Gunnar Th.
Fjórða kerfið.....


30.06.2013 10:43

Fluttur í sjúkrabíl........

Örpistill á sunnudagsmorgni:  

Ferðadrekinn svarti sem stundum var kallaður Arnarnes, svona til jöfnunar við trilluna Stakkanes og landbátinn Fagranes (sem er algert rangnefni) seldist um daginn - eiginlega hálfpartinn óforvarendis, eins og einhver í minni fjölskyldu var vanur að segja. Jú, það er satt, hann var auglýstur til sölu á tveimur stöðum en ég átti samt ekki von á að hann færi svo fljótt. Ég hafði hálfpartinn átt von á að ferðast á honum framan af sumri en það er sumsé dagsljóst að hann fer ekki fleiri ferðir í minni eigu. Ef mig misminnir ekki skrifaði ég nokkur orð í þá veru sl. haust að líkllega væri ferðamennsku á þeim svarta lokið. Ástæðan var, eins og þá kom fram, að ég hafði fest kaup á ellefu ára gömlum sjúkrabíl frá Selfossi og skyldi sá leysa þann eldri af hólmi með tíð og tíma. Sjúkrabíllinn hefur svo staðið óhreyfður og ósnertur í allan vetur og það sem af er vori og sumri. Hann var hins vegar í ágætu lagi, svona þannig séð þó í hann vantaði súrefniskútana, börurnar og bláu ljósin. 





Það var ætlunin að geyma sjúkrabílinn bara áfram meðan ég ætti þann svarta og leggja frekar áherslu á að ljúka endursmíði litla vörubílsins. Svo gerðist þetta sem nefnt var ofar, að sá svarti seldist "óforvarendis" og þar með var ég ferðabílslaus.

Nánast á sama augnabliki og salan gekk í gegn hringdi Sigurður Bergsveinsson og bauð mér að taka þátt í hópsiglingu súðbyrðingamótsins sem haldið verður um næstu helgi (er það ekki 5-7 júlí?). Ég var orðinn hálf vonlaus um að komast með í þetta sinn og tók því boðinu fegins hendi. Mig grunaði reyndar hvernig það væri til komið, og að þar ætti Elín Huld einhvern hlut að máli. Hún þekkir nefnilega nokkuð margt fólk, hún Elín og til hvers eru spottar ef ekki má toga í þá? Mér fannst þessvegna liggja beinast við að spyrja Sigurð hvort nokkursstaðar mundi finnanlegt pláss til að stinga henni Elínu niður líka, því ég vissi sem var að hún myndi selja sálina fyrir svona siglingu. Sigurður taldi það ekki vandamál.

Það var þó kannski ekki sopið kálið þó siglingin sjálf væri í höfn - eða þannig. Mótið stendur frá föstudagskvöldi til sunnudags og hjarta þess slær að Reykhólum. Gistingin var óleyst vandamál því enginn var ferðabíllinn...

Í svona stöðu er aðeins eitt til ráða: Að endurmeta öll fyrri plön, forgangsraða upp á nýtt og snara saman öðrum ferðabíl í hendingskasti. Menn geta svo ímyndað sér hvað "hendingskast" þýðir í svona tilfelli því þótt það taki að sönnu ekki margar sekúndur að hafa yfir þuluna" Bara að rusla út lyfjaskápadraslinu, slá saman rúmstæði í staðinn og skella í það dýnu"  þá fylgja ótal aukahandtök með í pakkanum og "hendingskastið" getur þýtt stífa yfirlegu í allmarga daga - og nætur ef þannig vill til. Það má því kannski segja að smiðurinn hafi í þeim skilningi "flutt" í bílinn...

Sjúkrabíllinn var því drifinn á númer og heim í Höfðaborg. Þegar þetta er ritað er hann um það bil að verða ferðafær, með rúmstæði og öllu! Hluti lyfjaskápanna ( sem geymdu margt fleira en lyf ef marka má merkingarnar) er nýttur fyrir allskonar húsbíladót og það er m.a.s. komin eldavél um borð. Í skiptum fyrir farið og gistinguna tók EH að sér að gardínuvæða vagninn og miðar vel. 



Það er gott að geta unnið úti í sólinni þá sjaldan hún sést, en ef það rignir er einfalt mál að stinga vagninum inn fyrir dyrnar. Þó plássið sé ekki stórt þá rúmar það bílinn ágætlega ef vel er lagt.



....og þegar lagt verður af stað upp að Reykhólum á föstudaginn komandi verður fararskjótinn ekki lengur sjúkrabíllinn YU-455 heldur Ford Econoline V8 Powerstroke með skráningarnúmerinu  Í-140.   Nema hvað??

Þennan sunnudagsmorgun hefur samt ekkert verið unnið í sjúkrabílnum. Það er sólskin og hægviðri, við Edilon Bassi vorum snemma á fótum, leystum landfestar Stakkanessins og dugguðum upp á Eiðisvík. Það var harða aðfall og stóð orðið hátt í svo ég framkvæmdi það sem mig hefur í langan tíma langað að gera - ég sigldi milli klettadranganna út frá Gufunesinu. Það kom á óvart að dýpið milli þeirra var ekki minna en 2,7 mtr. og það var ævintýri líkast að dóla þarna á milli. Það var hægur vandi, væri höfðinu snúið frá ruslinu kringum áburðarverksmiðjuna gömlu, að ímynda sér að maður væri að sigla á einhverjum mjög fjarlægum slóðum. Því miður tók ég engar myndir en ég skal endurtaka siglinguna fljótlega og þá með myndavél.......

Ég lofa!

æææææææ
Flettingar í dag: 289
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 733
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 79116
Samtals gestir: 18483
Tölur uppfærðar: 20.5.2024 13:28:47


Tenglar