fram kom í gömlu auglýsingunum en var ekki svo ýkja langt frá því sem auglýst var á bland.is. Mér fannst ég yrði að ljúka málinu einhvernveginn, og svo hafði ég jú lofað að hringja og láta vita....

Eigandinn tók tilboðinu og þá varð ekki aftur snúið. Við sonurinn tókum bíltúr út í Sandgerði en snerum svo heim í Höfðaborg. Að stundu liðinni vorum við enn á leið austur fyrir fjall. Heima hjá seljandanum var skrifað undir pappíra, greiðsla innt af hendi og lyklar afhentir. Þar með átti ég Benz, í fyrsta sinn á ævinni!

Veðrið fór versnandi á sunnudagskvöldið og heiðin var sleip og slæm. Þess vegna var ákveðið að taka Benz ekki heim að sinni heldur bíða boðaðrar hláku á miðvikudag - s.s. í gærkvöldi. Um sexleytið lögðum við sonurinn á heiðina og þrátt fyrir hraglanda var færið sæmilegt. Viðdvölin eystra var engin, ég hoppaði aðeins milli bíla og svo var Benz lagður upp í eitt ferðalagið enn. Ég hét sjálfum mér því að þar með skyldi lokið áralöngu vanhirðu- og hnignunartímabili.

Ég ætla ekki að lýsa heimferðinni í smáatriðum nú, þótt vissulega væri hún efni í heilan pistil. Ég minntist þess þegar ég keypti gamla 20 manna Toyota Coaster rútu fyrir mörgum árum og eyddi tveimur árum í að smíða hana upp og innrétta. Að þeirri vinnu lokinni átti ég ágætlega búinn ferðabíl - en svo hávaðasaman og leiðinlegan í akstri að með tímanum hætti fjölskyldan að nenna með mér í ferðalög. Það er skemmst frá því að segja að gamli Benzinn rassskellti Toyotuna á bert í heimferðinni - hann "þeyttist" Kambana á hraða sem Toyotan náði aldrei og uppi á Hellisheiðinni klauf hann vindinn eins og nýmóðins geimferja. Á níutíu kílómetra hraða var vel samtalsfært inni í honum - þótt ég hefði engan annan að tala við en bílinn sjálfan...  kannski var það líka þannig, að ef gamlir hlutir hafa sál þá hefur kannski í þessarri stór-germönsku en þó langhrjáðu sál kviknað vonarneisti um betra líf og sú von getur vel hafa hleypt fjöri í fót (hjól).

.....og nú stendur hann í stæði hér rétt við Höfðaborg og kom enn á óvart þegar ég í gærkvöldi þakkaði fyrir ferðina, bauð hann velkominn í fjölskylduna og bauð jafnframt góða nótt. Ég mundaði lykilinn og gat mér til nokkurrar undrunar læst öllum hurðum vandræðalaust. Ég bjóst ekki við því á tuttugu og sjö ára gömlum bíl......



( Ég ætla að skáletra og setja hér inn í sviga annað atriði sem ég notaði til að réttlæta sjálfan mig. Ég á nefnilega þrjú börn sem öll eru komin á fullorðinsár og hafa að mismiklu leyti erft ferðaáhuga okkar foreldranna. Þegar ég seldi gráa og svarta Econoline - ferðabílinn minn og keypti sjúkrabílinn sem flestir lesendur þekkja, þá lokaðist fyrir þann möguleika að lána börnunum ferðabíl því sjúkrabíllinn er, sökum stærðar og þyngdar, meiraprófsbíll og ekkert þeirra hefur þannig próf. Gamli, lúni Benzinn er hins vegar minnaprófsbíll og bæði léttur og meðfærilegur. Kannski myndu börnin vilja fá hann lánaðan?)


Meira síðar.....

Flettingar í dag: 67
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135034
Samtals gestir: 27844
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:37:59


Tenglar