Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


06.04.2015 08:29

Annar í páskum...


.....og enn er klukkan hálfníu. Morgunmatur að baki og kaffið á leiðinni. Það er semsagt allt í sínum föstu skorðum og þannig á það líka að vera. Veðurspá páskadags brást algerlega - í stað þess að senda okkur það þokkalega veður sem spáð hafi verið ákvað almættið að úthluta okkur því sama og áður. Hvassviðri og rigningu með mismunandi tilbrigðum. Þegar komið var fram undir hádegi og sýnt að ekki byðist betra veður var farið í að rétta Stakkanesið og ganga frá því að nýju. Það tókst vonum framar enda hafði ég með mér hraustan mann. Ekki veitti af því vinstri handleggurinn, sem teygðist óhóflega á dögunum er enn ekki orðinn svo góður að ég þori að leggja eitthvað á hann að ráði. Það tók ekki langa stund að koma bátnum í skorður og nú er aftur allt eins og það á að vera. Það verður svo varla litið á hann að nýju fyrr en apríl er úti.

Eftir hádegið var farið í bíltúr út nes allt til Hellissands. Við eyddum ekki löngum tíma á hverjum stað en ókum þó dálítið um. Þegar við snerum til baka frá Sandi hafði heldur betur bætt í vindinn og úrkomuna því það var bókstaflega hávaðarok alla leiðina til Stykkishólms. Það var því ákaflega notalegt að skríða í skjól og ljúka síðustu bókinni hennar Agötu Christie sem enn var ólesin á bænum. Það var víst verið að sýna Vonarstræti í sjónvarpinu í gærkvöldi en við höfðum ekki áhuga á henni að sinni - tölvurnar voru skemmtilegri.

Nú er semsagt upprunninn annar páskadagur og líklega skársta veðrið síðan ég kom hingað í Hólminn á miðvikudagskvöld. Ég les það á fréttamiðlunum að fólki á faraldsfæti sé ráðlagt að ferðast á fyrra fallinu því síðdegis sé von á versnandi veðri og jafnvel -færð. Mínar áætlanir gera ekki ráð fyrir suðurferð fyrr en á morgun en þá er spáð einum átján, nítján metrum og hríð. 

Sú mynd, sem allir þeir útlendingar sem við höfum séð á ferðinni um Snæfellsnes á smábílum undanfarna daga gera sér af landinu, hlýtur að vera nokkurn veginn á þá lund að íslenska vorið feli í sér fjölbreytt veðurfar - þ.e.a.s. allar tegundir af illviðrum! 

Nú tala vitringar um að sjórinn suður af Íslandi sé óvenju kaldur og afleiðinganna megi vænta í köldu og röku sumri. Ég er enn að melta þessar fréttir en gleðst jafnframt yfir því að þurfa ekki að gista í tjaldi í útilegum sumarsins.

Kaffið er tilbúið.........

Flettingar í dag: 327
Gestir í dag: 37
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79154
Samtals gestir: 18487
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 15:55:57


Tenglar