Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


29.07.2014 16:30

Í Færeyjum - 8.hl. ferðasögu


 7.hluta lauk að kvöldi sunnudagsins 22. júní í þoku og rigningu. Staðsetningin var óviss, það lá fyrir að við værum á Suðurey, syðstu eyju Færeyja og hefðum ekið veg upp frá Þvereyri (Tvöroyri) sem merktur var "Hvalba". Af þessum vegi lá svo grasi gróinn afleggjari eitthvert út í móðuna og hann höfðum við ekið til að finna náttstað. Það má svo sem kalla allt náttstað en á þeim bletti sem við stöðvuðum á, sem var eiginlega lítið meira en útskot á þessum annars dularfulla slóða, var allt vaðandi í kindaskít og framleiðendur hans voru á sveimi á næstu grösum. Einhvern tíma um nóttina vaknaði ég við ausandi rigningu sem hreinlega buldi á toppi ferðavagnsins og sömuleiðis varð ég var við að hundblautar rollur leituðu skjóls við bílinn því nokkrum sinnum kom hreyfing á hann þegar einhver kindin klóraði sér á stuðarahornum og hjólbogum. Loks þegar dagaði og draga tók úr rigningunni svo marktækt væri hætti ég mér út til að kanna umhverfið. Einhvern tíma um nóttina - eða seint kvöldið áður - varð ég var við bíl sem ók hjá, líklega tvisvar. Mér fannst það dálítið skrýtið því miðað við þá vegi sem við höfðum haft kynni af í Færeyjum gat þessi varla legið annað en upp að einhverju fjárhúsinu - jafnvel þótt hann væri  malbikaður! Þegar ég svo kom út um morguninn var þetta útsýnið, og minnir óneitanlega á fræga lokasenu í kvikmyndinni "Börn náttúrunnar"



Við Elín Huld vorum samt engin "börn náttúrunnar" og hvorugt okkar vonandi á grafarbakkanum. Við ákváðum að leggjast í leit að því tveggja merktra tjaldsvæða sem nær okkur átti að vera og reyna að komast í hreinlætisaðstöðu. Við ræstum ferðadrekann, snerum honum og ókum upp á þjóðveginn (eða svo virtist a.m.k.). Stefnan var tekin á Þvereyri, við ókum undan þokuteppinu sem ekki virtist ná alveg niður að byggð og fljótlega fundum við götur sem áttu að leiða að áðurnefndu tjaldsvæði. Hvergi fundum við þó líklegan stað og eftir að hafa fikrað okkur efst í þorpið, svo ofarlega að við vorum aftur komin í blindþoku varð ekki annað gert en að snúa við:





Niðri í bænum fundum við strax ágæta matvöruverslun með sambyggðu bakaríi og kaffhúsi. Við skelltum okkur í bakaríið og hófum gerð kaupsamnings um kaffi og meððí. Samningurinn var gerður á einhverju fjölþjóðlegu málahrafli og það kom skemmtilega á óvart þegar sagt var aftan við okkur: "Talið bara íslensku, nógu hægt og skýrt og þá skilja allir"  Í þessum orðum var sterkur færeyskur hreimur  og þegar við snerum okkur við stóð þar maður á að giska um fertugt, ákaflega glaðlegur og hress. Hann kynnti sig ekkert en áréttaði ábendinguna í örlítið nákvæmari útgáfu. Við þökkuðum kærlega fyrir okkur og versluðum allt sem okkur langaði í - á íslensku. Þegar við svo vorum sest við borð gaf ég manninum auga þar sem hann þeyttist um verslunina með skjalatösku undir hendinni. Þegar hann hafði svo lokið sínum erindum kom hann aftur til okkar og gaf sig á spjall. Það kom á daginn að hann hafði verið í Fiskvinnsluskólanum í Hafnarfirði á árunum kringum 1980, eignast þar vini og heimsótti þá til Íslands eins oft og mögulegt var. Á Þvereyri var hann í stjórnunarstöðu hjá fiskeldisfyrirtæki. Þar með var fengin skýring bæði á íslenskukunnáttunni og skjalatöskunni.

Það var bæði afar gaman og fróðlegt að spjalla við þennan glaðlega mann og heimsókn okkar til Suðureyjar hefði líklega orðið talsvert öðruvísi (og síðri) án hans. Hann nánast bað okkur afsökunar á veðrinu og þegar hann heyrði lauslega dagsáætlun okkar benti hann okkur á að snúa henni við, aka beint niður á syðsta odda eyjarinnar og hefja þar skoðun. Í þessu veðurfari væru meiri líkur á bjartara veðri syðst og það væri klárt að nyrst væri blindþoka - sem gæti þó létt eitthvað er liði á daginn. Þessi ráð þáðum við með þökkum og árangurinn varð sá að allt sem við ætluðum okkur að gera á Suðurey gekk upp. Kunningjar okkar í mótorhjólahópnum komu hins vegar til Suðureyjar þennan sama morgun með Smyrli, hófu för sína á annan hátt og uppskáru þoku og rigningu mestallan daginn. Við hittum þau í ferjunni í bakaleið á mánudagskvöld og þar sögðu þau farir sínar ekki sléttar....enda hittu þau ekki þennan ágæta mann í bakaríinu. Því miður fengum við ekki nafn hans en hann á allar okkar þakkir!

Hér má bæta því við að skömmu eftir að maðurinn hafði kvatt og gengið á brott kom hann aftur að borðinu okkar, veifaði farsíma og sagðist hafa hringt til Hvalba. Þar væri blindþoka og sæist vart út úr augum. Hann kvaddi svo að nýju og að fengum þessum upplýsingum lá áætlun okkar ljós fyrir - Hvalba yrði síðust á dagskránni.

Eins og fyrr segir fylgdum við góðum ráðum og ókum í suðurátt. Við komum að þorpinu Öravik en sáum það varla. Næst komum við að jarðgöngum en gátum þó valið lengri hjáleið út fyrir nes og ekið um Hövðaberg og þorpið Hov. Við urðum sammála um að velja göngin því inni í þeim var meira útsýni! Syðri munni gangnanna var raunar rétt hjá þorpinu Hov en við sáum það eðlilega ekki og höfum enn ekki séð....

Svo fór smám saman að létta og um leið dró úr rigningarúðanum. Við komum að skilti með svo sérkennilegu nafni að ekki varð hjá komist að líta á þorpið sem bar það:



...og viti menn! Um leið og við renndum inn í þorpið lyfti þokan sér uppfyrir (hér ætlaði ég að skrifa "sjónvarpsloftnetin" en varð litið á myndina og ákvað þess í stað að skrifa:)  ljósastaurana! Bærinn blasti við hreinn og bjartur, við lögðum bílnum á bryggjunni og tókum göngutúr:



Þessi var eitthvað að manúera í höfninni:



Annar var þarna, dálítið stærri og í Tupperware - flokki. Um borð í honum voru tveir menn og ég fylgdist með þeim leggja frá og sigla út fyrir grjótgarðinn. Líklega voru þeir að fara í einhverskonar vitjun, annað hvort með net eða gildrur. Ég klifraði upp á grjótgarðinn þarna í baksýn og fylgdist með þeim stampa er útfyrir kom því þrátt fyrir stafalogn og sléttaan sjó inni á höfninni var þungur brimsúgur útifyrir og drundi í...



Auðvitað var svo kirkjan í Porkeri mynduð og á myndinni má sjá hvert þokan hörfaði undan Íslendingunum með myndavélina:



Svo þegar við komum aftur upp að gatnamótunum var tilvalið að mynda þetta skilti. Við vorum að koma frá Þvereyri og Hov (svona eiginlega, þótt við sæjum aldrei Hov) og á leiðinni að Vági og Sumba. Ég man ekki betur en Sumba hafi verið einhver dans sem hér uppi á Íslandi var stiginn  ákaft í tengslum við einhverja líkamsrækt. Kannski Sumba dansinn hafi verið upprunninn í þessu syðsta þorpi Suðureyjar - og þar með Færeyja?  

Svo má gjarnan taka eftir vegalengdunum á skiltinu. Þvereyri er frekar norðarlega á Suðurey en Sumba syðst - á milli eru aðeins 37 km á bugðóttum vegi......



Nú ókum við undir þoku, rigningarúðinn var horfinn og veðrið lék við okkur - við gátum allavega ekki leyft okkur að kvarta neitt því við sáum til allra átta þótt við sæjum kannski ekki fjallatoppana....við vorum komin að Vági, stærsta þorpi Suðureyjar og eitt af því fyrst sem fangaði athyglina var þessi stæðilega "danska" kirkja. Kannski er ekki við hæfi að segja um kirkju að hún sé eins og skrattinn úr sauðarleggnum og þess vegna segi ég það ekki. Þetta hrein - danska steintröll var miklu frekar eins og álfur út úr hól. Þetta var ekki færeysk kirkja fyrir fimmaura og þótt maður myndi gleyma öllu öðru sem fyrir augu bar í Vági myndi mann dreyma þessa kirkju á nóttunni:



Við Íslendingar getum enn selt Færeyingum skip. A.m.k. var þetta nótaskip kunnuglegt. Ég er ekki alveg viss um að það flyti að bryggju í heimahöfn:



Lopra er nefnilega ekki stórt þorp, eins og lesa má HÉR.  



Handan við bryggjuna var svo fulltrúi "hinnar" deildarinnar og enn kom upp í hugann kútter Sigurfari á Akranesi sem Íslendingar keyptu til að eyðileggja. Svo flinkir sem við höfum verið við að eyðileggja fornminjar hefur okkur ekki tekist að flytja þá kunnáttu út. Miðað við það hvernig Færeyingar halda utan um sína arfleifð er ég ekki viss um að þar sé að finna heppilegt markaðssvæði fyrir þessa sérkunnáttu Íslendinga. Það væri ekki amalegt að eiga einn eða fleiri svona hér heima:





Vágur - eða Vogur - var kvaddur að sinni og haldið áfram suður til Sumba. Fljóteknir ellefu kílómetrar á malbiki en það gat teygst aðeins á tímanum þegar maður hittir svona fjölskyldu. Það er spurning hvort hún hafi verið dálítið laus í rásinni, þessi svarta sauðkind?



Frá Vági var stutt leið að smáþorpinu Lopra en þar greindist vegurinn í tvennt. Annars vegar var um að velja fjallaleið til Sumba, hins vegar jarðgöng. Að auki lá kvísl frá Lopra að öðru smáþorpi, Ökrum, litlu austar við Vágsfjörð og af fjallaleiðinni lá svo kvísl niður að býlinu  Hamrabyrgi við botn Víkarfjarðar sem horfir mót norðaustri. Ég set kortið inn aftur til frekari glöggvunar:



 ( Þarna verð ég að setja eitt stykki NotaBene: Þessu korti ber ekki saman við ferðakortið okkar um Hamrabyrgi, sem svo heitir á okkar korti en á myndinni heitir það Víkarbyrgi. Þetta er eiginlega aðeins sveitabýli en ekki þorp í venjulegum skilningi. Svo má einnig skilja sem svo að þetta séu sitthvort býlið með sitthvort nafnið. Í öllu falli virðist ekki vera heilsársbúseta þarna lengur. Sjá HÉR)

Við völdum göngin til Sumba og ætti valið að skýra sig sjálft.



Ég ætla ekki að reyna að líkja Sumba við neitt íslenskt þorp. Þarna var skóli, kirkja, örlítil verslun í kjallara en vinnustaðir eins og fiskvinnsla eða þessháttar virtist ekki vera til staðar - eins og reyndar má segja um fjölmörg svipuð þorp. Einhverjir voru með kindur en ómögulegt var að átta sig á hvort það var aðal - eða aukastarf. Staðurinn var snyrtilegur og eitt höfðu Sumba-búar sér til ágætis umfram marga aðra: Þeir voru að útbúa ágætis húsvagnastæði ofan fjörukambsins vestarlega í bænum og ekki annað sýnt en þar gætu ferðalangar látið fara vel um sig í framtíðinni. Hreinlætisaðstaða var komin og verið var að vinna í planinu. Myndin hér að neðan er annars frá aðalgötunni gegnum þorpið. Á skiltinu stendur BÖGÖTA, sem gæti útlagst Bæjargata. Þar sem myndasmiðurinn stendur er greining, vegur liggur í suðausturátt til vitans á Akrabergi og annar upp á fjallaleiðina fyrrnefndu sem liggur til Lopra.



Við lögðum bílnum og röltum dálítið um en það var svo sem ekkert sérstakt að sjá utan það sem sjá mátti hvar sem var. Það var komið fram yfir hádegi svo við fundum okkur stað ofan við bátahöfnina og settum upp ferðaeldhúsið. Hér er hann Hamarsklettur:



Ofan við sjálfa bryggjuna var steypt plan og þar lágu nokkrir bátar sem flestir virtust vera í meiri og minni notkun:



Sjálf höfnin er töluvert steypumannvirki á ekki stærri stað. Höfnin var enda opin fyrir hafi ef frá er talinn kletturinn þarna utan við sem eflaust brýtur einhverja báru. Næsta land utan við höfnina í beina stefnu út og suður myndi annars vera þetta HÉR



Meðan við vorum að veislubúa þarna við hliðina á Hamarskletti renndi vagnlest í bæinn. Þar voru komnir meðlimir Sea Shepard á bíl með stóran og öflugan harðbotnaslöngubát á aftanívagni. Líklega voru þeir að leita að grindhval eins og fleiri. 



Sjáiði kokkinn við eldavélina?



Viðstaðan í Sumba var rétt um klukkustund og á þeim tíma komu fleiri gestir en Sea Shepard. Þangað kom nefnilega mótorhjólahópurinn margnefndi og sýnilega enn með færeyska leiðsögn, ef marka mátti skráningarnúmerin. Hópurinn ók hjá og inn í þorpið, við heyrðum til þeirra góða stund en síðan virtust drunurnar deyja út, líkt og haldið hefði verið út í vitann á Akrabergi eða á fjallið til baka. Allavega urðu þeir ekki á vegi okkar aftur í ferðinni. Við ákváðum að aka göngin aftur til baka því lítið hafði þokunni létt og útsýnisakstur tilgangslaus. Þegar við komum út litum við aðeins yfir Lopra:



Við veltum fyrir okkur hvort einhverjir þeirra sem ættu þessi fínu einbýlishús væru kannski eigendur nótaskipsins Grunnabarðs - áður Hábergs GK -  í Vági.  Vegskiltið sagði aðeins tvo kílómetra úr að Ökrum en við fórum ekki þangað.  



Í staðinn renndum við einn hring um Lopra:



Svona leit smábátabryggjan í Lopra út. Líklega voru þeir sem á annað borð áttu báta með þá úti á Ökrum þar sem styttra var út á Vágsfjörðinn, eða þá einfaldlega inni í Vági, þar sem flestir vinnufærir hafa líklega unnið. Eins og sést er myndin tekin út um framrúðuna og speglar íslenska fánann. Hún er náttúrlega ekki góð en flýtur með samt.



Svo vorum við aftur komin að Vági. Líkt og fleiri bæir stendur Vágur við vogsbotn og frá þessum vogsbotni er aðeins lágt eiði yfir á gagnstæða strönd sem snýr í suðvestur. Þeim megin er landið klettótt og hafnlaust. Samt eru þar menjar um talsverða bátaútgerð auk minnismerkis um þessa útgerð. Þarna var löng, steypt renna niður milli kletta og í miðju hennar höfðu verið eikarhlunnar sem nú voru mjög gengnir sér til húðar......











Ég áttaði mig ekki á þessum steyptu undirstöðum rétt til hliðar við sjósetningarrennuna. Þarna virtist hafa verið eitthver járnagallerí ofaná og helst datt mér í hug einhvers konar braut fyrir báta. Þarna voru leifar af þónokkrum kofum og einn þeirra gat hafa verið spilhús, miðað við ummerki. Við netgrufl komst ég að því að þetta muni hafa verið rennibraut fyrir báta sem líklega hafa þá verið dregnir yfir klappirnar út í skjólvík þarna fyrir framan og svo til baka að róðri loknum. Sjá HÉR og enn betur HÉR



Eftir að hafa skoðað okkur um á Vágseiði og brotið heilann um mannvirkjaleifarnar fundum við matvöruverslun í bænum og birgðum okkur upp til kvöldsins og næsta morguns. Því næst var haldið af stað til næsta áfangastaðar.

Ég hef áður minnst á bókina hans Huldars Breiðfjörð, "Færeyskur dansur" og hvílík biblía hún var fyrir mig um flest er varðaði Færeyjar. Eitt af því sem Huldar gerði á þeim mánuði sem hann dvaldi í Færeyjum síðla vetrar 2009, muni ég rétt, var að ferðst til Suðureyjar og dvelja þar nokkra daga. Meðal þess sem hann langaði til að skoða (og skoðaði) var fáninn í Fámjin. Sagan er einföld en stórmerkileg: Árið 1919 hönnuðu þrír ungir, færeyskir stúdentar fyrsta fánann með því útliti sem við þekkjum í dag. Einn þeirra var frá Fámjin og sá dró fánann að húni eftir messu í þorpskirkjunni þann 22. júní 1919. Um atburðinn, aðdraganda og eftirmála má m.a. lesa HÉR. Fáninn er geymdur í kirkjunni í Fámjin (og kannski er rétt að taka það strax fram að Færeyingar lesa þorpsnafnið sem "Famjun") og eftir því sem Huldar skrifar, eru flestir bæjarbúar með lykil að kirkjunni. Nægir að biðja einhvern þeirra um lykilinn að láni og muni auðsótt.

Okkur langaði að sjá þennan fána og lögðum því leið okkar til Fámjin. Ekið er yfir heiði frá Öravik, leiðin er ekki sérlega löng (frekar en aðrar vegalengdir)  en nokkuð brött og hlykkjótt, sérstaklega Öravikurmegin. Þar er myndin hér að neðan tekin og leiðin liggur upp í skarðið sem mótar fyrir hægra megin.



Það var eilítill þokuslæðingur og örlítill úði þegar við komum yfir heiðina, ekkert til skaða og ekki nóg til að bleyta götur í þorpinu. Skiltið sem tók á móti ferðalöngum skýrir sig sjálft:



Við lögðum drekanum og gengum til kirkju. Hún var læst eins og búast mátti við. 





Það er eiginlega bara ein gata í Fámjin, hún liggur af heiðinni gegnum þorpið og út fyrir bryggjuna. Aðrar götur eru eiginlega bara þröngir stígar milli húsa og túnbletta. Á sjávarkambinum andspænis kirkjunni var lítil verslun og kaffihús. Húsið var svo lítið að kaffi"húsið" var eiginlega bara verönd utan við það. Innandyra var ekkert pláss fyrir borð eða bekki. Við heimsóttum búðina og tókum tali miðaldra konu sem talaði skýra færeysku og skildi íslenskuna okkar ágætlega þegar hún var sett fram að ráði mannsins í bakaríinu á Þvereyri - hægt, rólega og einföld orð valin. Ég nefndi fánann og kirkjulykilinn. Konan í búðinni virtist þaulvön þessarri spurningu og benti okkur á stæðilegt hús bak við kirkjuna. Þar skyldum við leita lykilsins.

Við þáðum ráðið og bönkuðum uppá. Til dyra kom öldruð kona og ég bar upp erindið. Orðalaust teygði hún sig eftir kirkjulyklinum, sem hékk á snaga rétt við útidyrnar. Eflaust var hún vön átroðningnum sem fylgdi því að geyma lykil að jafnmerku húsi og því sem geymdi frumgerð færeyska fánans!

Við opnuðum, gengum inn og .....þarna var hann! Í bókinni hans Huldars voru engar myndir og aðeins einföld lýsing en þarna var þessi merkilegi fáni í glerkassa, dálítið trosnaður á brúnum eftir langa notkun enda tæpast úr nokkrum gerfiefnum, saumaður árið 1919



Kirkjan í Fámjin er annars öll hin fallegasta, vel um gengin og hirt.







Kristslíkneskið í horninu hægra megin á myndinni hér að neðan vakti sérstaka athygli okkar enda ákaflega líkt því sem stóð við altaristöfluna ( og var um leið hluti af henni)  í gömlu Ísafjarðarkirkju. Sú kirkja brann sumarið 1987 og líkneskið skemmdist nokkuð. Það var síðar endurgert og mun nú standa uppi í nýju kirkjunni vinstra megin, muni ég rétt. Þetta líkneski má eflaust finna víðar en á Ísafirði og í Fámjin því það mun vera eftir hinn þekkta, dansk-íslenska myndhöggvara, Bertel Thorvaldsen:



Fararstýran fékk svo eina mynd af sér með altaristöfluna og líkneskið í baksýn:



Fyrst ég var kominn upp á loftið mátti ég til að kíkja upp í klukkuturninn. Þar var niðamyrkur svo ég rétt stakk myndavélinni upp fyrir loftsgatið. Flassblosinn lýsti upp turninn í svip en það var ekki fyrr en ég skoðaði vélina sem ég gat séð turninn að innan:



Okkur langaði til að mynda litlu búðina þar sem konan benti okkur á kirkjulykilinn. Þar innandyra var manni nefnilega kippt nokkra áratugi aftur í tímann og fyrir Ísfirðing var þetta nánast eins og að koma inn til Jónasar Magg - eða kannski Ákabúð í Súðavík. Við fengum leyfi til myndatöku en afgreiðslukonan vildi því miður ekki vera með. Við höfðum aðeins augnablik til myndatökunnar því Sea Shepard liðið var að renna í bæinn og hálfri mínútu seinna voru þau mætt í búðina. Ég hefði gjarnan viljað mynda þau en þorði ekki að biðja um. Það hefði annars getað orðið skemmtileg mynd því öll "holningin" á þeim var líkust sjóræningjum!





Eftir myndatökuna í búðinni gengum við til bíls og skiptum liði. EH settist inn en ég labbaði niður á bryggjuna og myndaði trillur. Þetta er hún Sóley. Hún telst vel boðleg í Færeyjum þótt hún sé úr tré:



...en svo eiga þeir líka ágæta Tupperware-báta í Fámjin:



Það var komið að því að halda til baka og kveðja þetta litla, fallega þorp sem geymir svo mikla sögu. Á fjallinu höfðu aðstæður ekkert breyst, þar var enn þokuslæðingur og rigningarúði.




Við ókum yfir í Öravik (enda ekki aðrar leiðir í boði) og áfram í átt að Þvereyri, meðfram byggðinni og beint inn á  veginn upp úr fjarðarbotninum, sem merktur var Hvalba. Þar var nú talsvert léttara yfir en um morguninn og við sáum betur vegslóðann sem við höfðum ekið útá til að gista um nóttina. Hann reyndist vera heimtröð að tveimur sveitabæjum og það gat skýrt umferðina um nóttina. Að sú umferð skyldi samt ekki vera meiri skýrðist af því að heimtröðin var hringvegur og við höfðum lagt á þeim hluta sem fjær var þorpinu á Þvereyri. Hinn hlutinn virtist mun meira ekinn, enda breiðari og betri í alla staði. Einnig kom í ljós að rétt hjá okkur stóð gamalt eyðibýli, sem enginn möguleiki var að koma auga á í þokunni kvöldið áður.

Ekki fórum við inn á Þvereyri að þessu sinni heldur ókum einungis inn í botn fjarðarins  (hér má það koma fram að þorpið að Þvereyri er í raun tvö þorp, samrunnin. Fyrir botni fjarðarins er Traangisvágur/ Trongisvágur en utar norðanmegin er Tvöreyri. Þessi þorp hafa með tímanum vaxið saman og nú mun algengara að kalla þorpið Tvöreyri. Fjörðurinn ber hins vegar nafnið Tro (aa)ngisvágsfjörður. Í áætlun Smyrils er endastöðin á Suðurey kölluð Tvöreyri en það skrýtna er að eiginlega er endastöðin hvorki Tvöreyri né Traangisvágur heldur smáþorpið Líðin, andspænis Þvereyri. Þannig er nú það........

Við ókum sem fyrr segir ekki inn í þettbýlið heldur meðfram því og tókum stefnu á Hvalba. Ofarlega á dalnum var enn ekið inn í göng og er út úr þeim kom var enn ljóst að samtal okkar við manninn á Þvereyri um morguninn og upplýsingar hans um staðhætti höfðu hreinlega bjargað deginum. Blindþokan í Hvalba hafði hopað upp í miðjar hlíðar:



Það var líka dálítið sérkennilegt að þegar út úr göngunum kom, Hvalbiar (með færeyskri beygingu) megin lá vegurinn enn uppá við og mun hærra í hlíðinni en gangnamunninn. Svo fór að halla niður aftur.......

Til hægri, austurs og út Hvalbiarfjörð mátti sjá smáþorpið Nes. Við vorum ekkert að eyða tíma þar heldur ókum beint áfram til Hvalba.



.....og hver annað en á bryggjuna?



Þorpið Hvalba stendur dálítið sérkennilega. Bryggjumannvirki eru öll norðanmegin í firðinum og þar er einnig aðalbyggðin - og sú elsta. Fyrir botni fjarðar er svo töluvert undirlendi sem er aðallega nýtt sem tún en ofan þess er svo áframhald byggðarinnar yfir fyrir fjarðarbotninn og suðvestan hans stendur kirkjan og ráðhúsið. Þetta kemur manni dálítið einkennilega fyrir sjónir í ljósi þess að á langflestum stöðum eru byggðirnar teygðar meðfram sjónum. Þetta fyrirkomulag í Hvalba - sem sést vel þegar skoðuð er loftmynd á Google Earth - gæti m.a. orsakast af því að jarðvegur sé gljúpari á flatlendinu upp af sjónum og lóðir því erfiðari, landið nýtist betur sem tún en sem byggingarlóðir og svo einnig því að úthafsaldan gengur óbrotin inn á sandinn fyrir botni fjarðar, fellur þar og myndar trúlega hvíta særok upp um allar koppagrundir í austlægum illviðrum:



Á myndinni hér að neðan er horft frá höfninni yfir fjarðarbotninn, nokkurn veginn þangað sem rauði punkturinn er á þeirri efri:



Trébátar eru ákaflega forgengilegir - fái þeir ekki eðlilegt viðhald. Notkun og viðhald haldast venjulega í hendur, hverfi annað er jafnan stutt í að hitt hverfi líka. Kannski máttu þessir tveir lúta í lægra haldi fyrir viðhaldslitlum plastfleytum - en kannski lutu eigendurnir sjálfir bara í lægra haldi fyrir tímanum.......



Nei, sjáum nú til! Þeir eru ekki tveir heldur þrír......það er eldri kynslóð undir í uppsátrinu!



Enn horft yfir fjörð af höfninni og sést vel að ekki er smátt byggt:



Í grónum garði við gamalt hús mátti sjá heilan dýragarð. Þarna eru tvær endur í grasinu:



Þarna eru hænurnar og tveir kettir. Sá litríkari var margræður á svipinn en sá svarti faldi sig að mestu milli þúfna:



Svo voru auðvitað nokkrar gimbur:



Niðri á bryggjunni stóðu þessir tveir og virtust ekki alveg vissir um hvert framhaldið yrði. Ofan þeirra, uppi á bakkanum má sjá minnimerki um burtkallaða úr sveitarfélaginu, bæði sjómenn og sigmenn. Þótt skömm sé frá að segja láðist okkur hreinlega að mynda minnisvarðann, þrátt fyrir að halda á myndavélinni þegar við skoðuðum hann - enn ein ástæða til að skreppa aftur til Færeyja við tækifæri. Eg bendi á ágæta mynd frá Eileen Sandá:



(Eileen Sandá hefur annars tekið fjölmargar frábærar myndir í Færeyjum og á heiður skilinn fyrir. Kíkið á hana HÉR)

Við fluttum okkur yfir víkina og lögðum bílnum nærri kirkjunni. Hún var læst eins og við mátti búast svo við mynduðum aðeins utan frá. 



Gimbur í Færeyjum virðast ekki endilega vera markaðar með eyrnaklippingu. Sumar eru það, aðrar ganga með hálstau og enn aðrar skarta hvorutveggja. Hún gaf góðfúslegt leyfi til ljósmyndunar:



Sjúkrahótel, kirkja og ráðhús:



Klukkan var orðin margt, eins og stundum er sagt, þegar þarna var komið sögu og hótelstjórinn orðinn dálítð stressaður.  Það var nefnilega farið að styttast í komu Smyrils til Þvereyrar og ekki vildum við missa af heimferðinni. Við snerum því stefni til fjalls (já, eða stuðara...) og dóluðum til baka fram dal, gegnum göng og niður dal. Ætlun okkar var að mynda kirkjuna á Þvereyri, sem er gríðarstór og falleg timburkirkja, en bæði var þokumóða kringum hana og sjónarhornið úr bænum  mjög þröngt. Við ákváðum því að mynda kirkjuna handan frá "Líðin" þar sem ferjubryggjan er, en þá gætti þokumóðunnar enn frekar, auk þess sem draslið í forgrunni truflaði. Í ofanálag fór svo að rigna.



Svo kom Smyrill:



...og frekari myndatökur lögðust af. Um borð hittum við svo mótorhjólafólkið sem sagði sínar farir ekki svo sléttar - hafði enda sem fyrr segir ekki fengið jafn ágæta leiðsögn og við. Svo er jú dálítið öðruvísi að ferðst á mótorhjóli en í sínum eigin sjúkrabíl!



Í Þórshöfn var sama veðurblíðan og sólarhring fyrr þegar lagt var upp. Við lögðum því bílnum um leið og í land var komið og tókum góða gönguferð um bæinn. Það tilheyrir að vera dálítið hýr undir svona skilti:



( þótt það þýði aðeins "Leigubíll")



Mér tókst að suða út ís hjá Íslandsvinkonu okkar í ískaffihúsinu við göngugötuna. Auðvitað fylgdi dálítið spjall á íslensku.



...og þar sem við röltum um hæðirnar upp af hafnarsvæðinu spólaði Smyrill út úr mynninu á fullri ferð heim aftur - hann á jú heimahöfn á Tvöreyri:





Kvöldið var einstaklega blítt og við röltum m.a. upp að minnismerkinu um konungskomuna 1874. Skyldi kóngurinn aldrei hafa komið eftir það?



Hér að neðan er horft yfir Þórshöfn móti hávestri eða því sem næst. Oddurinn fyrir miðri mynd, þó heldur vinstra megin er turn Vesturkirkjunnar:



Væri höfðinu (og þar með myndavélinni) snúið dálítið meira til norðurs blasti við hæðin þar sem Færeyingar eru að reisa heilan vindmylluskóg. Það eru deildar meiningar um aðgerðina en þörfin fyrir meiri raforku er óumdeild....Við myndjaðarinn vinstra megin má sjá óvenju stóran, svartan burstabæ. Þetta er hin færeyska Kringla, verslunarmiðstöðin, mollið eða hvað menn vilja kalla það. Sjálfir kalla Færeyingar Kringluna sína SMS



Myndin hér að ofan og tvær þær neðri eru teknar frá minnismerkinu um konungskomuna. Við merkið er dálítill garður og eins og víðar voru notaðar sjálfvirkar gimbusláttuvélar til að halda grasinu í skefjum - bensín/rafmagnsorf virðast hendur fátíð í Færeyjum, svona líkt og gasgrill á svölum - og við urðum vitni að skærum milli tveggja lamba og hálffleygs krákuunga sem fallið hafði niður úr nálægu tré. lömbin stönguðu lauslega, unginn flögraði undan og krákumamma gerði loftárásir.......





Hér eru svo heldur skæðari árásarvopn en krákumamma. Þær eru tvær, kanónurnar sem Bretar skildu eftir í lok hernáms, og standa á Skansinum við hafnarmynnið. Ég er ekki með stærstu mönnum (a.m.k. ekki á hæð) en það má samt marka stærð byssanna af samanburðinum. Í baksýn liggur svo Nólsey og við sjáum syðri hluta hennar, sunnan þorps.





Skansinn hefur verið endurbyggður og lagfærður mörgum sinnum, enda fylgdi hverju hernámi talsvert rask og ekki síst Breta. Þetta sögulega mannvirki er nú í prýðisgóðu ástandi:







Horft af Skansinum yfir athafnasvæði Norrönu og Smyrils. Þarna leggst Norröna að með bb. síðu og skuturinn opnast í átt að sendibílunum tveimur, bláa og hvíta. Litla skipið til hægri er Ternan (Krían), ferja Nólseyinga, sem siglir tuttugu mínútna siglingu út til eyjarinna mörgum sinnum á dag, alla daga vikunnar.



Þessar fjórar koparfallbyssur á Skansinum eru komnar til ára sinna, enda verður varla skotið úr þeim framar:





Bresku fallbyssurnar tvær hefði lítið munað um að kaffæra óvinaskip á sínum tíma. Þeirra tími er hins vera liðinn sem betru fer og Nolseyingar geta sofið rólegir þó við þeim gíni opin hlaup:



Ofan við Skansinn, rétt upp af ferjuhöfninni stendur Stephanssons hús. Þetta er falleg, stílhrein og áberandi bygging:



Kvöldið leið og ferðaáætlun morgundagsins - þriðjudagsins - var að taka á sig mynd. Það leið því að háttum og okkur vantaði náttstað. Við vissum að húsvagnasvæðið í Þórshöfn hafði fyllst af ferðalöngum í þriggja daga stoppi (hópi sem hafði komið með Norrönu á sunnudagskvöld frá Hirtshals og dvaldi í Færeyjum meðan ferjan sigldi aftur til Hirtshals og sótti annan farm)  og því var frekar þröngt á þingi. Við ákváðum að leita út fyrir bæinn að gististað og ókum upp í Kaldbaksfjörð.  Önnur aðalleiðin út frá Þórshöfn liggur upp úr botni Kaldbaksfjarðar en út með firði að norðan er endastöð við þorpið Kaldbak. Þennan botnlanga völdum við og ókum fram hjá nokkrum fiskeldisstöðvum í mismikilli drift alla leið út í þorp. Þeir búa vel á Kaldbak og líklega vinna flestir vinnufærir inni í Þórshöfn:



Kirkjan var ein þeirra fallegri......



....og ekki var þessi garður síðri, þó á annan hátt væri! Þarna var ótrúlegt safn smástytta, svona eins og alltaf verða eftir þegar búi afa og ömmu er skipt. Þetta voru styttur "sem enginn vill eiga en enginn vill heldur henda" eins og Elín orðaði það einhvernveginn. Þegar þannig er fer dótið oft á Loppumarkað að danskri fyrirmynd og endar svo kannski hjá svona safnara. Stytturnar skiptu þúsundum og hver og ein var steypt niður:







Náttstað fundum við okkur á yfirgefnu plani gamallar fiskeldisstöðvar, í nábýli við þennan hógværa foss:



Svo seig nóttin yfir - þó myrkrið yrði ekki mikið meira en þetta - og enn hvarf dagur og nýr tók við. Sem fyrr segir höfðum við mótað ferðaáætlun fyrir þriðjudaginn 25. júní - næst síðasta daginn - og settum allt okkar traust á veðrið.

......og enn var almættið með okkur!



Hér við Kaldbaksfjörðinn lýkur áttunda hluta og þar með mánudeginum. 9. hluti er í smíðum.
...............................

26.07.2014 09:01

Í Færeyjum - 7.hl. ferðasögu.




Sjötta hluta lauk í svefnstað við gamla grjótrétt að Eiði. Í því þorpi, líkt og svo mörgum öðrum var ekki finnanlegt neitt tjaldsvæði og því varð að bjarga sér með sem bestum hætti. Eftir að skriðið var í ból urðum við vör við stöku bíl sem ekið var framhjá. Við enda vegarins sem réttin stóð við var nefnilega fótboltavöllur bæjarins og yngra fólk virtist leggja leið sína þangað, enda laugardagskvöld og frí að morgni. Enga truflun höfðum við þó af þessu, enginn hávaði barst frá vellinum enda aldrei margir í einu að leik. Þegar dagaði urðum við enn vör við fólk sem kom akandi út að fótboltavellinum, lagði bílnum þar og gekk svo slóða út í náttúruna, út með sjónum og klettunum sem sáust svo vel á einni túristamyndinni sem við áttum af Eiði. 

Við vorum annars snemma á fótum því við ætluðum að nýta daginn vel. Nú voru liðnir tveir heilir dagar af dvölinni og við farin að átta okkur aðeins á því hvað sneri upp og hvað niður í Færeyjum. Þennan sunnudag ætluðum við m.a. að aka til Vestmanna og þaðan niður á Vogey. Svo var nokkurs konar viðbótarplan til kvöldsins sem var opið í báða enda en vel framkvæmanlegt ef allt annað gengi upp.

Við byrjuðum á að leita að hreinlætisaðstöðu í bænum. Sem fyrr sagði fundum við ekkert tjaldsvæði og í mörgum færeyskum þorpum er hvorki verslun né bensínstöð svo ekki var hægt að leita þangað. Nærri kirkjunni fundum við lítið hús sem virtist gegna hlutverki biðskýlis fyrir hin bláu "Strandfaraskip landsins" eins og þeir voru merktir, hópferðabílarnir sem gengu milli þorpa og til Þórshafnar. Í þessu húsi var öll hreinlætisaðstaða, opin almenningi og í þokkalegu lagi þrátt fyrir nokkrar "vargaskemmdir". Að lokinni andlitspuntun og öðru skyldu var haldið í skoðunarleiðangur um bæinn. Líkt og á flestum öðrum stöðum, bæði færeyskum og íslenskum stóð gamli bæjarkjarninn næst sjónum. Eins og fram kom áður stendur þorpið Eiði við "Sundini" þ.e. sundið milli Austureyjar og Straumeyjar. Þorpið er á Austurey norðvestanverðri, stendur við litla vík og snýr nokkurn veginn til suðurs. Sundið er langt, mjótt og eflaust verður sjór þar oft úfinn vegna vinds og strauma. Víkin sem þorpið stendur við er klettótt og hefur verið sæbrött en á seinni árum hafa verið byggðir gríðarlegir hafnargarðar til skjóls fyrir bryggjurnar. Grjótið í garðana hefur verið fengið með því að sprengja niður klappirnar næst sjónum og þannig hefur myndast stórt athafnasvæði um leið. Það er svo ekki ólíklegt að eitthvað hafi fækkað húsum í gamla bæjarhlutanum um leið. Skjólgarðar hafnarinnar á Eiði eru þeir lengstu í Færeyjum.

Næstu fjórar myndir hér að neðan eru teknar undir miðnætti á laugardagskvöldinu, við komuna til Eiðis.










Þessi gatnamót voru með þeim þrengstu sem við sáum á okkar ferð, og til öryggis voru hafðir tveir speglar. Sjúkrabíllinn er rétt tæpir sex metrar að lengd en það mátti passa sig verulega á að strjúka ekki hliðunum utan í húshornin:



Færeyingar eru sagðir trú - og kirkjuræknir og víst er um það að varla komum við svo í þorp að ekki sæjum við þar kirkju og merkt aðsetur eins eða tveggja sértrúarhópa að auki. Þetta er kirkjan að Eiði og þennan sunnudagsmorgun stóð yfir athöfn. Við stilltum okkur því um að líta inn. Það var annars athyglisvert að inn um gluggana mátti greina töluverðan fjölda fólks en fyrir utan voru mjög fáir bílar. Að hugsa sér! Fólkið hafði komið gangandi til kirkjunnar! Enn ein sönnun um að Færeyjar eru útlönd! 



Þessi laglegu hús stóðu við götu sem líklega hefur verið aðalgata þorpsins áður fyrr. Hún virtist raunar gegna því hlutverki enn að mörgu leyti:



Fleira var það sem vakti athygli að Eiði. T.d. voru þar áberandi mörg nýleg, stór og glæsileg einbýlishús. Stór skólabygging er í miðjum bænum og má sjá hana sem hvíta og ljósgrá ræmu á miðri mynd. Uppi á kletti hægra megin við skólann, hvítt með svörtu þaki er Hótel Eiði. Handan sundsins er ysti hluti Langafjalls á Straumey og í lítilli, lokaðri vík beint ofan við skemmurnar á höfninni leynist lítið þorp, Tjörnuvík. Neðst á myndinni má nokkuð átta sig á mannvirkjagerðinni sem minnst var á:



......og í þessa garða fór grjótið. Sem fyrr segir, lengstu skjólgarðar í Færeyjum og veitir örugglega ekki af á svona straumhörðum stað. Handan sundsins er Langafjall á Straumey:



Hér fyrir neðan er enn horft yfir sundið og hægt að átta sig á staðsetningunni með tilliti til litla tindsins á myndunum. Við blasir þorpið Haldarsvík:



Við héldum frá Eiði inn með Sundinu, gegnum smáþorpið Ljósá áleiðis að brúnni yfir á Straumey. Það var dálítið bjartara yfir en þegar við fórum til Fuglafjarðar og við bættum við einni mynd af Eyrarbakka fjærst, brúnni og næst kirkjunni að Norðskála:



Við ókum yfir brúna og um slóðir sem áður hafa verið nefndar, Streymnes og Hvalvík, Áir, Hósvík, Kollafjörð og sem leið lá þvert suður yfir Straumey. Á leiðinni var ekið gegnum einn stuttan gangnastubb og er suður úr honum kom kvíslaðist vegurinn: Annars vegar lá leiðin um neðansjávargöng yfir á Vogey, hins vegar lá hún til Vestmanna og þangað var okkar för heitið. Því miður höfðum við litlar upplýsingar um þorpið Vestmanna og vissum því ekki af farþegabátum sem ganga þaðan í útsýnissiglingar meðfram sjávarhömrunum utan þorpsins. Þessi björg eru rómuð fyrir hrikalega fegurð en vegna upplýsingaskorts lenda þau á áætlun næstu ferðar! Vestmanna kom okkur annars fyrir sjónir sem þreyttur bær. Það verður að hafa í huga að við vorum að koma frá Eiði þar sem allt var í blóma og bærinn nýlegur að stærstum hluta vegna mikillar uppbyggingar. Hér fannst okkur allt annað uppi á teningnum. Niðurníddar byggingar voru algeng sjón, bæði íbúðar - og athafnahús allskonar.







Það var einhvern veginn allt annar bragur á öllu þarna í Vestmanna en við höfðum kynnst annarsstaðar. Þröngu göturnar og speglarnir voru þó á sínum stað. Á skiltinu ofan við örina stendur: " Í hvörgari síðu"  Ætli það þýði einstefna í báðar áttir? Eða hvoruga?



Aðalgatan?



Sérstaða Vestmanna felst í virkjununum. Virkjanir eru nefnilega fáséðar í Færeyjum en þarna eru þær tvær og sjá stórum hluta eyjanna fyrir rafmagni. Lónin eru, skv. upplýsingunum í hlekknum, fjögur og safna regnvatni úr ám og lækjum fjallanna í kring. Þetta eru pípur vestari virkjunarinnar:



....og hér að neðan er sú eystri. Á myndinni má einnig sjá ágætt "Camping" svæði þeirra í Vestmanna. Það er annars dálítið skrýtið, eins og við ferðaglaðir Íslendingar erum fljótir að tileinka okkur allt mögulegt frá útlöndum, að við skulum ekki eiga neitt skárra orð yfir svona stað en "hjólhýsasvæði". Eða er það til? Þetta er ekki tjaldsvæði því það er ekki gert ráð fyrir tjöldum á þessum stað. Muniði eftir því sem ég skrifaði um "Camping" svæðið á höfninni í Fuglafirði? Þar var aðeins svart malbik og hvergi tjaldhæl niður stingandi enda á hafnarsvæðinu. Samt prýðis svæði fyrir húsvagna ( þrátt fyrir engar merkingar þar um)  því þar var allt til alls. Húsvagnasvæði - er það ekki brúklegt orð yfir svæði sem eingöngu er ætlað fellihýsum, hjólhýsum og húsbílum? ( ég nefni ekki tjaldvagna því eftir "sumarið" í sumar geri ég ekki ráð fyrir að þeir sjáist framar á Íslandi og orðið muni smám saman hverfa úr málinu) 

Þetta húsvagnasvæði ( ég kann bara ágætlega við orðið) í Vestmanna virtist þokkalega búið en ég tók samt eftir því að nokkur hýsanna virtust frágengin á líkan hátt því sem sést m.a. við Laugarvatn - þ.e. með viðbyggðum trépalli og fleiru í sama dúr.



Það er skjólsælt þarna í Vestmanna enda er höfnin líklega ein sú besta í Færeyjum. Utan fjarðar liggur Vestmannasund milli Straumeyjar og Vogeyjar sem sér í handan sunds:



Ég hafði í hálfgerðum barnaskap fyllt ferðabílinn af olíu á Seyðisfirði og áætlaði að nota aðeins þá olíu í Færeyjum. Reiknaði með að tankurinn dygði því hann er stór og eyðslan skikkanleg. Lengst samfelldi landvegur er talsvert innan við hundrað kílómetra og að öllu samanlögðu taldi ég þetta raunhæfan möguleika. Svo sáum við auðvitað að fyrsti feillinn var fólginn í að taka olíu heima því í Færeyjum var hún rúmum fjörutíu krónum ódýrari lítrinn. Aki maður svo þennan lengsta samfellda landveg þarf víst að aka til baka og þannig tvöfaldast allar vegalengdir - því maður er jú alltaf að keyra til baka. Það er ekki víða hægt að aka í hring. Þar við bættist að stöðugt er verið að aka upp og niður því Færeyjar eru jú allt annað en flatlendar!

Í Vestmanna var semsagt komið að því að tanka drekann. Hann var reyndar ekki nema tæplega hálfur en við tókum þó ( skv. nákvæmu bókhaldi) 64.6 lítra og greiddum fyrir þá 13.200 krónur ( á genginu 22-). Eyðslan í þessu hrjúfa upp og niður landslagi reyndist vera 17.8 ltr/100km. Ekki var það neitt til að væla yfir og ég hugsaði til þess með hrolli hversu þyrstur fyrri Econoline- ferðadrekinn hefði verið við sömu aðstæður, með sína sex strokka bensínvél og 35"dekk. Það hefði eflaust mátt tvöfalda þessa lítratölu!

Við kvöddum Vestmanna og mynduðum yfir innsta voginn að skilnaði. Ég ákvað á þessum stað að gefa bænum möguleika - þetta er nefnilega afar fallegt bæjarstæði, frábær höfn og fólkið á bensínstöðinni bjargaði bænum með sínu vinalega viðmóti. Svei mér þá, ef Vestmanna er ekki bara vinalegasti bær....





Á leiðinni til baka ókum við fyrir ofan þorpið Kvívík, og úti fyrir sat eyjan Koltur í miðmynd. Kvívík er ákaflega vinaleg þyrping húsa ofan við litla höfn, snyrtilegt þorp og skartaði fallegum byggingum.....



....eins og þessari sem okkur virtist helst vera leikskóli, miðað við leiktækin á lóðinni:



Höfnin er ekki stór en það hefur þurft að verja hana vel með steyptum garði, enda opin fyrir sjógangi utan af Vogafirði. 



Örstutt frá Kvívík er þorpið Leynar. Þar var að finna eina af sjaldséðum sandfjörum Færeyja og þar sem það var nú einu sinni sunnudagur, veðrið ágætt og Jóansöka á dagatalinu var mannsöfnuður í sandinum. M.a. mátti sjá uppblásin leiktæki. 







Rétt ofan við þorpið Leynar er ekið ofan í neðansjávargöngin sem liggja yfir á Vogey. Þangað lá leið okkar og síðan beint yfir Vogey gegnum þorpin Sandavog, Miðvog og Sörvog, framhjá millilandaflugvellinum og út Sörvogsfjörð. Við vorum á leiðinni að skoða Tindhólm. Fyrir einu eða tveimur árum kom kynningarkálfur um Færeyjar með Morgunblaðinu hér heima. Á forsíðu þessa kálfs, sem var í sama eða svipuðu broti og Mogginn sjálfur, var flennistór mynd af afar sérkennilegu fjalli. Ekki var að finna neinar upplýsingar um hvar myndin væri tekin svo ég lagðist í grufl á Google Earth þar til ég fann staðinn. Tindhólmur er eyja, sem er eiginlega aðeins einn risastór klettur. Hann rís bratt upp frá sjó að norðan, hlíðin er samfelldur flái allt upp á brún en þar endar hún í lóðréttu falli niður í sjó sunnanvert - svona dálítið líkt og Hornbjarg hér heima. Frá því ég sá þessa mynd í kynningarkálfinum og tókst að finna staðinn á google Earth var dagsljóst  að þennan stað yrði ég að sjá. Nú var komið að því:







Vestan við Tindhólm liggur eyjan Mykines. Hún sést til hægri og er umvafin þoku í toppinn. Út til Mykiness gengur ferja frá Sörvogi, sú ferja tengist ekki "Strandfaraskipum Landsins" heldur er einkarekin með ríkisstyrk. Ferðirnar eru mjög háðar veðri og vindum og það er vissara fyrir ferðalanga sem hyggja á ferð til Mykiness að hafa tímann fyrir sér því oft er ólendandi við eyjuna svo vikum skiptir - það á þó trúlega frekar við vetrartímann, enda veðurfar óstöðugra á þeim árstíma. Það er ekki fjölmennt í Mykinesi - þar búa aðeins ellefu manns (2004), aðrar heimildir segja þrettán. Hvort sem er, er eins gott að samkomulag ríki í slíku fámenni. Í Mykinesi er boðið uppá veitingar og gistingu yfir sumarið enda dvelja þar þá væntanlega fleiri en ofantaldir.  Allt um það ólum við engar vonir um að komast til Mykiness í þessarri Færeyjaferð. 

Það var alveg nóg að sinni að sjá Tindhólm:





Þegar ekið er frá þorpinu Sörvogi á Vogey meðfram ströndinni til vesturs blasir Tindhólmur við allan tímann. Ekið er á mjóum vegi með þéttum útskotum um bratta hlíð ( á malbiki eins og alltaf) og leiðin liggur meðfram smáþorpinu Böur (Bær). Þetta þorp er ein af perlum Færeyja, líkt og Gjógv og Saksun. Við ókum þó framhjá í þetta sinn því við vorum á leið út í Gása (Gæsa?) dal, sem er á vegarenda. Eins og sjá má á kortinu hér ofar liggur síðasti hluti vegarins í göngum. Þessi göng voru gerð árið 2006 og skv. okkar heimildum fækkaði nokkuð í dalnum eftir komu þeirra. Kannski var það eðilegt því fyrir tilkomu gangnanna var Gásadalur ekki í vegasambandi og hafnleysa er þar alger. Einu samgöngurnar voru á fæti yfir bratt fjall  - og svo "tyrlan"



Hvernig þeir fluttu efni í hús til Gásadals áður fyrr er mér lokuð bók. Kannski var hægt að fleyta því á sjó í ládeyðu en hvarvetna eru háir hamrar í sjó fram. Kannski bundu þeir efnið á "tyrluna" - þ.e.a.s. eftir að þessháttar verkfæri voru tekin í notkun sem samgöngutæki. En kannski fluttu þeir það á sama hátt og kirkjan í Saksun - þið munið - var flutt yfir fjallið frá Tjörnuvík forðum. Einfaldlega á höndum!



Á myndinni hér að neðan má sjá gangnamunnann Gásadalsmegin. Því miður koma myndirnar ekki nógu vel út í þessu formi en þó má sjá hægra megin við munnann, nokkurs konar sikk/sakk slóð í grasinu - og segir nú frá: 

Áður hefur verið minnst á hóp íslensks mótorhjólafólks sem var samferða okkur í Norrönu til Færeyja. Þessi hópur varð nokkuð víða á vegi okkar enda í sömu erindum í Færeyjum. Á leið út í Gásadal rúllaði allur hópurinn framúr okkur og hafði þá stækkað allnokkuð og blandast bæði færeysku og þýsku hjólafólki. Í áningarstað í Gásadal áttum við spjall við nokkra úr hópnum og þar með ungan mann, búsettan í Færeyjum en íslenskan að uppruna. Hann fylgdi hópnum á bíl, hafði orðið fyrir áfalli með hjólið sitt nokkru áður  og var því að nokkru leyti úr leik. Hann var vel kunnugur á þessum slóðum og fræddi okkur um staðinn. M.a. benti hann á þessa sikk/sakk slóð í hlíðinni og sagði okkur að þarna hefði leið póstsins legið - á hverjum degi allt árið um kring hefði hann gengið yfir fjallið með póst til og frá Gásadal!

Þetta fannst okkur með ólíkindum og í hugann kom sagan um Sumarliða Brandsson póst fyrir vestan, sem hrapaði ásamt hesti og pósti fram af Bjarnarnúp yst á Snæfjallaströnd. Ég velti þessu fyrir mér í u.þ.b. tíu mínútur og skaut svo spurningu á manninn aftur. Nei, þetta var ekki misheyrn. Á hverjum degi.........

........en kannski hafa íbúar Gásadals verið þá töluvert fleiri en þeir fimmtán sem nú teljast þar heimilisfastir!



Flytja byggingarefni sjóleiðina, ha??





Einhverjir af þessum fimmtán voru heima við, a.m.k. sáum við hálfber börn að leik innan við glugga og konu sýsla eitthvað. Kannski var hún að prjóna lopapeysu fyrir markaðinn meðan bóndinn þénaði á olíunni í Norðursjó?



Þau voru ekki öll gömul, húsin í Gásadal þó úr fjarlægð virtust þau það:



Mótorhjólafólkið  hafði fengið leiðsögn um staðinn og hélt í gönguferð út á brúnirnar. Við héldum til baka um göngin sem þjóna fimmtán manns (auk póstsins og ferðamanna) og hugleiddum það sem okkur hafði verið sagt, m.a. það að fyrsta veturinn hefði umferð um göngin ekki verið meiri en svo að Gásadalsmenn geymdu kindur í þeim. Það hefði einhvern tíma þótt vel í lagt fyrir fjárhús...

Í bakaleiðinni var svo komið við í Bæ (Böur). Á myndinni er horft yfir þorpið og inn eftir Sörvogsfirði:



Þessi ungi kippti sér ekki upp við íslenskan sjúkrabíl, en var hins vegar fljótur á fætur (og tók til þeirra) þegar mótorhjólahópurinn renndi í gegn stuttu seinna.



Hús með torfþaki og Tindhólmur í baksýn - stórkostleg upplifun! Þetta er ekkert hægt - ég gefst bara upp á að lýsa þessu. Fólk verður bara að sjá þetta með eigin augum.......











Jæja, ég skal samt reyna áfram: Í þessu hálfopna, gamla bátaskýli sköruðust tvennir tímar: Annars vegar gamli báturinn í uppsátrinu, hins vegar mót af trefjaplastbát upp við vegg:



Og hvar leitar maður svo sálarinnar í gömlu sjávarþorpi? Ég held ég segi það satt að þarna, í bland við lágvært öldugjálfur, heyrði maður sinn eigin hjartslátt. En svo komu mótorhjólin ........





Þeir búa ekki allir smátt í Bæ þótt nafnið sé stutt:



Svo var haldið áfram unn fjörðinn til baka og komið að Sörvogi. Þarna fyrir miðri mynd má sjá eins konar horn upp í loftið. Þetta er hluti lendingarljósabúnaðar við "International Airport" á Vogey.



Húsmæðrafélag Sörvogs: Hvert skyldi vera markmið þess félags? Allavega er félagsheimilið fallegt:



Í öllum kirkjum Færeyja eru bátar eða bátalíkön. Svo má víða sjá báta uppi á landi sem safn- og sýningargripi. Þessi gullmoli stendur við fótboltavöllinn í Sörvogi:



Svo heyrðist þytur í lofti og ein álkýrin - merkt Atlantic Airways, hinu færeyska Icelandair - renndi sér inn á International Airport:





Fíllinn í postulínsbúðinni?





Elín Huld mátti til að mynda þetta fagurbláa biðskýli "Strandfararskipa Landsins":



Frá Sörvogi héldum við yfir lágt en landmikið eiði eða háls þar sem flugvöllurinn er. Á honum stóð álkýrin opin bæði aftan og framan. Allsstaðar var hreyfing, bæði fólk og vagnar.......



Þessi mynd hér að neðan er einungis höfð þarna samhengisins vegna. Hún mun vera tekin í Miðvogi, sem er stærstur þeirra þriggja, Sör- Mið- og Sanda- en við höfðum þar enga viðdvöl. Klukkan tifaði hratt og sem fyrr segir höfðum við nokkurs konar "bakplan" fyrir kvöldið og því átti að hrinda í framkvæmd ef mögulegt yrði.



Pinninn þarna austurfrá heitir Tröllkonufingur, og er líklega austasti hluti Vogeyjar. Við höfðum lesið um hann og séð myndir en fórum ekki þangað - allavega ekki í þetta sinn.





Við ætluðum nefnilega að hafa stutta viðdvöl í Sandavogi. Þetta þorp fannst okkur bera af þeim þremur fyrrnefndu. Stóran þátt í því átti kirkjan tvímælalaust - einhver fallegasta kirkja sem við sáum í Færeyjum:





Svo var þarna auðvitað bílverkstaður: 



...og fyrst ég var farinn að kíkja á bílaverkstæði fannst EH sjálfsagt að líta á leikskólann. Ég verð að segja að hann var talsvert myndar- og merkilegri en verkstæðið:





Allan þennan sunnudag hafði veðrið leikið við okkur og eins og sjá má af myndunum úr Sandavogi sem teknar eru um kvöldmatarleytið var ekki undan neinu að kvarta í þeim efnum. Við vorum að nálgast okkar "deadline" og þegar við kvöddum þetta fallega þorp þurfti að beita nokkrum aukahestöflum fyrir vagninn á leiðinni til Þórshafnar. Þegar þangað kom var farið að súlda lítið eitt en ekkert þó til að tala um. Skýin í suðri gáfu þó fyrirheit um það sem koma skyldi:



Við komum "efribæjarleiðina" til Þórshafnar þarna um kvöldið, fjallaleiðina í stað þess að fara ströndina með Kaldbaksfirði norðan til eins og áður. Við ókum því rétt ofan við Hótel Færeyjar og frá þessu sjónarhorni lítur það allt öðru vísi út en neðan úr bæ:



Planið var að ganga upp. Klukkan var rúmlega hálfátta þegar við þeystum inn á hafnarsvæðið í áttina að stórskipinu Smyrli, sem siglir nokkrum sinnum á dag til Suðureyjar. Okkur hafði verið sagt að vegna stærðar skipsins væri óþarfi að panta far með fyrirvara svo við völdum okkur brottför sem hentaði. Nú var komið að henni og nákvæmlega klukkan átta leysti Smyrill landfestar og sigldi af stað í áttina til Suðureyjar. Framundan var tveggja tíma sigling með skipi sem leit út eins og smækkuð mynd af Norrönu - og bara hreint ekkert svo mikið smækkuð. Það fór allavega ekki mikið fyrir sjúkrabílnum í maganum á Smyrli:





Siglingin tók tvo tíma og á leiðinni sigldum við inní og sáum í fyrsta sinn þetta ekta færeyska veður sem svo margir höfðu talað um - blindþoku og rigningu. Það rigndi eins og hellt væri úr fötu og skyggnið var bókstaflega ekkert. Smyrill þeytti þokulúður með stuttu millibili allan síðasta hluta leiðarinnar og við sáum varla til byggðar þegar lagst var að bryggju á Þvereyri í Traangisvogsfirði. Það var því ekki um margt að velja. Klukkan var rúmlega tíu að kvöldi og við höfðum óljósan grun um tvö tjaldsvæði (eða húsvagnasvæði) í bænum. Hvorugt fundum við þó en satt að segja voru "aðstæður til leitar afar erfiðar" svo notað sé alþekkt orðalag. Við fundum veg út úr bænum til vesturs og af honum grasi gróna slóð eitthvert út í þokuna. Þar, þegar ekki sást lengur til þjóðvegar, lögðum við ferðadrekanum og skriðum undir feld.......



.........og stuttu seinna sýndi klukkan að kominn væri mánudagur.....

Hér lýkur 7. hluta og sunnudeginum. 8. hluti gerist allur á Suðurey og spannar sólarhring eða svo. 
................................................

24.07.2014 19:53

"Sól með köflum"


Eitthvað á þessa leið minnir mig að veðurfréttafólkið hafi talað hér áður fyrr. Kannski talar veðurfréttafólk svona ennþá, ég veit það ekki því ég reiði mig aðallega á norsku veðurspána yr.no. Reyndar sýnist mér íslenskir spámenn, allavega þeir ríkisreknu, styðjast að mestu við þá spá. Það er grunsamlega oft sem íslenska spáin breytist í takt við þá norsku - en bara aðeins seinna.....

Norska spáin var samt dálítið loðin fyrir nýliðna daga og kannski ekki alveg að treysta hverju orði. Mér sýndist vera spáð sól með köflum á því svæði sem ég hafði hugsað mér að heimsækja - en svo gat það alveg eins verið rigning með köflum!

Það var svo sæmileg sól úti og inni en  glaðasólskin bæði í hjarta og sinni þegar sjúkrabílnum var snúið norður á við uppúr hádegi sl. sunnudag. Ég ætla ekki að skrifa ferðasöguna strax því Færeyjar ganga fyrir en stikkorð úr túrnum gætu td. verið:  Hvammskirkja í Norðurárdal, Víðigerði, Blönduós, ónýtt tjaldsvæði vegna aurbleytu, blindþoka, Laxárdalur norðan - glaðasólskin, Illugastaðir, Skagaströnd, blindþoka. Kvöld og nótt.

Mánudagur: Ausandi rigning, blindþoka, sólskin, sundlaug á Skagaströnd, Blönduós, útlendingur sem stolið var síma frá, Langidalur/Gautsdalur, Varmahlíð, þoka, Sauðárkrókur, ónýtt tjaldsvæði, Einar P., lyklar læstir inn í sjúkrabíl, lyklar sem pössuðu frá öðrum sjúkrabíl, kvöld og nótt.

Þriðjudagur: Sauðárkróksbakarí fimm stjörnur, lágþoka, Enni, Blönduhlíð, Flugumýri, Varmahlíð, efribæjaleið, Steinsstaðir, Bakkaflöt, Vatnsskarð, Svartárdalur, Eyvindarstaðaheiði, Blöndudalur, Svínavatn, Auðkúlukirkja, Hvammstangi, kvöld og nótt.

Miðvikudagur: Vatnsnes, Tjörn, Katadalur, Þorgrímsstaðir, Geitafell, Laugarbakki, horfin sundlaug, heitir pottar, fundin horfin sundlaug, útlent par, heit laug í fjöru við Reykjaskóla, rigning yfir Holtavörðuheiði, sól yfir Laxárdalsheiði, Búðardalur, gerónýtt tjaldsvæði, Spánarveður, Laugar í Sælingsdal, illa farið tjaldsvæði, kvöld og nótt.

Fimmtudagur: Laugar, heitt en skýjað, Fellströnd, efribæjaleið, Klofningur, Hnjúksnes, rigningarskúrir í grennd, Búðardalur, biluð ísvél (sem eitt og sér á að varða við lög), Brattabrekka, Borgarnes (og ísvél í lagi), heimkoma kl. 19.

................................................................................................................

Mér finnst nú eiginlega, að öllum þessum stikkorðum skrifuðum, að ferðinni séu nokkurn veginn gerð fullnægjandi skil. Það vantar að vísu myndirnar, en samt......

Gott í bili. ( og eins og alltaf, gott að vera kominn heim....)


20.07.2014 09:53

Ég þarf.......


.......aðeins að skreppa þangað sem sólin er og snúast þar nokkra hringi. 
Kem aftur um eða eftir miðja viku. Færeyjar bíða á meðan.


18.07.2014 21:06

Í Færeyjum - 6.hl. ferðasögu.


Fimmta hluta lauk þegar okkur opnaðist sýn til þorpsins að Viðareiði. Þorpið er það nyrsta í Færeyjum og sérstakt fyrir fleira en það. Þorpið liggur í dalverpi sem myndar nokkurs konar eiði þvert yfir eyna og er hún mjóst um það. Dalverpið liggur nokkurn veginn norðvestur/suðaustur og má segja að þorpið  sé tvískipt. Norðvesturhlutinn stendur hærra og dreifðara og teygir sig upp í hlíð norður af kirkjunni. Kirkjan sjálf stendur framarlega á klettasnösum og er þar hafnlaust með öllu. 







Suðausturhlutinn er að sama skapi lægri og hallar nokkuð niður í átt að Eiðsvík. Í Eiðsvík eru gömul bryggjumannvirki, orðin lúin, barin og brotin af stormum og brimi. 









Bátarnir á myndinni að ofan voru, eins og algengast var, settir með spili og blökkum. Þeir báru það reyndar með sér að notkun þeirra væri stopul enda er langt síðan aðalatvinnuvegur íbúa að Viðareiði var sjávarútvegur. Nokkuð var um fjárhúskofa og talsvert sást af kindum en ekki var að sjá neina fiskvinnslu og líklega hefur útvegur frá þessum stað fyrst og fremst verið sjálfsþurftarbúskapur. Eyjan sem einokar baksýnina er Fugley. Við lauslega athugun virðist Fugley kannski helst líkjast Elliðaey og Bjarnarey við Vestmannaeyjar, há, hömrum girt og óaðgengileg á flestan máta. Samt eru þar tvö smáþorp, Hattarvík og Kirkja. Sé smellt á hlekkinn bak við Fugley má lesa íbúafjölda hvors um sig. Hægra megin við Fugley sést í bláhornið á Svíney, þar sem heitir Selnes.

Á myndinni að neðan sést meira til Svíneyjar og lengst til hægri á myndinni gægist Gáshöfði á Viðey inn á flötinn:



Við röltum þarna um Eiðsvík og bryggjuna en færðum okkur svo yfir og litum á kirkjuna. Hún var raunar læst eins og margar aðrar svo við létum ytri skoðun nægja. Við kirkjuna hittum við íslensk hjón sem voru á ferðalagi líkt og við. Þau ætluðu þó að hafa lengri viðdvöl í eyjunum því bóndinn var með óunnin verkefni í Suðurey og þar ætluðu þau að dvelja nokkra hríð. 



Þarna skaut upp kollinum sama spurningin og víða annarsstaðar: Á hverju lifir fólkið hér? Einhverjir voru með smábúskap en ekki gat það skapað mörgum lifibrauð. Hér var hótel, ekki stórt en nóg til að veita einhverjum vinnu - a.m.k. þann tíma sem túrhestar væru á ferð. Skóli var hér svo einhver voru börnin. Augljóslega hlutu einhverjir að vinna inni í Klakksvík og jafnvel við fiskeldi í Hvannasundi eða Norðdepli. Nýlega byggð hús kirkjumegin í þorpinu bentu hins vegar til þess að þeir sem þau höfðu byggt hefðu meira en meðallaun:





Hluta skýringarinnar fengum við seinna hjá kunnugum: Margir Færeyingar starfa beint eða óbeint í olíuiðnaðinum í Norðursjó. Þar eru menn á rífandi launum og vinna í törnum. Heima í Færeyjum hafa þeir svo reist sér hús á ættarslóðum, spölkorn frá þéttbýlli stöðunum þar sem ódýrari lóðir er að fá. Vegalengdir í Færeyjum eru hverfandi hvort sem er og snjóþyngsli lítil. Mér lék forvitni á að vita hvað konur þessarra manna gerðu á svona útnára eins og Viðareiði - þ.e. þeirra sem á annað borð væru fjölskyldumenn. Svarið var einfalt: "Þær prjóna"

Meiningin var útskýrð með því að þær sem ekki ynnu beinlínis við annað, s.s. skóla og önnur þjónustustörf, framleiddu handverk eins og t.d. lopapeysur sem síðan væru ýmist til sölu á þéttbýlli stöðunum eða hreinlega fluttar út. Semsagt - atvinna og afþreying í einu. Svo hefur barnauppeldi jafnan verið talsverð vinna.......



Á myndinni hér að neðan er horft frá nýjum og glæsilegum íbúðarhúsum á Viðareiði út yfir Hvannasund og til Borðeyjar. Handan sundsins er býlið Múli við enda langrar heimtraðar - sem auðvitað er malbikuð eins og allir aðrir vegir. Lengra til hægri sér á enda Kunoy og enn lengra Kalsoy.  (Konuey(Karlsey)



Viðstaða okkar á Viðareiði varð nokkuð löng en að henni lokinni var haldið til baka. Okkur leið dálítið eins og við hefðum náð á tindinn og værum nú á niðurleið. Það var að því leyti rétt að norðar varð ekki komist í Færeyjum en við áttum eftir að fara miklu, miklu sunnar......

Við komum aðeins við í Hvannasundi og þar er myndin hér að neðan, tekin. Hún er dálítið skemmtileg - a.m.k. fannst okkur Elínu Huld það. Hún er tekin frá kirkjunni og sýnir  þorpið Hvannasund á Viðey hægra megin, þorpið Norðdepil á Borðey vinstra megin og á milli er sjálft Hvannasundið þverað með garði og brú sem vel er sýnileg á myndinni. Ég eigna mér ekki réttinn - það er útilokað að ég hafi tekið svona flotta mynd!



Í fjörunni rétt hjá okkur var stelputrippi - sirka á fermingaraldri - að busla í sjónum, íklædd sundbúningi. Okkur sýndist henni vera hálfkalt en samt óð hún aftur og aftur útí við mikinn fögnuð félaga af báðum kynjum. Einhverra hluta vegna skaut aftur upp kollinum sama hugsunin og þegar við sáum stelpurnar leika sér í fimleikum á götunni í SyðraGötu og gimbu horfa á: Hvar voru nú leikjatölvurnar? Hvar var feisbúkk og allt hitt? Þarna voru krakkar úti að leika sér! Var ekki allt í lagi heima hjá þeim?? 



Auðvitað er kirkja í Hvannasundi og við mynduðum hana, enda afar falleg: ( ég meina kirkjan, sko)



Nokkrum mínútum og tvennum jarðgöngum síðar renndum við inn í Klakksvík. Nú ákváðum við að skoða staðinn betur og lögðum því bílnum. Ég hafði loforð um ís og á honum var byrjað. Meðan hann var sleiktur myndaði EH þvert yfir víkina og hitti fyrir hús sem við höldum að sé ráðstefnu- og tónlistarhús í Klakksvík. Ábendingar eru vel þegnar:







Þær voru margar fallegar, gömlu trillurnar, en þessi bar þó af. 



Svo voru þarna gamlir kunningjar eins og hún Árý. Árý ÍS 414 (6290) var reyndar búin að heita mörgum nöfnum heima á Íslandi áður en yfir lauk og Þróunarsjóðurinn gleypti hana og seldi til Færeyja. Ég þekkti bátinn bæði sem Óla Hall ÍS 414 og seinna Árý ÍS, eftir að Þórir Hinriks eignaðist hann (hana)  og Daði bróðir hans hafði farið höndum um hana (þ.e.a.s. bátinn):





Svo var þarna annar Ísfirðingur, sem eitt sinn var gulur og átti að vera það áfram eftir sölu, að sögn manns sem síðar kom í ljós að var í engu treystandi. Guðbjörg ÍS, sem seinna hét einhverju Akureyrsku nafni, enn síðar Hannover, svo eitthvað fleira, svo Odra heitir nú Akraberg og á heima í Færeyjum. Það er liðin tíð að Færeyingar kaupi ónýta millistríðstogara frá Íslandi - en kannski eiga Færeyingar bara minnst í Akrabergi........



Kirkjan í Klakksvík er engin smásmíði:




Við rákumst á þennan hnjaskvagn (svo notað sé orðfæri Bjarna Fel) og hér sést hvers vegna Færeyingar sneru sér ekki við á götu þegar þeir sáu sjúkrabíl sem ferðabíl. Þeirra sjúkrabílar líta nefnilega svona út:



Allmargar fleiri myndir tókum við í Klakksvík en þessar verða að duga hér. Eftir góða og fróðlega  dvöl í bænum var stefnan tekin á neðansjávagöngin að nýju.  Það er Kunoy sem kveður í miðmynd:



Von bráðar vorum við stödd við Leirvík á Austurey. Við ókum viðstöðulaust í gegn því Leirvík verður þarna áfram um ókomna tíð og við verðum þarna aftur eftir óákveðinn tíma. Dagurinn leið hratt og okkar leið lá til baka um Götuvík og Göturnar þrjár, yfir hálsinn til Skálafjarðar og upp úr botni hans til Funningsfjarðar. Í botni þess fjarðar er samnefnt þorp sem við settum í skoðunarflokk með Leirvík og héldum því rakleitt áfram út með firði að smáþorpinu Funningi. 



Það vakti athygli okkar að í vegkantinum var allmörgum fólksbílum lagt og voru allir mannlausir. Hvergi var fólk að sjá nálægt svo við giskuðum einna helst á að niðri í Funningi stæði yfir einhver athöfn, þá helst í kirkjunni. Bílastæði í þorpinu voru sýnilega fá og því gat verið að fólk legði við kantinn og gengi svo niðureftir. Okkur fannst skýringin ekki góð en aðra betri var ekki að hafa í augnablikinu. 



Hér fyrir neðan rís Slættaratindur, hæsti tindur Færeyja (882m)  upp fyrir öxlina ofan Funnings og teygir sig upp í þokuna:



Staðurinn sem við ætluðum að heimsækja áður en dagurinn yrði allur, var Gjógv, eins og stendur á vegskiltinu á myndinni hér ofar. EH fannst vegurinn dálítið hrikalegur og víst hefði hann verið það ef bílstjórinn hefði ekki verið alinn upp á vestfirskum vegum. Malbikið var hins vegar á sínum stað - öfugt við Óshlíðina í gamla daga...

Gjógv  (Gjá) er afar fallegt smáþorp þar sem tíminn virðist að mörgu leyti hafa staðið í stað. Þorpið er einn af uppáhaldsstöðum Færeyinga sjálfra, líkt og Saksun sem áður var lýst.  Ekið er undir Slættaratindi og aðkoman er um þröngan dal niður brattar brekkur. Þorpið sjálft stendur þétt, ofan við gjána sem það dregur nafn af. Gjáin er klettaskora inn í ströndina, mjó og brimhörð en yfir gnæfa lóðréttir hamraveggir. Innst í gjánni voru á sínum tíma gerð bryggjumannvirki enda voru samgöngur við Gjógv aðallega á sjó áður fyrr. Staðurinn er afskekktur og gönguleiðir til næstu þorpa, Eiðis og Funnings, erfiðar og oft ófærar vegna þoku og vetrarveðra.

Þegar við komum niður í Gjógv var þorpið bókstaflega fullt af fólki. Við hótel staðarins, Gjáargarð voru allmargir bílar og öðrum var lagt á bílastæði ofarlega í þorpinu - fólki virtist ekki hafa verið í mun að þrælast á bílum þröngar vagngötur alla leið heima að eldhúsglugga!  Efst í þorpinu var svo hverfi húsa sem virtust eðlilegur hluti gamla andans sem hvarvetna sveif yfir, en reyndust við nánari skoðun öll vera ný eða nýleg. Þarna var semsagt sumarhúsahverfi margra Færeyinga og svo snilldarlega fellt að umhverfinu að varla sá mun á. Nýja hverfið er til hægri:



Dálítið til hliðar og utan byggðar var svo stórt og vel búið hjólhýsastæði sem rekið var af hótelinu. Ekki sáum við betur en þar væru allmörg hjólhýsi frágengin til lengri stöðu og því nýtt sem hálfgildings sumarbústaðir. Við þetta hjólhýsastæði var einnig stærsta bílaplan þorpsins og þangað komu nokkrar rútur meðan við dvöldum á staðnum - með enn fleira fólk!

Áður en ég fer að dæla inn okkar myndum má ég til að setja þennan youtube - hlekkHÉR. Skoðið lifandi myndir frá Gjógv!




Eins og áður sagði var þorpið krökkt af fólki og virtist vera hátíð í gangi. Við höfðum raunar orðið vör við hátíðahöld víðar en tengdum þau engu sem við þekktum. Þarna í Gjógv fengum við að vita að yfir stæði sk. Jóansöka (-vaka), sem er nokkurs konar Jónsmessa þeirra Færeyinga. 



Hér er svo horft ofan eftir gjánni sjálfri. Það hefur ekki verið fyrir neina aukvisa að sigla litlum báti þarna inn í slæmu veðri og þungum sjó! 



Eitt var að lenda bátum en annað að bera afla eða vörur upp úr gjánni. Brautin í miðjunni er fyrir vagn sem dreginn var á spili upp á slétt plan ofan við en beggja vegna eru tröppur. Bátarnir voru svo dregnir undan sjó með sama spili eða öðru sem er í hvíta skúrnum:





Niðri í gjánni, á bryggjunni:



Þar sem sjórinn gutlaði við steinana mátti finna alls konar skeljar og kuðunga. EH fannst þessar áhugaverðar. Þær voru nefnilega fastar á klöppunum dálítið ofan sjávarborðs:









Svo var rölt um þorpið. Það er áberandi hversu falleg og snyrtileg húsin eru og skyldi engan undra. Flest eru sumarhús og eigendurnir eru þá væntanlega í fríi þegar þeir dvelja í þeim. Undir þeim kringumstæðum gildir sú regla að menn sofa þegar þeir eru syfjaðir, borða þegar þeir eru svangir og - mála þegar ekki rignir!



Ég hef áður minnst á bókina hans Huldars Breiðfjörð, "Færeyskur dansur" og það hvílík biblía hún var mér fyrir og í ferðinni. Huldar kom líka til Gjógv og hafði orð á þessu með fallegu húsin. Við vorum algerlega sammála...



Allir verða að hafa eitthvað að starfa og þó vissulega hafi á löngum tíma föstum íbúum fækkað verulega í Gjógv eru þeir þó nokkrir.....og þeir sem ekki eru eftirlaunaþegar þurfa að starfa eitthvað. Í þorpinu er starfrækt lítið brot af stóru fiskeldisfyrirtæki og á þess vegum var í tilefni Jóansvöku sett upp kar með fiskum. Þessi litla dama var hugfanginn af lífinu í karinu en vildi ekkert ræða við óskiljanlega fólkið sem reyndi að tala við hana:  



Svo var það kirkjan. Hún var opin og ekki bara það heldur stóð yfir einhver athöfn. Ekki vildum við raska friði kirkjugesta og skoðum hana því bara næst.....



Skammt frá kirkjunni er þetta minnismerki um burtkallaða þorpsbúa. Á mörgum skjöldunum var áþekk áletrun og gaf til kynna að viðkomandi hefði látið lífið "í gjánni". Nokkrir höfðu orðið úti milli byggða en flestir voru sjómenn sem höfðu farist af eða með bátum. Við a.m.k. eitt nafn stóð: "Látinn í Reykjavík"  Mig minnir að ártalið hafi verið 1969...





Að neðan má sjá yfir hluta byggðarinnar og nýja hverfið er í forgrunni:



Við geymdum sjúkrabílnum ofarlega í þorpinu, við veginn að hjólhýsastæðinu og settum út fánann. Ekki aflaði hann okkur viðmælenda frekar en fyrr.



Svo kvöddum við Gjógv og allt glaða fólkið, og héldum okkar leið. Sú lá til baka undir Slættaratindi (enda ekki önnur í boði) en í þetta sinn fórum við ekki niður að Funningi heldur greindist leiðin þar í hlíðunum og sú greinin sem við völdum lá til vesturs í átt að Eiði. Eiði er talsvert stórt þorp við "Sundini" milli Austureyjar og Straumeyjar og leiðin að því lá í hálfgert U í hlíðum Slættaratinds og meðfram honum. Þegar við ókum sem næst fjallinu veittum við enn athygli fjölda bíla sem lagt var í vegkanti og utan vegar. Allir voru mannlausir og aðeins sáum við örfáar manneskjur á gangi áleiðis upp í þokuna sem huldi fjallið. Enga skýringu kunnum við á þessu háttarlagi þá en fengum hana síðar.

Þegar halla tók undan fæti birtist fjallið Eiðiskollur og framan við það drangarnir tveir, "Risin og kellingin". Það er eiginlega nauðsynlegt að nýta hlekkinn til fróðleiks.....





Þorpið Eiði stendur, líkt og Viðareiði á Viðey, á eða í dalverpi sem sker fjallgarð í tvennt. Undirlendi er þó mun minna að Eiði og stærstur hluti þorpsins er byggður í halla sem sums staðar gæti virst allt að 45 gráður. Utan við eiðið sem þorpið dregur nafn af er sem fyrr segir, fjallið Eiðiskollur og er svipmikið þrátt fyrir að vera aðeins tæpir 340 metrar á hæð. Risinn og kellingin skreyta það svo enn frekar.

Á myndinni hér að neðan sjást m.a. grænir grasblettir og vegræma. Við fjærenda vegspottans er grjóthlaðin fjárrétt og mótar fyrir henni á myndinni. Ofan frá brúnunum leist okkur þessi blettur ákjósanlegur náttstaður og settum hann efst á óskalista:





...........og það var rétt!



Næst: 7. hluti, sunnudagur og fleiri eyjar!

................................................

15.07.2014 21:58

Í Færeyjum - 5.hl. ferðasögu


Fjórða hluta lauk við Runavík, þar sem stóru Rússatogararnir lágu. Einhverra hluta vegna voru ekki fleiri af þessum þúsund ljósmyndum teknar þar en kannski gildir það sama um Runavík og Saltangará og marga aðra staði í Færeyjum - við renndum þar í gegn og ætluðum svo að koma aftur síðar og skoða betur. Svo gafst ekki tími til að koma aftur í þetta sinn og það kallar á aðra Færeyjaferð.........

Utan við Runavík er nes sem heitir Nes en yst á því heitir Eystnes. Næsta þorp utan við Runavík heitir hins vegar Saltnes og enn utar eru svo Tóftir, allstórt þorp. Að Tóftum er stór og myndarleg kirkja sem vel má sjá handan frá "skjótibreytunum" ofan við Hvítanes. Ég hafði tekið eftir þessari kirkju um morguninn þegar ég var að væta umhverfið á þeim slóðum og langaði að skoða betur. Við héldum því áfram gegnum Saltnes og út að Tóftum:


Á myndinni hér að ofan  er horft inn með Tóftum til norðvesturs og inn Skálafjörð. Það má vel taka eftir móðunni innar í firðinum en planið við kirkjuna er stráþurrt - svona gat þetta verið! Neðan og utan við kirkjuna stendur lítill, látlaus viti ofan fjörunnar:


Skammt frá vitanum stóð svo dæmi um nýlegt íbúðarhús í Færeyjum. Við hittum mann sem útlistaði fyrir okkur hvernig byggingarreglum er háttað í eyjunum og það skýrði eitt og annað. Þetta hús var dæmigert fyrir mörg þeirra nýju húsa sem við áttum eftir að sjá á ólíklegustu útnárum (á íslenskan mælikvarða):


Frá Tóftum ókum við svo yfir nesið til norðurs, slepptum botnlanga sem liggur út að örþorpinu Æðuvík en ókum þess í stað til Rituvíkur.


Enn og aftur varð maður heillaður af náttúrufegurð og friðsæld. Það var föstudagseftirmiðdegi en þarna virtist enginn vera að flýta sér. Samt var fólk heima við í allmörgum húsum því við urðum vör við hreyfingar, þó hvorki margar né hraðar. 


Þeir eiga sína kirkju í Rituvík, byggða í gömlum stíl en afar fallega og snyrtilega eins og svo margar af þeim eldri.


Í afgirtum reit ofan við kirkjuna stóð minnisvarði um burtkallaða:


Neðan undan kirkjunni var uppsátur, bryggja og bryggjuskúrar Rituvíkurbúa. Þarna setur enginn á höndum heldur var spil í litlum skúr ofan rennunnar og blakkir víðsvegar til að breyta togáttinni. Þesskonar búnað áttum við oft eftir að sjá.


Ég mátti til að kíkja inn á milli rimla í bryggjuskúrunum sem stóðu nokkuð hátt ofan bryggjunnar. Það reyndist vera bátur í hverjum einasta nema einum - að vísu virtust ekki allir vera sjófærir en flestir þó. Takið eftir blökkinni við skúrvegginn rétt hægra megin við mig. Þeir voru nefnilega líka með blakkir við skúrana og gátu dregið bátana bæði út og inn með sama spilinu. Vírnum var aðeins slegið á mismunandi blakkir og þannig dregið út, niður rampinn og á flot - og svo sömu leið til baka alveg inn á gólf.


Þessar heyrúllur sáum við líka í Rituvík og varð starsýnt á. Orðin úr bókinni hans Huldars Breiðfjörð komu enn upp í hugann: "Nægjusemi". Þeir pökkuðu heyinu í litlar rúllur því þær voru einfaldlega miklu meðfærilegri. Þetta kom sér vel þegar heyjað var í miklum halla - sem var eiginlega frekar regla en undantekning.


Eftir þessa viðdvöl í Rituvík héldum við til baka yfir nesið, en nú aðra leið og komum beint ofan í Runavík. Á þeirri leið er ekið fram hjá allstóru vatni - Tóftavatni - sem minnti talsvert mikið á Hvaleyrarvatnið hér heima. Svo lá leiðin aftur um samföstu þorpin að Saltangará, Glyvrum, Lamba, Söldarfirði og öll hin sem ég gleymdi að telja upp. Innst í Skálafirði mætast leiðir út með firði norðan og sunnan - syðri leiðin liggur m.a. út að Skála, en þangað ætluðum við ekki að sinni eins og kom fram í lok fjórða hluta. Okkar leið lá úr fjarðarbotninum yfir nokkuð háan háls og yfir í Götuvík. Við Götuvík standa eiginlega þrjú þorp. Syðst er Syðrugöta, þá Götugjógv og nyrst og stærst er Norðragöta. Þegar niður af hálsinum kom beygðum við af leið við skiltið að Syðrugötu. Þessi mynd er tekin úr þorpinu og yfir að Norðragötu handan víkurinnar.


Við lögðum bílnum og gengum um þorpið. Á nokkuð stórri lóð milli tveggja íbúðarhúsa var þessi sjálfvirka sláttuvél og vann sína vinnu. Hún var í taumi og hinn endi taumsins var festur í hennar eigin "hundakofa". Hún hafði engan sérstakan áhuga á okkur og sinnti okkur í engu. Rétt hjá voru nokkrir krakkar að leik (hvar voru nú leikjatölvurnar??) og gimba virtist þekkja þau öllsömul. Viðmót hennar gagnvart krökkunum var allavega allt annað en áhugaleysið sem hún sýndi okkur:



Bryggja var auðvitað í Syðrugötu en virtist að mestu aflögð enda aðalútgerðin norðanmegin. Við hana vögguðu þó nokkrir smábátar en efst stóðu þrír heitir pottar. Á nálægum skúrvegg var þessi auglýsing:


Í skúrnum var sumsé búningsaðstaða fyrir pottþyrsta. Við sjálfa pottana stóð ungur maður og mokaði spýtum á eld við þann fyrsta. Þeir voru nefnilega spýtukyntir og þar sem eftirspurnin virtist í lágmarki þegar okkur bar að garði var aðeins einn af þremur hitaður upp. Ég veit að ég á eftir að sakna þess ævilangt að hafa ekki skellt mér......


Við ókum svo sem leið lá ofan við Götugjógv og fram hjá Norðragötu. Þar var áberandi mest um að vera enda langstærst þessara þriggja byggðarlaga, sem áður sagði. Þarna höfðu verið gerðir miklir hafnargarðar og svæðið yst í þorpinu, þar sem grjótið í garðana hafði verið tekið, nýttist sem iðnaðarsvæði:



Við höfðum ekki viðdvöl í Norðragötu - hún verður að bíða næstu ferðar. Okkar leið lá til Fuglafjarðar og þar skyldi næstu nótt eytt. Leiðin er afar falleg og við komum ofan lengst til vinstri á myndinni hér að neðan, þar sem heitir Kambsdalur. Í Kambsdal er bæði íbúðabyggð og talsvert iðnaðarsvæði. Dalurinn er í hvarfi handan leitisins v.megin. Um leið og við renndum hjá sáum við að menn voru að hífa nýja fiskeldistvíbytnu ( lítill þjónustubátur eins og þekktir eru hérlendis) upp á flutningavagn.


Við lögðum bílnum á malbikuðu plani niðri við smábátabryggjuna, settum upp íslenska fánann og bjuggumst til kvöldmatar. Ég vissi að í Fuglafirði er búsettur ísfirsk / hnífsdælskur Færeyingur - eða öfugt, og vonaði að hann rynni á fánann. Ekki varð mér að þeirri ósk en kannski hitti ég Pál Jakob Breiðaskarð næst þegar ég kem til Fuglafjarðar....


Í okkar bókum var merkt tjaldsvæði í Fuglafirði en hvernig sem við leituðum fundum við engin merki þess. Sömuleiðis átti að vera þar sundlaug en þótt við leituðum um allan bæ fundum við engin merki um hana. Hins vegar var mikið fjör á krá rétt ofan við bryggjuna. Þess vegna þótti okkur ekki fýsilegt að gista í bílnum þarna á bryggjunni. Á göngu okkar um bæinn sáum við lítið malarplan ofan við fótboltavöllinn og á þessu plani var skúr með opinni hreinlætisaðstöðu. Þarna leist okkur ákjósanlegur staður og komum bílnum þar fyrir. 


Ég má til að setja hér inn hlekk sem ég fann á Youtube og er afar skemmtilegur auk þess að skarta frábærum myndum.  Sjáið HÉR


Svo var aftur tekið til við bæjarrölt. Þessi steypta kví stendur ofan við enda fótboltavallarins og vakti athygli fyrir vandaðar og afar sérstakar steyptar myndir í botni og á veggjum. Það var ekki fyrr en við komum heim sem Google gat bent okkur á hvað þetta var. Sjá HÉR og HÉR:


Semsagt: Gamla sundlaugin. Ekki hefur nú farið mikið fyrir upphituninni - vatnið beint úr berginu fyrir ofan!  

Eins og fyrr sagði fundum við ekki þá sem nú er, þrátt fyrir talsverða leit. Við fundum hins vegar aðra sjálfvirka sláttuvél inni í garði. Sú var óbundin en greinilega trú þeirri kindarlegu sannfæringu að grasið sé alltaf grænna hinumegin, því hún gerði ítrekaðar en áranguslausar tilraunir til að ná upp í tré nágrannans.


Það úðaði dálítið um kvöldið í Fuglafirði, þó ekki svo mikið að kallaði á yfirhafnir. Við héldum áfram göngu um ofanverðan bæinn og þaðan sáum við mannskapinn úr Kambsdal koma með fiskeldistvíbytnuna í bæinn, stilla sér upp niðri á bryggju og hífa hana í sjóinn við hlið annarrar sem þar var fyrir.


Elín Huld var með myndavélina og prófaði að taka myndir bæði með flassi og án. Þær dökku eru (að sjálfsögðu) þær flasslausu. Okkur fannst ekki svona dimmt eins og myndirnar sýna:



Svo sáum við enn eina sláttuvélina og þá var flassið sett á. Þessi var ósátt við tilveruna og stökk í sífellu upp í loftið. Við héldum fyrst að bandið væri vafið um annan framfót hennar og bjuggumst til björgunar. Svo sáum við að það var ekki heldur var einhver blettur innan á löppinni. 


Gimba gaf sér augnablik til að góna á okkur milli þess sem hún gormaðist í bandinu. Svo kom eigandinn og fór eitthvað að sýsla við hana - sennilega að færa á nýjan stað í lóðinni....


Það varð nótt og það varð dagur - laugardagur. Við vorum á fótum uppúr níu um morguninn, vöknuðum frekar snemma því fótboltalið bæjarins mætti á völlinn til æfinga. Eins og margir bæir í Færeyjum stendur Fuglafjörður í allt að 45 gráðu halla og fótboltavöllurinn var sprengdur inn í hlíðina. Við vorum aðeins örstutt frá honum - það var aðeins ein gata á milli - en samt vorum við a.m.k. tíu metrum ofar!

Við færðum bílinn aftur niður á bryggjusvæðið, á sama stað og kvöldið áður. Enn einn göngutúrinn og ég tók eftir að í jaðri þessa malbikaða bryggjuplans voru staurastúfar með rafmagnstenglum, tíu tenglar á hverjum stúf og líklega einir sex eða sjö stúfar. Ég giskaði á að þetta væri vetrargeymsluplan smábátanna og fannst vel gert við eigendur þeirra í tenglum. Það var ekki fyrr en á leiðinni til Íslands aftur að kunnugir bentu okkur á að þetta myndi hafa verið "camping" svæði þeirra Fuglfirðinga!! Hjólhýsa og húsbílastæði með sextíu, sjötíu rafmagnstenglum en ekki einu einasta skilti um eitt eða neitt! Ekki svo miklu sem frímerki! Við gengum upp að "Tourist Info" en þar var lokað og þar með hvarf okkar síðasti séns til að spyrja um sundlaugina því það var enginn á ferðinni um morguninn utan fótboltakapparnir.

Við vorum á leið til Klakksvíkur og ákváðum því að dvelja ekki lengur í Fuglafirði heldur reyna að komast í sundlaug í Klakksvík. Við vissum af laug þar gegnum auglýsingar. Á leið út úr bænum myndaði Elín þennan fallega, litla foss í gili........


....en handan götunnar var aðal myndefnið, nefnilega þessi magnaða yfirlýsing um að nú væri Torkild á leið í hnapphelduna:


Frá Fuglafirði ókum við svo til baka um Kambsdal og inn undir Norðragötu. Þar kvísluðust leiðir og við völdum þá sem liggur um neðansjávargöng til Klakksvíkur. Í Færeyjum eru tvenn neðansjávargöng, þau sem liggja milli Austureyjar og Borðeyjar (Klakksvíkur) og hin sem liggja frá Straumey suður á Vogey.  Í þessi göng þarf að borga og það er gert á einfaldan hátt, með viðkomu á næstu bensínstöð handan gangna. Hins vegar er miðinn sk. "return ticket" sem þýðir í raun að maður borgar aðeins aðra hverja ferð. Mér þótti samt vissara að greiða gangnatollinn strax og komið var til Klakksvíkur og gaf þá aðspurður upp að við myndum aka til baka samdægurs. Allt var þetta samviskusamlega skráð með penna í litla blokk í tvíriti.

En það var sundlaugin.......við vildum komast í bað og helst sem fyrst. Maður leitar helst að sundlaug við skóla og skólinn var auðfundinn. Þar var líka sundlaugin - en því miður var verið að byggja við húsið og laugin lokuð um ófyrirsjáanlegan tíma. Þeir hefðu allavega þurft að taka hressilega til hendinni ef við hefðum átt að geta komist í bað þarna. Þá var næst tjaldsvæðið. Við leituðum þar sem líklegast var enda gaf kortið okkar góða vísbendingu. Svæðið fundum við, ekki stórt en þó með því allra nauðsynlegasta. Fyrir hittum við þýskt par sem var að taka sig saman en benti okkur á að við þyrftum að finna "Tourist Info" í bænum og fá þar lykil að hreinlætisaðstöðunni, því hver gistikaupandi fengi sinn lykil. Þetta gerðum við allt saman, hittum fyrir indælis konu á upplýsingastofunni, greiddum henni 20 dkr. hvort fyrir sturtuna og fengum lykla. Ég lýsi því ekki þvílík himnasæla það var að komast loks í sturtu!

Við skiluðum svo lyklunum á tilsettum tíma og  héldum úr bænum. Klakksvík var ekki á planinu fyrr en síðar um daginn. Við vorum á leið út í Viðey, til smáþorps sem heitir Viðareiði og þar skyldi endastöð okkar í norðri vera. Annað er enda ómögulegt því að Viðareiði endar vegurinn einfaldlega!  Við ókum út úr Klakksvík að norðan þar sem heitir út með Haraldssundi. Haraldssund var áður opið til beggja enda en síðar var gerður garður um það þvert og um hann lagður vegur út í Kunoy -Konuey. Í Kunoy eru tvö smáþorp, annað ber nafn eyjarinnar en hitt nafn sundsins. Ekki ókum við þó alla leið út að þessum garði heldur liggur leiðin upp í hlíð og inn í ein elstu göng eyjanna, einbreið með útskotum og gerð 1965. Þau koma út innst í Árnafirði, rétt ofan samnefnds örþorps og vegurinn liggur svo að segja strax inn í önnur göng, ámóta að allri gerð enda álíka gömul, frá 1967. Frá nyrðri munna þeirra gangna var ekið meðfram norðvesturströnd Borðeyjar til smáþorpsins Norðdepils. Þar er stutt brú yfir eyjasund og þar með vorum við stödd í þorpinu Hvannasundi á Viðey. Við tók frekar stuttur akstur meðfram suðvesturströnd Viðeyjar, svo opnaðist lítil vík og við okkur blasti lokaáfangastaður okkar: Viðareiði:


Hér, á miðjum laugardeginum 21. lýkur 5. hluta. 

........................................................................................................................


13.07.2014 08:53

Í Færeyjum - 4.hl. ferðasögu.


Ég verð eiginlega að hafa fyrirsögnina á þennan veg því það er hálfundarlegt að skrifa: "Á leið til Færeyja, 4.hluti - í Færeyjum", ekki satt? 

Náðu ekki allir að ráða í skiltið á húskofanum meðan við EH sváfum inn í föstudaginn 20.júní? Við höfðum semsagt lagt bílnum við skotæfingasvæði Þórshafnarbúa og nærsveitunga (sem, miðað við fjölda og ferkílómetra eru allir aðrir Færeyingar). Sem betur fór fyrir okkur eru Færeyingar vinnusamt fólk og eflaust annað í huga að morgni virks dags en að dunda við að skjóta í mark. Þess vegna fengum við frið á skotæfingasvæðinu - svo mikinn frið að við steinsváfum til kl. hálftíu um morguninn!

Veðrið þennan föstudagsmorgun var hreint yndislegt. Það var hæg gola, frekar lágskýjað og jafnvel þokuslæðingur með fjallatoppum en það var ágætlega hlýtt - líklega einar ellefu gráður. Ég fékk mér morgunrölt niður á æfingasvæðið með kort í hendi og reyndi að átta mig á því sem fyrir augu bar. 





Kortið er því miður óskýrt en ég set netslóð á þetta sama kort HÉR

Við vorum stödd rétt norðan við Þórshöfn, ofan við Hvítanes og frá staðnum var frábært útsýni yfir að Tóftum í mynni Skálafjarðar. Ég vissi það ekki þá en ég veit það núna að ég var líka að horfa yfir Flesjarnar, staðinn þar sem togarinn Goðanes frá Neskaupstað fórst á nýársdag 1957. Það var hörmulegt slys enda fórst þar skipstjórinn Pétur Hafsteinn Sigurðsson, aðeins 24 ára gamall. Síðan hafa orðið a.m.k. tvö óhöpp á Flesjunum þrátt fyrir alla tæknina í leiðsögutækjum, flutningaskipið Ólavur Gregersen í janúar 1984 og rússneski togarinn Olshana árið 2007. Í hvorugu tilfelli varð þó manntjón.



Þegar hlekkurinn á Olshana er skoðaður sjást íbúðarhús í baksýn. Þessi hús eru í smáþorpinu Nesi, utan við Tóftir ( t.h. utan myndar) og má með samanburði við kortið nokkuð átta sig á strandstaðnum. Flesjarnar ná hins vegar yfir talsvert stórt svæði og strandstaður Olshana mun vera nokkuð frá strandstað hinna tveggja. Olshana var dregin af rifinu með hengilrifinn botn og þeim afleiðingum að skipið steinsökk á stuttri stundu á 70 metra dýpi. Ólavur Gregersen strandaði hins vegar og sökk á sama stað og Goðanes 27 árum fyrr og þegar sjávarbotninn á svæðinu var kannaður nýlega m.t.t. gangnagerðar neðansjávar kom í ljós að flak Ó.G. liggur ofan á flaki Goðaness.


NØ for T?rshavn ved klippeskæret "Flesjene" ligger  vraget af fragtskibet 
"Olavur Gregersen" som er meget spændende at dykke på. Vraget ligger skråt
ned af en fjeldside med den laveste del på ca. 12 m og agterenden på ca. 20 m.
dybde. Skibet sank efter grundstødning imod skæret vinteren 1984 og ligger
venpå en Islandsk trawler, der sank engang i 50-erne. Man skal bruge båd for
at komme derud. (Tal med den Færøske dykkerskole)
(c)Rettet den 02/04-1997. ANDERS CLAUSEN 

Nóg komið af þessum spádómum. Þegar við ókum upp að Skjótibreytunum um nóttina tókum við eftir stóru verslunarhúsi uppi á hæð í útjaðri Þórshafnar. Á þessu húsi var afar kunnuglegt merki: BÓNUS! Þangað var för heitið um leið og við vorum ferðbúin því þótt okkur vantaði svo sem ekki mikið var sjálfsagt að skoða búðina og setja sig inn í vöruval og verð - vistunum okkar var ekki ætlað að duga heim aftur! Þetta reyndist fínasta verslunarmiðstöð og í næsta nágrenni var líka Skemman, hinn færeyski Rúmfatalager. Ekki vildum við þó eyða morgninum í búðaráp því veðrið hélt áfram að lýsast upp og fljótlega var komið sólskin. Við ókum því niður undir hafnarsvæðið og lögðum bílnum á "tveggjatíma" stæði rétt við ferjubryggjurnar. Eitt af því sem okkur vantaði allra fyrst var stöðuklukka í framgluggann og spurðum um hana í Bónus. Ekki var hún fáanleg þar en okkur var bent á "Tourist-info" í miðbænum. Sú stofa var auðfundin en ekki áttu þau klukku. Glaðleg dama í minjagripasölunni benti okkur á að tala við tryggingafélag neðar í bænum. Við höfðum einmitt tekið eftir því húsi á göngunni svo það var sömuleiðis auðfundið aftur. Jújú, þar var til klukka, kostaði ekkert, bara gjörið svo vel. Við gengum tíu skref til bílsins (Þórshöfn er ekki New York),  skelltum klukkunni á sinn stað og stilltum hana. Þar með var okkur frjálst að ganga um bæinn næstu tvo tímana. 

Við gerðumst kaffiþyrst og fundum okkur ágætt kaffihús rétt neðan við göngugötuna. Eftir bolla af fínu kaffi með súkkulaði (að sjálfsögðu) röltum við áfram upp frá höfninni og fundum ísbúð. Þar var ung dama að afgreiða, á aldur við okkar tvær. Hún spurði hvaðan við kæmum og þegar við nefndum Ísland tókst hún öll á loft. Hún hafði nefnilega verið á Íslandi vikutíma með skólahljómsveit nokkru áður, bókstaflega elskaði allt sem íslenskt var og tiltók sérstaklega Kringluna og íslenskt nammi! Freyju-Djúpur! Mmmmmm!! Svipurinn á andlitinu sagði meira en mörg orð um það hversu innilega hún lifði sig inn í Íslandsheimsóknina að nýju. Við áttum eftir að heimsækja þessa hressu ísbúðardömu oftar.....

Eftir ísinn gengum við niður í bæinn að nýju, niður með einni smábátabryggjunni og út á Þinganes.



Að sjálfsögðu fékk ég mynd af mér með trillur í baksýn og það sést vel að víðar er logn en á Íslandi. Hugsið ykkur, við vorum að koma í fyrsta sinn til Færeyja og þetta var okkar fyrsti dagur! Þegar veðrið skapar manni svona móttökur fyrirgefst því næstum hvað sem er næsta dag því tilfinningin er fædd. Alveg hreint yndislegt!



Við lögðumst í rölt um þennan gamla bæjarhluta og mynduðum í allar áttir. Þetta hús t.h. með glerhýsinu við gaflinn er kaffi- og veitingahús. Þarna sátu menn með öl eða kaffi í hönd og fylgdust með beinum og óbeinum boltaleikjum.....allan daginn.



Gamla dómkirkjan í Þórshöfn er virkilega fallegt hús og eiginlega synd að ekki skuli vera hægt að taka almennilega mynd af því nema þá helst úr lofti. Trén standa þétt og nálæg hús gera ómögulegt að ná víðu sjónarhorni.



Við kirkjuna skildu leiðir og Elín Huld gekk upp í bæ. Ég hélt mig við höfnina og myndaði húsin sem eru eitt algengasta myndefnið í Þórshöfn, næst á eftir Þinganesi. Þarna eru verslanir, kaffihús, veitingastaðir, Rauðakrossbúð og margt fleira. Kirkjuturninn gnæfir svo yfir:



Norðlýsið var að koma utan af sjó. Það siglir með túrista en þeir virtust ekki vera margir um borð í þessari ferð. Skipið er stórglæsilegt og ef "myndin prentast vel" má sjá mann í hvítri peysu aftarlega, haldandi um  stýrissveif eins og á lítilli trillu. Hann hafði aðeins aðra hönd á sveifinni, hina hafði hann á lítilli handolíugjöf. Þannig lagði hann þessu 62 feta eikarskipi að bryggju eins og bréfbát!

 

Hér fyrir neðan er svo Westward Ho. Þetta glæsilega skip hefur m.a. komið til Íslands, eins og sjá má HÉR:



Ég mátti til að skoða Westward Ho betur og á leiðinni að bryggjunni gekk ég fram á þessa dömu sem virtist alvön mannaferðum. Ég held allavega að þetta sé dama...



Þegar myndirnar hér að neðan eru skoðaðar er vert að hafa í huga að við Íslendingar keyptum kútter Sigurfara frá Færeyjum og eyðilögðum hann. Það var auðvitað hrein og séríslensk snilld. Það myndi t.d. ekki taka okkur langan tíma að eyðileggja Westward Ho. Hvar ætli Sigurfari væri í dag ef við hefðum ekki keypt hann til að rústa honum? Hann kom fljótandi til Íslands, í drætti því vélin var ógangfær. Hann var þreyttur en alls ekki ónýtur - ekki frekar en W.H., Norðlýsið og allir þeir kútterar aðrir sem við sáum í Færeyjum.







Þessi var eiginlega hálfdanskur í útliti - hann minnti mjög mikið á þá sem ég skoðaði eitt sinn við Torup Strand á N.v. Jótlandi



Sjáiði "snellurnar" á borðstokknum? Hann er kannski á strandveiðum, þessi? Hvaða sómakær Íslendingur myndi láta sjá sig á svona bát? Fáir! Þeir væru flestir búnir að fara í bankann, skuldsetja sig upp fyrir haus fyrir nýjum sexhundruðhestafla Tupperware - hraðfiskibát. Og ef þeir væru ekki þegar komnir á hausinn þá væru þeir örugglega á leiðinni þangað. Með eða án afskrifta!  Þegar rithöfundurinn og ferðalangurinn Huldar Breiðfjörð dvaldi í Þórshöfn síðla vetrar fyrir nokkrum árum spurði hann fólk hvað Færeyingar hefðu helst lært af sinni kreppu - sem var virkilega djúp og hafði mikil áhrif. Svarið var hægt að draga saman í eitt orð: Nægjusemi. Á myndinni hér að neðan er ágætt dæmi um þessa nægjusemi. Tölvu-handfærarúllurnar fara honum alls ekki illa, er það nokkuð?



Við "smærri báta bryggjurnar" mátti svo sjá allt í bland, gamla súðbyrðinga, plast-færeyinga eins og voru framleiddir hér heima um árabil og svo hraðbáta af öllum gerðum - síst þó tugmilljóna snekkjur eins og sjást hér í Snarfarahöfninni. Þeir lærðu nefnilega nægjusemi, Færeyingarnir......



Eftir hálftíma rölt hittumst við EH svo aftur ofan við smábátabryggjurnar í "vestaravági"og gengum aftur gegnum gamla þorpið á Þinganesi yfir í "eystaravág"

Ein helsta þjóðaríþrótt Færeyinga er róður - kappróður. Þessi íþrótt sem hér heima hefur helst verið stunduð vikuna fyrir sjómannadag og er jafnvel að leggja alveg upp laupana er mikið stunduð í Færeyjum og talin hafa ríkt uppeldislegt gildi. Við rákumst á þennan hóp unglinga sem var að sjósetja róðrarbát. Þeir virtust hafa aðstöðu í gömlu vöruhúsi á Þinganesi og sjósettu beint útum dyrnar. Inni var svo aðstaða til að lagfæra og snyrta flotann.







Þau sáu að við vorum að mynda og tóku þvi vel á árunum. Við stýrið var dama sem stjórnaði eins og Nelson flotaforingi:



Við gengum svo upp Þinganes, milli gömlu húsanna - þ.e.a.s. þar sem hægt var að ganga milli þeirra. Það var alls ekki hægt allsstaðar:





Hér í húsi mun hafa verið aðstaða tannlæknisins:



(  en kannski er það misskilningur....)






Svo leynist eitt og eitt svona inn á milli. Þau eru samt svo fá að það er leitun að þeim:



Þetta hús er í hjartanu, upp af smábátabryggjunni og við rætur Þinganess. Þetta er aðsetur íslenska ræðismannsins. Hann hlýtur að vera Færeyingur því eins og við vitum lærðu Íslendingar ekkert af sínu hruni. Færeyingar lærðu hins vegar....hvað?



Klukkan var orðin þrjú á þessum drottins dýrðardegi, bílastæðisklukkan að renna út og við tókum strikið úr bænum. Ferðinni var heitið um sömu götur og nóttina áður, framhjá Bónus, upp gegnum Hvítanes og inn með Kaldbaksfirði. Við vorum á leið norður eftir og næstu nótt skyldi eytt eftir hentugleikum. Ofan við botn Kaldbaksfjarðar ókum við inn í fyrstu jarðgöngin og komum út rétt ofan við botn Kollafjarðar. Við ókum út með honum, gegnum samnefnt þorp og inn með sundinu milli Straumeyjar og Austureyjar. Áfangastaður var ákveðinn: Saksun. (því miður er ekki til íslensk Wikipedia yfir Saksun svo ég læt enska duga). Leiðin lá um þorpin Hósvík, Við áir og loks Hvalvík:



Myndin hér að ofan og eins sú neðri sýna kirkjuna og gamla þorpið í Hvalvík. Innar standa mun nýrri og stærri hús en þau eru einfaldlega ekki eins skemmtilegt myndefni. Þarna var farið að úða aðeins úr lofti, þó ekki nóg til að kalla rigningu. Vegurinn til Saksun liggur um Hvalvík og um leið framhjá skóla og leikskóla. Þar voru hátíðarhöld í gangi og stór hópur barna og foreldra á skólalóðinni. Allt var skreytt og uppblásin leiktæki voru á staðnum. Við giskuðum á skólaslit.  



Vegurinn til Saksun var sá fyrsti af þessari gerð sem við ókum en þeir áttu eftir að verða fleiri. Einbreiður vegur og tæplega það, útskot á fimmtíu metra fresti og tæplega það en hver metri malbikaður!



Færeyingar halda mikið upp á Saksun, enda er staðurinn fallegur. Þarna var friðurinn alger, frá þeim tveimur sveitabýlum sem eru í dalnum barst ekkert hljóð svo fossniðurinn í hlíðunum réði einn. Í Saksun er einhver stærsta sandfjara í eyjunum:



Horft heim að gamla býlinu Dúvugarði, þar sem nú er byggðasafn. Safnið var því miður lokað þegar við komum en meðan við gengum að kirkjunni kom maður gangandi ofan frá húsunum að lítilli skemmu við veginn. Á skemmuveggnum var auglýsingatafla í glerkassa og mér sýndist maðurinn föndra eitthvað við kassann. Þegar við svo komum til baka athugaði ég auglýsingarnar og gat ekki séð að neinu hefði verið breytt. Kannski vildi hann bara láta sjást að staðurinn væri ekki mannlaus.





Kirkjan í Saksun er frekar stór miðað við hve sveitin er lítil. Eins og fram kemur í hlekknum hér ofar var hún upphaflega byggð í Tjörnuvík, norðan fjallgarðsins en seinna tekin sundur og efnið borið yfir fjallgarðinn til Saksun. Þar var kirkjan svo reist að nýju. Það á ekki að leyna sér á myndunum að kirkjan er hlaðin úr grjóti!





Eftir að hafa skoðað okkur um í Saksun héldum við til baka að Hvalvík, framhjá skólaskemmtuninni þar sem einhverjir höfðu farið í regnslár (þó var enn bara úði og ekki hægt að kalla rigningu) og yfir litla brú sem tengir Hvalvík við næsta smáþorp, Streymnes. Þar virtust flest hús nýleg og í þessum stíl:



Eftir stuttan akstur komum við að brúnni sem tengir Straumey og Austurey. Við ókum yfir hana og Austureyjamegin til beggja handa voru smáþorp. Til hægri var Oyrarbakki (sem á sér jú nafna á Íslandi) og til vinstri Norðskáli. Við ókum út að Norðskála og áðum stutta stund við kirkjuna. Þarna gilti alveg það sama: Á myndunum virðist vera hellirigning en svo er alls ekki. Þokuslæðingurinn yfir ber með sér fínan úða og hann leggst yfir allt. Maður gat staðið úti talsverðan tíma án þess að blotna nema rétt á yfirborðinu en malbikið, þar sem vatnið skilaði sér ekki niður í jörðina, varð svaðblautt: 



Rétt neðan við kirkjuna  synti þessi svarti svanur framan við fjöruborðið, sá fyrsti og eini sem við höfum séð. Hann var í félagsskap tveggja hvítra:





Frá Norðskála var ekið um göng yfir til Skálafjarðar. Myndin hér að neðan var tekin rétt áður en við fórum inn í göngin. Þarna er horft yfir Norðskála nær og Eyrarbakka fjær. Á milli er svo brúin sem tengir Straumey og Austurey. Svo það sé enn tekið fram er veðrið furðulegt. Á myndinni sýnist það vera hrein hörmung en er það í raun alls ekki - það var í öllu falli ekki að hamla okkar för á nokkurn hátt.



Norðskálagöngin voru byggð 1976, á svipuðum tíma og Íslendingar voru enn að hengja Ó-vegi utan í kletta. Þetta eru tvíbreið, upplýst göng, rétt rúmir tveir og hálfur kílómetri að lengd og með sama hámarkshraða og aðrir vegir í Færeyjum, 80 km/klst. Við komum út úr göngunum ofan við botn Skálafjarðar, eins og fyrr sagði. Ókum þaðan út með Skálafirði norðanverðum og ákváðum að geyma Ísfirðinga- og Bolungarvíkurvinina á Skála til betri tíma. Þarna í Skálafirði er hvert þorpið við annað og sum samvaxin. Við ókum gegnum Skipanes, Söldarfjörð, Lamba og Glyvrar án þess að nein glögg skil væru þar á milli. Svo var það Saltangará og Runavík, alveg samvaxin að sjá. Við bryggju í Runavík lágu þessir tveir bláu Rússar. Mér sýndust þeir afar áþekkir hinni íslensku Engey RE og líka henni Aþenu sem brann þarna við bryggju rétt hjá fyrir nokkrum árum.



Ég held það sé fínt að enda fjórða hluta hér. Fimmti hluti er í vinnslu.


.........................................................................

12.07.2014 08:10

Á leið til Færeyja, 3.hl: Brottfarardagur.


 Klukkan var líklega  hálfsjö þegar ég rumskaði í ferðadrekanum á tjaldsvæði Seyðfirðinga. Eins og gengur vöknuðu eyrun nokkru á undan augunum og fyrsta korterinu eyði ég venjulega í að reyna að átta mig á hvað klukkan sé eiginlega, áður en ég leyfi mér að opna annað augað og kíkja á hana. Í framhaldi af þeirri athugun er svo tekin ákvörðun um fótaferð. Þessi seyðfirski morgunn var engin undantekning frá reglunni og það eyrað sem skárra er greindi strax lágvært hark frá svæðinu í kring. Vel mátti heyra að gestir svæðisins voru farnir að taka dót sitt saman en frá götum bæjarins barst ekkert hljóð, sem aftur benti til að gestirnir væru frekar árrisulir. Athugun á öðrum hljóðum og samanburður þeirra leiddi til sömu niðurstöðu. Ég notaði aðeins annað eyrað til greiningarinnar, hitt þarf að liggja klemmt við koddann því eftir að ég fékk bíllykilinn gegnum hljóðhimnuna hér um árið skilar það eyra engu nema stanslausu, háværu væli og er því alls ónothæft til greiningar morguntíma af umhverfishljóðum.

Ég giskaði semsagt á sirka hálfsjö, plús mínus eitthvað (sem er auðvitað mjög frjálsleg ágiskun) og tíminn sem birtist á símanum, loksins þegar ég ákvað að opna annað augað og kíkja, var innan skekkjumarka. Ég var ekkert að ræsa Elínu Huld, heldur renndi mér í fötin, opnaði bílinn og steig út. Rétt við hlið okkar voru svissnesk hjón ( mér skilst að Sviss sé afar kaþólskt land og ætla því að giska á að fólkið hafi verið gift) að taka saman sitt hafurtask á ótrúlega hljóðlegan hátt. Um allt svæðið var fólk við sömu athafnir og það mátti vel giska á hverjir væru á leið í Norrönu og hverjir væru á innanlandsferðalagi - við sumar "gistieiningarnar" var engin hreyfing. 

Að loknum hefðbundnum morgunverkum og rölti um svæðið taldi ég mig kominn í form. Dagurinn lofaði góðu, þokan sem hafði með kvöldinu áður lætt sér niður í miðjar hlíðar var heldur að hopa og á lit hennar mátti skilja að ofan við væri heiður himinn, eða því sem næst. Vart gætti vinds og ekki var merkjanleg nein rekja í rót.(eins og einhver komst einhverntíma svo snilldarlega að orði og átti þá við að ekki hefði verið nein helvítis rigning)

Rétt fyrir háttatíma höfðum við EH gengið um hafnarsvæðið og reynt að átta okkur á öllum þeim línum og strikum sem virtust tilheyra ferjubryggjunni. Lítilli niðurstöðu skiluðu þessar athuganir og lítinn grun höfðum við um hvernig við ættum að bera okkur að við innritun. Við ákváðum að treysta á aðra í þeim efnum. Meðal þess sem bar fyrir augu á röltinu var þessi gamli slökkvibíll:



Fljótlega eftir að ég kom aftur í bílinn kom hreyfing á EH, hún var fljót að sinna sínu og eftir það var töfraður fram morgunmatur. Að honum loknum var tölvan tekin upp og gáð á AIS kerfið, hvar Norröna væri stödd. Norröna reyndist vera  útaf Norðfjarðarflóanum á fullri ferð og að þeim upplýsingum fengnum klóraði ég inn á síðuna mína  stuttan texta, fullan af ambögum og villum enda kolómögulegt að nota lyklaborðið á sjálfri fartölvunni. Það er hægt að hlæja að þessum texta dálítið neðar eða bara HÉR.

Tjaldsvæðisvörðurinn hafði kvöldið áður, hafandi fengið að vita hvert för okkar væri heitið, sagt að við þyrftum ekki að flýta okkur svo mjög í innritun. Færeyjafarar væru hafðir aftast í skipinu (sem ég skildi ekki alveg) og þriggja tíma innritunarfyrirvari væri eitthvað sem við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af. Hann bað okkur svo að hafa sig ekki fyrir þeim upplýsingum! Ég er vanur að treysta mér vitrara fólki  (mitt fall er svo stundum fólgið í að treysta þeim sem þykjast aðeins vita betur....) og við vorum því alveg slök þegar aðrir fóru að hópast til innritunar. Við gerðum ráð fyrir að þeir á Norrönu gerðu ráð fyrir okkur og við ættum því okkar pláss. Mér var samt hulið hvers vegna Færeyjabílar áttu að vera aftast, því ég hef oft farið með bæði Baldri og Herjólfi og þar eru hinir síðustu inn líka síðastir út. Reynslan hefur líka kennt mér að hinir flóknustu hlutir skýrast venjulega á endanum og á það treysti ég. Þegar við svo mættum í röðina til innritunar gekk allt eins og smurt og okkur var vísað í Færeyjaröðina. Eðlilega vorum við þar aftast en það leið langur tími þar til einhver kom fyrir aftan okkur. Kannski höfðum við verið alltof sein? Eða allt of snemma? Það skipti engu úr þessu, við höfðum okkar brottfararspjöld í höndunum og nú treystum við bara á leiðsögn starfsmanna. Klukkan var rúmlega hálfníu þegar Norröna birtist fyrir beygju í firðinum. Hún kom norðarlega inn og af því ferjubryggjan er sunnanvert velti ég fyrir mér hvort hún væri að krækja fyrir El Grillo! Ekki átti þess þó að þurfa, heldur var greinilegt að skipið átti að bakka að bryggju. Þetta fannst mér furðulegt því ég hafði séð myndir af skipinu í Færeyjum og þar lá það líka með skutinn við bryggju. Þegar Norröna nálgaðist sá ég svo skýringuna og þótti hún furðuleg: Norröna opnar ekki stefnið!

Hvurslags andskotans hönnun gat það nú verið, að vera stöðugt að bakka og snúa, snúa og bakka um borð? Hvað með alla gámana? Afturábak og áfram? Kommon! Hver búði þetta til? Hver smeið þetta skip eiginlega (svo notað sé orðfæri góðs vinar míns á Ísafirði)

Þar með var augljós skýringin á því hvers vegna okkur hafði verið bent á að Færeyjaförum lægi ekkert á að tékka inn. Við hlytum að vera aftast í skipinu og þeir öftustu færu fyrstir út í Þórshöfn. Þetta fór strax að líta betur út því séð með augum keppnismanns vorum við öftust í röðinni, fyrst út í Þórshöfn og fengjum því nokkrum sekúndum lengri tíma í Færeyjum en aðrir. Tíminn er dýr og það skiptir máli að fullnýta það sem maður kaupir. Vestur á Ísafirði þekkti ég mann sem aldrei tók svo bensín að hann héldi ekki slöngunni hátt upp að lokinni dælingu, svo þeir dropar sem í henni væru rynnu í tankinn en ekki til baka.

Þetta var útúrdúr. Norröna lagðist að og á meðan tók Elín Huld myndir:





Þessum tveimur myndum, efri og neðri er ekki eingöngu ætlað að sýna afturenda Norrönu. Þeim er líka ætlað að sýna veðrið, sem varla gat betra verið og svo snjóinn í fjöllunum. Ég nefndi áður fannirnar á Fjarðarheiðinni og Oddsskarðinu og það má hafa í huga að þetta er tekið að morgni þess 19. júní!



Þarna fyrir framan okkur var hann Hreinn frá Vopnafirði á fínum Transit. Hreinn átti færeyska konu og mér skildist að þau væru á leið á hennar heimaslóðir í Sandey. Fyrir aftan okkur voru svo Hornfirðingar á svipuðum Transit/Hobby. Það voru þau Gréta og Sverrir, vélstjóri á Ásgrími Halldórssyni SF. Öll þessi lína stórra bíla ásamt þeim smærri til beggja handa var á leið til Færeyja og merkt skv. því með skilti í glugga.



Framar í röðinni var svo Rollsinn frá Djúpavogi. Á græna miðanum í framrúðu hans stóð: "DENMARK". Áhöfn hans hugðist semsagt ekki hafa viðdvöl í Færeyjum á útleið: 





Á öðrum stað gat að líta mótorhjólahópinn frá Djúpavogi og Stöðvarfirði. Þau voru þá líka á leið út með skipinu. Í samtölum við kunnuga kom fram að hópurinn sem væri á útleið núna væri ekki sérstaklega stór. Einhvern veginn fannst mér nú samt að varla yrði mikill afgangur af plássi um borð þegar búið væri að pakka öllum þessum fjölda sem beið á bryggjunni, um borð. 

Svo opnaðist skuturinn á Norrönu með sírennuvæli og hlemmurinn var varla lagstur á bryggjuna þegar darraðardansinn hófst. Dráttar"töggar" drógu gámavagna út úr skipinu og jafnframt streymdu út rútur og flutningabílar sem verið höfðu aftast. Sumir komu bakkandi og sneru á rampinum, aðrir sneru inni í skipinu og komu réttir út. Furðulegt fyrirkomulag en samt virtist allt ganga sem smurt. Þeir höfðu líklega gert þetta áður, kallarnir á Norönu...

Röðin út var endalaus og klukkan tifaði. Loks var farið að kalla inn í skip og fyrst voru það mótorhjólin sem inn fóru. Ég sá íslenska hópnum bregða fyrir, annars virtust mótorhjól hreinlega spretta upp úr jörðinni - þau skiptu mörgum tugum, hjólin sem inn fóru. Síðan fóru inn fólksbílar á leið til Danmerkur, síðan stærri bílar á sömu leið. Mér var hætt að lítast á þetta - það var útlit fyrir að þeir yrðu að sigla með opinn hlerann og við sem aftastir værum í Færeyjaröðinni yrðum líklega að standa á honum! Röðin mjakaðist og þar kom að Elín Huld - sem ekki mátti sitja í bílnum um borð heldur skyldi nota landganginn - tók sitt hafurtask og kvaddi. Við Sverrir Hornfirðingur mjökuðumst nær skipinu og það var alveg stórmerkilegt að fylgjast með farartækjum mjakast inn um opið meðan gámatöggarnir þeyttust afturábak og áfram rekandi 40 feta gáma ýmist inn eða út við hlið bílanna. Manni fannst ekki mega mikið útaf bera en allt gekk snurðulaust. Enn tifaði klukkan og ég sendi EH sms-skeyti af höfninni upp í skipið. Skilaboðin voru á þá leið að það væri útilokað að Norröna héldi áætlun. Bryggjan var enn full af farartækjum en klukkan var ellefu að morgni og brottför skv. áætlun kl. 11:30. Vonlaust mál!

Stundum hættir manni við að miða hluti út frá eigin getu og kunnáttu. Ég kunni hvorki að ferma né afferma Norrönu. Það kunnu hins vegar þeir sem þar unnu og kunnu það vel. Örfáum mínútum síðar var sjúkrabíllinn staddur við rampinn og þeir voru eitthvað að sýsla með gáma fyrir framan. Svo var veifað: Aka inn! Þeir bentu mér inn eftir bíladekkinu stjórnborðsmegin. Bíladekkinu er skipt langsum í miðju með eyju sem nær upp á efri þilför. Í henni eru bæði stigar og lyftur milli þilfara og bakborðsmegin við þessa eyju voru gámaraðir. Stjórnborðsmegin, þar sem ég skyldi aka inn var hins vegar - eiginlega ekki neitt!!  Hvar voru öll farartækin sem ég hafði horft á eftir inn í skipið, svo hundruðum skipti? Fólksbílarnir? Mótorhjólin? Ég var næstum því einn þarna stjórnborðsmegin - eða svo að segja. Fyrir framan mig úti við síðuna var Hreinn Vopnfirðingur, svo kom ég, Ísfirðingurinn og loks Sverrir Hornfirðingur. Við vorum með þeim síðustu um borð. Ég hafði margfarið yfir það sem gera átti um leið og ég gengi frá bílnum og nú tók það aðeins sekúndur. Bakpoki og taska, lykilinn úr sviss, út úr bílnum, samlæsingunni skellt á, rafmagninu slegið út og skellt. Héðan í frá yrði engu hreyft þar til í Þórshöfn. Ég hljóp yfir hálftómt bíladekkið, inn um dyr á eyjunni áðurnefndu og upp í stiga. Það var langur stigi. Mjög langur. Eiginlega svo langur að mér lá við hjartaáfalli þegar ég kom upp á áttunda þilfar, þar sem EH hafði sent mér sms um að hún væri. Áttunda dekk var eiginlega efst á helvítis kláfnum! Ég beið eftir áfallinu. Það kom ekki. EH spurði: Ó, fórstu stigann? Af hverju notaðirðu ekki lyftuna? Hvaða helvítis lyftu? Ég sá enga lyftu! Kannski hefði ég átt að skipuleggja minna og hugsa meira - það var svo sem ekki eins og maður væri að hlaupa undan skógareldi þarna niðri. Ég hélt bara að maður ætti að vera svo eldfljótur út og í burt til að tefja ekki hina...........

Klukkan var ellefu þrjátíu og eitthvað mjög lítið þegar Norröna seig frá bakkanum og flautaði til brottfarar. Ég var á leið til útlanda eftir fimm ára hlé - ef Færeyjar voru þá útlönd........



Eins og fyrst sagði voru teknar um 1000 myndir í ferðinni og á siglingunni út Seyðisfjörð voru teknar allnokkrar. Þessi hér að ofan er ein þeirra og sýnir einfaldlega hvar þessum langa firði sleppir. Þetta er Skálanesbjarg í sunnanverðum firðinum. Að neðan er horft til Dalatanga. Að honum slepptum fjarlægðist landið og Barðsnesið, við sunnanverðan Norðfjarðarflóann tók á sig bláan lit. Nokkrar trillur lágu við handfæri á þessum slóðum, svo hurfu þær einnig og alheimurinn tók við..... 



Þegar Ísland seig afturfyrir var næst að máta sig við barinn. Eins og venjulega var þó aðeins drukkið kaffi, enda allra drykkja best. Á meðan fór EH í "fríhöfnina" og keypti súkkulaði, sem auðvitað er ómissandi með góðu kaffi.





Ég valdi þessa mynd hér að neðan vegna þess að hún er ein örfárra sem sýna sjóinn á leiðinni út. Það var eiginlega ekki greinanlegt hvenær Seyðisfirði sleppti og úthafið tók við, svo lítil var hreyfingin á skipinu. Öll siglingin var í sama dúr.



Auðvitað var heimsmeistarakeppnin á skjánum í kaffiteríunni:



Við höfðum þennan ágæta klefa á leiðinni út. Þetta var gluggalaus klefi miðskips en loftræstingin var óaðfinnanleg og það fór vel um okkur þarna. Tækifærið var notað til að hlaða síma og tölvu.



Það var tekið fram í plöggunum okkar að klefa skyldi tæma og skila tveimur tímum fyrir komu til Þórshafnar. Áætluð koma þangað var kl. 03.00 og þegar fótboltaleiknum lauk var skriðið í koju. Ég náði ágætri kríu og rétt um miðnættið var ég á fótum aftur og ákvað að fara upp á áttunda og gá til Færeyja. 




Mér fannst merkilegt hversu fólki lá á að losa klefana og moka dótinu sínu út á gangana - það var jú enn klukkutími í losun. Á leiðinni upp á áttunda tók ég eftir upplýsingum á vegg um opnunartíma veitingastaða um borð. Undir upplýsingunum stóð: "All times are ship times". Ég spáði ekkert frekar í það. Í fjarska mátti greina Færeyjar og fljótt á litið virtist ekki sérstaklega bjart yfir þeim. Ég ákvað að fara aftur niður í klefa og ýta við Elínu Huld. Á leiðinni sá ég aftur þetta "Ship times" og fór að gruna að kannski væri skipið ekki á sama tíma og ég!. Klukkan mín var tíu mínútur yfir tólf á miðnætti og niðri á klefagangi var allt á fullu - þrifagengi mætt og allir klefar opnir nema einn: Okkar!  Ég spurði um tímann og einn "þrífarinn" sýndi mér armbandsúrið sitt. Klukkan var tíu mínútur yfir eitt! Andskotinn!

Ég þeyttist inn í klefann og það var óþarfi að ræsa Elínu því þrífararnir voru þegar búnir að koma inn í klefann og ræsa! Skapið var því ekki í neinum gullflokki, eðlilega en hún var eldsnögg að taka sig til og nokkrum mínútum síðar vorum við frammi í kaffiteríunni með allt okkar dót. Við stilltum klukkuna í símunum okkar og hún stillti armbandsúrið sitt klukkutíma fram. "Ship time" var auðvitað færeyskur tími. Þar með var það vísindalega staðfest að Færeyjar eru útlönd.

Nú risu Færeyjar hratt og það kom betur í ljós að veðrið var ekki svo djöfullegt. Það var að vísu þungbúið en það var þurrt, logn og alls ekki kalt þó væri mið nótt. Myndin hér að neðan er ekki tekin með flassi og ég minnist þess ekki að það hafi verið svona dimmt yfir. Neðri myndin er betri en ég læt báðar flakka. Við erum á siglingu rétt út af Leirvík og það er Kalsoy sem er fyrir miðju afturút: 





Þegar tími var kominn til að mæta niður á bíladekk skildi með okkur Elínu og ég tók lyftuna í þetta sinn. Ekki tókst mér þó að hitta á þriðja þilfar - aðalbíladekkið  - heldur kom út á fjórða og öðlaðist um leið skilning á því hvar allir hinir voru: Af aðaldekkinu er ekið upp lyftanlegan ramp bakborðsmegin upp á næsta dekk fyrir ofan - það fjórða. Á fjórða dekki er svo lyfta fyrir lægstu farartækin og heitir þilfarið sem þar myndast, 4-A og er mjög svipað því sem er í Herjólfi.  Uppi á lyftunni voru bílar sem aðeins handarþykkt var frá toppi á og upp í stálbita loftsins. Á sjálfu fjórða dekki voru svo "millihá" farartæki og þar kom ég semsagt út úr fólkslyftunni. Á sjálfu aðal-bíladekkinu vou ekki fleiri farartæki eða gámar en svo að rampurinn var enn á gólfinu og hafði ekki verið lyft. Ég hljóp því niður hann, aftur fyrir eyjuna og yfir í sjúkrabílinn. Örfáum augnablikum seinna fylltist dekkið af fólki sem kom beint út úr lyftum og hafði því fundið niðurleiðina sem mér var hulin. Meðan á þessu stóð myndaði Elín Huld Þórshöfn ofan af áttunda. Klukkan var að detta í þrjú að staðartíma - tvö að okkar tíma og við höfðum verið á siglingu síðan hálftólf daginn áður. Reikni nú hver sem vill. 



Þegar lagt hafði verið að, skuturinn opnaður með sama sírennuvælinu (mikið held ég það sé gaman að sofa í miðbæ Þórshafnar þegar Norröna leggur að og frá að nóttu til) og ég hafði fengið bendingu um að hypja mig út var sjúkrabílnum snúið í snarhasti inni á gólfi og staðið flatt út. Ég ók markaða leið yfir planið, gegnum græna hliðið og var um leið stöðvaður af tollvörðum. Inn í skúr, takk!

Þau voru tvö, maður og kona á besta aldri. Vildu fá að vita hvaðan ég kæmi. Spurningin var furðuleg í því ljósi að skipið var að koma frá Íslandi. Þau vildu vita á hvaða ferðalagi ég væri og hvort ég væri einn. Ég útskýrði á blöndu af íslensku, dönsku og ensku að ég væri að koma í vikuferðalag til Færeyja og væri ekki einn, við værum tvö og Elín Huld  hefði farið landganginn eins og ætlast væri til. Þeim þótti bíllinn skrýtinn. Ég útskýrði að hann væri fyrrum sjúkrabíll og að hluta til enn í þeim litum. Þeim þótti númerið skrýtið og spurðu hvaðan það væri. Þá rann upp fyrir mér ljós: Það var ekkert landsmerki á einkanúmerinu Í-140 og ómögulegt að sjá heimaland bílsins. Það var málið! Ég útskýrði íslensk einkanúmer og hafði á tilfinningunni að þau vissu allt um málið en vildu samt láta mig tala. Á meðan fór annað þeirra inn í bílinn og potaði til málamynda í töskur og rúmföt. Allt var þetta ágætis skemmtun en þegar mér var loksins hleypt út beið EH fyrir utan og var orðin óþolinmóð - hún vissi hreint ekkert hvað af mér hafði orðið síðan hún sá mig aka frá borði. Við tókum nokkrar mínútur í að átta okkur þarna á bryggjunni og það sama gerði mótorhjólahópurinn frá Íslandi.





Klukkan var rúmlega hálf fjögur og því eiginlega hvorki nótt né dagur. Okkur fannst ekki taka því að fara inn á tjaldsvæðið í Þórshöfn til að sofa, en vildum þó fá okkur smá hvíld fyrir daginn, sem hvort eð væri yrði tekinn snemma. Við renndum því norður fyrir bæinn og fundum hentugan blett neðan vegar, þar sem stóð kofi með torræðu skilti. Þarna var sæmilegur friður þó alltaf bærist öðru hverju niður farartækja á leið að og frá Þórshöfn. Þar voru líklega einhverjir samferðamenn okkar á ferð. Við náðum þarna ágætis kríublundi, og þar til við vöknum að morgni þess 20. júní má sá sem les ráða í skiltið:




............................................................................................................................

10.07.2014 22:29

Á leið til Færeyja - 2.hluti af 86


Fyrsta hluta lauk við smábátabryggjuna á Stöðvarfirði, þar sem Sólfaxi ruggaði við bryggju - eða ruggaði ekki. Það má líka bæta dálitlu  við fyrsta hluta, því Elín Huld skrifaði nokkrar línur í ferðadagbókina um æðarblikagerið, og þar stendur m.a.: "Áðum eftir að Þvottárskriðum sleppti. Stórir hópar æðarblika í fjörunni. Borðuðum kvöldmat í bílnum. Aftur af stað kl. 22.10 - stefnum á nótt á Djúpavogi"

Annað var komið fram. Við vorum semsagt á öðrum degi ferðar í blíðskaparveðri og nýbúin að innbyrða góðgerðir hjá Þóru Björk og Björgvin (þessi tilvísun er vegna tvennskonar beygingarmyndar í þágufalli. Björgvin fær svo sinn hlekk HÉR) að Vinaminni. Ferðinni var heitið fyrir Hafnarnes, þar sem nú stendur aðeins grunnur gamla, franska spítalans sem stundum hefur verið nefndur "Fyrsta blokk á Íslandi" og er þá að sjálfsögðu átt við þann tíma sem hann stóð úti á Hafnarnesi - fram að því var húsið jú spítali í þorpinu Búðum við Fáskrúðsfjörð en var síðar flutt út á Hafnarnes og notað þar sem íbúðarhús. Svo hnignaði byggðinni í nesinu eins og gengur og eftir áratuga niðurníðslu var húsið tekið niður og viðirnir fluttir inn í þorp að nýju. Þar var húsinu svo fundinn staður andspænis gamla læknishúsinu, örskammt frá upprunalegum grunni og þeir viðir sem heillegir töldust, notaðir í endurgerð franska spítalans. Okkur fannst vel hafa tekist til, svona eftir því sem við höfðum vit á og það var afar gaman að skoða safnið sem komið hefur verið upp í húsunum tveimur. 



Það er bráðnauðsynlegt að skoða þennan hlekk HÉR áður en lengra er lesið!



Þrjár næstu myndir eru teknar á neðstu hæð læknishússins þar sem safnið sýnir biðstofu, sjúkrastofu og skrifstofu læknisins. Vaxmyndirnar voru svo eðlilegar að eflaust hefur einhverjum orðið á að yrða á þær. Ég kann ekki frönsku svo ég reyndi ekki....



Á bringu þessa vesalings sjómanns lá kross og svipur nunnunar sem sat við rúmið bar með sér að hér yrði engu bjargað framar - en umboðsfólk almættisins tók að sér að leiðbeina sálunum á rétta leið.



Hér fyrir neðan má svo sjá endurgerða skrifstofu Georgs Georgssonar læknis við spítalann. 



Læknishúsið ofan götu og spítalinn neðan hennar eru tengd með undirgöngum. Í undirgöngunum er endurgerður lúkar úr franskri fiskiskútu, svo eðlilega að varla sér hnökra. Það hefur ekki verið þægindunum fyrir að fara:





Í spítalahúsinu er nú rekið hótel og í kjallaranum er háklassa veitingasala. Það vað eiginlega ekki hjá því komist að smakka dýrindis kaffi með súkkulaðimola áður en safnið var kvatt og haldið úr bænum. Um leið og við snerum bílnum mynduðum við þessa gömlu veggmynd af skipum þeirra Fáskrúðsfirðinga. 



Við ókum gegnum Fáskrúðsfjarðargöngin (eða Reyðarfjarðargöngin, eftir því hvoru megin maður er staddur) og höfðum dálitla viðdvöl á tjaldsvæði Reyðfirðinga. Elín Huld komst þar í kynni við ungviði sem höfðaði sterkt til leikskólakennarans í henni:





Svo var það Neskaupstaður. Þessi mynd, sem tekin er af veginum ofan Eskifjarðar yfir Mjóeyrina og Hólmanesið segir meira en mörg orð um veðrið þennan dýrðardag, 18. júní:



Á því augnabliki sem við dvöldum í Neskaupstað tókst okkur að hitta tvo vini og fyrrum vinnufélaga frá því á árunum 1985/6 þegar við bjuggum og störfuðum á staðnum. Það voru fagnaðarfundir enda kynntumst við ekki öðru en besta fólki á þessum stað. Við brottför var skotið einni mynd yfir minn gamla vinnustað að Nesi í Norðfirði, þar sem nú stendur aðeins lítill hluti fjölmargra bygginga sem þarna voru tæpum 30 árum fyrr:



Við héldum til baka yfir Oddsskarð til Eskifjarðar þar sem ætlunin var að fara í sund. Þetta er hins vegar ekki sundlaugin heldur kirkjan, bara svo það sé á hreinu:



Fyrr um daginn höfðum við hringt í sundlaugina á Eskifirði og spurt um opnunartíma. Laugin var opin til kl. 21 um kvöldið og síðasta klukkutímann lágum við þar í bleyti og slökuðum á eftir stífan ferðadag. Við yfirgáfum laugina nákvæmlega kl. 21 og héldum af stað inn til Reyðarfjarðar og þaðan á Fagradalinn. Enn var  nokkru ólokið.......




Við ætluðum nefnilega að eyða síðari nótt þessa tveggja daga ferðalags á Seyðisfirði, þar sem útilegukortið okkar gilti. Við vorum vel birg af fóðri úr Bónus á Selfossi og höfðum því enga viðdvöl á Egilsstöðum nú. Þessi mynd var tekin úr brekkum Fjarðarheiðar þar sem á okkar korti heitir Norðurbrún:



....og frá sama stað með örlitlum aðdrætti: 



Klukkan var nákvæmlega 21.55 þegar við mættum á tjaldsvæðið á Seyðisfirði og vörðurinn var að gera upp. Við réttum fram kortið okkar, þvóðum því næst bílinn á nálægu þvottaplani og fundum okkur náttstað. Svæðið var þéttsetið en þó ekki alveg fullt, sem aftur gaf fyrirheit um fjölda farþega með Norrönu morguninn eftir.

Kvöldið var rólegt, nóttin færðist yfir  og annar dagur ferðalagsins vék fyrir þeim þriðja: Brottfarardeginum!

.................................................

07.07.2014 22:09

Á leið til Færeyja.


Það er vandi vel boðnu að neita þegar manni er boðið til Færeyja - og það gerist svo sannarlega ekki á hverjum degi. Þannig var það nú samt og þá náttúrlega þiggur maður gott boð. Sú kvöð fylgdi þó boðinu að ég skyldi koma föruneytinu austur á Seyðisfjörð, um borð í skip og af því aftur suður og heim. Þessutan skyldi falla á mig að sjá um gistingu og ferðalög innan Færeyja. Til að gera langa sögu stutta var boðið sniðið utan um Hótel Sjúkrabíl og það gagn sem af honum mætti hafa í slíkri ferð.

Það kostar klof að ríða röftum: Sjúkrabíllinn var jú þokkalega búinn til ferðalaga innanlands þar sem allt er til alls, allsstaðar. Ég vissi hins vegar ekkert hvernig háttaði til þar ytra (þ.e.a.s. ef Færeyjar eru yfir höfuð í útlöndum) og því var vissara að ráðast í stórframkvæmdir á innviðum bílsins og bæta í hann ýmsu því sem nauðsynlegt er á langferðalögum. Brottför frá Seyðisfirði var ákveðin þann 19. júní og heim skyldum við koma réttri viku síðar. Allt bar þetta brátt að og strax var ljóst að setja yrði aðrar fyrirfram ákveðnar framkvæmdir í bið meðan nauðsynlegum ferðaundirbúningi væri sinnt. Síðan var ráðist í endurbætur á ferðadrekanum og að þeim loknum hafði svefnaðstaða batnað nokkuð, komið var fyrir ágætis fatahengi og smíðaður var klefi fyrir dömuhægindi (ég kalla það dömuhægindi því mér finnst það betur hæfa. Auðvitað mega karlmenn nota slíkt hægindi til minni athafna sem kannski mætti sinna utandyra. Dömum er slíkt óhægt og því kýs ég að kalla athvarfið dömuhægindi).  
Utan alls þessa var útlit bílsins lagfært nokkuð, m.a. var húddið málað og eins var málað yfir rauðar/gulgrænar rendur á hliðum toppsins allan hringinn.









Róm var ekki byggð á einum degi. Þessar smíðar tóku sinn tíma og þar sem það er heldur engum ætlandi að aka austur á Seyðisfjörð á einum degi var brottför ákveðin þann sautjánda júní. Við lögðum af stað um hádegisbil og þótt ótrúlegt sé var veðrið á þessum þjóðhátíðardegi enn prýðilega gott. Það átti svo eftir að breytast er leið á daginn og varð þá sannkallað "þjóðhátíðarveður".

Fyrsti viðkomustaður okkar var Olís á Selfossi. Þar var fyllt af dýrindis dísilolíu enda var vitað að næsta ÓB stöð væri ekki fyrr en á Höfn og þangað skyldi tankfyllin duga. Svo var komið við í bakaríinu uppá kaffi og snúð. Að síðustu var það Bónus og kyrfilega fyllt á allar forðageymslur - það var jú bara þriðjudagshádegi og við þurftum nesti fram til föstudagsmorguns - sem þá yrði í Færeyjum. 

Svo var sett á krúsið og stillt á níutíu. Umferðin var skapleg og veðrið enn þokkalegt en eftir því sem austar dró þyngdi í lofti og dropar birtust. Á Klaustri var orðið verulega þungbúið þegar við droppuðum þar inn á Enneinn í kaffisopa. Þar utanvið var maður að dæla eldsneyti á bíl og að því loknu kom hann til okkar og hóf spjall. Þar reyndist kominn eigandi "tvíburans" á Hörgslandi á Síðu, sem við litum á í fyrrasumar og lesa má um HÉR.....Við áttum ágætis spjall og komumst m.a. að því að báðir höfðum við sennilega gert betri kaup en hinn! Hvor gat því unað glaður við sitt og við kvöddumst sáttir. Loftið hélt áfram að þykkna og dropunum fjölgaði eftir því sem Suðurlandið seig afturfyrir og Suðausturlandið tók við. Við Skaftafell var samt enn sæmilegt og slæðingur af ferðamönnum hvarvetna. Við ókum viðstöðulaust allt að Fjallsárlóni en lögðum leið okkar þangað uppeftir og tókum stutta ökuhvíld. Elín Huld arkaði niður að lóninu með myndavélina:





Hún var enda betur skædd en ekillinn, sem hefur fyrir sið að aka annaðhvort á sokkunum eða sandölum. Fyrir þessa ferð höfðu verið dregnir fram strandskór, líklega keyptir í síðustu Danmerkurferð. Þeir reyndust ekki heppilegur fótabúnaður í grjóti þótt þægilegir væru í akstri:

 

Eftir þetta stopp við Fjallsárlón mátti heita að komin væri þoka. Af brúnni við Jökulsárlón sást aðeins stutt uppeftir sjálfu lóninu og austan við það þykknaði enn. Við höfðum ákveðið að skoða Þórbergssetur að Hala í Suðursveit ef þess væri kostur og svo varð. Húsið var raunar að fyllast af matargestum en safnið sjálft var mannlaust og við skoðuðum það í rólegheitum.



Það var afar gaman að skoða þetta safn, enda er það snilldarvel uppsett. Þar mátti m.a. sjá hluta af íbúð Þórbergs í Reykjavík endurgerðan með munum úr búi þeirra hjóna:



Frá Hala og austur um var rigning. Þoka og rigning! Dæmigert þjóðhátíðarveður! Það rigndi líka á Höfn þegar ég lagði við tankinn á Olísstöðinni og troðfyllti drekann af eldsneyti. Eyðslan frá Selfossi reyndist vel undir 15/100 og ekki til að kvarta undan. Þegar kom að því að borga hittist svo á að búðin fylltist af erlendum unglingum, sennilega heilli rútufylli. Svo kurteisir voru þessir unglingar að þegar þeir höfðu áttað sig á að ég var aðeins að bíða eftir að greiða olíuna og kaupa eina G-mjólk í kaffið fyrir Elínu, drógu þeir sig frá borðinu svo ég kæmist sem fyrst að með mitt erindi og tvær dömur sögðu um leið eitthvað í þá veruna: "We will be here all evening anyway". Svo fygdu skríkjur. Einn hring tókum við um bæinn í muggunni en héldum því næst rakleitt austur eftir með stefnu á Djúpavog. Það var komið talsvert fram yfir kvöldmatartíma þegar við renndum niður á lítið bílastæði neðan vegar frammi á sjávarhömrum. Ég veit ekki hvað þessi staður heitir en sýndist hann vera gerður fyrir fuglaskoðara. Þarna voru nokkrir bílar og helst var að sjá að þar færu eingöngu útlendingar. Undir bökkunum, í fjöruborðinu og spölkorn framan við það var einhver sá alstærsti skari af æðarblikum sem við höfðum augum litið. Engu var líkara en þarna stæði yfir einhvers konar Blikaþing, fuglarnir virtust skipta þúsundum - jafnvel tugþúsundum:



Þarna var tekið stutt nestisstopp en svo haldið áfram á fullri ferð austur á Djúpavog. Þegar við ókum inn í bæinn blasti við okkur appelsínurautt garðskraut af öllum mögulegum og ómögulegum gerðum - það var ljóst að bæjarbúar höfðu lagt sig alla fram um að skreyta bæinn á þjóðhátíðardaginn. Tjaldsvæðið var nær fullt og engan stað sáum við þar sem okkur leist á svo við fundum okkur blett rétt utan bæjarins og eyddum fyrstu nótt ferðalagsins þar. Þessa nótt hvessti svo að bíllinn lék á reiðiskjálfi og milli dúra varð manni hugsað til ferðalags morgundagsins, sem átti að innihalda svo margt skemmtilegt - það var ekki beint útlit fyrir mikla skemmtun að óbreyttu!

En það breyttist svo sannarlega. Að morgni var komið besta veður þegar við héldum til bæjar og keyptum okkur kaffi og kökusneið. Meðan við drukkum kaffi renndi í bæinn lítill hópur mótorhjólafólks. Sá hópur átti eftir að koma meira við sögu....

Við gáfum okkur líka tíma til að litast um í bænum og skoða skreytingarnar:





Þessit höfðu líklega tekið heldur betur á því kvöldið áður:



....og þessi hafmeyja hafði líklega tapað áttum í gleðskapnum og ekki ratað til sjávar aftur:



Svo birtist þessi gamli Rolls Royce (eða svo hafði ég fyrir satt). Mér var sagt að þarna væru Bretar á landsyfirreið:



Á skilti við eina götu bæjarins stendur "Eggin í Gleðivík". Þessi egg eru úr graníti og eru verk listamannsins Sigurðar Guðmundssonar. Það fer best á því að tengja beint yfir á síðu Djúpavogs þar sem finna má kynningu á verkinu....HÉR.





Svo var þessi snyrtilegi og vinalegi bær Djúpivogur, kvaddur, haldið inn eftir Berufirðinum og fyrir hann. 



Handan fjarðar rákumst við á þessa hornprúðu félaga. Þeir virtust ákaflega spakir enda var heitt í veðri og þá er betra að slaka á. Þeir höfðu allavega ekki allt á hornum sér.....



Inn fjörð, út fjörð, fyrir nes.....dálítið eins og Ísafjarðardjúpið, ekki satt? Þetta var samt ekki Djúpið og samlíkingin átti engan rétt á sér. Norðan við þetta nes beið okkar Breiðdalsvík:



Við komum síðast til Breiðdalsvíkur sumarið 2004 og höfðum þá næturdvöl. Við vorum sammála um að staðurinn hefði talsvert breytt um svip síðan þá og að öllu leyti til hins betra. Húsin voru betur hirt, bátunum hafði fjölgað umtalsvert og yfirbragðið allt var einhvernveginn  - glaðlegra. Má ekki segja það?



Þetta hús heitir Hamar og á því var ákaflega áhugaverður skjöldur:





Já, stríðið.....stríðið! Það kom víða við, jafnvel í friðsælu smáþorpi austur á fjörðum. Enn eitt nes, enn einn fjörður. Nú Stöðvarfjörður:



Við áttum leið um Stöðvarfjörð sumarið 1986. Þá gáfum við okkur ekki tíma til að skoða steinasafnið hennar Petru - og kannski spjalla við Petru sjálfa. Næst áttum við leið hjá sumarið 2004 og aftur vorum við á hraðferð, eða það héldum við. Nú, tíu árum síðar kom ekkert annað til greina en að skoða safnið. Við vorum hins vegar of sein að hitta Petru - nema þá sem höggmynd:







Þetta safn er hreint ótrúleg perla og því hefur verið sá stakkur búinn að unun er að ganga um og skoða:



Það má líka finna eitt og annað en bara steina, eins og t.d. þetta pennasafn. Í þessu húsi er svo ævisaga Petru rakin í myndum og máli - og þá um leið saga safnsins.






Meðan við skoðuðum safnið ók mótorhjólahópurinn frá morgninum á Djúpavogi hjá, án viðstöðu.

Þegar við ókum frá steinasafninu sáum við hvar hún Þóra Björk stóð utan við við húsið sitt, Vinaminni. Þau stóðu þar raunar bæði, hún og Björgvin og það varð ekki ekið hjá. Okkur var tekið eins og höfðingjum - allavega voru móttökurnar höfðinglegar eins og búast mátti við. Að heimsókn lokinni var rennt einn hring um höfnina og þar lá kunnuglegur bátur úr Snarfarahöfninni syðra. Skemmtibáturinn Sólfaxi hafði forframast í fiskibát - ef það er þá forfrömun - og var kominn með rúllur og tilbehör. Fallega skorsteinslíkið á stýrishúsinu var hins vegar horfið fyrir einhverjum kassa.......



Hér læt ég staðar numið að sinni. Ég er aðeins á öðrum degi tólf daga ferðalags en þessi annar dagur var svo viðburðaríkur að honum verða ekki gerð skil í einum pistli. Gott í bili.
..................................................................

06.07.2014 09:17

Það er ekki....


.....eins og maður sé að gera ekki neitt! Ég hef verið að velja myndir úr Færeyjaferðinni til birtingar og eins og áður kom fram er úr rúmum þúsund myndum að velja. Svo biðu eftir mér verkefni hér heima sem ekki hafði verið óskað eftir, svosem biluð kúpling í bíl sem Bergrós Halla hefur til umráða þessar vikurnar. Það er verið að vinna í dráttarkrók undir sjúkrabílinn því það er margsannað að sjálfs er höndin hollust og ég ætla sjálfur að draga Stakkanesið hvert svo sem það verður dregið.

Svo er HM í fótbolta að trufla dálítið, ég leyfi mér að horfa á valda leiki en viðurkenni athæfið fúslega sem örgustu tímasóun. Sonurinn Arnar Þór heldur utan um HM - áhorfið og stjórnar því að mestu hvaða leiki ég horfi á.

 Júlímánuður verður fljótur að líða eins og venjulega. Þessi eini sumarmánuður Íslendinga, mánuðurinn sem allir vilja nota til ferðalaga innanlands - að viðbættri verslunarmannahelginni, jú - hefur spillst af roki og rigningu nú framanaf og ekki má nú íslenska sumarið við því að styttast miklu meira en orðið er. Í augnablikinu er sunnudagsmorgunninn sjötti júlí en hann verður horfinn á augabragði og komið hádegi. Þess vegna ætla ég að standa upp núna og reyna að nota tímann fram að því hádegi eins vel og hægt er........

30.06.2014 09:37

Muniði hvað hann John Denver söng?


Ekki? Ókei, rifjum það upp: "There´s a storm across the valley / Clouds are rolling in........

Svo setjum við hlekk  svo allir geti áttað sig  NÁKVÆMLEGA HÉRÞetta er náttúrlega ódauðlegt lag og ég má til með að setja inn annan hlekk á sama lag með flytjanda sem mér skilst að sé á leið til Íslands og muni halda tónleika með Páli Rósinkrans. Báðir eru flottir.........SJÁ HÉR.

Við erum semsagt komin heim úr Færeyjaferðalaginu heilu og höldnu, og hér á heimaslóð er spáð stormi! Það er spurning hvort ekki hefði verið betra að halda sig áfram úti því þokan og rigningin sem okkur var sagt að væru landlæg fyrirbæri í Færeyjum kynntu sig aðeins lítillega fyrir okkur en héldu sig að öðru leyti alveg til hlés. Ferðin var í einu orði sagt stórkostleg og það gildir líka um "transit" ferðina austur á Seyðisfjörð og heim aftur. Við tókum um þúsund myndir í túrnum og það segir sig sjálft að ég næ ekki að tvinna þær allar inn í texta. Örfá stikkorð úr þessari "transit" ferð gætu t.d. verið: Kirkjubæjarklaustur, Höfn, Djúpivogur, Stöðvarfjörður, Neskaupstaður, Eskifjörður, Seyðisfjörður og svo aftur Seyðisfjörður, Egilsstaðir, Borgarfjörður eystri, Lagarfljótsvirkjun, Kirkjubær í Hróarstungu, Hellisheiði eystri, Vopnafjörður og áfram um Bakkafjörð, Þórshöfn, Sauðanes á Langanesi, Raufarhöfn, Melrakkaslétta, þvottabretti, Kópasker, Ásbyrgi, Húsavík, Heiðarbær í Aðaldal, Laxárvirkjun, Grenjaðarstaður, Fosshóll við Goðafoss, sundlaugin að Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði, Laufás í Eyjafirði, Óli og Abú á Akureyri og svo suðurleiðin eins og allir þekkja hana. 

.......og þó Econoline sjúkrabíllinn sé svo sem enginn "truck" og akbrautin hafi sannarlega ekki verið "four lane" þá hvein svo sem í hjólbörðum á leiðinni því þeir sem fóru fram úr á flatlendinu sigu aftur úr í brekkunum - hann býr enn yfir töktunum, sá gamli þótt sjúkrabílshlutverkinu sé lokið.

Það segir líka í textanum: "You felt the baby move just yesterday". Tilvísunin er augljós en tengingin ekki. Því skal útskýrt: Elín Huld ættleiddi ungviði austur í Vopnafirði og þetta ungviði lá í lítilli körfu við mælaborðið lengst af suðurleiðinni en svaf á koddanum hennar Elínar þess á milli. Ég skal kvitta undir það að þetta "baby" var svo sannarlega "moving" milli dúranna:






 Það beið mín svo enginn heima því Edilon B. Breiðfjörð o.s.frv. fór til sinna fyrri foreldra þann 15. júní og verður þar eitthvað áfram. Ég kom að tómu húsi, enginn "supper on the stove" og lýkur þar með líkingum við lagið hans John Denver......

Heima bíður manns svo veðurspá sem segir "Storm across the valley" og "Clouds are rolling in..." Mín bíður líka að koma þessum þúsund myndum inn á tölvu og laga þær til. 



Þrátt fyrir slæma veðurspá er samt ákaflega gott að koma heim!

Verði stuð........





.....................................................

19.06.2014 08:08

Fimmtudagsmorgunn kl 8:08


 Það er fimmtudagsmorgunn á Seyðisfirði og klukkan er rétt rúmlega átta. Veðrið er fínt, skýjað, þurrt og um níu stiga hiti. Tjaldsvæðið kringum okkur er að tæmast og Norröna er út af Norðafjarðarflóanum á átján mílum skv. ais. Ég er ekki með lyklaborðið mitt heldur nota bara lappaborðið sem er rassgat. Við fengum okkur göngutúr í gærkvöldi til að reyna að átta okkur á hvernig við ættum að bera okkur að. Árangurinn varð enginn því hær ægir saman línumerkingum við eldri ferjubryggjuna og þeim nýju og maður skilur hvorki upp né niður. Þetta reddast nú samt allt einhvern veginn. Gærdagurinn var flottur, alger andstæða þriðjudagsins sem var frekar þokukenndur og blautur. Við náttuðum á Djúpavogi og skoðuðum bæinn í gærmorgun, skoðuðum næst steinasafn Petru á Stöðvarfirði sem var stórkostlegt  - algerlega gjörsamlega eins og vinur minn General Bolt-on orðar það. Svo drukkum við kaffi með góðu fólki á Stöðvarfirði. Síðan var franski spítalinn á Fáskrúðsfirði skoðaður. Það er dálítil breyting orðin á frá ví við skoðuðum hann hálfhruninn úti á Hafnarnesi árið 1985.

Frá Fáskrúðsfirði brunuðum við yfir í Neskaupstað og heimsóttum tvo gamla vinnufélaga frá ´85-6. Það er orðið langt síðan síðast......

Eftir Neskaupstað var haldið í sund á Eskifirði, í nýju sundlaugina þeirra sem krakkaskammir kalla stundum "efnalaugina". Ég rek ekkert hvers vegna... Svo var það Seyðisfjörður og hingað komum við rétt fyrir tíu í gærkvöldi, fylltum sjúkrabílinn af olíu og eftir klifur yfir Oddsskarð og Fjarðarheiði var eyðslan frá Höfn í Hornafirði 15.8 ltr. á hundraðið. Ekki slæmt með öll þessi tonn og öll þessi hestöfl! Við erum að fara að leita leiða til að tékka inn....... 



17.06.2014 10:14

Það líður á morguninn...


......og senn verður sjúkrabíllinn gangsettur og tekinn af húsi. Öllum undirbúningi Færeyjaferðar er að ljúka og aðeins lokahnykkurinn eftir. Við ættum að vera lögð af stað um hádegisbil eða fyrr. Ég er að fara að aftengja tölvuna og setja ofan í tösku svo þetta er afskaplega stuttur pistill. Ég veit ekki hvernig gengur að ná netsambandi þarna úti gegnum punginn en allavega eigum við að vera aftur á Seyðisfirði að morgni þess 26. júní nk. Þangað til: Takk fyrir lesið!

15.06.2014 08:19

Eru Færeyjar í útlöndum?


Eitthvað á þessa leið spurði Huldar Breiðfjörð í bókinni "Færeyskur dansur". Ég er einmitt að lesa þá bók núna þegar aukastundir gefast. Þær stundir eru þó ekki margar því ég hyggst komast að því sjálfur hvort Færeyjar séu í útlöndum eða hvort þær séu meira svona partur af Íslandi. Ég er semsagt á leið til Færeyja með sjúkrabílinn nú næsta fimmtudag - eða svo er mér sagt. Mér var nefnilega boðið þangað og af því ég er líkur hlýðnum hundi sem geltir aðeins þegar honum er sigað, þá sagði ég já takk.

Ég vil annars hvetja fólk til að lesa bækur Huldars Breiðfjörð, "Góðir Íslendingar"  og "Færeyskur dansur". Sú fyrrnefnda er stórkostlega skemmtileg ferðalýsing um Ísland að vetri til og um leið frábær lýsing á þeim persónum sem verða á vegi skrifarans - ég nefni sem dæmi alþekkt fólk úr Ísafjarðardjúpi og víðar. Síðarnefndu bókina er ég enn að lesa og hún verður skemmtilegri með hverri blaðsíðu....

Það eru annars ekki Færeyjar sem eru viðfangsefni pistilsins heldur Ísafjarðarferðin um hvítasunnuna. Ástæða hennar var áður komin fram og á tilsettum tíma mætti ég suður í Toyotaumboð og fékk í hendur nýjan RAV4 dísiljeppling. Svo fór ég heim, tók mig til og beið eftir því að vinnu lyki hjá Elínu Huld. Ég hafði nefnilega nefnt þessa Ísafjarðarferð upphátt í hennar eyru og fékk samstundis beiðni um þátttöku. Ég get ekki hafnað svoleiðis beiðni frá fólki sem er nýbúið að bjóða mér til Færeyja og þess vegna beið ég semsagt eftir því að vinnu lyki á leikskólanum Efstahjalla. Svo var lagt af stað og áð í Geirabakaríi við Borgarfjarðarbrúna sem endalaust er verið að gera við. Ég held ég sé ekki að ljúga því að þeir þarna iðnaðarmennirnir sem eru að dunda við brúna séu búnir að vera að dunda síðan í fyrrasumar - allavega voru umferðartafir á henni í fyrrasumar af sömu ástæðum. Það virðist ekki krafist mikilla afkasta í því verki.

Svo var haldið áfram og norðan Bröttubrekku þeysti fram úr okkur Nissan Kasskæ (ég kann alveg að skrifa nafnið en það er bara svo asnalegt að ég sleppi því) og hélt að með því að fara fram úr Toyotu Rav4 hefði hann loksins sigrað heiminn. Það sem þessi auma Renault- hliðarframleiðsla vissi ekki var að hann fékk að fara fram úr okkur af hreinni vorkunnsemi. Ég var nefnilega búinn að finna það á Ravinum að hann átti aðeins einn samkeppnisaðila í afli og það er minn eigin sjúkrabíll. Mikið helvíti sem þessi Rav 4 gat verið skemmtilegur keyrslubíll á þessarri leið, sem er þekkt fyrir króka, bugður og beygjur - að ógleymdu séríslensku rússibanamalbiki. Ég er svo sem ekki þaulvanur því að vera með nýja bíla í höndunum en pabbi gamli átti nýjan Rav á sínum tíma (2001) og skyldleikinn var sannarlega til staðar. Sá bíll var þó hvorki með loftkælingu eins og þessi né hraðastilli en hvorttveggja var talsvert notað á leiðinni - krúsið þó meira því sólin var verulega köflótt!

Það var ekki sérlega gott veður í Dölunum og heldur lakara er norðar dró. Á Hólmavík var hálfgerð þokufýla og kuldagjóstur svo það var ekki áð aftur fyrr en við Reykjanes í Djúpi. Þar var veðrið orðið ágætt (eins og oftast í Djúpinu) og við stungum okkur út fyrir veg og átum heimagert nesti að hætti Generals Bolt-on í Sandgerði (sem ég var á ferðinni með á sömu slóðum nokkrum vikum fyrr). Edilon Bassi varð hvíldinni feginn og þáði vatnssopa með þökkum. Við áðum ekki aftur og vorum við Bílatanga á Ísafirði rúmlega hálfátta um kvöldið. Þar skiluðum við Ravinum - með hálfgerðum söknuði - og fengum í staðinn gamlan og góðan Touring að láni. Við höfðum kríað gistingu út úr fjarstöddu vinafólki og fórum þangað með farangurinn. Síðan tók við Hamraborgarhamborgari og stuttur bæjarrúntur. Stóru olíutankarnir við gömlu höfnina voru farnir og mér fannst sjónarsviptir að þeim. Steinveggurinn sem skildi olíuportið frá akbrautinni og var svo fallega myndskreyttur lá flatur og brotinn inni á lóðinni þar sem unnið var að jarðvegsskiptum. Ég hef fullan skilning á því að þessir tankar eigi ekki heima þarna lengur en mér finnst samt að þeim sjónarsviptir og legg hér með til að í hönnun þeirra húsa sem á reitnum munu rísa í framtíðinni verði hringlaga formið ráðandi og þannig komið til móts við þann Ísafjörð sem við, sem smám saman förum að teljast til "hinna eldri" ólumst upp í og munum best.

Svo var allt í einu kominn laugardagur og á laugardögum laugar maður sig. Í Sundhöllinni á Ísafirði fengum við upplýsingar um opnunartíma "hinna" lauganna og völdum Flateyri þar sem opnaði kl. ellefu. Þeystum vestur á Túring og vorum allt of snemma á staðnum fyrir laugina en mátulega snemma fyrir góða skoðunarferð um þorpið sem er á góðri leið að breytast í nokkurs konar Flatey á Breiðafirði - allavega hvað varðar búsetu. Þegar við höfðum skoðað öll húsin ókum við út í Klofning, utan við þorpið og ég rifjaði upp áratuga gamlar svaðilfarir upp í endurvarpsstöð sjónvarps og síma þarna útfrá, þegar verið var að reyna að koma á almennilegu sambandi yfir á Ingjaldssand. Síðan eru liðin mörg ár og mér skildist á heimamönnum að Sandarar hefðu aldrei fengið almennilegt sjónvarp. Við höfðum þó allavega reynt.......



( Á myndinni hér ofar er horft yfir Önundarfjörðinn til Valþjófdals. Ingjaldssandur er miklu utar - til hægri -  og sést reyndar ekki frá þessum stað, nema bláhornið. Á myndinni má hins vegar sjá leiðina sem kýrin Sæunn synti árið 1987 þegar hún strauk frá slátrunarliði á Flateyri, stökk í sjóinn og synti um þveran fjörðinn. Afrekið fékk hún metið til lífgjafar, Guðmundur á Kirkjubóli í Valþjófsdal eignaðist hana og ól allt til loka - sjá HÉR )



Laugin var fín en vatnið í heita pottinum var mengað af ryði enda potturinn nýsettur í gang eftir nokkra hvíld. Ungur maður í sundskýlu var að veiða stærstu flyksurnar upp úr vatninu með háf en meðfram kantinum lá rönd líkust kaffikorgi. Ég gekk í að hjálpa til við hreinsunina en Elín Huld hafði skellt sér beint í laugina og sá ekkert af þessum tilraunum okkar. Þegar við höfðum náð því mesta sammæltumst við um að þegja yfir ryðinu meðan enginn annar segði neitt. Þegar Elín Huld kom svo í pottinn sá hún ekki neitt og var því ekki sagt neitt. Ég vona bara að hún hafi sturtað sig sæmilega þegar upp kom!

Við vorum þyrst þegar við komum aftur út í bíl en höfðum því miður ekki haft hugsun á því að taka með okkur nesti. Dyrnar á sjoppu staðarins voru opnar en mér fannst einhvern veginn að það væri ekki opið heldur hefði einhver með lyklavöld skroppið inn til að ná í gleymskuvörur. Við ákváðum að renna vestur að Núpi og fá okkur ís eða eitthvað ámóta á hótelinu þar. Á Hvilftarströndinni fæddist önnur hugmynd og af því það voru áratugir síðan ég hafði ekið fyrir Önundarfjörðinn ákváðum við að gera það nú. Það eru samtals þrjár leiðir yfir/fyrir fjörðinn: Sú nýjasta, um brúna yfir Vöðin sem farin er í dag, sú næstnýjasta (eða næstelsta) um brúna við Kirkjuból í Korpudal og sú elsta sem liggur um litla brú milli eyðibýlanna Hests og Tungu - eða eiginlega beint frá Hesti yfir að Hóli. Við ákváðum að fara miðleiðina og ókum inn með Ytri og Innri - Veðraá að Tannanesi. Þar var stoppað augnablik og rifjað upp. Það fyrsta sem rifjað var upp var þegar ég keypti og sótti litla trillu að Ytri- Veðraá. Árið hefur kannski verið 1993 eða-4 og þetta var lítil trétrilla, afskaplega rýr að öllu leyti nema í verði, sem ekki var skorið við nögl. Ég sótti bátinn á kranabíl Steiniðjunnar á Ísafirði og hafði soninn Arnar Þór (í grænni úlpu) með mér.





Það var þá! Svo rifjaði ég upp allar ferðirnar okkar pabba að Tannanesi til að kaupa reyktan rauðmaga af Ingimundi bónda. Einhvern tíma fórum við líka með litla plastbátinn minn, hann Spossa (sem fengið hefur sína minningargrein hér á síðunni) og fengum leyfi til að stinga rauðmaga í Vöðunum. Við fengum engan rauðmaga svo við keyptum nokkra  reykta af Ingimundi og þar með var ferðinni bjargað. Ingimundur er horfinn en Tannanes er enn á sínum stað, vel hirt af afkomendum og þeim til sóma:



Ofan við veginn lá plaströr í læk og úr rann ágætisvatn - allavega að sjá. Elín Huld var orðin verulega þyrst og lagðist á lækjarbakkann, líkt og Lati- Geir forðum. Öfugt við hann drakk hún vatnið og dó því ekki en Bassi lét sér fátt um finnast og sleikti upp einhverja forina...





Að Kirkjubóli í Korpudal er vel búið, þótt ég viti ekki hvers konar búskapur er stundaður þar. Allavega er vel hýst og í mínu minni er Kirkjuból í Korpudal eitt fyrsta ferðaþjónustubýlið á þessu svæði sem eitthvað kvað að.



Beint á móti Kirkjubóli - hinu megin í dalnum - var eitt sinn reist nýbýli. Millileiðin sem áður var nefnd lá (og liggur enn) á milli þessarra tveggja býla. Fari ég með rétt mál var aldrei búið á þessu nýbýli. Íbúðarhúsið var hefbundið, ferstrent, tvílyft steinhús með valmaþaki og útihúsin meðalstór, einnig steinsteypt. Byggingar voru ópússaðar og ómálaðar í mínu minni. Innan við þetta nýbýli lá jörðin Vífilsmýrar og öll hús þar gömul og frekar léleg. Enn innar var Hóll, reisulegt býli og snyrtilegt og þar innaf eyðibýlið Tunga, sem hefur trúlega farið í eyði fyrir mitt minni. Þar stendur enn steinsteypt íbúðarhús, ómálað. 

Ég fylgdist ekki með búskap þarna innfrá því þegar brúin kom á Vöðin útfrá og þessi leið féll  þar með úr þjóðbraut hætti maður að fara þarna um nema í stöku bíltúrum sem lögðust svo smám saman af með nýjum áhugamálum. Nýbýlið stóð ósnert um árabil en seinna hófust þar einhverjar framkvæmdir sem ég þekki ekki til. Nú blasti hins vegar við að þær framkvæmdir höfðu ekki náð alla leið fremur en í fyrra skiptið. Við "gamla" íbúðarhúsið hafði verið reist a.m.k. jafnstór viðbygging og geysihátt, nýtt þak verið smíðað yfir allt saman. Engu hafði þó verið lokið og tíminn var byrjaður að naga verkið niður:



Útihúsin voru ekki gömul að sjá enda virðist þar allt hafa verið byggt upp. Enga marktæka notkun var þó að sjá þar utan nokkrar heyrúllur. Það má vel vera að húsin séu notuð sem hesthús:



Litlu innar stóð eitt sinn býlið Vífilsmýrar og var frekar óhrjálegt, muni ég rétt. Nú var þar fátt að sjá utan eitt lélegt útihús og hauga af alls kyns brunnu drasli. Líklega hafa húsin verið rifin og/eða brennd en það vantaði lokahnykkinn á tiltektina. Ég eyddi ekki mynd á staðinn.

Innsta býli í byggð er Hóll, og þar var jafnreisulegt heim að líta og áður fyrr. Bærinn stendur hátt og útsýni er fallegt yfir sveitina. Ég er hæfilegur aðdáandi sveitasagna Ingibjargar Sigurðardóttur heitinnar og mér hefur alltaf fundist Hóll vel geta verið sögusvið marga sagna hennar - höfðingjasetur í sjón og reynd.



Við Hól snerum við og héldum út sveitina sunnanmegin, andspænis Kirkjubóli, Tannanesi og Veðraánum tveimur. Utan við margnefnt nýbýli stóð eitt sinn stórbýli sem gegnt hefur tveimur nöfnum. Annað er hróplegt rangnefni við umsetninguna á staðnum, bæði stærð íbúðarhússins og útihúsanna eins og ég man þau - nú eru þau rústir einar. Skiltið neðan við býlið tiltekur bæði nöfnin en ég kannaðist aðeins við það í sviganum. 





Ég man ekki eftir þessu býli í ábúð og man ég þó nokkuð langt aftur. Eitthvað hlýtur þó að hafa verið gert þarna því í flestum gluggum var eitthvað gler - ekkert þó alveg heilt. Ekkert eyðibýli fær að standa hálfa öld án þess að einhverjir brjóti þar rúður en ég man klárlega svo langt aftur. Glerinu virðist því hafa verið haldið við að einhverju marki þó því sé hætt núna. Húsið er hins vegar jafn reisulegt og fyrr og hálfgrátlegt að enginn skuli geta haft af því gagn eða gaman......

Við héldum sem leið lá yfir Mosvallahálsinn og framhjá Kirkjubóli í Bjarnadal. Þau eru þónokkur, Kirkjubólin í Önundarfirði og sé farið hringinn man ég fyrst eftir Selabóli á innanverðri Hvilftarströnd. Selaból heitir nefnilega Sela-Kirkjuból þótt í daglegu tali hafi ég vanist því að býlið væri aðeins kallað Selaból. Svo er það Kirkjuból í Korpudal, Kirkjuból í Bjarnadal og loks Kirkjuból í Valþjófsdal en á því Kirkjubóli er eina kirkjan - allavega síðustu áratugina, þótt gera megi ráð fyrir að nöfn hinna Kirkjubólanna þriggja séu ekki komin til af engu. Aðalkirkja sveitarinnar stendur hins vegar ekki á neinu Kirkjubóli heldur í Holti og er þar jafnan í sögum talinn merkisstaður hinn mesti.

Okkar leið lá um Gemlufallsheiði yfir í Dýrafjörð og út með honum norðanverðum að sumarhótelinu að Núpi. Við ókum leiðina í rólegheitum og ég rifjaði upp brot úr Gísla sögu Súrssonar þegar Vésteinn fóstbróðir var á göngu yfir heiðina og mætti sendimönnunum tveimur, sem sendir voru til að vara hann við fyrirsát handan fjarðar. Þá mælti Vésteinn hin fleygu orð (sem eru auðvitað í eðli sínu ekkert annað en foráttuheimska miðað við aðstæður) "Héðan hallar öllum vötnum til Dýrafjarðar og mun ég hvergi aftur snúa" Svo hélt hann áfram og var auðvitað drepinn. Íslendingasögurnar eru fullar af ámóta heimskupörum sem hafa verið kölluð hetjuskapur og dirfska en eru ekkert annað en klára rugl. Hver var það nú aftur sem sagði í bardaga við ofurefli, þegar honum voru boðin grið? "Ek hefi vánd klæði og hryggir mig ei þó ek slíti þeim ei gerr"  Barðist svo áfram og var auðvitað drepinn!  Gunnar á Hlíðarenda var líka einn sá vitlausasti þegar hann var lagður af stað að heiman til að forðast fjandmenn. Hann leit til baka, sagði þessi fleygu orð (ef marka má leikrit Hafliða heitins Magnússonar á Bíldudal): "Fögur er Hlíðin, ég fer ekki rassgat"  og sneri heim aftur -  bara til að láta stúta sér!  Íslandsmetið í vitleysisgangi - svo maður noti ekki sterkari orð -  á samt skáldið og stórsnillingurinn Eggert Ólafsson sem, í krafti þess að vera sá sem réði og menn beygðu sig fyrir og hlýddu eða hlutu verra af, atti heilli skipshöfn ásamt nýbakaðri eiginkonu sinni (eða verðandi, man ekki hvort...) og sjálfum sér út í bráðan dauða á ofhlöðnu skipi í vitlausu veðri á Breiðafirði. Það var eitt að geta rifið kjaft við hvern sem var og ráðskast með líf og limi manna en að rífa kjaft við höfuðskepnurnar var einum of mikið. Þessi trúður hefur svo verið lofaður í bundnu og óbundnu máli fyrir hetjuskap sem ekkert var annað en hreint og klárt manndráp - og ekki einu sinni af gáleysi heldur af hreinni frekju og yfirgangi!

Sagan er full af dæmum um svona vitleysinga og við skulum enda á sögunni um Staðarhóls - Pál, höfðingja og stórbokka sem bjó á Staðarhóli í Saurbæ. Hann var ásamt föruneyti á siglingu um Breiðafjörð en í siglingaleiðinni lágu Gassaskerin norðan Elliðaeyjar. Hásetar vildu beygja undan en Páll réði eins og sönnum höfðingja sæmir og svarði með vísu (eða svo segir sagan): "Ýtar sigla austur um sjó/ öldujónum káta/ skipið er nýtt en skerið hró/ skal því undan láta". Eigum við að ræða það eitthvað frekar hvað gerðist þegar Pál sigldi tréskipi fullri ferð á Gassaskerin? Nei, ég held ekki. Enn eitt fíflið þar....

Það ætlar að ganga hálf erfiðlega hjá mér að komast yfir Gemlufallsheiðina! Í reyndinni tókst það samt sæmilega þegar ég loksins lokaði kjaftinum og hætti að þylja yfir Elínu Huld sem auðvitað hafði fyrir langalöngu lokað eyrunum, hokin af margra ára reynslu í að hlusta á ámóta fyrirlestra. Á endanum náðum við að Núpi og hálf skrælnuð af ísleysi stauluðumst við yfir þröskuldinn á hótelinu. Inni  á gangi var stelputrippi að moppa og við bárum okkur upp við hana. Hún benti áhugalaus á eldhúsið og lagði til að við leituðum fyrir okkur þar því engin sjoppa væri á hótelinu. Í eldhúsinu fundum við konu sem átti engan ís og sagði slíka vöru ekki vera fáanlega fyrir ferðamenn nema þá kannski á Þingeyri. Við vorum bara ekki á leið til Þingeyrar heldur í skrúðgarðinn Skrúð (já, einmitt..) og þaðan til baka norður um. Við kvöddum, þökkuðum fyrir ekkert og ég hugleiddi hvernig eftirréttaseðillinn liti út á þessu hóteli. Skrúður var í blóma og þangað var jafn gaman að koma og alltaf. Það var verið að vinna í garðinum og verkfæri voru sjáanleg en enginn maður nálægur - svona dálítið eins og í sögunni um Palla sem var einn í heiminum. Það var líka þarna skilti sem bannaði hunda svo Elín Huld skoðaði Skrúð einsömul en við Bassi biðum utangarðs, og fíluðum okkur dálítið þannig líka.... Svo sást til ferða vinnuklædds fólks á gamalli Mözdu og ég þekkti að þar fóru hjónin á Höfða, þau Sighvatur og Alla. Þau komu, við fórum. 

Okkur langaði ennþá meira í ís en áður. Við sigruðum Gemlufallsheiðina í annað sinn þennan dag og í þetta skiptið þagði ég að mestu, bætti þó aðeins við söguna af Vésteini þegar við ókum framhjá ólögulegri grjóthrúgu á háheiðinni rétt við gamla veginn. Þarna stóð nefnilega eitt sinn gamall gangnamannakofi sem mér var sagt af ekki ófróðari manni en pabba mínum að héti Vésteinsvarði. Þessi kofi hékk uppi þegar ég var barn fyrir hálfri öld eða svo. Síðan hrundi hann að mestu og var þannig um árabil, allt þar til ungt og röskt fólk úr sveitunum í kring tók sig til og hlóð hann upp að nýju. Tréverkið var endurnýjað, bæð þak, gluggar og hurð og þannig stóð kofinn fjölda ára. Svo fór tíminn að naga hann að nýju og af því unga og röska fólkið var orðið fullorðið og afkomendur þess höfðu eignast leikjatölvur fékk tíminn að naga kofann í friði. Hann féll svo aftur og er nú sem fyrr segir aðeins ólöguleg grjóthrúga - en minningin lifir......

Mig hafði langað út í Valþjófsdal í Önundarfirði en íslöngunin rak okkur áfram gegnum göng og til Suðureyrar, þar sem eitt sinn fékkst besti ís á landinu. Nú var Snorrabúð stekkur og á þessum fallega degi þegar við þjáðumst hvað mest af ísleysi var ísvél sjoppunnar biluð! Konan sem afgreiddi - ég veit ekki hvað hún heitir en hún er konan hans Skjaldar á lyftaranum - var hálf þunglynd á svipinn þegar hún flutti okkur sorgarfregnina. Hún átti samt ágæta pinnaísa í kistu og þeir urðu að duga að sinni. Eftir sinnhvorn karamelluDjæf héldum við af stað að nýju og nú alla leið út í Staðardal. Við býlið Stað tóku á móti okkur tveir ákaflega glaðlegir rolluhundar, en ef Bassa er illa við einhverja hunda eru það rolluhundar og Husky. Það upphófst ofboðsleg geltkeppni sem enginn gat unnið og henni lauk ekki fyrr en við skildum Bassa eftir einan inni í bíl og fórum út að skoða kirkjuna að Stað. Þegar við vorum ekki til að vernda hann þorði hann ekki að láta á sér kræla. 



Kirkjan að Stað er ákaflega falleg sveitakirkja og er öll nýgegnumtekin utan. Að innan er hún í þokkalegu standi þó vissulega megi margt smálegt laga. Garðurinn var sömuleiðis í ágætri hirðu og í honum má m.a. finna legstein með nöfnum þeirra sem fórust með eyfirska þilskipinu Talisman yst í sunnanverðum Súgandafirði árið 1922 og lesa má um HÉR

Svo var allt í einu komið laugardagskvöld og við á leið í Tjöruhúsið, besta fiskrétta - veitingastað norðan Alpafjalla. Aðsóknin var slík að við komumst ekki að fyrr en klukkan níu um kvöldið en biðin borgaði sig og maturinn var hverrar krónu virði og vel það. Það var orðið talsvert áliðið þegar haldið var til hvílu enda kvöldið fallegt og á fallegum kvöldum hefur alltaf verið erfitt að skríða í ból á Ísafirði.

Hvítasunnudagur og Toyotasýningin í Bílatanga opnaði kl. ellefu. Við litum inn eftir morgunheimsókn í annað bakaríiskaffihús bæjarins og þeir voru brattir Bílatangabræður þó aðsóknin væri kannski ekki eins og á stórættarmóti. Í Bolungarvík var opin sundlaug og þangað héldum við næst. Það hvarf sirka hálfur annar klukkutími í lauginni og síðan hálftími í gönguferð um tjaldsvæði Bolvíkinga og nágrenni þess. Þetta er flott svæði hjá þeim Víkurum og þeir eiga heiður skilinn fyrir framtakið. Svo fór örugglega hálftími eða meira í bíltúr um bæinn þveran og endilangan. Næsti áfangastaður var Hamraborg á Ísafirði og þá fékk ég fyrsta og síðasta ísinn í brauðformi með lúxusdýfu í allri Ísafjarðarferðinni - og hefði einhvern tíma þótt lítið!

Þegar nálgaðist kvöldmat pöntuðum við okkur borð á Húsinu, öðrum frábærum veitingastað bæjarins og vorum ekki svikin af þeirri heimsókn frekar en Tjöruhúsinu kvöldið áður. Síðan tók við bæjarrölt og -rúnt. Það var farið að líða á kvöldið þegar við hittum Bílatangamenn til að skipta um bíl og taka þann sem átti að fara á suður að morgni. Eftir skiptin var farið snemma í háttinn en á leið í náttstað litum við hjá þar sem ungt par var nýbúið að festa sér einbýlishús og var að koma sér fyrir. Fyrir á staðnum voru nokkrir vinir á þeirra aldri og það var tímanna tákn að þegar ég talaði um "húsið hans Hermanns Björns" virkaði ég eiginlega eins og geimvera - líklega hefur enginn á staðnum munað eftir Hermanni heitnum Björnssyni ökukennara, sem lengi bjó í þessu húsi. Síðan hafa að vísu nokkrir búið þar en hver kynslóð velur sitt nafn og í munni eldri Ísfirðinga eru t.d. húsin fjögur í Urðarvegsbrekkunni - þar sem ég ólst upp og bjó frá tíu ára aldri til fullorðinsára - venjulega kölluð kennarabústaðirnir, enda byggð sem slík kringum 1935.

Bíllinn sem við áttum að ferja suður að morgni var þessi glerfíni Toyota Hilux pallbíll - fisksalabíll eins og sumir húmoristar hafa kallað þessa pallbíla. Það var hreint ekkert fiskilegt við þennan snjóhvíta, 35"breytta pikkup:




..og af því við vorum stödd þarna fyrir framan húsið hans Annasar sem er við hliðina á húsinu hans Hermanns Björns sem aftur er við hliðina á húsinu hans Gríms Jónssonar sem aftur er við hliðina á húsinu hans Hálfdáns Bjarnasonar heitins og það var sumarkvöld og  stafalogn, þá voru teknar nokkrar montmyndir yfir Pollinn, svona til að sýna öðrum landsmönnum Ísafjarðarlognið:









Svo var komið að kveðjum og um leið og við óskuðum þessu unga fólki til hamingju með eignina, gat maður ekki varist þeirri hugsun að kannski yrði uppsprengt húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu landsbyggðinni til hjálpar við að halda í sitt fólk. Þegar fólk er ungt, hraust, hefur þokklega vinnu og getur nælt í ágætt einbýlishús á einum af betri stöðum bæjarins fyrir andvirði einstaklingsíbúðar í Árbænum - hvað ætti þá að draga suður?

Mánudagsmorgunn rann upp. Annar í hvítasunnu og það var fastsett daginn áður að heimsækja Begga Ara í Tangagötuna áður en lagt yrði af stað. Beggi er einn þeirra sem er löngu hættur að vinna en getur ekki hætt að starfa. Hann er að smíða litla trillu í bílskúrnum og mér telst til að það sé fjórða nýsmíðin  á nokkrum árum auk tveggja eða þriggja endurbygginga smábáta. Ég var því miður ekki með myndavélina með mér og ætla því að notast við  mynd sem ég tók vorið 2009. Hún er tekin í Bolungavík og sýnir eitt af handarverkum Begga Ara. Þetta er bátur sem hann endurbyggði fyrir eiganda fyrir mörgum áratugum, eignaðist svo sjálfur fyrir einum fimmtán árum og endurbyggði þá aftur. Trillan er nú í eigu manns í Bolungavík en þær tvær sem Beggi hefur nýbyggt á sl. árum - bæði "Von" sem hann á með tengdasyni sínum og svo nýsmíðin sem nú er í skúrnum, eru keimlíkar Óskinni sem hér sést.



Eftir kaffi og köku hjá Begga var ekkert að vanbúnaði og við brunuðum úr hlaði á hvítum hesti - eh, Hilux!  Á Súðavíkurhlíðinni lá þessi letingi á steini og naut frídagsins:



Við rennum upp að Melrakkasetrinu í Súðavík. Þar var lokað en þó stutt í opnun dagsins. Við höfðum ekki tíma til að bíða en tókum myndir af gamla Eyrardalsbænum sem sómir sér vel í nýju hlutverki safnahúss og fræðaseturs:



Við fórum líka niður á Langeyri en þar gat að líta aðra sjón, ekki jafn fallega. Þar hefur einn elsti eikarfiskibátur Íslendinga verið dreginn á land eftir að hafa legið lengi ónotaður við bryggju í Súðavík. Fengsæll ÍS var smíðaður árið 1931 og var í ágætu standi þegar Hraðfrystihúsið-Gunnvör ákvað að leggja honum. HG átti -og á - ágæta báta sem hafa verið notaðir við fiskeldiskvíar fyrirtækisins í Álftafirði og kannski hefur legið fyrir eitthvað það viðhald á Fengsæli sem þeir hafa ekki talið borga sig. Það er samt sárt að sjá fallegan gamlan bát verða vanhirðu að bráð:



Næsti viðkomustaður okkar var selaskoðunarplanið neðan við Hvítanes í mynni Skötufjarðar. Að þessu sinni var fátt um sel en við vorum með nesti og það passaði fínt að nærast þarna enda komið hádegi. Eftir snæðing héldum við áfram fyrir Skötufjörðinn og heimsóttum Dúdda og Þórdísi að Sílakoti á Skarðseyri:





Dúddi breytist lítið. Mér er nær að halda að hann hafi ekkert breyst frá því ég hóf nám í bifvélavirkjun hjá honum þann 2. janúar 1980! Jú, kannski hefur hárið gránað og skeggið líka en annað hefur ekki breyst. Kannski fer það vel með fólk að hafa vetursetu á Spáni, allavega litu þau ótrúlega vel út bæði. (Þetta er nú samt ekki Þórdís þarna á myndinni, eins og glöggir sjá - þetta erum við Dúddi!)




Svo fjölgaði í kaffi og gamall samstarfsmaður úr Vélsmiðjunni Þór mætti á staðinn - Örn Jónsson, venjulega kenndur við hljómsveitina Grafík:







Tíminn leið og okkar áætlun gerði ráð fyrir sundi að Laugum í Sælingsdal. Við kvöddum gott fólk í Sílakoti og héldum áfram suður. Teljari hraðamælisins fór að sýna tölur sem ekki varð komist hjá að mynda:



....þetta var nefnilega nýr bíll, eins og áður kom fram og datt þarna í 888 kílómetra! Brátt vorum við komin til Hólmavíkur og þar hugkvæmdist okkur að hringja að Laugum og kanna opnunartíma sundlaugarinnar þar. Henni hafði þá verið lokað kl. þrjú og okkur var sagt að það væri hefðbundinn mánudagsopnunartími. Þá var að athuga með sundlaugina á Hólmavík. Þar reyndist allt galopið og við skelltum okkur í pottinn í klukkutíma eða svo. Það er rétt að fram komi að Elín Huld syndir yfirleitt alltaf eitthvað - ég geri það miklu sjaldnar enda eru pottarnir svo helvíti þægilegir....

Eftir sund sýndi ég Elínu húsið þar sem "Konan situr á tröppunum og spilar á harmoniku"  Ef enginn skilur hvað þetta þýðir, smellið þá HÉR:





Hvílík nánd við almættið að geta setið í tröppum húss síns og spilað svona fyrir gesti og gangandi!





Við héldum okkar suðurferð áfram og höfðum ekki langt ekið þegar þessi tala birtist á mælinum:



Þar með hafði Hælúxinn hvíti lagt að baki sitt fyrsta þúsund og ef hann lendir í réttum höndum á hann eftir að skila mörgum slíkum. Þetta var öndvegisbíll þótt hann hefði ekki fínheitin úr Rav-inum, loftkælingu og krúskontról. Eyðslan var heldur ekki til að kvarta yfir og eftir tilbreytingarlítinn akstur frá Hólamvík og suður í Höfðaborg, sumpart á þurru en sumpart í ausandi rigningu áttum við eftir þriðja hluta tanksins. Við komum til Reykjavíkur upp úr miðju kvöldi og höfðum þá verið eina tíu tíma samtals að vestan.

Til hvers að flýta sér þegar tíminn er nægur?



.................................................


Flettingar í dag: 67
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 142
Gestir í gær: 28
Samtals flettingar: 135034
Samtals gestir: 27844
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 09:37:59


Tenglar